Hæstiréttur íslands

Mál nr. 283/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Erfðaskrá
  • Lögarfur


Föstudaginn 10

 

Föstudaginn 10. september 2004.

Nr. 283/2004.

A

B

C

D

E og

F

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

G

H

I

J

K og

L

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá. Lögarfur.

Deilt var um skýringu á ákvæði sameiginlegrar og gagnkvæmrar erfðaskrár X og Y þar sem tekið var fram að um arf eftir það sem lengur lifði skyldi fara að ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962. Í héraðsdómi var litið svo á að erfðaskráin fæli ekki í sér ráðstöfun á eignum X og Y með öðrum hætti en mælt væri fyrir um í 1. mgr. 6. gr. erfðalaga, enda hefðu engin gögn legið fyrir í málinu sem bentu til þess að vilji þeirra hefði staðið til þess að arfurinn rynni eingöngu til ættmenna X sem lifði eiginmann sinn. Var erfðaskráin því skýrð þannig að hin almenna tilvísun til erfðalaganna fæli í sér að um skipti eftir X færi eftir 1. mgr. 6. gr. laganna þannig að arfurinn skiptist til helminga milli skyldmenna X annars vegar og Y hins vegar. Var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2004, þar sem fallist var á með varnaraðilum að dánarbúi X skyldi skipt að jöfnu milli erfingja hennar og Y í samræmi við 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og að systkinabörn X standi ein til lögerfða. Þá krefjast þau málskostnaðar úr hendi varnaraðila í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Þar sem varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti kemur krafa þeirra um málskostnað í héraði ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2004.

         Með bréfi, dagsettu 20. febrúar 2004 og mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. sama mánaðar, óskaði skiptastjóri í dánarbúi X, eftir úrlausn á ágreiningi sem risið hefur við skiptin. Ágreiningsmál þetta var þingfest 19. mars 2004 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 19. maí 2004.

Sóknaraðilar eru G, H, I, J, K og L.

Varnaraðilar eru A, B, C, D, E og F.

         Dómkröfur sóknaraðila eru þær að fallist verði á það með þeim að skipta skuli dánar- og félagsbúi X og Y til jafns milli erfingja þeirra beggja í samræmi við 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

         Dómkröfur varnaraðilans, A, eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og viðurkennt verði að varnaraðilar standi einir til arfs við skipti á dánarbúi X, sem systkinabörn hennar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

         Dómkröfur annarra varnaraðila eru þær að við skipti á dánarbúi X standi systkinabörn hennar ein til lögerfða. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

 

Helstu málsatvik

         Hjónin Y, fæddur [...] febrúar 1914, og X, fædd [...]. febrúar 1921, gerðu með sér sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá 1. febrúar 1965 fyrir lögbókanda í Reykjavík, þar sem þau voru búsett. Í erfðaskránni segir orðrétt svo:

         Hvort okkar, sem lengur lifir, skal erfa allar eigur hins að því látnu.

         Um arf eftir það okkar, sem lengur lifir, fer að ákvæðum erfðalaga nr. 8 frá 14. marz 1962.”

         Erfðaskráin er undirrituð af þeim hjónum í viðurvist lögbókanda og notarialvotta.

         Þegar erfðaskráin var gerð voru foreldrar Y bæði látin. Móðir X var þá látin en faðir hennar var á lífi en hann lést árið 1986.

         Form erfðaskrárinnar er ekki dregið í efa og ekki hæfi þeirra hjóna til að gera erfðaskrána. Ekki er vitað til þess að erfðaskránni hafi verið breytt eða að þau hafi gert aðra erfðaskrá.

         Y andaðist [...] desember 1992 og átti hann ekki aðra skylduerfingja en eftirlifandi eiginkonu. Skipti fóru ekki fram á dánarbúi hans. X andaðist [...] febrúar 2002. Sýslumaðurinn í Reykjavík óskaði eftir opinberum skiptum á dánarbúi X þar sem talið var að óljóst væri um tilkall til arf eftir hina látnu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2003 í málinu nr. Q-5/2003 var kröfu sýslumanns hafnað. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem komst að þeirri niðurstöðu, með dómi 20. nóvember 2003, að taka bæri bú X til opinberra skipta.

