Hæstiréttur íslands

Mál nr. 510/2013


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppgjör


                                     

Þriðjudaginn 17. desember 2013.

Nr. 510/2013.

Útvarp Saga ehf.

(Kjartan Ragnars hrl.)

gegn

Sigurði Guðmundi Tómassyni

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

Ráðningarsamningur. Uppsögn.

S krafði Ú ehf. um greiðslu vangoldinna launa og tiltekinna launatengdra greiðslna í tengslum við starfslok hans hjá félaginu. Í málinu krafðist Ú ehf. sýknu á þeirri forsendu að S hefði ekki mætt aftur til vinnu að loknu sumarleyfi en með því hefði S einhliða slitið ráðningarsambandi aðila og þar með fyrirgert rétti sínum til frekari launa. Talið var að S hefði tekist að færa nægar sönnur að svo hefði samist með aðilum að hann færi í launalaust leyfi að loknu sumarleyfi. Þá þótti sannað að Ú ehf. hefði fyrirvaralaust sagt S upp störfum er framkvæmdastjóri félagsins hafnaði vinnuframlagi S þegar hann hugðist mæta aftur til starfa að leyfinu loknu. Var Ú ehf. því dæmt til að greiða S laun út þann mánuð er hann bauð fram vinnuframlag sitt og laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt  ákvæðum ráðningarsamnings aðila, auk annarra launatengdra greiðslna. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að honum verði einungis gert að greiða stefnda 130.982 krónur auk „vaxta frá 1. janúar 2011“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Efni ráðningarsamnings aðila frá 3. október 2006 er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var samningurinn ótímabundinn en uppsegjanlegur af beggja hálfu með þriggja mánaða fyrirvara. Ágreiningslaust er að sumarleyfi stefnda 2010 hófst 25. maí og því lauk 29. júní það ár. Málsaðila greinir hins vegar á um hvort svo hafi um samist með þeim að stefndi færi í launalaust leyfi að loknu sumarleyfi til að gegna leiðsögumannsstarfi þá um sumarið og kæmi aftur til starfa um miðjan september sama ár. Stefndi heldur því fram að munnlegt samkomulag í þá veru hafi verið gert en því andmælir áfrýjandi og telur stefnda hafa slitið ráðningarsambandinu fyrirvaralaust með því að mæta ekki til starfa strax að loknu sumarleyfi.

Við mat á því hvort fyrir liggi í málinu sönnun þess að málsaðilar hafi gert samkomulag um launalaust leyfi sumarið 2010 er fyrst til þess að líta að samkvæmt framlögðu staðgreiðsluyfirliti ríkisskattstjóra var stefndi enn á launaskrá  áfrýjanda í ágúst 2010 og var því ekki tekinn af skránni í kjölfar þess að hann mætti ekki til starfa að loknu sumarleyfi í lok júní 2010. Í öðru lagi var framkvæmdastjóra áfrýjanda kunnugt um að stefndi hafði lokið leiðsögumannsprófi árið 2009 og starfað sem leiðsögumaður að hluta til í sumarfríi sínu það ár. Í þriðja lagi kom fram í vitnisburði Úlfars Antonssonar fyrirsvarsmanns og fyrrum eiganda Ferðamiðlunar ehf., sem stefndi gegndi leiðsögumannsstarfi hjá sumarið 2010, að hann minntist þess að stefndi hefði komið að máli við sig og leitað eftir leiðsögumannsstarfi þar sem hann yrði í launalausu leyfi frá störfum hjá áfrýjanda. Í fjórða lagi er til þess að líta að ekki liggja fyrir í málinu gögn því til staðfestingar að áfrýjandi hafi skorað á stefnda að mæta til vinnu strax að loknu sumarleyfi í lok júní 2010 í samræmi við starfsskyldur sínar.

