Hæstiréttur íslands

Mál nr. 215/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Sératkvæði


                                     

Miðvikudaginn 19. júní 2013.

Nr. 215/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X og

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Y

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður.)

Kynferðisbrot. Sératkvæði.

X og Y voru ákærðir fyrir nauðgun með því að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka, en þeir hefðu haldið í hendur hennar og nýtt sér yfirburði vegna aðstöðu- og aflsmunar. Hæstiréttur taldi að í skýrslum A hjá lögreglu og fyrir dómi hefði gætt verulegs misræmis um ýmis mikilvæg atriði og að um önnur slík atriði hefði framburður hennar stangast á við sýnileg sönnunargögn. Hefði héraðsdómur ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig unnt væri að leggja frásögn A til grundvallar í málinu. Þá hefðu verið annmarkar á rannsókn málsins hjá lögreglu sem ekki væri unnt að bæta úr nema að hluta. Þrátt fyrir þessa annmarka var það metið svo að ómerking héraðsdóms gæti ekki þjónað tilgangi og að leggja yrði efnisdóm á málið. Var það niðurstaða Hæstaréttar að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt X og Y, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og voru þeir því sýknaðir.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærði X krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í héraði, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að krafan verði lækkuð.

Ákærði Y krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst hann sýknu af einkaréttarkröfu A.

A krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.

I

Ákærðu er gefin að sök nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. nóvember 2011 að [...], Reykjavík, með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka, en ákærðu hafi haldið í hendur hennar og nýtt sér yfirburði vegna aðstöðu- og aflsmunar. Ákærði X hafi afklætt A og þröngvað henni til samræðis og síðan hafi ákærðu skipst á að þröngva henni til munnmaka við hvorn um sig á meðan hinn hafi haft við hana samræði.

Fram er komið í málinu að ákærði X kom 21. nóvember 2011 í [...] þar sem A starfaði og að ósk hans gaf hún honum upp símanúmer sitt. Ákærði og A munu ekkert hafa þekkst á þeim tíma og bera gögn með sér að ákærði hafi næstu daga hringt oft í hana og sent smáskilaboð þar sem hann leitaði frekari samskipta við hana án þess að séð verði af svörum hennar að áhuginn hafi verið gagnkvæmur. Af gögnum málsins má sjá að alls fóru 133 smáskilaboð þeirra á milli, þar af sendi ákærði 96 en hún 37. Hinn 26. nóvember 2011 var A í veislu með vinnufélögum sínum. Laust fyrir klukkan sjö það kvöld sendi ákærði X henni smáskilaboð um að hann vildi hitta hana. Gögn málsins eru ekki ljós um nákvæmar tímasetningar á sendingum þeirra í milli, en samkvæmt þeim spurði A um nafn sendandans og fékk svar að hann héti X með spurningu um hvort hún hafi ákveðið að gera eitthvað sérstakt um kvöldið. Samkvæmt gögnum sendi ákærði þrjú önnur smáskilaboð án þess að fá svar fyrr en um klukkan 19.15 um að hún væri að skemmta sér. Nokkru síðar sendi ákærði A fjögur skeyti þar sem hann bað hana að hringja í sig og spurði hvers vegna hún hafi ekki svarað honum. Þá spurði hann einnig hvort hún væri hrædd við hann eða ætti kærasta og sagði svo að honum þætti kjánalegt að hann hefði daginn áður eytt símanúmeri hennar út af símanum sínum og þá byrji hún að senda honum smáskilaboð. Þessu svaraði A rúmlega hálfníu: „Okei, hringdu ta bara um 1 2“. Um miðnættið sendi ákærði henni skilaboð þar sem hann bað hana að hringja í sig þegar hún „getur talad“ og önnur hálftíma síðar þar sem hann sagði henni að fara heim og að hann kæmi þangað að sækja hana. Um það bil tuttugu mínútum síðar sendi ákærði svo þriðja skeytið þar sem hann sagði A ekki mega svíkja sig. Að lokinni skemmtun fór hún á matsölustaðinn [...] við [...]. Rétt fyrir klukkan 4.30 sendi A ákærða skilaboð þar sem hún bað hann um að skutla sér heim og að fengnu svari frá ákærða þar sem hann játti því og spurði hvar hún væri sendi hún önnur skilaboð þar sem kom fram að hún væri á [...]. Í beinu framhaldi af því áttu sér stað símtöl milli þeirra. Nokkrum mínútum síðar komu ákærðu á bifreið að [...] og fór A með þeim. Sat hún í aftursæti bifreiðarinnar, en ákærði X ók bifreiðinni og við hlið hans sat ákærði Y. Komið var við á bensínstöð [...] við [...] áður en ekið var að heimili ákærða Y að [...] þar sem ákærðu höfðu samræði og önnur kynferðismök við A. Því næst óku ákærðu henni til B og C að [...] eftir að hún hafði haft símsamband við C. Er hún kom þangað hringdi sá síðastnefndi í neyðarlínu laust fyrir klukkan 5.30 um morguninn, eða klukkan 5.25 samkvæmt skýrslu lögreglu en klukkan 5.21 samkvæmt gögnum frá neyðarlínu. Lögregla sótti A og flutti á neyðarmóttöku Landspítalans. Lögregla handtók ákærðu síðar um daginn og hafa þeir neitað sök við alla meðferð málsins.

Í frumskýrslu lögreglu, sem héraðsdómur styður málavaxtalýsingu við, var meðal annars haft eftir A að maður að nafni D hefði hringt til sín um nóttina og spurt hvar hún væri. Hún hefði sagst vera stödd á veitingastaðnum [...] við [...]. Maðurinn hefði síðan komið á svartri bifreið í fylgd annars manns og þeir dregið hana inn í bifreiðina og ekið að húsi skammt frá. D hefði borið hana á háhesti inn í íbúð á jarðhæð hússins og þar hefðu mennirnir nauðgað henni, bæði í rúmi sem þar var og annars staðar í íbúðinni. A segði D þennan vera viðskiptamann myndbandaleigu þar sem hún ynni, hún hefði gefið honum upp símanúmer sitt og þau í kjölfarið verið í símasamskiptum. A hefði lýst mönnunum fyrir lögreglu og gefið upp símanúmer mannsins er hún kallaði D.

II

Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar skýrslur ákærðu og vitna, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að framburður ákærðu sé um margt misvísandi og ótrúverðugur og að skýrslur þeirra beri með sér að þeir hafi leitast við að samræma framburð sinn. Hafi ákærði X hitt A nokkrum dögum fyrir atburðinn og hún borið að ákærði hefði verið mjög ágengur við sig, en hún ekki haft áhuga á frekari kynnum. Fái sá framburður stoð í gögnum um símasamskipti þeirra og framburði vitna. A hafi ekki kannast við að hafa sent ákærða smáskilaboð um að sækja sig þessa nótt og gefið þá skýringu að skilaboðin hafi verið öðrum ætluð. Í ljósi þess sem komið hafi fram um samskipti hennar og ákærða X sé frásögn hans um að hann hafi kysst hana í bifreið með miklum ólíkindablæ og verði sú ályktun dregin af framburði ákærða Y við upphaf lögreglurannsóknar að hann hafi ekki orðið vitni að slíku, þótt hann hafi borið um það á síðari stigum. Þá vísaði héraðsdómur til þess að framburður ákærða X um að E til heimilis að [...] og ónefndur leigubifreiðastjóri hafi séð A fara sjálfviljuga á heimili hans fái ekki stoð í framburði E. Sá framburður hafi verið óljós um þetta og ákærði Y sagt að enginn hefði verið fyrir utan hús sitt er þau komu þangað umrædda nótt. Auk þess hafi eftirgrennslan lögreglu ekki leitt í ljós að leigubifreið hafi verið kölluð að [...] umrætt sinn. Þá vísar héraðsdómur til aðdraganda þess að ákærðu höfðu kynferðismök við A og vottorðs sálfræðings um viðtöl við hana með þeirri niðurstöðu að framburður hennar sé trúverðugur um atriði er skipti máli og fái jafnframt stoð í framburði vitna og öðrum gögnum málsins. Taldi héraðsdómur framburð ákærðu að sama skapi ótrúverðugan og „misvísandi um tiltekin atriði“, sem ekki eru tilgreind nánar. Því bæri að að leggja frásögn A til grundvallar niðurstöðu.

III

Í skýrslu 27. nóvember 2011 kvaðst A hafa beðið á [...] eftir að kærasti systur sinnar, F að nafni, kæmi að sækja sig. Þá hefði ákærði X hringt og spurt hvar hún væri og hún sent honum skilaboð um það en jafnframt látið vita að hún væri að fara heim. Í kjölfarið hafi ákærði komið á staðinn. Hún hafi verið að reykja fyrir utan húsið er hann kom og dró sig inn í bifreiðina. Í skýrslu 28. nóvember 2011 kvaðst hún einnig hafa verið að bíða eftir áðurnefndum F sem hafi ætlað að sækja hana eftir að hún hefði beðið hann um það í síma. Hún kvaðst ekki minnast þess að hafa sent ákærða smáskilaboð um að hún væri á [...] en minnti að hún hefði talað um það við hann í síma. Þá kvaðst hún hafa verið inni á matsölustaðnum er ákærðu bar að. Hafi hún farið sjálfviljug inn í bifreiðina eftir að hafa kvatt kunningja sína er voru á staðnum. Fyrir dómi bar hún á sama veg um þetta síðastnefnda atriði, en nefndi að það hafi hún gert sökum þess að hún hafi talið að F væri í bifreiðinni. Hún hafi sest í aftursætið en ekki komist út aftur sökum þess að hurðinni hefði verið læst, að líkindum sjálfvirkt. Samkvæmt þessu er ekki samræmi í framburði A um aðdraganda þess og ástæður að hún hafi farið með ákærðu frá veitingahúsinu. Einnig er þess að gæta að gögn málsins bera með sér að auk þess að hafa sent ákærða X smáskilaboð frá [...] hringdi A til hans eitt skipti í kjölfarið og hann til hennar þrisvar, en fyrsta símtalið frá honum hafi staðið yfir í 30 sekúndur. Er þess ekki getið í hinum áfrýjaða dómi að A hringdi í ákærða X þessa nótt.