         Þórdís Bjarnadóttir hdl. var skipuð skiptastjóri í dánarbúi X. Á fundi með skiptastjóra 11. febrúar 2004 lýstu sóknaraðilarnir L og K, sem og frændi þeirra M, því yfir að þau teldu sig lögerfingja í dánarbúi Y og að þau gerðu kröfu um að búinu yrði skipt milli erfingja beggja.

         Í kjölfarið skaut skiptastjórinn ágreiningi þessum til Héraðsdóms Reykjavíkur, með bréfi dagsettu 20. febrúar 2004, í samræmi við ákvæði 4. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991.

         Sóknaraðilar eru ættingjar Y og eiga tilkall til arfs sem lögerfingjar ef fallist verður á sjónarmið þeirra um túlkun framangreindrar erfðaskrár. Þau N, M og O voru í sömu skyldleikatengslum við Y en hafa ekki gerst aðilar að máli þessu, þrátt fyrir boðun til þingfestingar málsins.

         Í málinu liggja fyrir yfirlýsingar frá systkinum sóknaraðila þeim P og Q, svo og systrunum R, S og T, sem einnig eru ættingjar Y heitins, þess efnis að þau vilji ekki hafa nein frekari afskipti af opinberum skiptum á dánarbúi X, þau muni ekki taka þátt í neinum málarekstri vegna skiptanna og ekki taka neinn arf eftir Y eða X þótt niðurstaða málsins verði sú að bú X eigi að skiptast milli erfingja þeirra beggja, sbr. ákvæði 6. gr. laga nr. 8/1962.

         Varnaraðilar eru lögerfingjar X.

         Í máli þessu er uppi ágreingingur um túlkun framangreindrar erfðaskrár, nánar tiltekið um það hvort bú X eigi að renna til lögerfingja hennar eingöngu eða skiptast jafnt á milli erfingja hennar annars vegar og erfingja Y hins vegar í samræmi við 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

        

Helstu málsástæður og lagarök aðila

Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að þau X og Y hafi verið barnlaus. Þegar þau hafi gert erfðaskrá í febrúar 1965 hafi móðir X verið látin en faðir hennar á lífi en hann hafi gift sig að nýju síðar sama ár.

Af hálfu sóknaraðila er bent á að í þágildandi 1. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962 hafi verið kveðið á um að ef arfleifandi ætti enga niðja á lífi tæki maki ⅔ hluta arfs en foreldrar hins látna ⅓ hluta að jöfnu. Væri annað foreldra látið þá hyrfi hlutur sá er því hefði borið til hins foreldrisins. Þessu ákvæði hafi með lögum nr. 48/1989 verið breytt til þess horfs að ef arfleifandi á enga niðja á lífi taki maki allan arf.

Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. erfðalaga skuli, í því tilviki sem það hjóna sem lengur lifir er einkalögerfingi hins skammlífara, skipta búi þess langlífara milli erfingja beggja, þ.e.a.s. ef hið langlífara hefur ekki gengið í hjúskap að nýju eða látið eftir sig arfgenga niðja, enda hafi maki ekki ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá á annan hátt.

Vísað er til þess að X hafi verið einkaerfingi Y þegar hann hafi fallið frá. Hún hafi ekki óskað eftir formlegum skiptum á dánarbúi hans og ekki gert nýja erfðaskrá. Engin yfirlýsing hafi heldur legið fyrir við andlát X sem bendi til þess að vilji hennar hafi verið annar en sá að arfur eftir þau hjónin skiptist milli erfingja þeirra beggja. Því er haldið fram að þau Y og X hafi haft talsverð samskipti við fjölskyldur sóknaraðila og þau því verið nokkuð náin sóknaraðilum.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að leiða megi að því líkum að með erfðaskrá sinni hafi þau Y og X viljað tryggja að öðru þeirra gengnu yrði hinu tryggður allur erfðaréttur eftir hið skammlífara og að ekki þyrfti að koma til búskipta fyrr en að hinu langlífara látnu. Ekki sé ósennilegt að ætlun þeirra hafi verið sú að tryggja að faðir X hlyti ekki arf, eða aðrir ef til þess kæmi að erfðalögum yrði breytt eftir gerð erfðaskrárinnar.

