Hæstiréttur íslands

Mál nr. 680/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Réttindaröð


                                     

Miðvikudaginn 29. október 2014.

Nr. 680/2014.

Ólafur Þór Ólafsson

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

þrotabúi Okt. 2012 ehf.

(Ásbjörn Jónsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Réttindaröð. 

Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að Ó hafi átt 26% hlut í O ehf. en það teldist verulegur hlutur og því væri hann nákominn O ehf. í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var því talið að launakrafa Ó væri almenn krafa skv. 113. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 112. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2014 þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sóknaraðila samtals að fjárhæð 6.449.328 krónur í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti Okt. 2012 ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. þeirra laga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina þó með þeirri breytingu að fallið er frá því að ökutækjastyrkur að fjárhæð 482.600 krónur verði samþykktur sem forgangskrafa. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ólafur Þór Ólafsson, greiði varnaraðila, þrotabúi Okt. 2012 ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2014.

Mál þetta var þingfest 10. apríl 2014 og tekið til úrskurðar 4. september síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Ólafur Þór Ólafsson, Borgarási 4, Garðabæ.

Varnaraðili er þrotabú Okt. 2012  ehf., Bæjarhrauni 12, Hafnarfirði.

Sóknaraðili krefst þess að launakrafa hans í þrotabúið verði tekin til greina sem forgangskrafa eins og henni var lýst með kröfulýsingu 11. september 2013. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun skiptastjóra um að samþykkja kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 verði staðfest. Einnig krefst varnaraðili málskostnaðar.

I

Sóknaraðili hóf störf hjá fyrirtækinu Hafrót Seafood ehf. 1. febrúar 2012. Starfaði hann við sölustörf í fullu starfi allt þar til fyrirtækið hætti rekstri um mánaðarmótin nóvember-desember 2012. Í októbermánuði 2012 var nafni Hafrótar Seafood ehf. breytt í Okt. 2012 ehf.

Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 8. ágúst 2013 var bú Okt. 2012 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og Ásbjörn Jónsson hrl. skipaður skiptastjóri í búinu.

Með bréfi 11. september 2013 lýsti sóknaraðili kröfu í búið um laun, orlof og ökutækjastyrk, samtals að fjárhæð 6.449.328 krónur. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Með bréfi 4. nóvember 2013 hafnaði skiptastjóri þrotabúsins því að taka kröfuna til greina sem forgangskröfu. Þar segir að sóknaraðili hafi átt 26% hlut í hinu gjaldþrota félagi sem verði að teljast verulegur hluti. Teljist sóknaraðili því nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991. Var það mat skiptastjóra að krafan teldist almenn krafa í búið.

Á skiptafundi 13. mars 2014 kom upp ágreiningur um grundvöll skipta. Ákvað skiptastjóri að beina ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms með heimild í 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Málið barst dóminum 17. mars 2014.

II

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi starfað sem sölumaður hjá varnaraðila, sem áður hét Hafrót Seafood ehf. Hinn 29. febrúar 2012 hafi verið gert samkomulag á milli sóknaraðila og þáverandi hluthafa varnaraðila um kauprétt sóknaraðila og Ægis Páls Friðbertssonar á hlutum í félaginu. Í 1. gr. samkomulagsins segi að sóknaraðili fái rétt til að kaupa hluti í félaginu á genginu 0,1 eða sem nemi 52.000 krónum og skuli hlutirnir greiddir sé kaupréttur nýttur. Heimild til að nýta kaupréttinn samkvæmt samkomulaginu hafi verið frá 29. febrúar 2012 til 30. apríl 2012.

Af hálfu skiptastjóra hafi því verið haldið fram að samkvæmt samkomulaginu hafi sóknaraðili eignast 26% hlut í félaginu og því geti krafa sóknaraðila ekki verið forgangskrafa samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Þeirri afstöðu sé mótmælt og þess krafist að henni verði hnekkt. Samkomulag aðila hafi snúist um kauprétt sem hafi aldrei verið nýttur og því hafi umrætt kaupverð ekki verið innt af hendi. Þess vegna hafi samkomulagið aldrei orðið virkt og sóknaraðili aldrei orðið hluthafi í félaginu. Þó hann hafi setið hluthafafundi hafi hann ekki haft atkvæðisrétt á þeim fundum.

Sönnunarbyrði fyrir því að sóknaraðili hafi nýtt kaupréttinn og keypt hluti í hinu gjaldþrota félagi hvíli á varnaraðila. Með athugun á bókhaldi félagsins ætti hann að geta staðreynt hvort greiðsla hafi borist fyrir hlutaféð eða hvort fyrir liggi tilkynning um nýtingu kaupréttar. Þrátt fyrir að skiptastjóri sóknaraðila hafi verið beðinn um frekari rök eða sönnun fyrir afstöðu sinni hafi hann ekki fært þau fram. Krafa sóknaraðila sé að öðru leyti ekki umdeild enda hafi kröfunni einungis verið hafnað af framangreindum ástæðum.

