Hæstiréttur íslands
Mál nr. 461/2002
Lykilorð
- Banki
- Gjaldþrotaskipti
- Nauðungarsala
- Niðurfærsla kröfu
- Tryggingarbréf
- Matsgerð
- Sannvirði
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Þriðjudaginn 15. apríl 2003. |
|
Nr. 461/2002. |
Sigurður P. Hauksson(Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) og gagnsök |
Bankar. Gjaldþrotaskipti. Nauðungarsala. Niðurfærsla krafna. Tryggingarbréf. Matsgerð. Sannvirði. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
S krafði Í hf. um endurgreiðslu vegna óútskýrðrar úttektar úr sparisjóðsbók hans auk inneignar sem í henni var við gjaldþrot S, svo og úttekta af tékkareikningi hans, ógreidds andvirðis viðskiptabréfa, fit-kostnaðar og oftekinna vaxta bankans. Þá krafðist hann að áhvílandi veðskuldir hans við bankann, sem hvíldu á 2.-5. veðrétti fasteignar sem seld var á nauðungaruppboði 1992, yrðu færðar niður í ljósi þess að sannvirði fasteignarinnar hefði við uppboð á eigninni verið mun hærra að mati yfirmatsmanna en uppboðsandvirðið. Í Hæstarétti þótti bankanum ekki hafa tekist að sína fram á inntak ráðstafana sinna vegna tékkareiknings S. Hins vegar hefði bankinn mátt treysta því að S gerði ekki svo löngu seinna athugasemdir um færslur á reikninginn. Voru endurgreiðslukröfur S sem rót áttu að rekja til þessa reiknings því taldar fallnar niður fyrir tómlæti. Öðru gegndi um ráðstafanir bankans af sparisjóðsreikningi S, en bankinn hafði ekki sýnt fram á heimildir sínar til ráðstafana af reikningnum eða til hvers þær voru gerðar. Vegna tilgangs slíkrar innstæðu þótti varhugavert að telja hana fallna niður fyrir tómlæti S en ekki var talið að skuldajafnaðarréttur fylgdi slíkum innstæðum. Var Í hf. því gert að greiða S þessar upphæðir. Fyrir lá að bankinn hafði þegar viðurkennt að eftirstöðvar kröfu á 2. veðrétti bæri að fella niður, sbr. 32. gr. laga nr. 57/1949. Fallist var á það með héraðsdómi að skýra bæri ákvæði 3. og 4. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949 um nauðungaruppboð svo að miða yrði sannvirði eignarinnar á uppboðsdegi við mat yfirmatsmanna. Með vísan til þessa var niðurstaða héraðsdóms um niðurfærslu kröfu Í hf. samkvæmt veðskuldabréfi á 3. veðrétti staðfest. Þótt niðurfærsluheimild 3. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949 væri samkvæmt orðalagi helst miðuð við veðkröfur, sem hvíldu á eign við uppboð og væri jafnframt lýst við það, var talið óeðlilegt að láta þar við sitja þar sem uppboðskaupandi gæti á þann hátt hagnast á kostnað uppboðsþola eða ábyrgðarmanns. Fasteignin stóð samkvæmt tryggingarbréfum á 4. og 5. veðrétti á uppboðsdegi til tryggingar öllum skuldum S við bankann, þar með yfirdrættinum á tékkareikningnum, sem breytt hafði verið í víxilskuld. Þar sem skuldin samkvæmt víxlinum féll öll innan matsverðsins bar að fella hana í heild niður. S þótti ekki hafa sýnt fram á að hann ætti frekari kröfur til niðurfærslu samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949 og var bankinn því sýknaður af frekari niðurfærslukröfum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. október 2002. Hann gerir eftirgreindar kröfur:
1. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að endurgreiða honum 23.074.054,20 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að viðurkennt verði með dómi að sannvirði fasteignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi hafi á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992 numið 37.050.000 krónum. Jafnframt að eftirstöðvar áhvílandi veðskulda hans við gagnáfrýjanda, sem hvíldu á 2.-5. veðrétti alls að fjárhæð 18.344.868,93 krónur verði færðar niður að fullu.
3. Að gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiði honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu með stefnu 14. nóvember 2002. Hann krefst aðallega staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um fyrsta lið kröfu aðaláfrýjanda, en auk þess að öðrum kröfum hans verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á kröfum aðaláfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Niðurfærslukrafa aðaláfrýjanda er á því reist að viðurkennt verði að sannvirði fasteignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi hafi á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992 numið að staðgreiðsluverðmæti 37.050.000 krónum og er það byggt á yfirmati 13. desember 2001. Við úrlausn niðurfærslukröfunnar verður að taka afstöðu til þessa og hefur aðaláfrýjandi ekki getað sýnt fram á að hann hafi hagsmuni að lögum af því að leyst verði sérstaklega úr viðurkenningarkröfu hans, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður henni vísað sjálfkrafa frá dómi.
II.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar kemur fram hóf aðaláfrýjandi verslunarrekstur á Akranesi 1988 í nafni einkafirma síns PC-tölvunnar. Heimili fyrirtækisins var að Kirkjubraut 11, Akranesi, en þar bjó aðaláfrýjandi einnig. Húseignina átti hlutafélagið Tækniveröld hf., sem aðaláfrýjandi mátti skuldbinda ásamt Kristínu Halldórsdóttur. Aðaláfrýjandi átti upphaflega bankaviðskipti við Alþýðubankann hf. á Akranesi en síðar gagnáfrýjanda eftir að fyrrnefndi bankinn sameinaðist honum. Aðaláfrýjandi hafði tékkareikning nr. 1021 við bankann og auk þess sparisjóðsbók nr. 803173 og fóru viðskipti hans um þessa reikninga.
Uppboðs var krafist á Kirkjubraut 11 og eignin seld 20. febrúar 1992 og var gagnáfrýjandi hæstbjóðandi og var honum lögð út eignin 8. apríl 1992. Gagnáfrýjandi bað um að aðaláfrýjandi yrði borinn út af eigninni 24. apríl 1992 og sama dag fór hann fram á löghald til tryggingar meðal annars á víxilskuld, sem þannig var tilkomin að hann hafði breytt yfirdráttarskuld á tékkareikningi aðaláfrýjanda nr. 1021 í það form með því að fylla út óútfylltan víxil, sem hann hafði fengið í hendur nokkrum árum áður. Löghaldsgerðin reyndist árangurslaus og var því beðið um gjaldþrotaskipti á búi aðaláfrýjanda 13. maí 1992. Búið var tekið til gjaldþrotaskipta 14. maí og sett í forsjá bústjóra og var þeim skiptum lokið 30. september 1996. Skiptin voru síðan endurupptekin af bústjóra í tilefni máls þessa og 23. janúar 2001 veitti skiptastjóri aðaláfrýjanda umboð til málshöfðunar fyrir hönd þrotabúsins, en fyrir eigin reikning.
III.
Kröfur aðaláfrýjanda eru af tvennum toga. Annars vegar er um að ræða endurgreiðslukröfu að fjárhæð 23.074.054,20 krónur, sem reist er á úttekt úr sparisjóðsbók nr. 803173 að fjárhæð 559.167,40 krónur og þeirri inneign, sem var á bankabókinni við gjaldþrot aðaláfrýjanda 292.085,63 krónur, en aðaláfrýjandi telur gagnáfrýjanda ekki hafa útskýrt hvernig fjárhæðum þessum var ráðstafað. Auk þessa nær krafan til úttekta af tékkareikningi nr. 1021, alls að fjárhæð 17.172.684 krónur, ógreiddu andvirði viðskiptabréfa alls að fjárhæð 1.530.853,20 krónur, fit-kostnaði að fjárhæð 1.108.361 krónu og ofteknum vöxtum gagnáfrýjanda 2.410.902 krónur, en aðaláfrýjandi telur þessar ráðstafanir einnig óskýrðar.
Hins vegar er kröfugerð aðaláfrýjanda byggð á því að tekið verði til greina að sannvirði fasteignarinnar að Kirkjubraut 11, Akranesi, hafi við uppboð numið 39.000.000 krónum, svo sem yfirmatsmenn komust að raun um í desember 2001. Með staðgreiðsluafslætti nemi þessi matsfjárhæð 37.050.000 krónum. Á þessum grunni krefst hann þess að áhvílandi veðskuldir aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda verði færðar niður um alls 18.344.868,93 krónur, sem hvíldu á 2.-5. veðrétti eignarinnar og sundurliðuðust þannig að eftirstöðvar samkvæmt 2. veðrétti hafi numið 2.031.123,10 krónum, eftirstöðvar á 3. veðrétti 697.192,70 krónum og eftirstöðvar samkvæmt 4. og 5. veðrétti 15.616.553,13 krónum. Aðaláfrýjandi gefur þá skýringu á kröfum sínum að verði fallist á fyrri kröfuna falli síðari krafan niður. Verði síðari krafan hins vegar tekin til greina feli sú niðurstaða í sér að 18.344.868,93 krónur greiðist upp í fyrri kröfuna. Í síðara tilvikinu sé krafist greiðslu á mismuni krafnanna, eða 4.729.182,27 krónum.
Gagnáfrýjandi gerir þær athugasemdir við kröfugerð aðaláfrýjanda að staða á tékkareikningi hans hafi verið neikvæð um 9.966.196 krónur þegar tryggingarvíxill var gefinn út 13. mars 1992. Aðaláfrýjandi taki ekki tillit til þess í kröfugerð sinni að úttektir á tékkareikningi hafi farið fram í formi aukins yfirdráttar. Hér hafi því verið um lán að ræða, sem aðaláfrýjandi geti ekki krafist „endurgreiðslu“ á. Gagnáfrýjandi heldur því jafnframt fram að kröfur aðaláfrýjanda, sem hafi verið eldri en 10 ára þegar mál þetta var höfðað, séu fyrndar, sbr. 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Þá telur hann að kröfur aðaláfrýjanda séu niður fallnar fyrir sakir tómlætis hans, en hann hafi aldrei gert athugasemdir við úttektir af tékkareikningi, af sparisjóðsbók eða um ráðstöfun á söluandvirði viðskiptabréfa sem gagnáfrýjanda voru seld. Greiðslum þessum hafi öllum verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda aðaláfrýjanda. Þá hafi skiptastjóri samþykkt án fyrirvara kröfur gagnáfrýjanda í þrotabúið að fjárhæð samtals 13.476.309 krónur og sé aðaláfrýjandi bundinn við það og geti ekki 10 árum síðar krafist niðurfærslu þeirra.
Gagnáfrýjandi mótmælir því að sannvirði eignar í skilningi 32. gr. laga nr. 57/1949 um nauðungaruppboð, sem í gildi voru þegar uppboð á eigninni fór fram, geti verið hærra en 20.000.000 krónur sem var það verð sem hann fékk fyrir eignina við sölu hennar í október 1992. Mótmælir hann sérstaklega sönnunargildi matsgerða bæði undir- og yfirmats, þar sem svo langur tími hafi liðið frá uppboði til þess er mat fór fram og í ljósi ýmissa annmarka, sem hann telur vera á mötum þessum. Niðurfærslukröfum aðaláfrýjanda mótmælir hann sem of seint fram komnum og telur þær jafnframt fallnar niður fyrir tómlæti. Þá bendir hann á að krafa á 2. veðrétti hafi verið gerð upp að fullu 29. október 1992. Engar kröfur hafi legið að baki tryggingarbréfum á 4. og 5. veðrétti þar sem engum kröfum hafi verið lýst á grundvelli þeirra við nauðungarsöluna. Telur hann ekki lagaheimild til þess að beita lækkun vegna þessara veðrétta. Loks gerir hann þá kröfu til vara, að krafa aðaláfrýjanda verði öll dæmd fallin niður fyrir skuldajöfnuð, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
IV.
Fallist er á það með héraðsdómi að fáist endurgreiðslukröfur aðaláfrýjanda viðurkenndar eigi andvirði þeirra að renna til þrotabús aðaláfrýjanda og að reiknað verði með niðurfærslukröfunum við uppgjör þrotabúsins. Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr., 130. gr. gjaldþrotalaga er aðaláfrýjandi réttur aðili máls þessa.