Sóknaraðilar telja ljóst að það hafi verið vilji þeirra Y og X að eftir andlát beggja yrði arfi skipt milli erfingja beggja til jafns enda hafi verið tekið sérstaklega fram í erfðaskrár þeirra að „um arf eftir það okkar, sem lengur lifir, fer að ákvæðum erfðalaganna nr. 8 frá 14. mars 1962”.

Sóknaraðilar telja ljóst að tilvísun í erfðaskránni til erfðalaga nr. 8/1962 vísi augljóslega til 6. gr. laganna sem einmitt fjalli um það hvernig fari um arf eftir hjón sem ekki eigi arfgenga niðja. Þar sem foreldrar þeirra Y og X hafi öll verið látin þegar breytingar voru gerðar á erfðalögum með lögum nr. 48/1989 hafi þau ekki séð neinn tilgang í því að breyta erfðaskránni.

Sóknaraðilar telja þannig augljóst að umrædd tilvísun til erfðalaga í erfðaskránni lýsi þeim vilja þeirra Y og X að arfur skiptist jafnt milli ættingja þeirra beggja að þeim gengnum. Öðru máli hefði gegnt ef enga tilvísun til erfðalaga hefði verið að finna í erfðaskránni.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að vísa verði kröfu varnaraðila um að þau kalli ein til arfs eftir X og Y alfarið á bug þar sem slík niðurstaða væri verulega ósanngjörn og ekki í anda erfðalaga, enda tilgangurinn með 6. gr. þeirra að skapa jafnrétti með ættum hjóna.

Af hálfu sóknaraðila er um lagarök einkum vísað til 6., 37., 38. og 48. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og laga nr. 48/1989 um breytingu á þeim lögum.

 

Af hálfu varnaraðilans A er vísað til þess að reglur erfðalaga um form erfðaskráa séu settar til þess að arfleiðsluviljinn komi skýrlega fram og til þess að staðreyna megi hann eftir andlát arfláta. Ekki sé ágreiningur um að umrædd erfðaskrá sé í lagalega fullkomnu formi og að þau Y og X hafi haft fullt arfleiðsluhæfi á þeim tíma sem erfðaskrárin hafi verið gerð.

Af hálfu þessa varnaraðila er því haldið fram að samkvæmt ótvíræðum ákvæðum erfðaskrárinnar sjálfrar standi ættingjar X einir til arfs, sbr. 3. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Efni erfðaskrárinnar sé hvorki óeðlilegt né óskynsamlegt þannig skýrt og ákvæðin framkvæmanleg eftir efni sínu.

Því er haldið fram að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á annan arfleiðsluvilja en fram komi í ótvíræðu orðalagi erfðaskrárinnar. Hjónin hafi notið lögfræðilegrar aðstoðar lögbókanda við gerð erfðaskrárinnar til þess að vilji þeirra kæmi ótvírætt fram. Erfðaskráin sé ekki marklaust plagg eins og sóknaraðilar ætli heldur beri að virða hana. Með erfðaskránni hafi þau hjónin verið að hafna því að um arf erftir daga þeirra beggja ætti að fara eftir reglu 1. mgr. 6. gr. erfðalaga. Annars hefði erfðaskrárin ekki verið gerð. Bent er á að hún hafi ekki verið afturkölluð. Varnaraðilar telja að ef arfleiðsluvilji hjónanna hefði staðið til annars hefði það verið tekið fram með skýru orðalagi.

Af hálfu varnaraðilans A er mótmælt skilningi sóknaraðila á erfðaskránni og hugleiðingar sóknaraðila um meintan tilgang þeirra Y og X með erðaskránni taldar málinu óviðkomandi og þýðingarlausar, enda eigi þær sér ekki stoð í erfðaskránni sjálfri og séu ósennilegar.

Þá er mótmælt að ákvæði 37., 38. og 48. gr. erfðalaga geti átt við til stuðnings kröfur sóknaraðila enda atvik ekki með þeim hætti sem þar sé lýst.

