Hæstiréttur íslands

Mál nr. 588/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Ólafur V. Thordersen hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. ágúst 2016, þar sem varnaraðila var gert að afplána 200 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2014. Kæruheimild er í 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðila 25. mars 2016 veitt reynslulausn til tveggja ára á 200 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi 26. nóvember 2014. Í málinu er fram kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi gróflega rofið skilyrði dómsins. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 til þess að varnaraðila verði gert að afplána eftirstöðvar framangreindrar refsingar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. ágúst 2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], Kópavogi, verði á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 200 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. nóvember 2014, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar þann 25. mars 2016,         

Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að kærði liggi undir sterkum grun um að hafa, í nótt við [...] í Reykjavík, veist að A og með ofbeldi rænt af honum iphone snjallsíma og debetkorti. Kærði eigi svo að hafa gengið í skrokk á brotaþola með höggum og spörkum, en í framburði læknis á slysadeild hafi komið fram að brotaþoli hafi hlotið fjöláverka, m.a. á höfði, mikið af bólgum og mari, auk þess að mögulega hafi flísast úr tönn og hann hlotið rifbeinsbrot.

Þá er þess getið að brotaþoli hafi bent á kærða sem árásaraðila og hafi hann í kjölfarið verið handtekinn skammt frá vettvangi og hafi hann þá verið að tala í síma brotaþola, auk þess sem debetkort brotaþola hafi fundist í fórum kærða. Þá hafi vitni gefið sig fram á vettvangi og lýst árásaraðila og komi sú lýsing heim og saman við fatnað sem kærði hafi verið í er hann var handtekinn. Að mati lögreglu hafi kærði með þessu rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnarinnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi gerst sekur um brot sem varðað geti allt að sex ára fangelsi, sbr. 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 25. mars sl. á 200 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. nóvember 2014.

Í greinargerð aðstoðarsaksókna er áréttað að kærði sé að mati lögreglu undir sterkum grun um brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.

                Niðurstaða:

                Fyrir liggur að varnaraðili fékk reynslulausn 25. mars 2016 á 200 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar er hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. nóvember 2014. Reynslutími var ákveðinn tvö ár. Það er almennt skilyrði reynslulausnar að maður gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. sömu laga getur dómstóll úrskurðað að maður sem hlotið hefur reynslulausn afpláni eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið og rannsóknargagna málsins,verður á það fallist að kærði sé undir sterkum grun um að hafa rofið gróflega almennt skilyrði fyrrgreindrar reynslulausnar og að hann hafi gerst sekur um brot sem varðað getur langri fangelsisvist og jafnvel allt að 16 árum. Því telst fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005. Ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða verði gert að afplána 200 daga eftirstöðvar refsingar er honum var gerð með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2014.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], [...], Kópavogi, er á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga gert að afplána 200 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. nóvember 2014, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar þann 25. mars 2016.