Að framan er því lýst á hverju aðaláfrýjandi reisir endurgreiðslukröfu sína. Varðar krafan ráðslag gagnáfrýjanda með sparisjóðsreikning aðaláfrýjanda nr. 803173 við bankaútibúið á Akranesi og með tékkareikning hans þar nr. 1021. Gagnáfrýjandi breytti yfirdráttarskuld aðaláfrýjanda á tékkareikningi nr. 1021 í víxilskuld með innlögn á reikninginn 12. maí 1992 að fjárhæð 9.921.046,76 krónur og lýsti á þeim grunni 10.685.668,90 krónum í þrotabú aðaláfrýjanda og hefur ekki fallið frá henni. Víxillinn er útgefinn 13. mars 1992 af Kristni Þ. Jenssyni, samþykktur af aðaláfrýjanda með gjalddaga 23. sama mánaðar og að fjárhæð 9.966.196 krónur. Gagnáfrýjandi heldur því fram að aðaláfrýjanda hafi verið veitt fyrirgreiðsla í formi yfirdráttar á tékkareikning nr. 1021 og að baki víxlinum sé því slíkt lán. Af framlögðum ljósritum yfir færslur af þessum reikningi kemur ekki fram hversu mikið var heimilt að yfirdraga reikninginn á hverjum tíma eða hversu háa vexti skyldi greiða af þessu láni. Þá er óútskýrt hvenær hafna átti tékkum á reikninginn, þannig að þeir lentu á fit-reikningi með tilheyrandi kostnaði. Gagnáfrýjandi hefur borið því við að gögnum frá árinu 1990 hafi verið eytt í árslok 1997, þar sem honum sé einungis skylt að varðveita bókhaldsgögn í 7 ár samkvæmt 20. gr. laga 145/1994 um bókhald, sem nú eru í gildi. Þar sem gagnáfrýjandi telur skuld þessa enn útistandandi verður ekki á þetta fallist.
Samkvæmt málatilbúnaði aðaláfrýjanda voru báðir reikningar hans notaðir í þágu rekstrar einkafirma hans, PC-tölvunnar. Samkvæmt 2. gr. B. laga nr. 51/1968 um bókhald, sbr. nú 8. tl. 1. gr. laga nr. 145/1994 sama efnis, var aðaláfrýjandi bókhaldsskyldur. Honum bar því samkvæmt 18. gr. laganna að gera ársreikning einu sinni á hverju reikningsári. Skyldi ársreikningurinn vera fullgerður og undirritaður eigi síðar en 5 mánuðum eftir lok reikningsársins. Bókhaldið varð samkvæmt 5. grein laganna að veita sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og efnahag, eins og þarfir eigenda, lánardrottna og hins opinbera kröfðust. Sigrún Ríkharðsdóttir yfirféhirðir gagnáfrýjanda á Akranesi bar fyrir dómi að aðaláfrýjandi hefði um áramótin 1990/1991 og aftur 1991/1992 fengið afhentar möppur með ljósritum af öllum kvittunum og skjölum hans vegna sem fóru um gjaldkerastúkuna. Bæði hún og Björgvin Filippusson, sem tók við starfi útibússtjóra í nóvember 1991, báru fyrir héraðsdómi að aldrei hefðu komið athugasemdir frá aðaláfrýjanda vegna úttekta af tékkareikningi nr. 1021.
Ljósrit af færslum þessa tékkareiknings hafa verið lögð fram í málinu og bera öll með sér áritun um að athugsemdir óskist gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars teljist reikningurinn réttur. Aðaláfrýjanda var nauðsynlegt vegna ársreiknings fyrirtækisins að stemma bókhald sitt af við niðurstöður bankareikninga. Hlaut honum því í síðasta lagi við gerð ársreikninga viðkomandi ára að verða ljóst hvernig bankinn á Akranesi tók út af tékkareikningi hans, færði keypt viðskiptabréf til niðurfærslu yfirdráttar hans á reikningnum og skuldfærði hann fyrir fit-kostnaði og vöxtum. Samkvæmt málatilbúnaði aðaláfrýjanda sjálfs var það ekki fyrr en á árinu 1997, sem hann spurðist fyrir um ráðstafanir bankans af reikningum sínum. Af hálfu þrotabúsins voru engar athugasemdir gerðar. Nægilega er fram komið að aðaláfrýjandi fékk yfirlit reikningsins í hendur. Brýnt var að hann gerði strax athugasemdir við færslur á hann vildi hann ekki við þær kannast og þar sem hann var bókhaldsskyldur bar honum í síðasta lagi við gerð ársreiknings fyrirtækis síns að koma athugasemdum á framfæri teldi hann ráðstafanir gagnáfrýjanda varðandi reikninginn ekki í samræmi við samninga þeirra í milli. Þótt gagnáfrýjanda hafi ekki tekist að sýna fram á inntak þessara ráðstafana sinna verður að telja að hann hafi mátt treysta því að aðaláfrýjandi gerði ekki svo löngu seinna athugasemdir um færslur á reikninginn. Ber þegar vegna tómlætis aðaláfrýjanda að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms varðandi þá endurgreiðslukröfu aðaláfrýjanda, sem frá þessum reikningi stafar.
Öðru gegnir um ráðstafanir gagnáfrýjanda af sparisjóðsreikningi nr. 803173, en eðli slíks reiknings er annað en tékkareikningsins. Fé er lagt inn á sparisjóðsreikninga til ávöxtunar eða geymslu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. fyrningarlaga fyrnast slíkar kröfur á 20 árum. Endurgreiðslukrafa aðaláfrýjanda vegna sparisjóðsreiknings nr. 803173 var því ófyrnd þegar mál þetta var höfðað. Gagnáfrýjandi hefur ekki getað sýnt fram á heimildir sínar til ráðstafana af reikningnum eða til hvers þær voru gerðar. Sá sem tekur út af slíkri bók á samkvæmt skilmálum hennar að útfylla og undirrita þar til gerðan úttektarmiða. Vegna tilgangs slíkrar innstæðu þykir varhugavert að telja hana fallna niður fyrir tómlæti aðaláfrýjanda. Þar sem gagnáfrýjandi hefur ekki getað framvísað úttektarmiða fyrir úttekt 13. september 1991, að fjárhæð 559.167,40 krónur, eða gert grein fyrir hvað varð af innstæðu bókarinnar, 292.085,63 krónum, eftir það, ber að dæma hann til að greiða aðaláfrýjanda fyrir hönd þrotabúsins greindar fjárhæðir. Skuldajafnaðarréttur fylgir ekki slíkum innstæðum.
V.
Þriðja og síðasta nauðungaruppboð fór fram á fasteigninni Kirkjubraut 11 á Akranesi 20. febrúar 1992. Landsbanki Íslands átti kröfu á 1. veðrétti en gagnáfrýjandi kröfur samkvæmt veðskuldabréfum á 2. og 3. veðrétti, sem aðaláfrýjandi var skuldari að. Þá átti hann tryggingarbréf á 4. veðrétti fyrir ótilgreindum skuldum PC-tölvunnar allt að 4.000.000 króna og tryggingarbréf á 5. veðrétti fyrir ótilgreindum skuldum Tækniveraldar hf. allt að 10.000.000 króna. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing PC-tölvunnar 12. júlí 1991 um að síðarnefnt tryggingarbréf á nafni Tækniveraldar hf. standi að fullu fyrir skuldbindingum PC-tölvunnar. Yfirlýsing þessi er undirrituð af aðaláfrýjanda og Kristínu Halldórsdóttur, sem samkvæmt áður sögðu höfðu heimild til að skuldbinda Tækniveröld hf., og var hún móttekin til þinglýsingar 24. júlí 1991. Verður að telja hana hafa haft fullt skuldbindingargildi fyrir Tækniveröld hf., þrátt fyrir galla á framsetningu hennar. Engum kröfum byggðum á tryggingarbréfum þessum var lýst við nauðungarsöluna. Gagnáfrýjandi átti hæsta boð í eignina 13.500.000 krónur og var honum lögð út eignin sem ófullnægðum veðhafa. Af uppboðsandvirðinu greiddust 377.678,20 krónur upp í kröfu hans á hendur aðaláfrýjanda samkvæmt veðskuldabréfi á 2. veðrétti, en hún stóð þá í 2.408.801,30 krónum.
Forsendum yfirmatsmanna fyrir áliti sínu á sannvirði fasteignarinnar Kirkjubrautar 11 á Akranesi á uppboðsdegi 20. febrúar 1992 er lýst í héraðsdómi. Af hálfu gagnáfrýjanda var mætt við yfirmatið og kom hann að sjónarmiðum sínum. Hefur honum ekki tekist að hrekja niðurstöðu yfirmatsmanna. Verður að leggja matið til grundvallar niðurstöðu í máli þessu með vísun til forsendna héraðsdóms. Gagnáfrýjandi hefur ekki mótmælt því að miðað við matsfjárhæðina 39.000.000 krónur sé sannvirði eignarinnar við staðgreiðslu 37.050.000 krónur, svo sem ákveðið er í héraðsdómi og verður það lagt til grundvallar.
Í héraðsdómi er því lýst að gagnáfrýjandi hafi þegar viðurkennt að 2.031.123,10 króna eftirstöðvar kröfu á 2. veðrétti fasteignarinnar beri að fella niður með vísun til 32. gr. laga nr. 57/1949. Þá hefur hann lagt fram gögn um að hann hafi ráðstafað 3.000.000 króna til lækkunar á yfirdráttarskuld á tékkareikningi.
Ágreiningur er með aðilum hvort aðrar kröfur en samkvæmt veðskuldabréfi á 2. veðrétti beri að færa niður á grundvelli 3. og 4. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949, sbr. til hliðsjónar 57. gr. núgildandi laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Fallast verður á það með héraðsdómi að skýra beri ákvæði 3. og 4. mgr. 32. gr. svo að heimild til niðurfærslu er svarar mismuni á sannvirði eignar á uppboðsdegi og uppboðsfjárhæð sé ekki bundin við þá kröfu eina sem eitthvað greiðist upp í af kaupverði á uppboði heldur veiti það heimild til að færa niður allar kröfur uppboðskaupanda á hendur skuldara, séu þær tryggðar með veði í fasteigninni og falli innan sannanlegs sannvirðis eignarinnar. Þá er fallist á það með héraðsdómi að kröfurnar séu ófyrndar meðan gagnáfrýjandi heldur upphaflegu kröfunum í gildi, en hann hefur ekki fallið frá þeim. Samkvæmt þessu ber að staðfesta héraðsdóm um niðurfærslu kröfu gagnáfrýjanda á 3. veðrétti, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur, sem nam 697.192 krónum við lýsingu í þrotabú aðaláfrýjanda.
Að framan er því lýst að tryggingarbréf í eigninni á 4. og 5. veðrétti stóðu til tryggingar öllum skuldum aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda og þá einnig þeim sem hann lýsti síðar í búið. Þótt niðurfærsluheimild 3. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949 sé samkvæmt orðalagi helst miðuð við veðkröfur, sem hvíla á eign við uppboð og er jafnframt lýst við það, væri óeðlilegt að láta þar við sitja þar sem uppboðskaupandi getur á þann hátt hagnast á kostnað uppboðsþola eða ábyrgðarmanns. Fasteignin að Kirkjuvegi 11 stóð samkvæmt tryggingarbréfum á 4. og 5. veðrétti á uppboðsdegi til tryggingar öllum skuldum aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda, þar með yfirdrættinum á tékkareikningi nr. 1021. Að framan er því lýst að fallast verði á það með héraðsdómi að miða verði sannvirði eignarinnar á uppboðsdegi við mat yfirmatsmanna. Þar sem skuldin samkvæmt víxlinum fellur öll innan matsverðsins ber að fella hana í heild niður. Aðaláfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi frekari kröfur til niðurfærslu samkvæmt greindu lagaákvæði.
VI.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms varðandi skuld á 2. og 3. veðrétti staðfest. Jafnframt verður öll skuld aðaláfrýjanda samkvæmt framangreindum víxli gagnáfrýjanda, alls 9.966.196 krónur, felld niður. Gagnáfrýjanda ber hins vegar að greiða aðaláfrýjanda inneign á sparisjóðsbók nr. 803173 og óútskýrða úttekt af henni, samtals 851.253 krónur, sem renna í þrotabú hans. Vaxtakrafa aðaláfrýjanda af dæmdri fjárhæð er viðurkennd. Frekari kröfur aðaláfrýjanda eru ekki teknar til greina.
Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði, þar með talinn matskostnaður, og fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu aðaláfrýjanda, Sigurðar P. Haukssonar, um að viðurkennt verði með dómi að sannvirði fasteignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi hafi á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992 numið 37.050.000 krónum.
Gagnáfrýjandi, Íslandsbanki hf., greiði aðaláfrýjanda 851.253 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags með höfuðstólsfærslu dráttarvaxta í fyrsta sinn 31. janúar 1998.
Eftirstöðvar áhvílandi veðskulda, sem hvíldu á 2. og 3. veðrétti eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi, alls að fjárhæð 2.728.316 krónur, skulu færðar niður að fullu. Jafnframt skal færa niður að fullu víxilkröfu gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda að fjárhæð 9.966.196 krónur, sem tryggð var með tryggingarbréfum á 4. og 5. veðrétti sömu eignar.
