Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. nóvember 2006.

Nr. 365/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Charles Robert Onken

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Líkamsárás.

C var ákærður fyrir að hafa slegið X og Y hnefahögg í andlit þeirra með þeim afleiðingum að X hlaut meðal annars blæðingu á bakvið vinstri hljóðhimnu og inn í höfuðkúpu og Y nefbrotnaði.  Þegar litið var til framburðar vitna auk staðfestingar á því að C var staddur í miðbæ Reykjavíkur nóttina sem árásin átti sér stað þótti komin fram lögfull sönnun fyrir því að C hafi veitt X og Y framangreinda áverka. Brot C var talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til sakaferils C og þess að brot hans var alvarlegt og ófyrirleitið var refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. júní 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt nýtt sakavottorð ákærða, fyllra en það sem lá fyrir héraðsdómi. Frá árinu 1985 hefur ákærði 13 sinnum gengist undir dómsáttir eða hlotið dóma fyrir ýmis brot áður en til máls þess kom, sem hér um ræðir. Þar á meðal hefur hann þrívegis hlotið dóma hér á landi vegna líkamsárása, þ.e. 1991 og 1995 (tveir dómar) auk þess sem hann var dæmdur fyrir líkamsárás í Danmörku 1996 eins og kemur fram í héraðsdómi.

Tveir lögreglumenn höfðu afskipti af Y laust fyrir klukkan fimm að morgni 5. september 2004 við Laugaveg 31 í Reykjavík og fluttu hann á slysadeild Landspítala, Háskólasjúkrahús, vegna áverka í andliti svo sem lýst er í héraðsdómi. Kom fram hjá Y í samtali við lögreglumennina að hann og félagi hans hefðu sætt árás þá skömmu áður. A, sem var á vettvangi, tjáði lögreglumönnunum að árásarmaðurinn væri ákærði í máli þessu. Við yfirheyrslu fyrir dómi skýrðu lögreglumennirnir frá því að þeir hefðu rætt við mann, sem setið hefði á tröppum þarna á vettvangi, en hann hefði ekki viljað þiggja hjálp þeirra. Kom í ljós síðar að þetta var X, en hann kom á slysadeild 7. september 2004 og lagði fram kæru á hendur ákærða 23. sama mánaðar. Y gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu 9. febrúar 2005. Ákærði var ekki kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu fyrr en 3. mars 2005 og verður að telja að það hafi dregist úr hófi fram. Þetta þykir þó ekki hafa staðið í vegi þess að málið hlyti fullnægjandi rannsókn og að efnisdómur yrði á það lagður.

Í héraðsdómi er ítarlega gerð grein fyrir atvikum máls og framburði ákærða og vitna. Hefur ákærði neitað sök og sagst hafa verið heima hjá sér á þeim tíma, er umræddur atburður á að hafa orðið, en hann hafi fyrr um nóttina verið á veitingahúsi í miðborginni. X ber hins vegar að er hann gekk niður Laugaveg með nokkrum öðrum hafi ákærði, sem hann þekkti, komið aftan að sér. Þeir hafi lent í rifrildi en hann viti ekki annað af sér eftir það en að hann hafi legið í götunni og muni ekkert fyrr en að kvöldi næsta dags. A, Y og E, sem voru með X umrætt sinn, hafa allir borið að þeir hafi séð ákærða slá X þannig að hann féll í götuna. Í framburði A kom fram að X hefði skollið með höfuðið ofan í gangstéttina og hafi ekki hreyft sig í nokkurn tíma. Eftir að hann hafi rankað við sér hafi hann staðið upp og gengið nokkur skref en síðan sest niður „alveg kolruglaður“. Kvaðst A hafa rætt það við lögreglumennina, er komu á vettvang, hvort ekki væri rétt að fara með X á spítala, en þeir hafi sagt að ekki væri hægt að gera það gegn vilja hans. Kvaðst A síðan hafa farið með hann heim til hans, en X bjó við Klapparstíg. Fram kom og hjá Y að X hefði misst meðvitund eftir að hann féll.

