Hæstiréttur íslands
Mál nr. 140/2008
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2008. |
|
Nr. 140/2008. |
M(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl. Eva Dís Pálmadóttir hdl.) gegn K Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjá.
M og K deildu um forsjá tveggja sona sinna. Talið var að báðir aðilar væru hæfir til að fara með forsjá sonanna og þeim liði vel hjá þeim báðum. Með hliðsjón af áliti sálfræðingsins V, sem dómkvaddur var í málinu eftir dómsuppsögu héraðsdóms, var ekki talið tilefni til að hagga mati héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, um að það væri sonunum fyrir bestu að lúta forsjá K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2008. Hann krefst þess að sér verði dæmd forsjá sona aðila, A og B, og staðfest niðurstaða héraðsdóms um tilhögun umgengni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu deila aðilar um forsjá sona sinna A, sem fæddur er [...] 1998 og því nýlega orðinn tíu ára gamall, og B, sem fæddur er [...] 2001 og því tæplega sjö ára. Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings 22. apríl 2008, en hún var dómkvödd í Héraðsdómi Reykjavíkur að beiðni áfrýjanda eftir uppsögu héraðsdóms til að gefa „faglegt álit sitt á því hjá hvorum aðila málsins forsjá drengjanna ... verði best fyrirkomið til framtíðar.“ Eru niðurstöður matsmannsins svohljóðandi: „Niðurstöður lýsa jákvæðum tengslum A við foreldra sína, og þau eru mun sterkari í garð móður hans. Afstaða hans til búsetu er skýr og afdráttarlaus. Hann vill búa hjá móður sinni og fara í umgengni til föður síns. Afstaða hans byggir greinilega á sterku tilfinningasambandi við móður hans og er ástæða til að taka fullt mark á henni. Þegar svona skýr afstaða liggur fyrir er ekki ástæða til að ætla að nein neikvæð áhrif verði af breytingum á búsetu. Niðurstöður lýsa jákvæðum tengslum B við foreldra sína, jákvæðni í garð stjúpföður og neikvæðni í garð stjúpmóður. Hann gaf ekkert frekara upp sem hægt er að byggja á varðandi afstöðu hans til búsetu.“
Einnig hefur verið lagt fyrir Hæstarétt endurrit af skýrslu matsmannsins fyrir héraðsdómi 9. júní 2008. Þar lýsti matsmaðurinn meðal annars þeirri skoðun að eldri drengurinn hafi með óvenjulega skýrum hætti lýst vilja sínum til að vera hjá móður, en yngri drengurinn hafi ekki viljað taka neina afstöðu. Þá taldi matsmaðurinn drengina vera mjög mikið tengda.
Með hliðsjón af framangreindu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 8. febrúar sl., er höfðað fyrir dómþinginu af K, á hendur M, með stefnu áritaðri um birtingu 16. maí 2007.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að samkomulag aðila frá 20. maí 2003 um sameiginlega forsjá verði úr gildi fellt og henni verði með dómi falin forsjá barnanna A, kt. [...] og B, kt. [...] og að ákveðið verði í dóminum hvernig umgengni barnanna við stefnda skuli háttað.
Að stefndi greiði mánaðarlega einfalt meðlag með hvorum drengjanna um sig eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni til fullnaðs átján ára aldurs þeirra.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær að forsjárkröfu stefnanda verði hafnað og að stefnda verði með dómi falin forsjá barnanna A og B til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra.
Að ákvarðað verði um inntak umgengni stefnanda við drengina þannig að drengirnir dvelji hjá stefnanda þriðju hverja helgi, frá föstudegi til sunnudagskvölds. Drengirnir dvelji hjá stefnanda í páskaleyfum, vetrarleyfum frá skóla og í 7 vikur yfir sumartímann. Drengirnir dvelji önnur hver jól og önnur hver áramót hjá stefnanda.
Loks er þess krafist að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.
I.
Málavextir eru þeir að aðilar málsins kynntust á árinu 1997 og tóku skömmu síðar upp sambúð. Stefnandi varð fljótlega ófrísk en aðilar eignuðust á sambúðartíma tvo syni, A, fæddan [...] 1998 og B, fæddan [...] 2001. Sambúð aðila lauk í janúar 2003 og flutti stefnandi út af heimilinu. Við sambúðarslit var ákveðið að aðilar færu með sameiginlega forsjá beggja drengjanna. Skyldi eldri drengurinn eiga lögheimili hjá stefnanda en sá yngri hjá stefnda. Var sú skipan mála staðfest hjá sýslumanninum í Reykjavík 20. maí 2003. Eftir sambúðarslitin dvöldu drengirnir vikulega til skiptis hjá hvoru foreldri og gengu í sitt hvorn skóla þar sem aðilarnir bjuggu í sitt hvoru skólahverfinu. Vorið 2006 mætti stefnandi til sýslumannsins í Reykjavík og óskaði eftir að lögheimili beggja drengjanna yrði hjá henni. Í framhaldi sóttu aðilar sáttameðferð hjá embætti sýslumanns. Eftir það var ákveðið að lögheimili drengjanna yrði óbreytt.
Skömmu eftir sambúðarslitin kynntist stefnandi núverandi sambýlismanni sínum og hófu þau sambúð. Eignuðust þau tvö börn saman, stúlku sem nú er tveggja ára og dreng fæddan í apríl 2007. Stefndi kynntist núverandi sambúðarkonu sinni á árinu 2005. Skólaveturinn 2006 til 2007 var A í 3ja ára bekk í [...]skóla en B á leikskólanum [...]. Skólaveturinn 2007 til 2008 hóf B síðan skólagöngu í [...]skóla.
Á vormánuðum 2007 ákvað stefnandi að flytja búferlum til X en sambýlismaður hennar fékk starf sem lögreglumaður á X. Kynnti stefnandi stefnda þá hugmynd sína í fyrstu óformlega, en síðar með formlegum hætti með bréfi frá 16. apríl 2007. Ekki náðust sættir með aðilum um forsjá og flutning drengjanna. Hafði stefndi uppi kröfu hjá sýslumanninum í Reykjavík 20. apríl 2007 um að lögheimili A yrði flutt til sín, auk þess sem stefnandi myndi greiða meðlag með drengnum. Þá var höfð uppi krafa um breytta umgengni. Var málið tekið fyrir hjá sýslumanni 16. maí 2007 en þar hafnaði stefnandi kröfum stefnda. Var málinu í kjölfarið vísað frá sýslumanni.
