Hæstiréttur íslands

Mál nr. 220/2002


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Vanaafbrotamaður
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. júní 2002.

Nr. 220/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Mána Freysteinssyni

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

 

Þjófnaður. Tilraun. Vanaafbrotamaður. Ítrekun.

Í samræmi við játningu M var hann sakfelldur fyrir mörg brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og tilraun til slíks brots, auk brots gegn 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Við ákvörðun refsingar var litið til 2. mgr. 70. gr., 71. gr., 255. gr. og 72. gr. laga nr. 19/1940, en M var vanaafbrotamaður. Til mildunar horfði að hann hafði á síðara stigi rannsóknar verið samvinnufús og gengist greiðlega við brotum sínum. Tekið var fram að skilorðsbundinn dómur sem M hafði áður hlotið hefði ekki ítrekunaráhrif. Var M dæmdur í 9 mánaða fangelsi og til greiðslu skaðabóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.

Í niðurlagi I. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa 7. mars 2002 „reynt að stela farsíma af gerðinni Ericson, 11 stk. gsm símum af gerðinni Nokia 5110, tölvuforritum og fjöltengi, samtals að verðmæti um kr. 200.000,-“ við innbrot í fyrirtækið Íslandspóst hf. að Stórhöfða 29 í Reykjavík. Við munnlegan málflutning í Hæstarétti taldi ákæruvaldið þessa háttsemi ákærða réttilega vera tilraunarverknað, sem varði við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði framdi brotin í II. og III. kafla ákæru í félagi við annan mann og verður refsing hans að því leyti ákveðin með tilliti til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Eins og lýst er í héraðsdómi hefur ákærði hlotið fjóra refsidóma frá 4. júlí 1997 til 12. mars 1999, aðallega fyrir fíkniefnalagabrot og þjófnað. Með þeim dómum hlaut hann samanlagt fangelsi í tvö og hálft ár, en þar af voru 172 dagar eftirstöðvar refsingar samkvæmt reynslulausn, sem ákærði hlaut 26. maí 1998. Þótt nokkurt hlé hafi orðið á brotaferli ákærða frá því hann lauk afplánun á refsingu samkvæmt síðastgreindum dómi verður að telja, þegar litið er til hinna fjölmörgu þjófnaðarbrota hans síðastliðin fimm ár, að hann sé vanaafbrotamaður. Refsing hans er því einnig ákveðin með vísan til 72. gr. almennra hegningarlaga. Það athugast, að dómur, sem ákærði hlaut 4. júlí 1997, var skilorðsbundinn og hefur ekki ítrekunaráhrif í máli þessu, en refsing samkvæmt honum var eftir 1. mgr. 59. gr. almennra hegningarlag einnig ákveðin með vísan til 72. gr. almennra hegningarlaga. Það athugast, að dómur, sem ákærði hlaut 4. júlí 1997, var skilorðsbundinn og hefur ekki ítrekunaráhrif í máli þessu, en refsing samkvæmt honum vara með áorðnum breytingum og 60. gr. sömu laga tekin upp og dæmd ásamt öðrum brotum ákærða 13. október sama árs. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsingu ákærða samfellt gæsluvarðhald hans frá 18. mars 2002.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður. Frá refsingu ákærða, Mána Freysteinssonar, skal draga óslitið gæsluvarðhald hans frá 18. mars 2002.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Steingríms Gauts Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl 2002.

Málið er með ákæru útgefinni 15. apríl 2002 höfðað gegn Mána Freysteinssyni, kt. 150267-3669 og Jóni Inga Tómassyni, kt. 121260-4769, Skúlagötu 72, Reykjavík ,,fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni:

I.

Á hendur ákærða Mána fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt fimmtu­dagsins 7. mars 2002, brotist inn í fyrirtækið Íslandspóstur að Stórhöfða 29, Reykja­vík, og stolið þaðan tveimur Nokia 5110 GSM símum samtals að verðmæti kr. 30.000,- 12 símakortum, og tölvumús, og reynt að stela farsíma að gerðinni Ericson, 11 stk. gsm símum af gerðinni Nokia 5110, tölvuforritum og fjöltengi, samtals að verðmæti um kr. 200.000,-

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Á hendur báðum ákærðu fyrir þjófnað með því að hafa laugardaginn 9. mars 2002, stolið skiptimynt og posavél á veitingastaðnum Te og Kaffi, í verslunar­miðstöðinni Smáralind, Hagasmára 1, Kópavogi.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Í málinu gerir Sigmundur Dýrfjörð þá kröfu f.h. Kaffiheims ehf., kt. 491001-1910, að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 10.000,- auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi 9. mars 2002, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

III.