Y bar að eftir að ákærði hefði slegið X niður hefði hann, þ.e. Y, tekið upp síma til að hringja í lögreglu en ákærði hefði þá elt hann og slegið í andlit hans. E staðfesti þessa frásögn Y. A segist hafa skynjað að ákærði var að elta Y en hann hafi ekki séð ákærða kýla hann. Taldi hann hins vegar að það hefði ekki farið á milli mála að hann hefði gert það.

Ekki verður talið að neitt hafi komið fram í málinu, sem renni stoðum undir þá fullyrðingu ákærða, að ofangreind vitni hafi í hefndarskyni sammælst um að bera rangar sakir á hann. Að þessu öllu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sök ákærða staðfest. Þegar litið er til læknisvottorðs um áverka á X, sem rakið er í héraðsdómi, og þess sem fram hefur komið hjá vitnum verður á það fallist með héraðsdómara, að atlaga ákærða að honum hafi verið þess eðlis að heimfæra beri hana undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig er staðfest niðurstaða hans um heimfærslu árásar ákærða á Y til refsiákvæða. Þá verður ákvörðun hans um refsingu ákærða og greiðslu sakarkostnaðar staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem tiltekin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur á að vera óraskaður.

Ákærði, Charles Robert Onken, greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 336.072 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

         

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara á hendur Charles Róbert Onken, Krummahólum 6, Reykjavík, fyrir líkamsárásir aðfaranótt sunnudagsins 5. september 2004 á Laugavegi í Reykjavík, með því að hafa:

1.    Slegið X, hnefahögg í andlit svo að hann féll og

höfuð hans skall í gangstéttina, með þeim afleiðingum að hann hlaut

glóðarauga á hægra auga, hruflaðist á höfði, hlaut blæðingu bak við

vinstri hljóðhimnu og inn í höfuðkúpu og blæðingu og bjúg í eyrna­

lappahluta heila.

2.  Slegið Y, hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann

nefbrotnaði.

Er háttsemi ákærða samkvæmt 1. lið ákæru talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðum breytingum, en samkvæmt 2. lið við 1. mgr. 218. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu X er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 3.616.078 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001.

Af hálfu Y er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 1.458.233 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að skaðabóta­kröfum verði vísað frá dómi. Loks krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Laust fyrir kl. 5.00 að morgni sunnudagsins 5. september 2004 stöðvaði Y för lögreglumanna við Laugaveg 31, í Reykjavík en lögreglu­mennirnir voru á leið niður Laugaveg í lögreglubifreið. Óskaði hann eftir aðstoð þeirra. Haft er eftir Y í frumskýrslu lögreglu að ráðist hafi verið á hann og félaga hans að tilefnislausu. Samkvæmt skýrslunni var Y í töluverðu uppnámi og bar að hann kenndi eymsla í brjósti og andliti. Þá taldi hann sig vera nefbrotinn. Y var ekið á slysadeild. Á vettvangi var tal haft af A er kvaðst hafa orðið vitni að árásinni. Er fært í frumskýrslu eftir honum að „karlstripparinn Charlie” hafi verið árásarmaðurinn og hafi árásin verið án tilefnis.

