Hæstiréttur íslands

Mál nr. 128/2001


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka
  • Refsiákvörðun


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. júní 2001.

Nr. 128/2001.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Gareth John Ellis og

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

Víði Þorgeirssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Upptaka. Refsiákvörðun.

G og V voru ákærðir fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á 5007 töflum og 5,05 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA, sem ætlaðar voru til sölu hér á landi í ágóðaskyni. Var talið sannað að þeir hefðu sammælst um innflutning fíkniefnanna á Íslandi og unnið síðan saman að flutningi efnanna til landsins. Við ákvörðun refsingar þeirra var höfð hliðsjón af því að hvorugur hafði sætt refsingu fyrir brot á fíkniefnalöggjöf eða hegningarlögum og að hluti innfluttu efnanna var undir venjulegum styrkleika. Var refsing G ákveðin 7 ára fangelsi, en refsing V 5 ára fangelsi. Var litið til þess að þáttur V í brotinu var mun minni en þáttur G. Héraðsdómari mat framburð V trúverðugan og studdu gögn málsins framburð hans. Þá játaði V brot sitt skýlaust og aðstoðaði yfirvöld við að upplýsa brotið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 26. mars 2001 að ósk ákærðu en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins til sakfellingar samkvæmt ákæru og þyngingar refsingar.

Ákærði Gareth John Ellis krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð til muna.

Ákærði Víðir Þorgeirsson krefst mildunar refsingar.

I.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir málavöxtum og framburði ákærðu. Eins og þar kemur fram er ákærðu gefið að sök að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 5.007 töflum og 5,05 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA (3,4 metýlendíoxýmetamfetamíni), sem ætlaðar voru til sölu hér á landi í ágóðaskyni. Ákærði Gareth John tók á móti efninu af ónafngreindum manni í London og afhenti það ákærða Víði, sem flutti efnið til landsins, en það fannst í farangri hans við komu hans frá London 24. júlí 2000.

Sýni úr ofangreindum fíkniefnum voru send til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents kemur fram, að töflurnar innihéldu metýlendíoxýmetýlamfetamínklóríð (MDMA-klóríð) og voru 71 mg – 96 mg í hverri töflu.

Af hálfu kærða Gareth er því haldið fram, að ósannað sé að hann hafi átt þátt í skipulagningu eða fjármögnun fíkniefnanna eða staðið að innflutningi þeirra. Er í héraðsdómi lýst þeim hluta sakargifta, sem hann játar. Telur ákærði verknað sinn ekki falla undir íslenska refsilögsögu þar sem hann sé breskur ríkisborgari og verknaður hans framinn innan breskrar refsilögsögu.

Héraðsdómari hefur metið framburð ákærða Gareth á þann veg, að hann sé ótrúverðugur og með ólíkindablæ, en framburður ákærða Víðis aftur á móti trúverðugur og stöðugur í öllum meginatriðum. Hefur því mati ekki verið hnekkt. Fram er komið, að þeir sammæltust um innflutning fíkniefnanna á Íslandi og unnu síðan saman að flutningi efnanna til landsins. Er verknaður þeirra beggja réttilega heimfærður til 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 65/1974. Tilvitnun héraðsdóms til 2. tl. 1. mgr. 5. gr. hegningarlaga á hér ekki við.

II.