A nafngreindi þegar hjá lögreglu þá vinnufélaga sína sem hafi verið á [...] er ákærðu komu þangað, sem G, H og I. Ekki kvaðst hún vita fullt nafn mannanna en tiltók að hún vissi símanúmer þeirra. Enginn þeirra gaf skýrslu, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi. Þá gaf heldur ekki skýrslu sá F er A kvað vera kærasta systur sinnar og lofað hefði að sækja sig á [...]. Raunar er hvorki upplýst um fullt nafn þess manns né hefur verið bent á staðfestingu um samskipti þeirra tveggja í framlögðum gögnum um símtöl og skilaboð í og úr síma A umrædda nótt þrátt yfir að hún hafi borið að hún hafi þá um nóttina átt samtal í síma við þennan F og líklega einnig sent honum smáskilaboð. Ályktun héraðsdóms af framburði A fyrir dómi um að hún hafi talið sig vera að eiga samskipti með smáskilaboðum við F er ekki í samræmi við þau skilaboð sem gengu milli ákærða X og hennar og rakin eru í I. kafla dómsins.

Samkvæmt lögregluskýrslu 18. janúar 2012 fóru tveir lögreglumenn að [...] 28. nóvember 2011 og fengu að sjá myndskeið úr öryggismyndavél á staðnum þar sem A „sást sitja við borð og horfa út, eins og hún væri að bíða eftir einhverjum. Síðan sást A standa upp, kveðja nokkra menn sem þar voru og labba út.“ Lögregla hirti ekki um að óska eftir afriti úr öryggismyndavél staðarins fyrr en eftir ósk ríkissaksóknara um það bil ári síðar en samkvæmt lögregluskýrslu hafði myndefninu þá verið fargað. Fram kom að lögregla hefði við það tækifæri kannað með myndefni frá banka í næsta húsi þar við og fengið þær upplýsingar að tvær öryggismyndavélar sem á því húsi væru sneru í aðra átt en að [...].

Ákærðu hafa borið að ökuferðinni frá veitingahúsinu hafi upphaflega verið heitið að heimili A í [...] en á leið þangað hafi verið tekið bensín á bensínstöð við [...]. Gagnstætt þessu hefur A borið að ekið hafi verið rakleitt að heimili ákærða Y, sem ekki getur samrýmst að farið hafi verið í aðra átt á bensínstöð. Ákærði X hefur við alla meðferð málsins borið að A hafi byrjað að kyssa hann er ákærði Y hafði farið til að dæla bensíni á bifreiðina. Eins og getur í niðurstöðukafla héraðsdóms nefndi ákærði Y ekki fyrr en hann var yfirheyrður í þriðja sinnið hjá lögreglu 25. janúar 2012 að hafa séð ákærða X og A kyssast í bifreiðinni við bensínstöðina og vísaði hann þá jafnframt til þess að það hlyti að sjást á öryggismyndavélum. Aðspurður fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa skýringu á því hvers vegna hann hefði ekki nefnt þetta fyrr. Eins og greinir í héraðsdómi þvertók A ætíð fyrir að þau hefðu stöðvað á bensínstöðinni við [...], en myndskeið úr eftirlitsmyndavélum staðfesta frásögn ákærðu þar um.

Ákærðu og A ber heldur ekki saman um hvernig hún fór úr bifreið ákærða og inn í húsið að [...]. Í skýrslu A hjá lögreglu 27. nóvember 2011 virðist sem hún segi að ákærði X hafi borið sig á háhesti úr bifreiðinni og inn í húsið. Í skýrslu degi síðar bar hún hins vegar að þau þrjú hefðu gengið saman að húsinu en frá anddyri hefði ákærði Y borið sig inn. Var framburður hennar á sömu lund um þetta atriði fyrir dómi. Báðir ákærðu kváðu A hafa gengið sjálfviljuga inn í húsið.

Eins og rakið er í héraðsdómi kvaðst A ekki minnast þess að vitni hafi verið að því er þau fóru inn í húsið, en ákærði X bar þegar við fyrstu skýrslugjöf og æ síðan að leigubifreið hafi verið fyrir utan húsið og teppt aðkomu þeirra. Kvaðst hann hafa tekið leigubílstjórann tali og að beiðni hans hefði hann gert E, húsráðanda að [...], viðvart um komu leigubifreiðarinnar. Eins og fram kemur í héraðsdómi greindi ákærði Y á hinn bóginn ekki frá þessu atriði þótt hann væri sérstaklega um það spurður er hann gaf skýrslu öðru sinni hjá lögreglu 28. nóvember 2011. Þá kvaðst hann aðspurður við upphaf skýrslugjafar 25. janúar 2012 ekki vilja bæta við fyrri skýrslur sínar. Er lögreglumaður benti honum á að hann hefði fyrir skýrslutöku haft orð á því að E og leigubílstjóri hefðu séð þau fara á heimili sitt umrætt sinn kvað hann ákærða X hafa minnt sig á þetta eftir að hann hafði gefið skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa talið að lögregla hlyti að hafa tekið skýrslu af E og því hafi hann nefnt þetta við upphaf skýrslugjafarinnar.

Vitnið E gaf símaskýrslu hjá lögreglu 26. janúar 2012. Er lögregla kynnti honum tilefni skýrslunnar kvaðst hann kannast við málið, sem hann hefði rætt um við ákærða Y. Var haft eftir vitninu í lögregluskýrslunni að kunningi hans hafi verið í heimsókn umrædda nótt sem hann gæti þó ekki nafngreint. Hafi annar hvor þeirra hringt eftir leigubifreið. Vitnið hefði séð ákærðu og [...]hærða stúlku fyrir utan hús sitt og „allt hafi virst vera í góðu þeirra í milli.“ Sérstaklega aðspurður fyrir dómi kvaðst vitnið ekki geta lýst stúlkunni en halda að hún hafi verið lágvaxin og grönn. Vitnið kvaðst telja líklegt að frændi sinn, J að nafni, hefði verið í heimsókn hjá sér. Tók hann fram að hann myndi eftir atvikinu sökum þess að fjölmennt lögreglulið hefði komið daginn eftir að heimili ákærða Y.

Lögregla kallaði hvorki eftir gögnum úr síma vitnisins E né gaf áðurnefndur J skýrslu við meðferð málsins. Tveir lögreglumenn báru á hinn bóginn fyrir dómi að kannað hefði verið hjá leigubifreiðastöðvum um ferðir leigubifreiða við heimili ákærða Y, en án árangurs. Taldi annar lögreglumannanna að það hefði að líkindum verið gert einum til tveimur dögum eftir atvik, en hinn kvað það hafa verið gert strax daginn eftir handtöku ákærðu og fyrstu skýrslugjöf þeirra þótt trassað hefði verið að gera um það skýrslu fyrr en löngu síðar. Sá lögreglumaður ritaði skýrslu um málefnið 19. janúar 2012 þar sem fram kom að árangurslaus könnun hefði farið fram á því hvort leigubifreið hefði verið send í hús nálægt [...]. Í skýrslunni var í tvígang nefnt að rannsóknin hefði verið gerð vegna skýrslu beggja sakborninga um samskipti við leigubifreiðastjóra. Þrátt fyrir þessar fullyrðingar í skýrslunni hefur eins og áður segir verið við það miðað að ákærði Y hafi fyrst haft orð á þessu við lögreglu löngu eftir að rannsókn á þessu fór fram og ekki fyrr en sex dögum eftir að þessi skýrsla lögreglu var gerð, eða 25. janúar 2012.

Af hálfu ákærðu hafa verið lögð fram gögn úr tölvukerfi tilgreindrar leigubifreiðastöðvar að bifreið hafi verið pöntuð úr síma E að heimili hans klukkan 5.48 aðfaranótt 27. nóvember 2011. Ákærðu óskuðu eftir að skýrsla yrði tekin af viðkomandi leigubifreiðarstjóra, sem ákæruvaldið taldi ekki efni til. Hann hefur því ekki borið vitni meðal annars um hugsanlega ónákvæmni í tímaskráningu í tölvukerfinu, en ef marka má önnur gögn málsins hafði lögreglu þá þegar borist tilkynning C klukkan 5.22 um nóttina.

Ákærðu kveða báðir A hafa átt kynmök við þá að fúsum og frjálsum vilja, en hún kvað það af og frá að hún myndi vilja hafa kynmök með tveimur mönnum nema að láta í ljós ósk um það. Eins og fram kemur í héraðsdómi kannaðist hún einungis lítillega við annan ákærða og þekkti hinn ekkert, en aðdragandi kynmakanna var stuttur. Skýrslur ákærðu og vitna og önnur gögn málsins bera með sér að andleg líðan A eftir kynmökin hafi verið slæm. Ekkert kom fram við rannsókn á fötum og líkama hennar til stuðnings því að henni hafi verið haldið niðri eða hár hennar reitt. Á hinn bóginn bar ákærði X rispu á innanverðu læri eftir að A klóraði hann.

Ákærðu og A bar saman um að eftir atvikin hafi ákærði Y borið hana skólausa út úr húsinu að [...] og í áðurnefnda bifreið þaðan sem henni var ekið til vinafólks síns að [...]. A kvaðst ekki hafa farið í skó þótt snjór væri á jörðu sökum þess að þeir hafi verið þröngir og erfitt að komast í þá. Þá hafi hana langað að fara út úr íbúðinni. Vitnið C bar að tveimur dögum fyrir atvik hefði A lýst áhyggjum af því að ákærði X myndi nauðga sér. Þvertók A fyrir að hafa haft orð á þessu. Loks bar hún ekki á sama veg við meðferð málsins um áfengisneyslu sína. Hjá lögreglu kvaðst hún einungis hafa drukkið bjór, en fyrir dómi sagðist hún einnig hafa drukkið hvítvín. Ekki voru tekin blóðsýni úr A í þágu rannsóknar málsins.

IV

Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar gefi vitni eða ákærði ekki skýrslu hér fyrir dómi. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar getur rétturinn hins vegar, telji hann líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð máls í héraði í þeim mæli munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný.