Gagnáfrýjandi skal sýkn af frekari kröfum aðaláfrýjanda.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 1.500.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2002.
Mál þetta var höfðað 31. janúar 2001 og dómtekið 26. mars 2002.
Stefnandi er Sigurður P. Hauksson, kt. 290755-5229 Eyjabakka 3, Reykjavík.
Stefndi er Íslandsbanki hf., kt. 550500-3530, Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að stefndi verði dæmdur til endurgreiðslu á 23.074.054,20 krónum, með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987, frá 31. janúar 1997 til 1. júlí 2001, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að viðurkennt verði með dómi að sannvirði eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi hafi á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992, numið 39.000.000 króna. Jafnframt er þess krafist að eftirstöðvar áhvílandi veðskulda stefnanda við stefnda, sem hvíldu á 2. til 5. veðrétti eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi, alls að fjárhæð 18.344.868,93 krónur, verði færðar niður að fullu.
3. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Málsatvik og helstu ágreiningsefni
Stefnandi hóf rekstur einkafirma síns PC-tölvunnar á árinu 1988. Með kaupsamningi, dagsettum 5. september 1990, keypti hlutafélagið Tækniveröld hf., nokkrar fasteignir af Sambandi íslenskra samvinnufélaga á Akranesi fyrir samtals 11.650.000 krónur. Meðal eignanna voru fasteignin Kirkjubraut 11, sem verið hafði verslunarhús, en auk þess einbýlishús á eignarlóðinni Kirkjubraut 9 og parhús á eignarlóðinni Heiðargerði 14 og tvær óbyggðar eignarlóðir nr. 14 og 16 við Akurgerði.
Stefnandi rak eftir það fyrirtæki sitt í fasteigninni Kirkjubraut 11 og bjó auk þess í hluta eignarinnar. Fyrirtæki stefnanda stundaði innflutning og verslun með tölvur og tengdar vörur. Stefnandi var í bankaviðskipum við Alþýðubankann á Akranesi sem sameinaðist fleiri bönkum í Íslandsbanka hf. á árinu 1990. Eftir það átti stefnandi í viðskiptum við Íslandsbanka hf. og voru þau viðskipti við útibú bankans á Akranesi. Íslandsbanki hf. sameinaðist síðan Fjárfestingabanka atvinnuveganna hf. undir nafninu Íslandsbanki-FBA hf., sem tók upp nafnið Íslandsbanki hf. 12. mars 2002. Þessir bankar verða hér eftir nefndir bankinn eða stefndi.
Stefnandi átti ýmis viðskipti við ofangreindan banka. Hann var meðal annars eigandi tékkareiknings nr. 1021 og sparisjóðsbókar nr. 803173. Bankinn gaf út bankaábyrgðir vegna innflutnings stefnanda, keypti af honum skuldabréf sem hann gaf sjálfur út og viðskiptabréf sem stefnandi tók við í rekstri sínum. Stefndi fékk tvö tryggingarbréf með veði í fasteigninni að Kirkjubraut 11. Annað bréfið var til tryggingar skuldum PC-tölvunnar við bankann, að höfuðstól allt að 4.000.000 króna en hitt til tryggingar skuldum Tækniveraldar hf. við bankann, að höfuðstól allt að 10.000.000 króna.
Stefnandi kveður rekstur fyrirtækisins hafa gengið vel. Hann kveður tékkareikning nr. 1021 hafa verið aðalbankareikning í rekstrinum og hafi svo verið um samið milli hans og þáverandi útibússtjóra stefnda á Akranesi að yfirdráttarheimild á reikningum væri sveigjanleg miðað við þarfir hverju sinni. Stefndi kveður reksturinn hins vegar hafa farið að ganga illa á árinu 1991.
Á árinu 1992 hóf stefndi innheimtuaðgerðir á hendur stefnanda. Greip stefndi til þess ráðs að fylla út tryggingarvíxil sem Kristinn Jensson hafði gefið út og stefnandi samþykkt við upphaf viðskipta hans hjá Alþýðubankanum. Á víxilinn var færð fjárhæð sem svaraði til neikvæðrar stöðu á framangreindum tékkareikningi miðað við 13. mars 1992 eða 9.966.196 krónur. Stefnandi kveður andvirði víxilsins hafi verið fært inn á tékkareikninginn 12. maí 1992 en þó ekki nema 9.921.046,76 krónur sem hafi verið skuld á tékkareikningnum þann dag.
Stefnandi reiknaði sér svokallaðan FIT-kostnað af fjölmörgum tékkum sem stefnandi gaf út auk, innheimtukostnaðar og vanskilavaxta.
Stefndi krafðist nauðungarsölu á fasteign Tækniveraldar hf. að Kirkjubraut 11 vegna gjaldfallinnar veðskuldar á 2. veðrétti og var eigin boðin upp á 3. og síðasta nauðungaruppboði 20. febrúar 1992. Stefndi var hæstbjóðandi og krafðist útlagningar. Boð hans að fjárhæð 13.500.000 krónur var samþykkt.
Í endurriti úr uppboðsbók Akraness frá 8. apríl 1992 kemur fram að uppboðskaupandi hafi innt uppboðsandvirðið af hendi með greiðslu á lögveðskröfum að fjárhæð 479.511 krónur, skuld við Landsbanka Íslands á 1. veðrétti að fjárhæð 12.642.810,80 krónur og 377.678,20 krónum upp í 2.408.801,30 krónu skuld við Íslandsbanka hf. á 2. veðrétti. Íslandsbanki tæki undir sjálfan sig sem ófullnægður veðhafi eftirstöðvar þessa bréfs. Ekkert hefði greiðst upp í kröfur Íslandsbanka hf. á 3.-5. veðrétti, upphaflega að fjárhæð samtals 15.500.000 krónur. Var bankanum lögð út fasteignin til eignar sem ófullnægðum veðhafa frá og með 20. febrúar 1992 að telja. Umræddir veðréttir Íslandsbanka hf. sem ekki fékkst greitt upp í voru veðskuldabréf á 3. veðrétti frá 18. október 1990, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur og fyrrnefnd tryggingarbréf að fjárhæð 4.000.000 króna og 10.000.000 króna. Í gögnum málsins verður ekki séð að uppboðs hafi verið krafist vegna krafna sem féllu undir þessa veðrétti.
Stefndi seldi fasteignina Kirkjubraut 11 í október 1992 fyrir 20.000.000 króna og var afsal fyrir eigninni gefið út 18. janúar 1994. Kaupandi fasteignarinnar gerði ýmsar breytingar á eigninni og rekur nú hótel þar.
Að kröfu stefnda var lögð fram löghaldsbeiðni hjá sýslumanninum á Akranesi 24. apríl 1992 vegna fjögurra krafna bankans, samtals að fjárhæð 11.653.516,99. Aðeins ein þessara krafna hafði verið gjaldfelld en það voru eftirstöðvar veðskuldabréfs á 3. veðrétti Kirkjubrautar 11, sem ekkert hafði greiðst upp í á nauðungaruppboðinu, samkvæmt úthlutunargerð 8. apríl 1992. Aðrar kröfur voru vanskil af tveimur skuldabréfum samtals að fjárhæð 204.629,55 krónur og skuld samkvæmt fyrrnefndum víxli á gjalddaga 13. mars 1992, að fjárhæð 9.966.196 krónur vegna yfirdráttar á tékkareikningi stefnanda en krafan stóð þá í 10.568.377,40 krónum. Framkvæmd var árangurslaus löghaldsgerð hjá stefnda sama dag.
Á grundvelli hinnar árangurslausu löghaldsgerðar krafðist stefndi gjaldþrotaskipta á búi stefnanda og það tekið til gjaldþrotaskipta í maí sama ár. Kröfu um gjaldþrotaskipti ekki mótmælt af hálfu stefnanda. Haukur Bjarnason hdl. var skipaður bústjóri. Af hálfu stefnda var lýst í þrotabúið kröfum samtals að fjárhæð 24.161.977 krónur og samþykkti bústjórinn kröfur að fjárhæð 13.476.309 en kröfu að fjárhæð 10.685.668 vegna yfirdráttarskuldar stefnda var hafnað að svo stöddu.
Skiptum lauk í þrotabúi stefnanda 30. september 1996. Samkvæmt úthlutunargerð greiddust 287.696 krónur upp í veðkröfu á bifreið, 1.913.905 krónur upp í veðkröfu á íbúð stefnanda. Ekkert fékkst upp í forgangskröfur að fjárhæð 279.320 krónur eða almennar kröfur að fjárhæð 30.060.454 krónur.
Rannsóknarlögreglu ríkisins var sent bókhald stefnanda og fyrirtækja hans til rannsóknar og ríkislögreglustjóra barst kæra á hendur honum 2. september 1997. Með bréfi ríkislögreglustjóra 22. júní 1998 var stefnanda tilkynnt að niðurstöður rannsókar í tilefni af framangreindri kæru gæfu ekki tilefni til saksóknar. Fékk stefnandi afhent bókhaldsgögn á árinu 1999.
Stefnandi sendi bankastjóra stefnda bréf 3. júlí 1997 þar sem hann kvartaði undan því að yfirdráttarheimild á tékkareikningi að fjárhæð 800.000 krónur í viðskiptum við Alþýðubankann hf. hefði ekki verið færð yfir til Íslandsbanka hf. og allir útgefnir tékkar í ársbyrjun 1990 því farið á FIT. Einnig að Íslandsbanki hf. hefði útfyllt víxileyðublað sem hann hafi afhent Alþýðubankanum hf. í upphafi viðskipta sinna við bankann og notað víxilinn til að hefja innheimtuaðgerðir og gera hann gjaldþrota. Þá taldi hann að fjárhæð yfirdráttarskuldarinnar sem færð hefði verið á víxilinn hefði verið röng. Bústjóri hefði síðan hafnað víxilkröfunni og Hæstiréttur fellt úr gildi héraðsdóm þar sem víxilkrafan hafði verið tekin til greina. Stefnandi krafði stefnda skaðabóta samtals að fjárhæð 113.000.000 króna vegna röskunar á lífi hans og fjölskyldu hans og skerðingar á tekjum, svo og vegna vegna mismunar á eðlilegu verði Kirkjubrautar 11 á Akranesi og áhvílandi veðskulda 1992.
Stefndi hafnaði bótakröfunum 8. september 1997. Stefnandi ítrekaði kröfur sínar í bréfi til stefnda 17. desember 2001 og gerði athugasemdir við skuldfærslur á fyrrgreindan tékkareikning og útfyllingu og innheimtu fyrrnefnds víxils. Erindi stefnanda var aftur hafnað með bréfi 23. janúar 1998.
Stefnandi sendi bankaeftirliti Seðlabanka Íslands í maí 1998 beiðni um að stefndi afhenti gögn vegna viðskipta hans við stefnda og einnig kvartaði hann undan viðskiptum sínum við stefnda, þar á meðal töku bankans á FIT-kostnaði og vöxtum, ólögmætri útfyllingu fyrrnefnds víxils og innheimtuaðferðum. Eftir það fóru fram ýmis bréfaskipti milli stefnanda, lögmanns hans, stefnda bankaeftirlitsins og síðar Fjármálaeftirlitsins sem kom í þess stað.
Stefnandi hafði á árinu 1998 og 1999 uppi ýmis fleiri kvörtunarefni gagnvart stefnda, t.d. að andvirði viðskiptabréfa sem stefndi hefði keypt af honum hefði ekki skilað sér inn á reikning hans, stefndi hefði framkvæmt ýmsar skuldfærslur á tékkareikning hans nr. 1201 heimildarlaust, ráðstafað innistæðu á sparisjóðsbók án hans samþykkis eftir gjaldþrotið án þess að gera nokkra grein fyrir því og misfarið með veðskuldabréf á 2. veðrétti í bifreið hans og ekki gert grein fyrir hvert andvirði þess rann. Athugasemdir voru gerðar við innheimtukostnað, vexti og fleira.
Í bréfum stefnda kom meðal annars fram að öllum gögnum vegna viðskipta stefnanda við stefnda á árinu 1990 hefði verið eytt, í samræmi við reglur bankans og heimild í lögum um bókhald nr. 145/1994 til að eyða gögnum sem orðin væru meira en 7 ára gömul. Þá hafi ekki tekist að hafa uppi á hluta af gögnum vegna viðskipta stefnanda á árinu 1991.
