Hæstiréttur íslands

Mál nr. 504/2005


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. maí 2006.

Nr. 504/2005.

Olíufélagið ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Florije Fejzullahu

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón.

Ekki var fallist á með F að stóll sem hún slasaðist við í apríl 2003, er hún var við vinnu sína hjá O, hafi ekki almennt hentað til þeirra nota sem hann var hafður á vinnustaðnum. Fyrir lá að Vinnueftirlitið gerði ekki athugasemdir við ástand stólsins í umsögn sinni um slysið og tildrög þess, eða kröfur um úrbætur á honum. Var talið að F hafi átt hægt með að setjast upp í stólinn með því að sýna eðlilega aðgæslu og var ekki fallist á þá ályktun Vinnueftirlitsins að aðalorsök slyssins hafi verið sú að annan hluta hvíldargrindar undir stólsetunni hafi vantað. Slys F var þannig ekki talið rakið til vanbúnaðar sem O bar skaðabótaábyrgð á og var O því sýknað af skaðabótakröfu F í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt í málinu, krafa stefndu lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Ekki verður fallist á það með stefndu að stóll sá sem hún slasaðist við 2. apríl 2003, er hún var við vinnu sína hjá áfrýjanda, hafi ekki almennt hentað til þeirra nota sem hann var hafður á vinnustaðnum. Liggur raunar fyrir að Vinnueftirlitið gerði ekki í umsögn sinni um slys stefndu og tildrög þess 22. janúar 2004 athugasemdir við ástand stólsins eða kröfur um úrbætur á honum. Með því að sýna eðlilega aðgæslu átti stefnda hægt með að setjast upp í stólinn, til dæmis með því að snúa hvíldargrindinni undir stólsetunni fram ef hún hugðist tylla fæti á grindina. Er ekki unnt að fallast á þá ályktun Vinnueftirlitsins að aðalorsök slyssins hafi verið sú að annan hluta þessarar hvíldargrindar hafi vantað. Þá er ekkert annað fram komið í málinu sem bendir til að stóll þessi hafi verið óstöðugur á gólfi starfsstöðvar áfrýjanda, þegar stefnda slasaðist. Samkvæmt framansögðu verður slys stefndu ekki rakið til vanbúnaðar sem áfrýjandi ber skaðabótaábyrgð á. Verður hann því sýknaður af kröfu stefndu í málinu.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum, verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu í héraði verður staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar sem ákveðst eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Olíufélagið ehf., er sýkn af kröfu stefndu, Florije Fejzullahu.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu í héraði skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 240.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2005.

Mál þetta höfðaði Florije Fejzullahu, kt. 011169-2319, Sóltúni 30, Reykjavík, með stefnu dagsettri 27. apríl 2005 á hendur Olíufélaginu hf., kt. 541201-3940, Suðurlandsbraut 18, Reykjavík og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.  Málið var dómtekið 7. október sl. 

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni 4.850.924 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 2. apríl 2003 til 23. júní 2004 og dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 20. apríl sl. 

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur. 

Stefnandi var við vinnu á bensínstöð stefnda við Borgartún þann 2. apríl 2003.  Innréttingar bensínstöðvarinnar eru þannig að afgreiðslufólk situr við vinnu sína við há afgreiðsluborð á þar til gerðum stólum.  Munu þeir vera tæplega meters háir.  Á þeim er hvíldargrind, sem er staðsett í um 24 cm. hæð frá gólfi, ætluð til þess að tylla fótum á þegar setið er.  Grind þessi er tvískipt og saman mynda hlutar hennar hring utan um súlu sem fest er í hjólagrind sem stóllinn stendur á. 

Stefnandi mun hafa verið að setjast upp í slíkan stól við afgreiðsluborð.  Annar hluti hvíldargrindarinnar hafði verið fjarlægður af stólnum.  Talið er að stóllinn hafi runnið undan stefnanda þannig að hún datt á rassinn á flísalagt gólfið.  Var hún flutt á slysadeild. 

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún sagði að umræddur stóll hefði aldrei verið í lagi.  Það hafi verið erfitt að eiga við hann.  Stöðvarstjórinn hafi verið látinn vita af því.  Þau hefðu kvartað við stöðvarstjórann, en hann hefði reiðst og talað um að þau eyðilegðu alla hluti.  Hún kvaðst hafa dottið einu sinni áður af þessum stól, en ekki meitt sig.  Armurinn og bakið hefðu verið laus.  Stefnandi sagði að það hefðu verið flísar á gólfum.  Þær hefðu verið hálar, en það hefði verið vaskur skammt frá afgreiðsluborðinu þar sem hún datt.  Um sjálft slysið kvaðst hún lítið geta sagt, hún myndi að hún hefði dottið, en lítið annað.  Hún hefði misst meðvitund við slysið.  Hún kvaðst hafa vitað að grindina vantaði. 