Að framan er gerð grein fyrir því að verulegs misræmis gætir um ýmis mikilvæg atriði í skýrslum sem A hefur gefið hjá lögreglu og fyrir dómi. Um önnur slík atriði stangast framburður hennar á við það sem sýnileg sönnunargögn taka af tvímæli um. Að sumum þessara atriða er ekkert vikið í hinum áfrýjaða dómi, en um önnur dregnar ályktanir sem ekki fá staðist, þar á meðal að skýrsla A hjá lögreglu 28. nóvember 2011 hafi verið „á sama veg og fyrr.“ Að þessu virtu hefur héraðsdómur ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig unnt sé að leggja frásögn A til grundvallar í málinu. Þá er að framan lýst annmörkum á rannsókn málsins hjá lögreglu sem úr því sem komið er verður ekki séð að unnt væri að bæta úr nema að hluta. Að öllu framangreindu virtu getur ómerking hins áfrýjaða dóms ekki þjónað tilgangi og verður því að fella efnisdóm á málið.

Af því sem að framan er rakið leiðir að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna sekt ákærðu, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Verða þeir því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu vísað frá héraðsdómi.

Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði verður felldur á ríkissjóð.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda og þóknun réttargæslumanns sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, X og Y, eru sýknir af kröfu ákæruvaldsins.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði greiðist úr ríkissjóði.

Sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Ragnars Aðalsteinssonar og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, 753.000 krónur til hvors um sig og þóknun réttargæslumanns A, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur

Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

Málavöxtum er í meginatriðum lýst í héraðsdómi og atkvæði meiri hluta dómenda. Í dóminum er rakin að nokkru skýrsla brotaþola hjá lögreglu 28. nóvember 2011. Í skýrslu sem tekin var af stúlkunni daginn áður lýsti hún því að ákærði X hafi komið á vinnustað sinn nokkru áður en atvik þessa máls urðu og gengið eftir því að fá símanúmerið hennar. Hann hafi verið „ógeðslega scary“ en hún hafi látið hann fá númerið sitt. Fyrst hafi hún haldið að hann héti D, þar sem það nafn hafi verið skráð á símanúmerið sem hann hringdi í hana úr. Hann hafi hringt látlaust í hana og sent endalaust smáskilaboð um síma, en hún hafi alltaf færst undan og gefið ýmsar ástæður fyrir því, meðal annars sagst eiga kærasta. Er þessi framburður í samræmi við gögn um smáskilaboð sem gengu milli þeirra. Hann hafi samt haldið uppteknum hætti. Að kvöldi 26. nóvember hafi hann hringt og kærasti vinkonu hennar, C, hafi svarað og þóst vera kærasti hennar. Ákærði X hafi haldið áfram að senda henni smáskilaboð og hringja og verið „ótrúlega uppáþrengjandi“. Hún hafi svarað og sagt að hún væri á matsölustaðnum [...] og síðan skellt á. Kærasti systur hennar hafi ætlað að sækja hana þangað, en þá hafi ákærði verið búinn að hringja og spyrja hvar hún væri og hún svarað því. Hún hafi farið út að reykja og þá hafi ákærði X komið, en því hafi hún ekki búist við, og dregið hana út í bíl. Hún hafi verið „pínu hrædd“ við hann og sagt er hún kom inn í bílinn að hún væri ekki „að fara með honum heim“. Hann hafi svo keyrt „eitthvað“ og hún sagt ítrekað að hún vildi fara heim en síðan hafi þau allt í einu verið komin heim til hans eða vinar hans. Vinur ákærða hafi tekið hana á háhest eða á öxlinni inn í húsið. Hún hafi alls ekki viljað fara þangað og verið „grenjandi“.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 28. nóvember bar stúlkan í meginatriðum á sama veg og í fyrri skýrslu. Þó lýsti hún nokkuð á annan veg aðdraganda þess að hún fór inn í bifreiðina. Skýrði hún svo frá að eftir að hún sagði ákærða að hún væri stödd á [...] hafi hann hringt. Hún hafi verið úti þegar ákærði kom og síðan hafi hún farið út í bifreiðina. Nánar aðspurð um hvernig það hafi komið til sagði hún að ákærði hafi sagst getað „skutlað [henni] heim ég fór bara upp í bíl þá ætlaði að láta hann skutla mér heim.“ Hafi hún áður verið búin að biðja F, kærasta systur sinnar, að koma og sækja sig og minnti hana að það hafi hún gert fyrr um kvöldið með því að senda honum smáskilaboð. Hún hafi verið að bíða eftir F en verið á reyna að „redda“ sér fari heim og þá hafi ákærði sagst geta „skutlað“ henni þangað. Spurð um það hvort hún hefði einhvern tíma haft samband við ákærða að fyrra bragði sagði hún að það hafi hún gert einu sinni til að spyrja hann að nafni og hann hafi þá svarað að hann héti X. Við þessa skýrslutöku lá fyrir skýrsla um rannsókna á farsíma hennar og endurrit lögreglu af smáskilaboðum milli ákærða X og hennar. Samkvæmt þeim gögnum er ljóst að stúlkan hafði einu sinni sent honum að fyrra bragði smáskilaboð fyrir þessa nótt en það var að kvöldi 26. nóvember og þá spurt hann að nafni. Í atkvæði meiri hluta dómenda er nánar lýst samskiptum þeirra aðfaranótt 27. nóvember. Hún minnist þess ekki í þessari skýrslutöku að hafa sent ákærða skilaboð þess efnis hvort hann gæti „skutlað“ henni heim. Virðast þessi skilaboð og þau símtöl og önnur smáskilaboð sem fóru milli hennar og ákærða síðla þessa nótt send bæði áður og eftir að hún hringdi eða reyndi að hringja í systur sína, þrjár vinkonur og fyrrum kærasta í því skyni að fá þau til að sækja sig. Hún kvaðst hvorki hafa verið „full“ né algáð um þetta leyti og kemur það heim og saman við framburð ákærðu og vitna. Frásögn hennar um komu hennar í bifreið ákærða X var með svipuðu móti fyrir dómi. Kvaðst hún hafa hringt í áðurnefndan F, en hann hafi ætlað að sækja sig, en svo hafi ákærði X hringt og hún svarað að hún væri á [...] og skellt á. Hann hafi svo komið fyrir utan, síminn hafi hringt og hann sagst vera kominn „og ég hélt að það væri F en svo fór ég út í bíl og þá var það X úti í bíl, ekki F, og ég sagðist vera búin að redda mér fari heim ... og hann sagði nei, ég get alveg skutlað þér og ég alveg nei þetta er allt í lagi og þá var hann búinn að læsa bílnum, þannig að ég alveg okei, allt í lagi“. Ákærði hafi á hinn bóginn ekki ekið í átt heim til hennar og hún því spurt hvert hann væri að fara. Hann hafi sagt „aðeins heim til mín fyrst. Hún hafi mótmælt því en hann þá sagt að hann myndi gera það eftir smástund, ekki alveg strax og hún hafi samþykkt það. Þess í stað hafi hann ekið að umræddu húsi, þar sem vinur hans hafi borið hana inn. Hún lýsti fyrir dómi atvikum eftir að þau komu inn í húsið uns hún hringdi í Neyðarlínuna í öllum meginatriðum á sama veg í skýrslum sínum hjá lögreglu, eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Eins og rakið hefur verið bar brotaþoli með nokkuð mismunandi hætti um aðdraganda þess að hún fór inn í bifreiðina til ákærðu, en til hins er að líta að rauður þráður í frásögn hennar var sá að hún hafi verið að reyna að fá far heim og í því skyni hafi hún hringt í þrjár vinkonur sínar og fyrrum kærasta, svo og að hún taldi áðurnefndan F ætla að sækja hana, en hann hafi ekki komið. Þess í stað hafi hún þegið far með ákærða þegar F mætti ekki til að sækja hana. Hélt hún því staðfastlega fram að hún hafi fyrir mistök sent ákærða skilaboð um hvort hann gæti sótt sig. Þótt ekki hafi fengist staðfest að hún hafi haft eða reynt að hafa samband við  umræddan kærasta systur sinnar breytir það ekki því að stúlkan kvaðst hafa talið að til stæði að hann ætlaði að sækja sig. Sá framburður hennar hefur verið staðfastur. Í skýrslum sínum hjá lögreglu minntist hún ekki að fyrra bragði á viðdvöl á bensínstöðinni og hún var ekki heldur um hana spurð, en fyrir dómi kvaðst hún aðspurð ekki minnast þess að stansað hafi verið við bensínstöðina. Hún þvertók hins vegar aldrei fyrir það. Þykir ekki óeðlilegt að stúlkan hafi ekki munað hvort stöðvað var um stundarsakir á ofangreindri bensínstöð, enda gat hún ekki lýst hvaða leið var ekin að heimili ákærða Y. Það sama gildir um framburð stúlkunnar um áfengisneyslu sína, en nánar aðspurð fyrir dómi um hvort hún hafi drukkið eitthvað annað en bjór, eins og hún hafði áður borið, kvaðst hún aðallega hafa drukkið bjór en einnig nokkur glös af hvítvíni. Til þess er að líta að stúlkan hafði drukkið áfengið á tímabilinu frá kl. 18.00 daginn áður til kl. 03.00 um nóttina. Þá var hún einnig staðföst í þeim framburði sínum að hún hafi verið borin á tiltekinn hátt inn í húsið og sagði ítrekað að það hafi ákærði Y gert utan einu sinni. Í það skipti mátti skilja af samhengi frásagnarinnar að hún væri að vísa til ákærða X, þó ekki væri það fullvíst. Þótt stúlkan hafi borið að ákærðu hafi verið sterkir og haldið hönd hennar „geðveikt“ fast er ekki þar með sagt að hún hafi átt að bera þess merki við læknisskoðun, sem fram fór skömmu síðar. Fjölskipaður héraðsdómur hefur metið framburð stúlkunnar trúverðugan og er í ljósi alls ofangreinds ekki ástæða til að vefengja það mat. Að þessu öllu virtu er ekki slíkt ósamræmi í framburði stúlkunnar að líkur séu fyrir því að mat á sönnunargildi framburðar hennar sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 

