Hæstiréttur íslands

Mál nr. 51/2002


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. júní 2002.

Nr. 51/2002.

Sigrún Sigurhjartardóttir

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Guðrúnu Hafsteinsdóttur og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

S varð fyrir líkamsmeiðslum er bifreið G var ekið yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir bifreið er S var farþegi í. Taldi S bætur fyrir varanlega örorku vanreiknaðar í uppgjöri V hf., vátryggingafélags G. Hélt S því fram að bætur skyldi reikna samkvæmt 5.-7. gr. laga nr. 50/1993 en G og V hf. töldu að þær bæri að reikna samkvæmt 8. gr. laganna. Þegar litið var til þess hversu skammt S var komin á veg í námi sínu þegar slysið bar að höndum var ekki hjá því komist að ákveða henni þessar bætur eftir ákvæði þágildandi 8. gr. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2002. Hún krefst krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða sér 3.635.182 krónur, til vara 2.099.832 krónur en að því frágengnu 905.733 krónur, með 2% ársvöxtum frá 29. ágúst 1996 til 9. apríl 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til ítrustu vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér 1.105.698 krónur með 2% ársvöxtum frá 29. ágúst 1996 til 13. apríl 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann falli niður.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Framangreindar varakröfur áfrýjanda, um greiðslu á annars vegar 905.733 krónum og hins vegar 1.105.698 krónum, taka samkvæmt málatilbúnaði hennar fyrir Hæstarétti á nánar tiltekinn hátt mið af meðaltekjum verkakvenna síðasta árið áður en hún varð fyrir meiðslum í umferðarslysi 29. ágúst 1996, sem hún leitar skaðabóta fyrir í máli þessu. Kveður áfrýjandi lægri fjárhæðina vera þær meðaltekjur með verðbótum til apríl 2000, en þá hærri með verðbótum til mars 2002.

Samkvæmt gögnum málsins mun áfrýjandi, sem er fædd 1969, hafa verið við nám í Tækniskóla Íslands síðustu tvo vetur áður en hún varð fyrir áðurgreindu slysi. Var þá ráðgert að hún lyki námi við þann skóla á árinu 1999. Þegar litið er til þess hversu skammt áfrýjandi var komin á veg í námi sínu þegar slysið bar að höndum verður ekki komist hjá að ákveða henni bætur fyrir varanlega örorku, sem hún hlaut af slysinu, eftir ákvæði þágildandi 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Getur engu breytt í því sambandi takmörkuð atvinnuþátttaka áfrýjanda á fyrri stigum áður en hún markaði sér braut í námi.

Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, en rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. október sl., er höfðað 1. mars 2001 af Sigrúnu Sigurhjartardóttur, Borgartanga 1, Mosfellsbæ, áður Dúfnahólum 61, Reykjavík, á hendur Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Álfholti 8, Hafnarfirði, og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða henni 4.331.647 krónur ásamt 2% ársvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.635.182 krónum frá 29. ágúst 1996 til 9. apríl 2000, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 696.465 krónum, sem greiddar voru 31. mars 2000. Til vara krefst stefnandi 2.796.296 króna greiðslu ásamt 2% ársvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 2.099.831 krónu frá 29. ágúst 1996 til 9. apríl 2000, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxta­vöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 696.465 krónum, sem greiddar voru 31. mars 2000. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins, þ.m.t. kostnaður stefnanda af 24,5% virðisauka­skatti.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnanda að teknu tilliti til skyldu þeirra til að greiða virðisauka­skatt af málflutningsþóknun.

Yfirlit yfir málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi tognaði í hálsi og hlaut meiðsl í öxl og á hné í umferðar­slysi hinn 29. ágúst 1996 er bifreið stefndu Guðrúnar, MJ-899, var ekið yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir bifreið er stefnandi var farþegi í. Ágreiningslaust er að stefndu beri bótaábyrgð á tjóninu, sem stefnandi varð fyrir, en ökutæki stefndu Guðrúnar var ábyrgðartryggt hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.