       Við ákvörðun refsiviðurlaga ber þess að gæta í fyrsta lagi að ákærði Víðir hefur hvorki hlotið refsingu fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni né sætt refsingum fyrir brot á hegningarlögum og ákærði Gareth hefur ekki sætt refsingu svo að vitað sé. Í öðru lagi er til þess að líta að samkvæmt upplýsingum ákæruvaldsins var hluti innfluttu efnanna undir venjulegum styrkleika. Í þriðja lagi ber að gæta þess að ákærði Víðir játaði brot sitt skýlaust og aðstoðaði yfirvöld við að upplýsa brotið, og þykir rétt að hann njóti góðs af því við ákvörðun refsingar, sbr. 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Síðast en ekki síst verður að líta til þáttar hvors hinna ákærðu í brotinu. Fram er komið að þáttur þeirra var mjög misjafn þótt þeir hafi staðið saman að því í skilningi 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði Gareth hafði frumkvæði að ýmsu er laut að Lundúnaferð þeirra. Þannig pantaði hann í sínu nafni fyrir ákærða Víði gistingu á gistiheimilinu þar sem þeir bjuggu. Þá hefur ákærði Gareth sagt að ákærði Víðir hafi ekki verið öruggur með sig í heimsborginni og því komið með honum og sambúðarkonu hans í útsýnisferðir um borgina. Héraðsdómari mat framburð ákærða Víðis trúverðugan en hann hefur borið að ákærði Gareth hafi fjármagnað ferð sína og hafi ætlað að greiða sér 350.000 krónur fyrir að flytja inn efnið. Útskrift af bankareikningum ákærða Gareths sýnir að honum var unnt að fjármagna ferðirnar og fíkniefnakaupin, en þeir eru sammála um að ákærði Víðir var fjárvana. Fingraför ákærða Gareths og einhvers óþekkts manns voru á umbúðum utan um fíkniefnin. Fingraför ákærða Víðis fundust þar ekki, þótt efnunum hafi verið komið fyrir í farangri hans. Gögn málsins styðja því framburð ákærða Víðis á flesta lund. Þykir hafið yfir vafa að miða megi við að frásögn hans sé rétt. Þótt þáttur hans í brotinu hafi verið nauðsynlegur og hann hafi sammælst við ákærða Gareth um innflutninginn og brotið sé því alvarlegt, þykir refsing hans nægjanlega ákveðin 5 ára fangelsi. Refsing ákærða Gareths er hins vegar hæfilega ákveðin 7 ára fangelsi í héraðsdómi, en um var að ræða innflutning á verulegu magni af hættulegu fíkniefni í ábataskyni.

          Til frádráttar refsingu beggja ákærðu kemur gæsluvarðhald þeirra, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað og upptöku fíkniefna er staðfest.

Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði Gareth John Ellis sæti fangelsi í 7 ár.

Ákærði Víðir Þorgeirsson sæti fangelsi í 5 ár.

Til frádráttar refsivist ákærðu komi gæsluvarðhald, sem þeir hafa sætt, ákærði Víðir frá 25. júlí 2000 og ákærði Gareth frá 25. ágúst sama ár.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði Gareth greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Róbert Árna Hreiðarssyni hæstaréttarlögmanni, 150.000 krónur.

Ákærði Víðir greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni, 150.000 krónur.

Allan annan kostnað af áfrýjun sakarinnar greiði ákærðu óskipt.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2001.

Ár 2001, miðvikudaginn 28. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 19/2001:  Ákæruvaldið gegn Gareth John Ellis og Víði Þorgeirssyni, en málið var dómtekið þann 8. þ.m.

Málið er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara dagsettu 8. janúar sl. gegn ákærðu, Gareth John Ellis, kt. 051172-2139, Trönuhólum 3, Reykjavík, og Víði Þorgeirssyni, kt. 010566-4609, Reykjavíkurvegi 31, Reykjavík, „fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, með því að hafa í júlí 2000 staðið saman að innflutningi á samtals 5007 töflum og 5,05 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA (3.4 metýlendíoxýmetamfetamíni), sem ætlaðar voru til sölu hérlendis í ágóðaskyni. Ákærði Gareth John móttók fíkniefnið af ónafngreindum manni í London og afhenti það þar ákærða Víði sem flutti fíkniefnið til landsins, en það fannst í farangri hans við komu hans til Keflavíkurflugvallar frá London 24. júlí 2000.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 65, 1974.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Ennfremur er þess krafist að 5007 töflur og 5,05 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA verði gert upptækt, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.”

Verjandi ákærða, Gareth John Ellis, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhaldsvist ákærða, sem hann sætti vegna rannsóknar máls þessa, verði frádregin refsingunni. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Verjandi ákærða, Víðis Þorgeirssonar, gerir þær kröfur að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.  Þá krefst hann þess að gæsluvarðhaldsvist ákærða, sem hann sætti vegna rannsóknar máls þessa, verði frádregin refsingunni.  Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

I.

Málavextir.

