Hæstiréttur íslands
Mál nr. 658/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 2. nóvember 2012. |
|
Nr. 658/2012:
|
Aðalumboðið ehf. (Einar Hugi Bjarnason hrl.) gegn Halldóri Karli Þórissyni (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður. Héraðsdómur staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A ehf. á hendur H var vísað frá dómi. A ehf. byggði kröfu sína á reikningi vegna söluþóknunar en ekki var skýrt í stefnu hvert söluandlagið var. Í stefnu var hvorki gerð grein fyrir aðild A ehf. að málinu né réttarsambandi aðila. Þótt ætla mætti að söluandlagið hefði verið bifreið var ekkert í málatilbúnaði A ehf. sem studdi það. Hvergi kom fram hver væri eigandi umræddrar bifreiðar og enga skýringu var að finna á kostnaði við öflun gagna sem jafnframt var tilgreindur á reikningi. Þá var engin skýring á tilvitnunum A ehf. til laga. Þar sem málatilbúnaður A ehf. þótti ekki uppfylla ákvæði e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2012 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í báðum tilvikum er krafist kærumálskostnaðar.
Ekki eru efni til að verða við aðalkröfu varnaraðila. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Aðalumboðið ehf., greiði varnaraðila, Halldóri Karli Þórissyni, 180.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 24. september sl., var höfðað 18. maí 2012.
Stefnandi er Aðalumboðið ehf., Stórhöfða 15, Reykjavík.
Stefndi er Halldór Karl Þórisson, Kvíslartungu 3, Mosfellsbæ.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 47.792 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af stefnufjárhæð frá 6. október 2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, sér að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins.
Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram 24. september sl. og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.
Stefndi gerir þær kröfur að málinu verði vísað frá dómi og honum úrskurðaður málskostnaður.
Stefndi gerir þær kröfur að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og málið verði tekið til efnismeðferðar. Hann krefst málskostnaðar að mati dómsins að skaðlausu í þessum þætti málsins.
Málsatvik og málsástæður stefnanda
Undir liðnum málsatvik og málsástæður í stefnu segir svo:
„Krafa stefnanda er byggð á reikningi útg. 05.10.2011 með gjd. 06.10.11, að fjárhæð kr. 47.792,00 vegna söluþóknunar. Stefnufjárhæð nemur reikningsfjárhæð.
Skuld þessi hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar“
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en sú regla fái m.a. stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup.
Málsástæður stefnda fyrir frávísunarkröfu og lagarök
Stefndi kveður frávísunarkröfu sína byggjast á þokukenndri aðild stefnanda, óljósri kröfugerð hans og skorti á málsástæðum.
Aðild stefnanda sé með öllu órökstudd og óskýrð í máli þessu. Þótt aðildarskortur leiði til sýknu verði að reifa aðild eins og önnur efnisatriði í stefnu. Stefnandi geri enga tilraun til þess að útskýra aðild sína, málsástæður eða önnur atvik svo samhengi málsástæðna verði ljóst eins og kveðið sé á um að gera skuli í e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991. Með slíkum skorti á málatilbúnaði af hálfu stefnanda sé komið í veg fyrir að stefndi geti varist efnislega og telji stefndi það varða frávísun málsins.
Niðurstaða
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á reikningi vegna söluþóknunar en ekki er skýt í stefnu hvert söluandlagið er.
Á framlögðum reikningi, sem stílaður er á stefnda, kemur fram að hann sé til kominn vegna ökutækisins YY-798. Þá kemur þar fram að um sé að ræða lágmarks söluþóknun að fjárhæð 32.105 krónur og kostnað við öflun gagna 7.500 krónur.
Enda þótt ætla megi af reikningi að hann sé til kominn vegna sölu á bifreið er ekkert í málatilbúnaði stefnanda í stefnu sem styður það. Engin grein er gerð fyrir aðild stefnanda að málinu. Þá er engin grein gerð fyrir réttarsambandi málsaðila. Hvergi kemur fram hver er eigandi umræddrar bifreiðar sem tilgreind er á reikningi og enga skýringu er að finna á kostnaði við öflun gagna sem jafnframt er tilgreindur á reikningi. Þá er enga skýringu að finna í tilvitnun stefnanda til laga.
Málatilbúnaður stefnanda er svo vanreifaður að telja verður að stefnda sé ómögulegt að taka til varna í málinu. Úr slíkri vanreifun verður ekki bætt undir rekstri máls.
Málatilbúnaður stefnanda uppfyllir ekki ákvæði e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 og ber því að vísa málinu frá dómi.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Aðalumboðið ehf., greiði stefnda, Halldóri Karli Þórissyni, 150.000 krónur í málskostnað.