Fimmtudaginn 23. september 2004 lagði X fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar. B sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum hefur 20. október 2004 ritað vottorð vegna komu X á slysadeild 7. september 2004. Í vottorðinu kemur fram að X hafi við komu verið lagður inn á spítalann. Hafi hann verið með glóðarauga kringum hægra auga, hruflaður á höfði á svæði sem væri 5 cm í þvermál og aumur yfir hægri axlarlið. Blætt hafi inn í höfuðkúpu hægra megin framan til. Þá hafi verið blæðing bak við vinstri hljóðhimnu og blæðing vinstra megin í eyrnalappahluta heilans sem hafi líklega í fyrstu verið heilamar og bjúgur myndast í kring. Samkvæmt vottorðinu fékk X blæðingu sem mjög oft reynist lífshættuleg og krefjist gjarnan skurðaðgerðar. Blæð­ingin hafi hins vegar virst vera þannig staðsett að hún olli ekki miklum þrýstingi á heilann. Þá hafi mesti hættutíminn verið liðinn er hann hafi leitað á slysadeild og hafi hann því ekki verið skorinn upp. Heilamar í eyrnalappahluta heilans geti valdið einkennum svo sem taltregðu eða flogaveiki sem verði að meta af taugasjúkdóma­lækni. Sé þetta metið í fyrsta lagi ári eftir áverkann. X hafi þó ekki sýnt slík einkenni á meðan hann hafi legið á spítalanum. Hafi hann því sloppið vel frá umtalsverðum heilaáverkum.  

Y lagði fram kæru á hendur ákærða 9. febrúar 2005. C deildarlæknir á háls- nef og eyrnadeild Landspítala hefur 9. febrúar 2005 ritaði vottorð vegna komu Y á slysadeild. Í vottorðinu kemur fram að þegar Y hafi komið á slysadeild hafi hann verið nefbrotinn og nefið skakkt yfir til hægri, en innan á neðri vör vinstra megin hafi verið mar og bólga. Hafi Y leitað á háls- nef og eyrnadeild aftur 10. september 2004. Þá hafi hann verið marinn neðan við bæði augu og með sár framarlega á vinstra kjálkabarði. Nefið hafi greinilega verið skakkt og innkýlt brot vinstra megin. Við skoðun í nefhol hafi miðsnesið greinilega verið brotið og skakkt til hægri. Örlítið sár hafi verið í hægri nös við framkant neðstu nefskeljar. Loks segir í vottorðinu að nefið hafi verið rétt og náðst góð lega á því. D sérfræðingur á háls- nef- og eyrnadeild ritaði 29. nóvember 2005 annað vottorð vegna Y. Þar kemur fram að Y hafi átt erfitt með að anda og nefið væri ennþá skakkt. Niðurstaða læknisins er að nauðsynlegt sé að rétta miðsnes og ytra nef með skurðaðgerð í svæfingu, en eftir aðgerðina þurfi sjúklingurinn að vera með umbúðir á nefinu í um það bil viku og vera frá vinnu í að minnsta kosti þrjár vikur. Ekki sé víst hver árangur aðgerðarinnar verði. 

Ákærði neitar sök. Var hann upphaflega boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu 3. mars 2005. Við það tilefni kvað hann þá X eiga sameiginlega vinkonu, en hann kvaðst ekki þekkja A eða Y. Ákærði kvaðst aðspurður ekki kannast við að hafa hitt X aðfaranótt sunnudagsins 5. september 2004. Um ástæður þess að X og Y hafi lagt fram kæru á hendur honum bar ákærði að á árinu 2004 hafi fólk frá Póllandi búið í húsi þar sem ákærði hafi verið með rekstur. Y væri vinur þeirra og aðrir vinir þeirra hafi unnið hjá X á veitingastaðnum [...]. Hafi ákærði vísað fólkinu út úr viðkomandi húsnæði. Í kjölfar þess hafi X hringt í ákærða og sagt honum að Pólverjar sem ynnu á veitingastaðnum [...] væru að hópa sig saman til að hefna sín á ákærða. Ákærði kvað þetta vera í fyrsta sinn í áratugi sem hann hafi heyrt frá X. Þá hafi X hringt nokkrum vikum eftir ætlaða árás á Laugavegi og sakað ákærða um að hafa sent tvo handrukkara til að lemja sig. Hafi X talið að árás þessara manna væri vegna þess að X hafi sagt ákærða frá því að ráðast ætti á ákærða. X hafi haldið að árásin væri hefnd fyrir þetta. Ákærði kvað X hafa sagt að hann myndi ekki kæra ákærða ef ákærði greiddi honum 800.000 krónur. Einnig hafi X sagt að hann gæti fengið þrjú vitni til að bera að ákærði hafi ráðist á X. X hafi haldið því fram að mennirnir sem réðust á hann hafi sagt að árásin væri kveðja frá Charlie og vegna þess að X vissi ekki hverjir árásarmennirnir væru ætlaði hann að kæra ákærða nema hann borgaði. Kvaðst ákærði hafa sagt X að hann yrði þá einfaldlega að leggja fram kæru, þar sem hann fengi ekki krónu frá ákærða. X hafi hringt viku eða hálfri annarri viku síðar og lækkað fjárhæðina í 400.000 krónur. Hafi ákærði enn neitað að greiða og X þá lagt fram kæru.