Þann 24. júlí 2000 kom ákærði Víðir til Keflavíkurflugvallar með flugi um klukkan 12.10 frá Stansted flugvelli í London. Þegar hann hugðist fara í gegnum tollhlið merkt „enginn tollskyldur varningur” var hann stöðvaður, farangur hans gegnumlýstur og í kjölfar þess vísað til leitarklefa til frekari skoðunar.  Við leit tollgæslunnar í farangri ákærða fannst fyrst í sokkapari lítill pakki sem brúnt límband var vafið utan um.  Samskonar pakki reyndist vera í jakkavasa á brúnum jakka sem var í sömu tösku.  Aðspurður sagðist Víðir ekki vita hvert innihaldið væri, þetta hefði hann aldrei séð fyrr.  Annar þessara pakka var þá opnaður af tollgæslu og kom í ljós að hann innihélt litlar hvítar töflur.  Í annarri tösku ákærða Víðis fundust síðan 8 samskonar pakkar sem voru faldir í 4 málmdósum undan tei og sælgæti.  Samtals fundust því 10 pakkar.  Var Víðir handtekinn klukkan 13.00 vegna tilraunar til innflutnings á ætluðum fíkniefnum og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem farangur hans var afhentur tæknideild lögreglunnar í Reykjavík til frekari rannsóknar. 

Við rannsókn á farangri ákærða Víðis kom í ljós að frágangur taflnanna var með þeim hætti að þær voru í glærum plastpokum með plastrennilás.  Pökkunum hafði verið rúllað upp og þeir vafðir með ljósbrúnu límbandi (pökkunarlímbandi), samtals 10 pakkningar.  Þessar pakkningar innihéldu ætlaðar ecstacy töflur, samtals 5007 stykki auk 5,05 g af mulningi.  Tæknideild lögreglunnar ljósmyndaði hvernig fatnaði og málmboxum hafði verið komið fyrir í farangrinum og hvernig pakkningunum var komið fyrir í boxunum og fatnaðinum. Síðan var leitað fingrafara á límbandsvafningunum með seguldufti og þau för sem í ljós komu voru varðveitt.  Að því loknu var skorið á vafningana og plastpokar með töflunum fjarlægðir. Er töflurnar höfðu verið fjarlægðar og þær taldar var leitað fingrafara á plastpokunum.  Einnig var leitað fingrafara á málmboxunum.  Þau för sem komu í ljós á plastpokunum var síðan lyft.  Níu af fingraförunum reyndust samanburðarhæf og var unnt að samkenna 8 þeirra við ákærða Gareth.

Þann 25. júlí sl. sendi tæknideild lögreglu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði beiðni þess efnis að sýni taflanna yrði rannsökuð og efnagreind.  Samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents í eiturefnafræði við Háskóla Íslands, ,sem hann hefur staðfest fyrir dómi, innihéldu töflurnar metýlendíoxýmetýlamfetamínklóríð (MDMA-klóríð) og var þannig staðfest að töflurnar væru ecstacy töflur.

Í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu upplýsti ákærði Víðir að ákærði Gareth hafi beðið hann um að flytja fíkniefnin til landsins. Í kjölfar þessa framburðar ákvað lögreglan að krefjast símhlustunar á símum Gareths og fékkst hlustun í eina viku á þremur númerum, heimasíma að Trönuhólum 3 og tveimur GSM símum.  Ekkert markvert kom út úr hlustun þessari. Samkvæmt gögnum sem lögregla aflaði af símaskiptum milli ákærðu á tímabilinu 11. júlí uns ákærði víðir var handtekinn 24. sama mánaðar voru skráðar 5 símahringingar 11. júlí til 17. júlí úr síma ákærða Gareths í síma ákærða Víðis en 2 úr síma Víðis í síma Gareths.

II.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu við rannsókn og meðferð málsins.