Stefndi lagði kröfu fyrir héraðsdóm um forsjá beggja drengjanna til bráðabirgða þar til niðurstaða fengist í forsjármálinu sem þingfest var 22. maí 2007. Var mál um þá kröfu stefnda þingfest 28. júní 2007. Hafði stefnandi einnig uppi kröfur í málinu um að henni yrði til bráðabirgða falin forsjá beggja drengjanna. Féll í málinu úrskurður í héraðsdómi 3. ágúst 2007 þar sem kröfum beggja aðila um bráðabirgðaforsjá var hafnað. Hins vegar var fallist á kröfu stefnanda um að lögheimili beggja drengjanna skyldi vera hjá stefnanda á meðan á rekstri forsjármálsins stæði. Var kveðið á um umgengnisrétt stefnda við drengina og meðlagsgreiðslur. Stefndi skaut málinu til Hæstaréttar Íslands sem með dómi 24. ágúst 2007 í máli nr. 427/2007 staðfesti þá niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms að hafna bráðabirgðaforsjá beggja aðila með drengjunum. Hins vegar var ákvæði úrskurðar um lögheimili drengjanna hrundið og mælt fyrir um að það skyldi vera hjá stefnda þar til leyst yrði úr um forsjá þeirra með dómi, auk þess sem mælt var fyrir um umgengnisrétt stefnanda með drengjunum. Í dómi réttarins sagði m.a. að eins og málið lægi fyrir yrði að leggja til grundvallar að báðir aðilarnir væru hæfir foreldrar og færir um að veita sonum sínum gott heimili. Í málatilbúnaði þeirra beggja hefði verið lögð áhersla á að drengirnir yrðu ekki skildir að. Sá eldri hefði gengið í sama grunnskóla í Reykjavík í þrjú ár og hefði honum vegnað þar vel, þótt tímabundið hafi komið til vandkvæða. Yngri drengurinn hefði lokið leikskóla og væri ráðgert að hann hæfi nám við sama grunnskóla og bróðir hans, en hann gætu þeir báðir sótt frá heimili stefnda. Af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að drengirnir þekktu vel aðstæður á þessu svæði og ættu þar félaga, en það sama gæti ekki svo að teljandi væri átt við um það sveitarfélag, þar sem stefnandi ætti nú heimili, þótt drengirnir hafi dvalið þar að nokkru eftir að hún hafi flutt þangað og áður verið þar í heimsóknum hjá foreldrum hennar. Þegar þetta væri virt væru ekki efni til að láta syni aðilanna sæta þeirri röskun á skólagöngu og öðrum aðstæðum, sem óumflýjanlega myndi fylgja heimilisfesti hjá stefnanda, á meðan óvíst væri hvort sú skipan ætti að haldast til frambúðar. Skyldi því lögheimili beggja drengjanna vera hjá stefnda þar til leyst hefði verið úr því máli, sem rekið væri um forsjá þeirra.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar málsins skýrslu, auk þess sem matsmaður staðfesti matsgerð sína fyrir dóminum og gerði grein fyrir einstökum atriðum varðandi matið. Auk þeirra gáfu skýrslu sambýlingar aðila málsins, þau C og D. Loks gáfu skýrslu kennarar drengjanna A og B, þær E og F.
E kvaðst hafa haft með höndum kennslu fyrir A frá því hann hafi byrjað skólagöngu sína. Skólaveturinn 2007 til 2008 hafi drengnum liðið bærilega og hann verið í meira jafnvægi en áður. Færi það eftir námsgreinum hvernig drengnum gengi í skóla. Hafi hann sýnt framfarir í ýmsum greinum. Þá hafi hann unnið heimavinnu fyrir skóla. Ekkert óeðlilegt væri varðandi nesti fyrir drenginn og umhirðu almennt. Ætti drengurinn vini í skólanum sem hann léki við. Væri það mat E að A hafi allur styrkst skólaveturinn 2007 til 2008. Skólaveturinn á undan hafi drengurinn sýnt meiri geðshræringar. Hafi hann þá átt við félagslega erfiðleika að etja. Tekið hafi verið á því máli á sínum tíma. Þau vandkvæði hafi tengst knattspyrnu í skólanum. Hafi drengurinn brugðist of sterkt við og orðið ,,agressivur” og lent í erfiðleikum sem hann hafi ekki náð að leysa úr. Einhverju sinni hafi A sagt við E að hann væri ef til vill að fara í skóla á X. Hafi A sýnt af sér jákvætt fas um leið og hann hafi látið þessi orð falla. A hafi að öðru leyti aldrei tjáð sig um fjölskyldumál sín.
F kvaðst hafa umsjón með námi B í [...]skóla. Námsárangur drengsins væri eðlilegur og hann í góðri framför. Væri hann duglegur við að æfa sig heima. Hann væri að byrja í skóla og gengi það allt vel. ,,Renni” hann vel með hópnum og væri vinsæll í bekknum. Hann væri gæði glaðlegur og skemmtilegur. B léki við ákveðinn dreng í bekknum. Væri hann í fínu jafnvægi og hafi hann ekki að neinu leyti tjáð sig um forsjárdeilu foreldra sinna. Ætti hann það til að ræða mikið um A bróður sinn og færi hann stundum til hans í frímínútum í skólanum. Væri það mat F að B væri tengdur yngri systkinum sínum en um þau hafi hann rætt.
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar um forsjá drengjanna á 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Væri hagsmunum drengjanna betur borgið í forsjá hennar eða í búsetu hjá henni. Hafi stefnandi boðið stefnda að forsjá yrði áfram sameiginleg en drengirnir ættu lögheimili hjá stefnanda með rúma umgengni við stefnda. Hafi stefndi hafnað þeirri tillögu og því nauðsynlegt að dómur skæri úr um framtíðar búsetu þeirra og forsjá. Teldi stefnandi mikilvægt að drengirnir ælust upp á sama stað enda væru þeir mjög innbyrðis tengdir sem og mjög nánir stefnanda. Þá væru búsett á heimilinu tvö hálfsystkin drengjanna sem stefnandi ætti með núverandi eiginmanni sínum. Væri drengjunum jafnframt mikilvægt að alast upp með yngri systkinum sem þeir væru mjög tengdir.