Þar sem ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. geti ekki átt við um sóknaraðila sé þess krafist að launakrafan verði tekin til greina og hún samþykkt sem forgangskrafa eins og henni hafi verið lýst samkvæmt kröfulýsingu 11. september 2013.

Vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og meginreglna vinnuréttar. Krafa varnaraðila um málskostnað byggir á ákvæðum 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Varnaraðili kveðst byggja á því að sóknaraðili hafi átt 26% hlutafjár í varnaraðila og hann hafi tekið ákvarðanir um rekstur varnaraðila. Sóknaraðili hafi að öllu leyti komið fram sem hluthafi í varnaraðila og hafi aðrir hluthafar litið þannig á hann. Auk þess hafi sóknaraðili gert ýmislegt sem aðeins hluthafar geti gert. Hann hafi til dæmis samþykkt og undirritað nýjar samþykktir varnaraðila 29. febrúar 2012. Sóknaraðili sé því nákominn varnaraðila í skilningi 4. og 6. töluliða 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Um launa- og orlofskröfur sóknaraðila gildi því 3. mgr. 112. gr. laganna en samkvæmt ákvæðinu teljist launa- og orlofskrafa ekki forgangskrafa samkvæmt 1. til 3. tölulið 112. gr. sömu laga ef að starfsmaður er nákominn hinu gjaldþrota félagi. Slík krafa sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Hvort sóknaraðili greiddi öðrum hluthöfum fyrir hlut sinn í varnaraðila breytir engu um þá staðreynd að hann var hluthafi í varnaraðila. Greiðsla fyrir hlut í félagi sé ekki skilyrði þess að aðili teljist vera hluthafi heldur hvort hann taki ákvarðanir og komi fram sem hluthafi. Líkt og áður hafi komið fram hafi sóknaraðili gert ýmislegt sem aðeins hluthafi hafi getað gert og því sé engum vafa undirorpið að hann hafi verið hluthafi í varnaraðila.

Ákvörðun skiptastjóra um að skipa launa- og orlofskröfu sóknaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 hafi samkvæmt þessu verið rétt og því beri að hafna kröfu sóknaraðila. Krafa sóknaraðila um ökutækjastyrk sé ekki krafa um endurgjald fyrir vinnu í þágu varnaraðila. Sú krafa teljist því ekki til forgangskrafna samkvæmt 1. tölulið 112. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum, og einnig vegna þeirra röksemda sem að framan greini, beri að hafna kröfu sóknaraðila og staðfesta ákvörðun skiptastjóra um að skipa kröfunni samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., einkum 3. gr., 112. og 113. gr. Jafnframt vísar varnaraðili til reglna félagaréttar um hluthafa í félögum og til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Um málskostnaðarkröfu sína vísar varnaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

IV

Ágreiningur aðila málsins snýst um það hvort krafa sóknaraðila í þrotabú varnaraðila sé forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Skiptastjóri varnaraðila hafnaði kröfunni á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laganna með þeim rökum að sóknaraðili hefði átt 26% í hinu gjaldþrota félagi en það teldist verulegur hluti og því væri hann nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr. sömu laga. Því væri krafan almenn krafa í þrotabúið samkvæmt 113. gr. laganna.  

Af hálfu sóknaraðila er einkum byggt á því að hann hafi ekki eignast hlut í félaginu með samkomulagi sem hann undirritaði 29. febrúar 2012. Samkomulagið hafi aðeins snúist um kauprétt að hlut í félaginu en kauprétturinn hafi ekki verið nýttur og ekki hafi verið greitt fyrir hlutinn. Varnaraðili mótmælir þessu.

Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að tilgangurinn með gerð samkomulagsins hefði verið sá að hann gerðist hluthafi í Hafrót Seafood ehf. en til þess hefði ekki komið vegna þess að félagið hefði verið til rannsóknar vegna tollamála. Kvaðst sóknaraðili hvorki hafa nýtt sér kauprétt að hlutum í félaginu né greitt fyrir þá. Því hefði hann ekki eignast hlutinn. Hann hefði mætt á hluthafafund í félaginu án þess að hafa þar nokkurt vægi, enda ekki hluthafi.

Vitnið Örn H. Magnússon bar fyrir dómi að tilefni hluthafasamkomulagsins hefði verið að tveir nýir aðilar, sóknaraðili og Ægir Páll Friðbertsson, hefðu komið inn í félagið sem meirihlutaeigendur. Á hluthafafundi fjögurra hluthafa hafi verið samþykkt skipun stjórnar og launakjör fyrir sóknaraðila, sem hefði fengið laun frá félaginu í stað þess að vera verktaki. Þá kom fram hjá vitninu að Ægir Páll hefði samið texta skjalanna eftir því sem hann best minnti, það er hluthafasamkomulagsins, fundargerðar hluthafafundarins og texta nýrrar samþykkta fyrir félagið. Einnig kom fram að vitnið hefði ekki innheimt greiðslu fyrir hlutafé í félaginu hjá sóknaraðila.