Í bréfi Fjármálaeftirlitsins frá 2. febrúar 1999 kom fram að það teldi sér ekki fært að taka afstöðu til þess hvort stefndi hefði haft heimild til skuldfærslu á tékkareikning stefnanda. Eðlilegra hefði verið af hálfu stefnda að skrifleg heimild til skuldfærslu lægi fyrir en ekkert benti hins vegar til þess að stefnandi hefði gert athugasemdir þrátt fyrir að skuldfærslurnar virtust hafa átt sér stað um all langt skeið. Vegna skorts á gögnum frá stefnda væri ekki unnt að taka afstöðu til þeirra fullyrðinga sem settar væru fram í bréfi stefnanda en að þau gögn sem fyrir lægju bentu ekki til annars en að um lögmætar skuldfærslur hafi verið að ræða til greiðslu á skuldum stefnanda við stefnda. Að mati Fjármálaeftirlitsins hafi stefnda verið heimilt að nota fyrrnefndan víxil með þeim hætti sem gert var en að það kynni að hafa verið eðlilegt að loka tékkareikningnum fyrr en gert hafi verið. Af gögnum málsins yrði ekki séð að um væri að ræða sérstök atriði sem gæfu til kynna að afgreiðslu stefnda á viðskiptum við stefnanda persónulega eða einkafyrirtækja hans hafi að öðru leyti verið ábótavant. Fjármálaeftirlitið taldi ekki ástæðu til frekari afskipta af málinu. Svipuð afstaða kom fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins frá 18. maí 1999.
Stefnandi sendi Hæstarétti bréf 30. desember 1999 og tilkynnti réttinum með vísan til 15. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, að hann teldi sig eiga kröfu á hendur stefnda að fjárhæð allt að 200.000.000 króna sem hann gæti ekki sótt að svo stöddu fyrir dómstólum vegna skorts á gögnum.
Stefnandi ritaði dómsmálaráðherra, sýslumanninum á Akranesi og fleirum erindi vegna málsins á árunum 1999 og 2000.
Með bréfi Hauks Bjarnasonar hdl., bústjóra í þrotabúi stefnanda, 23. janúar 2001 var stefnanda veitt umboð til að reka fyrir eigin reikning mál fyrir hönd búsins á hendur stefnda. Í ódagsettu bréfi bústjórans sem lagt var fram í málinu 8. október 2001 var áréttað að bústjórinn hefði endurupptekið skipti á þrotabúinu vegna málshöfðunar þrotamanns sjálfs á hendur stefnda.
Samkvæmt beiðni lögmanns stefnanda var Jón Guðmundsson fasteignasali dómkvaddur 11. júní 2001 til að meta hvert hafi verið raunverulegt verðmæti, þ.e. sannvirði eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi 20 febrúar 1992. Í matsgerð dagsettir 18. september 2001 komst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að staðgreiðsluverð fasteignarinnar hefði þá verið 30.500.000 krónur.
Af hálfu stefnanda var óskað eftir yfirmati og voru þeir Stefán Hrafn Stefánsson hdl. og löggiltur fasteignasali og Finnbogi Kristjánsson löggiltur fasteignasali dómkvaddir 25. október 2001 til að framkvæma yfirmatið. Í matsgerð, dagsettri 13. desember 2001, komust yfirmatsmennirnir að þeirri niðurstöðu að markaðsverð eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi hafi verið 39.000.000 krónur 20. febrúar 1992 miðað við almenn greiðslukjör og að reikna mætti með að staðgreiðsluafsláttur hafi verið 3-5% á þeim tíma.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru miðaðar við niðurstöðu yfirmatsins.
Málsástæður og lagarök aðila
Fyrri liður dómkrafna stefnanda er endurgreiðslukrafa. Hann byggir kröfuna á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti fært fjármuni af reikningum hans og ráðstafað þeim alfarið án hans heimildar og án hagsbóta fyrir hann.
Stefnandi sundurliðar þessa kröfu þannig:
l. Inneign á bankabók nr. 803173 þann 13.09.1991.............................................................. 292.086,60 kr.
2. Óútskýrð úttekt af bankabók nr. 803173 þann 13.09.1991.............................................. 559.167,40 kr.
3. Óútskýrðar úttektir af tékkareikningi nr. 1021 árið 1990............................................ 13.220.704,00 kr.
4. Óútskýrðar úttektir af tékkareikningi nr. 1021 árið 1991.............................................. 3.693.566,00 kr.
5. Óútskýrðar úttektir af tékkareikningi nr. 1021 árið 1992................................................ 25 8.414,00 kr.
6. Ógreitt andvirði skv. kaupnótu víxla dags. 21.01.1991 .................................................. 479.967,50 kr.
7. Ógreitt andvirði skv. kaupnótu skbr. dags. 12.02.1991.................................................. 179.328,50 kr.
8. Ógreitt andvirði skv. kaupnótu skbr. dags. 08.03.1991.................................................. 287.019,20 kr.
9. Ógreitt andvirði skv. kaupnótu skbr. dags. 23.07.1991.................................................. 584.538,00 kr.
10. Oftekinn FIT kostnaður af reikningi nr. 1021 ............................................................. 1.108.361,00 kr.
11. Ofteknir vextir af tékkareikningi nr. 1021..................................................................... 2.410.902,00 kr.
Samtals.......................................................................................................................... 23.074.054 20 kr.
Stefnandi telur að á framlögðu reikningsyfirliti tékkareiknings nr. 1021 komi fram allar úttektir stefnda af reikningnum. Óútskýrðar úttektir stefnda samkvæmt þessum reikningsyfirlitum nemi samtals 13.220.704 krónum á árinu 1990, 3.693.566 krónum á árinu 1991 og 258.414 krónum á árinu 1992. Þá hafi hvergi komið fram hvernig innistæðu á sparisjóðsbók hans nr. 803173 hafi verið ráðstafað. Stefndi hafi tekið út af sparisjóðsbókinni 559.167,40 krónur 13. september 1991 og ekki hafi verið útskýrt hvernig þeim fjármunum hafi verið varið. Ekki hafi heldur verið upplýst um hvað orðið hafi af 292.085,63 króna eftirstöðvum inneignar á bókinni.
Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi keypt af honum þrjá víxla 21. janúar 1991 fyrir 506.128,10 krónur og hafi 479.967,50 krónur af andvirði þeirra verið lagðar inn á reikning stefnda sjálfs nr. 1001 og hafi ekki komið fram síðar. Stefndi hafi einnig lagt andvirði tveggja skuldabréfa sem hann hafi keypt af stefnanda 12. febrúar 1991 inn á sama reikning. Sama gegni um 287.019,20 króna kaupverð skuldabréfa 8. mars 1991 og 584.538 króna kaupverð skuldabréfa 23. júlí 1991. Í gögnum málsins sé þannig að finna sterkar vísbendingar um að andvirði viðskiptabréfa samtals að fjárhæð 1.530.853 krónur, sem stefndi hafi keypt af stefnanda hafi hvorki verið ráðstafað inn á reikning stefnanda né notaðar til innborgana inn á skuldir hans.
Stefnandi byggir á því að framangreindar ráðstafanir stefnda séu þess eðlis að honum beri að endurgreiða umræddra fjármuni auk dráttarvaxta. Starfsaðferðir stefnda og meðferð fjármuna af hans hálfu sé í besta falli vítaverð. Stefndi sé fagaðili og beri ríka ábyrgð á meðferð fjármuna viðskiptamanna sinna. Engu breyti þó stefnandi hafi skuldað stefnda talsverðar fjárhæðir, enda hafi stefndi enga beina heimild til skuldajafnaðar án sérstaks samþykkis stefnanda. Ekkert slíkt samþykki hafi verið veitt af hálfu stefnanda og stefndi hafi enn ekki framvísað neinni sönnun þess að skuldfærsluheimild hafi legið fyrir. Þvert á móti hafi stefnandi gert ítrekað athugasemdir við úttektir stefnda er þeirra hafi orðið vart. Svör stefnda við þeim athugasemdum hafi verið að herða enn tak sitt á stefnanda og ganga loks fram með miklu offorsi í innheimtuaðgerðum svo stefnandi gæti ekki með neinum hætti borið hönd fyrir höfuð sér eða varist kröfum stefnda.
Með vísan til gagna málsins megi teljast sannað að stefndi hafi fært þá fjármuni út af reikningum stefnanda sem haldið sé fram. Í raun hafi það verið viðurkennt af í bréfi stefnda til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands frá 21. ágúst 1998. Þessu til viðbótar bendir stefnandi á að nær allar úttektir stefnda af tékkareikningi stefnanda nr. 1021 hafi verið framkvæmdar meðan reikningurinn hafi að sögn stefnda sjálfs verið í óheimilum yfirdrætti með tilheyrandi FIT-kostnaði og vöxtum fyrir stefnanda. Meðan ástand reiknings stefnanda hafi verið slíkt í reiknikerfum stefnda, hafi stefnanda sjálfum verið ómögulegt að taka út fjármuni af reikningnum og stefndi sá eini sem hafi haft vald til þess.
Enda þótt stefnandi byggi á því að meintur óheimill yfirdráttur á tékkareikningi hans sé sönnun þess að stefndi hafi í raun tekið þar út umrædda fjármuni, þá mótmælir hann því algerlega að reikningurinn hafi í raun verið í óheimilum yfirdrætti þannig að stefnda væri rétt að reikna sér FIT kostnað og vexti.
Stefnandi byggir einnig á því að stefndi beri sönnunarbyrði um ráðstafanir sínar á fjármunum stefnanda. Á stefnda hvílir fagleg skylda, samanber t.d. þágildandi ákvæði laga um viðskiptabanka nr. 86/1985 og núgildandi lög nr. 113/1996. Þá hvíli á stefnda skylda samkvæmt ákvæðum laga um bókhald nr. 145/1994 en stefndi hafi meðal annars gerst brotlegur við ákvæði 20. gr. laganna með því að farga eða týna nær öllum skjölum sem máli skipti. Því er alfarið mótmælt að stefnda hafi verið rétt að farga bókhaldsgögnum sínum með þeim hætti sem haldið er fram af hálfu stefnda. Í téðu ákvæði komi fram að heimilt sé að farga gögnum þegar meira en 7 ár eru liðin frá lokum þess reikningsárs sem þau varða. Þannig hafi stefndi fyrst mátt farga gögnum ársins 1990 að liðnum 7 árum frá lokum þess reikningsárs, eða 1. janúar 1998. Stefnandi hafi byrjað málarekstur sinn á árinu 1997, eða meðan öll bókhaldsgögn ársins 1990 hafi enn átt að vera fyrir hendi hjá stefnda. Sé þá ógetið bókhaldsgagna vegna áranna 1991 og 1992, sem ekki hafi heldur fundist hjá stefnda nema í mjög takmörkuðum mæli. Förgun gagnanna af hálfu stefnda sé því alfarið á hans ábyrgð og beri stefndi hallann af því og sönnunarbyrði að sama skapi.
Stefnandi byggir á því að krafa hans á hendur stefnda í málinu fyrnist á 20 árum samkvæmt 2. gr. laga um fyrningu nr. 14/1905. Verði talið að skemmri fyrningarfestur eigi við byggir stefnandi á því til vara að um kröfur hans eigi að gilda 10 ára fyrning, enda yrði þá að líta á kröfu hans sem skaðabótakröfu. Slík krafa er heldur ekki fyrnd.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi ekki sýnt neitt tómlæti, sem áhrif geti haft á kröfu hans, þegar af þeirri ástæðu að stefndi geti ekki talist í góðri trú með þau viðskipti sem mál þetta fjallar um. Stefndi, sem sérstakur fagaðili, hafi vitað eða mátt vita að ráðstöfun fjármuna stefnanda upp á tugi milljóna króna, án samþykkis hans eða lækkunar skulda hans, væri í hæsta máta óeðlileg. Stefnandi hafi einnig gert ítrekaðar athugasemdir við stefnda um meðferð fjármunanna og tafarlaust hafist handa við að halda fram rétti sínum eftir að skiptum hafi verið lokið í búi hans og hann fengið bókhaldsgögn sín afhent.
Síðari liður dómkrafna stefnanda lýtur að því að fá viðurkennt með dómi að sannvirði fasteignarinnar nr. 11 við Kirkjubraut 11 hafi verið 39.000.000 krónur 20. febrúar 1992, þegar eignin var lögð stefnda út sem ófullnægðum veðhafa á nauðungaruppboði. Jafnframt er þess krafist að eftirstöðvar áhvílandi veðskulda stefnanda við stefnda sem hvíldu á 2.-5. veðrétti eignarinnar, samtals að fjárhæð 18.344.868,93 verði færðar niður að fullu. Stefnandi vísar um þessa kröfu til 3. og 4. mgr. 32. gr. þágildandi laga um nauðungaruppboð nr. 57/1949.
