Hæstiréttur íslands
Mál nr. 103/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 26. febrúar 2013. |
|
Nr. 103/2013.
|
Lýsing hf. (Ólafur Hvanndal Ólafsson hdl.) gegn Málningarþjónustu Jóhanns Einarssonar ehf. (Björn Þorri Viktorsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms um málskostnað í máli sem L hf. höfðaði gegn M ehf. en málið hafði verið fellt niður að beiðni L hf. M ehf. féllst á að ekki hefði verið rétt að ákvarða málskostnað að teknu tilliti virðisaukaskatts á þóknun lögmanns enda var M ehf. virðisaukaskattsskyldur. Þegar atvik málsins voru virt að öðru leyti og sú vinna sem M ehf. virtist hafa lagt í það þótti hæfilegt að L hf. greiddi M ehf. 500.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2013, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 976.651 krónu í málskostnað. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að málskostnaður í héraði verði lækkaður verulega og að honum verði dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að dæmdur málskostnaður í héraði verði 825.875 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krafðist þess að tiltekin bifreið yrði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila með aðfararbeiðni 5. október 2012 sem móttekin var af héraðsdómi 8. október sama ár. Varnaraðili „leigði“ bifreiðina af sóknaraðila með svokölluðum bílasamningi 25. janúar 2005. Samkvæmt samningnum átti varnaraðili að greiða sóknaraðila „leigugjald“ mánaðarlega fyrir bifreiðina í tiltekinn tíma. „Kaupverð“ bifreiðarinnar var samkvæmt samningnum 3.060.000 krónur og var „samningsfjárhæð“ tilgreind sem 2.582.650 krónur. Tekið var fram að samningurinn væri „gengistryggður“ og að allar fjárhæðir væru bundnar „erlendum/innlendum myntum“ í hlutföllum og myntum sem tilteknar voru í samningnum. Kom þar meðal annars fram að fjárhæðir væru bundnar gengi íslensku krónunnar að helmingi en ýmsum erlendum myntum að öðru leyti. Í aðfararbeiðni er greint frá því að sóknaraðili hafi endurreiknað samning aðila í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010 og 16. september sama ár í máli nr. 471/2010, enda hafi rétturinn í fyrra málinu komist að þeirri niðurstöðu að samningur, sem væri sambærilegur samningi aðila, væri í raun lánssamningur í skilningi laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í sama dómi hafi verið kveðið á um að ólögmætt væri að tengja lánsfjárhæð við gengi erlendra mynta eins og gert hafi verið að hluta í samningi aðila. Endurútreikningur sóknaraðila var sendur varnaraðila 10. desember 2010 og greiðsluseðlar í samræmi við það frá og með janúar 2011. Mun varnaraðili þá hafa hætt greiðslum til sóknaraðila vegna samningsins en í kjölfarið rifti sóknaraðili samningnum 24. maí 2011.
Eftir að aðfararbeiðni var lögð fram í héraðsdómi var þrívegis þingað í málinu og lagði varnaraðili meðal annars fram greinargerð. Í þinghaldi 18. janúar 2013 óskaði sóknaraðili eftir því að málið yrði fellt niður án alls kostnaðar af hálfu aðila. Á það féllst varnaraðili ekki og var málið flutt um málkostnaðarkröfu hans sem var studd fram lögðum málskostnaðarreikningi. Var þess krafist að sóknaraðili greiddi varnaraðila samtals 976.651 krónu í málskostnað. Þar af var þóknun lögmanns 767.750 krónur og álagður virðisaukaskattur vegna hennar 195.776 krónur. Þá var gerð krafa um greiðslu kostnaðar vegna endurútreikninga og hann tilgreindur 45.000 krónur. Loks var gerð krafa um kostnað vegna „skrifstofuvinnu“ og nam sá kostnaður 13.125 krónum. Féllst héraðsdómur á kröfu varnaraðila óbreytta. Kröfu sína fyrir Hæstarétti skýrir varnaraðili svo að frá dæmdum málskostnaði í héraði skuli draga virðisaukaskatt.
