Hæstiréttur íslands

Mál nr. 712/2012


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni


Fimmtudaginn 2. maí 2013.

Nr. 712/2012.

K

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Börn. Forsjá. Umgengni.

M og K deildu um forsjá sonar síns og umgengni við hann. Áður höfðu þau samkvæmt samkomulagi farið sameiginlega með forsjá drengsins sem hafði haft lögheimili hjá K og verið eina viku í senn hjá hvoru foreldri. Í héraðsdómi kom fram að samkvæmt þágildandi 2. mgr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003 yrði ekki með dómi kveðið á um að forsjá barns yrði sameiginleg og yrði því að taka afstöðu til þess hvor aðila skyldi fara með forsjá drengsins. Samkvæmt mati dómkvadds matsmanns var talið að báðir foreldrar væru mjög hæfir til að fara með forsjá drengsins og hefðu góð tengsl við hann. Jafnframt kom þar fram að drengurinn vildi hafa óbreytt ástand og hefði hann lýst yfir vilja sínum til að umgangast báða foreldra sína jafnt en að ætla mætti að hann vildi ekki gera upp á milli foreldra sinna. Fyrir dómi ítrekaði matsmaður þessa skoðun sína. Taldi héraðsdómur að þegar litið væri til álitsgerðar og skýrslu matsmannsins fyrir dómi og þess sem fyrir lægi um líðan drengsins að hagsmunum hans væri best borgið færi M með forsjá hans. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Engin efni voru talin til að fallast á kröfu K um ómerkingu héraðsdóms og ómerkingu málsins þar sem dómurinn hafði ekki rætt við drenginn til að kanna vilja hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2012. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur ásamt meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst áfrýjandi að hún verði „sýknuð af kröfum stefnda í héraði“ og að samkomulag aðila 13. júlí 2009 um sameiginlega forsjá með dreng málsaðila verði fellt úr gildi en áfrýjanda falin forsjá hans. Þá krefst hún þess að kveðið verði á um inntak umgengni við drenginn. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða einfalt meðlag með drengnum frá uppsögu dóms Hæstaréttar til fullnaðs 18 ára aldurs hans. Að lokum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Engin efni eru til að fallast á kröfu áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 9. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M, [...], [...], á hendur K, [...], [...], með stefnu birtri 31. ágúst 2012.

                Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.            Að honum verði með dómi falin forsjá sonar hans og stefndu, A, kt. [...], til 18 ára aldurs hans.

2.            Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda einfalt lágmarksmeðlag með drengnum frá dómsuppsögu til fullnaðs 18 ára aldurs hans.

3.            Að dómurinn ákveði inntak umgengni þess foreldris sem ekki fær forsjá drengsins.

4.            Að auki er krafist málskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til 25,5% virðisaukaskatts.

                Af hálfu stefndu eru gerðar eftirfarandi dómkröfur:

1.                   Að öllum kröfum stefnanda verði hafnað.

2.                   Að staðfest samkomulag aðila frá 13. júlí 2009 um sameiginlega forsjá drengsins, A, kt. [...], verði fellt úr gildi.

3.                   Að stefndu verði falin forsjá drengsins.

4.                   Að dómurinn ákveði inntak umgengni þess foreldris sem ekki fer með forsjá drengsins samkvæmt dómi í máli þessu.

5.                   Að stefnanda málsins verði gert að greiða með drengnum einfalt meðlag sem sé jafnt barnalífeyri eins og hann er ákveðinn af Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma frá dómsuppsögu þar til drengurinn verður fullra átján ára.

6.                   Loks er þess krafist að stefndu verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins.

                Málavextir

                Málsaðilar bjuggu saman í óvígðri sambúð á árunum 1996 til 2009 og eignuðust á þeim tíma tvö börn, þau B sem fæddist árið 1997 og A sem fæddist árið 2001. Við sambúðarslit sömdu aðilar um sameiginlega forsjá barnanna og ákváðu að stúlkan yrði með lögheimili hjá stefnanda en drengurinn hjá stefndu og að hvort þeirra um sig greiddi einfalt meðlag til hins foreldrisins. Síðar sömdu aðilar um að forsjá stúlkunnar yrði flutt til stefnanda. Frá því að málsaðilar slitu samvistum hefur drengurinn verið til skiptis eina viku í senn hjá hvoru foreldri.

                Drengurinn stundar nú nám í [...] í [...]. Stefnandi býr í íbúð sem málsaðilar bjuggu áður í að [...] í [...], ásamt sameiginlegri dóttur aðila, A. Nýverið hóf stefnandi samband við konu, C, en hún er ekki búsett á heimilinu. Stefnda býr að [...] í [...] ásamt sambýlismanni sínum til tveggja ára, D. D á 6 ára gamla dóttur sem kemur í umgengni til þeirra aðra hverja helgi, þá sömu og drengurinn hefur verið á heimilinu. Drengurinn er einnig í sambandi við móður- og föðurfjölskyldu sína í gegnum foreldra sína.

                Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi undanfarin misseri skynjað breytingu á drengnum og telur sig hafa greint mikla vanlíðan hjá honum sem hafi smám saman aukist frá sambúðarslitunum. Drengurinn hafi áður verið virkur í íþróttum en hafi nú hætt bæði í handbolta og fótbolta. Hann sé einrænni en áður, gangi verr í skóla og sé daufur og áhugalaus. Sökum þessara breytinga hafi stefnandi óskað eftir því að barnasálfræðingur ræddi við drenginn í því skyni að aðstoða hann og kanna hvernig unnt væri að bæta úr. Var drengurinn þá greindur með þunglyndi og kvíðaröskun. Stefnanda hafi verið tjáð af sálfræðingi að það væri að áliti sálfræðingsins afar mikilvægt að drengurinn ætti eitt fast heimili þar sem núverandi tilhögun á samvistum við aðila ylli honum miklum kvíða og óöryggi og hann þyrfti á meiri festu að halda.