Hilmir Steinþórsson var vaktstjóri á bensínstöðinni á vakt stefnanda.  Hann kvaðst ekki hafa horft á hvernig slysið varð.  Hann sagði að stóllinn hefði oft verið hafður mjög hár til að starfsmenn gætu horft út á bensíndælurnar.  Stóllinn hafi runnið mjög auðveldlega á sleipum og hörðum flísunum.  Hann sagði að starfsmenn hefðu vanið sig á að stíga á grindina á stólnum til að komast upp í hann.  Grindin hafi ekki verið til þess, en þeir hafi gert þetta þar sem stóllinn var yfirleitt mjög hár, því hafi starfsmenn þurft að stíga á grindina til að komast upp í stólinn.  Hann kvaðst hafa kvartað yfir mörgum hlutum og kvað að hann hlyti að hafa kvartað yfir stólnum.  Hann hefði ekki passað inn í innréttinguna, hafi verið of stór.  Þá hafi hann oft bilað.  Hann mundi ekki hvað grindina hefði vantað lengi þegar umrætt slys varð. 

Helga Kristmundsdóttir var stöðvarstjóri á þessari stöð.  Hún kvaðst ekki hafa verið á staðnum þegar slysið varð.  Hvíldargrindin hafði brotnað nokkrum dögum áður og ekki hafi verið búið að laga hana.  Hún hafi brotnað áður.  Stóllinn hafi oft verið til vandræða.  Vinnueftirlitið hafi hins vegar aldrei gert athugasemd við þennan stól.  Sams konar stólar séu á öllum stöðvum stefnda.  Hún sagði að það væru stamar flísar á gólfum á stöðinni.  Hún hafi vitað að starfsmenn hafi vanið sig á að hækka stólinn. 

Slysið var tilkynnt lögreglu sem gerði Vinnueftirliti ríkisins viðvart.  Skýrsla Vinnueftirlitsins byggist á skoðun á vettvangi og því sem segir um atvik í lögreglu­skýrslu.  Um orsök slyssins segir:  „Aðalorsök slyssins er að annan hluta hvíldar­grindarinnar vantaði, en starfsmenn segjast nota grindina þegar þeir setjast í stólinn.”  Loks er í skýrslunni tekið upp ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 431/1997. 

Við komu á slysadeild var stefnandi með útbreidd tognunareinkenni og verki í höfði, herðum, hálsi og mjóbaki.  Með matsgerð Leifs N. Dungal og Ragnars Jónssonar, lækna, dags. 5. júní 2004, var varanleg örorka stefnanda metin 20% vegna slyssins og 10% varanlegur miski.  Stefnandi var talin hafa verið frá vinnu vegna tímabundinnar örorku frá 2. apríl 2003 til 22. september 2003 og veik án rúmlegu sama tíma. Stöðugleikatímapunktur var 22. september 2003. 

Með bréfi, dags. 23. júní 2004, krafði lögmaður stefnanda réttargæslustefnda um bætur vegna slyssins í samræmi við niðurstöður fyrrnefndrar matsgerðar.  Var bótakröfunni hafnað með bréfi 28. júní 2004 með því að stefndi væri ekki bóta­skyldur.

Að frumkvæði lögmanns stefnanda var málið lagt fyrir tjónanefnd trygginga­félaganna.  Komst hún að þeirri niðurstöðu í úrskurði 12. júlí 2004 að stefndi væri ekki bótaskyldur.  Sú niðurstaða var kærð til Úrskurðanefndar í vátryggingamálum.  Í áliti 21. september 2004 komst úrskurðanefndin að sömu niðurstöðu. 

Málsástæður og lagarök stefnanda. 

Stefnandi telur að slysið verði rakið til saknæms athafnaleysis stefnda við að tryggja að útbúnaður umrædds stóls væri fullnægjandi og hann hættulaus.  Vísar stefndi hér til 37. gr. laga nr. 46/1980, svo og 42. og 46. gr. laganna.  Þá vísar hann til reglugerðar nr. 431/1997, en þar segi að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum eru látin í té innan fyrirtækis henti til þeirra verka sem vinna á eða séu hæfilega löguð að þeim, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. 