Þegar framangreind atriði eru virt þykir stefndi hafa fært að því nægar sönnur að svo hafi um samist með málsaðilum að hann færi í launalaust leyfi sumarið 2010 í framhaldi af töku sumarleyfis. Þá þykir og í ljósi atvika málsins mega leggja til grundvallar að stefndi skyldi samkvæmt því samkomulagi hefja störf að nýju ekki síðar en 20. september það ár, en fyrir liggur í málinu að þá hugðist hann mæta til starfa á nýjan leik og tilkynnti framkvæmdastjóra áfrýjanda það með smáskilaboðum. Þeirri tilkynningu svaraði framkvæmdastjóri áfrýjanda í smáskilaboðum með orðunum: „Þú kemur allt of seint, Siggi minn.“ Samkvæmt þessu og í ljósi atvika málsins að öðru leyti eins og þeim er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi verður litið svo á að áfrýjandi hafi fyrirvaralaust sagt stefnda upp störfum með því að hafna vinnuframlagi hans. Á stefndi því rétt til launa í uppsagnarfresti sem var þrír mánuðir samkvæmt ákvæðum ráðningarsamningsins. Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins, sem ágreiningslaust er að gildir í skiptum málsaðila, skyldi uppsögn vera bundin við mánaðarmót. Á stefndi, sem bauð ítrekað fram vinnuframlag sitt, því rétt til launa frá 20. til 30. september 2010 svo sem kröfugerð hans tekur mið af. Ekki verður af gögnum málsins ráðið að stefndi hafi þegið frekari laun í uppsagnarfresti en þau sem hann dregur frá í endanlegri kröfugerð sinni. Samkvæmt þessu og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur í málinu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Útvarp Saga ehf., greiði stefnda, Sigurði Guðmundi Tómassyni, 550.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 22. júní 2012.

Stefnandi er Sigurður Guðmundur Tómasson, Sveinseyri, Mosfellsbæ.

Stefndi er Útvarp Saga ehf., Nóatúni 17, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda laun og orlof að fjárhæð 745.264 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. október 2010 af 102.879 krónum til 1. nóvember 2010 og frá þeim degi af 87.622 krónum  til 1. desember 2010 og frá þeim degi af 335.322 krónum til 1. janúar 2011 og frá þeim degi af 745.264 krónum til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og vaxta af málskostnaði samkvæmt 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisauka af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar um fjárhæð sem nemur að lágmarki launagreiðslum til stefnanda frá öðrum í ætluðum uppsagnarfresti.

Stefndi krefst einnig hæfilegs málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Stefndi rekur útvarpsstöð. Í málinu liggur frammi samningur milli málsaðila, dagsettur 3. október 2006, um störf stefnanda fyrir stefnda. Þar kemur fram að stefnandi skuldbindur sig til að vinna fyrir stefnda sem dagskrárgerðarmaður og að hann hafi hafið störf 2. október 2006. Þá segir að stefnandi sé launþegi og að umsamin laun nemi 225.000 krónum á mánuði. Vinnutími stefnanda er ákveðinn tvær klukkustundir í beinni útsendingu alla virka daga frá mánudegi til föstudags. Loks er ákvæði um að samningurinn sé ótímabundinn en uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.

Í stefnu er því lýst að aðilar hafi samið um að stefnandi fengi launalaust leyfi um sumarið 2010 til að sinna leiðsögumannsstarfi og hafi hann átt að koma til baka er því lyki um eða eftir miðjan september. Stefnandi kveðst áður hafa fengið sams konar leyfi til að sinna slíku starfi yfir sumartímann. Þessu mótmælir stefndi og kveður stefnanda hafa átt sumarleyfi í 25 virka daga og hafi það hafist þriðjudaginn 25. maí. Stefndi hafi því átt að mæta aftur til vinnu 30. júní. Ekkert samkomulag hafi hins vegar verið gert milli aðila um lengra orlof eða launalaust leyfi. Óumdeilt er að stefnandi mætti ekki til vinnu hjá stefnda 30. júní 2010 heldur starfaði hann við leiðsögumannsstörf fram í september.

