Hæstiréttur íslands

Mál nr. 60/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                              

Þriðjudaginn 29. janúar 2013.

Nr. 60/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að kærða, X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2013, kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Kærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist sé.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot. Þann 21. janúar sl. hafi tollgæslan í Reykjavík fundið mikið magn sterkra fíkniefna í tveimur pakkasendingum í tollpóstmiðstöðinni, sjá nánar meðfylgjandi gögn. Sendingarnar hafi verið að koma frá Danmörku og höfðu verið póstlagðar þann 18. janúar sl.  Sendingarnar hafi verið skráðar á tvö fyrirtæki hér á landi en skráður sendandi hafi verið sama fyrirtækið út í Danmörku. Við skoðun á pakkningunum megi lesa undirskrift aðila en þar stendur “[...]”. Rannsókn lögreglu hafi fljótlega beinst að kærða, X. Lögreglan hafi upplýsingar um það að X fór til Kaupmannahafnar ásamt aðila að nafni, A, þann 14. janúar sl. Lögreglan hafi óskað eftir aðstoð dönsku lögreglunnar við að komast að því hver hefði sent pakkana og fengið í gær í hendur myndbandsupptöku frá pósthúsi í Kaupmannahöfn þar sem aðilar eru að póstleggja hluta af ofangreindum kössum til Íslands. Lögreglan hafi borið kennsl á þá aðila sem kærða X og  B. B hafi farið út til Kaupmannahafnar þann 18. janúar sl., sama dag og kassarnir voru póstlagðir. Þá hafi einnig komið í ljós að B greiddi fyrir farmiða X til Kaupmannahafnar.

Kærði hafi verið handtekinn í gær en við skýrslutökur hjá lögreglu hafi hann neitað sök. Sjá nánar meðfylgjandi skýrslutöku og gögn.

Það sé ætlun lögreglu að kærði hafi ásamt fleiri aðilum staðið að innflutningi mikils magns sterkra fíkniefna hingað til lands. Rannsókn lögreglu sé á frumstigi og sé nauðsynlegt að yfirheyra kærða frekar og að hafa upp á og taka skýrslur af fleiri einstaklingum sem kunni að tengjast málinu. Þá sé einnig beðið frekari gagna frá Danmörku. Mikilvægt sé í þágu rannsóknarinnar að unnt sé að bera upplýsingar undir kærða sjálfstætt á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi og að hann sæti einangrun á þessu stigi rannsóknarinnar. Gangi kærði laus ferða sinna þá geti hann torveldað rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum sem hafa sönnunargildi í málinu eða haft áhrif á aðra samverkamenn.

Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að afbroti sem allt að 12 ára fangelsisrefsing sé lögð við. Um sé að ræða stórfelldan innflutning fíkniefna, sem víst þyki að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.  

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt. Með skírskotun til þess, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og rakið hefur verið er kærði undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á aðra samverkamenn. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar nk. kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.