Stefnandi vísar einnig til reglna um skyldur verkstjóra í 20.-23. gr. laga nr. 46/1980, en þar segi að verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og beri ábyrgð á að aðbúnaður og öryggi sé fullnægjandi. Stefnandi telur að samkvæmt meginreglum skaðabótaábyrgðar beri stefndi vinnuveitendaábyrgð á störfum verkstjóra sinna.  Samkvæmt reglugerð nr. 431/1997 hafi stefndi borið sérstaka skyldu til þess að tryggja að ekki stafaði hætta af þeim sérstöku vinnuskilyrðum sem innréttingar bensínstöðvarinnar buðu upp á, þ.e. að setið væri á háum stólum við vinnuna og að starfsmenn þyrftu að komast í og úr þessum stólum.  Stólarnir hafi verið tæplega metersháir og á hjólum.  Nauðsynlegt hafi verið að stökkva til að setjast í þessa stóla, en auk þess hafi verið hætta á að þeir rynnu til.  Kveðst stefnandi telja að því hafi hvíldargrindin verið nauðsynleg til að unnt væri að stíga upp í stólinn. 

Stefnandi bendir á að í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins um slysið komi fram að á gjaldkerastól þann sem stefnandi freistaði að setjast í, hafi vantað annan helming hvíldargrindar og hafi það verið aðalorsök slyssins. Samkvæmt framburði starfsmanna bensínstöðvarinnar hafði umrædda grind vantað í nokkurn tíma, en hún hafði verið tekin af vegna bilunar. 

Stefnandi mótmælir því og styður við niðurstöðu Vinnueftirlitsins að eigin sök hennar verði kennt um slysið.  Þá verði það ekki rakið til óhappatilviljunar.  Á stefnda hafi hvílt lögboðin skylda til að tryggja öryggi starfsmanna sem notuðu umrædda gjaldkerastóla.  Hafi yfirmönnum mátt vera þessi hætta ljós, m.a. vegna hæðar stólanna og mikillar notkunar.  Unnt hafi verið að lagfæra búnað gjaldkerastólsins án mikils tilkostnaðar eða fyrirhafnar.  Vanræksla stefnda á að tryggja með fullnægjandi hætti öryggi starfsmanna sinna hafi því verið saknæm og orsök slyssins. Beri stefndi því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. 

Stefnukrafa byggist á matsgerð Ragnars Jónssonar og Leifs Dungal, sem dagsett er 5. júní 2004.  Samkvæmt matsgerðinni er stefnandi alveg óvinnufær frá slysdegi 2. apríl 2003 til 22. september sama ár.  Varanlegur miski er metinn 10%, en varanleg örorka 20%. 

Í stefnu var krafist greiðslu á samtals 5.484.578 krónum, sem sunduliðast svo: 

Bætur vegna tímabundinnar örorku   719.741

Þjáningabætur   169.540

Varanlegur miski   562.850

Varanleg örorka4.032.447

Við upphaf aðalmeðferðar lækkaði stefnandi kröfu sína í 4.850.924 krónur, en skýrði ekki hvernig sú fjárhæð er sundurliðuð.  Ganga verður út frá því að um sé að ræða sömu sundurliðun með lægri fjárhæðum í einstökum liðum.  Einstakir kröfuliðir voru nánar rökstuddir í stefnu með vísun til skaðabótalaga, matsgerðar og annarra gagna málsins.  Stefndi andmælti ekki hinni endanlegu kröfugerð tölulega.  Er því óþarft að reifa þessi atriði frekar. 

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi mótmælir því að hann beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda. 

Hann mótmælir því að stóllinn sé hættulegur eða ófullnægjandi.  Umrædda hvíldargrind hafi vantað lengi og það hafi blasað við öllum.  Stóllinn hafi ekki orðið hættulegur við það að grindin var fjarlægð.  Vinnueftirlitið hafi ekki gert neina athugasemd við stólinn er slysið var rannsakað.  Kveðst stefndi mótmæla því að hann eða starfsmenn hans hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980.

Stefndi telur að vöntun á helmingi hvíldargrindarinnar hafi ekki skipt neinu máli um slysið.  Kveðst hann mótmæla niðurstöðu Vinnueftirlitsins í þá veru.  Grind þessi sé ekki trappa og ekki sé ætlast til þess að hún sé notuð sem slík.  Þá hafi helmingur grindarinnar verið á stólnum og stefnandi því getað notað þann hluta. 