                Einnig kemur fram í stefnu að stefnandi hafi, með hagsmuni drengsins í huga, reynt að ná samkomulagi við stefndu um breytt fyrirkomulag umgengni og/eða búsetu enda telji hann ljóst að það fyrirkomulag að drengurinn sé viku hjá hvoru foreldri gangi ekki upp og hafi hann fengið það staðfest af fagaðilum. Stefnandi telur það henta drengnum betur að búa hjá honum og fara í reglubundna umgengni til stefndu.

                Í greinargerð stefndu kemur fram að hún telji að aðilar málsins hafi frá samvistarslitum haft nokkuð ólíkt sjónarhorn á inntak sameiginlegrar forsjár og út af því hafi orðið árekstrar milli þeirra. Þar hafi einnig spilað inn í, að áliti stefndu, afar neikvætt viðhorf stefnanda til stefndu eftir samvistarslitin. Fyrir liggur að samskipti voru erfið á stundum þar sem stefnandi hafi ítrekað hótað stefndu því forsjármáli sem hér er til meðferðar enda hafi hann ekki náð fram vilja sínum í samskiptum við stefndu um drenginn og hagsmuni hans sem endaði með höfðun þessa máls.

                Stefnda telur drenginn óska eftir því að dvelja jafnt hjá báðum foreldrum en að skipulagi væri breytt þannig að tími hjá hvoru foreldri um sig yrði lengdur. Ekki hafi náðst samkomulag um slíkt þó að stefnda hafi verið reiðubúin til þess. Drengurinn sé góður við báða foreldra sína, þyki vænt um þá báða og vilji gera báðum til hæfis. Þá liggi og fyrir að drengurinn sé upplýstur um ágreining foreldra sinna sem valdi honum erfiðleikum og ákveðinni streitu.

                Með vísan til 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003 var Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur dómkvödd til að leggja mat á forsjárhæfni foreldranna og tengsl þeirra við drenginn. Álitsgerð hennar sem er dagsett 4. maí 2012 var lögð fram í þinghaldi þann 14. maí 2012.

                Í niðurstöðu matsmanns segir um forsjárhæfni málsaðila og hæfi til að sinna þörfum barnsins að báðir þeirra teljist vel hæfir til að fara með forsjá drengsins. Þeir átti sig vel á persónuleika hans og lýsingar þeirra séu samhljóma. Síðan segir: „Þeir þekkja styrkleika A og veikleika og telja báðir nauðsyn á að leita sérfræði ráðgjafar varðandi veikleika drengsins. Báðir foreldrar eru meðvitaðir um mikilvægi uppbyggjandi uppeldisaðferða þó að þeir kjósi að feta ólíkar slóðir. Það er brýnt að þeir séu samtaka í aðferðum við að styrkja A. Samskiptaleysi foreldra og forsjárdeilan hefur komið í veg fyrir að þeir leggist á árarnar og séu samtaka í að styrkja drenginn. Það er mat matsmanns að A þurfi samhæfðan stuðning beggja foreldra við að efla félagslega færni sína og víkka áhugasvið sitt til að koma í veg fyrir einangrun sem getur hlotist af of mikilli tölvunotkun. Jafnframt þurfa foreldrar að taka á vandamáli A varðandi matarvenjur.“

                Hvað varðar tengsl drengsins við málsaðila og eðli þeirra tengsla segir matsmaður í niðurstöðu sinni að í viðtölum og sálfræðilegum prófunum komi fram að drengurinn sé mjög tengdur báðum foreldrum sínum. Tengsl hans við föður séu aukin heldur á vinanótum. A sé meðvitaður um að foreldrar hans séu ekki ásáttir um það með hvaða hætti umgengni hans við þá eigi að vera. Hann vilji ekki gera upp á milli þeirra og kýs að sátt ríki hjá þeim um hann. Einnig kemur fram í niðurstöðu matsmannsins að málsaðilar séu báðir hikandi við að gera kröfur á drenginn og hafi hann vanist því að hafa hlutina eftir sínu höfði sem ekki sé heilladrjúgt fyrir hann.

                Þá kemur fram í niðurstöðunni að það hafi ítrekað komið fram í viðtölum við drenginn að hann kjósi að vera hjá foreldrum sínum til jafns. Eftir skilnað málsaðila hafi hann átt erfitt með að fara á milli heimila á viku fresti en hafi vanist því skipulagi sem er á umgengni hans við foreldra sína og vilji alls ekki breyta því. Matsmaður álíti það einlægan vilja drengsins að hafa þann háttinn á þar sem ekki hafi verið hægt að merkja það í viðtölum við hann að hann væri undir þrýstingi frá foreldrum sínum eða væri að þóknast öðru hvoru þeirra. Hann viti að faðir hans vilji að hann sé meira hjá sér en nú er og að móðir hans vilji hafa óbreytta umgengni.

                Matsmaður svaraði spurningu um það hvernig best væri háttað umgengni drengsins við það foreldri sem ekki fer með forsjá svo að þar sem drengurinn sé tengdur báðum foreldrum sínum sterkum böndum og vilji sjálfur hafa ríka umgengni við þá sé mikilvægt að farið verði að óskum hans. Það sé því nauðsynlegt að tryggt verði að honum verði gert kleift að hafa ríka umgengni við forsjárlaust foreldri.