Aðstæður stefnanda til að hafa forsjá drengjanna væru mjög góðar. Á X hafi maður hennar fengið mjög góða stöðu sem lögreglumaður. Drengirnir væru hagvanir þar enda ættu þeir þar vini og afa og ömmu. Hafi þeir farið norður í öllum fríum og teldi stefnandi drengina hlakka til flutnings norður. Hafi stefnandi og maður hennar leigt út hús sitt í Reykjavík og væri ætlunin að vera í leiguhúsnæði nyrðra a.m.k. fyrst um sinn. Aðstæður á heimili stefnda væru ekki eins góðar. Byggi hann í leiguhúsnæði og væri í óskráðri óvígðri sambúð. Engin önnur börn væru á heimilinu en eldri dóttir stefnda er væri þar í helgarumgengni. Telji stefnandi mun meiri stöðugleika að finna í þeim aðstæðum og umhverfi sem hún geti boðið drengjunum. Stefnandi telji tengsl drengjanna við sig mótast af öryggistilfinningu og að hún sé umönnunarforeldri þeirra en tengsl þeirra við stefnda séu meira félagatengsl.
Eldri drengurinn hafi átt í erfiðleikum í skóla, orðið fyrir einelti, en stefndi hafi ekki viljað viðurkenna þá erfiðleika drengsins. Telji stefnandi að skólaskipti myndu gera honum gott. Þá myndi flutningur leiða til þess að drengirnir gengju í sama skóla. Telji stefnandi umgengnisfyrirkomulag sem ríkt hafi ekki gagnast hagsmunum drengjanna m.a. af þeim sökum að aðilar málsins hafi ekki talast við í um tveggja ára skeið. Sé þá ljóst að grundvöllur sameiginlegrar forsjár sé brostinn en einnig þar sem aðilar komi sér ekki saman um búsetu drengjanna.
Um lagarök vísar stefnandi til barnalaga nr. 76/2003. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndi byggir kröfu sína um að honum verði falin forsjá beggja drengjanna á því að slík forsjárskipan sé hagsmunum drengjanna fyrir bestu. Högum drengjanna sé betur borgið með því að lúta forsjá hans og eiga áframhaldandi búsetu hjá honum í því umhverfi sem þeir hafi verið aldir upp í. Telji stefndi að ákvörðun um forsjá drengjanna hjá honum feli ótvírætt í sér stöðugleika og öryggi í uppvexti drengjanna. Í slíkri skipan felist minni röskun fyrir drengina þar sem hjá honum muni þeir halda áfram að vera í umhverfi sem þeir gjörþekki og líði báðum vel í.
Stefndi bendi á umsögn deildarstjóra á leikskóla yngri drengsins þar sem staðfest sé að drengurinn sé í góðu jafnvægi og sáttur. Hafi hann tengst vinum sínum og líði vel. Hið sama sé að segja um eldri drenginn svo sem fram komi í umsögn skólastjóra um líðan hans í skóla. Stefndi byggi á því að krafa stefnanda um forsjá drengjanna og flutning til X muni hafa í för með sér verulegar breytingar á högum drengjanna og uppeldisaðstæðum þar sem aðstæður allar á X séu frábrugðnar þeim sem drengirnir þekki og líði vel í. Krafa stefnanda feli í sér algera óvissu um það hvernig drengjunum kunni að reiða af í því umhverfi m.a. hvernig þeir muni aðlagast þar. Bendi stefndi á þá staðreynd að í [...]hreppi búi tæplega 400 manns og hafi íbúum í sveitarfélaginu fækkað um meira en 100 á síðustu 50 árum. Því sé um gjörólíkt uppeldisumhverfi að ræða á X miðað við það sem drengirnir þekki og séu aldir upp við. Skólaárið 2006 til 2007 hafi 79 börn verið í grunnskólanum á X og séu þá meðtalin börn sem keyrð séu í skólann úr nágrannasveitum. Meðalfjöldi í bekk sé tæplega 8 börn og sé stundum um samkennslu tveggja bekkjardeilda að ræða. Drengirnir séu vanir fjölmennum bekkjardeildum og leikskólaárgöngum þar sem fjöldi vina sé ávallt til staðar og muni það því vera mikil viðbrigði fyrir þá að fara í fámenni m.a. 5 manna bekkjardeildir þar sem vinirnir kunni að vera búsettir utan byggðarkjarnans, þ.e. í nágrannasveitum. Stefndi mótmæli sérstaklega sem röngu fullyrðingum í stefnu um að drengirnir séu hagvanir á X og eigi þar vini. Vissulega eigi drengirnir móðurforeldra á X og hafi komið þangað í stuttar heimsóknir en því fari víðsfjarri að þar séu þeir hagvanir og eigi vini sem jafnast eigi við þá félaga sem séu í nágrenni stefnda. Telji stefndi engan vafa leika á því að betra sé fyrir drengina að fá að alast áfram upp í núverandi umhverfi en dveljast reglulega og einkum í leyfum og á sumrin hjá stefnanda á X.
