Hæstiréttur íslands
Mál nr. 180/2004
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Ítrekun
- Blóðsýni
|
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2005. |
|
Nr. 180/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Kristni Má Stefánssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Ítrekun. Blóðsýni.
K var gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Kvaðst K ekki hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn og vefengdi að vínandamagn í blóði hans hefðu verið yfir því 0,50 marki sem 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. umferðarlaga nr. 50/1987 kvæðu á um og neitaði sök. Hélt hann því fram að hann hefði hvorki neytt áfengis fyrir akstur né á meðan á honum stóð. Hins vegar hefði hann drukkið einn sopa úr vodkapela eftir að akstri lauk. Með vísan til tveggja álitsgerða var talið að magn það sem K drakk að akstri loknum væri það lítið að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að vínandamagn í blóði hans hefði verið yfir 0,50 við aksturinn. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að K hefði gerst sekur um brot gegn fyrrnefndum ákvæðum umferðarlaga. Með vísan til þess að láðst hefði að sakfella K berum orðum fyrir að aka sviptur ökurétti og gera honum refsingu fyrir það var hann ekki sakfelldur fyrir þann verknað enda hefði ákæruvaldið krafist staðfestingar héraðsdóms „að öllu leyti“. Var K gert að sæta fangelsi í 30 daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu.
Samkvæmt ákæru er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni OX 949 að morgni 24. júlí 2003 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti um Bæjarháls og Bitruháls í Reykjavík. Eru brot hans talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn og vefengir að vínandamagn í blóði hans hafi verið yfir því 0,50 marki sem 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga kveður á um.
Í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti og í málflutningi skipaðs verjanda hans fyrir réttinum 7. desember 2004 voru gerðar athugasemdir við að ekki nyti viðhlítandi upplýsinga um hversu mikils magns áfengis ákærði neytti eftir umræddan akstur, þrátt fyrir að það hefði mátt staðreyna af sakargögnum. Af hálfu ákæruvalds hafði ekki verið brugðist við þessum athugasemdum. Með ákvörðun Hæstaréttar 13. desember 2004 var lagt fyrir ríkissaksóknara, með vísan til 2. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 16. gr. laga nr. 37/1994, að láta fara fram mælingu á því hversu mikils magns áfengis hafi verið neytt að hámarki úr áfengispela þeim, sem tekinn var af ákærða í framhaldi af handtöku hans að morgni fimmtudagsins 24. júlí 2003. Jafnframt var lagt fyrir hann að afla sérfræðilegs álits um, hversu mikið etanólþéttni hefði að hámarki getað vaxið í blóði ákærða við neyslu á þessu áfengismagni miðað við að 40-45 mínútur hafi liðið frá því hann neytti þess þar til honum var tekið blóð það sem gögn málsins greina. Til starfans var fenginn eiturefnafræðingur við læknadeild Háskóla Íslands. Niðurstaða hans lá fyrir 19. janúar 2005 og verður vikið að henni síðar.
Málið var tekið til munnlegs málflutnings á ný að lokinni framangreindri gagnaöflun 15. febrúar 2005.
Eins og fram kemur í héraðsdómi veittu tveir lögreglumenn bifreið ákærða eftirför og höfðu tal af honum á bifreiðastæði við Osta-og smjörsöluna við Bitruháls 12 þar sem hann hafði lagt bifreiðinni án þess að stöðva vél hennar. Er fram komið að ákærði hafi teygt sig í áfengispela og sopið á þegar annar lögreglumannanna kom að bifreiðinni. Hald var lagt á pelann og tekin af honum ljósmynd. Á henni sést að pelinn er axlafullur.
Ákærði var handtekinn um kl. 09.35 þennan morgun og færður til töku blóðsýnis. Samkvæmt blóðtökuvottorði læknis var ákærða dregið blóð kl. 10.15. Að teknu tilliti til vikmarka mældist við rannsókn vínandi í blóði hans 0.94. Þá gaf ákærði þvagsýni kl. 10.20 og reyndist það hafa að geyma 1,29 af vínanda að teknu tilliti til skekkjumarka. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. október 2003 kvaðst hann hvorki hafa neytt áfengis fyrir akstur þá um morguninn né á meðan á honum stóð. Hins vegar hafi hann drukkið einn sopa úr vodkapela eftir að akstri lauk. Framburður ákærða fyrir dómi var á sömu lund en þar sagðist hann hafa sopið „allduglega á - verulega duglega af honum.“ Hann sagði aðspurður fyrir dómi að þyngd sín hefði um árabil verið 79 til 81 kg. Í héraðsdómi er rakin álitsgerð Kristínar Magnúsdóttur, deildarstjóra hjá lyfjafræðistofnun, og framburður hennar fyrir dómi. Taldi hún, er hún sá mynd af pelanum, vanta 40-50 ml í hann. Við neyslu þess magns myndi vínandi hækka að algjöru hámarki um 0,3 til 0,4, „miðað við að það skilaði sér allt og þá strax út í blóðrás.“ Við þetta mat tók hún tillit til þyngdar 70-80 kg karlmanns og þess að 40 til 60 mínútur hafi liðið frá drykkju ákærða og fram að töku blóðsýnis. Hún bar einnig að magnið sem mælst hafi í þvagi ákærða styðji þessa niðurstöðu.