Stefnandi kveðst ítrekað hafa reynt að ná sambandi við framkvæmdastjóra stefnda um miðjan september til að staðfesta komu sína aftur til starfa en án árangurs. Þar sem ekki hafi náðst í framkvæmdastjórann, kveðst stefnandi hafa sent honum smáskilaboð 19. september um að hann væri tilbúinn til starfa næsta dag, 20. september. Hann hafi hins vegar fengið smáskilaboð til baka um að ekki væri gert ráð fyrir honum í vetrardagskránni. Samkvæmt framlagðri útprentun úr tölvupósti framkvæmdastjóra stefnda sendi stefnandi stefnda tölvupóst 28. september þar sem stefnandi lýsti þeirri skoðun sinni að smáskilaboð framkvæmdastjórans til sín fælu í sér uppsögn. Áréttaði stefnandi jafnframt að samkvæmt kjarasamningum bæri að segja honum upp skriflega, ef um það væri að ræða, með þriggja mánaða fyrirvara, en ella bæri stefnda að greiða stefnanda laun frá því hann kom til starfa.

Af hálfu stefnda er því lýst að ekkert hafi heyrst frá stefnanda fyrr en að kvöldi 19. september þegar hann sendi smáskilaboð til framkvæmdastjóra stefnda og boðaði komu sína í þátt á útvarpsstöðinni daginn eftir, mánudaginn 20. september, kl. 9:00. Stefnandi hafi hins vegar ekki óskað eftir viðtali við framkvæmdastjóra stefnda um hina ætluðu uppsögn og hugsanlega endurráðningu, eins og gert sé ráð fyrir í kjarasamningi.

Stefndi kveðst hafa greitt stefnanda laun til 30. júní 2010 og litið svo á að með þeirri greiðslu hefðu launagreiðslur til stefnanda verið gerðar upp að fullu. Hafi stefnandi því verið tekinn af launaskrá og ekki gert ráð fyrir þætti hans í vetrardagskrá útvarpsstöðvarinnar. Í júlí 2010 hefði starfsfólk stefnda reynt að hafa samband við stefnanda og komið til hans skilaboðum. Frá stefnanda hafi borist skilaboð um að hann myndi hafa samband en það hafi hann hins vegar ekki gert. Við aðalmeðferð málsins var þessari málavaxtalýsingu stefnda mótmælt og við skýrslutöku við aðalmeðferð málsins kannaðist stefnandi ekki við það að starfsmenn stefnda hefðu haft samband við hann um sumarið. 

Stefndi kveðst ekki hafa ljáð máls á því í september 2010 að stefnandi yrði endurráðinn þar sem vetrardagskrá útvarpsstöðvarinnar hefði þá verið frá gengin. Er tekið fram að borið hafi á samskiptaörðugleikum milli aðila áður en sumarleyfi stefnanda hófst hinn 25. maí 2010. Þá hefði stefnandi mánuðina á undan látið í veðri vaka að hann hygðist láta af störfum hjá stefnda.

VR sendi stefnda bréf hinn 7. október 2010 og benti á að ef slíta ætti vinnusambandi, bæri að gera það með uppsagnarfrestsfyrirvara. Samhliða því var vinnuframlag stefnanda boðið fram. Gefinn var frestur til 15. október 2010 til þess að boða stefnanda til vinnu og því lýst yfir að annars yrði litið svo á að vinnuframlagi hans væri hafnað og að um fyrirvaralausa uppsögn væri að ræða af hálfu stefnda. Í bréfi VR til stefnda, dagsettu 4. nóvember sama ár, var því lýst að stefnandi hefði, í framhaldi af bréfinu frá 7. október sama ár, áskilið sér rétt til greiðslu launa frá 20. september, auk launa í uppsagnarfresti fyrir október, nóvember og desember 2010, uppgjörs á orlofi og hlutdeild í orlofs- og desemberuppbót. Voru þar jafnframt settir fram útreikningar á kröfu stefnanda á hendur stefnda. Ítrekunarbréf var sent til stefnda frá lögmanni stefnanda hinn 15. nóvember 2010 en kröfum stefnanda var hafnað sem og vinnuframlagi hans. Reyndar hafa verið sættir í málinu en án árangurs.

II.