Skýrslur ákærðu fyrir lögreglu og dómi eru raktar í héraðsdómi að því undanskildu að þar er ekki getið um síðustu skýrslu ákærða Y fyrir lögreglu 25. janúar 2012, en áður höfðu verið teknar af ákærðu hvorum um sig tvær skýrslur, 27. og 28. nóvember 2011 á meðan þeir voru í haldi lögreglu. Í skýrslunni 25. janúar var haft eftir ákærða Y að eitthvað fólk hafi verið fyrir utan hús hans þegar þeir komu með stúlkuna þangað, en áður hafði hann sagt sérstaklega aðspurður að hann hafi engan séð í nágrenni við húsið, heldur ekki að því er hann minnti nágranna sinn, E, sem hann þekkti mjög vel. Ekki minntist ákærði Y heldur í fyrri skýrslum sínum á komu leigubifreiðar að húsinu, en í þeirri síðustu sagði hann að kona hafi verið á leigubíl fyrir utan, „alveg bókað“. Þegar borin var undir hann í sömu skýrslu framburður brotaþola um að hún hafi viljað fara heim og ekki viljað fara með þeim, svaraði hann því til að þeir hafi ætlað að aka henni heim til hennar, en þegar hann hafi komið inn í bílinn eftir að hann hafði dælt eldsneyti á bílinn við [...] bensínstöðina hafi hún verið „eitthvað ... að kyssa“ ákærða X. Á þetta minntist hann ekki í fyrstu skýrslu sinni 27. nóvember og í skýrslu sinni daginn eftir sagði hann spurður um hvort búið hafi verið að ákveða þegar hann kom aftur inn í bílinn hvert ætti að fara að hann hafi farið út úr bílnum, pissað og dælt bensíni á bílinn „svo kem ég aftur inn í bílinn þannig að það sem fór á milli þeirra ég bara veit það ekki sko.“ Um ofangreind atriði sem ákærði Y gat fyrst um í síðustu skýrslu sinni, sem tekin var tæpum tveimur mánuðum eftir að ákærði gaf fyrstu skýrslur sínar, hafði ákærði X hins vegar skýrt frá í skýrslum sínum 27. og 28. nóvember. Er ljóst af framansögðu að framburður Y hefur ekki verið stöðugur og er tekið undir með héraðsdómi að sé litið til framburðar ákærðu beri hann með sér að þeir hafi leitast við að samræma hann. Hefur héraðsdómur metið framburð beggja ákærðu ótrúverðugan og eru engin efni til að telja að það mat sé rangt.

Eins og fram kemur í atkvæði meiri hluta dómenda kannaði lögregla hvort leigubifreið hafi verið send í hús í nálægð við heimili ákærða Y á tímabilinu milli kl 04.25 og kl. 05.30 umrædda nótt. Samkvæmt framburði Gísla Þorsteinssonar rannsóknarlögreglumanns, sem ritaði upplýsingaskýrslu um þessa rannsókn, var þetta kannað strax daginn eftir að ákærðu voru handteknir og yfirheyrðir. Er bókað í skýrslunni, sem fyrst var skráð 19. janúar 2012, að það hafi verið gert í samræmi við framburð sakborninga. Það stenst hins vegar ekki að hann hafi haft þetta eftir ákærða Y því á þetta minntist hann ekki í skýrslum sínum dagana 27. og 28. nóvember, og í þeirri síðari sagði hann sérstaklega aðspurður að hann hafi engan séð í nágrenni við húsið, eins og lýst er hér að framan. Var þó ærið tilefni þess í síðargreindri skýrslu hans í ljósi þess að þar var borinn undir hann framburður stúlkunnar um að hann hafi sjálfur borið hana inn í húsið gegn vilja hennar. Til þess er einnig að líta að Gísli yfirheyrði ekki ákærðu um sakarefnið. Þó kann að vera að ákærði Y hafi, eftir að hann var látinn laus í kjölfar síðari skýrslutökunnar, sem lauk um kl. 16.00, minnst á þetta við lögreglu, en þess ber þá að gæta að meðákærði X hafði þá verið látinn laus úr haldi um 30 mínútum áður. Gögn þau sem ákærðu lögðu fyrir Hæstarétt um komu leigubifreiðar að [...] þessa nótt bera með sér að hún hafi verið pöntuð þangað rúmri klukkustund eftir að stúlkan fór inn í húsið með ákærðu og um hálfri klukkustund eftir að hún hafði samband við Neyðarlínu. Samkvæmt því er afar ósennilegt að tímaskráning í tölvukerfi leigubifreiðarinnar hafi skeikað svo miklu. E, sem mun hafa pantað áðurnefnda leigubifreið að heimili sínu, bar fyrir dómi að ákærðu hafi komið í fylgd einhverrar stúlku að húsinu í sama mund og leigubifreiðina bar að garði. Sá framburður fær ekki staðist í ljósi þess að stúlkan var þá löngu farin þaðan.

Brotaþoli var 19 ára gömul, smávaxin og grönn, en ákærðu báðir vöðvastæltir, um 90 kg. að þyngd og hávaxnir. Stúlkan kvaðst ekki hafa getað veitt þeim mótspyrnu en hún hafi þó reynt að ýta þeim frá sér og klórað ákærða X á öðru læri þegar hann hélt um höfuð hennar og var að láta hana hafa við sig munnmök. Kemur það heim og saman við skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á honum sem fram fór að kvöldi 27. nóvember. Ákærðu hafa báðir kannast við að stúlkan hafi farið að gráta og viljað fara út fáklædd og án skófatnaðar, enda hafi hún fengið samviskubit yfir því að hafa haft við þá mök þar sem hún átti kærasta. Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu að stúlkan hafi átt kærasta um þessar mundir, hvorki framburður hennar né annarra vitna. Hún kom skömmu síðar á heimili vinkonu sinnar og kærasta hennar eftir að ákærðu höfðu keyrt hana áleiðis þangað. Þessum tveimur vitnum ásamt tveimur lögreglumönnum, sem hittu stúlkuna, annar á heimili vitnanna og hinn á neyðarmóttöku, auk læknis sem skoðaði hana þar ber öllum saman um að stúlkan hafi  verið í miklu uppnámi, hún hafi grátið, titrað og skolfið. Tvö fyrstnefndu vitnin báru að stúlkna hafi vart verið hálfklædd, skólaus og hágrátandi. Þá er ljóst af vottorðum sálfræðings, sem brotaþoli hefur verið í meðferð hjá frá desember 2011 og fram á þennan dag, að auk þunglyndis uppfyllir stúlkan öll greiningarmerki alvarlegrar áfallastreyturöskunar og hafi ætluð brot ákærðu haft alvarleg, víðtæk og langvarandi áhrif á stúlkuna. Kemur þar einnig fram að fram að brotaþoli hafi komið í 41 viðtöl og verið einlæg og hreinskilin.

Að öllu framangreindu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um það brot sem þeir eru ákærðir fyrir og beri því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu þeirra. Ég er sammála heimfærslu hins áfrýjaða dóms á háttsemi ákærðu til refsiákvæðis, niðurstöðu hans um refsingu þeirra og  sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 17. desember 2012, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 2. október 2012, á hendur ákærðu, X, kennitala [...], [...], [...] og Y, kennitala [...], [...], [...], fyrir nauðgun með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 27. nóvember 2011, að [...], [...], með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað A, kt. [...], til samræðis og annarra kynferðismaka, en ákærðu héldu í hendur hennar og nýttu sér yfirburði sína vegna aðstöðu- og aflsmunar. Ákærði X afklæddi A og þröngvaði henni til samræðis og síðan skiptust ákærðu á að þröngva henni til munnmaka við hvorn um sig á meðan hinn hafði við hana samræði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða henni í sameiningu miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 27. nóvember 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.

Verjendur ákærðu gera þær kröfur að ákærðu verði sýknaðir af ákæru, en til vara að ákærðu verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er krafist frávísunar bótakröfu, en til vara að bótakrafa verði verulega lækkuð. Loks krefjast verjendur hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

Aðfaranótt sunnudagsins 27. nóvember 2011, klukkan 5:25, barst lögreglu tilkynning um nauðgun og kom fram að brotaþoli væri stödd að [...] í Reykjavík. Þar hittu lögreglumenn fyrir A, sem greindi frá því að hún hefði fyrir nokkru kynnst manni, sem hún taldi að héti D, en hann hefði verið viðskiptavinur [...], þar sem hún starfaði. A gaf upp símanúmer mannsins, sem ákærði X reyndist vera skráður fyrir. Hún kvað manninn hafa hringt til sín um nóttina og spurt hvar hún væri. Hún hefði sagt honum að hún væri stödd á veitingastað við [...]. Hann hefði komið þangað á svartri bifreið í fylgd annars manns. Mennirnir hefðu dregið hana inn í bifreiðina og ekið að húsi skammt frá. Hefði ákærði borið hana á „háhesti“ inn í íbúð á jarðhæð hússins. Hún kvað mennina hafa nauðgað sér í íbúðinni og hefði það átt sér stað í rúminu og annars staðar í íbúðinni. Hún sagði mennina hafa skipst á að hafa kynferðismök við hana og hefðu þeir báðir sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar og munn. Þeir hefðu haldið höndum hennar og fótum á meðan á þessu stóð og rifið í hár hennar. Hún hefði reynt að ýta þeim frá sér, en þeir hefðu ekki látið af verknaðinum. Er þetta var yfirstaðið hefðu mennirnir ekið henni að [...], þar sem vinafólk hennar átti heima. Hún lýsti mönnunum sem sköllóttum, ljósbrúnum og vöðvamiklum. Þá kvað hún annan þeirra vera með „tribal“ húðflúr á handlegg og maga. Fram kemur í skýrslunni að A hafi verið í miklu uppnámi er rætt var við hana og hafi hún grátið og skolfið. Lögreglumenn ræddu við C og B, íbúa að [...]. Þau báru að A hefði vakið þau upp og hefði hún verið í miklu uppnámi. Kvaðst C hafa séð dökkri bifreið ekið burt frá húsinu er hann hleypti A inn. C kvaðst vera samstarfsmaður A og hafa séð manninn sem hún kallaði D á vinnustað þeirra. Hann kvað manninn hafa krafið A um símanúmer og hefði hann verið ógnandi við hana.