Ágreiningur aðila við upphaf málsins laut að því hvort varnaraðili hefði vanefnt samning aðila og hvort sóknaraðila hefði verið heimilt að rifta honum. Í héraðsgreinargerð sinni setti varnaraðili fram margs konar rök til stuðnings kröfu sinni. Þau lúta einkum að því annars vegar hvernig bar að haga endurútreikningi samnings aðila í kjölfar áðurnefndra dóma Hæstaréttar vegna þess hluta samningsins sem tengdur var gengi erlendra mynta. Hins vegar gerði varnaraðila athugasemdir við að sóknaraðili hefði reiknað verðbætur vegna þess hluta sem var tilgreindur í íslenskri krónu.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Varnaraðili hefur fallist á með sóknaraðila að ekki hafi verið rétt að ákvarða málskostnað að teknu tilliti virðisaukaskatts á þóknun lögmanns enda er varnaraðili virðisaukaskattsskyldur. Þegar atvik málsins eru virt að öðru leyti og sú vinna sem varnaraðili virðist hafa lagt í það, þykir hæfilegt að sóknaraðili greiði honum 500.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Sóknaraðili, Lýsing hf., greiði varnaraðila, Málningarþjónustu Jóhanns Einarssonar ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2013.
Aðfararbeiðni gerðarbeiðanda barst héraðsdómi 8. október 2012, en málið var tekið til úrskurðar 18. janúar 2013 um greiðslu málskostnaðar eftir að gerðarbeiðandi krafðist þess að málið yrði fellt niður án alls kostnaðar af hálfu aðila. Gerðarbeiðandi er Lýsing hf., kt. 621101-2420, Ármúla 3, Reykjavík. Gerðarþoli er Málningarþjónusta Jóhanns Einarssonar ehf., kt. 580102-5220, Hlynsölum 14, Kópavogi. Samkvæmt aðfararbeiðni voru dómkröfur gerðarbeiðanda þær að bifreiðin Citroen C8, fastanr. TX 789, árgerð 2005, yrði tekin úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda með beinni aðfarargerð. Þá var krafist málskostnaðar. Beiðni gerðarbeiðanda var fyrst tekin fyrir á dómþingi 27. nóvember 2012. Þá var mætt af hálfu beggja málsaðila og mótmælti gerðarþoli kröfu gerðarbeiðanda og óskaði eftir fresti til að skila greinargerð í málinu. Á dómþingi 11. desember 2012 var greinagerð ásamt fylgiskjölum skilað af hálfu gerðarþola og var málinu í kjölfarið frestað til 11. janúar 2013. Þann dag lagði gerðarbeiðandi fram gögn og var málinu frestað til 18. janúar 2013. Á dómþingi 18. janúar 2013 óskaði gerðarbeiðandi eftir að málið yrði fellt niður án alls kostnaðar af hálfu aðila. Af hálfu gerðarþola var krafist málskostnaðar og var lagt fram málskostnaðaryfirlit. Af hálfu gerðarbeiðanda var framlögðu málskostnaðaryfirliti mótmælt sem of háu, hvort tveggja vegna tímafjölda og tímagjalds. Af hálfu gerðarþola var því hafnað að framlagt málskostnaðaryfirlit væri að of hárri fjárhæð og að of margir tímar lægju því til grundvallar. Þá tjáðu lögmenn sig að öðru leyti stuttlega um málskostnaðarkröfu gerðarþola.
Samkvæmt þessu er viðfangsefni dómsins að leysa úr ágreiningi málsaðila um málskostnað við niðurfellingu málsins. Samkvæmt málskostnaðaryfirlit því sem lagt hefur verið fram af hálfu gerðarþola hefur lögmaður gerðarþola unnið samtals 37 klukkustundir við málið. Tímagjald lögmannsins er tilgreint 20.750 krónur á tímann, en ofan á það gjald leggist 25,5% virðisaukaskattur. Þá er útlagður kostnaður við gerð endurútreikninga tilgreindur 45.000 krónur og skrifstofuvinna (ljósritun o.fl.) 13.125 krónur. Samtals er málskostnaður gerðarþola því tilgreindur 976.651 króna.
Þegar litið er til sakarefnisins, og framlagðrar greinargerðar, verður ekki séð að tilgreindur tímafjöldi á málskostnaðaryfirliti lögmanns gerðarþola sé óhóflegur og ekki er fallist á það að tímagjald lögmannsins sé óhóflegt. Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, verður gerðarbeiðanda því gert að greiða gerðarþola málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 976.651 króna, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Með vísan til kröfu gerðarbeiðanda um niðurfellingu málsins er það fellt niður.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Mál þetta er fellt niður.
Gerðarbeiðandi, Lýsing hf., greiði gerðarþola, Málningarþjónustu Jóhanns Einarssonar ehf., 976.651
krónu í málskostnað.