Í skýrslutökunni 3. mars 2005 bar ákærði að hann teldi útilokað að hann hafi farið í bæinn umrædda helgi. Ákærði heimilaði lögreglu að kanna notkun á greiðslu­kortum sínum aðfaranótt sunnudagsins 5. september 2004. Í málinu liggur frammi afrit af reikningsyfirliti vegna notkunar á greiðslukorti ákærða. Samkvæmt því hefur greiðslukort hans verið notað á veitingastaðnum [...] 5. september 2004. Ákærði var inntur eftir þessu í yfirheyrslu 2. júní 2005. Kvaðst hann þá telja að færslan hafi farið fram um kvöldmatarleytið, en félagi hans væri kokkur á veitinga­húsinu og byði honum stundum í mat þar. Enn var aflað frekari upplýsinga um notkun umrædds greiðslukort. Í gögnum málsins liggur frammi afrit af tölvupóstsskeyti frá starfsmanni Vísa Ísland. Samkvæmt því fór umrædd færsla fram kl. 02.32 aðfaranótt sunnudagsins 5. september 2004. Af því tilefni var tekin ný skýrsla af ákærða 14. september 2005. Þá bar hann enn að hann hafi sennilega verið að borða á [...] þetta kvöld.

Fyrir dómi bar ákærði um atvik með sama hætti og við skýrslugjöf hjá lögreglu. Að því er varðaði umrædda notkun greiðslukortsins bar hann að hann hafi verið á veitingastaðnum [...] ásamt nokkrum félögum og vinum kokksins, en kokkurinn hafi verið að hætta og því boðið þeim í mat. Hafi þeir borgað fyrir drykki og ákærði væntanlega farið er hann var búinn að borga. Þeir hafi allir farið heim er þeir hafi yfirgefið staðinn. Ákærði staðfesti að vera kallaður Charlie og hafa verið ,,strippari”.

X kvaðst hafa verið að skemmta sér aðfaranótt sunnu­dagsins 5. september 2004 ásamt Y, A og einum eða tveimur lettneskum strákum. X kvaðst hafa verið mjög ölvaður umrætt sinn. Hafi þeir yfirgefið veitingastaðinn [...] og gengið niður Laugaveginn. Þá hafi þeir mætt ákærða, sem X hafi kannast við frá fyrri tíð. Ákærði hafi verið ,,strippari” um tíma. Ákærði hafi sagt eitthvað eins og ,,helvítis útlendingar”. Hafi X snúið sér að honum og kallað til hans að ákærði væri ekki minni útlendingur. Hafi ákærði orðið mjög æstur og X einnig. Til einhverra orðaskipta hafi komið á milli þeirra. Eftir það myndi X ekkert eftir sér fyrr en næsta dag. Hafi honum verið tjáð af A að ákærði hafi lamið X í andlitið. Hafi X sofið illa aðfaranótt mánudagsins og kastað stöðugt upp á mánudeginum. Þáverandi sambýliskona X, F hafi ekið X á slysadeild. Þar hafi komið í ljós að X hafi verið höfuðkúpubrotin og hafi blætt inn á heila hans. Hafi hann verið lagður inn og verið inni til 16. september 2004. 