A var flutt á Neyðarmóttöku, þar sem lögreglumaður ræddi við hana og skráði niður nánari lýsingar hennar á atvikum. Kom fram hjá henni að maðurinn, sem hún taldi heita D, hefði komið á vinnustað hennar viku fyrr og krafist þess að fá símanúmer hennar. Hann hefði vakið hjá henni ótta. D hefði sent henni sms-skilaboð í tíma og ótíma og hringt mikið. Hann hefði ítrekað sent henni sms-skilaboð og hringt til hennar kvöldið áður og hefði hún svarað honum að hún gæti ekki hitt hann. Þá hefði C vinur hennar svarað símtali D og þóst vera kærasti hennar. Undir morgun hefði D enn hringt og hefði hún þá sagt honum að hún væri á tilteknum veitingastað. Skyndilega hefði hann birst á veitingastaðnum og hefði hann farið með hana út í bifreið sem beið fyrir utan. Þar hefði annar maður verið fyrir, sem hún þekkti ekki. A kvaðst hafa sagt D að hún vildi ekki fara með honum og að hún vildi fara heim, en hann hefði tilkynnt henni að þau myndu fara heim til hans. Þau hefðu ekið að húsi sem hún taldi vera við [...]. Þar hefði D tekið hana út úr bifreiðinni, lagt hana yfir öxl sér og haldið þannig á henni inn í húsið. Þegar inn í íbúðina kom hefði D afklætt hana, en vinur hans sest fyrir framan tölvu. Hefði D síðan haft samfarir við hana og spurt vin sinn hvort hann vildi ekki slást í hópinn, sem hann hafi gert. Það hefði gengið þannig fyrir sig að annar mannanna hefði látið hana hafa við sig munnmök á meðan hinn hafði við hana samfarir og hefðu þeir skipst á við þetta. a kvaðst hafa beðið D og síðan mennina báða um að hætta þessu og hefði hún grátið meðan á þessu stóð.

Ákærðu voru handteknir síðar sama dag og yfirheyrðir af lögreglu. Ákærði X kvaðst hafa kynnst A á vinnustað hennar um það bil viku fyrr. Hann hefði fengið símanúmer hennar og hefðu þau átt nokkur símasamskipti. A hefði farið að svara sjaldnar símtölum hans er leið á vikuna og hefði hann talið að hún hefði ekki áhuga á að tala við sig. Laugardaginn 27. nóvember hefði hún síðan sent honum sms-skilaboð og þau spjallað saman í kjölfarið. Hefði hann spurt hana hvort hún vildi hitta hann um kvöldið, en hún ekki svarað því. Ákærði kvaðst hafa hringt til A um kvöldið, en slitið símtalinu eftir að einhver strákur svaraði. Hann kvaðst hafa sent A sms-skilaboð og spurt hvers vegna hún hefði ekki svarað honum, hvort hún væri smeyk við hann eða ætti kærasta. Hún hafi svarað að hún ætti kærasta, en jafnframt að hann skyldi hringja til sín eftir miðnætti. Ákærði kvaðst hafa gert það, en hún hefði ekki svarað símtölum hans. Um klukkan 4:30 hefði A síðan hringt og beðið hann um að sækja sig á veitingastað. Ákærði kvaðst hafa sótt hana á bifreið sinni og hefði meðákærði Y verið með í för. Þau hefðu ekið að bensínstöð við [...], en þar hefði Y farið út úr bifreiðinni og farið að dæla á hana bensíni. Ákærði kvaðst hafa snúið sér að A, sem sat í aftursætinu, og sagt henni hvað honum þætti gaman að sjá hana aftur. A hefði þá byrjað að kyssa hann og hefði hann orðið mjög ánægður með það. Ákærði kvaðst hafa stungið upp á því að þau færu heim til Y við [...]. Þau hefðu gengið þar öll saman inn og vel farið á með þeim. Tók ákærði fram að þau hefðu rætt við leigubifreiðarstjóra, sem hefði beðið eftir farþegum utan við húsið, og látið nágranna Y vita að leigubifreiðin biði eftir honum. Ákærði kvað þau A hafa byrjað að kyssast um leið og þau komu inn í íbúð Y. Þau hefðu farið upp í rúm og lítið rætt saman, en eitt leitt af öðru. Þau hafi „byrjað“, en ákærði þá tekið eftir því að Y var að horfa á þau. Honum hefði fundist þetta óþægilegt og því spurt A hvort þau ættu ekki að leyfa Y að vera með. Þau hefðu rætt hvort þau ættu að stunda „hópkynlíf“ eða „threesome“. Hann kvaðst ekki muna hver hefði fyrst haft orð á því, en hann hefði sagt: „já, já, prufum það“ og hún hefði sagt „já“. Ákærði kvaðst hafa brugðið sér á salerni, en þegar hann kom til baka hefði A verið að hafa munnmök við Y í rúminu. Ákærði kvaðst hafa haft kynferðismök við hana á meðan á þessu stóð, en síðan hefði hún haft munnmök við hann á meðan Y hafði kynferðismök við hana. Hefði hún verið við það að fá fullnægingu og byrjað að klóra hann á innanverðu læri. Eftir þetta hefðu stúlkan og Y fengið fullnægingu, en hún hefði síðan farið að gráta og sagst hafa samviskubit vegna kærasta síns. Hann hefði reynt að hugga hana, en hún hefði viljað fara. Ákærði kvaðst hafa boðist til að aka A þangað sem hún vildi fara og hefði hann síðan ekið henni að [...]. Hann kvaðst hafa spurt hana að skilnaði hvort þau gætu hist aftur, þar sem honum líkaði vel við hana. Ákærði kvað þau A hafa haft kynferðismök með samþykki hennar. Hún hefði ekki neitað kynferðismökum. Þá hefði hún sjálf afklæðst kjól sem hún var í og átt frumkvæði að því að kyssa hann. Hann kvað þau ekki hafa verið lengur en 20 mínútur heima hjá Y. Við yfirheyrslu 28. nóvember 2011 neitaði ákærði því að annar hvor þeirra Y hefðu haldið á A inn í húsið við [...]. Ákærði kvaðst hafa spurt stúlkuna hvort þau ættu að leyfa Y að taka þátt í kynferðismökunum og hefði hann orðið svo hissa þegar hún svaraði játandi að hann hefði spurt hana ítrekað hvort hún væri viss og hún játað því.

Ákærði Y kvaðst við yfirheyrslu 27. nóvember 2011 hafa verið með meðákærða X nóttina áður og hefðu þeir sótt þessa stúlku á veitingastað. Þau hefðu ekið um og meðal annars stöðvað við bensínstöð við [...] til að taka bensín. Síðan hefðu þau farið heim til hans að[...]. Kvaðst ákærði hafa verið í tölvunni, en X og stúlkan farið upp í rúm þar sem þau hefðu verið að kyssast og síðan haft samfarir. Borist hefði í tal að stúlkan hefði aldrei verið með tveimur mönnum í einu og hefði hann þá farið upp í rúm til þeirra og haft samfarir við hana. Ákærði kvaðst ekki vera viss um hver átti hugmyndina að því að hann tæki þátt í kynferðismökunum og ekki heldur muna hvað stúlkan hefði sagt við því. Hann kvaðst hafa haft kynferðismök við stúlkuna um leggöng og hefði hann fengið sáðlát. Stúlkan hefði síðan viljað hætta í miðjum samförum. Þeir hefðu spurt hana hvers vegna og hún gefið þá skýringu að hún hefði samviskubit vegna kærasta síns. Ákærði kvað samfarirnar hafa verið með samþykki stúlkunnar, en hún hefði sjálf klætt sig úr fötunum. Henni hefði fundist þetta gott, en síðan allt í einu farið að gráta og viljað hætta. Ákærði kvað þá X hafa meinað stúlkunni að fara berfættri út úr húsinu og hefðu þeir eftir það ekið henni að heimili vinkonu hennar við [...]. Við yfirheyrslu 28. nóvember neitaði ákærði að hafa haldið á stúlkunni inn í húsið er þau komu þangað. Hann kvað þau hafa gengið öll þrjú inn saman, en hann hefði engan séð þarna fyrir utan. Ákærði kvaðst hafa farið inn í eldhús þegar þau komu inn í íbúðina. Hann hefði því ekki séð hvernig stúlkan og X afklæddust og ekki verið vitni að samskiptum þeirra í upphafi. Við yfirheyrslu 25. janúar 2012 kvað ákærði eitthvert fólk sem hefði verið gestkomandi hjá nágranna hans hafa verið utan við húsið er þau komu þangað. Ákærði neitaði því að hafa borið stúlkuna inn í húsið, en kvaðst hins vegar hafa borið hana út í bifreiðina þegar þau yfirgáfu húsið, vegna þess að það hefði verið mikið „slabb“ fyrir utan.

A gaf skýrslu hjá lögreglu 28. nóvember 2011. Hún lýsti atvikum á sama veg og fyrr. Hún kvað ákærða Y hafa tekið sig út úr bifreiðinni er þau komu að húsinu við [...], lagt hana yfir öxl sér og borið hana þannig inn í íbúðina. Hann hefði lagt hana í rúmið þegar inn kom og ákærði X afklætt hana og síðan sig. Hefði X því næst byrjað að hafa við hana samræði og haldið höndum hennar á meðan. Hann hefði síðan kallað til Y og spurt hann hvort hann vildi ekki vera með. X hefði lagst á bakið í rúminu, haldið höfði hennar og látið hana hafa við sig munnmök, en Y hefði lagst aftan við hana og haft við hana samræði á meðan. Þeir hefðu síðan skipt um stellingar, þannig að Y lá á bakinu og lét hana hafa við sig munnmök, en X var fyrir aftan hana og hafði við hana samræði. A kvaðst hafa beðið ákærðu um að hætta, en þeir hefðu ekki sinnt því. Þá hefðu ákærðu haldið höndum hennar meðan á þessu stóð. Hún kvaðst hafa klórað X í lærið þegar hann var að láta hana hafa við sig munnmök. Hún hafi ekki viljað gera þetta, ekki vitað hvað hún ætti að gera og því verið að „reyna eitthvað“. Þegar ákærðu hættu hefði hún klætt sig og ætlað að yfirgefa íbúðina, en ákærði Y hefði þá tekið hana og borið hana út í bifreiðina með sama hætti og fyrr. Ákærðu hefðu síðan ekið henni upp á [...], þar sem hún hefði yfirgefið bifreiðina. Borið var undir A að rannsókn á gsm-síma hennar hefði leitt í ljós að hún hefði sent sms-skilaboð í síma ákærða X um nóttina, þar sem hún spurði hvort hann gæti skutlað sér heim. Hún kvaðst ekki muna eftir því.

Meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla Neyðarmóttöku frá 27. nóvember 2011, um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Þar kemur fram að A hafi skýrt frá því að hafa verið nauðgað af tveimur mönnum. Hún hafi kannast við annan þeirra, sem hefði verið að áreita hana í einhvern tíma með stöðugum símhringingum og sms-skilaboðum. A hafi verið í greinilegu uppnámi, en borið sig vel. Hún hafi verið trúverðug. Komið hafi fram hjá henni að hún hafi ekki þorað að veita mótspyrnu, en mennirnir væru tröllvaxnir. A sé hins vegar lítil og grönn, en í skýrslunni kemur fram að hún hafi mælst 1,59 m á hæð og vegið 49 kg við læknisskoðun. Þá kemur fram að engin áverkamerki hafi verið að sjá á líkama hennar eða kynfærum.  

Þá liggur fyrir vottorð Margrétar A. Hauksdóttur sálfræðings, dagsett 23. nóvember 2012, vegna A, en fram kemur að A hafi sótt 29 viðtöl hjá sálfræðingnum. Í vottorðinu kemur m.a. fram að viðmót og hegðun A bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ótta og bjargarleysi á meðan meint nauðgun átti sér stað. Þá þyki ljóst að atvikið hafi haft víðtæk og alvarleg áhrif á hana. Niðurstöður greiningarmats sýni að A þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots. 

Ákærðu gengust undir réttarlæknisfræðilega skoðun eftir handtöku og eru skýrslur um þá skoðun meðal gagna málsins. Kemur þar fram að ákærði X hafi verið með tvær roðarákir þvert á milli herðablaða og tvær rispur framan á hægra læri, u.þ.b. 2 cm. Hann hafi mælst 1,78 m á hæð og vegið 89 kg. Enga áverka hafi verið að sjá á ákærða Y. Hann hafi mælst 1,80 m á hæð og vegið 95 kg.

Í málinu liggja fyrir gögn um rannsókn lögreglu á gsm-síma A og endurrit af sms-samskiptum við símanúmer ákærða Y. Þá kemur fram að lögregla hafi reynt að hafa uppi á leigubifreiðarstjóra, sem ákærðu sögðust hafa rætt stuttlega við utan við húsið við [...] umrætt kvöld, en sú eftirgrennslan hafi ekki borið árangur. Einnig hafi verið kannað hvort til væru upptökur úr öryggismyndavélum við veitingastaðinn við [...] og [...] við [...], sem gætu varpað ljósi á samskipti ákærðu og A, en slíkum upptökum hafi ekki verið til að dreifa.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins.

Ákærði, X, kvaðst hafa hitt A nokkrum dögum fyrir atburðinn í [...] þar sem hún var að vinna. Hann kvaðst hafa beðið hana um símanúmer hennar og hefði hún látið hann fá það. Hann kvaðst hafa hringt til hennar og sent henni sms-skilaboð næstu daga, en ekki fengið sérstakar viðtökur. Hann hefði síðan fengið sms-skilaboð frá stúlkunni að kvöldi 26. nóvember og hefðu þau ákveðið að hittast. Hann hefði síðan hringt í hana um kvöldið, en þá hefði einhver strákur svarað, sem sagðist vera kærasti hennar. Ákærði kvaðst síðan hafa fengið sms-skilaboð frá stúlkunni um nóttina og hefði hún beðið hann um að sækja sig á veitingastað við [...]. Hann hefði gert það og ætlað að aka henni heim. Meðákærði Y hefði verið með honum í för. Hann hefði stöðvað bifreiðina við bensínstöð við [...] og Y farið út að dæla bensíni. Hann hefði snúið sér að stúlkunni, sem sat í aftursæti bifreiðarinnar, og hefði hún þá komið hálfvegis fram í til hans og byrjað að kyssa hann. Ákærði kvaðst hafa stungið upp á því að þau færu heim til Y og hefði hún samþykkt það. Þegar þau komu að heimili Y við [...] hefði leigubifreið verið þar fyrir utan og hefði bifreiðarstjórinn beðið hann um að banka upp á hjá E, nágranna Y, til að láta hann vita að leigubifreiðin væri komin. Ákærði kvaðst hafa gert það og hefði hann séð E fara út í leigubifreiðina ásamt einhverju fólki. Hann og stúlkan hefðu farið beint upp í rúm þegar þau komu inn til Y. Þau hefðu kysst þar og klætt hvort annað úr fötunum. Síðan hefðu þau byrjað að hafa samræði. Y hefði setið skammt frá þeim við tölvu. Ákærði kvað sér hafa þótt óþægilegt að hafa Y þarna viðstaddan og hefði hann því spurt stúlkuna hvort þau ættu ekki að leyfa honum að vera með. Hún hefði svarað: „Jú jú“. Ákærði kvaðst hafa spurt hana: „Ertu viss?“ og hefði hún svarað því játandi. Ákærði kvað að sér hefði fundist þetta skrítið og því spurt hana enn hvort hún væri viss og hún hefði játað því. Hann kvaðst þá hafa spurt Y hvort hann vildi vera með og hefði hann svarað því játandi. Y hefði komið upp í rúm til þeirra, en ákærði kvaðst þá hafa farið á salernið. Þegar hann kom til baka hefðu Y og stúlkan verið að hafa samfarir. Ákærði kvað stúlkuna síðan hafa fengið samviskubit og hefði hún talað um að það væri vegna þess að hún ætti kærasta. Ákærði kvaðst þá hafa hætt að hafa samfarir við hana. Hún hefði viljað fara og ætlað að ganga berfætt út, en hann hefði sagt við hana að hún færi ekki út þannig. Hefði Y borið hana út í bifreiðina. Hún hefði beðið þá um að aka sér til vinkonu sinnar sem byggi við [...] og hefðu þeir hleypt henni út úr bifreiðinni þar. Ákærði kvað þau hafa rætt saman áður en hún fór og ákveðið að vera áfram í sambandi.

Ákærði kvað það vera rangt sem komið hefði fram hjá stúlkunni að hún hefði verið borin inn í húsið. Hann kvað þau hafa farið rakleiðis upp í rúm og hefði hann klætt stúlkuna úr kjólnum og hún klætt hann úr bol sem hann var íklæddur. Nánar spurður kvað hann þó geta verið að stúlkan hefði sjálf klætt sig úr kjólnum, eins og hann hefði borið um hjá lögreglu. Ákærði kvað stúlkuna hafa verið samþykka því að hann hefði samræði við hana og hefði hún átt frumkvæði að því með því að kyssa hann í bifreiðinni. Hann kvað sér hafa þótt óþægilegt að Y væri að horfa á þau hafa samfarir og hefði hann því boðið honum að vera með. Spurður hvort það hefði hvarflað að honum að biðja Y um að víkja frá sagði ákærði að hann hefði velt því fyrir sér, en honum hefði fundist það dónalegt að biðja hann um að fara eitthvað út í nóttina, enda hefðu þau verið heima hjá honum. Hann hefði síðan farið á salerni, eins og áður var lýst, og hefðu Y og stúlkan verið byrjuð að hafa samfarir þegar hann kom til baka. Hann hefði verið með þeim, þannig að Y hafði samfarir við stúlkuna á meðan hún hafði munnmök við hann, en síðan hefðu þeir skipt um stellingu, þannig að hann hefði samfarir við stúlkuna á meðan hún hafði munnmök við Y. Hann kvað stúlkuna hafa klórað sig í lærið í einhverjum æsingi, en henni hefði þótt þetta gott. Rétt á eftir hefði hún byrjað að kjökra og borið því við að hún hefði samviskubit vegna einhvers stráks. Kvað ákærði sig minn að hann hefði verið að hafa munnmök við stúlkuna þegar hún fór að gráta. Hún hefði farið að tala um að hún væri í sambandi eða að hún væri nýhætt sambandi við þennan strák. Henni hefði ekki liðið vel og hefði hún ætlað að fara út úr íbúðinni skólaus. Hún hefði þó verið í ágætu jafnvægi þegar þeir skildu við hana við [...].

Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa rifið í hár stúlkunnar meðan á kynferðismökunum stóð, eða að hafa haldið höndum hennar eða fótum. Þá hefði hún ekki reynt að ýta honum frá sér. Hann kvaðst hafa keppt í lyftingum og teldi hann því að séð hefði á stúlkunni hefði hann haldið henni.

Ákærði, Y, kvaðst hafa verið með meðákærða X þessa nótt og hefði X verið í símasambandi við þessa stúlku. Þeir hefðu farið á bifreið X að sækja stúlkuna á veitingastað við [...] og stöðvað við bensínstöð við [...]. Ákærði kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni og dælt á hana bensíni. Hann hefði þá séð að stúlkan var hálfvegis komin fram í bifreiðina og var að kyssa X. Þau hefðu síðan farið heim til ákærða að [...]. Þegar þangað kom hefði leigubifreið verið kyrrstæð í götunni og hefði ökumaðurinn, sem var kona, beðið þau um að sækja fólk í teiti í húsinu á móti. Hann kvaðst síðan hafa mætt E nágranna sínum sem hefði verið á leið út í leigubifreiðina. Ákærði kvaðst hafa gengið með stúlkunni inn í húsið og stutt við hana, en það hefði verið hált og hún verið í háhæluðum skóm. Hann kvaðst hafa farið inn í eldhús þegar inn kom. X og stúlkan hefðu byrjað að kyssast og klæða hvort annað úr og síðan haft samfarir. Ákærði kvaðst hafa farið í tölvuna. Síðan hefði borist í tal að hann yrði með. Ekki kvaðst ákærði muna nákvæmlega hvernig það bar að. Hann kvað sig þó minna að X hefði spurt stúlkuna hvort henni væri sama þótt hann væri þarna og henni hefði verið alveg sama. Ákærði kvaðst hafa ákveðið að taka þátt í kynferðismökunum og hefði hann haft samfarir við stúlkuna. Eftir það hefði stúlkan farið að gráta og viljað fara burt. Hún hefði verið „í einhverju panikk kasti“ og viljað fara út skólaus, en þeir hefðu aftrað henni frá því. Ákærði kvaðst síðan hafa haldið varlega á henni út í bifreiðina, í fanginu að því er hann taldi. Þeir hefðu síðan ekið henni að heimili vinkonu hennar við [...]. Ákærði tók fram að minni hans væri slæmt vegna slyss sem hann hefði orðið fyrir.