Fjárhæð þessa kröfuliðs er byggð á þeirri niðurstöðu yfirmatsgerðar dómkvaddra matsmanna að sannvirði eignarinnar Kirkjubraut 11 á Akranesi hafi á uppboðsdegi hennar, 20. febrúar 1992, numið 39.000.000 króna. Kaupverð eignarinnar á uppboðinu hafi numið 13.500.000 krónur og eignin verið lögð út til stefnda sem ófullnægðs veðhafa. Samkvæmt því sé munur á uppboðsandvirði og sannvirði eignarinnar 25.500.000 krónur. Á eigninni hafi hvílt eftirfarandi veðtryggingarbréf í eigu stefnda:
2. veðr. Veðskuldabréf, útgefið 14.09.1990, upphaflega að fjárhæð 1.650.000 krónur.
3. veðr. Veðskuldabréf, útgefið 18.10.1990, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur.
4. veðr. Tryggingabréf, útgefið 29.10.1990, höfuðstólsverðmæti 4.000.000 krónur.
5. veðr. Tryggingabréf, útgefið 07.05.1991, höfuðstólsverðmæti 10.000.000 krónur
Stefndi hafi lýst kröfu í uppboðsandvirði á grundvelli veðskuldabréfs á 2. veðrétti og fjárhæð kröfunnar numið. 2.408.801,30 krónur. Við uppboðið hafi fengist greiddar 377.678,20 krónur upp í þessa kröfu og eftirstöðvar hennar því numið 2.031.123,10 krónum að loknu uppboði. Þar sem ekki hafi verið lýst kröfum af hálfu stefnda í uppboðsandvirði vegna krafna á 3., 4. og 5. veðrétti hafi stefnandi kosið, stefnda til hagsbóta, að miða fjárhæðir þessara skulda við stöðu þeirra eins og þeim hafi verið lýst í þrotabú stefnanda.
Krafa stefnda á 3. veðrétti hafi upphaflega verið að fjárhæð 1.500.000 krónur. Krafan hafi verið í vanskilum frá 20. ágúst 1991 og eftirstöðvar höfuðstóls þá 375.000 krónur. Heildarfjárhæð kröfunnar með vöxtum og kostnaði, að frátöldum kröfulýsingarkostnaði hafi numið 697.192,70 krónum.
Stefndi hafi átt tryggingabréf á 4. og 5. veðrétti eignarinnar. Tryggingabréf þessi hafi verið til tryggingar öllum og ótilteknum skuldum í viðskiptasambandi málsaðila. Höfuðstólsverðmæti tryggingabréfanna hafi numið 14.000.000 krónum en samkvæmt efni þeirra sjálfra hafi verið heimilt að bæta við þá fjárhæð verðbótum, vöxtum, dráttarvöxtum og öðrum kostnaði. Þar sem stefndi hafi ekki lýst sérstökum kröfum á grundvelli tryggingabréfanna við nauðungaruppboð eignarinnar sé stefnanda nauðsynlegt að miða við tilteknar kröfur stefnda eins og þeim hafi verið lýst í þrotabú stefnanda, enda stefnanda heimilt að taka sjálfur ákvörðun um það hvaða skuldir hans við stefnda sæti niðurfærslu.
Stefndi hafi við gjaldþrotaskipti stefnanda lýst kröfu að höfuðstól 9.966.196 krónur og annarri að höfuðstól 9.299.455,73 krónur en samanlagður höfuðstóll þessara krafna sé 19.265.651,73 krónur. Hlutfall milli höfuðstóls tryggingabréfanna annars vegar og höfuðstóls hinna tilteknu skulda hins vegar sé 72,67%. Þar sem fyrrgreind tryggingabréf geri ráð fyrir því að bæta megi við höfuðstól vöxtum og kostnaði sé stefnanda nauðsynlegt að reikna saman fyrrnefnt hlutfall höfuðstóls og fjárhæð krafnanna með vöxtum og kostnaði, að frátöldum kröfulýsingarkostnaði, eins og þeim hafi verið lýst við gjaldþrot stefnanda. Fyrri krafan með kostnaði hafi verið 10.682.147,90 krónur og 72,67% af þeirri fjárhæð sé 7.762.716,88 krónur. Síðari krafan með kostnaði hafi verið 10.807.535,78 krónur og 72,67% af þeirri fjárhæð séu 7.853.836,25 krónur. Samkvæmt því telur stefnandi að stefndi hafi átt veðtryggðar kröfur á grundvelli 4. og 5. veðréttar alls að fjárhæð 15.616.553,13 krónur.
Stefnandi telur sig því eiga rétt á niðurfærslu skulda sem nemi ofangreindum eftirstöðvum skulda sem falli undir 2.-5 veðrétt, samtals 18.344.868,93 krónur.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að framsetning kröfugerðar stefnanda gefi tilefni til þess að málinu verði vísað frá dómi. Stefndi telur að kröfugerð stefnanda sé ekki rétt hugsuð. Ef fallist yrði á allar kröfur stefnanda fæli það í sér viðurkenningu á því að staða á tékkareikningi hefði átt að vera betri sem næmi kröfu hans. Í því tilviki yrði þó að gera ráð fyrir að 9.966.196 króna skuld hafi verið á tékkareikningi stefnanda nr. 1021. Stefndi telur að stefnandi hefði átt að miða kröfugerð sína við þessa skuld á tékkareikningnum en það hefði leitt til þess að staða reikningsins hefði stundum verið jákvæð og stundum neikvæð. Miða hefði átt útreikning vaxta og kostnaðar við stöðu reikningsins á hverjum tíma og því séu liðir 10 og 11 í rökstuðningi fyrir endurgreiðslukröfunni augljóslega vanreifaðir. Stefndi telur að vísa beri þessum kröfuliðum frá dómi án kröfu eða að færa kröfur stefnanda niður sem nemi þessum tveimur kröfuliðum hvað sem líði öðrum málsástæðum.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningu á sannvirði fasteignarinnar að Kirkjubraut 11 heldur nægi að tefla því fram sem málsástæðu hvert hafi verið sannvirði eignarinnar.
Stefndi byggir á því að hann hafi lýst kröfum í þrotabú stefnda samtals að fjárhæð 24.161.977 krónur og hafi bústjóri samþykkt fyrirvaralaust kröfur samtals að fjárhæð 13.476.309 krónur en kröfu að fjárhæð 10.685.668 krónur vegna fyrrnefndrar yfirdráttarskuldar á tékkareikningi hafi verið hafnað að svo stöddu þar sem bústjóri hafi viljað fá nánari upplýsingar um hana.
Stefndi byggir á því að kröfum hans hafi aldrei verið mótmælt af hálfu stefnda. Engin mótmæli hafi komið fram þegar kröfurnar voru til innheimtu eða þegar gjaldþrotaskiptakrafa var tekin fyrir. Þá hafi ekki komið fram mótmæli við skiptameðferð á þrotabúinu. Þessar kröfur séu enn í fullu gildi og hafi verið lögð fram gögn í málinu um stöðu þeirra. Stefndi hafi átt fjórar kröfur á hendur stefnda að höfuðstól samtals 18.621.129 við upphaf gjaldþrotaskipta á bú stefnda. Þá hafi verið tekið tillit til 3.000.000 króna hagnaðar stefnda af sölu fasteignarinnar Kirkjubrautar 11 sem færður hafi verið til lækkunar á yfirdráttarskuld á tékkareikningi stefnanda nr. 1021. Við skuldir stefnda bætist dráttarvextir frá 15. maí 1992 og standi skuldirnar nú í 86.558.281 krónu. Stefndi telur sig eiga rétt á að skuldajafna þessum kröfum á móti mögulegum kröfum stefnanda og þar sem kröfur hans séu mun hærri en kröfur stefnanda beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.
Af hálfu stefnda er því alfarið mótmælt sem röngu og ósönnuðu að starfsmenn hans hafi án heimildar skuldfært reikning stefnanda og ráðstafað greiðslum til annars en til greiðslu á skuldum stefnanda. Allar þær úttektir sem átt hafi sér stað á reikningi nr. 1021 hafi átt rætur sínar að rekja til úttekta stefnanda sjálfs, ýmist vegna reksturs fyrirtækja eða einkaneyslu hans. Um beinar úttektir hafi verið að ræða auk úttekta vegna greiðslu reikninga og millifærslubeiðna, sem færðar hafi verið sem úttektir í reikningsyfirlitum á þessum tíma.
Engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnanda um skuldfærslur á tékkareikningi nr. 1021 fyrr en með bréfi dags. 3. júlí 1997. Þar hafi fyrst og fremst verið fjallað um útfyllingu tryggingarvíxils og gjaldþrotakröfu stefnda og sett fram skaðabótakrafa af því tilefni. Í bréfi þessu hafi því ekki verið haldið fram að úttektir af tékkareikningi nr. 1021 hafi á einhvern hátt verið athugaverðar. Í bréfi stefnanda frá 17. desember 1997 séu heldur ekki gerðar athugsemdir við einstaka úttektir af bankareikningi nr. 1021, þrátt fyrir að skýrt komi fram að hann hafi farið rækilega í gegnum öll reikningsyfirlitin. Athugasemdir stefnanda í þessu bréfi lúti að því að yfirdráttarheimild hafi ekki verið rétt skráð hjá bankanum, útfyllingu víxils hafi verið ábótavant og fleira því tengt. Því sé hvergi haldið fram að einstakar úttektir hafi ekki átt sér eðlilegar skýringar.
Í bréfi sem barst stefnda í maí 1998 hafi stefnandi farið þess á leit að stefndi gerði almennt grein fyrir skuldfærslum á fyrrgreindum reikningi en hvergi hafi verið vísað til nánar tilgreindra skuldfærslna. Þegar þessi beiðni hafi verið tekin til skoðunar af hálfu stefnda kom í ljós að öllum bókhaldsgögnum vegna ársins 1990 hafði verið fargað í samræmi við reglur 20. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Ekki hafi tekist að hafa uppá öllum gögnum sem óskað hafi verið eftir vegna ársins 1991 og 1992. Eins og sjá má af bréfaskiptum stefnanda til stefnda sé hvergi gerð athugasemd um að óeðlilega hafi verið staðið að uppgjöri vegna kaupa stefnda á nánar tilgreindum viðskiptabréfum. Athugasemdir um það hafi fyrst komið fram í framlögðu bréfi stefnanda til dómsmálaráðherra í lok árs 1999.
Af hálfu stefnda er því einnig haldið fram að andvirði viðskiptabréfa sem bankinn hafi keypt af stefnanda hafi á sama hátt verið notað til niðurgreiðslu á skuldum hans við bankann. Þótt andvirði bréfanna hafi í fyrstu farið inná reikning stefnda nr. 1001, hafi greiðslum verið ráðstafað þaðan til niðurgreiðslu á kröfum stefnda á hendur stefnanda. Kaup þessara bréfa hafi í öllum tilvikum farið fram í beinum tengslum við uppgjör krafna sem stefndi hafi átt á hendur stefnanda. Í þeim tilvikum sem uppgjör hafi ekki farið fram strax á öðrum kröfum, hafi andvirði bréfanna verið lagt inná tékkareikning stefnanda. Stefndi telur það liggja í augum uppi að stefnandi hafi sjálfur, á þeim tíma sem þetta uppgjör hafi farið fram, gætt þess að andvirði bréfanna gengi til niðurgreiðslu skulda hans, þótt hann hafi ekki fundið gögn um þessi uppgjör í sínum fórum mörgum árum síðar.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi setji kröfu sína fram sem endurgreiðslukröfu en ekki skaðabótakröfur í þeim tilgangi, að reyna að komast framhjá fyrningarákvæðum laga nr. 14/1905. Ljóst er að krafa af þessum toga, ef hún á annað borð ætti við einhver rök að styðjast, er eign sem skiptastjóri í þrotabúi stefnanda hefði átt að kalla eftir í samræmi við reglur 2. mgr. 122. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 og sambærilegar reglur eldri laga. Bústjóri hljóti að hafa gert sérstaka úttekt á eignum þrotabúsins, eins og honum hafi verið skylt lögum samkvæmt og hafi væntanlega komst að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti enga endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Í þessu samhengi er vakin athygli á þeirri staðreynd að sérstök úttekt hafi verið gerð á bókhaldi stefnanda af hálfu þrotabúsins, sem hefði átt að leiða í ljós skekkjur í tengslum við uppgjör viðskipta hans við stefnda, ef einhverjar væru. Bústjóri hafi samþykkt allar kröfur stefnda í þrotabúið, nema eina sem hafi verið hafnað "að svo stöddu", en í þeirri samþykkt hafi falist viðurkenning á því að stefnandi ætti enga kröfu á hendur stefnda, hvorki skaðabótakröfu né endurgreiðslukröfu.