                Í matsgerðinni kemur fram að matsmaður hafi rætt við Guðrúnu Oddsdóttur barnasálfræðing við gerð matsins. Fram kom hjá henni að málsaðilar hafi að frumkvæði stefnanda farið með drenginn til hennar í eitt viðtal þann 20. maí 2011 þar sem þau hafi haft áhyggjur af líðan hans í kjölfar skilnaðar þeirra. Hún hafi rætt einslega við drenginn og í því viðtali hafi komið fram að hann væri þreyttur á að vera til skiptis viku og viku í senn hjá hvoru foreldri og sagði að honum finnist það vera of mikil flækingur. Hann hafi sagt að hann héldi að það væri betra ef hann væri lengur í senn t.d. hálft ár hjá hvoru foreldri og þá langa helgi á móti hjá hinu foreldrinu. Mjög skýrt hafi komið fram hjá drengnum að hann vildi ekki gera upp á milli foreldranna. Í viðtalinu við Guðrúnu kom fram að hún hafi lagt fyrir hann skimunarkvarðann Children Depression Inventory. Niðurstöðurnar hafi verið innan eðlilegra marka og draga megi þá ályktun út frá honum að drengurinn hafi ekki verið þunglyndur en hækkun hafi verið á kvarða sem mælir ánægju og hafi hann komið út sem nokkuð gleðisnauður drengur.

                Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af málsaðilum og Rögnu Ólafsdóttur sálfræðingi sem staðfesti ofangreinda matsgerð sína fyrir dóminum.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir kröfu sína um að honum verði falin forsjá drengsins A á því að það sé drengnum fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Drengurinn sé afar hændur að stefnanda og hafi tjáð stefnanda að hann vilji búa hjá honum. Drengurinn hafi mikið til dvalið hjá stefnanda og komi t.d. oft að borða hjá honum þá viku sem hann er í umgengni hjá stefndu. Þá viku sem drengurinn er hjá stefnanda er hann mjög háður honum og megi vart af honum sjá. Skynjar stefnandi þannig töluverðan aðskilnaðarkvíða hjá drengnum. Ennfremur skiptir það verulegu máli að hjá stefnanda býr eldri systir drengsins og eru systkinin mjög samrýnd. Stefnandi telur betra fyrir drenginn að fá að búa á sama stað og eldri systir hans. Samvistir stefnanda og drengsins hafa ætíð verið miklar og að mati stefnanda hefur hann annast uppeldi drengsins í meira mæli en stefnda. Hann hefur t.d. verið sá aðili sem sér meira um samskipti við skóla og annað sem varðar daglegt líf drengsins.

                Stefnandi telur afar brýnt að drengurinn eigi eitt fast heimili en umgangist reglubundið það foreldri sem hann býr ekki hjá. Stefnandi telur það í samræmi við vilja drengsins og henta honum betur að búa hjá honum. Fyrirkomulagið sem fyrir hendi er henti ekki drengnum en taki fremur mið af „hagsmunum foreldranna“.

                Stefnandi býr í þeirri íbúð sem málsaðilar bjuggu saman í áður. Þannig er um að ræða umhverfi sem drengurinn er vanur og þekkir. Aðstæður á heimilinu eru góðar, drengurinn á þar sérherbergi og býr við gott atlæti. Drengurinn gengur í [...] í [...] sem er þannig hvorki í næsta nágrenni við heimili stefnanda né stefndu. Verði stefnanda falin forsjáin verður þannig ekki um að ræða röskun eða breytingu á skólagöngu hans. Besti vinur drengsins býr í næsta húsi og þær tómstundir sem drengurinn hefur tekið þátt í fara fram í hverfinu. Það er markmið stefnanda að koma drengnum aftur af stað í tómstundir enda telur hann það honum mikilvægt og til góðs.

                Aðstæður stefnanda eru góðar og traustar og hjá honum býr drengurinn við stöðugleika, alúð og öryggi. Persónulegir eiginleikar stefnanda gera hann að vel hæfum forsjáraðila. Stefnandi er hraustur og reglusamur og starfar sem [...] hjá fyrirtækinu [...]. Hann er einhleypur og hefur góðan tíma og getu til að sinna drengnum. Vinnutími stefnanda er þannig að hann er til staðar fyrir drenginn að skóladegi loknum en hann er yfirleitt búinn að vinna um kl. 16 og ræður vinnutíma sínum sjálfur.

                Stefnandi hefur mikið og gott samband við fjölskyldu sína og drengurinn er hændur að föðurfjölskyldunni sem er stór og samheldin. Foreldrar stefnanda eru bæði hætt að vinna og stefnandi getur leitað til þeirra er á þarf að halda og drengnum finnst gott að vera hjá þeim og taka þátt í fjölskylduviðburðum. Að mati stefnanda hefur stefnda ekki sama bakland og stuðning í fjölskyldu sinni og hann hefur.

                Af öllu framansögðu telur stefnandi vera ljóst að það sé drengnum fyrir bestu að forsjá hans verði hjá honum. Stefnandi hefði raunar kosið að forsjá aðila yrði áfram sameiginleg en búseta drengsins yrði hjá honum. Þar sem ekki hefur náðst samkomulag þar að lútandi og ekki er unnt að dæma sameiginlega forsjá er stefnanda nauðsynlegt að fara fram á óskipta forsjá.

                Verði fallist á kröfu stefnanda gerir hann kröfu um að stefndu verði gert að greiða honum meðlag með drengnum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 34. gr. og 54. gr. barnalaga nr. 76/2003.

                Þá gerir stefnandi einnig þá kröfu, hvernig sem niðurstaða forsjármálsins verður, að dómurinn ákveði inntak umgengni drengsins og þess foreldris sem ekki fær forsjá hans og hefur stefnandi lagt fram tillögur sínar um umgengni.

                Stefnandi áskilur sér rétt til að útlista kröfur sínar um umgengni ítarlega við meðferð málsins. Um umgengniskröfu vísast til 4. mgr. 34. gr. og 46. gr. barnalaga.