Ákærði Víðir sagði í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu þann 24. júlí sl. að ákærði Gareth Ellis, fyrrverandi vinnuveitandi hans, hafi hringt í sig tveimur til þremur vikum áður og síðan komið heim til hans og boðið honum að fara út og flytja inn fyrir sig fíkniefni gegn greiðslu.  Gareth hafi boðið honum 350.000 krónur fyrir þetta og allt uppihald.  Gareth hafi aldrei nefnt hvaða fíkniefni væri um að ræða né magn þeirra en hins vegar hafi Gareth sagt að hann myndi fara með ákærða Víði til London.  Ákærði Víðir kvaðst ekki hafa gefið Gareth svar fyrr en viku seinna þegar hann hringdi í Gareth og sagðist vera til í þetta en tók þá jafnframt fram að hann vildi ekkert vita meira um málið.  Gareth hafi þá komið heim til hans, látið hann hafa 225.000 krónur og sagt honum að skipta 200.000 krónum í sterlingspund en 25.000 krónur væru fyrir flugmiða fyrir Víði til London.  Aðspurður um frekari gjaldeyriskaup sín kvaðst hann hafa tekið við 50.000 krónum frá Gareth í farareyri þegar sá síðastnefndi kom til hans að sækja pundin og segist Víðir hafa skipt því fé í ensk pund á flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Hann hafi skrifað eftir Gareth upplýsingar um flugið og áfangastað.  Hann hafi svo skipt fénu í tveimur bönkum og keypt flugmiðann um viku fyrir brottför.  Kvað hann Gareth hafa komið heim til sín og sótt pundin á þriðjudeginum áður en fara átti utan. Víðir tók fram að Gareth hafi talað um að þeir skyldu halda sig hvor frá öðrum þegar þeir færu út og eins þegar þeir kæmu heim.  Þeir hafi síðan hist á Stanstead flugvelli þegar þeir biðu eftir töskunum sínum.  Með ákærða Gareth hafi verið Inga, unnusta hans, og hafi þau öll tekið lest að einhverri brautarstöð þar sem þau fundu sér hótel í gegnum umboðsaðila.  Hótelið stæði við Gareth Dover street nr. 165. Ákærði Gareth hafi séð um þessi samskipti og greitt fyrir þau gistinguna með peningum.  Víðir sagði að þau Gareth hafa farið eitthvað saman þegar þau komu á hótelið og hann hafi sjálfur eytt deginum einn.  Hann hafi einungis hitt þau í skamma stund um kvöldið.  Laugardeginum og sunnudeginum hafi þau hins vegar eytt þrjú saman á rölti um London.  Ákærði Víðir kvað meðákærða Gareth hafa komið inn á hótelherbergi sitt á sunnudagskvöldinu.  Gareth hafi tekið töskur Víðis yfir í sitt herbergi en Víðir sagðist hafa verið búinn að pakka niður fyrir flugið morguninn eftir.  Gareth hafi síðan komið aftur með aðra af töskunum, sem fíkniefnin fundust síðar í, og sagst ætla að setja þetta í töskuna með leikföngunum.  Þau hafi svo öll farið saman út að borða og hafi Gareth keypt límband því hann sagðist þurfa að ganga betur frá þessu.  Kvaðst Víðir hafa farið að horfa á sjónvarp þegar þau komu aftur á hótelið og Gareth hafi síðan komið með hina töskuna.  Víðir kvaðst hafa sett í þá tösku nokkur óhrein handklæði og lokað henni svo.  Hann hafi ekki vitað hvernig Gareth hafi gengið frá fíkniefnunum né vitað hvað Gareth hafi sett í töskuna.  Þau hafi farið þrjú saman út á Stanstead flugvöll. Gareth hafi sagt við sig hvort hann færi ekki á undan í innritunina.  Hittust þau eftir þetta aðeins í kaffiteríu á flugvellinum en sátu ekki saman í flugvélinni á leiðinni heim.  Þau hafi engin samskipti haft er þau voru lent og það síðasta sem hann hafi séð af þeim var þegar hann beið eftir töskunum sínum á Leifstöð.  Víðir kvaðst hafa verið með GSM síma sinn og keypt í hann símakort í ferðinni.  Spurður um laun kvaðst hann hafa haft 250-300.000 krónur síðustu tvo mánuði en á veturna um 100.000 krónur eða lægra.  Hann kvað einu eign sína vera gamall jeppi.  Hann sagðist hvorki neyta fíkniefna né selja þau.  Hann tók það fram í lok fyrstu yfirheyrslu að hann sæi mikið eftir þessu. Hann kvaðst hafa verið talsvert blankur og hafa verið á leiðinni í sumarfrí með börnin sín tvö og séð fram á að geta notað peningana sem hann átti að fá fyrir þetta.  Hann hafi verið orðinn þreyttur á að vinna mikið fyrir lélegum launum og hann ætti ekki fyrir skuldum. Víðir tók fram að þegar hann heyrði að þetta hefðu verið E-töflur sem hann var með og hversu mikið magn þetta var hafi hann orðið feginn að hann var handtekinn og E-töflurnar kæmust ekki á markað hér.