 

Af hálfu annarra varnaraðila er byggt á því að 1. mgr. 6. gr. erfðalaga taki ekki til skipta á dánarbúinu þar sem Y hafi ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá til X. Þar sem þau hjón hafi ekki kveðið skýrt á um það í erfðaskránni að við skipti eftir það langlífara skyldi fara eftir 1. mgr. 6. gr. erfðalaga, hvorki efnislega eða með beinni tilvísun í ákvæðið, eigi það ekki við í máli þessu. Engin önnur gögn liggi fyrir í málinu sem bendi til þess að hjónin hafi ætlast til þess að eignir langlífara skiptist jafnt á milli erfingja beggja.

Þá byggja þessir varnaraðilar á því að ákvæði 1. mgr. 6. gr. eigi aðeins við ef langlífari maki tekur arf sem lögerfingi og er vísað um það til dóms Hæstaréttar frá 4. mars 2002 í málinu nr. 30/2002. Af þessum dómi verði ráðið að 1. mgr. 6. gr. eigi því aðeins við ef skýrt kemur fram í erfðaskrá vilji til þess að við skipti eftir lát hins langlífara skiptist eignir þess jafnt milli erfingja beggja.

Að mati varnaraðila kemur ekki skýrt fram í erfðaskráinni að fara skuli eftir ákvæðum 1.mgr. 6. gr. erfðalaga við lát hins langlífari þó svo að þar segi að um arf eftir hið langlífara skuli fara eftir ákvæðum erfðalaga. Hefði vilji Y og X staðið til þess að erfingar beggja tækju arf við lát hins langlífara hefði verið auðvelt að segja það berum orðum í erfðaskránni eða vísa beint til 1. mgr. 6. gr. erfðalaga.

Vísað er til þess að erfðaskráin kunni að hafa verið gerð í þeim tilgangi að það hjónanna sem lengur lifði tæki eitt arf eftir hið skammlífara vegna þess að faðir X hafi verið á lífi þegar erfðaskráin hafi verið gerð en samkvæmt þágildandi erfðalögum hefði hann við andlát hennar tekið ⅓ arf á móti eftirlifandi maka. Í því sambandi er bent á að með lögum nr. 48/1989 hafi 1. mgr. 3. gr. erfðalaga verið breytt í það horf að maki tæki allan arf eftir skammlífara maka sem ekki ætti arfgenga niðja. Á því er byggt að hefði vilji þeirra hjóna staðið til þess að erfingar beggja tæju arf við skipti á búi langlífari hefði þeim verið í ljófa lagið að afturkalla erfðaskrána þannig að skipti eftir hið langlífara færu eftir lögerfðareglu 1. mgr. 6. gr. erfðalaga. Þau hafi hins vegar hvorki gert það né breytt erfðaskránni á þann veg að slíkur vilji kæmi fram þar.

Af hálfu þessara varnaraðila er byggt á því að lögerfingjar Y hafi aldrei verið í nokkrum tengslum við hann, öfugt við varnaraðila. Það hafi því aldrei verið vilji hans að sóknaraðilar tækju arf eftir hann. Þeir telja að sóknaraðilar þurfi að sanna að vilji þeirra Y og X hafi staðið til þess að arfur eftir langlífari yrði skipt jafnt milli lögerfingja beggja. Það komi ekki fram í orðalagi erfðaskrárinnar og sóknaraðilar hafi ekki lagt fram önnur gögn þar að lútandi, svo sem bréf eða yfirlýsingar fólks sem staðið hafi þeim nærri.

Niðurstaða

Fyrir liggur að búi Y hefur ekki verið skipt. Bú X hefur hins vegar verið tekið til opinberra skipta og er ágreiningsmál þetta til komið vegna þeirra skipta. Óumdeilt er að X var einkaerfingi eiginmanns síns.  Með hliðsjón af því og með vísan til þess hvernig þeim erfðareglum sem um er deilt og kröfugerð í máli þessu er háttað þykir rétt að taka málið til efnisúrlausnar.

