Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-43
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Fjárdráttur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Hegningarauki
- Vararefsing
- Virðisaukaskattur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 8. mars 2023 leitar Sigurmundur Gísli Einarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. febrúar 2023 í máli nr. 13/2022: Ákæruvaldið gegn Sigurmundi Gísla Einarssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfestur dómur héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda, samkvæmt tveimur ákærum, fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum í starfi sínu sem framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eigandi Viking Tours Vestmannaeyjum ehf., látið hjá líða að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins og staðgreiðslu sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins. Leyfisbeiðandi var einnig sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum látið hjá líða að skila til Innheimtustofnunar sveitafélaga meðlagsgreiðslum þáverandi starfsmanns félagsins en greiðslurnar höfðu verið dregnar af launum hans. Leyfisbeiðandi var dæmdur til greiðslu 22.000.000 króna sektar en honum ekki gerð vararefsing þar sem um væri að ræða hegningarauka við dóm Landsréttar 22. júní 2018 í máli nr. 47/2018 og hámark vararefsingar hefði þegar verið nýtt með þeim dómi.
4. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að lög nr. 29/2021 um rannsókn og saksókn skattalagabrota, sem tóku gildi 1. maí 2021 og fyrirmæli ríkissaksóknara um meðferð skattamála nr. 6/2021 frá 25. ágúst 2021, sem sett voru á grundvelli 21. gr. laga nr. 88/2008, breyttu engu um refsinæmi brota leyfisbeiðanda eða lögbundin viðurlög við þeim. Við ákvörðun refsingar taldi Landsréttur að með hliðsjón af þeirri vararefsingu sem mælt hefði verið fyrir um í dómi réttarins í máli nr. 47/2018 og með vísan til 1. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga yrði ekki kveðið á um vararefsingu vegna þeirrar sektar sem leyfisbeiðanda var gerð.
5. Leyfisbeiðandi telur að málið varði mikilvæga hagsmuni sína og að úrlausn Hæstaréttar hafi verulegu almenna þýðingu. Þá telur hann dóminn bersýnilega rangan að efni til um ákvörðun viðurlaga. Vísar hann meðal annars til þess að með dómi Landsréttar hafi vararefsing verið felld niður. Með því hafi ekki verið farið með málið sem hegningarauka við hinn fyrri dóm. Leyfisbeiðandi hafi lokið afplánun vararefsingar samkvæmt fyrri dómi með samfélagsþjónustu en sé nú í 22.000.000 króna skuld við ríkissjóð þrátt fyrir afplánun samfélagsþjónustu. Þannig sé hann ekki jafnsettur og ef málin hefðu verið dæmd í einu lagi og refsing hans sé því orðin sérstaklega íþyngjandi og óvanaleg.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.