Nánar spurður kvað ákærði sig minna að X hafi spurt stúlkuna hvort henni þætti óþægilegt að hann væri þarna inni eða hvort henni væri sama um það og loks hvort henni væri sama þótt hann tæki þátt í kynferðismökunum. Hún hefði bara sagt: „Já“. Hann kvaðst hafa haft samfarir við stúlkuna eftir að hann kom upp í rúmið og hefði hann þá verið aftan við hana og hún haft munnmök við X á meðan. Síðan hefði X haft samfarir við hana á meðan hún hafði munnmök við hann.

Ákærði neitaði því að hafa haldið stúlkunni eða rifið í hár hennar. Hann kvað hana hafa notið kynmakanna. Hann kvaðst hafa orðið var við að hún kleip X í lærið og hefði hann beðið hana um að hætta. Skömmu síðar hefði hún farið að gráta.

Vitnið, A, kvað ákærða X hafa komið á [...] þar sem hún var að vinna og hefði hún látið honum eftir símanúmer sitt. Næstu daga hefði ákærði sent henni fjölmörg sms-skilaboð og hringt til hennar. A kvaðst hafa sótt jólahlaðborð með vinnufélögum sínum laugardagskvöldið 26. nóvember og verið að skemmta sér með þeim um nóttina. Þau hefðu endað á veitingastað við [...] þar sem þau fengu sér að borða. A kvaðst hafa verið að reyna að útvega sér far heim og hefði hún hringt eða sent sms-skilaboð í nokkrar vinkonur sínar, fyrrverandi kærasta sinn, systur sína og kærasta hennar sem heiti F og hefði hann svarað að hann ætlaði að koma að sækja hana. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa hringt til ákærða X. Síðan hefði sími hennar hringt og maður sagt að hann væri kominn. Hún kvaðst hafa haldið að það væri F, farið út og sest inn í bifreiðina sem þar beið, en þá hefðu ákærðu verið í bifreiðinni. A kvaðst hafa ætlað að fara út úr bifreiðinni þegar hún áttaði sig á þessu, en dyrnar hefðu verið læstar. Hún kvað ákærða X hafa boðist til að aka henni heim. Hann hefði hins vegar ekið í aðra átt. Hún kvaðst hafa ítrekað við hann að hún vildi að hann skutlaði sér heim. Þegar þau komu að húsinu við [...] hefði ákærði Y opnað farþegadyrnar fyrir henni og hefði hún enn spurt hvort þeir gætu ekki skutlað henni heim. Þeir hefðu neitað því og sagst ætla aðeins inn. A kvaðst hafa gengið nokkur skref og spurt aftur hvort þeir gætu ekki skutlað henni heim. Þá hefði Y tekið hana upp, lagt hana yfir öxl sér, borið hana þannig inn í húsið og látið hana niður á rúmið. Hann hefði síðan sest við tölvu sem þarna var. A kvaðst enn hafa ítrekað að hún vildi fara heim. Ákærði X hefði gengið að henni og klætt sig úr bolnum. Hann hefði síðan klætt hana úr kjól og nærbuxum og ýtt henni niður svo að hún lá á bakinu. Hún kvaðst hafa sest upp en hann hefði ýtt henni niður aftur. X hefði þvínæst afklæðst, tekið um úlnliði hennar og haldið henni niðri. Þá hefði hann sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar og „hamast á“ henni. A kvaðst hafa beðið ákærða um að hætta, en hann hefði ekki sinnt því. Þá hefði ákærði Y ekkert aðhafst þótt hann hefði verið viðstaddur og heyrt hana biðja X um að hætta. Síðan hefði X spurt hana hvort henni væri sama þótt vinur hans myndi „joina“. Hún kvaðst hafa svarað því neitandi og að henni væri heldur ekki sama um það sem hann var að gera. Þá hefði Y risið á fætur, lagst fyrir framan hana í rúminu, en X fyrir aftan hana. Hefði Y tekið í höfuð hennar og sagt: „Settu hann upp í þig“. Hún kvaðst hafa reynt að ýta Y frá, en hann hefði togað í höfuð hennar og látið hana „totta“ sig. X hefði sett getnaðarlim sinn inn í hana aftur og haft við hana samræði. Á þessu hefði gengið í nokkra stund. Þá hefðu ákærðu skipt um stað í rúminu. X hefði togað í höfuð hennar og látið hana „totta“ sig, en Y hefði sett liminn inn í hana og haft við hana samræði. Eftir stutta stund hefði X spurt Y hvort hann væri „búinn að fá það“. Y hefði játað því og risið á fætur, en X haldið áfram. Hann hefði stuttu síðar hætt að hafa við hana samræði. A kvaðst hafa tárast þarna í lokin. Hún kvaðst hafa gripið föt sín og veski, klætt sig og ætlað út. Þá hefði Y staðið fyrir dyrunum og ekki viljað hleypa henni út. X hefði sagt honum að setja hana út í bifreiðina og hefði hann þá lagt hana yfir öxlina og borið hana þannig eins og áður. Ákærðu hefðu ekið henni upp á [...], þar sem hún fór út úr bifreiðinni skammt frá heimili B vinkonu hennar.

A kvaðst hafa beðið X um að hætta þegar hann afklæddi hana og hefði hún reynt að ýta honum frá sér. Hún hefði líka beðið hann um að hætta þegar hann var að „hamast á henni“. Áður hefði hún margoft verið búin að biðja hann um að aka sér heim. Y hefði setið rétt hjá þeim og það hefði ekki getað farið fram hjá honum þegar hún bað X um að hætta. Hún kvaðst hafa beðið Y hins sama þegar hann byrjaði að hafa kynferðismök við hana. Hún kvað ákærðu báða hafa tekið í hár hennar þegar þeir létu hana „totta“ sig. Þá hefði hún klórað í læri X þegar hann hélt um höfuð hennar og lét hana hafa við sig munnmök. Hún hefði verið að reyna að ýta honum frá sér.

A kvaðst hafa rætt um það við vinnufélaga sína í samkvæminu kvöldið áður að þessi maður væri ágengur við hana. Hefði vinkona hennar spurt hana hvað hann héti, en hún ekki munað það og sent honum sms-skilaboð þar sem hún spurði hann að nafni. Síðar um kvöldið hefði maðurinn hringt og C vinur hennar svarað símanum.

A kvaðst ekki hafa átt kærasta þegar þetta var og hefði hún ekki heldur verið nýhætt með kærasta. Hún hafnaði því alfarið að hafa kysst X í bifreiðinni. Hún kvaðst ekki minnast þess að þau hefðu stöðvað við bensínstöð. Þá kvaðst hún ekki muna eftir því að leigubifreið hefði verið utan við húsið við [...] þegar þau komu þangað.

A var bent á að við skoðun á síma hennar hefði ekki komið fram tenging við símanúmer F, sem hún teldi sig hafa sent sms-skilaboð um að sækja sig á veitingastaðinn við [...]. Nánar spurð kvaðst A telja að hún hefði ætlað að senda F sms-skilaboð, en sent þau á símanúmer X fyrir mistök. Þá hafi hún talið að X væri F, þegar hann hringdi og sagðist vera kominn.

Vitnið, C, kvaðst hafa sótt jólahlaðborð ásamt A og fleiri vinnufélögum sínum að kvöldi 26. nóvember 2011. Hann hefði síðan farið heim ásamt B, kærustu sinni, og hefðu þau verið að ganga til náða þegar þau fengu símtal frá A, sem var hágrátandi, og spurði hvort hún mætti koma í heimsókn. Hún hefði komið um fimm mínútum síðar. Hún hefði verið hágrátandi, skólaus og hálfklædd. Hún hefði sagt þeim að sér hefði verið nauðgað af tveimur strákum. Hún hefði titrað og skolfið og brotnað algjörlega niður þegar þau opnuðu dyrnar fyrir henni. Ekki hefði verið hægt að ræða við hana fyrstu 10 til 15 mínúturnar, hún hefði verið alveg í losti.

C kvaðst hafa vitað til þess að annar þessara manna hefði verið að hringja stanslaust til hennar. Þegar þau voru að borða kvöldið áður hefði verið hringt úr símanúmeri þessa manns í síma a og hefði vinkona hennar manað hana til að svara og segja manninum að hætta að vera svona uppáþrengjandi, þetta væri farið að vera „frekar creepy“. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa rætt við manninn í síma um kvöldið, en það geti þó verið.

Vitnið, B, kvað A hafa hringt í síma C og hefði hún heyrt að hún var hágrátandi. Þegar hún kom til þeirra hefði hún varla verið klædd og hún hefði haldið á flestöllum fötunum sínum. Hún hefði hágrátið, nötrað og skolfið. Þau hefðu náð að veiða upp úr henni hvað hefði gerst og hringt til lögreglu.

Vitnið, E, kvaðst vera nágranni ákærða Y og búa í húsinu að [...]. Hann kvaðst hafa verið að bíða eftir leigubifreið í umrætt sinn þegar ákærði X hefði bankað hjá honum og látið hann vita að bifreiðin væri komin. Hann hefði séð Y og einhverja stúlku og hefðu þau gengið inn í húsið og allt virst í góðu lagi á milli þeirra. Síðar um kvöldið hefði hann farið út með hundana og hefði hann þá heyrt að fólk var að tala saman og skemmta sér inni hjá Y Nánar spurður sagði hann það hafa verið um morguninn. Hann kvaðst muna eftir þessu vegna þess að daginn eftir hefði allt fyllst af lögreglumönnum við húsið. Hann kvaðst ekki geta lýst stúlkunni, enda ætti hann erfitt með að lýsa útliti fólks almennt. Honum var kynnt að haft væri eftir honum í lögregluskýrslu að stúlkan hefði verið [...]hærð, en hann kvaðst ekki muna það. Þá kvaðst hann ekki muna hver var hjá honum þetta kvöld, en taldi að það hefði verið einn gestur.