Í niðurstöðu áðurnefndrar rannsóknar eiturefnafræðings við læknadeild Háskóla Íslands 19. janúar 2005 kemur fram að hann reikni með að hámarksmagn, sem hægt sé að hugsa sér að ákærði hafi neytt úr pelanum, hafi verið 55 ml. Er niðurstaða hans að mjög ólíklegt sé að neysla 55 ml af 40% vodka gæti leitt til aukningar á þéttni etanóls í blóði ákærða umfram 0,35. Væri þá gengið út frá því að ákærði hafi ekki verið léttari en 66 kg þegar hann neytti áfengisins og að hann hafi ekki neytt áfengis síðustu 1-2 klukkustundirnar áður en umræddur atburður átti sér stað. Við rannsóknina var ákærði vigtaður hjá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík 31. desember 2004 og reyndist hann vera 75 kg að þyngd. Kvaðst hann við yfirheyrslu hjá lögreglu þann dag hafa verið „eitthvað léttari“ á þeim tíma er aksturinn fór fram. Við áðurnefnda rannsókn eiturefnafræðings og ákvörðun skekkjumarka var allur hugsanlegur vafi metinn ákærða í hag.
Samkvæmt framansögðu er fallist á með héraðsdómara að magn það sem ákærði drakk að akstri loknum sé það lítið að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að vínandamagn í blóði hans hafi verið yfir 0,50 við aksturinn. Er því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga með áorðnum breytingum. Ákærði hefur nú ítrekað öðru sinni gerst sekur um brot gegn 45. gr. umferðarlaga.
Í hinum áfrýjaða dómi segir réttilega að ákærði hafi játað að hafa verið sviptur ökurétti við aksturinn eins og honum er gefið að sök í ákæru. Hins vegar hefur láðst í forsendum dómsins að sakfella hann berum orðum fyrir verknaðinn. Svo virðist sem héraðsdómari hafi heldur ekki gert ákærða refsingu fyrir þennan verknað þar sem löng dómvenja er fyrir því að ítrekaður ölvunarakstur í annað sinn varði fangelsi í 30 daga, en það er sú refsing sem ákærða var dæmd með héraðsdómi. Verður hann því ekki sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, enda hefur ákæruvaldið krafist staðfestingar héraðsdóms „að öllu leyti.“
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Kristinn Már Stefánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2004.
Málið er höfðað með ákæruskjali dags. 22. desember 2003 á hendur: Kristni Má Stefánssyni, kt. [...], Sogavegi 218, Reykjavík,
“fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni OX-949, að morgni fimmtudagsins 24. júlí 2003, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,94 ) og sviptur ökurétti um Bæjarháls og Bitruháls í Reykjavík.
Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”
Verjandi krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greiðist úr ríkissjóði.
Málavextir:
Fimmtudaginn 24. júlí 2003, kl. 9.35 voru lögreglumenn við eftirlit í lögreglubifreið í Reykjavík og óku vestur Bæjarháls að Bitruhálsi er þeir veittu athygli bifreiðinni OX-949 sem ekið var vestur Bæjarháls. Var ökumanni bifreiðarinnar gefið stöðvunarmerki þar sem lögreglumenn vildu kanna ástand og réttindi hans. Bifreiðinni var beygt norður Bitruháls og inn á stæði við Osta- og smjörsöluna að Bitruhálsi 2 þar sem henni var lagt, án þess að vélin væri stöðvuð. Þegar lögreglumaður ætlaði að ræða við ökumann, sem var ákærði í málinu, teygði hann sig í vodkapela á gólfinu farþegamegin, opnaði hann og fékk sér einn sopa en lokaði pelanum síðan aftur. Við það reyndi lögreglumaðurinn að opna hurð bifreiðarinnar sem var læst. Var ákærða þá skipað að opna bifreiðina, sem hann gerði. Gaf ákærði þá skýringu á framferði sínu að hann hefði orðið stressaður er lögregla gaf honum stöðvunarmerki. Fyrir varðstjóra viðurkenndi ákærði að hafa drukkið um hálfan vodkapela og tvo bjóra á tímabilinu 15.30-19.15 daginn áður. Hann kvaðst ekki hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn en hann hafi verið að koma úr verslun ÁTVR á Stuðlahálsi og hafi förinni verið heitið að Stórhöfða 21-23 þar sem hann vinnur.