Þegar þau Y og X gerðu sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá 1. febrúar 1965 var efni 1. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962 á þá leið, að ef arfleifandi átti enga niðja á lífi skyldi maki taka ⅔ hluta arfs en foreldrar hins látna ⅓ hluta að jöfnu. Ef annað foreldra var þá látið skyldi sá hlutur sem því hefði borið hverfa til hins foreldrisins.

Þegar litið er til efnis erfðaskrárinnar og þess að faðir X var á lífi þegar hún var gerð, en þau hjón barnlaus, blasir við að megintilgangur hennar hafi verið að tryggja það að Y tæki allan arf eftir X ef hún félli frá á undan honum.

Með lögum nr. 48/1989 var 1. mgr. 3. gr. erfðalaga breytt til þess horfs að þegar arfleifandi á enga niðja á lífi tekur maki allan arf. Fyrir liggur að faðir X var látinn þegar þessi lagabreyting var gerð. Enda þótt andlát föður X og þessi breyting á erfðalögum gerði það að verkum að erfðaskráin var orðið óþörf, í ljósi ofangreinds ætlaðs tilgangs hennar, þykir það að þau Y og X réðust ekki í að breyta erfðaskránni eða ógilda hana ekki veita sérstaka vísbendingu um upphaflegan arfleiðsluvilja þeirra.

Umrædd erfðaskrá hefur einungis að geyma tvö efnisákvæði. Annars vegar ákvæði um að hvort hjónanna sem lengur lifði skyldi erfa allar eigur hins að því látnu og hins vegar að um allan arf eftir það hjónanna sem lengur lifði skyldi fara að ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962. Ljóst er að ef erfðaskráin hefði einungis haft að geyma fyrra ákvæðið hefði falist í henni ráðstöfun á öllum arfi eftir hið skammlífara til hins langlífara og að X hefði tekið arf eftir eiginmann sinn í skjóli erfðaskrár. Með vísan til dóms Hæstaréttar frá 4. mars 2002, í málinu nr. 30/2002, hefði þá ekki komið til álita að beita 1. mgr. 6. gr. erfðalaga við skipti á dánarbúi X.

         Óhjákvæmilegt er að líta svo á að síðara efnisákvæði erfðaskrárinnar endurspegli þann vilja Y og X að lögerfðareglur skyldu gilda um arf eftir það þeirra hjóna sem lengur lifði. Í erfðaskránni er hins vegar ekki vísað til tiltekins ákvæðis í erfðalögum og ekki að finna nánari fyrirmæli um hvernig fara skyldi með arfinn. Varnaraðilar líta svo á að í tilvísun til erfðalaga felist einungis það að skyldmenni hins langlífari skuli taka arf eftir það í samræmi við erfðalög, í þessu tilfelli 3. mgr. 3. gr. erfðalaga. Sóknaraðilar halda því hins vegar fram að eðlilegast sé að líta svo á að tilvísun til erfðalaga hafi það í för með sér að um arf fari eftir 1. mgr. 6. gr. laganna.

         Ákvæði 3. mgr. 3. gr. er lögerfðaregla sem mælir fyrir um að þegar maka er ekki til að dreifa og báðir foreldrar arfleifanda eru látnir þá taki börn eða aðrir niðjar hvors foreldris um sig þann arf sem því hefði borið en ef annað foreldri er látið hverfi allur arfur til niðja hins. Ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga á hins vegar við um skipti eftir það hjóna, sem lengur lifir, ef það var einkalögerfingi þess skammlífara, það andast án þess að hafa gengið aftur í hjúskap, það lætur ekki eftir sig niðja og hefur ekki með erfðaskrá ráðstafað eignum sínum á annan hátt. Ef skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt taka arf eftir langlífari makann skyldmenni hans og þess skammlífara og á hvor hópur þá samanlagt tilkall til helmings arfs. 

Vegna þeirrar tilvísunar sem er í erfðaskránni til erfðalaga nr. 8/1962 verður ekki fallist á með varnaraðilanum A að orðalag erfðaskráinnar sé svo ótvírætt að ljóst sé að ættingjar X standi einir til arfs. Þá verður ekki fallist á með þessum varnaraðila að erfðaskráin hafi verið marklaust plagg ef hún verður skýrð í samræmi við sjónarmið sóknaraðila.