Stefnandi gerir í máli þessu kröfu um að stefndi greiði honum ógreidd laun vegna vinnu stefnanda hjá stefnda fyrir september 2010, auk launa í uppsagnarfresti í október, nóvember og desember 2010 og orlofs og orlofs- og desemberuppbóta.  Byggir stefnandi kröfur sínar á því að hann hafi aldrei sagt upp störfum hjá stefnda, enda hafi verið í gildi samkomulag milli aðila um launalaust leyfi stefnanda frá störfum yfir sumartímann. Verði því að líta svo á að stefndi hafi hafnað vinnuframlagi stefnanda og að um sé að ræða fyrirvaralausa uppsögn af hálfu stefnda. 

Stefnandi vísar til þess að stefnda hafi veri fullkunnugt um að stefnandi tók að sér árstíðabundið starf og kæmi aftur til starfa að því loknu, enda hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu stefnda þegar leyfið hófst. Ef stefndi hefði litið svo á að stefnandi væri að hætta störfum, hefði hann átt að tilkynna stefnanda um það.

Samkvæmt 1.9 gr. í kjarasamningi VR og SA, sem gildi frá febrúar 2008, eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun eru greidd fyrir.  Samkvæmt 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 beri vinnuveitanda að greiða áunnin orlofslaun við lok ráðningartímans, auk þess að greiða áunnið hlutfall launþega af orlofs- og desemberuppbótum samkvæmt köflum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningi VR og SA. 

Krafa stefnanda um vangoldin laun fyrir september 2010, laun í uppsagnarfresti þ.e. október, nóvember og desember 2010, auk orlofs og orlofs- og desemberuppbóta, sundurliðist þannig:

Laun vegna sept. 2010

102.879,00

Laun í uppsag.fr. v/ okt. 2010

247.700,00

Laun í uppsag.fr. v/ nóv. 2010

247.700,00

Laun í uppsag.fr. v/ des. 2010

247.700,00

Orlof v/launa frá 1. maí 2010

114.310,00

Orlofsuppbót 2010 = 5/12 hlutar

    8.125,00

Desemberuppbót 2010 = 9/12 hlutar

  39.825,00

Samtals

1.008.239,00

Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi kröfu sína sem nam launum hans vegna leiðsögumannsstarfa hans hjá Ferðamiðlun ehf. í október 2010 að fjárhæð  262.975 krónum.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups, laga  um orlof nr. 30/1987, meginreglna kröfuréttar, meginreglna vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókana sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. og V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig krefst stefnandi virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

III.

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi slitið ráðningarsambandi aðila með því að mæta ekki til vinnu hjá stefnda að loknu sumarleyfi 30. júní 2010, eða um það leyti. Brotthlaup stefnanda úr starfi hafi falið í sér verulega vanefnd og ólögmæta riftun á ráðningarsamningnum. Með því hafi stefnandi glatað rétti til frekari launa úr hendi stefnda. Launþegi, sem ákveði að láta af störfum, eigi því aðeins uppsagnarfrest að hann segi upp samningi með lögmætum hætti en það hafi stefnandi ekki gert. Þá beri launþega að vinna út uppsagnarfrestinn eða að minnsta kosti að bjóða fram vinnu sína. Hvorugt hafi stefnandi gert, enda hafði hann þá ráðið sig í vinnu hjá öðrum vinnuveitanda.

Engir samningar hafi komist á milli aðila um að stefndi fengi launalaust leyfi til haustsins 2010. Eigi stefnandi því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti úr hendi stefnda, enda njóti launþegi, sem hleypst úr starfi, ekki uppsagnarfrest heldur baki hann sér bótaábyrgð gagnvart vinnuveitanda, sbr. 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 og dómaframkvæmd. Hefði stefnandi hins vegar krafist launa í uppsagnarfresti þegar hann lét af störfum um mánaðamótin júní/júlí 2010, hefði stefndi krafist vinnuframlags stefnanda með á uppsagnarfresti stóð, eins og stefndi átti ótvíræðan rétt á.

