Hæstiréttur íslands

Mál nr. 257/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)
gegn
X (Halldóra Aðalsteinsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. apríl 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. maí 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. apríl 2017.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að kærða, X, fæddum [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. maí 2017, klukkan 16, og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.

                Kærði mótmælir ekki kröfu lögreglustjóra um að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram, en mótmælir því hins vegar að honum verði gert að sæta einangrun og krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglu hafi föstudaginn 14. apríl sl. borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði í kjölfar komu hans hingað til lands með flugi [...] frá [...] vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni í vörslum sínum.

Kærði hafi verið færður í leitaraðstöðu tollgæslunnar. Í samræðum kærða og tollvarða hafi vaknað grunur um að kærði kynni að hafa fíkniefni falin innvortis. Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn og færður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann hafi gengist undir röntgenskoðun. Niðurstaða skoðunarinnar hafi verið sú að kærði væri með aðskotahluti innvortis. Síðar hafi 40 pakkningar gengið niður af kærða og hafi tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfest að samtals hafi verið um að ræða 246,43 g af kókaíni. Nánari rannsókn á styrkleika efnisins liggi ekki fyrir að svo stöddu.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri miklar líkur á því að þau fíkniefni sem kærði hafi komið með til landsins hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Sé því fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi með ætlaðri refsiverðri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögreglustjóri telji nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar.

Rannsókn málsins sé í fullum gangi og hafi m.a. beinst að því að upplýsa nánar um aðdraganda að ferð kærða til hingað til lands og hverjir vitorðsmenn hans séu hér á landi. Ætla megi að kærði kunni að torvelda áframhaldandi rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki um brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Sé þannig fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að taka til greina kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. maí 2017, klukkan 16. Þess sé einnig krafist að kærða verði gert að sæta einangrun, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á meðan gæsluvarðhaldi stendur með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna.

Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Rannsókn málsins stendur enn yfir. Ætla verður lögreglu ráðrúm til þess að rannsaka möguleg tengsl kærða við vitorðsmenn, bæði hér á landi og erlendis, en staðfest hefur verið að kærði hefur a.m.k. einu sinni áður komið hingað til lands, þ.e. í febrúar síðastliðnum, og leikur grunur á um að sú ferð hafi verið á vegum sömu aðila. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun á meðan á því stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Er krafa lögreglustjóra því tekin til greina með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Ragnheiður Bragadóttir kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærði, X, fæddur [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. maí 2017, klukkan 16.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.