Vitnið Kolbrún Eysteinsdóttir, sem vann sem bókari hjá Hafrót Seafood ehf. árið 2012, greindi frá því fyrir dómi að eftir hluthafafundinn 29. febrúar 2012 hefði sóknaraðili tilkynnt henni að hann væri orðinn hluthafi í félaginu og að ákveðið hefði verið að hann yrði launamaður hjá félaginu en ekki verktaki. Tilkynnti sóknaraðili vitninu um launakjör sín og sagði að hann og Ægir Páll hefðu komið inn sem hluthafar og að ákvörðun hefði verið tekin um þessi launakjör á hluthafafundi.

Vitnið Eyjólfur Þorkelsson lýsti breytingum á félaginu eftir hluthafafundinn í febrúar 2012, en á þeim fundi hefðu vitnið og Örn H. Magnússon selt sinn hvor 26% hlut í félaginu til sóknaraðila og Ægis Páls Friðbertssonar. Hafi það verið gert að undirlagi Arionbanka. Vitnið kvaðst í kjölfarið hafa verið leyst undan sjálfskuldaábyrgð vegna kröfukaupa Arionbanka. Hluthafar hafi verið í ábyrgð fyrir 15 milljónum á þessum tíma og viljað að nýju hluthafarnir tækju við því hlutfallslega sem hafi ekki gengið eftir. Vitnið bar að starfsvið sóknaraðila hefði lítið breyst eftir að sóknaraðili varð hluthafi í félaginu, nema þá helst það að hann hafi viljað vita hvað aðrir hjá félaginu væru að gera og fylgjast með daglegum rekstri. Vitnið kvaðst aðspurt hafa gengið eftir því við Ægi Pál að fá greiddar 26.000 krónur fyrir hlutinn og fengið þau svör að hann myndi borga síðsumars en þá hafi hann verið hættur. Kvaðst vitnið ekki hafa fengið greitt fyrir hlutinn en það hafi verið aukaatriði í huga vitnisins.

Fyrrgreint samkomulag frá 29. febrúar 2012 er hluthafasamkomulag hluthafa í Hafrót Seafood ehf., síðar Okt. 2012 ehf. Samkomulagið skyldi gilda til eins árs í senn. Þar segir að núverandi hluthafar í félaginu, það er Örn H. Magnússon og Eyjólfur Þorkelsson annars vegar, og sóknaraðili og Ægir Páll Friðbertsson hins vegar, geri með sér samning um ýmis atriði sem feli í sér breytingar á samþykktum, kauprétt á eignarhlut núverandi hluthafa, ábyrgðarsviði aðila og öðru er varði rekstur Hafrótar Seafood ehf. Í 1. gr. samkomulagsins segir að sóknaraðili og Ægir Páll Friðbertsson eigi kauprétt á núverandi hluthafa vegna hlutafjár að nafnverði 520.000 krónur hvor um sig. Veiti kauprétturinn þeim rétt til að kaupa á genginu 0,1 eða fyrir 52.000 krónur hvor sem greiðist þegar kauprétturinn verði nýttur. Kaupréttartímabil er tilgreint frá undirritun samningsins til 30. apríl 2012. Þá segir að eftir nýtingu kaupréttarins yrði eignarhluti hvers hluthafa í félaginu eftirfarandi: Ægir Páll Friðbertsson, 26%; Ólafur Ólafsson, 26%; Örn H. Magnússon, 24% og Eyjólfur Þorkelsson, 24%.

Í samkomulaginu er einnig fjallað um stjórn félagsins. Þar segir að stjórnarmönnum verði fækkað úr þremur aðalmönnum í einn og einn til vara. Fram kemur að frá undirritun samkomulagsins verði Ægir Páll Friðbertsson stjórnarformaður og Eyjólfur Þorkelsson varamaður. Einnig segir að stjórn félagsins sé ekki hægt að breyta fyrir 1. maí 2012 nema með samþykki Arionbanka hf. og/eða með afsögn stjórnarmanns. Enn fremur er í samkomulaginu kveðið á um sölu á hlutafé, laun og starfssvið. Tekið er fram að sóknaraðili, Örn og Eyjólfur muni einbeita sér að sölu afurða og leita allra leiða og tækifæra til að auka umsvif félagsins í arðsömum viðskiptum. Þá segir að laun og launakjör núverandi starfsmanna verði óbreytt til 1. maí 2012 en fyrir þann tíma verði gerður nýr ráðningasamningur og endursamið. Nýr ráðningarsamningur verði gerður við sóknaraðila og verði mánaðarlaun hans 700.000 krónur auk 80.000 króna í bílastyrk á mánuði. Sóknaraðili undirritaði hluthafasamkomulagið ásamt þeim Ægi Páli Friðbertssyni, Eyjólfi Þorkelssyni og Erni H. Magnússyni.