Stefndi byggi á því að hann sé hæfara foreldri en stefnandi, m.a. sé hann mun næmari á þarfir og tilfinningar drengjanna en stefnandi og sýni þeim meiri skilning. Þarfir drengjanna hafi forgang hjá stefnda en margsinnis hafi stefnandi tekið eigin þarfir fram yfir þeirra, allt frá því á meðgöngu er hún hafi neitað að hætta að reykja sem haft hafi í för með sér óþarfa hættu. Stefndi bendi á að eldri drengurinn, A, sé sérstaklega viðkvæmur fyrir öllum breytingum og því hafi komið í ljós að hann sé kvíðinn og vilji ekki flytjast til X. Stefnandi hafi farið ógætilega í að kynna búsetuflutning hennar fyrir drengjunum, m.a. hafi hún kynnt eldri drengnum fyrir skólanum á sama tíma og ljóst hafi verið að hún hygðist höfða forsjármál og niðurstaða um framtíðarbúsetu drengjanna engan vegin ljós. Stefndi telji þessar og fleiri aðfarir stefnanda hafi verið ónærgætnar gagnvart drengjunum sem staðfesti að hún sé ekki eins næm á líðan þeirra og tilfinningar og stefndi en þetta valdi drengjunum óþarfa áhyggjum og vanlíðan sem þeir leiti til stefnda með. Fullyrðingum í stefnu um að drengina hlakki til flutnings til X sé sérstaklega mótmælt sem röngum, sem fjölmörg vitni hafi orðið áskynja um. Þá bendi stefndi á að eldri drengurinn hafi lent í einelti haustið 2006 sem hafi einkum tengst fótboltaleikjum í skólanum. Harðlega sé mótmælt fullyrðingum í stefnu um að stefndi hafi ekki viljað viðurkenna þá erfiðleika, sem víðsfjarri öllum sannleika. Staðreyndin sé sú að báðir foreldrar hafi tekið á því máli með skólanum og umsjónarkennara drengsins, þó stefnandi hafi fyrst borið það upp við skólann enda hafi stefnandi starfað á þeim tíma sem skólaliði í skólanum. Í samvinnu foreldra og skólans hafi eineltið verið upprætt auk þess sem drengurinn hafi fengið aðstoð félags- og námsráðgjafa [...]skóla sem hann hafi verið hjá veturinn 2006 til 2007. Stefndi hafi fylgt málinu eftir allan veturinn og verið í nánu samstarfi við umsjónarkennara drengsins vegna þessa og hafi drengurinn verið félagslega í góðum málum allt frá því í nóvember 2006 og líði vel í skóla. Stefndi hafi fylgt málinu vel eftir, spyrji drenginn ákveðinna spurninga í samráði við námsráðgjafa og skiptist á upplýsingum við hann og umsjónarkennara reglulega. Stefndi viti ekki til þess að stefnandi hafi gert slíkt hið sama. Eldri drengurinn hafi veturinn 2006 til 2007 verið í mikilli framför námslega í skóla eins og vitnisburður um það staðfesti. Stefndi byggi á því að vel hafi verið haldið utan um málefni drengsins í skólanum, þar eigi hann góða vini og félaga og líði vel og telji engan vegin gott fyrir drenginn að skipta um skóla. Þvert á móti geti slíkt verið áhættusamt fyrir drenginn og valdið honum kvíða. Byggi stefndi á því að áhættusamt geti reynst félagslega fyrir drenginn að þurfa að koma nýr inn í bekk þar sem nemendur hafi verið saman frá upphafi og takast á við allt annað umhverfi og gjörólíkt því sem hann sé vanur.
Stefndi byggi á því að hann geti boðið drengjunum betri og öruggari uppeldisaðstæður en stefnandi. Stefndi búi í öruggri leiguíbúð sem hann leigi af leigufélagi Búseta ehf. og sé leigusamningur ótímabundinn. Hann sé í sambúð með D, sem tekið hafi báðum drengjunum opnum örmum og þeir tengst henni tilfinningaböndum sem og fjölskyldu hennar. Drengirnir virðist á engan hátt hafa tengst sambýlismanni stefnanda með sama hætti og hafi kvartað við stefnda undan því að stefnandi hafi beðið þá um að kalla hann pabba. Stefndi sé í traustu og vellaunuðu starfi sem yfirmaður þróunarmála hjá [...], sem hann hafi verið í undanfarin ár. Vinnutími stefnda sé mjög sveigjanlegur og geti hann unnið nánast allt sitt starf heima, ef svo beri undir og geti hann því auðveldlega aðlagað vinnutíma sinn að þörfum drengjanna, verði honum falin forsjá þeirra. Sambýliskona stefnda sé einnig í góðu starfi sem hún geti sinnt til kl. 14.00 á daginn. Tekjur heimilisins séu traustar og góðar. Á heimili þeirra séu þarfir og hagsmunir drengjanna í forgangi og styðji þau þá í leik og starfi og haldi góðum tengslum við vini drengjanna sem og foreldra vina þeirra. Stefndi byggi á því að drengirnir séu í góðum tengslum við stórfjölskyldu hans sem og stórfjölskyldu sambúðarkonu stefnda og að stuðningsnet hans í fjölskyldunni sé mjög gott og þétt. Allar ytri aðstæður stefnda séu því traustari og öruggari en stefnanda auk þess sem stefndi hafi mun rýmri tíma til að sinna drengjunum heldur en stefnandi, þar sem hún sé með tvö ung börn.
Heimili stefnanda í Reykjavík sé nú í útleigu sem stefndi telji gefa til kynna að búsetuflutningur til X sé einungis tímabundinn. Stefnandi hafi flutt inn á heimili foreldra sinna á X ásamt sambýlismanni sínum og tveimur börnum og geri ráð fyrir að búa inni á foreldrum sínum um sinn. Stefndi telji algjöra óvissu ríkja um það hversu lengi stefnandi muni búa á X, hvort um tímabundið ástand sé að ræða eða framtíðarbúsetu. Stefnandi hafi sagt stefnda að hún myndi búa hjá foreldrum sínum þar sem ómögulegt væri að fá leiguhúsnæði á X, a.m.k. eins og stendur. Stefndi byggi á því að allar aðstæður stefnanda séu mun óöruggari en stefnda og því sé mun meiri áhætta fólgin í því að fela stefnanda forsjá drengjanna. Sambýlismaður stefnanda taki við starfi sem lögreglumaður og óvíst sé hvernig honum muni líka í fámenninu á X og hvernig honum komi til með að líka við starfið. Þá leggi stefndi ríka áherslu á þá staðreynd að stefnandi eigi tvö börn og sé tími og aðstæður stefnanda til að sinna drengjunum því mun minni en hjá stefnda. Grundvallarmunur sé á aðstöðu málsaðila að þessu leyti. Umönnun tveggja ungra barna taki drjúgan tíma stefnanda og hafi hún því ekki eins góðar aðstæður og stefndi. Stefndi bendi á að yngri drengurinn sé mjög opinn tilfinningalega og þurfi mikla athygli og hlýju og efist stefndi um að stefnandi sé fær um að veita honum slíkt atlæti miðað við heimilisaðstæður hennar. Stefnandi hafi sjálf lýst því yfir að henni finnist erfitt að vera með fjögur börn, svo sem fram komi á bloggsíðu hennar á dskj. nr. 19. Óvíst sé hvaða vinnu stefnandi muni fá á X að loknu fæðingarorlofi og telji stefndi að rekstur heimilis stefnanda sé mun þyngri en stefnda og tekjur heimilisins umtalsvert lægri. Telji stefndi kröfu sína um forsjá drengjanna tvímælalaust í samræmi við hagsmuni drengjanna og fela í sér mun öruggara umhverfi og meiri stöðugleika fyrir drengina.