X kvaðst þekkja ákærða frá því úr Breiðholtinu, en ekki hafa séð hann í langan tíma fyrir atburðinn. X kvaðst ekki kannast við frásögn ákærð um að rekja mætti tilefni kæru X til þess að ákærði hafi rekið Pólverja út úr húsnæði. X kvaðst ekki hafa talað við ákærða tveimur vikum fyrir atvikið og ekki hafa rætt við hann í síma. Þá kvaðst hann ekki kannast við að fólk frá Póllandi hafi unnið á veitingastaðnum [...], að undanskildum einum manni frá Póllandi sem hafi starfað þar sem dyravörður. X kvaðst vera þunglyndur eftir árásina, en það hafi hann ekki verið fyrir hana. Þá væri hægra auga ekki eins gott og áður. Hann hafi áður unnið sem vörubifreiðastjóri en gæti það ekki lengur. Minnið væri gloppóttara eftir árásina. A væri góður vinur sinn en Y hafi hann kynnst þegar hann hafi byrjað að vinna á veitingastaðnum [...], en Y hafi verið þar viðloðandi. 

Y bar að hann hafi aðfaranótt sunnudagsins 5. september 2004 gengið niður Laugaveg ásamt X og A, vini X. Hafi þeir áður verið á veitingastaðnum [...], þar sem X hafi starfað sem barþjónn. Á Laugavegi hafi ákærði komið aftan að þeim og sagt eitthvað ruddalegt. Hafi X og ákærði rætt saman, samtalið orðið hávært og ákærði því næst slegið X hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að X hafi skollið í götuna. Y hafi gengið til ákærða og spurt hann hvers vegna hann hafi slegið X. Á sama tíma hafi hann tekið upp síma og hringt í lögreglu. Ákærði hafi þá hlaupið á eftir Y og kallað á hann að láta sig hafa símann til að ákærði gæti hringt í lögreglu. Y hafi þá sagt að ákærði gæti hringt í lögreglu úr eigin síma. Ákærði hafi slegið Y hnefahögg í andlitið og höggið lent á nefi Y. Í framhaldi hafi ákærði yfirgefið svæðið. X hafi legið meðvitundarlaus í jörðinni meðan á þessu stóð. Hafi hann rankað við sér og setið á tröppum húss þegar lögregla hafi komið á vettvang. X hafi verið sleginn illa í andlitið. Lögregla hafi innt X eftir því hvort hann vildi að lögregla æki honum slysadeild. X hafi afþakkað það. Lögregla hafi hins vegar ekið Y á slysadeild. Einhver hafi verið samferða ákærða umrætt sinn, en viðkomandi staðið upp við vegg og horft á. Sá hafi verið ljóshærður. Y kvaðst hafa þekkt ákærða þar sem X og vinur hans hafi þekkt hann. Y kvaðst ekki hafa átt nein samskipti við hann áður einungis séð myndir af honum í blöðum. Y kvaðst ekki hafa jafnað sig fyllilega eftir árásina og þyrfti að gangast undir skurðaðgerð til að láta lagfæra á sér nefið.   