Við rannsókn á blóðsýni sem tekið var úr ákærða kl. 10.15 reyndist 0.94 af alkóhóli í blóði hans að teknu tilliti til frávika og í þvagsýni sem tekið var kl. 10.20 reyndist 1.29 af alkóhóli.
Í málinu liggur fyrir álit Kristínar Magnúsdóttur, deildarstjóra Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands, dagsett 10. desember 2003, en lögregla leitaði álits stofnunarinnar á áfengismagni í blóði ákærða þegar hann ók bifreiðinni um kl. 9.35 miðað við forsendur málsins. Í niðurlagi álitsins kemur fram að ekki sé hægt að segja til með nákvæmni um etanólstyrk í blóði ákærða á fyrrgreindum tíma. Síðan segir: „Áðurnefnt hlutfall bendir þó eindregið til að viðkomandi ökumaður hafi hafið drykkju fyrir kl. 09.35 og því verið undir áhrifum áfengis, þegar meintur ölvunarakstur átti sér stað.“
Ákærði kveðst hafa drukkið áfengi milli kl. 17 og 19.30 daginn fyrir atburðinn, að hann telur hálfan vodkapela og tvo bjóra. Hann hafi umræddan morgun farið til vinnu snemma á bifreið sinni og sótt tölvu til að vinna með heima. Hafi hann ekki fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. Á heimleiðinni hafi hann komið við í áfengisversluninni Heiðrúnu og keypt vodkafleyg. Þegar hann fór þaðan hafi hann orðið var við að lögreglubifreið veitti honum eftirför. Þegar lögreglumenn gáfu honum stöðvunarmerki kveðst hann hafa ekið inn á stæði við Osta- og smjörsöluna og stöðvað þar. Þar kvaðst hann hafa tekið fleyginn, opnað hann og fengið sér að drekka. Aðspurður af verjanda sínum kveðst ákærði ekki hafa verið búinn að borða umræddan morgun og þá hafi hann ekki verið búinn að kasta þvagi um morguninn. Hann upplýsti að hann væri um 79 til 80 kg að þyngd.
Vitnið, Guðrún Árnadóttir lögreglumaður, kvað ákærða hafa stöðvað á bílastæðinu og hafi félagi hennar farið út en vitnið ók lögreglubifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða teygja sig yfir farþegasætið og síðan að ákærði fékk sér að drekka. Lögreglumenn hafi þá hótað að brjóta rúðuna í bifreiðinni ef ákærði opnaði hana ekki og hafi hann þá gert það. Vitnið kvað enga sérstaka ástæðu hafa verið fyrir eftirförinni. Vitnið kvaðst telja að ákærði hafi verið handtekinn kl. 9.35 en það er sá tími sem greinir í lögregluskýrslunni. Vitnið kvað ákærða hafa komið vel fyrir sjónir en verið stressaður og hafi vitnið ekki veitt því athygli hvort ákærði væri undir áhrifum áfengis.
Vitnið, Jóhannes Snævar Harðarson lögreglumaður, bar á sama veg og vitnið, Guðrún. Kvaðst vitnið hafa farið út úr lögreglubifreiðinni eftir að ákærði hafði stöðvað. Hann kvað ákærða hafa læst hurð bifreiðar sinnar áður en vitnið komst að bifreiðinni, teygt sig í vodkafleyg og fengið sér sopa. Vitnið kvaðst ekki hafa séð áfengisáhrif á ákærða né heldur neitt að aksturslagi hans en þar sem ákærði var að koma úr áfengisverslun hafi verið ákveðið að athuga ástand hans.
Vitnið, Karl Hjartarson lögregluvarðstjóri, kvaðst hafa tekið skýrslu af ákærða og er skýrsla hans í samræmi við það sem fram hefur komið. Vitnið kvaðst minnast þess að ákærði hafi verið sjúskaður í útliti og talsverð vínlykt af honum.