Þá byggi stefndi á því að málsaðilar hafi ólíkar uppeldisaðferðir og að uppeldisaðferðir stefnda henti drengjunum betur. Stefnandi sé ekki mikið fyrir að hafa skýran ramma utan um drengina, m.a. um mataræði, svefntíma og kurteisi sem og að iðka sínar tómstundir sem drengirnir alist upp við hjá stefnda. Félagatengsl stefnda og drengjanna hafi ávallt verið mjög mikil og þeir leitað mikið til hans enda hafi stefndi brennandi áhuga á því sem drengirnir séu að gera sem og tómstundum þeirra. Stefndi telji að drengirnir sýni greinileg merki vellíðunar meðan þeir dveljist hjá honum og sé vel hugsað um þá.
Stefndi byggi á því að hann muni ávallt virða tengsl drengjanna við stefnanda og fjölskyldu hennar og muni leggja ríka áherslu á að drengirnir geti dvalið hjá henni bæði reglulega sem og ríflegan tíma yfir sumar eins og stefnukröfur hans endurspegli. Finnist stefnda sjálfsagt að taka tillit til lengri dvalartíma í sumarleyfum á meðan búseta stefnanda verði á X.
Stefndi telji mikilvægt að bræðurnir verði ekki skyldir að. Stefnandi virðist hins vegar ekki setja það fyrir sig að svo verði en hún hafi tilkynnt drengjunum að A myndi hefja nám í Grunnskóla X haustið 2007. Stefndi telji mikilvægt að drengirnir fái að alast upp saman þar sem þeir séu mjög tengdir tilfinningalega og að mikilvægt sé að virða þau tengsl. Stefndi telji að stefnandi hafi, allt frá því að hún hafi ákveðið að breyta um búsetu, ekkert tillit tekið til þessara sterku tengsla bræðranna og virðist ekki setja það fyrir sig að skilja drengina að. Stefndi byggi á því að mikilvægt sé að drengirnir alist upp saman. Þeir hafi sömu áhugamál, hafi báðir æft sund og hafi báðir áhuga á fótbolta og hvorugur megi af hinum sjá nema í örskamman tíma. Fyrirætlanir stefnanda um skólagöngu eldri drengsins haustið 2007 gangi þvert á tilfinningar og vilja drengjanna og beri með sér að hagsmunir þeirra séu ekki hafðir að leiðarljósi við þá ákvörðun, en slíkar ákvarðanir geti haft afdrifaríkar afleiðingar á sálarlíf þeirra beggja.
Stefndi byggi á því að krafa hans um forsjá drengjanna sé í samræmi við eindreginn vilja þeirra. Drengirnir hafi ítrekað lýst þeirri skoðun sinni yfir við stefnda og fleiri, þegar búsetuflutninga stefnanda hafi borið á góma, að þeir vildu ekki flytja til X. Þótt afi og amma drengjanna búi á X og þeir hafi í gegnum árin komið þangað nokkrum sinnum í heimsókn þá eigi þeir þar enga vini eða félaga sem þeir tengist með sama hætti og félögum þeirra í Reykjavík. Drengirnir hafi aðeins komið í stuttar heimsóknir til X, aldrei dvalið þar yfir vetrarmánuði og séu því á engan hátt hagvanir þar eins og haldið sé fram. Þvert á móti hafi drengirnir ávallt litið á sig sem gesti þegar þeir hafi komið þangað. Stefndi telji að drengirnir séu svo ungir að þeir séu á engan hátt færir um að gera sér grein fyrir þeim miklu breytingum sem búseta á X myndi hafa í för með sér fyrir þá, en þeir geri sér grein fyrir því að þeir eigi heima í [...] og þeir vilji alls ekki flytja. Stefndi byggi á því að báðum drengjunum líði vel í því umhverfi sem þeir hafi verið í og þar finnist þeim þeir eiga heima. Vilji beggja drengjanna endurspegli þá vellíðan þeirra í dag.
Stefndi byggi á því að uppeldisaðferðir málsaðila séu mjög ólíkar sem rekja megi til þess að eðli málsaðila sé mjög ólíkt. Stefndi mótmæli harðlega sem röngu fullyrðingum í stefnu um að stefnandi sé meira umönnunarforeldri en hann enda hafi stefndi alið drengina upp til jafns á við stefnanda og sinni umönnun þeirra og uppeldi síst minna en stefnandi. Stefndi telji hins vegar rétt sem fram komi í stefnu að hann hafi meiri félagatengsl við drengina en stefnandi og telji að þau tengsl fari sífellt vaxandi eftir því sem drengirnir verði eldri og áhugamál þeirra hin sömu. Stefndi fullyrði að stefnandi sé úthaldslítil varðandi uppeldi drengjanna sem komi m.a. fram í því að hún sé ekki tilbúin að fylgja þeim eftir í tómstundum nema í skamman tíma. Hún hafi verið í sambandi við stefnda varðandi eineltið í skólanum í nokkrar vikur en síðan hafi hún ekki haft eftirfylgni með því máli gagnvart skólayfirvöldum, né öðrum. Stefnandi sé í mun minni tengslum en stefndi við skóla og leikskóla drengjanna og t.d. hafi stefnandi ekki séð ástæðu til að mæta í útskrift B úr leikskóla vorið 2007 né á skólaslit í [...]skóla í byrjun júní 2007 þrátt fyrir að hún hafi verið í bænum. Stefndi mæti á alla viðburði tengda drengjunum, foreldraviðtöl, bekkjarkvöld í skóla, æfingar og keppnir, svo fátt eitt sé nefnt. Stefndi byggi á því að hann sé virkari en stefnandi í félags- og tómstundastarfi drengjanna og leiti drengirnir frekar til hans varðandi það. Að hluta til skýrist það af tveim ungum börnum sem stefnandi hafi eignast á undanförnum tveimur árum og því telji stefndi augljóst að verði krafa stefnanda tekin til greina muni það m.a. bitna á tómstundastarfi drengjanna, þar sem stefndi muni ekki geta stutt þá í því sökum landfræðilegra aðstæðna.