Hinn 31. mars 2000 greiddi hið stefnda vátryggingafélag stefnanda þjáninga­bætur og bætur fyrir varanlega örorku og miska ásamt vöxtum, innheimtukostnaði og öðrum kostnaði vegna slyssins, samtals 1.511.096 krónur. Af þeirri fjárhæð voru greiddar 696.465 krónur vegna varanlegrar örorku. Á kvittun er gerður fyrirvari af hálfu stefnanda um útreikning á bótum fyrir varanlega örorku.

Stefnandi telur bætur fyrir varanlega örorku vanreiknaðar í uppgjöri hins stefnda vátryggingafélags. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að bætur skuli reikna samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga en af hálfu stefndu er haldið fram að þær beri að reikna samkvæmt 8. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að bætur vegna þjáninga og varanlegs miska stefnanda hafi verið gerðar upp að fullu. Hvorki sé ágreiningur um bótaskyldu stefndu né að við útreikning bóta skuli byggt á mati lækna frá 10. janúar 2000 sem hafi metið varanlega örorku stefnandi vegna slyssins 12%.

Uppgjör á varanlegri örorku skuli byggt á 5.-7. gr. skaðabótalaga en ekki á 8. gr. þeirra eins og stefndi hafi gert við útreikning á tjóni stefnanda. Stefnandi hafi verið nemi við Tækniskóla Íslands þegar hún slasaðist. Áður hafi hún verið um árabil úti á almennum vinnumarkaði og hafi hún þá haft launatekjur sem skattframtöl hennar staðfesti. Eftir nokkur ár á vinnumarkaði hafi hún tekið ákvörðun um að mennta sig frekar til að geta aukið framtíðartekjur sínar og hafi það verið ástæðan fyrir því að hún var í námi en ekki á vinnumarkaði þegar slysið varð. Hún hafi verið komin með tekju­sögu fyrir slysið sem leggja verði til grundvallar við útreikning bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Af hennar hálfu er því haldið fram að 8. gr. skaðabótalaga eigi ekki við í hennar tilviki en í lagagreininni felist undan­tekningarákvæði sem beri að túlka þröngt. Skuli einkum höfð í huga börn, ungt námsfólk og þeir sem vinni heimilisstörf, þ.e. þeir sem hafi ekki aflað sér tekjusögu svo nokkru nemi.

 

Aðalkrafa stefnanda er reiknuð þannig:

 

Varanleg örorka, sbr. 5-7. gr., 3.202.000x3878/3582x10x12/100 =

4.127.737 kr.

Mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð 6%

247.664 kr.

Frádráttur vegna aldurs, 1 % samkvæmt 9. gr. skaðabótalaga

43.754 kr.

Samtals

4.331.647 kr.

 

Við útreikninginn sé notuð tekjuviðmiðun sem fengin sé úr kjara­könnun Tækni­fræðingafélags Íslands 1998. Samkvæmt henni hafi heildartekjur tæknifræðinga á almennum markaði á aldursbilinu 24-29 ára numið 3.202.000 krónum. Stefnandi hafi verið 26 ára nemi á 2. ári í Tækniskóla Íslands í iðnaðartæknifræði þegar hún slasaðist. Hún hafi þó haft tekjusögu áður en hún hóf námið. Því skuli miða við meðal­heildargreiðslur til tæknifræðinga á ofangreindu aldursbili þegar bætur vegna varanlegrar örorku eru reiknaðar út, sbr. 2. mgr. 7. gr. Þar sem könnunin nái til ársins 1997, en slysið varð á árinu 1996, sé bótafjárhæðin verðbætt frá 1. janúar 1998 (3582) en ekki frá slysdegi (3493) eins og skaðabótalögin geri ráð fyrir, sbr. 2. mgr. 15. gr.

 

Varakrafan er reiknuð þannig:

 

Varanleg örorka, sbr. 5-7. gr., 2.000.100x3878/3493x10x12/100

= 2.664.662 kr.

Mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð 6%

159.880 kr.

Frádráttur vegna aldurs, 1 % samkvæmt 9. gr.

-28.245 kr.

Samtals

2.796.296 kr.