Samkvæmt framangreindu hafi stefndi ekki getað sagt stefnanda upp störfum 19. september 2010, eins og byggt sé á í stefnu, þar sem stefnandi hafði þá sjálfur slitið ráðningarsambandinu með því að mæta ekki til vinnu að loknu sumarleyfi um mánaðamótin júní/júlí 2010. Engin tilkynningarskylda gagnvart stefnanda hafi hvílt á stefnda, eins og staðhæft sé í stefnu.

Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi á því að stefnandi eigi ekki á kostnað stefnda að hagnast á að hafa skipt um starf. Ef réttur stefnanda til launa í uppsagnarfresti verði viðurkenndur, beri að draga frá launafjárhæðinni launagreiðslur frá öðrum vinnuveitendum í ætluðum uppsagnarfresti. Þá vísar stefndi til þess að ekki sé ótvírætt hvort ætlaður uppsagnarfrestur stefnanda teljist vera frá 1. júlí 2010 til 30. september sama ár eða frá 1. október til 31. desember sama ár. Verði stefnandi því að upplýsa um allar launagreiðslur til sín eftir 1. júlí 2010 og jafnframt um verktakagreiðslur gegnum félag stefnanda Vænt og grænt, kt. 701297-3779. Í greinargerð stefnda er gerður áskilnaður um að krefjast frávísunar málsins verði ekki lögð fram gögn um launagreiðslur þessar og jafnframt að byggja sýknukröfu á þessum grunni, enda teldist þá ósannað að stefnandi hefði orðið fyrir fjártjóni eða launalækkun vegna vistaskiptanna.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar, samningaréttar og vinnuréttar og reglna um vanefndir og ólögmæta riftun samninga og afleiðingar þeirra. 

IV.

Ekki er í málinu tölulegur ágreiningur um útreikninga stefnanda á fjárhæð dómkröfu. Hins vegar greinir aðila á um það, hvort með þeim hafi samist um það í maí 2010 að stefnandi yrði í launalausu leyfi fram í september í kjölfar sumarleyfistöku, eins og stefnandi heldur fram, eða hvort líta beri svo á að stefnandi hafi slitið ráðningarsamningi sínum við stefnda þegar hann mætti ekki til vinnu 30. júlí 2010, eins og stefndi byggir á.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvað stefnandi það hafa verið um rætt í maí 2010 milli hans og framkvæmdastjóra stefnda að hann yrði meira og minna frá störfum á útvarpsstöðinni um sumarið vegna leiðsögumannsstarfa. Þessu hefur framkvæmdastjóri stefnda mótmælt og kvaðst hún hafa talið að stefnandi ætlaði einungis í venjubundið sumarleyfi sumarið 2010, enda hefði ekki verið samið við stefnanda um að hann færi í launalaust leyfi. Hefði því verið búist við að stefnandi sneri aftur til vinnu að loknu sumarleyfi í lok júní. Óumdeilt er að stefnandi kom ekki til vinnu á þeim tíma og kvaðst framkvæmdastjórinn því hafa litið svo á að stefnandi hefði hætt störfum á útvarpsstöðinni. Í ljósi framangreinds þykir ekki liggja ljóst fyrir að samið hafi verið um leyfistöku svo sem stefnandi heldur fram. Þá er framburður stefnanda og framkvæmdastjóra stefnda ekki á sama veg um það, hvort starfsmenn stefnda hafi haft samband við stefnanda eða komið skilaboðum til hans í júlí 2010, svo sem stefndi heldur fram. Liggja engin gögn fyrir í málinu sem styðja fullyrðingu stefnda að þessu leyti. Hins vegar verður ráðið af framlögðu staðgreiðsluyfirliti Ríkisskattstjóra að stefnandi hafi enn verið á launaskrá hjá stefnda í ágúst 2010 en hafi ekki verið tekinn út af skránni strax í kjölfar þess að stefnandi mætti ekki til vinnu 30. júní, eins og byggt er á í greinargerð stefnda. Þegar litið er til framangreinds verður ekki fallist á það með stefnda að honum hafi verið rétt að líta svo á, án nánari athugunar, að stefnandi hefði slitið ráðningarsamningi sínum við stefnda með því að mæta ekki til vinnu 30. júní og þannig vanefnt ráðningarsamninginn verulega. Bar stefnda að grennslast fyrir um það, hvers vegna stefnandi mætti ekki til vinnu sinnar og veita honum síðan áminningu eða gefa honum kost á að bæta ráð sitt, ef hann taldi um vanrækslu að ræða. Er ágreiningslaust að það var ekki gert. Er því ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi hlaupist úr starfi í lok júní 2010 og rift ráðningarsamningi aðila með ólögmætum hætti.