Samkvæmt þessu er á því byggt af hálfu stefnda að bústjóri þrotabús stefnanda hafi, við framkvæmd skiptameðferðar, með bindandi hætti viðurkennt að meint endurgreiðslukrafa stefnanda ætti sér enga tilvist. Stefnandi sé bundinn við þessa ráðstöfun sakarefnisins af hálfu bústjóra, enda hafi hann haft til þess lögbundna heimild. Af þessum sökum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi átt að setja fram athugasemd um meintar skekkjur í skuldfærslum á margumræddan tékkareikning og/eða vegna sölu viðskiptabréfa til stefnda, án tafar eða í öllu falli innan eðlilegra tímamarka. Á reikningsyfirlitum stefnda hafi þeim tilmælum sérstaklega verið beint til hans að athugasemdir bæri að setja fram innan 20 daga. Afstemmingar á bankareikningum sé óhjákvæmileg aðgerð í öllum rekstri og hefðu slíkar afstemmingar átt að leiða í ljós skekkjur ef einhverjar voru. Slíkar skekkjur hefðu átt að koma í ljós í síðasta lagi við frágang bókhalds stefnanda í lok hvers reikningsárs, sem verði að teljast þau tímamörk sem gera megi kröfu til að stefnanda hefði í síðasta lagi átt að láta heyra frá sér. Stefnda hafi verið rétt að treysta því að stefnandi fylgdist gaumgæfilega með skuldærslum á eigin reikningum og kæmi fram með athugasemdir innan eðlilegra tímamarka.
Þegar bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 1992 hafi honum enn gefist færi á að koma fram með athugasemdir við kröfur stefnda, ef einhverjar væru. Stefnandi hafi á hinn bóginn ekki andmælt þeim kröfum sem lágu gjaldþrotaskiptakröfu til grundvallar, eins og hann hafi getað gert samkvæmt 168. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 70. gr., og sambærileg ákvæði eldri laga. Hefði stefnandi gert þetta hefði óumdeilanlega ekki verið búið að farga neinum gögnum sem máli skiptu og engar líkur séu á því einhver gögn hefðu þá glatast. Með þessu atferli sínu hafi stefnandi samþykkt grundvöll þeirrar kröfu sem gjaldþrotabeiðnin byggði á. Skipti á búi stefnanda hafi staðið yfir á árunum 1992-1996. Á því tímabili hafi ekki komið fram neinar athugasemdir við kröfur stefnanda. Tómlæti stefnanda og eigin sök hafi þannig beinlínis leitt til þess að upp hafi komið vafi um sönnun. Stefndi hafi þannig verið búinn að farga öllum gögnum frá árinu 1990 þegar stefnandi hafi fyrst komið fram með athugasemdir um margumræddar skuldfærslur. Ríflega helmingur kröfugerðar stefnanda eigi rætur sínar að rekja til ársins 1990. Stefndi hafi haft lögbundna heimild samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994 til þess að farga þessum gögnum. Hluti þeirra gagna sem stefnandi hafi óskað eftir frá árinu 1991 og 1992 hafi ekki fundist, enda liðin 6-7 ár frá því umræddar færslur áttu sér stað þegar athugasemdin barst. Stefnandi hefði hæglega getað komið í veg fyrir þetta með því að setja kröfur sínar fram innan eðlilegra tímamarka. Af þeim sökum verði stefnandi að bera hallann af sönnunaróvissu sem af þessu aðgerðarleysi kann að leiða. Með vísan til reglna kröfuréttar um réttaráhrif tómlætis beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Af hálfu stefnda er þess krafist með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 90/1991 að öllum kröfum sem stefndi lýsti í þrotabú stefnanda verði skuldajafnað við kröfur stefnanda máls þessa. Í þessu sambandi er einnig vísað til reglna 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 91/1991. Ítrekað er að skiptastjóri í þrotabúi stefnanda hefur viðurkennt þessar kröfur og þurfi því ekki að taka þessar kröfur til efnislegrar endurskoðunar í málinu. Því er algerlega vísað á bug sem fram kemur í málatilbúnaði stefnanda að gagnkröfur stefnda eigi ekki við í þessu máli heldur komi til kasta þrotabúsins við endurupptöku, ef og þegar til þess komi.
Af hálfu stefnda er á því byggt að krafa stefnanda sé í eðli sínu skaðabótakrafa, þótt stefnandi kjósi að kalla hana "endurgreiðslukröfu". Krafan fyrnist því ekki á 20 árum eins og stefnandi haldi fram, heldur 10 árum, samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905. Kröfur stefnanda hafi því að stærstum hluta verið fyrndar er mál þetta hafi verið höfðað. Er því krafist sýknu af þeim hluta kröfugerðar stefnanda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að viðurkenningarkrafa stefnanda sé allt of seint fram komin. Stefnandi hefði þurft að setja þessa kröfu fram strax þegar stefndi lýsti kröfum í þrotabú hans. Bankinn hafi ávallt vísað því á bug að 20.000.000 króna söluverð eignarinnar í frjálsri sölu á árinu 1992 hafi verið of lágt. Verðið hafi endurspeglað markaðsverð eignarinnar á þessum tíma.
Stefnandi mótmælir því að sannvirði fasteignarinnar Kirkjubrautar 11 hafi verið 39.000.000 króna 20. febrúar 1992 eins og yfirmatsmenn telji. Bent er á að 18.600.000 króna kauptilboð hafi komið í eignina í maí 1992 en því hafi stefndi hafnað. Tilboðið sýni hvernig markaðurinn hafi verðmetið eignina á þessum tíma. Því hafi 20.000.000 króna söluverð eignarinnar verið rétt markaðsverð eignarinnar. Stefndi mótmælir því að niðurstaða yfirmatsgerðarinnar segi betur til um sannvirði eignarinnar en raunverulegt söluverð. Stefndi telur að taka þurfi tillit til kostnaðar hans við að leysa eignina til sín. Af 20.000.000 króna söluverði hafi 10.664.344 krónur verið greiddar með peningum en 9.335.656 krónur með yfirtöku veðskulda sem áfram hafi hvílt á eign eftir nauðungaruppboðið. Peningagreiðslunni hafi stefndi ráðstafað þannig:
Greidd vanskil á skuldabréfi Landsbanka Íslands á 1. veðr................................................ 2.829.369 kr.
Afborganir á tímabilinu frá útlagningu til sölu eignar............................................................. 477.785 kr.
Greiddar upp eftirstöðvar bréfs stefnda á 2. veðr................................................................. 2.365.066 kr.
Greidd uppsöfnuð fasteignagjöld.............................................................................................. 339.192 kr.
Greidd iðgjöld brunatryggingar.................................................................................................. 140.319 kr.
Sölulaun og uppboðskostnaður................................................................................................... 22.932 kr.
Samtals........................................................................................................................................ 6.174.663 kr.
Þá telur stefndi að reikna verði með 9% vöxtum frá apríl 1992 og fram í febrúar 1993 sem nemi 416.790 krónum og hækkun lánskjaravísitölu. Að teknu tilliti til þessa hafi stefndi í raun aðeins hagnast um tvær til þrjár milljónir á kaupunum. Því hafi stefndi ákveðið að ráðstafa 3.000.000 króna til lækkunar á yfirdráttarskuld stefnanda á reikningi nr. 1021 miðað við 13. mars 1992.
Stefndi gerir ýmsar athugasemdir við yfirmatsgerð og telur að matsmenn hafi ekki aflað nægjanlegra upplýsinga um ástand fasteignarinnar á uppboðsdegi. Þá hafi þeir ekki gengið nægjanlega vel úr skugga um þær viðgerðir sem stefnandi hafði látið framkvæma á eigninni og þær endurbætur sem núverandi eigandi hafi látið framkvæma svo sem viðgerðir á gluggum, þaki o.fl. Yfirmatsgerðin verði því ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn um sannvirði eignarinnar.
Stefndi mótmælir því að færa beri kröfur stefnda á hendur stefnanda niður sem nemi kröfu sem tryggð hafi verið með 3. veðrétti í fasteigninni Kirkjubraut 11 og hámarksfjárhæð tveggja tryggingarbréfa á 4. og 5. veðrétti. Stefndi telur að 3. og 4. mgr. 32. gr. eldri laga um nauðungaruppboð nr. 57/1949 hafi borið að skýra með þeim hætti að aðeins væri heimilt að færa niður skuldir sem nam þeim hluta veðkröfu sem kaupandi á nauðungaruppboði fékk ekki greidda af kaupverði eignarinnar. Ekki komi til greina að færa megi niður skuldir uppboðsþola vegna annarra veðkrafna í eigu kaupanda sem ekki fáist greiddar á uppboðinu.
Stefndi bendir á að tryggingarbréf á 5. veðrétti hafi ekki verið gefið út til tryggingar skuldum stefnanda heldur Tækniveraldar hf., eiganda fasteignarinnar. Þegar af þeirri ástæðu komi ekki til greina að lækka skuldir stefnanda vegna umrædds tryggingarbréfs.
Þá leggur stefndi áherslu á að hann hafi aldrei krafist uppboðs á grundvellu tryggingarbréfa á 4. og 5. veðrétti og ekki gert kröfu í uppboðsandvirðið á grundvelli þeirra. Hann hafi raunar aldrei nýtt sér þessa veðrétti á neinn hátt. Því sé fjarstætt að stefnandi geti nú valið úr tilteknar kröfur stefnda á hendur stefnanda og ákveðið að þær falli undir umrædda veðrétti og að lækka beri kröfur stefnda á hendur stefnda sem nemi þeirri fjárhæð sem stefnandi reikni undir veðréttina.
Niðurstaða
Í málinu liggur fyrir umboð Hauks Bjarnasonar hdl., sem skipaður var bústjóri í þrotabúi stefnanda og einkafyrirtækis hans PC-tölvunnar til handa stefnanda til að reka fyrir eigin reikning mál fyrir hönd búsins gegn stefnda. Þá hefur verið lagt fram í málinu annað skjal frá lögmanninum þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi endurupptekið skipti í þrotabúinu vegna málshöfðunarinnar.
Ljóst er að endurgreiðslukröfur þær sem deilt er um í máli þessu eiga að renna til þrotabús stefnanda ef þær fást viðurkenndar og einnig að krafa um niðurfærslu krafna stefnda er þrotabúinu til hagsbóta. Með hliðsjón af 2. mgr., sbr. 1. mgr. 130. gr. gjaldþrotalaga er stefnandi réttur sóknaraðili þessa máls sem hann rekur í eigin nafni til hagsbóta þrotabúinu.
Um endurgreiðslukröfu stefnanda
Krafa stefnanda samkvæmt þessum kröfulið lýtur í fyrsta lagi að úttekt af sparisjóðsbók stefnanda nr. 803173 og ráðstöfun á eftirstöðvum inneignar samtals að fjárhæð 851.254 krónur. Í öðru lagi að úttektum af tékkareikningi stefnanda nr. 1021 og færslu vaxta og FIT-kostnaðar á þennan reikning, samtals að fjárhæð 20.691.947 krónur. Í þriðja lagi að ráðstöfun á andvirði keyptra viðskiptabréfa, samtals að fjárhæð 1.530.853,20 krónur.
Líta verður svo á að stefndi hafi breytt yfirdráttarskuld stefnanda á tékkareikningi nr. 1021, eins og hún stóð 12. mars 1992, í víxilskuld. Stefndi lýsti víxilkröfunni í þrotabú stefnda og hefur ekki fallið frá henni. Í ljósi þess verður að líta svo á að krafa stefnanda sé réttilega sett fram sem endurgreiðslukrafa þótt stefnandi kunni að eiga gildar kröfur sem hann geti notað til skuldajafnaðar á móti kröfum stefnanda.
Allar framangreindar kröfur stefnanda eiga það sammerkt að hann hefur ekki getað sýnt fram á með óyggjandi hætti að stefndi hafi ráðstafað umræddum fjármunum til annars en í þágu stefnanda. Starfsmenn í útibúi stefnda á Akranesi hafa borið vitni um það fyrir dómi að stefnandi hafi komið með reikninga í bankann og þeir hafi síðan verið greiddir með skuldfærslu á tékkareikning stefnanda þegar innistæða hafi verið fyrir hendi eða heimild til frekari skuldfærslu á reikninginn hafi fengist.
Stefndi hefur borið því við að gögnum frá árinu 1990 sem afsannað hefðu getað fullyrðingar stefnanda hafi verið eytt í árslok 1997 en stefnda sé aðeins skylt að varðveita bókhaldsgögn í 7 ár samkvæmt 20. gr. laga um bókhald nr. 145/1994. Þá hafi gögn frá árunum 1991 og 1992 ekki fundist.
Eins og máli þessu er háttað þykir rétt að fjalla fyrst um málsástæðu stefnda um fyrningu. Stefnandi heldur því fram að krafa hans sé endurgreiðslukrafa og fyrnist á 20 árum samkvæmt 1. tl. 2. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 en í því ákvæði segir að á 20 árum fyrnist krafa á hendur landssjóði, banka eða sparisjóði um endurgjald á fé, er lagt hefir verið í sjóðinn til ávöxtunar eða geymslu.