Vitnið, K, kvaðst vera fyrrverandi kærasti A. Þau hefðu slitið sambandi rúmu ári fyrir þennan atburð, eða 1. maí 2010. K kvaðst vita að hún hefði ekki átt kærasta á þessum tíma, en þau hefðu haldið góðu sambandi og hann hefði vitað ef svo hefði verið. Hann kvaðst hafa fylgt A til sálfræðings í marga mánuði eftir atburðinn. Hún hefði verið gjörsamlega niðurbrotin eftir þetta og átt í miklum erfiðleikum um margra mánaða skeið.

Vitnið, Kristín Andersen kvensjúkdómalæknir, sem skoðaði A á Neyðarmóttöku, kvað hana hafa verið í greinilegu uppnámi og hefði henni liðið mjög illa. Hún hefði titrað, skolfið og grátið. Vitnið kvað A hafa virkað einlæga og hefði hún talið frásögn hennar trúverðuga.

Vitnið, Margrét A. Hauksdóttir sálfræðingur, kvað a hafa sótt 30 viðtöl hjá sér og væri niðurstaða endurtekins greiningarmats sú að hún þjáðist af alvarlegri áfallastreituröskun og þunglyndi, sem rekja megi til verknaðar ákærðu. A hafi upplifað ofsaótta í þeim aðstæðum sem hún lenti í. Þá hafi hún upplifað sálræn einkenni í kjölfar atburðarins, eins og rakið er í vottorði vitnisins. Hún hafi átt erfitt með að segja frá því sem gerðist, verið hrædd og grátið mikið. Hún hafi verið trúverðug að mati vitnisins og fullt samræmi í frásögn hennar. Vitnið kvað ekki hægt að fullyrða um hvort A muni ná fullum bata.

Vitnið, Óskar Geir Guðmundsson lögreglumaður, sem ræddi við A á heimili B eftir að tilkynnt hafði verið um atburðinn, kvað hana hafa verið í miklu uppnámi og hefði hún skolfið og grátið. Vitnið kvaðst hafa ritað eftir stúlkunni lýsingu á atburðinum, m.a. að mennirnir hefðu haldið fótum hennar. Hann kvaðst þó ekki muna hvort hann ritaði orðrétt eftir henni.

Vitnið, Þórir Ingvarsson rannsóknarlögreglumaður, sem ræddi við A á Neyðarmóttöku, kvað hana hafa sýnt dæmigerð „kreppuviðbrögð“. Hún hefði grátið og átt erfitt. Ekki hefði verið að sjá að stúlkan væri ölvuð og hefði ástand hennar verið þannig að hann treysti henni til að gefa skýrslu fyrir læknisskoðun.

Þá gaf vitnið, Gísli Þorsteinsson lögreglufulltrúi, skýrslu fyrir dóminum og gerði grein fyrir rannsókn málsins. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnisins.

Niðurstaða

Ákærðu neita sök. Þeir viðurkenna að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A, eins og lýst er í ákæru, en hafa borið að það hafi verið með hennar vilja. Ákærðu kveðast ekki hafa beitt stúlkuna ofbeldi eða ólögmætri nauðung eins og þeim er gefið að sök.

A hefur borið að ákærðu hafi, gegn vilja hennar, farið með hana á heimili ákærða Y og þröngvað henni þar til samræðis og munnmaka eins og í ákæru greinir, m.a. með því að halda höndum hennar og höfði. Framburður ákærðu er um margt misvísandi og ótrúverðugur að mati dómsins. Bera skýrslur ákærðu með sér að þeir hafi leitast við að samræma framburð sinn. Svo sem rakið hefur verið hitti ákærði X A nokkrum dögum fyrir atburðinn. Hefur stúlkan borið að ákærði hafi verið mjög ágengur við hana, en hún hafi ekki haft áhuga á frekari kynnum við hann. Fær sá framburður stuðning af gögnum um símasamskipti þeirra og framburði vitna, sem rakinn hefur verið. Stúlkan kannast ekki við að hafa sent ákærða símaskilaboð um að sækja sig þessa nótt og hefur gefið þá skýringu að skilaboðin hafi verið öðrum ætluð. Í ljósi þess sem fram er komið um samskipti ákærða og stúlkunnar þykir frásögn hans um að hún hafi kysst hann í bifreiðinni vera með miklum ólíkindablæ og verður sú ályktun dregin af framburði Y við upphaf lögreglurannsóknar að hann hafi ekki orðið vitni að slíku, þó að hann hafi borið um það á síðari stigum. Ákærði X hefur borið að E og ókunnur leigubifreiðarstjóri hafi verið vitni að því að stúlkan hafi farið sjálfviljug inn á heimili meðákærða. Sú frásögn fær að mati dómsins ekki stoð í framburði ákærða Y, sem greindi frá því við lögreglurannsókn málsins að hann hefði engan séð er þau komu að húsinu, en bar síðar á sama veg og meðákærði um þetta. Lýsingar vitnisins E um atvik að þessu leyti eru óljósar og er framburður ákærðu og vitnisins um samskipti þeirra og atvik í umrætt sinn misvísandi. Þá leiddi eftirgrennslan lögreglu ekki í ljós að leigubifreið hefði verið kölluð að heimili vitnisins í umrætt sinn.

Ákærðu kannast við að stúlkan hafi farið að gráta meðan á kynferðismökum þeirra við hana stóð. Þá bera vitni að hún hafi verið illa á sig komin, í miklu uppnámi og grátandi eftir atburðinn. Miðað við aðdraganda þess að ákærðu höfðu kynferðismök við stúlkuna og ástand hennar á eftir, þykir ótrúverðugur framburður ákærðu um að hún hafi verið þeim samþykk. Er jafnframt til þess að líta sem kom fram í vottorði og vitnisburði Margrétar A. Hauksdóttur sálfræðings að af viðtölum við stúlkuna verði ráðið að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi við atburðinn. 

Framburður A er trúverðugur að mati dómsins. Hefur framburður hennar verið á einn veg um þau atriði sem skipta máli og fær jafnframt stoð í framburði vitna og gögnum málsins, svo sem rakið hefur verið. Framburður ákærðu er að sama skapi ótrúverðugur og misvísandi um tiltekin atriði. Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn A til grundvallar í málinu. Þykir sannað að ákærðu hafi beitt stúlkuna ofbeldi til að koma fram vilja sínum við hana. Þá notfærðu ákærðu sér þann aðstöðumun sem var með þeim og stúlkunni, sem var ein með tveimur ókunnum mönnum á ókunnum stað, auk þess sem ákærðu eru sterklega byggðir og vöktu þeir með henni ógn með framkomu sinni. Þykir sannað að ákærðu hafi með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað stúlkunni til samræðis og annarra kynferðismaka svo sem í ákæru greinir. Verða ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru og varðar háttsemi þeirra við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði X er fæddur í [...]. Hann á sér allnokkurn sakaferil, allt aftur til ársins 1998. Hefur ákærði hlotið 8 refsidóma og fjórum sinnum gengist undir sektarrefsingu vegna líkamsárása, auðgunarbrota, umferðar- og fíkniefnalagabrota. Meðal annars var ákærði í maí 2003 dæmdur til tveggja ára fangelsisrefsingar vegna brots gegn 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 217. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann í október 2004 dæmdur til þriggja ára fangelsisrefsingar vegna brots gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en með þeim dómi var jafnframt dæmd upp 360 daga reynslulausn. Þótt refsidómar sem ákærði hefur hlotið hafi ekki ítrekunaráhrif þykir, með vísan til 5. tölul. 70. gr. almennra hegningarlaga, mega horfa til sakaferils hans við ákvörðun refsingar í málinu.

Ákærði Y er fæddur í [...] Hann hefur frá árinu 2005 sex sinnum gengist undir sektarrefsingu vegna umferðar-, áfengis- og fíkniefnalagabrota. Árið 2007 var hann dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar vegna líkamsárásar og eignaspjalla. Þá hlaut hann 10 mánaða fangelsisdóm vegna brots gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga í október 2010. Síðast gekkst ákærði undir sektargerð vegna fíkniefnalagabrots 30. mars 2012 og verður refsing hans í málinu því ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir nauðgun með því að veitast í sameiningu að A, sem var tæpra 19 ára að aldri, og þröngva henni með ofbeldi og ólögmætri nauðung til samræðis og munnmaka. Brot ákærðu var alvarlegt og háttsemi þeirra sérlega niðurlægjandi fyrir stúlkuna. Hefur háttsemi þeirra valdið stúlkunni mikilli andlegri vanlíðan. Þá sýndu ákærðu einbeittan brotavilja. Með hliðsjón af öllu framansögðu og með vísan til 1., 2. og 6. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða X hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár, en ákærða Y fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.

Réttargæslumaður brotaþola hefur, á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, krafist miskabóta úr hendi ákærðu í sameiningu að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta. Með broti því sem ákærðu hafa framið hafa þeir bakað sér miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola. Í málinu liggur fyrir vottorð sálfræðings þar sem kemur fram að brotið hafi haft djúpstæð áhrif á líðan brotaþola og glími hún við alvarleg einkenni áfallastreituröskunar og þunglyndis. Kom fram í vitnisburði sálfræðingsins að óvíst væri um batahorfur hennar. Verða ákærðu dæmdir til greiðslu miskabótakröfu eins og hún er fram sett, með vöxtum sem í dómsorði greinir.

Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 502.500 krónur. Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 439.250 krónur, og þóknun verjanda síns við lögreglurannsókn málsins, Daða Ólafs Elíassonar hdl., 62.750 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærðu greiði í sameiningu annan sakarkostnað málsins, 564.707 krónur, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.          

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.

Héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, Pétur Guðgeirsson og Þórður S. Gunnarsson kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.

Ákærðu greiði A óskipt 2.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2011 til 25. febrúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 502.500 krónur.

Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 439.250 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Daða Ólafs Elíassonar hdl., 62.750 krónur.

Ákærðu greiði í sameiningu 564.707 krónur í annan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 251.000 krónur.