Á hendur báðum ákærðu fyrir þjófnað með því að hafa laugardaginn 9. mars 2002, brotist inn í verslunina Ásta G. verslunarmiðstöðinni Smáralind, Hagasmára 1, Kópavogi, og stolið þaðan Canon faxtæki og síma, þráðlausum síma, síma af gerðinni Ericson, Posavél af gerðinni Omni, reiknivél, stimplum, magnara fyrir sjónvarp, DVD spilara af gerðinni Philips, geislaspilara af gerðinni Philips, 40 geisladiskum, magnara fyrir geislaspilara, af gerðinni Konwood KAF, samtals að verðmæti um kr. 200.000, skófatnaði og töskum að verðmæti kr. 200.000,- samtals kr. 78.000,- í peningum, auk ávísana.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Í málinu gerir Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir þá kröfu f.h. Skæði ehf., kt. 460588-1389, að ákærðu verði dæmdir til að greiða Skæði ehf., bætur að fjárhæð kr. 867.280,- auk dráttarvaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi 10. mars 2002, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags.

IV.

Á hendur ákærða Mána fyrir þjófnað með því að hafa fimmtudaginn 14. mars 2002, stolið eftirlitsmyndavél af gerðinni Videotronic, úr F-inngangi verslunar­miðstöðvarinnar Smáralind, Hagasmára 1, Kópavogi, að verðmæti kr. 56.000,-

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Í málinu gerir Erla Friðriksdóttir þá kröfu f.h. Smáralindar ehf., kt. 550496-2329, að ákærði verði dæmdur til að greiða Smáralind ehf. bætur að fjárhæð kr. 56.000,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi 14. mars 2002, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga til greiðslu­dags.

V.

Á hendur ákærða Mána fyrir þjófnað með því að hafa fimmtudaginn 14. mars 2002, stolið 16.000,- kr. í peningum úr versluninni Ís-inn, í verslunarmiðstöðinni Smáralind, Hagasmára 1, Kópavogi.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Í málinu gerir Sófus Gústavsson þá kröfu f.h. Inn 2000 ehf., kt. 621292-3589, að ákærði verði dæmdur til að greiða Inn 2000 ehf. bætur að fjárhæð kr. 42.083,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi 14. mars 2002 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, til greiðsludags.

VI.

Á hendur ákærða Mána fyrir þjófnað með því að hafa föstudaginn 15. mars 2002, stolið þremur áfengisflöskum, samtals að verðmæti kr. 5.790- í verslunni ÁTVR, Eiðistorgi 11, Reykjavík.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

VII.

Á hendur ákærða Mána fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. mars 2002, haft í vörslum sínum 0,55 grömm af marihuana, inni á veitingastaðnum Pakkhúsið, Austurvegi 2b, Selfossi.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 82, 1998, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 10, 1997, og 2., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. reglugerð nr. 177, 1986.

VIII.

Á hendur ákærða Mána fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 17. mars 2002, á veitingastaðnum Kaffi Viktor, Hafnarstræti 1-3, Reykjavík, stolið eftirfarandi munum:

1.              Stolið farsíma af gerðinni Nokia 8050, og seðlavesi sem innihélt m.a. tvö kreditkort og fjögur debetkort, úr veski í eigu Rawiwan Putthwan, sem var gestur á veitingastaðnum í umrædd sinn.

2.              Stolið seðlaveski sem m.a. innihélt debetkort og ökuskírteini, og farsíma af gerðinni Motorola Talkabout, úr vasa á jakka í eigu Hauks Davíðs Magnússonar, sem var gestur á veitingastaðnum í umrætt sinn.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

IX.

Á hendur ákærða Mána fyrir þjófnað með því að hafa sunnudaginn 17. mars 2002, stolið tveimur Playstation leikjatölvum, samtals að verðmæti kr. 69.980,- í versluninni Hagkaup, Smáralind, Hagasmára 1, Kópavogi.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

X.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, og að ákærða Mána verði gert að sæta upptöku á fíkniefnum þeim sem tilgreind eru í VII. kafla ákærunnar, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986. "

 

Ákærður Jón Ingi hefur neitað sök um að hafa tekið þátt í þjófnaðarbrotum þeim sem greind eru í II. og III. kafla ákæru.

Ákærður Máni hefur viðurkennt að hafa framið þau brot sem hann er sakaður um en hann var með úrskurði 18. apríl sl., gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 17. maí nk. meðan máli þessi væri ólokið á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  Það þótti því við þessar aðstæður hentugra og horfa til flýtis að skilja þátt ákærða Jón Inga frá málinu og var það gert með vísun í 24. gr. laga nr. 19/1991 og hefur það mál hlotið númerið S-765/2002.