A kvaðst hafa farið út af nefndum skemmtistað ásamt X og Y milli kl. 4.00 til 5.00 um nóttina og þeir rölt niður Laugaveg. Hafi A verið aðeins á undan hinum tveimur. Hafi hann heyrt X eiga í háværum samræðum við einhvern, litið við og séð ákærða slá X hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að X hafi skollið með höfuðið í gangstéttina og ekki hreyft sig eftir það. Hafi A hugað að X og jafnframt sagt ákærða að það væri búið að hringja á lögreglu og beðið hann um að koma sér í burtu áður en ástandið myndi versna. A hafi þó ekki hringt á lögregluna. Hann hafi séð útundan sér er ákærði hafi elt Y, á meðan hann hafi sjálfur hugað að X. Hafi hann því ekki séð ákærða slá Y, en talið það ekki hafa farið á milli mála að hann hafi gert það. A kvaðst ekki hafa séð mikla áverka á Y en hann hafi þó verið með einhverja áverka á nefi. X hafi vaknað og sest upp við hús, en verið mjög ruglaður. Hafi A gefið sig á tal við lögreglu sem hafi verið komin á staðinn og spurt hvort ekki væri réttast að senda X á slysadeild. Lögreglumennirnir hafi sagt að ekki væri unnt að neyða X til að fara á slysadeild ef hann vildi ekki fara sjálfur. Hafi A fylgt X til síns heima. Í framhaldi hafi hann farið á skemmtistaðnum Victor þar sem F hafi verið stödd og sagt henni frá því sem komið hafi fyrir. Hafi A séð X næsta dag, en hann hafi þá verið búinn að vera að kasta upp, auk þess að vera hálfruglaður og illa útlítandi. A kvaðst vera vinur X. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða persónulega, en vita hver hann væri þar sem hann væri þjóðþekkt persóna og hafi hann m.a. séð honum bregða fyrir í sjónvarpi. Væri hann því alveg viss um að það hafi verið ákærði sem hafi slegið X. Einhver eða einhverjir hafi verið ákærða samferða þessa nótt. Einu samskipti A við ákærða hafi verið þegar hann hafi beðið ákærða um að fara. 

F kvað A hafi hringt í sig umrædda nótt og gert henni grein fyrir að ráðist hafi verið á X. Hafi hún verið á veitingastaðnum [...] fyrr um kvöldið sem X hafi orðið fyrir árásinni, en farið þaðan á undan honum í bæinn og því ekki séð árásina. Hafi hún ekki mætt ákærða. Hafi A beðið hana um að fara heim til X. Hún hafi komið heim hálftíma eða klukkutíma síðar og X þá legið í rúmi og hún talið hann vera sofandi. X hafi verið með glóðarauga og blóð í andliti og á fótum. Hafi honum liðið illa og kastað stöðugt upp á sunnudeginum og mánudeginum. Eftir að hún hafi komið heim úr vinnu á mánudeginum hafi þau farið saman á slysadeild. Hafi X sagt henni að hann, ásamt félögum sínum, hafi á Laugaveginum mætt strák sem héti Charlie. Hafi X og nefndur Charlie talað saman, samtalið breyst í rifrildi og Charlie slegið X í andlitið. Hafi X ekki munað hvað gerst hafi eftir það. F kvaðst sjálf aldrei hafa séð ákærða eða hitt hann.

Lögregla tók skýrslu af F 29. október 2005. Við skýrslugjöfina bar hún að X hafi sagt henni að hann væri hræddur við að kæra árásina þar sem hann hafi óttast að ákærði myndi hefna sín. Þá hafi ákærði haft símasamband við X og viljað semja við hann um borgun gegn því að X drægi kæruna tilbaka. Fyrir dómi bar F að rétt væri eftir sér haft í lögregluskýrslu um að X hafi verið hræddur við ákærða. Hafi ákærði hótað honum einhverju, en hún kvaðst ekki geta skýrt þetta nákvæmlega. X hafi gert henni grein fyrir símtalinu við ákærða en hún ekki orðið vitni að því. X hafi einu sinni orðað við hana að hann gæti beðið ákærða um peninga gegn því að falla frá kæru, en hún sagt við X að það væri rangt. Hún kvaðst ekki vita til þess að X hafi hringt í ákærða fyrir atburðinn. F kvaðst ekki muna eftir pólskum starfsmönnum á veitingastaðnum [...] eða þekkja dyravörð sem hafi unnið þar sem héti Janek. Þá kvaðst hún ekki kannast við að ákærði hafi rekið fólk frá Póllandi úr einhverju húsnæði.