Vitnið, Kristín Magnúsdóttir deildarstjóri, kvaðst hafa annast rannsókn á blóð- og þvagsýni úr ákærða. Vitnið skoðaði mynd sem frammi liggur í málinu af fleyg þeim sem ákærði saup úr og áætlaði að það sem í hann vantaði væri um 40-50 ml. Miðað við 50 ml af 40% styrkleika vodka mætti ætlað að 70-80 kg karlmaður gæti að algjöru hámarki náð 0.3-0.4 í blóði eftir slíka drykkju og væri þá miðað við að allt skilaði sér þegar í stað út í blóðið. Vitnið kvaðst hafa gengið út frá að um 40 mínútur hefðu liðið frá því að áfengisins var neytt þar til sýni var tekið. Þegar áfengið hafi skilað sér út í blóðrás eigi það eftir að skila sér út í þvagið og það taki nokkurn tíma, eða allt að hálftíma, miðað við þetta litla drykkju. Miðað við þessa litlu drykkju, eða 50 ml, myndi aldrei nást það magn af etanóli sem var í þvagsýninu á þessum tíma. Þetta benti eindregið til þess að viðkomandi hafi byrjað að drekka fyrir kl. 9. 35 og því verið undir áhrifum áfengis við aksturinn, eins og segir í niðurstöðu álits vitnisins, þrátt fyrir að ákærði hafi verið búinn að neyta áfengis kvöldið áður. Þetta sé hins vegar spurning um ástand, hvort viðkomandi hafi borðað nýlega en matur í maga tefji fyrir áhrifum út í blóðið.
Niðurstaða.
Ákærði hefur játað að hafa ekið bifreiðinni greint sinn, sviptur ökurétti. Ákærði hefur viðurkennt að hafa verið við áfengisdrykkju milli kl. 17 - 19.30 daginn áður en neitar því hins vegar að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar lögregla stöðvaði akstur hans.
Eins og rakið hefur verið hér að framan veittu lögreglumenn ákærða eftirför þar sem hann ók frá áfengisversluninni Heiðrúnu á Stuðlahálsi umræddan morgun. Samkvæmt vætti lögreglumannanna var ekkert athugavert við aksturslag ákærða en lögreglumen hugðust kanna ástand ökumanns og ökuréttindi.
Í málinu er ágreiningslaust að þegar lögreglumaður hugðist ræða við ákærða læsti hann bifreiðinni, greip vodkafleyg, sem hann hafði þá nýlega keypt, saup af honum og lokaði aftur. Að mati dómsins þykir sú skýring ákærða á þessu sérstaka atferli sínu, að hann hafi orðið taugaóstyrkur vegna afskipta lögreglu af akstri hans, lítt trúverðug. Ákærða var tekið blóð og þvagsýni til rannsóknar innan við klukkustund frá því að hann var handtekinn og reyndist 0.94 af alkóhóli í blóði en 1.29 af alkóhóli í þvagi.
Í málinu liggur frammi ljósmynd af umræddum fleyg, þar sem sjá má að áfengismagnið sem ákærði drakk er óverulegt. Hefur vitnið, Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands, áætlað það magn 40-50 ml og gerir ráð fyrir hærri tölunni við mat sitt á áhrifum þess á niðurstöðu alkóhólmælinga í blóði og þvagi ákærða. Taldi vitnið að miðað við svo lítið magn myndi aldrei nást það magn af etanóli sem reyndist vera í þvagsýni ákærða. Bendi etanólmagn eindregið til þess að ákærði hafi byrjað drykkju fyrir kl. 9.35, en þá var hann handtekinn. Er það í samræmi við niðurstöðu álits frá 10. desember 2003 þar sem athugun vitnisins benti eindregið til þess að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis þegar aksturinn átti sér stað.
Eftir að vitnið, Kristín, hafði gefið skýrslu, þar sem fram kom að neysla matar áður en áfengis væri neytt og það hvort viðkomandi hefði kastað af sér þvagi áður en sýni væri tekið úr þvagi, gæti haft áhrif á niðurstöðu mælinga, kom ákærði aftur fyrir dóminn. Aðspurður af verjanda sínum kvaðst hann þá hvorki hafa neytt matar um morguninn né kastað þvagi. Að mati dómsins þykir þessi framburður ákærða einkar ótrúverðugur í ljósi þeirrar vitneskju sem hann fékk af framburði Kristínar Magnúsdóttur.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir hafið yfir skynsamlegan vafa, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðarinnar greint sinn, þ. e. að vínandamagn í blóð ákærða hafi verið meira 0.50.
Ákærði gekkst undir sátt vegna ölvunaraksturs 13. apríl 1994. Hann hlaut dóm 21. apríl 1999, 100.000 króna sekt auk sviptingar ökuréttar í 3 ár m. a. fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Síðast gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun 11. janúar 2000, 100.000 króna sekt auk sviptingar ökuréttar í 18 mánuði frá 4. maí 2002 fyrir brot gegn sömu málsgrein laganna og mun þar vera um að ræða hegningarauka við dóm frá 21. apríl 1999.
Ákærði hefur nú verið fundinn sekur um ítrekað ölvunarakstursbrot í annað sinn. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Þá ber að dæma ákærða, eftir þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir, til sviptingar ökuréttar ævilangt frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sturla Þórðarson, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Kristinn Már Stefánsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.