Mál þetta er dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991. Með skýlausri játningu ákærða sem er í samræmi við rannsóknargögn málsins þykir sannað að hann hafi framið brot þau sem honum eru gefin að sök og rétt eru færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærður á að baki þó nokkurn sakaferil.  Samkvæmt sakavottorði hans var hann fyrst dæmdur fyrir þjófnaðarbrot árið 1983.  Á næstu árum til 1993 gerðist hann ítrekað sekur um brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana og fíkniefni.  Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða frá 4. júlí 1997, var ákærður dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna þjófnaðarbrots og brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni, og með dómi sama dómstóls 13. október sama ár var hann aftur dæmdur vegna þjófnaðarbrota, fölsunar og brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni.  Ákærður var síðast dæmdur til fangelsisrefsingar með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 12. mars 1999 og þá í 18 mánaða fangelsi vegna þjófnaða og brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni og voru í þeim dómi eftirstöðvar refsingar 172 fangelsi, sem ákærði hafði fengið reynslulausn á dæmdar með.

Við refsimat í málinu ber að líta til þess að framangreindir dómar hafa samkvæmt 71. gr. ítrekunaráhrif í málinu og verður refsing ákærða ákveðin með hlið­sjón af 77. gr.  og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Hins vegar þykir það horfa til refsimildunar gagnvart ákærða að hann hefur á síðari stigi rannsóknar verið samvinnufús og gengist greiðlega við brotum sínum hér fyrir dómi.

 Að öllu virtu þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði.

Með vísun til 76. gr. almennra hegningarlaga ber gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 18. mars sl. til uppkvaðningar dóms þessa koma með fullri dagatölu til frádráttar refsingunni.

Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986 ber ákærður að hlíta upptöku á 0,55 gr. af marihúana.

Ákærður hefur fallist á kröfu Sigmundar Dýrfjörð fyrir hönd Kaffiheims ehf. að fjárhæð kr. 10.000 auk vaxta og er hún tekin til greina, en hann hefur krafist frá­vísunar á öðrum bótakröfum.

Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir gerir fyrir hönd Skæði ehf. kröfur um 867.280 krónur í bætur auk vaxta.  Í kröfunni er yfirlit um muni þá, sem taldir hafa verið teknir í versluninni auk þess kostnaðar, sem talinn er hafa leitt af lokun verslunarinnar Skóverslun Ástu G.  Engir reikningar eða önnur gögn eru til staðfestingar þessari kröfu né kostnaðarmat.  Fallist er á að gegn mótmælum ákærða verður ekki lagður efnisdómur á kröfuna og er henni vísað frá vegna vanreifunar.

Krafa Erlu Friðriksdóttur fyrir hönd Smáralindar ehf. er ekki heldur studd neinum gögnum og er vísað frá vegna varnreifunar.

Þá eru ekki tök á gegn mótmælum ákærða að taka til greina  að fullu kröfu Ís-inn ehf.  Ákærður hefur viðurkennt að hafa tekið kr. 16.000 úr versluninni og verður hann dæmdur til að greiða það auk vaxta svo sem tilgreint er í kröfugerð.  Krafan er ekki studd neinum gögnum, svo sem niðurstöðu talningar eða gögnum úr sjóðvél og er því vísað frá  að öðru leyti.

Dæmar ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnar­laun skipaðs verjanda hans Steingríms Gauts Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns og verjandalaun hans á rannsóknarstigi málsins sem í heild ákveðast kr. 105.000.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

DÓMSORÐ:

Ákærður Máni Freysteinsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.  Til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. mars til dagsins í dag með fullri dagatölu.

Ákærður sæti upptöku á 0,55 g af marihúana.

Ákærður greiði Kaffiheimi ehf., kt. 491001-1910, 10.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. mars 2002 til 3. apríl 2002, en dráttar­vexti skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim tíma til greiðsludags.

Ákærður greiði Inn 2000 ehf., kt. 621292-3589, 16.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. mars sl. til 3. apríl sl. en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim tíma til greiðsludags, en kröfu félagsins er að öðru leyti vísað frá dómi.

Kröfu  Skæðis ehf. að fjárhæð kr. 867.280,- og Smáralindar ehf. að fjárhæð kr.56.000,- er vísað frá dómi.

Ákærður greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hrl. Steingríms Gauts Kristjánssonar og verjandaþóknun hans á rannsóknar­stigi málsins, alls 105.000 krónur.