         Afar takmarkaðar ályktanir verða dregnar af fullyrðingum málsaðila um tengsl þeirra hjóna við ættmenni sín og hvernig þau tengsl hafi haft áhrif á arfleiðsluvilja þeirra eins og hann kemur fram í erfðaskránni. Í málinu liggur þannig ekkert fyrir um hinn raunverulega arfleiðsluvilja þeirra Y og X annað en erfðaskráin sjálf. 

         Þegar efni erfðaskrárinnar er skoðað í heild verður að líta svo á að í henni birtist annars vegar sá vilji þeirra hjóna að það þeirra sem lengur lifði þyrfti ekki að sæta því að skipta arfi eftir hið skammlífara með öðrum og hins vegar sá vilji þeirra að lögerðareglur skyldu ráða því hvernig færi um skiptingu arf að þeim báðum gengnum.

         Ljóst þykir að síðara efnisákvæði erfðaskrárinnar var með öllu óþarft ef vilji arfleifanda var sá að ættingjar hins langlífari skyldu einir taka allan arf að þeim gengnum og í því tilviki hefði slík almenn tilvísun til erfðalaga verið beinlínis misvísandi og til þess fallin að valda ágreiningi. Þá verður ekki talið að ónákvæmni í tilvísun til erfðalaga beri að skýra þannig að arfur eigi að renna til skyldmenna X á grundvelli 3. mgr. 3. gr. erfðalaga.

         Eins og fram kemur í athugasemdum við 6. gr. frumvarps þess sem varð að erfðalögum nr. 8/1962 er tilgangurinn með ákvæðinu að skapa jafnrétti með ættum hjóna. Rétt er að líta til þessa tilgangs 6. gr. erfðalaga við túlkun á framangreindri erfðaskrá.

         Fyrir liggur að X var einkaerfingi Y, þau voru barnlaus og X gekk ekki í hjúskap að nýju. Samkvæmt því er ljóst að ef engri erfðaskrá hefði verið til að dreifa hefði lögerfðaregla 1. mgr. 6. gr. átt við um skipti á arfi eftir X. Með vísan til þess að í síðara efnisákvæði sameiginlegrar og gagnkvæmrar erfðaskrár þeirra Y og X er vísað til þess að um arf eftir það þeirra sem lengur lifi skuli fara að ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962, þykir verða að líta svo á erfðaskráin feli ekki í sér að þau hafi ráðstafað á eignum þeirra með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 1. mgr. 6. gr. erfðalaga, enda liggja engin gögn fyrir í málinu sem benda til þess að þau hafi viljað að allur arfur eftir þau rynni til ættmenna X.

         Samkvæmt framansögðu verður sameigninleg og gagnkvæm erfðaskrá þeirra Y og X skýrð þannig að hin almenna tilvísun í henni til erfðalaga feli í sér að um skipti eftir X skuli fara eftir 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962, þannig að arfur eftir hana skiptist til helminga milli skyldmenna X annars vegar og Y hins vegar.

          Þar sem ágreiningsmál þetta er sprottið af skiptum á dánarbúi X verður í máli þessu einungis skorið úr um hvernig dánarbúi X beri að skipta. Ekki er því unnt að taka kröfur sóknaraðila til greina óbreyttar heldur aðeins að því er varðar dánarbú X.  Þar sem X var einkalögerfingi Y og skipti hafa ekki farið fram á dánarbúi hans þýðir niðurstaða málsins í raun að allar eigur þeirra hjóna, eins og þær voru við lát X, skiptast milli erfingja beggja að jöfnu.

         Með hliðsjón af því að í máli þessu hefur verið deilt um túlkun á ónákvæmum ákvæðum erfðaskrár þykir rétt að hver málsaðili beri sinn kostnað af rekstri málisins.

         Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Hanna Lára Helgadóttir hrl., af hálfu varnaraðila A flutti málið Gunnar Jóhannsson hdl. en Brynjar Níelsson hrl. af hálfu annarra varnaraðila.

         Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

         Skipta skal dánarbúi X milli erfingja hennar og erfingja Y að jöfnu, í samræmi við 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

          Málskostnaður fellur niður.