Óumdeilt er að hinn 19. september tilkynnti stefnandi framkvæmdastjóra stefnda með smáskilaboðum að hann væri tilbúinn til að mæta til starfa við þáttastjórn á útvarpsstöð stefnda daginn eftir. Þá liggur fyrir að framkvæmdastjóri stefnda svaraði stefnanda sama kvöld með smáskilaboðum þess efnis að stefnandi væri of seinn og að ekki væri gert ráð fyrir honum í vetrardagskrá útvarpsstöðvarinnar. Er því jafnframt lýst í greinargerð stefnda að hann hafi í september ekki ljáð máls á því að stefnandi yrði endurráðinn. Þykir því verða að miða tímamark starfsloka stefnanda hjá stefnda við það þegar stefnandi fékk framangreind smáskilaboð frá framkvæmdastjóra stefnda.

Í ljósi alls framangreinds verður að líta svo á að stefnanda hafi með framangreindum hætti verið sagt upp starfi sínu hjá stefnda, án þess að fyrir liggi að honum hafi verið veitt áminning eða gefinn kostur á að bæta ráð sitt. Er því fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt til launa í uppsagnarfresti sem reiknast frá næstu mánaðamótum eftir uppsögn, 1. október 2010, eins og krafist er. Óumdeilt er að stefnandi hóf störf hjá stefnda á árinu 2006 og á stefnandi því samkvæmt kafla 12.1. í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins rétt til launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. október að telja. Þá er ljóst af gögnum málsins og óumdeilt að starfskraftar stefnanda voru boðnir fram með bréfi stéttarfélags stefnanda fyrir hans hönd, dagsettu 7. október 2010. Í ljósi niðurstöðu dómsins um að miða skuli starfslok stefnanda hjá stefnda við 19. september 2010 verður fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt á launum fyrir þann mánuð.

Að framangreindu virtu og með vísan til ákvæða 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 verður jafnframt fallist á kröfu stefnanda um greiðslu áunninna orlofslauna, auk áunnins hlutfalls launþega af orlofs- og desemberuppbótum, sbr. gr. 1.3.1. og 1.3.2. í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins.

Í greinargerð er varakrafa stefnda um lækkun á dómkröfum stefnanda byggð á því að stefnandi eigi ekki á kostnað stefnda að hagnast á því að skipta um starf og því beri að lækka kröfu stefnanda um laun í uppsagnarfresti sem nemur þeim launum, sem stefnandi hafi fengið frá öðrum vinnuveitendum á ætluðum uppsagnarfresti. Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi kröfu sína um 262.975 krónur sem samsvarar launum, sem framlögð gögn bera með sér að hann hafi fengið greidd vegna leiðsögumannsstarfa í október 2010. Að öðru leyti verður ekki af gögnum málsins ráðið að stefnandi hafi þegið frekari laun frá öðrum launagreiðendum meðan á uppsagnarfrestinum stóð frá 1. október til 31. desember 2010. Að þessu virtu er varakröfu stefnda um frekari lækkun hafnað.

Samkvæmt því sem hér að framan er rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 745.264 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. 

Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 530.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Útvarp Saga ehf., greiði stefnanda, Sigurði Guðmundi Tómassyni, 745.264 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 102.879 krónum frá 1. október 2010 til 1. nóvember 2010, af 87.622 krónum frá þeim degi til 1. desember 2010 af 335.322 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2011 og af 745.264 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 530.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.