                Stefnandi telur nauðsynlegt, verði gripið til varna í málinu, að dómari hlutist til um á grundvelli 42. gr. barnalaga nr. 76/2003, að sérfróður aðili kanni aðstæður málsaðila, hæfni þeirra til að fara með forsjá barnsins og tengsl þeirra við barnið. Stefnandi áskilur sér að öðrum kosti rétt til að óska eftir sérfræðilegri álitsgerð í því skyni, sbr. 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003.

                Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi máls þessa er ekki virðisaukaskattsskyldur og er honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefndu.

                Málsástæður og lagarök stefndu

                Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, ógildingar upphaflegs samkomulags aðila um sameiginlega forsjá, forsjár og meðlags sér til handa með drengnum auk þess sem kveðið verði á um inntak umgengni stefnanda og drengsins. Verða sjónarmið hennar um allar kröfurnar reifaðar í einu lagi.

                Stefnda hefur eins og fyrr greinir ákveðið að gera kröfu í máli þessu um að henni verði falin forsjá drengsins enda verður ekki dæmt um óbreytt fyrirkomulag eftir að málið er komið fyrir dóm.

                Fyrir liggur að stefnda hefur um nokkurt skeið haft efasemdir um ágæti hinnar sameiginlegu forsjár meðal annars vegna hótana stefnanda um málsóknir, neikvæðni hans í samskiptum og því að ekkert samráð sé um hagsmuni drengsins. Stefnda hefur þó ekki aðhafst af þessu tilefni og þar hefur komið til að hún hefur talið mikils um vert að drengnum yrði ekki ljóst að foreldrar hans þyrftu að leita aðstoðar utanaðkomandi aðila til að ráða ráðum sínum með hann. Stefnda telur hins vegar að úr því sem komið er sé rétt að skorið verði úr um forsjá drengsins þar sem ekki verði lengur búið við hótanir um málsóknir af hinu minnsta tilefni. Þá liggur fyrir sú ömurlega staðreynd að venjulega eru samskipti málsaðila í máli sem þessu óvægin þegar til málaferla er komið.

                Krafa beggja aðila í málinu um fulla forsjá byggir á 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Meginkrafa stefndu byggir á því að það sé drengnum fyrir bestu til frambúðar að njóta forsjár hennar. Fyrir liggi að drengurinn hefur allt frá skilnaði dvalið að jöfnu hjá báðum aðilum og sé tengdur stefndu.

                Að auki telur stefnda að hún hafi sýnt að hún hafi alla tíð verið sveigjanleg hvað snertir drenginn og tíma hans með stefnanda og sé líklegri til að gæta að réttindum hins forsjárlausa í máli þessu en stefnandi. Málaferli þau sem nú eru í gangi séu lýsandi fyrir skaphöfn stefnanda sem sé ekki til þess fallin að gæta hagsmuna beggja foreldra. Skynsamlegra hefði verið að reyna að ná samkomulagi um lengri samfelldar samvistir með hvoru foreldri um sig og meta reynslu af slíku. Það var það sem drengurinn óskaði eftir og ljóst er að hefði mögulega komið í veg fyrir málaferli.

                Nú þegar á þeim tíma sem liðinn er eftir skilnað liggi fyrir staðreyndir um það hvernig stefnda hafi unnið úr málum varðandi samvistir drengsins við stefnanda og fjölskyldu hans á „sínum dögum“, sem sé af tillitssemi sé litið til sambærilegra mála. Þannig telur stefnda að verði henni falin forsjá þá verði hún líklegri til að virða samvistir drengsins og hins forsjárlausa foreldris en stefnandi. Stefnandi hafi að öllu jöfnu verið óbilgjarn í samskiptum sínum með drenginn hafi hann „átt“ tíma með honum.

                Stefnda bendir einnig á að aðstæður hennar til að fara með forsjá drengsins séu góðar. Hún búi í rúmgóðri íbúð og muni gera það áfram þótt mögulega komi til flutnings. Hún er útivinnandi en hefur möguleika á að laga vinnu sína að þörfum barnsins og njóti um stöðu sína sem foreldris skilnings vinnuveitanda þannig að fjarvistir frá barninu vegna vinnu eru óverulegar. Stefnda er heilbrigð, vel á sig komin líkamlega og reglusöm og í alla staði glæsileg og góð fyrirmynd sonar síns. Þá liggur fyrir að hún er í góðri sambúð með manni sem drengnum líki vel við og njóti hún stuðnings hans með drenginn og uppeldi hans.

                Talið er eðlilegt komi til flutnings málsins að tengsl barnsins við foreldra sína verði könnuð af sérfróðum aðila með vísan til ákvæðis 42. gr. barnalaga 76/2003 og litið verði til tengsla og vilja drengsins að því marki sem unnt er. Þó er ljóst að fleiri atriði koma til álita en stefnandi vill byggja á, enda hlutverk forelda að veita börnum ástúð og hlýju auk þess sem þau búi við stöðugleika og festu sem eðlilegt er að foreldri sem uppalandi veiti barni.

                Vakin er athygli á því að stefnandi gerir ekki kröfu um ógildingu samkomulags aðila um forsjártilhögun sem eru í gildi milli aðila málsins. Hvað málatilbúnað stefnanda varðar að öðru leyti þá er honum mótmælt sem röngum og ósönnuðum að því marki sem hann fer í bága við málatilbúnað stefndu.

                Málatilbúnaður stefnanda lýsir afstöðu hans til stefndu og þess með hvaða hætti hann telur sig geta ráðið hagsmunum beggja eftir samvistarslit. Málatilbúnaðurinn hefur ekkert með hagsmuni drengsins að gera, sem hafa skal til hliðsjónar við úrlausn málsins, enda hefur drengurinn mesta hagsmuni af jöfnum samvistum við foreldra og jákvæðu viðhorfi þeirra til hans og hvors annars.