Við yfirheyrslu hjá 31. júlí var ákærði Víðir spurður um tengsl sín við Gareth. Sagðist Víðir hafa verið í vinnu hjá Gareth og öðrum manni á árunum 1995-1996 í fyrirtækinu Íslandsdekk.  Hann hafi ekki hitt Gareth fyrir utan vinnuna en rætt við hann eins og aðra vinnufélaga.  Kvaðst Víðir hafa í vetur, fyrir áramót, farið í kaffi til Gareth sem þá hafi verið með dekkjaverkstæði við Kleppsmýrarveg.  Hann hafi staldrað við í tvo til þrjá tíma og m.a. unnið í jeppanum sínum.  Víðir kvaðst síðan hafa farið til Gareths í apríl og farið eftir að hafa drukkið með honum einn kaffibolla.  Hann tók fram að engin símasamskipti né önnur samskipti hafi verið milli þeirra í vetur eða á síðasta ári, þ.e. áður en hann hitti Gareth í fyrra skiptið sl. vetur.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 10. nóvember er ákærða Víði kynntur framburður meðákærða Gareth frá 28. ágúst sem síðar verður rakinn.  Kvað Víðir framburð Gareths uppspuna og rangan varðandi fjármögnun, skipulagningu, framkvæmd og þóknun fyrir innflutninginn.  Hann ítrekaði að sinn fyrri framburður væri réttur.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 28. nóvember var ákærði Víðir spurður um samtöl sín til Spánar á þessum tíma.  Kvaðst hann hafa talað a.m.k. tvisvar við Þórarin vin sinn, sem staddur var á Spáni, áður en hann fór til London og einu sinn meðan hann var í London. Kvaðst Víðir hafa gætt íbúðar hans og tekið póst fyrir hann og fleira. Gareth hafi aldrei verið viðstaddur þessi símtöl en hins vegar hafi hann sagt Gareth frá símtalinu í London. Hann sagði þessi símtöl ekki á neinn hátt hafa tengst innflutningi fíkniefnanna.