 

Við þennan útreikning séu notaðar sem tekjuviðmiðun meðaltekjur iðnaðar­manna á öllu landinu samkvæmt niðurstöðum fréttabréfs Kjararannsóknarnefndar fyrir 4. ársfjórðung 1995 og l.-3. ársfjórðung 1996. Á 4. ársfjórðungi 1995 hafi vegið meðaltal numið 157.000 krónum á mánuði, á 1. ársfjórðungi 1996 160.800 krónum, á 2. ársfjórðungi 1996 177.500 krónum og á 3. ársfjórðungi 1996 171.400 krónum. Heildarárstekjur til viðmiðunar síðustu tólf mánuði fyrir slysið séu þannig 2.000.100 krónur. Viðmiðunartekjur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. hafi hækkað miðað við breytingar frá vísitölu á tjónsdegi (3493) til vísitölu í apríl 2000 (3878) við upphafstíma dráttarvaxtakröfunnar.

Undir báðum kröfuliðum sé mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð 6% og frádráttur frá bótum vegna aldurs stefnanda 1%, þar sem hún hafi verið 26 ára á slysdegi, sbr. 9. gr. skaðabótalaga.

Allar fjárhæðir séu verðbættar samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga til apríl 2000 og krafist 2% ársvaxta og vaxtavaxta samkvæmt 16. gr. laganna frá tjónsdegi til 9. apríl 2000 en dráttarvaxta sé krafist frá mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs stefnanda, 9. mars 2000, í samræmi við 15. gr. vaxtalaga, sbr. 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga, og lög um vexti og verðbætur nr. 38/2001.

Hinn 31. mars 2000 hafi 696.465 krónur verið greiddar inn á varanlegt örorkutjón stefnanda en tekið sé tillit til þess í kröfugerð stefnanda. Einnig hafi verið gerðir upp vextir samkvæmt 16. gr. laganna af innborgaðri fjárhæð og sé því aðeins krafist vaxta og dráttarvaxta í kröfugerð af stefnufjárhæðinni að frádreginni innborgun þar sem vextir af innborgaðri fjárhæð væru þegar að fullu greiddir til uppgjörsdags þeirra þann 31. mars 2000.

Kröfur stefnanda séu reistar á umferðarlögum nr. 50/1987, einkum XIII. kafla og sérstaklega 90. gr., sbr. 88. og 89. gr. Einnig sé byggt á almennum ólögfestum reglum íslensks skaðabótaréttar og skaðabótalögum nr. 50/1993. Varðandi vexti og vaxtavexti er vísað til 16. gr. laga nr. 50/1993 og um dráttarvexti til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og laga um vexti og verðtryggingar nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr., og varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað til laga nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989, en stefnandi sé ekki virðisauka­skatt­skyld og sé henni því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefndu er vísað til þess að stefnandi sé fædd 28. desember 1969 og hafi hún því verið 26 ára að aldri þegar slysið varð hinn 29. ágúst 1996. Samkvæmt því sem fram komi í matsgerð hafi hún lokið raungreinadeildarprófi við Tækniskóla Íslands 1996. Þar hafi hún stundað fullt nám frá hausti 1996 og hafi námslok verið áætluð í árslok 1999, en upplýsingar liggi ekki fyrir um raunveruleg námslok. Þegar slysið varð hafi stefnandi verið í sambúð og átt þriggja ára dóttur, fædda 1. janúar 1993.

Upplýsingar um atvinnuþátttöku stefnanda áður en hún hóf nám við Tækniskóla Íslands komi fram á skattframtölum. Af þessum gögnum megi ráða, að atvinnu­þátttaka hennar á þessum tíma hafi verið fjarri því að nema fullri vinnu, nema einstök ár, það er 1988 og 1992. Árið 1985 hafi tekjur hennar verið 151.093 krónur, árið 1986 hafi þær verið 385.991 króna, árið 1987 samtals 473.904 krónur, árið 1988 samtals 814.691 króna, árið 1989 samtals 703.295 krónur, árið 1990 samtals 864.508 krónur, árið 1991 samtals 546.848 krónur, árið 1992 samtals 655.572 krónur, árið 1993 samtals 318.944 krónur, árið 1994 samtals 555.189 krónur, árið 1995 samtals 110.121 króna og árið 1996 samtals 457.413 krónur.