                Málatilbúnaðurinn lýsir hins vegar óbilgirni og skilningsleysi um hvað telja megi eðlileg og siðuð samskipti forsjáraðila sem fara sameiginlega með forsjá barns. Foreldrar ættu að geta farið áfallalaust með sameiginlega forsjá í samræmi við meginsjónarmið um slíkt skipulag forsjár enda þarf vart að deila um að báðir aðilar eru hæfir forsjáraðilar og sameiginleg forsjá er talin henta börnum best.

                Gerð er krafa um að föður verði gert að greiða einfalt meðlag með drengnum og um meðlag er vísað til ákvæða 34. gr. og 54. gr. laga nr. 76/2003.

                Einnig er þess krafist að dómari ákveði inntak umgengni aðila með drengnum og skal hún taka mið af vilja drengsins, hún verði sem jöfnust og verði frídögum og leyfum alltaf skipt jafnt.

                Í málinu er gerð krafa um málskostnað og er sú krafa rökstudd með vísan til ákvæða XXI. kafla einkamálalaga nr. 91/1991.

                Stefnda vísar um kröfur sínar í máli þessu til ákvæða barnalaga nr. 76/2003 eftir því sem við á. Um málsmeðferð er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 auk VIII. kafla laga nr. 76/2003 og varðandi málskostnað er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991.

                Niðurstaða

                Í máli þessu krefst stefnandi forsjár sonar aðila, A, sem nú er á tólfta ári.

                Frá því málsaðilar slitu samvistir árið 2009 hafa þeir haft forsjá drengsins sameiginlega og hefur hann dvalist hjá þeim til skiptis eina viku í senn. Stefnandi lýsir því í stefnu að ástæða þess að hann hafi höfðað mál þetta sé sú trú hans að þetta fyrirkomulag henti drengnum ekki heldur væri betra fyrir hann að eiga eitt heimili.

                Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal með dómi kveða á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði eftir því sem barni er fyrir bestu. Við mat á því er að finna leiðbeiningar í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til fyrrnefndra laga, en þar eru talin upp í ellefu liðum eftirfarandi atriði eða sjónarmið, sem einkum ber að horfa til við ákvörðun forsjár: 1. Tengsl barns við hvort foreldri um sig. 2. Dagleg umönnun og umsjá. 3. Persónulegir eiginleikar og hagir hvors foreldris um sig og svo barnsins. 4. Óskir barns. 5. Kyn og aldur. 6. Systkinahópur. 7. Húsnæðismál. 8. Liðsinni vandamanna hvors um sig, þar á meðal nágrenni foreldra og áhrif nýs maka eða sambúðaraðila. 9. Breyting á umhverfi. 10. Umgengni barns og forsjárlauss foreldris. 11. Sök foreldra á samvistaslitum og ólögmæt sjálftaka barns.

                Verða nú aðstæður málsaðila og drengsins skoðaðar með hliðsjón af ofangreindum atriðum.

                Í áliti dómkvadds matsmanns, Rögnu Ólafsdóttur sálfræðings, kemur fram að báðir málsaðilar eru mjög hæfir til að fara með forsjá drengsins og hafa góð tengsl við hann. Fram komi í viðtölum og sálfræðilegum prófum að drengurinn sé mjög háður báðum foreldrum sínum. Hann upplifi ástúð, umhyggju og athygli frá þeim báðum en tengsl hans við stefnanda séu einnig á vinanótum.

                Hvað varðar daglega umönnun og umsjá drengsins, sem er nú á tólfta ári, eru einu sérþarfirnar sem nefndar hafa verið tengdar mataræði en drengurinn er mjög matvandur og hafa báðir foreldrar reynt að taka á því vandamáli og sýnt fullan vilja til þess að gera það áfram. Gögn málsins, t.d. frásögn í matsgerð af viðtali við kennara drengsins, benda einnig til þess að tölvunotkun drengsins sé meiri en eðlilegt geti talist en af þeim frásögnum málsaðila sem raktar eru í matsgerð virðist stefnda fremur álita að um sé að ræða vandamál en stefnandi. Það er mat matsmanns að A þurfi samhæfðan stuðning beggja foreldra við að efla félagslega færni sína og víkka áhugasvið sitt til að koma í veg fyrir einangrun sem getur hlotist af of mikilli tölvunotkun. Í niðurstöðu matsmanns kemur fram að málsaðilar séu meðvitaðir um mikilvægi uppbyggilegra uppeldisaðferða en kjósi að feta ólíkar leiðir. Af málsgögnum og því sem fram hefur komið við aðalmeðferð málsins má ráða að stefnda beiti meiri aga í uppeldi drengsins.

                Hvað varðar persónulega eiginleika málsaðila þá segir í niðurstöðu matsmanns um stefnanda:

                „Faðir drengsins býr í eigin húsnæði og fer með forsjá systur A. Hann er ánægður í starfi og aflar góðra tekna. Hann býr börnum sínum gott heimili og leggur sig fram um að mæta þörfum barna sinna og hefur sett þær ofar sínum þörfum. M hefur nýverið kynnst konu og má ætla að verði áframhald á sambandi þeirra breytist það jafnvægi sem ríkt hefur á högum fjölskyldunnar. Sennilega getur það orðið til góðs þar sem eðlilegt er að börn átti sig á að þarfir foreldra snúa ekki einvörðungu að þeim. Að sögn föður hafa börnin tekið vinkonu hans vel. M hefur elskulegt og hlýlegt viðmót. Samkvæmt persónuleikaprófi er M ekki haldinn neinum geðsjúkdómum. Fram kemur að hann gengst ekki við neinni streitu af sálfræðilegum toga hjá sjálfum sér. Hann er ánægður með líf sitt og leitast við að sjá björtu hliðar lífsins. Hann býr yfir bjargráðum við að leysa úr persónulegum málum. Hann kann að virka sjálfsmiðaður og eiga erfitt með fólk sem lítur öðru vísi á hlutina en hann.“