Stefndi vísar til 2. mgr. 34. gr., sem og VI. kafla laga nr. 76/2003. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV.
Hinn 12. september 2006 var dómkvaddur sálfræðingurinn Ragna Ólafsdóttir til að framkvæma sálfræðilega matsgerð vegna deilu málsaðila um forsjá drengjanna. Í skýrslunni, sem dagsett er 17. desember sl., er rakin saga málsaðila og ýmislegt annað þeim tengt.
Í skýrslunni er að finna niðurstöður sálfræðilegra prófa er framkvæmd voru á stefnanda. Fram kemur að niðurstöður leiði í ljós sálfræðilega vel aðlagaða konu sem sé fær um að takast á við erfiðleika daglegs lífs. Sjálfsmynd hennar sé jákvæð og vísbending um góðan sjálfstyrk. Hún sé kraftmikil og virk og vel afslöppuð í samskiptum við annað fólk. Konur með prófmynd sem þessa séu alla jafnan sjálfstæðar, hagsýnar og ábyrgar. Hún sé félagslega opin og hafi ríka þörf til að vera innan um annað fólk. Þá megi vera að hún eigi erfitt með að mynda merkingabær og náin samskipti við annað fólk. Hún kunni að koma öðrum fyrir sjónir sem jákvæð, viðkvæm og með gott innsæi.
Niðurstöður sálfræðilegra prófa á stefnda sýni að stefndi hafi heiðarlega svarað spurningum prófsins og ekki reynt að fegra ímynd sína. Kvarðarnir leiði í ljós að hann hafi fremur lélega sjálfsmynd og sé óánægður með ýmislegt í fari sínu en skorti færni til að breyta þeirri stöðu. Niðurstöður gefi til kynna skort á sjálfstyrk og þá hugsanlega vanmátt í að takast á við vandamál daglegs lífs. Klínískir kvarðar prófsins leiði í ljós að stefndi eigi ekki við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Hann reyni gjarnan að líta á jákvæðar hliðar lífsins og forðist að hugsa um óþægilega hluti. Menn með prófmynd sem þessa séu tortryggnir og viðkvæmir fyrir viðbrögðum annarra og kenni oft öðrum um eigin vandamál. Hann sé hefðbundinn og hneigist til að vera stíflyndur samkvæmt prófinu. Hann sé opinn og hugsanlega yfirborðslegur í mannlegum samskiptum.
Varðandi fjölskyldutengslapróf komi fram að A sé í sterkum og jákvæðum tengslum við báða foreldra sína. Sendi A móður sinni fleiri skilaboð en föður sínum og lúti þau að ást hans til hennar og upplifun hans af væntumþykju hennar. Þá er vísað til þess að matsmaður hafi verið í sambandi við E, kennara A í [...]skóla. Greini E ekki vanlíðan hjá A frekar en hjá öðrum börnum í bekknum. Allur búnaður hjá drengnum sé í góðu lagi, hann komi alltaf með unna heimavinnu. Samskipti við foreldra hafi í gegnum tíðina verið góð. Einnig sé vísað í viðtal við G félags- og námsráðgjafa í [...]skóla. Í viðtalinu hafi komið fram að A hafi sagt G frá því að hann væri að flytja til X ,,og væri æðilega ánægður.” Fram hafi komið í samvinnu hennar og A að hann væri tengdur X og mjög tengdur móðurafa og móðurömmu. G hafi talað við A haustið 2007 og hún skynjað söknuð hjá honum eftir móður sinni, enda hafi henni fundist þegar hún hafi verið með drenginn í ráðgjöf að hann væri tengdari henni en föður sínum.
B hafi einnig farið í fjölskyldutengslapróf. Fái foreldrar hans jafn mörg skilaboð og flest jákvæð. Í viðtali við F kennara í [...]skóla hafi komið fram að hann hafi alltaf komið með unna heimavinnu og sé allur aðbúnaður drengsins í góðu lagi. Tjái B sig ekkert um sína einkahagi. Geti hún ekki greint að drengurinn sé í neinu ójafnvægi í skólanum. Samskipti við foreldra hafi verið ágæt.
Í samantekt og ályktun um forsjárhæfni foreldra kemur m.a. fram að í prófunum og athugunum komi fram að stefnandi sé í sterku tilfinningasambandi við báða syni sína, hún þekki eiginleika þeirra vel og hlúi að þeim. Stefndi sé einnig í sterku tilfinningasambandi við syni sína og leitist við að styrkja þá m.a. með því að láta þá stunda íþróttir sem hæfi hvorum þeirra um sig. Drengirnir upplifi mikla væntumþykju frá báðu foreldrum. Báðir foreldrar séu færir að búa vel að drengjunum á hvorum stað fyrir sig. Móðir búi í sinni heimabyggð, X, þar sem drengirnir frá fæðingu hafi eytt drjúgum tíma í nálægð við afa þeirra og ömmu. Þeir eigi þar vini og séu á heimavelli. Drengirnir hafi frá fæðingu búið í [...]hverfi, gengið þar í leikskóla og nú grunnskóla. Þeir eigi þar vini og uni sér þar vel við leik og störf.