Þegar slysið varð hafi stefnandi stundað nám og hafi hún ekki haft tekjusögu fyrir námið sem bendi til fullrar atvinnuþátttöku nema hugsanlega einstök ár. Beri því samkvæmt lögskýringargögnum að ákveða henni bætur eftir 8. gr. skaðabótalaga. Fram komi í greinargerð með 8. gr. frumvarps til laganna að reglum greinarinnar skuli beitt um ungt námsfólk, þótt það afli tekna í vinnu með námi, svo framarlega sem nemandi stundi í reynd eðlilegt nám. Stefnandi hafi fyrst og fremst nýtt vinnugetu sína sem námsmaður. Af ummælum um 2. mgr. 7. gr. í frumvarpinu megi ráða að árslaun námsmanna verði einungis metin samkvæmt þeirri grein þiggi nemandi laun í tengslum við námið, einkum iðnnemar á námssamningi, en þá væru laun miðuð við tekjur sem tjónþoli hefði haft ef hann hefði nýlokið námi. Stefnandi hafi ekki haft laun sem tæknifræðinemi.

Sýknukrafa stefndu sé byggð á því að stefnandi hafi þegar fengið greiddar þær bætur sem henni beri samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga en óumdeilt sé að þær hafi þannig verið rétt reiknaðar. Ákvæði 5.-7. gr. skaðabótalaga eigi ekki við um hana og geti hún því hvorki gert kröfu á grundvelli aðalkröfu né varakröfu. Er því sérstaklega mótmælt að við bótaákvörðun séu meðaltekjur allra tæknifræðinga notaðar sem viðmiðunartekjur, þar sem stefnandi hafi ekki verið í launuðu starfsnámi, þegar hún slasaðist. Ekki hafi verið lagðir fram útreikningar þar sem miðað sé við tekjur hennar sjálfrar. Í málinu sé því tölulegur ágreiningur. Þá er enn fremur vísað til túlkunar Hæstaréttar á reglunum sem fram koma í ofangreindum lagaákvæðum. Verði bætur dæmdar ættu þær með hliðsjón af dómafordæmum ekki að bera dráttar­vexti fyrr en frá uppsögu endanlegs dóms í málinu. Kröfu um málskostnað reisa stefndu á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en kröfu um tillit til virðisaukaskatts á lögum nr. 50/1988.

Niðurstaða

Samkvæmt því sem fram hefur komið lauk stefnandi grunnskóla á Ísafirði árið 1985 en hún fór þá í eitt ár í fjölbrautaskóla að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún vann eftir það í fiski á Ísafirði í eitt ár en haustið 1987 fór hún í fjölbrautaskóla á Sauðár­króki og lauk þar einni önn. Þá fór hún aftur til Ísafjarðar og vann til að byrja með í fiski og síðan í leikskóla þar til hún flutti til Reykjavíkur á árinu 1990. Þar vann hún fyrst hjá bakara og síðan í leikskóla til haustsins 1994 en þá hóf hún nám í Tækniskóla Íslands. Stefnandi skýrði svo frá fyrir dóminum að hún hafi unnið fullt starf frá árinu 1988 til ársins 1994 að frátöldu sex mánaða fæðingarorlofi sem hún var í á árinu 1993.  

Samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga, eins og hún var þegar stefnandi slasaðist og áður en henni var breytt með 5. gr. laga nr. 37/1999, skyldi meta bætur fyrir varanlega örorku til fjárhæðar er næmi tíföldum árslaunum tjónþola, sbr. og 1. gr. laga nr. 42/1996. Árslaun töldust heildar­vinnu­tekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir daginn sem tjón varð samkvæmt þágildandi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Árslaun skyldi þó meta sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum, sbr. þágildandi 2. mgr. 7. gr. laganna. Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaganna segir um síðasttalda ákvæðið að ákveða skyldi árslaun eftir mati þegar aðstæður tjónþola væru óvenjulegar hvað varðaði tekjur eða starf eða þegar annars stæði sérstaklega á. Nefnd eru dæmi um slíkar aðstæður, svo sem óreglulegar tekjur sjálfstæðra atvinnurekenda og þeirra sem stundi hlutastarf, tímabundið atvinnuleysi eða að tjónþoli hafi aðeins að hluta notað getu sína til að afla sér tekna með vinnu. Um þá sem síðast eru taldir segir að átt sé m.a. við þá sem séu í rannsóknar­leyfi eða hafi tekið sér leyfi án launa til að auka þekkingu sína eða verklega starfsfærni. Um mat á árslaunum þeirra segir síðan að oft myndi rétt að miða þau við venjulegar tekjur manna sem gegni starfi sambærilegu fyrra starfi tjónþola. Stundi tjónþoli nám þegar tjón verði og þiggi laun í tengslum við það, t.d. iðnnám, verði venjulega að miða árslaun við tekjur sem hann hefði haft, ef hann hefði verið nýbúinn að ljúka námi. Um tjónþola, sem ekki fái laun í tengslum við nám, fari eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins. Þar séu sérstakar reglur um útreikning bóta til barna, unglinga í skóla og þeirra sem vinni heimilisstörf. Þörf sé á þeim vegna þess að ekki sé unnt að miða við árslaun þegar þessir tjónþolar eigi hlut að máli. Um 8. gr. segir að hún eigi við um börn og tjónþola sem að verulegu leyti nýti starfsgetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Reglum 8. gr. skuli beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám með eðlilegum hætti. Bætur til námsmanna, sem þiggi laun í tengslum við nám, svo sem iðnnema eða læknastúdenta, skuli ákveða eftir 2. mgr. 7. gr. 

Eins og að framan er rakið eru rök stefnanda fyrir því að ákveða beri henni bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt þágildandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þau að hún hafi haft tekjusögu áður en hún hóf nám í Tækniskóla Íslands. Í málatilbúnaði hennar er þó ekki byggt á því að miða beri við þá tekjusögu við mat á árslaunum hennar samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði. Af hennar hálfu er hins vegar talið að heimilt sé að miða við meðalheildargreiðslur tæknifræðinga á almennum markaði á aldrinum 24-29 ára samkvæmt kjara­könnun Tæknifræðingafélags Íslands 1998. Útreikningur aðal­kröfu hennar er byggður á því en útreikningur varakröfu á vegnum meðal­tekjum iðnaðar­manna á öllu landinu samkvæmt niðurstöðum Kjararannsóknar­nefndar síðasta fjórðung ársins 1995 og fyrstu þrjá fjórðunga ársins 1996.

Við úrlausn á því hvort bætur stefnanda fyrir varanlega örorku beri að ákveða eftir þágildandi 2. mgr. 7. gr. eða 8. gr. skaðabótalaga verður að líta til þess að af dæmunum, sem rakin eru hér að framan úr athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga um óvenjulegar aðstæður tjónþola, sést að þar er unnt að nota ákveðna viðmiðun við mat á árslaunum miðað við aðstæður þess tjónþola sem um ræðir hverju sinni. Þegar stefnandi varð fyrir slysinu stundaði hún nám og hafði ekki tekjur í tengslum við það. Tekjusaga hennar er ekki notuð til viðmiðunar við útreikninga á kröfum hennar í málinu og verður því ekki miðað við hana við mat á árslaunum hennar. Þegar litið er til þess sem að hér að framan hefur verið rakið þykja ekki nægileg rök fyrir því að við matið verði notaðar þær við­miðunar­­tekjur sem útreikningar stefnanda og kröfugerð er byggð á. Að öllu þessu virtu verður að telja réttara að reikna bætur stefnanda fyrir varanlega örorku samkvæmt þágildandi 8. gr. en ekki 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ágreiningslaust er að stefnandi hefur samkvæmt uppgjöri hinn 31. mars 2000 fengið bætur fyrir varanlega örorku þannig greiddar úr hendi hins stefnda vátryggingafélags. Samkvæmt því ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Guðrún Hafsteinsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu sýkn vera af kröfum stefnanda, Sigrúnar Sigurhjartardóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.