                Um stefndu segir matsmaður:

                „Móðir drengsins hefur verið í sambúð til tveggja ára. Samkvæmt athugun tengist A sambýlismanni móður sinnar og dóttur hans jákvæðum böndum. K er í vinnu sem henni líkar vel og hefur góðar og stöðugar tekjur. Hún býr syni sínum gott heimili. Viðmót hennar er glaðvært og hressilegt. Samkvæmt persónuleikaprófum er hún ekki haldin neinum geðsjúkdómum. K sýnir ríka tilhneigingu til að draga upp jákvæða mynd af sjálfri sér. Hún kemur fram sem vökul, virk og félagslynd kona sem á auðvelt með að axla persónulega ábyrgð án þess að það íþyngi henni um of. Hún hefur tilhneigingu til að vera ósveigjanleg.“

Hvað varðar hagi málsaðila þá hefur stefnda verið í sambúð með D síðustu tvö ár og benda þær upplýsingar sem fram kom í matsgerð sálfræðings til góðra tengsla drengsins við hann og börn hans sem koma reglulega á heimilið. Samkvæmt stefnu var stefnandi einhleypur þegar málið var höfðað. Í skýrslu hans við aðalmeðferð málsins kom fram að aðstæður hans hafa breyst síðan þá að því leyti að hann er nú kominn í samband við konu, C, og hafa þau hug á að hefja sambúð eftir næstu áramót. C á son sem er 16 ára og býr hjá henni. Af þessu má ráða að breytingar hafa orðið á aðstæðum stefnanda frá því málið var höfðað og frekari breytingar verða byrji hann í sambúð með C. Ekki var rætt við C við gerð mats dómkvadds matsmanns en af hálfu stefnanda komu upplýsingar um þessa breytingu á högum hans fyrst fram við aðalmeðferð málsins en B sagði matsmanninum frá C. Í framburði stefndu kom hins vegar fram að drengurinn virtist jákvæður gagnvart C. Í niðurstöðu matsmanns kemur fram, eins og rakið hefur verið, að hann telur að sennilega geti samband stefnanda og C orðið til góðs þar sem eðlilegt sé að börn átti sig á að þarfir foreldra snúi ekki einvörðungu að þeim

                Hvorki í gögnum málsins né í framburði aðila við meðferð málsins kom neitt fram sem bendir til þess að störf málsaðila geti haft áhrif á getu þeirra til að annast drenginn.

                Það er mat dómsins með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið að aðstæður og hagir málsaðila séu sambærileg. Eini óvissuþátturinn er hvaða áhrif það hefur á drenginn þegar hann dvelst hjá stefnanda byrji stefnandi í sambúð.

                Samkvæmt því sem fram kom í áliti dómkvadds matsmanns er það vilji drengsins að hafa óbreytt ástand. Drengurinn er meðvitaður um að foreldrar hans eru ekki sammála um hvernig umgengni hans við þá eigi að vera. Hann vilji ekki gera upp á milli þeirra og kjósi að sátt ríki um sig meðal þeirra. Ítrekað hafi komið fram í viðtölum við drenginn að hann kjósi að vera hjá foreldrum sínum til jafns. Eftir skilnað foreldra sinna hafi hann átt erfitt með að fara á milli heimila á viku fresti en hafi nú vanist því og vilji ekki breyta þessu. Matsmaðurinn álítur það einlægan vilja drengsins að vera hjá foreldrum sínum til jafns og að ekki hafi verið hægt að merkja það í viðtölum að hann væri undir þrýstingi frá foreldrum eða væri að þóknast öðru þeirra þrátt fyrir að þekkja afstöðu þeirra. Aðspurður sagði matsmaður að jafnt þýddi ekki endilega jafnt það gæti eins verið að hann yrði 60 eða 70% tímans hjá öðru foreldri og 40 eða 30% tímans hjá hinu. Í matsgerðinni kemur fram sú skoðun matsmanns að ætla megi að drengurinn sé í hollustuklemmu varðandi foreldra sína. Í skýrslu sinni fyrir dóminum sagði matsmaður að ekki væri hægt að útiloka að drengurinn væri ekki að hugsa um eigin hag þegar hann gaf upp afstöðu sína og taldi að vera kynni að hann vildi ekki gera upp á milli foreldra sinna. Hann taldi að þeir flokkadrættir sem eru í fjölskyldunni hefðu áhrif á drenginn en þeir ættu þó ekki að hindra tengsl hans við stefndu. Einnig kom fram hjá honum að hann telji að stefnda sé ákveðnari en stefnandi þegar kæmi að því að beita sér í uppeldinu og að hann telji að best sé að hafa skipan mála óbreytta. Það sé slæmt fyrir drenginn að lifa við það að forsjá hafi verið ákveðin með dómi þar sem foreldrar hafi ekki getað komið sér saman um hana.

                Eins og atvikum er háttað í máli þessu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að rök séu til að láta kyn og aldur hafa sérstök áhrif á niðurstöðu málsins.

                Málsaðilar og matsmaður eru sammála um að samband drengsins við systur sína, B, sé mjög gott. Í áliti matsmanns kemur fram að samband drengsins við börn sambýlismanns móður er koma reglulega á heimilið sé gott. Fyrirhugað er að 16 ára sonur verðandi sambýliskonu stefnanda muni einnig flytja á heimilið en ekki liggur fyrir hvort drengurinn hefur verið í samskiptum við hann og þá hvernig þau samskipti hafa verið.