Stjúpforeldrar drengjanna báðum megin axli ábyrgð á þeim. Foreldrar stefnanda hafi verið henni, og á sínum tíma stefnda, mikil stoð við að koma undir sig fótum. Mikill samgangur hafi ætíð ríkt milli stefnanda og þeirra og drengirnir tengdir þeim sterkum böndum. Fram hafi komið í viðtölum við foreldra stefnanda að barnabörn séu þeim afar dýrmæt og þau óspör að eyða tíma með þeim. Ljóst sé af samtölum við þau að þau þekki lyndiseinkenni drengjanna vel. Foreldrar stefnda hafi verið í reglulegu sambandi við drengina. Föðurafi sé liðtækur í að skutla og sækja drengina á æfingar og horfa á þá keppa. Af lýsingu afans á drengjunum sé ljóst að hann þekki þá vel.
Bæði stefnandi og stefndi hafi lýst því yfir að fengju þau forsjá drengjanna myndu þau stuðla að góðri umgengni drengjanna við forsjárlaust foreldri. Foreldrarnir beri hag þeirra fyrir brjósti og sjái nauðsyn þess að þeir umgangist báða foreldra sína. Faðir hafi sýnt óþarflega mikinn stífleika við að verða við óskum móður við að bregða út af umsaminni umgengni. Matsmaður álíti að þeir örðugleikar sem upp hafi komið varðandi umgengni séu vegna óvissu ástands sem ríki um hvar forsjá muni vera og telji að foreldrar muni bera gæfu til að ná samkomulagi um umgengni þegar niðurstaða fáist í málinu.
Báðir drengirnir séu vel gerðir piltar sem nái að fóta sig í skóla og vinahóp. Þeir séu þeim eiginleikum gæddir að þeir muni geta aðlagast vel fari svo að þeir flytji á stað sem þeir þekki vel og hafi góð tengsl við. Tengslapróf, athuganir og viðtöl leiði í ljós að drengirnir séu afar tengdir og háðir hvor öðrum enda nálægir í aldri og hafi alltaf fylgst að. Tengsl þeirra við hálfsystkini sín endurspegli eðlileg systkinatengsl. Tengslin við systkini móður megin virðist þó sterkari.
Ragna Ólafsdóttir staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Kvaðst hún í matsgerð sinni ekki hafa gert upp á milli foreldra drengjanna að því er varði aðstæður og hagi. Stefnandi hafi meira haft af uppeldi A að segja eftir fæðingu hans á meðan hún hafi verið í sambandi með stefnda. Eftir skilnað foreldra hafi komið til þess að stefnandi hafi oft verið með A á meðan hann hafi átt að vera hjá föður. Finnist Rögnu sem A sé tengdari móður sinni en föður. Bæði hafi A lýst yfir að hann vildi búa hjá móður sinni, auk þess sem tengslapróf hafi sýnt að hann væri heldur tengdari móður sinni en föður. Sé mikill söknuður í drengnum gagnvart móður. Hafi A verið hjá föður sínum þegar tengslin voru könnuð en þrátt fyrir það hafi hin sterku tengsl við móður komið fram. Þá hafi A verið í samtals 16 viðtölum hjá námsráðgjafa sem fullyrði að drengurinn sé tengdari móður sinni en föður. Þá væri A mjög tengdur yngri systkinum sínum, sem og móðurafa og móðurömmu sinni.
A kunni vel við sig í þeim skóla sem hann gangi í og tengist föður. Virðist honum líða vel í þeim aðstæðum er hann sé í. Hafi hann tekið miklum framförum í sjálfstyrkingu veturinn 2007 til 2008.
Bræðurnir séu mjög ólíkir og A mun viðkvæmari. Sé hann mun gætnari með tilfinningar sínar og um leið lokaður. B sé harðari af sér. Hafi komið fram í viðtölum við hann að honum fyndist tími sem hann hefði með móður sinni vera of stuttur. Foreldrum hafi tekist að setja drengina ekki í þá stöðu að þeir þurfi að velja á milli foreldranna. Væri það mat Rögnu að drengirnir þyrftu að vera meira hjá móður en nú væri. Kvaðst Ragna hafa hugleitt þann möguleika í tengslum við forsjá drengjanna að hún yrði áfram sameiginleg en lögheimili þeirra flyttist til móður. Á unglingsárum, er þarfir þeirra yrðu aðrar og þeir þyrftu að sækja í nám fyrir sunnan gæti lögheimili þeirra flust aftur suður til föður. Ragna kvaðst telja að ákvörðun stefnanda og sambýlismanns hennar um að flytja norður hafi verið tekin án þess að allir hlutir hafi legið ljósir fyrir. Virðist sem stefnandi hafi reiknað með að hún gæti fengið drengina með sér norður. Ragna kvaðst vera þeirra skoðunar að það skipti miklu máli fyrir drengina að alast upp með hálfsystkinum sínum.
V.
Í máli þessu deila aðilar um forsjá tveggja drengja, A sem nú er 9 ára, og B, 7 ára. Eins og rakið var hér að framan hefur Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur komist að þeirri niðurstöðu að báðir foreldrar hafi góða aðstöðu til þess að hafa drengina og geri hún ekki upp á milli foreldranna í því efni. Þá verður ekki annað ráðið af skýrslu hennar og vætti en að báðir foreldrarnir séu vel hæfir til að fara með forsjá drengjanna.
A og B hafa alla tíð átt heima í [...] og ganga nú báðir í [...]skóla. Eftir því sem fram er komið í málinu gengur báðum drengjunum vel í skóla og virðast þeir þar una sér vel. Þá verður ekki annað séð en að þeir hafi báðir eignast vini í skólanum. Um þetta nýtur m.a. framburðar kennara drengjanna. Þá er fram komið að þeir séu í reglulegu tómstundastarfi. Er öll sú umgjörð sem þeir búa við í dag í [...] góð. Er það álit dómsins að talsvert veigamikil rök þurfi til þess að raska núverandi skipan mála.