Framburður ákærða Víðis fyrir dómi var í öllum meginatriðum í samræmi við framburð sinn fyrir lögreglu að öðru leyti en því að hann kvað Gareth hafa hringt í sig og komið í heimsókn og boðið sér að flytja inn fyrir sig fíkniefni um þremur til fimm vikum áður, en ekki tveimur til þremur vikum áður.  Um samskipti hans og Gareths að öðru leyti áður en þeir fóru utan sagði ákærði að Gareth hafi hringt í sig, annars vegar til að fá hjálp vegna bilaðs bíls en hins vegar til að fá að láni gas fyrir grillið.  Gareth hafi séð um að finna hótel í London og skrá þau þrjú inn á það.  Eftir að þau fóru með töskurnar inn á herbergin kvaðst ákærði hafa sest út á pöbb sem var við hliðina á hótelinu. Gareth og Inga hafi svo komið þangað út og sagst ætla að skreppa eitthvað. Hann hafi ekki hitt þau aftur fyrr en um klukkan 10.00 um kvöldið.  Hótelið hafi verið í mörgum húsum og einungis hægt að fá einsmanns herbergi.  Hann hafi verið með herbergi í einu húsi en Gareth og Inga með tvö herbergi í öðru húsi. Ákærði sagðist hafa verið þar til að byrja með en Gareth hafi spurt sig á laugardeginum hvort hann vildi ekki flytja yfir í herbergið við hliðina á þeim. Kvaðst hann hafa farið þar yfir annað hvort á laugardaginn eða þá um kvöldið.  Á sunnudeginum hafi þau farið á stóran markað og svo út að borða um kvöldið á matsölustað rétt hjá hótelinu.  Minntist hann þess að hafa tekið eftir því að Gareth og Inga keyptu sér nokkrar kaffi- og te dósir sem voru sams konar og þær sem fundust í farangri hans á Leifsstöð.  Aðspurður um hvernig fíkniefnunum var komið fyrir kvað hann Gareth hafa beðið um töskurnar inn í herbergið sitt og fengið þær. Gareth hafi komið með þær eftir svolítinn tíma inn til hans aftur og skildist honum þá að Gareth væri búinn að ganga frá fíkniefnunum.Ákærði Gareth John Ellis tjáði hann sig sjálfstætt um sakarefnið í fyrstu yfirheyrslu 15. ágúst.  Kvaðst hann hafa verið í sömu vél heim og ákærði Víðir en það sem Víðir var með hafi ekki verið sín eign.  Hann hafi farið til London 21. júlí sl með sambýliskonu sinni.  Þau hafi hitt Víði á flugvellinum í Keflavík.  Hann hafi ekki séð hann aftur fyrr en á Liverpool lestarstöðinni í London þar sem lestirnar koma frá Stansted flugvelli.  Þau hafi hist á upplýsingaskrifstofu þar sem hægt var. að panta gistingu.  Gareth kvaðst þar hafa séð um að bóka á sínu nafni þrjú herbergi á gistiheimili í London sem hafi verið eins konar stúdentagarðar. Hann hafi þurft að bóka þau í sitt hvort herbergið vegna öryggisreglna gistiheimilisins. Gareth kvaðst hafa gert þetta svona þar sem röðin við bókunarborðið var löng og hann átti auðveldast með að tala ensku en kvaðst ekki muna nákvæmlega hvort Víðir bað hann um að bóka fyrir sig.  Hann hafi bara gert það.  Sagðist Gareth hafa fengið tvö herbergi hlið við hlið fyrir sig og Ingu en Víðir hafa verið annars staðar í byggingunni.  Aðspurður kvaðst Gareth hafa farið einn á föstudeginum að reyna að hitta vini sína í London en þau hafi ekki verið heima.  Þau Inga hafi verið saman á föstudagskvöldinu. Áður en þau fóru niður í bæ og út að borða hafi þau séð Víði á bar við sömu götu og gistiheimilið.  Hann hafi svo hitt Víði úti í garði gistiheimilisins á laugardeginum og spjallað við hann.  Ákærði Gareth kvað Víði ekki hafa verið öruggan með sig í borginni og hann því komið með þeim Ingu í búðir og útsýnisferð um borgina.  Hann kvaðst ekki muna hvað þau gerðu á laugardagskvöldið en á sunnudeginum ætluðu hann og Inga á markað.  Víðir hafi viljað koma með þangað.  Þau hafi ætlað snemma af stað á sunnudagsmorgninum en erfitt hafa verið að koma skilaboðum til Víðis í hans herbergi og Víðir hafi þess vegna komið yfir í annað herbergið sem þau notuðu ekki.  Taldi Gareth að það hafi verið á laugardeginum sem hann lét Víði hafa lykilinn að því herbergi.  Þau hafi eytt öllum sunnudeginum á markaðinum og Víðir hafi stundum verið með þeim og stundum ekki. Gareth kvað Víði hafa boðið þeim um kvöldið út að borða á.  Þau hafa dvalið öll þrjú í sameiginlega rými fyrir herbergin (setustofa og eldhús) á sunnudagskvöldinu og einnig á laugardagskvöldinu.  Um atvinnu sína og laun kvaðst Gareth vera að reyna að stofna heildsölu en hafi verið með hjólbarðaverkstæði sem hann hafi lokað í maí.  Hafi hjólbarðaverkstæðið gengið vel um vorið og hann hafi hagnast vel.  Aðspurður um gjaldeyriskaup sín fyrir ferðina til London kvaðst Gareth sjálfur hafa keypt fyrir 100.000 krónur og kvað Ingu hafa skipt 100.000 krónum milli sín og systur sinnar og hafi þær farið hvor í sinn bankann til að skipta. Ástæðu þessa hafi verið sú að lágmarkið til að fá gjafir hjá bankanum væri 30.000 kr.  Aðspurður um neyslu fíkniefna kvaðst ákærði Gareth neyta þeirra endrum og eins en ekki mikið að undanförnu.  Hann kvaðst ekki hafa neitt fíkniefna í ferðinni til London og ekki hafa orðið var við meðhöndlun fíkniefna á gistiheimilinu þar.  Ákærði Gareth neitaði því að hann hefði beðið meðákærða Víði um að fara til London og flytja inn fíkniefni fyrir sig. Hann væri fyrrverandi vinnuveitandi hans og hafi ekki haft mikið samneyti við hann.  Gareth neitaði því að hafa boðið Víði 350.000 krónur og allt uppihald fyrir að flytja inn fyrir sig fíkniefni þar sem hann hafi ekki beðið Víði um það.  Ennfremur neitaði Gareth að hafa beðið Víði um að skipta fyrir sig peningum. enda hafi hann sjálfur skipt peningum.  Þá neitaði hann ennfremur að hann hafi tekið töskur Víðis úr herbergi hans og sett í þær fíkniefni.  Aðspurður um þá muni sem þau keyptu á markaðinum kvaðst hann hafa týnt dósunum og handjárnum.  Hann taldi að Inga hefði pakkað dósunum niður í töskurnar en svo hafi komið í ljós þegar þau tóku upp úr þeim að svo var ekki.  Kvaðst hann ekki geta skýrt af hverju dósirnar fundust í farangri Víðis.  Meðákærði hafi haft aðgang að herbergi þeirra Ingu þar sem það var stundum ólæst þegar þau voru frammi í sjónvarpsherberginu. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við að Víðir yfirgæfi sjónvarpsherbergið á sunnudagskvöldinu. 