Með engu móti verður séð að kröfum stefnanda um endurgreiðslu á fjármunum sem hann telur að stefndi hafi ranglega fært af sparisjóðsbók og tékkareikningi hans, dregið sér af andvirði keyptra viðskiptabréfa eða oftekið í vexti og FIT-kostnað megi jafna til kröfu á hendur banka um endurgjald á fé sem lagt hafi verið til bankans til ávöxtunar eða geymslu. Verður að fallast á með stefnda að um kröfur stefnda samkvæmt þessum kröfulið gildi hinn almenni 10 ára fyrningafrestur 2. tl. 4. gr. fyrningarlaga.
Stefnandi sendi Hæstarétti Íslands bréf 30. desember 1999 þar sem hann tilkynnti, með vísan til 15. gr. laga nr. 14/1905, að hann ætti kröfu á hendur Íslandsbanka hf. sem hann gæti ekki sótt að svo stöddu þar sem hann vantaði gögn og upplýsingar frá bankanum. Ákvæði 1. mgr.15. gr. fyrningarlaga er svohljóðandi:
"Ef ekki er auðið að svo stöddu að sækja við dómstóla á Íslandi mál út af kröfu, sem fyrnist samkvæmt íslenskum lögum, þá getur kröfueigandi, með því að tilkynna landsyfirdómnum kröfu sína, áður en fyrningartíminn er liðinn, haldið rétti sínum óskertum, til að sækja rétt sinn að lögum, annaðhvort innan árs eftir að skilyrði voru fengin fyrir því, að innheimta mætti skuldina við íslenskan dómstól, eða innan 10 ára frá því tilkynningin var gerð. "
Eitt af skilyrðum fyrir beitingu framangreindrar heimildar í 15. gr. fyrningarlaga er að mál verði ekki höfðað hér á landi vegna þess að skuldarinn eigi ekki varnarþing hér á landi. Þar sem stefndi á og hefur átt varnarþing hér á landi sleit umrætt bréf til Hæstaréttar ekki fyrningu gagnvart stefnda.
Stefna í máli þessu var birt 31. janúar 2001. Voru þá fyrndar allar kröfur stefnanda sem stafa af úttektum af tékkareikningi 1021 á árinu 1990 að fjárhæð 13.220.704 krónur, FIT- og vaxtakostnaður af sama reikningi árið 1990 að fjárhæð 580.374 krónur, krafa vegna úttekta af tékkareikningi nr. 1021 í janúar 1991 að fjárhæð samtals 506.337 krónur og meint ógreitt andvirði keyptra víxla 21. janúar 1991 að fjárhæð 479.967,50 krónur eða samtals kröfur að fjárhæð 14.787.382,50 krónur. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af þessum hluta kröfunnar.
Það sem eftir stendur af endurgreiðslukröfum stefnanda stafar einkum frá árinu 1991 en að litlum hluta frá fyrri hluta ársins 1992. Samkvæmt framlögðum gögnum hreyfði stefnandi fyrst athugasemdum við úttektum á umræddum tékkareikningi með bréfi til stefnda í maí 1998. Síðar var hreyft athugasemdum við meintum úttektum af sparisjóðsbók og meðferð á andvirði keyptra viðskiptabréfa.
Ætla verður að bústjóri í þrotabúi stefnanda hafi tekið bókhald hans í sínar hendur við upphaf gjaldþrotaskiptanna og svo virðist sem Rannsóknarlögregla ríkisins og síðar Ríkislögreglustjóri hafi haft bókhaldið til rannsóknar þar til stefnanda var afhent það á árinu 1999. Skiptum var lokið í þrotabúi stefnanda 30. september 1996. Ríkislögreglustjóri tilkynnti stefnanda síðan í bréfi 22. júní 1998 að niðurstaða rannsóknar gæfi ekki tilefni til saksóknar. Af framansögðu má ljóst vera að stefnanda var nokkuð óhægt um vik að ganga úr skugga um fjárhagsleg samskipti sín við stefnda eftir að hann var úrskurðaður gjaldþrota. Á hitt verður þó að líta að ekki verður séð að hann hafi borið upp við bústjóra neinar óskir um að hafðar væru uppi kröfur á hendur stefnda vegna viðskipta þeirra eða að þau viðskipti yrðu könnuð. Ekki verður heldur séð að hann hafi falast eftir gögnum hjá bankanum fyrr en á árinu 1996 en í framburði hans fyrir dómi kom fram að þá hafi hann fengið yfirlit yfir allar færslur á tékkareikning nr. 1021 frá árunum 1990 til 1992. Ekki liggja fyrir í málinu nein gögn um að stefnandi hafi leitað eftir því að fá bókhaldsgögn sín afhent frá Rannsóknarlögreglu ríkisins eða Ríkislögreglustjóra. Þannig leið meira en hálft ár frá því að rannsókn var hætt þar til stefnandi fékk gögnin í hendur.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi reglulega fengið send yfirlit yfir færslur á tékkareikningi sínum og á þeim hafi komið fram ósk um að athugasemdir yrðu gerðar innan 20 daga frá viðtöku en annars teldist reikningurinn réttur. Af hálfu stefnda er því ekki beinlínis mótmælt að honum hafi borist slík yfirlit og verður á því byggt í málinu að svo hafi verið.
Engin bréf eða önnur skrifleg gögn liggja fyrir um að stefnandi hafi án árangurs leitað eftir gögnum frá stefnda áður en hann varð gjaldþrota eða eftir það fyrr en á árinu 1996.
Stefnandi bar fyrir dómi að hann hafi margbeðið um gögn og kvittanir í útibúi stefnda en án árangurs og vegna þess hafi gengið illa að stemma af bókhaldið. Skúli Garðarsson, sem sá um bókhald fyrir stefnanda, bar fyrir dómi að gögn hafi ekki borist frá stefnda til að stemma af bókhald stefnanda. Hann kvaðst ekki hafa kallað eftir gögnum sjálfur hjá stefnda en taldi stefnanda sjálfan hafa kallað eftir þessum gögnum og eins starfsmann sinn.
Í framburði Sigrúnar Ríkarðsdóttur, sem var yfirféhirðir útibús stefnda á Akranesi 1990-1992, kom fram að stefnandi hefði um áramótin 1990 og 1991 og aftur um áramótin 1991 og 1992 fengið afhentar möppur með ljósritum af öllum kvittunum og skjölum hans vegna sem fóru um gjaldkerastúku. Bæði hún og Björgvin Filippusson, sem tók við starfi útibússtjóra umrædds útibús í nóvember 1991 báru fyrir dómi að aldrei hefðu komið athugasemdir frá stefnanda vegna úttekta af tékkareikningnum.
Með hliðsjón af framangreindum framburðum þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi án árangurs óskað eftir gögnum frá stefnda. Þegar litið er til þess hversu háar fjárhæðir stefnandi sakar stefnda um að hafa ráðstafað með öðrum hætti en í hans þágu og þess hversu yfirdráttarskuld stefnanda var há og gengið var hart fram í innheimtuaðgerðum, þykir með ólíkindum að hann hann hafi ekki gert alvarlegar athugasemdir við úttektir á tékkareikningi og fylgt þeim athugasemdum eftir gagnvart stefnda. Sömuleiðis þykir í hæsta máta sérkennilegt að stefnandi hafi ekki fyrr en á árinu 1998 séð ástæðu til að ganga úr skugga um ráðstöfun á 851.253 króna innistæðu á sparisjóðsbók nr. 803173 og ráðstöfun á andvirði seldra viðskiptabréfa á árinu 1991.
Stefnandi er bókhaldsskyldur eins og stefndi. Hann hefur þó engin gögn getað lagt fram úr eigin bókhaldi eða fært að því sterkar líkur að kröfur hans eigi við rök að styðjast. Stefnandi hefur einkum byggt á því að stefndi hafi ekki getað lagt fram gögn sem afsanni að hann hafi dregið sér umrætt fé. Framburður starfsmanna stefndu um það hvernig viðskipti aðila og skuldfærslur á reikning hans gengu fyrir sig þykja hins vegar trúverðugar.
Ekki verður litið framhjá því að afar tortryggilegt er að bankastofnun geti ekki lagt fram gögn til að hnekkja ófyrndum kröfum á hendur henni sem vegna slíkra viðskipta og hér um ræðir. Með vísan til bókhaldslaga nr. 145/1994 ber stefnda að halda til haga bókhaldsgögnum í 7 ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Í árslok 1998 voru liðin 7 ár frá lokum reikningsársins 1991. Ljóst er að þá voru komnar fram alvarlegar ásakanir af hálfu stefnanda á hendur stefnda varðandi viðskipti málsaðila. Eftir það var stefnda rétt að halda til haga öllum bókhaldsgögnum varðandi viðskiptin við stefnanda. Svo virðist sem umrædd bókhaldsgögn stefnda frá árinu 1991 og 1992 hafi verið glötuð fyrir árslok 1998.
Fyrir liggur að hvorugur málsaðila getur fært sönnur að fullyrðingum sínum. Það liggur í hlutarins eðli að ef fullyrðingar stefnanda eru réttar hefur hann aldrei haft undir höndum gögn um meinta ráðstöfun stefnda á fjármunum hans. Stefndi hefur hins vegar ekki fundið í bókhaldi sínu gögn sem staðfest gætu hvernig fjármunum stefnanda var ráðstafað.
Ætla verður að sá langi dráttur sem varð samkvæmt framansögðu á því að stefnandi gerði reka að athugasemdum um framangreind viðskipti hafi gert stefnda erfiðara fyrir að afla fyrrgreindra sönnunargagna. Ekki verður séð að stefnda verði kennt um þennan langa drátt. Á móti kemur að meðferð stefnda á bókhaldsgögnum er ekki í samræmi við bókhaldslög og að gera verður ríkar kröfur til banka um að þeir geti sýnt fram á hvernig þeir ráðstafa fjármunum viðskiptamanna sinna.
Hvað varðar færslu af sparisjóðsbók og ráðstöfun innistæðu er aðeins við fullyrðingu stefnanda að styðjast varðandi það að innistæðunni hafi verið ráðstafað með öðrum hætti en í þágu stefnanda. Stefnanda er hins vegar óhægt um vik varðandi sönnun því ef fullyrðing hans er rétt hefur hann væntanlega ekki fengið nein gögn í hendur sem stutt geta fullyrðingu hans. Vöntun á gögnum úr bókhaldi stefnda er í þessu tilviki afar bagaleg. Í ljósi þess langa og óafsakanlega dráttar sem varð á því að hálfu stefnda að grennslast fyrir um eða gera athugasemdir við ráðstöfun innistæðu sparisjóðsbókarinnar þykir sönnunarbyrðin ekki verða lögð á stefnda fyrir því að hann hafi ekki hagnýtt innistæðuna til annars en í þágu stefnanda.
Hvað varðar kröfur stefnanda vegna kaupa stefnda á viðskiptabréfum 12. febrúar, 8. mars og 23. júlí 1991, samtals að fjárhæð 1.050.885,70 krónur, liggja fyrir í málinu afrit af kaupnótum stefnda sem allar eru stílaðar á PC-tölvuna. Í þeim kemur fram að kaupverði bréfanna hafi verið ráðstafað inn á reikning 1001 sem var í eigu stefnda sjálfs. Af hálfu stefnanda hefur því ekki verið haldið fram að hann hafi ekki fengið umræddar kaupnótur í hendur. Sigrún Ríkharðsdóttir, sem var aðalgjaldkeri í útibúi stefnda á Akranesi 1990-1992 bar fyrir dómi að reikningur nr. 1001 hafi verið notaður ef bankinn þurfti að ráðstafa hluta eða öllu andvirði keyptra viðskiptabréfa inn á vanskil eða kostnað. Ljóst er að stefnandi var í umfangsmiklum viðskiptum við stefnda og í talsverðum vanskilum. Umrædd skýring þykir trúverðug en hefur ekki verið studd gögnum af hálfu stefnda og því borið við að bókhaldsgögn séu glötuð. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi gert neinn reka að því að grennslast fyrir um ráðstöfun á andvirði viðskiptabréfanna fyrr en á árinu 1997 og það þótt stefndi hafi krafist gjaldþrotaskipta á búi hans vegna vanskila og þau skipti staðið í fjögur ár. Í ljósi þessa langa og óafsakanlega dráttar þykir ekki verða lögð á stefnda sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi ekki hagnýtt andvirði viðskiptabréfanna til annars en í þágu stefnanda.