Ragna Ólafsdóttir hefur í matsgerð gert grein fyrir þeim tengslum sem drengirnir hafa við foreldra sína. Gerði hún nánari grein fyrir þessu atriði fyrir dóminum. Af matsgerð og framburði hennar verður ráðið að eldri drengurinn sé mun meira tengdur móður sinni heldur en föður. Skýrist það m.a. af því að móðirin var mun meira samvistum við drenginn á fyrstu árum ævi hans, auk þess sem hann virðist vera tilfinningalega mjög næmur drengur og tengdur móður. Þá liggur fyrir að námsráðgjafi hafi einnig metið það svo að drengurinn sakni móður sinnar og að hann sé tengdari móður heldur en föður. Þá hefur E kennari A í [...]skóla greint frá því að drengurinn hafi tjáð henni að hann væri ef til vill að fara í skóla á X og að hann hafi sýnt af sér jákvætt fas um leið og hann hafi látið þessi orð falla. Að mati dómsins sýna öll þau atriði sem hér að framan hafa verið rakin að afstaða A virðist talsvert skýr og veita eindregnar vísbendingar um að hann vilji frekar vera hjá móður sinni heldur en föður. Foreldrar drengjanna, sem og Ragna Ólafsdóttir, hafa metið það svo að sökum þess hve samrýmdir drengirnir séu komi ekki til álita að aðskilja þá. Undir það tekur dómurinn heils hugar.
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003 skal við úrlausn um hjá hvoru foreldri forsjá verði fara eftir því sem er barni fyrir bestu. Við mat á niðurstöðu í þessu máli vegast á þau sjónarmið annars vegar að drengirnir verði áfram í því trausta umhverfi sem þeir þekkja og hefur mótað líf þeirra frá unga aldri og hins vegar hin sterku tengsl eldri drengsins við móður sína. Þegar aðstæður móður eru skoðaðar þykir skipta máli að hún hefur nú sest að á stað sem drengirnir virðast þekkja vel. Þangað hafa þeir margoft farið allt frá barnæsku og eiga þar afa og ömmu sem virðast hafa sýnt í verki að séu reiðubúin að styrkja og styðja fjölskylduna. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að drengirnir eigi þar félaga. Þá liggur það fyrir að drengirnir eiga fyrir tvö hálfsystkini á heimili móður. Eru fram komnar eindregnar vísbendingar um að þeir séu báðir mjög tengdir yngri systkinum sínum. Að mati dómsins skiptir miklu máli að drengirnir alist upp í sem mestum tengslum við hálfsystkini sín. Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið um tengsl A við móður sína, þeirrar umgjarðar er móðir býr nú við á X og mikilvægi tengsla við yngri hálfsystkini er það niðurstaða dómsins að ekki sé annað fært en að taka slíkt tillit til þessara atriða við ákvörðun um niðurstöðu málsins að rétt sé að stefnanda verði dæmd forsjá yfir báðum drengjunum.
Þó svo ekki hafi beinlínis áhrif á niðurstöðu þessa máls er til þess að líta að þegar móður hefur verið dæmd forsjá drengjanna er sá möguleiki fyrir hendi að þeir fari suður til föður síns ef þær aðstæður skapast síðar að þeir fari í skóla til Reykjavíkur. Matsmaður var fylgjandi hugmyndum um slíka ráðstöfun, auk þess sem umfjöllun um þá tilhögun fékk jákvæð viðbrögð við skýrslutökur fyrir dóminum. Lýsir dómurinn sig mjög fylgjandi slíkum ráðagerðum skapist aðstæður til þeirra.
Í ljósi niðurstöðu málsins er fallist á dómkröfur stefnanda um meðlagsgreiðslur úr hendi stefnda, eins og nánar greinir í dómsorði.
Í málinu er gerð krafa um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar. Skal stefndi hafa umgengni við drengina aðra hverja helgi í mánuði frá því strax að loknum skóla á föstudegi og fram á sunnudagskvöld, enda hamli hvorki færð né veður ferðalögum. Er rétt að foreldrar leggi báðir jafnt til þegar kemur að því að aka drengjunum á milli staða og mætist á miðri leið. Á þessu kunna aðilar þó að finna aðra og heppilegri lausn.
Drengirnir skulu dvelja hjá stefnda í vetrarleyfum frá skóla og í hálfu sumarleyfi eftir samkomulagi. Drengirnir dvelji hjá stefnda í jólaleyfi 2008 en þá um áramót hjá stefnanda, árið eftir snúist þetta við og síðan áfram koll af kolli. Umgengni um páska skiptist til helminga eftir nánara samkomulagi. Við ákvörðun um umgengni að öðru leyti verða foreldrar að hafa samráð um hvernig að umgengni verði staðið og henni best komið á en stefnanda sem forsjárforeldri ber að uppfylla þessa þörf drengjanna.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Eins og áður er komið fram eru drengirnir nú með lögheimili hjá föður, á slóðum sem þeir hafa alla tíð alist upp á. Fari svo að dómi þessum verði áfrýjað og önnur niðurstaða verður fyrir æðra dómi þykir ákaflega óheppilegt að raskað hafi verið skólagöngu og öðrum aðstæðum drengjanna. Í því ljósi er ákveðið að áfrýjun fresti réttaráhrifum dómsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 76/2003.
Dóminn kveða upp Símon Sigvaldason héraðsdómari, sem dómsformaður, og sálfræðingarnir Guðfinna Eydal og Þorgeir Magnússon.
Dómsorð:
Fellt er úr gildi samkomulag aðila frá 20. maí 2003 um sameiginlega forsjá með drengjunum A kt. [...] og B, kt. [...]
Stefnandi, K, skal fara með forsjá drengjanna A og B.
Stefndi, M, greiði mánaðarlega einfalt meðlag með hvorum drengjanna um sig eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni til fullnaðs átján ára aldurs þeirra.
Regluleg umgengni stefnda við drengina skal verða aðra hverja helgi frá föstudegi strax eftir skóla, en drengirnir skulu vera komnir til síns heima á sunnudagskvöldi. Drengirnir dvelji hjá stefnda í vetrarfríi frá skóla og í hálfu sumarleyfi. Drengirnir dvelji hjá stefnda í jólaleyfi 2008 en þá um áramót hjá stefnanda, árið eftir snúist þetta við og síðan koll af kolli. Umgengni um páska skiptist til helminga eftir nánara samkomulagi.
Málskostnaður fellur niður.
Áfrýjun frestar réttaráhrifum dómsins.