E kvaðst þekkja Y en ekki X, en E og Y væru samlandar. Hafi E ásamt eiginkonu E, verið á Laugavegi, en þau hafi verið að koma af veitingastaðnum [...]. Einnig hafi verið á staðnum handboltamenn. Hafi E séð Y og X. Hafi þau öll gengið niður Laugaveg. Spölkorn frá veitingastaðnum [...] hafi E litið við, séð ákærða slá X hnefahögg og X falla í götuna. Y hafi tekið upp síma og ætlað að hringja í lögreglu, en ákærði ekki heimilað honum það. Ákærði hafi slegið Y einu sinni í andlitið. Reynt hafi verið að styðja X á fætur og Y sagt E að fylgjast með hvert árásarmaðurinn færi. Ungur maður hafi verið með ákærða. Hafi E farið á eftir ákærða og félaga hans, en þeir hafi farið að Sæbraut þar sem ákærði hafi tekið leigubíl. E kvaðst hafa séð unnustu X, en hún hafi verið á veitingastaðnum [...] fyrr um kvöldið. E kvaðst ekki muna eftir henni eftir að hann hafi verið kominn út af staðnum. E kvaðst ekki hafa þekkt árásarmanninn þegar atvik urðu, en kvaðst viss um að ákærði hafi verið sá sem réðist á þá. Hafi hann heyrt þegar árásarmaðurinn og ungur maður sem hafi verið honum samferða hafi rætt saman og þá komið fram að árásarmaðurinn héti Charlie. Vinur ákærða hafi verið um tvítugt, frekar grannur og hárið fremur dökkt.

G lögreglukona kvaðst hafa verið á leið niður Laugaveg í lögreglubifreið þegar einstaklingur hafi stöðvaði bifreiðina. Hafi lögreglumenn rætt við tvo menn á vettvangi og annar þeirra, Y, sagt að hann hafi verið sleginn og spurt hvort þau gætu komið honum á slysadeild. Annar maður hafi setið á tröppum í grenndinni, virst ölvaður eða vankaður og þau spurt hvort hann vildi einhverja aðstoð. Hann hafi afþakkað hana. Hafi Y sagt að hann hafi verið laminn og annar einstaklingur á vettvangi sagt að hann hafi séð þetta og þekkt árásarmanninn sem „Charlie strippara”. Ekki myndi G hvort komið hafi sérstaklega til tals að það hafi verið ráðist á manninn á tröppunum. Rætt hafi verið um að einhver maður hafi hlaupið á eftir ákærða niður Laugaveginn en hann ekki náðst.  

H lögreglumaður bar að hann og G hafi komið á vettvang. Þar hafi honum verið bent á einstakling sem hafi setið í tröppum skammt frá. Sá hafi verið ölvaður en ekkert hafi bent til að eitthvað meira væri að. Auk þess hafi viðkomandi ekki viljað fá aðstoð. Þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi ein­staklingarnir á vettvangi sagt að einhver strippari sem héti Charlie væri árásar­maðurinn. Áverkar hafi verið sýnilegir á einhverjum.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa verið á vettvangi umrædda nótt. Rekur hann kæru X  og Y til þess að hann hafi vísað Pólverjum út úr húsnæði er ákærði hafi haft til umráða.

Engum dylst að ákærði er þjóðkunn persóna. Hafa X og A fullyrt að ákærði hafi valdið X og Y líkamsáverkum umrædda nótt. Þá kvaðst Y kannast við að hafa fyrir þennan atburð séð myndir af ákærða í blöðum. Einnig hefur E borið að hann hafi orðið vitni að árásinni og heyrt ákærða og vin hans ræða saman á vettvangi en þar hafi komið fram að árásarmaðurinn héti Charlie. Loks liggur fyrir í málinu staðfesting á því að ákærði var í miðbæ Reykjavíkur um kl. 02.30 þessa nótt, en árásin sem X og Y urðu fyrir varð laust fyrir kl. 5.00 um morguninn. Þegar til þessara atriða er litið er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi veitt X og Y þá áverka er í ákæru greinir. Hefur ákærða ekki tekist að leiða fram sönnun um að verið sé að bera ranglega á hann sakir. Árás ákærða á X var sérlega hættuleg en hann hlaut lífsógnandi áverka, sem hefðu hæglega getað leitt hann til dauða. Y hlaut beinbrot á nefi. Með hliðsjón af þessu er háttsemi ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru.