Stefndi bendir á að stefnandi hafi þekkt aðstæður vel og verið vön að nota stólinn.  Hún hafi vitað að grindina vantaði.  Því verði slysið einungis rakið til eigin sakar hennar og óhappatilviljunar. 

Sérstaklega kveðst stefndi mótmæla því að sönnunarbyrði hvíli á honum. 

Varakrafa er byggð á því að eigin sök stefnanda verði um slysið kennt og því beri að lækka bætur. 

Í greinargerð mótmælti stefndi niðurstöðum örorkumatsgerðar og útreikningi á dómkröfum stefnanda.  Hann hefur ekki aflað gagna til að hnekkja örorkumatinu og féll frá tölulegum mótmælum er stefnandi hafði lækkað kröfur sínar eins og að framan greinir. 

Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta.  Þeir skuli reiknast frá þeim degi er endanlegur dómur verður kveðinn upp, til vara krefst hann þess að þeir reiknist fyrst frá 23. júlí 2004, er mánuður var liðinn frá því að krafa var gerð. 

Forsendur og niðurstaða.

Fallast ber á það með stefnda að umræddur stóll er í sjálfu sér ekki hættulegur á nokkurn hátt.  Þó að umrædd grind sé að hálfu tekin af verður hann heldur ekki hættulegur við það eitt.  Hins vegar kom fram í skýrslum stefnanda og vitnisins Hilmis Steinþórssonar að umræddur stóll var óhentugur við þær aðstæður sem voru á bensínstöðinni og hentaði illa eins og starfsmenn töldu sig þurfa að nota hann. 

Telja má sannað að stefnandi hafi misst jafnvægið og fallið á gólfið er hún reyndi að setjast upp á stólinn, sem að jafnaði var hafður tiltölulega hár.  Að því er séð verður á myndum var stóllinn á hjólum og gólfið flísalagt.  Verður lagt til grundvallar að gólfið hafi verið sleipt og að stóllinn hafi verið óstöðugur á gólfinu. 

Aðstæður við afgreiðsluborðið voru samkvæmt þessu óheppilegar.  Þær kölluðu á að menn notuðu hvíldargrind stólsins eins og tröppu og er slysið varð vantaði annan hluta grindarinnar.  Verður slys stefnanda því rakið til þess að vinnu­aðstæður þær sem stefnanda voru skapaðar voru ekki góðar og kölluðu á að starfsmenn notuðu stólinn ranglega.  Þá hafði hluti af hvíldargrind stólsins verið fjarlægður.  Sannað er að starfsmenn höfðu kvartað yfir þessum vinnuaðstæðum, en stefndi hafði ekki gripið til neinna ráðstafana til að bæta úr. 

Slys stefnanda verður rakið til þessara aðstæðna á vinnustað hennar, sem reyndust viðsjárverðar.  Mátti auðveldlega bæta úr.  Eru vinnuaðstæður á ábyrgð stefnda og er hann því bótaskyldur vegna slyss stefnanda. 

Stefnandi þekkti aðstæður vel.  Hún hafði áður dottið af stólnum með svipuðum hætti.  Hér verður hins vegar að meta og bera saman augnabliks fljótfærni og aðgæsluleysi hennar við þá vanrækslu stefnda að hafa vinnuumhverfi hættulaust, en eins og áður segir hafði verið kvartað yfir vinnuaðstæðum.  Er ekki ástæða til að lækka bætur til stefnanda vegna eigin sakar. 

Stefndi verður dæmdur til að bæta tjón stefnanda.  Ágreiningur er ekki um kröfufjárhæð.  Dráttarvexti ber að dæma samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því að stefnandi lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.  Lögmaður stefnanda krafði réttargæslu­stefnda um bætur með bréfi 23. júní 2004, en þá lágu fyrir sömu upplýsingar og byggt er á í málinu.  Verða dráttarvextir því dæmdir frá 23. júlí 2004. 

Stefnandi hefur gjafsókn.  Málskostnaður hennar ákveðst samtals 500.000 krónur.  Er þar tekið tillit til virðisaukaskatts.  Stefndi verður dæmdur til að greiða 400.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndi, Olíufélagið ehf., greiði stefnanda, Florije Fejzullahu, 4.850.924 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 2. apríl 2003 til 23. júlí 2004 og dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

Stefndi greiði 400.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.