Samkvæmt fundargerð hluthafafundar Hafrótar Seafood ehf. 29. febrúar 2012 mættu Eyjólfur Þorkelsson, Ægir Páll Friðbertsson, Örn H. Magnússon og sóknaraðili til fundarins. Fram kemur í fundargerðinni að fundurinn sé haldinn til að gera tillögur til breytinga á samþykktum félagsins og kjósa stjórn. Einnig hafi prókúruumboð verið veitt. Í lok fundargerðarinnar segir orðrétt: „Allir viðstaddir, hluthafar og nýkjörin stjórn undirrita nýjar samþykktir fyrir félagið.“ Nýjar samþykktir fyrir félagið voru undirritaðar 29. febrúar 2012 og mótteknar hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra 6. mars sama ár. Undir samþykktirnar rita þeir Ægir Páll Friðbertsson, Eyjólfur Þorkelsson, Örn H. Magnússon og sóknaraðili. Eins og fram er komið eru tveir fyrstnefndir aðalmaður og varamaður í stjórn félagsins.

Í 55. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög segir að hluthafar fari með ákvörðunarvald sitt í málefnum félagsins á hluthafafundum. Samkvæmt því, og miðað við það sem áður er rakið, er ljóst að þær ákvarðanir sem teknar voru á hluthafafundinum voru ekki á valdi annarra en hluthafa að taka og verður undirritun sóknaraðila undir fundargerð hluthafafundarins með engu móti skilin öðru vísi en svo en að hann hafi komið fram á fundinum sem hluthafi og hafi undirritað fundargerð hluthafafundarins og samþykktir félagsins sem hluthafi í Hafrót Seafood ehf. Fram hjá því verður ekki horft að sóknaraðili hefur með undirritun sinni undir framannefnd skjöl staðfest ákvörðun sína um ýmis áðurrakin atriði sem varða breytingar á rekstri og skipulagi félagsins sem ekki voru á færi annarra en hluthafa að ákveða, sbr. tilvitnaða 55. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður niðurstaða dómsins sú að sóknaraðili hafi verið hluthafi í félaginu Hafrót Seafood ehf., síðar Okt. 2012 ehf. Fyrir liggur að sóknaraðili greiddi ekki fyrir hlutafé sitt í félaginu.  Er það óumdeilt en sú staðreynd getur ekki ein og sér ráðið úrslitum um stöðu sóknaraðila gagnvart hinu gjaldþrota félagi, enda benti það verð og gengi sem sóknaraðili skyldi greiða fyrir hlutaféð eindregið til þess að eigandi þess teldi það mjög lítils virði. Fram kom hjá vitninu Eyjólfi Þorkelssyni að greiðsla fyrir hlutinn hefði verið aukaatriði. Þykir ekkert hald vera í þeirri málsástæðu sóknaraðila að hlutahafasamkomulagið hafi aðeins falið í sér ráðagerð um að hann yrði hluthafi í félaginu.

Samkvæmt 1. og 3. tölulið 112. gr. njóta kröfur um laun, orlofsfé og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag tiltekins forgangs við skipti á búi þrotamanns. Það á þó ekki við um kröfur þeirra sem teljast vera nákomnir eru þrotamanni eða félagi eða stofnun sem er til gjaldþrotaskipta, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. gr. laganna. Samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu, eins og því var breytt með lögum nr. 95/2010, er maður nákominn félagi sem á verulegan hluta í viðkomandi félagi. Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi átt 26% hlut í Hafrót Seafood ehf. og síðar Okt. 2012 ehf. og er fallist á það með varnaraðila að hlutur sóknaraðila í félaginu hafi verið verulegur og því teljist sóknaraðili hafa verið nákominn varnaraðila samkvæmt skilgreiningu í 4. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.   

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður hafnað kröfu sóknaraðila um að launakrafa hans, eins og henni var lýst samkvæmt kröfulýsingu 11. september 2013, verði tekin til greina. Jafnframt verður staðfest sú ákvörðun skiptastjóra að samþykkja kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til þessara málsúrslita og samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, Ólafs Þórs Ólafssonar, um að launakrafa hans verði tekin til greina eins og henni var lýst samkvæmt kröfulýsingu 11. september 2013, er hafnað. Staðfest er ákvörðun skiptastjóra um að samþykkja kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl.  

Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi Okt. 2012 ehf., 300.000 krónur í málskostnað.