Hæstiréttur íslands

Mál nr. 846/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


                                     

Miðvikudaginn  23. desember 2015.

Nr. 846/2015.

A

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2015 en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2015 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 5. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2015.

Með kröfu, móttekinni 7. desember 2015, hefur sóknaraðili, A, [...], Reykjavík, farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 5. sama mánaðar um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Málið var þingfest í dag og tekið til úrskurðar.

Varnaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun innanríkisráðuneytisins um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest. Um aðild varnaraðila vísast til 20. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr., laga nr. 71/1997.

Málavextir:

                Með kröfu varnaraðila um nauðungarvistun til innanríkisráðuneytisins frá 4. nóvember 2015 fylgdi læknisvottorð B geðlæknis, dagsett sama dag. Þar kemur m.a. fram að sóknaraðili, sem er [...] ára, hafi komið á geðdeild LSH í lögreglufylgd að morgni 2. desember 2015. Óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu á veitingastað hér í borg þar sem sóknaraðili var að áreita eigandann. Hafi sóknaraðili áreitt hann ítrekað áður, en hann telji sig hafa harma að hefna á veitingamanninum vegna líkamsárásar hans á vin sóknaraðila 1996. Sóknaraðili hafi verið nauðungarvistaður á geðdeild í mars á þessu ári. Hann hafi hætt að taka lyf fljótlega eftir þá vistun og ástand hans farið versnandi. Til standi að krefjast sjálfræðissviptingar hans í tvö ár. Gert hafi verið sakhæfismat á sóknaraðila og þar komi fram að hann sé ósakhæfur. Í niðurstöðu vottorðsins kemur fram að sóknaraðili sé með geðrofssjúkdóm og ranghugmyndir sem beinist að veitingahússeigandanum. Sóknaraðili sé innsæislaus um ástand sitt. Læknirinn staðfesti vottorð sitt í símaskýrslu fyrir dóminum. Hann vísaði til þess að sóknaraðili væri með ranghugmyndir hvað varðar umræddan veitingamann og væri með alls konar tengingar varðandi það mál. Ranghugmyndir væru eitt af einkennum geðrofs. Líklegt væri að hann væri með hugvilluröskun sem flokkaðist sem geðsjúkdómur. Hann hefði ekkert innsæi í ástand sitt og áttaði sig því ekki á því að hann þyrfti aðstoð, lyfjameðferð og viðtalsmeðferð. Ekki væri unnt að fullyrða að hann væri hættulegur öðrum en ástand hans gæti þróast í þá átt. Óhjákvæmilegt væri að nauðungarvista sóknaraðila til að veita honum aðstoð.

C geðlæknir, sem hefur verið læknir sóknaraðila í núverandi innlögn hans á deild 32A á LSH, gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Fram kom í máli hans að nauðsynlegt væri að sóknaraðili yrði áfram nauðungarvistaður svo að hægt væri að veita honum viðeigandi meðferð. Sóknaraðili væri enn veikur þótt honum færi batnandi en erfitt væri að meta árangur. Enn væru geðrofseinkenni til staðar og verið væri að vinna í sjálfræðissviptingu sóknaraðila. Læknirinn kvaðst ekki vera með upplýsingar hvort sóknaraðili væri hættulegur öðrum. Hann hefði hins vegar oft angrað fólk vegna máls veitingamannsins.

Sóknaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann kvaðst ekki eiga við andleg veikindi að stríða. Hann vísaði til þess að læknarnir á LSH hefðu engan tíma til að sinna honum og það væri mjög óþægilegt að vera lokaður inni. Hann myndi þiggja lyf og væri tilbúinn til að fara á göngudeild. Í skýrslu sinni kom hann oft inn á ofbeldismál veitingamannsins og nauðsyn þess að gera öðrum grein fyrir málinu. Hann neitaði að um þráhyggju væri að ræða hvað það mál varðar.

Talsmaður sóknaraðila vísar til þess að skilyrði 19. gr. laga nr. 71/1997 um nauðungarvistun sóknaraðila séu ekki fyrir hendi og því beri að fella ákvörðun innanríkisráðuneytisins úr gildi.

Talsmaður varnaraðila krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun sóknaraðila verði staðfest. Skilyrði nauðungarvistunar séu og hafi verið uppfyllt og vísar hann um það til framlagðs vottorðs og símaskýrslna geðlækna fyrir dóminum.

Niðurstaða:

Fyrir liggur vætti tveggja lækna um að sóknaraðili sé með geðrofseinkenni, sem jafna má til alvarlegs geðsjúkdóms, og þarfnast meðhöndlunar inni á lokaðri geðdeild. Sóknaraðili var nauðungarvistaður í mars á þessu ári vegna einkenna af sama toga. Hann hætti að taka lyf sem honum voru gefin þá eftir útskrift. Í ljósi þessa verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. laga nr. 71/1997 hvað varðar ástand sóknaraðila. Enn er brýn nauðsyn á að hann dvelji áfram á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi meðferð. Nauðungarvistun hans er því óhjákvæmileg og verður ekki séð að vægari úrræði dugi en sóknaraðili virðist algerlega innsæislaus í ástand sitt. Með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, og með hagsmuni sóknaraðila sjálfs í huga og líkur hans á bata með inngripi nú, verður því að staðfesta ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi.

Málskostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 124.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.

                Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

Úrskurðarorð:

                Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 5. desember 2015 um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi.

Kostnað af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 124.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.