Þegar stefnda barst fyrst fyrirspurn um færslur á tékkareikningi stefnanda voru liðin rúm sex ár frá því að síðustu viðskipti þessara aðila áttu sér stað og tvö ár frá skiptalokum í þrotabúi stefnanda. Enn liðu síðan rúm tvö ár þar til mál þetta var höfðað. Reikningsyfirlit stefnda til stefnanda þar sem úttektir á tékkareikninginn komu fram, gjaldþrotaskiptabeiðni sem meðal annars byggði á víxli sem yfirdráttarskuldin hafði verið færð á og síðar lýsing stefnanda á kröfum í gjaldþrotabúið, gáfu stefnanda fullt tilefni til að óska eftir upplýsingum og gera athugasemdir og kröfur á hendur stefnda vegna viðskipta þeirra. Í ljósi þessa óafsakanlega dráttar þykir sönnunarbyrðin ekki verða lögð á stefnda fyrir því að hann hafi ekki hagnýtt úttektir á tékkareikningnum til annars en í þágu stefnanda.
Með því að stefnandi hefur ekki tekist að færa að því gild rök að stefnandi hafi tekið út af sparisjóðsbók og tékkareikningi stefnanda án heimildar hans og nýtt þessar úttektir og andvirði keyptra viðskiptabréfa til annars en í þágu stefnanda og ekki verður lagt á stefnda að sýna fram á hið gagnstæða verður ekki hjá því komist að sýkna.
Af framangreindu leiðir að stefnanda hefur heldur ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi oftekið sér vexti eða kostnað af tékkareikningi nr. 1021 og ber því einnig að sýkna stefnda af kröfu stefnanda sem að því lýtur.
Um viðurkenningarkröfu stefnanda
Þriðja og síðasta nauðungaruppboð fór fram á fasteigninni Kirkjubraut 11 á Akranesi 20. febrúar 1992. Eigandi fasteignarinnar var Tækniveröld hf. Ekki kemur fram í málinu hvaða aðili krafðist uppboðsins en fyrir liggur að Landsbanki Íslands átti kröfu á 1. veðrétti, stefndi átti kröfur samkvæmt veðskuldabréfum á 2. og 3. veðrétti sem stefnandi var skuldari að. Þá átti stefndi tryggingarbréf á 4. veðrétti fyrir ótilgreindum skuldum stefnda allt að 4.000.000 krónum og tryggingarbréf á 5. veðrétti fyrir ótilgreindum skuldum Tækniveraldar hf. allt að 10.000.000 króna.
Svo sem fyrr er rakið átti stefndi hæsta boð, 13.500.000 krónur, á fyrrgreindu uppboði og var lögð út eignin sem ófullnægðum veðhafa. Af uppboðsandvirðinu greiddust 377.678,20 upp í kröfu stefnda á hendur stefnanda samkvæmt veðskuldabréfi á 2. veðrétti, en krafan stóð þá í 2.408.801,30 krónum.
Stefnandi reisir kröfu um viðurkenningu á sannvirði fasteignarinnar Kirkjubrautar 11 og niðurfærslu krafna á þessum ákvæðum 32. gr. uppboðslaga nr. 57/1949, sem voru í gildi á uppboðsdegi. Í 3. mgr. 32. gr. laganna var mælt fyrir um það að ef uppboðsbeiðandi, sem gerðist kaupandi að eign á uppboði, án þess að krafa hans greiddist að fullu, krefði skuldunaut eða aðra um eftirstöðvar kröfunnar eða hluta af þeim, gæti dómari fært kröfuna niður um það sem svaraði mismun á sannvirði eignar á uppboðsdegi, svo sem það sannaðist með mati óvilhallra manna eða með öðrum hætti, og kaupverði. Í 4. mgr. greinarinnar var að finna heimild til handa skuldunauti eða öðrum sem svara átti til kröfu, til að höfða mál á hendur kröfuhafa til ákvörðunar á sannvirði eignar á uppboðsdegi og heimild til dómara til að færa kröfur niður með sama hætti og mælt var fyrir um í 3. mgr. Sambærileg ákvæði er nú að finna í 57. gr. núgildandi laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.
Enda þótt fyrir liggi að Tækniveröld hf. hafi verið eigandi umræddrar fasteignar á uppboðsdegi getur stefnandi byggt á fyrrnefndum ákvæðum að því er varðar niðurfærslu krafna stefnda á hendur honum samkvæmt þeim veðbréfum sem á fasteigninni hvíldu.
Fyrir liggur að stefndi seldi þeim Hilmari Björnssyni og Hönnu Rúnu Jóhannsdóttur fasteignina með kaupsamningi 5. október 1992 fyrir 20.000.000 krónur og var afsal gefið út til þeirra 18. janúar 1994. Stefndi fékk tilboð í eignina 29. maí 1992 að fjárhæð 18.620.000 krónur en hafnaði því.
Í yfirmatsgerð sem stefnandi aflaði lögðu dómkvaddir matsmenn mat á sannvirði umræddrar fasteignar miðað við uppboðsdag. Töldu þeir markaðsverð eignarinnar hafa verið 39.000.000 króna miðað við almenn greiðslukjör og staðgreiðsluafslátt í fasteignaviðskiptum hafa verið 3-5% á þeim tíma. Af forsendum matsmanna þykir ljóst að þeir hafa haft allar nauðsynlegar upplýsingar til að leggja mat á sannvirði eignarinnar á uppboðsdegi. Þannig höfðu þeir upplýsingar um það verð sem stefndi seldi eignina á, upplýsingar um söluverð ýmissa fasteigna á Akranesi á umræddum tíma og samanburð á fermetraverði á Akranesi og Reykjavík þá og nú. Þá öfluðu þeir sér upplýsinga um ástand fasteignarinnar á uppboðsdegi og þær endurbætur sem stefnandi hafði látið framkvæma. Í forsendum yfirmatsgerðar og framburði matsmanna fyrir dómi kom fram að þeir hafi tekið mikið tillit til góðrar staðsetningar fasteignarinnar og mjög góðrar lóðar sem mætti nýta. Þá töldu matsmenn að af gögnum mætti ráða að fermetraverð á Akranesi sé og hafi verið ákveðið prósentuhlutfall af samskonar húsnæði í Reykjavík og hafi að hluta verið stuðst við það í matinu.
Stefnda þykir ekki hafa tekist að sýna fram á hnökra á framkvæmd yfirmatsins eða að niðurstaðan sé byggð á röngum upplýsingum eða sjónarmiðum.
Verulegur munur er á niðurstöðu yfirmatsmanna og því verði sem stefndi fékk fyrir eignina. Ekkert er fram komið sem bendir til þess að stefndi hafi vísvitandi selt eignina undir markaðsverði en með hliðsjón af yfirmatsgerð tveggja fasteignasala verður ekki betur séð en að eignin hafi verið seld talsvert undir sannvirði. Með hliðsjón af orðalagi 3. og 4. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949 og því hlutverki ákvæðisins að skuldari njóti sanngirnis verður að líta svo á að uppboðskaupandi geti, ef hann selur fasteign á lágu verði, þurft að sæta því að viðmiðunarverð til niðurfærslu krafna verði metið hærra en raunverulegt söluverð.
Samkvæmt framangreindu þykir verða að leggja niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar til grundvallar um hvert hafi verið sannvirði fasteignarinnar Kirkjubrautar 11 á Akranesi á uppboðsdegi 20. febrúar 1992. Þar sem líta verður á kaup fasteignar við nauðungarsölu sem staðgreiðslukaup þykir rétt að miða við að sannvirði eignarinnar miðað við staðgreiðslu hafi verið framangreind fjárhæð að frádregnum 5% eða 37.050.000 krónur.
Fyrir liggur að stefndi hefur þegar viðurkennt að 2.031.123,10 króna eftirstöðvar kröfu á 2. veðrétti fasteignarinnar beri að fella niður með vísan til 32. gr. laga nr. 57/1947. Þá hefur hann lagt fram gögn um að hann hafi ráðstafað 3.000.000 krónum til lækkunar á yfirdráttarskuld á tékkareikningi nr. 1021 sem færð var á víxil að fjárhæð 9.966.196 krónur miðað við 12. mars 1992.
Ágreiningur er með aðilum um hvort aðarar kröfur, en samkvæmt veðskuldabréfi á 2. veðrétti, sem stefndi fékk greidda að hluta en ekki að öllu leyti, beri að færa niður á grundvelli 3. og 4. gr. 32. gr. laga nr. 57/1949. Skýra verður ákvæðin þannig að heimild til niðurfærslu krafna sé ekki bundin við þá kröfu eina sem eitthvað greiðist upp í af kaupverði á uppboði heldur veiti það heimild til að færa niður allar kröfur á hendur þeim skuldara sem getur borið fyrir sig ákvæðið og uppboðskaupandi á ef þær eru tryggðar með veði í fasteigninni og falla innan þess sannvirðis eignarinnar sem skuldara tekst að sýna fram á.
Ekki verður fallist á með stefnda að niðurfærslukröfur stefnanda séu fyrndar þar sem ekki verður talið að réttur til að beita heimild 32. gr. laga nr. 57/1949 til niðurfærslu krafna falli niður meðan kröfur uppboðskaupanda sem kaupverð eignar á uppboði hrökk ekki til greiðslu á eru ófyrndar.
Samkvæmt framansögðu er fallist á með stefnanda að færa beri niður skuldir stefnda sem nemi eftirstöðvum veðskuldabréfs á 3. veðrétti, útgefins 18. október 1990, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur, en þær voru 697.192,70 krónur þegar kröfunni var lýst í þrotabú stefnanda á árinu 1992.
Fyrir liggur að gefið var út tryggingarbréf til stefnda fyrir öllum skuldum og fjárskuldbindingum PC-tölvunnar að höfuðstólsfjárhæð allt að 4.000.000 krónur, auk vaxta, verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar, tryggt með 4. veðrétti í umræddri fasteign. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að stefndi hafi krafist uppboðs á grundvelli þessa tryggingarbréfs eða gert neinn reka að því að tryggja greiðslu einstakra krafna sinna með andvirði fasteignarinnar. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að honum sé heimilt að tengja tilteknar kröfur stefnda við þennan veðrétt. Þegar af þeirri ástæðu verða kröfur stefnda ekki verða færðar niður sem nemur fjárhæð þessa tryggingarbréfs.
Samkvæmt ljósriti af tryggingarbréfi stefnda á 5. veðrétti, sem stefnandi hefur lagt fram í málinu, er bréf þetta gefið út til tryggingar skuldum þáverandi eiganda fasteignarinnar, Tækniveraldar hf., allt að höfuðstólsfjárhæð 10.000.000 krónur. Þótt stefnandi kunni að hafa verið aðaleigandi Tækniveraldar hf. verða kröfur stefnda á hendur honum ekki færðar niður á grundvelli þessa tryggingarbréfs með vísan til 3. og 4. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949.
Samkvæmt skjölum sem lögð hafa verið fram í málinu hefur stefndi þegar fært niður kröfur stefnda sem nemur 2.031.123,10 króna eftirstöðvum skuldar samkvæmt veðskuldabréfi sem tryggt var með 2. veðrétti í fasteigninni og 3.000.000 króna höfuðstól yfirdráttarskuldar á tékkareikningi stefnanda. Því til viðbótar hefur verið fallist á þá kröfu stefnda að fella beri niður kröfu stefnda á hendur stefnanda sem tryggð var með 3. veðrétti í framangreindri fasteign, en eftirstöðvar hennar voru 697.192,70 krónur þegar henni var lýst í þrotabú stefnanda. Þar sem kröfugerð stefnanda lýtur einungis að niðurfærslu veðkrafna er 3.000.000 króna niðurfærsla á yfirdráttarskuld ekki hluti af niðurstöðu þessa máls eins og hún kemur fram í dómsorði.
Með hliðsjón af því sem áunnist hefur með málsókn stefnanda þykir rétt að málsaðilar beri hvor sinn kostnað af málinu að öðru leyti en því að stefndi greiði útlagðan kostnað stefnanda af því að meta sannvirði fasteignarinnar Kirkjubrautar 11, en kostnaður við undirmat og yfirmat nam samtals 441.250 krónum.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta, Halldór H. Backman hdl., en af hálfu stefnda Aðalsteinn E. Jónasson hrl.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð
Viðurkennt er að sannvirði eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi hafi á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992, numið 37.050.000 krónum. Eftirstöðvar áhvílandi veðskulda stefnanda, Sigurðar P. Haukssonar, við stefnda, Íslandsbanka hf., sem hvíldu á 2. og 3. veðrétti eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi, alls að fjárhæð 2.728.316 krónur skulu færðar niður að fullu.
Stefndi skal vera sýkn af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu.
Stefndi greiði stefnanda 441.250 krónur í málskostnað.