Hæstiréttur íslands

Mál nr. 331/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Farbann


Miðvikudaginn 18

 

Miðvikudaginn 18. júní 2008.

Nr. 331/2008.

Ríkislögreglustjóri

(Thelma Cl. Þórðardóttir fulltrúi)

gegn

X

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. Farbann.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Hins vegar var honum gert að sæta farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. júlí 2008 kl. 11. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara að frelsi hans verði skert með vægari úrræðum, svo sem farbanni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa í Frakklandi á árinu 2005 eða fyrr dregið sér eða á annan ólöglegan hátt slegið eign sinni á jafnvirði ríflega 22 milljóna íslenskra króna. Sóknaraðili vísar til stuðnings kröfu sinni um gæsluvarðhald til þess að varnaraðili hafi „flúið“ land eftir að grunur hafi vaknað um ætluð brot hans. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi farið frá Frakklandi áður en lögregla þar í landi hóf rannsókn á ætluðum brotum hans. Þegar af þeirri ástæðu hefur ekki verið sýnt nægilega fram á að þörf sé gæsluvarðhalds varnaraðila til þess að tryggja návist hans í þágu meðferðar kröfu um framsal hans. Því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Skilyrði eru til að banna varnaraðila brottför af landinu samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991. Því skal varnaraðili sæta farbanni sem markaður verður sami tími og gæsluvarðhaldskrafa sóknaraðila miðar við.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðila, X, er bönnuð brottför frá Íslandi allt til klukkan 11 fimmtudaginn 3. júlí 2008.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 12. júní 2008.

                Ríkislögreglustjóri hefur gert kröfu um það að franskur ríkisborgari, X, fæddur [...], sem búið hefur hér og starfað að undanförnu, verði látinn sæta gæsluvarðhaldi til 3. júlí nk., kl. 11.00.  Maður þessi var handtekinn í gær eftir að íslenskum yfirvöldum var kunnugt um að hann er eftirlýstur einstaklingur, sbr. 95. gr. Schengen samningsins. Kemur fram í evrópskri handtökuskipun sem lögð hefur verið fram að frönsk yfirvöld biðja um að kærði verði handtekinn og framseldur til Frakklands. Er hann grunaður um að hafa á árinu 2005 dregið sér eða á annan hátt slegið ólöglega eign sinni á verulega fjárhæð, jafnvirði 22.166.480 íslenskra króna, frá fyrirtækinu A í París sem hann starfaði fyrir. 

                Kröfunni er mótmælt en til vara er þess krafist að beitt verði vægari ráðstöfunum, svo sem farbanni.

Ríkislögreglustjóri styður kröfu sína þeim rökum að hætta sé á því að kærði komi sér undan rannsókn og saksókn fái hann að halda frelsi sínu meðan framsalsbeiðnin er hér til meðferðar.  Er skírskotað til 15. og 19. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13, 1984 og b- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.  Vægari úrræði en gæsluvarðhald, sbr. 110. gr. oml. geti ekki tryggt nærveru kærða í ljósi þess að Ísland er aðili að Schengen-samkomulaginu og fólk á frjálsa og eftirlitslausa för milli ríkja, sem standa að því. 

 Kærði er grunaður um verulegt auðgunarbrot í heimalandi sínu sem gæti varðað hann langri fangelsisvist.  Dómarinn álítur að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hans meðan framsalsbeiðni á hendur honum er til meðferðar hjá yfirvöldum hér.  Eins og á stendur geta önnur úrræði en gæsluvarðhald ekki talist fullnægjandi.  Ber því að fallast á kröfu ríkislögreglustjóra og ákveða með heimild í b- lið 1. mgr. 103. gr. oml., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um framsal sakamanna og fl., að kærði, Ilan Emmanuel Leclerc, fæddur 18. 12. 1970, skuli sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 3. júlí 2008, kl. 11.00.

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                   Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. júlí nk. kl. 11.00.