Ákærði er fæddur í janúar 1967. Hann var 8. júlí 1996 dæmdur í 60 daga fangelsi í undirrétti í Kaupmannahöfn fyrir líkamsárás. Þá var hann á árinu 1998 dæmdur í sekt fyrir brot gegn lögreglusamþykkt. Brot ákærða í þessu máli eru alvarleg og framferði einkar ófyrirleitið. Með vísan til þessa, sem og 1., 3. og 6. tl., 1. mgr., 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Verður hún að engu leyti skilorðsbundin.

X hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 3.616.078 krónur auk vaxta. Er krafan sundurliðuð þannig:

- Miskabætur

600.000 krónur

- Þjáningabætur

476.153 krónur

- Bætur vegna vinnutjóns

1.857.294 krónur

- Fatnaður-skyrta

4.500 krónur

- Læknisvottorð og annar útl. kostn.

30.000 krónur

- Lögmannskostnaður m.vsk.

648.132 krónur

 

Líkamstjón X er umtalsvert og miðað við framburð X fyrir dómi enn ekki séð fyrir um afleiðingar árásarinnar. Á X rétt á skaðabótum úr hendi ákærða vegna háttsemi hans. Ekki liggur annað læknisvottorð fyrir um líðan X en læknisvottorð B læknis frá 20. október 2004. Þjáningabætur og bætur fyrir vinnutjón taka mið af heilsufari miðað við tiltekinn dag eða 18. nóvember 2005. Ekki liggur fyrir vottorð um heilsu X á þeim tímapunkti. Er skaðbótakrafan að mati dómsins því vanreifuð og verður henni af þeim sökum vísað frá dómi. Jón Einar Jakobsson héraðsdómslögmaður hefur verið skipaður réttargæslumaður fyrir X og gætt hagsmuna hans fyrir dómi. Er rétt að ákærði verði dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumannsins.   

Y hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.458.233 krónur auk vaxta. Er krafan sundurliðuð þannig:

- Miskabætur

500.000 krónur

- Þjáningabætur

508.64 9 krónur

- Bætur vegna vinnutjóns

114.000 krónur

- Læknisvottorð 

15.000 krónur

- Lögmannskostnaður m.vsk.

320.584 krónur

 

Y á einnig rétt á skaðabótum úr hendi ákærða vegna þess líkamstjóns er hann varð fyrir. Er reyndar enn ekki séð fyrir um afleiðingar árásarinnar, þar sem Y á enn eftir að fara í aðgerð á nefi. Fyrir liggja tvö læknisvottorð vegna Y og eru þau frá 8. febrúar 2005 og 29. nóvember 2005. Skaðabótakrafa vegna þjáninga­bóta miðar við rúmfesti í 7 daga en til 31. desember 2005 að öðru leyti. Fyrirliggjandi læknisvottorð geta ekki um að Y hafi verið rúmliggjandi eftir árásina. Einungis kemur fram að hann myndi verða óvinnufær í 3 vikur eftir aðgerð á nefi. Þá kemur ekki fram í vottorðunum að Y hafi verið óvinnufær vegna árásarinnar. Eru bætur vegna þjáninga og vinnutjóns verulegur hluti skaðabótakröfu Y. Vegna þess er hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að skaðabótakrafa Y sé einnig vanreifuð sem leiðir til þess að henni verður vísað frá dómi.

Ekki hefur verið lagt fram yfirlit um sakarkostnað. Ákærði greiði tildæmd málsvarnarlaun og þóknun til réttargæslumanns brotaþola að viðbættum virðis­auka­skatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi lög­reglu­stjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Charles Róbert Onken, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Skaðabótakröfum X og Y er vísað frá dómi.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Arnar Clausen hæsta­réttar­lögmanns 219.120 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola Jóns Einars Jakobssonar héraðsdómslögmanns 175.296 krónur.