                Báðir málsaðilar búa á svipuðum stað í Reykjavík en drengurinn gengur í [...] í [...]. Stefnandi býr í sama húsnæði og málsaðilar bjuggu áður í saman. Fyrir liggur að ætlunin er sú að drengurinn verði áfram í skóla í [...] eftir að hann lýkur námi í barnaskólanum. Báðir málsaðilar hafa lýst því yfir að vilji þeirra standi til þess að flytja í [...]. Samkvæmt þessu yrði ekki neinn munur á umhverfi drengsins eftir því hvort forsjá fer til stefnanda eða stefndu og hefur það því ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

                Á sama hátt verður ekki gerður munur á stöðu aðila hvað varðar liðsinni vandamanna en fyrir liggur að drengurinn er í samskiptum við móður- og föðurfjölskyldu sína í gegnum málsaðila þótt í mismiklum mæli sé. Eins og fyrr hefur verið rakið liggur ekki fyrir á hvern hátt fyrirhuguð sambúð stefnanda kemur til með að hafa áhrif á drenginn og samskipti hans við stefnanda og fjölskyldu væntanlegrar sambýliskonu hans. Stefnda hefur hins vegar verið í sambúð í um tvö ár og fyrir liggur að samskipti drengsins við D, sambýlismann hennar, og börn hans eru góð og hefur hann aðstoðað stefndu við umönnun drengsins.

                Hvað það varðar hvort ákvörðun um forsjá muni hafa í för með sér breytingar á umhverfi fyrir drenginn þá búa málsaðilar nú, eins og áður hefur verið rakið, í sama hverfi í [...] og hafa bæði hug á af flytja til [...] þar sem drengurinn gengur í skóla og fyrirhugað er að hann verði áfram í skóla. Stefnandi býr í þeirri íbúð sem málsaðilar bjuggu áður saman í en hyggur nú á flutning þaðan. Með hliðsjón af þessu eru ekki rök til að gera greinarmun á aðstæðum málsaðila hvað þetta varðar.

                Hvað varðar umgengni við forsjárlaust foreldri þá hafa málsaðilar lýst því yfir að þeir muni stuðla að umgengni drengsins við það foreldri sem ekki fer með forsjá hans. Í gögnum málsins kemur fram að samskipti stefndu og B hafi ekki gengið sem skyldi og að á köflum séu lítil sem engin samskipti á milli þeirra. Samskipti þeirra hafi minnkað mjög eftir að forsjá hennar færðist til stefnanda. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að sama gerðist færi forsjá drengsins til stefnanda enda virðist, samkvæmt því sem fram hefur komið við meðferð málsins, sem samband stefndu við B sé ólíkt sambandi hennar við drenginn. Við meðferð málsins hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að annar málsaðila sé líklegri en hinn til að stuðla að umgengni við það foreldra sem ekki verður með forsjá drengsins.

                Ekki er í máli þessu byggt á sök foreldra á samvistaslitum eða ólögmæta sjálftöku barns og kemur það því ekki til skoðunar.

                Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003 verður ekki með dómi kveðið á um að forsjá barns verði sameiginleg og verður því dómurinn að taka afstöðu til þess hvor málsaðila skuli fara með forsjá drengsins. Við þá ákvörðun ber auk afstöðu drengsins að leggja heildstætt mat á þau gögn sem liggja frammi í málinu, þegar metið er hvað sé drengnum fyrir bestu, sbr. ofangreind 2. mgr. 34. gr.

                Báðir foreldrar eru vel hæfir til að fara með forsjá drengsins og verður að harma að þeim skuli ekki hafa tekist að komast að samkomulagi um áframhaldandi sameiginlega forsjá en telja verður með vísan til þess sem fram kom hjá dómkvöddum matsmanni að hún þjóni best þörfum drengsins.

                Ábyrgð þess foreldris sem fer með forsjá við sambúðarslit, er mikil. Það þarf fyrst og fremst að bera hag barnsins fyrir brjósti, annast það og koma því til þroska, en einnig ber því að hlúa að jákvæðum tengslum barnsins við hitt foreldrið. Með því móti er best séð fyrir þörfum barnsins.

                Eins og rakið hefur verið þá kemur fram í matsgerð dómkvadds matsmanns að drengurinn vildi hafa óbreytt ástand og lýsti yfir vilja sínum til að umgangast báða foreldra sína jafnt. Einnig kemur þar fram að matsmaður taldi að drengurinn hefði lagt sig fram um að gera ekki upp á milli foreldra sinna. Í matsgerðinni er því lýst að þegar drengurinn tók Bene-Anthony fjölskyldutengslapróf hafi hann myndað fjölskyldu sem samanstandi af honum, foreldrum sínum, B, C og D og hafi hann sent foreldrum sínum flest skilaboðanna. Síðan segir í matsgerðinni: „Það má ætla að hann sé í hollustuklemmu varðandi foreldra sína. A sendir þeim ekki sjálfkrafa skilaboð heldur var íhugull og meðvitaður um að þau fengu jafnmörg skilaboð og þau sömu.“ Í matsgerð kemur einnig fram að drengurinn hafi talað vel um báða foreldra sína, lýst þeim báðum með orðinu „nice“, sagt að sömu reglur giltu á báðum heimilunum og hafi gætt þess vel í öllu tali sínu að gera ekki upp á milli þeirra. Í skýrslu sinni fyrir dóminum ítrekaði matsmaður að drengurinn væri í hollustuklemmu og sagði að vera kynni að hann vildi ekki gera upp á milli foreldra sinna. Það væri því ekki hægt að útiloka að hann væri ekki að hugsa um eigin hag þegar hann segðist vilja hafa óbreytt ástand.

                Fyrir dóminum lýsti stefnandi því að drengurinn hefði sagt honum að hann vildi eiga heima á einum stað en stefnda sagði drenginn hafa sagt við sig að hann vildi hafa óbreytt ástand.

                Stefnandi lýsir því í stefnu að hann hafi skynjað mikla vanlíðan hjá drengnum eftir skilnað málsaðila sem hafi smám saman aukist. Vegna þessa hafi barnasálfræðingur rætt við drenginn og greint hann með þunglyndi og kvíðaröskun. Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram gögn eða leidd fram vitni sem staðfesta þetta.

                Af gögnum málsins má þó ráða að drengurinn hafi átt við nokkurn aðlögunarvanda að stríða síðan málsaðilar skildu. Það er mat dómsins með vísan til matsgerðar og skýrslu matsmanns fyrir dóminum að drengurinn hafi þörf fyrir að eiga heimili á einum stað en honum sé annaðhvort vegna aðstæðna erfitt um vik að koma á framfæri vilja sínum eða hann skynji ekki sjálfur hvað henti honum. Þrátt fyrir þetta efast dómurinn ekki um að tengsl drengsins við báða málsaðila séu góð og hann hafi raunverulegan vilja til að umgangast þau bæði eins mikið og kostur er. Dómurinn telur að drengurinn sé í erfiðri stöðu gagnvart foreldrum sínum vegna þess ágreinings sem hér er til úrlausnar og sú staðreynd að í prófum matsmanns og viðtölum við hann hafi hann gert allt til að tryggja að ekki hallaði á annað þeirra styðji þetta mat dómsins.

                Eins og rakið hefur verið eru báðir málsaðilar vel hæfir til að fara með forsjá drengsins. Bæði hafa getu til að taka á þeim vandamálum sem uppi eru hjá drengnum og ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að þau mundu bæði stuðla að umgengni drengsins við forsjárlaust foreldri.

                Af því sem fram hefur komið í málinu má ráða að aðstæður á heimili stefndu séu mjög góðar og á drengurinn góð samskipti bæði við sambýlismann stefndu og dóttur hans sem þar er reglulega í umgengni. Aðstæður á heimili stefnanda eru einnig góðar en fyrir liggur að þær munu breytast eftir áramót verði af fyrirhugaðri sambúð hans með C en óvíst er hvaða áhrif það muni hafa á drenginn. Eins og rakið hefur verið er það álit matsmanns að slíkar breytingar geti sennilega orðið drengnum til góðs. Dómurinn telur því ekki að þetta atriði eigi að vega gegn stefnanda við mat á aðstæðum málsaðila.

                Þegar litið er til álitsgerðar og skýrslu matsmanns við aðalmeðferð málsins, og þá sérstaklega varðandi tengsl drengsins við foreldra sína, aðstæðna drengsins og þess sem liggur fyrir um líðan hans frá því málsaðilar skildu er það mat dómsins að hagsmunum drengsins sé best borgið verði stefnanda ákveðin forsjá hans. Ekki síst ræður það niðurstöðu dómsins að drengurinn hefur átt gott samband við systur sína sem býr hjá stefnanda. Einnig hefur dómurinn í huga að samkvæmt því sem fram kemur í matsgerð eru tengsl hans við stefnanda einnig á vinanótum og telur dómurinn að slíkt samband sé ákjósanlegt fyrir drenginn á komandi unglingsárum. Telur dómurinn að stefnandi hafi sýnt að hann hafi til að bera þá innsýn í aðstæður og líðan drengsins sem uppalandi þarf að hafa og því komi vart til þess að hann geti ekki beitt sér gagnvart drengnum sem slíkur. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að dæma stefnanda forsjá drengsins.

                Hvað varðar umgengni forsjárlauss foreldris við drenginn þá eru aðilar sammála um hana að öðru leyti en því að stefnandi gerir þá kröfu að hún verði aðra hverja helgi frá fimmtudegi til mánudags en stefnda að hún verði aðra hverja viku.

                Það var niðurstaða matsmanns að þar sem drengurinn væri tengdur báðum foreldrum sínum sterkum böndum og vilji sjálfur hafa ríka umgengni við þá væri mikilvægt að farið yrði að óskum hans. Það sé því nauðsynlegt að tryggt verði að honum verði gert kleift að hafa ríka umgengni við forsjárlaust foreldri. Það er því mat dómsins með hliðsjón af málsatvikum öllum og þá sérstaklega vilja drengsins og góðum tengslum hans við stefndu að drengurinn verði hjá stefndu fimm daga á tveggja vikna fresti, það er frá síðari hluta miðvikudags til fyrri hluta mánudags.

                Drengurinn verði til skiptis hjá málsaðilum um jól, áramót og páska.

                Í sumarleyfum verði drengurinn fjórar vikur samfellt hjá hvoru foreldri og fellur regluleg umgengni niður á meðan. Ákvörðun aðila um upphaf þessarar umgengni skal liggja fyrir eigi síðar en 15. apríl ár hvert.

                Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991 þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

                Með hliðsjón af hagsmunum drengsins er kveðið svo á um að áfrýjun dómsins fresti ekki réttaráhrifum hans, sbr. 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Valgerður Dís Valdimarsdóttir hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Halldór Þorsteinn Birgisson hrl.

                Dóminn kveða upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, og Valgerður Magnúsdóttir og Þorgeir Magnússon sálfræðingar.

D Ó M S O R Ð

                Fellt er úr gildi samkomulag aðila frá 13. júlí 2009 um sameiginlega forsjá málsaðila með syni þeirra, A, kt. [...].

                Stefnandi, M, fari með forsjá drengsins, A.

                Stefnda, K, greiði með drengnum einfalt meðlag, eins og það ákvarðast hverju sinni hjá Tryggingastofnun ríkisins, frá dómsuppsögu 2. nóvember 2012 til fullnaðs 18 ára aldurs hans.

                Umgengni stefndu við drenginn skal vera aðra hvora viku frá miðvikudegi til mánudags.

                Drengurinn verði til skiptis hjá stefnanda og stefndu um jól, áramót og páska.

                Í sumarleyfum skal drengurinn vera fjórar vikur samfellt hjá hvoru foreldri og fellur regluleg umgengni niður á meðan.

                Málskostnaður fellur niður.

                Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.