Við yfirheyrslu 28. ágúst breytti ákærði Gareth fyrri framburði sínum.  Sagðist hann nú hafa verið einn í um klukkustund á föstudeginum.  Ákærði kvaðst hafa sagt Ingu að hann ætlaði að fara og hitta vini sína en í staðinn hafi hann farið þvert yfir London til að fara á fund.  Þennan sama dag hafi Víðir látið hann hafa umslag með heimilisfangi á bar og í því hafi verið peningar.  Hann hafi átt að fara á barinn, afhenda peningana og fá afhentan pakka.  Umslagið hafa verið innsiglað og hann hafi ekki vitað hversu miklir peningar voru í því.  Hann hafi farið inn á barinn og þar hafi fólkið beðið eftir sér.  Hann hafi ekkert stansað inni á barnum heldur farið út með fólkinu í bifreið þar sem hann hafi látið þau fá peningana og þau látið hann fá brúnan bréfpoka.  Kvaðst ákærði Gareth hafa opnað pokann og séð að hann var fullur af litlum plastpokum með pillum í.  Hann hafi vitað að þetta voru ecstasy töflur.  Hann hafi ekki vitað nákvæmlega hvað þetta voru margar töflur enda ekki talið þær.  Fólkið hafi opnað umslagið og skoðað seðlana en ekki haft tíma til að telja þá því hann hafi verið svo stutt í bílnum.  Meðan þessi skipti fóru fram hafi verið ekið um í nágrenni barsins.  Hann hafi svo verið skilinn eftir í úthverfi í hinum enda borgarinnar.  Kvaðst ákærði hafa hálfvegis misst kjarkinn því hann vissi ekki að þetta yrðu svona margar E-töflur. Hann hafi farið inn í næsta stórmarkað því honum hafi fundist hann vera mjög áberandi með þennan brúna bréfpoka.  Þar hafi hann keypt brúnt límband, farið inn á salernið og tekið alla plastpokana úr brúna bréfpokanum, vafið límbandinu utan um plastpokana og stungið pakkningunum inn á sig.  Hann hafi gert sér grein fyrir síðar að lögregla myndi finna fingraför sín á pokunum.  Að svo búnu hafi hann farið aftur á gistiheimilið.  Hann hafi farið inn í aukaherbergið sem þau Inga höfðu, farið í sturtu, skilið allar pakkningarnar eftir í skúffu í herberginu og læst því.  Næsta dag hafi hann sagt Ingu einhverja tilliástæðu til að hann gæti látið Víði fá aukaherbergið og lykilinn að því.  Sagði hann að það sem eftir var ferðarinnar hafi verið eins og hann hafi áður sagt.

Er ákærði Gareth var inntur nánar eftir skipulagningu innflutnings fíkniefnanna kvaðst hann ekki hafa hitt meðákærða Víði lengi.  Hann hafi vantað gas á frídegi á gasgrillið, líklega á annan í hvítasunnu, og dottið í hug að hringja í Víði sem hafi lánað sér gaskút.  Þegar hann hafi hitt Víði þá hafi Víðir rætt þá hugmynd að flytja inn fíkniefni og selja þau vegna fjárhagsörðuleika Víðis.  Víðir hafi þá látið sig fá lítinn poka með amfetamíni.  Næst þegar hann hitti Víði kvaðst ákærði hafa sagt honum að þau Inga væru að hugsa um að fara til London eina helgi.  Hann hafi svo hitt Víði tveimur dögum síðar og þá hafi Víðir beðið sig um að sjá um að afhenda peningana og ná í fíkniefnin í London.  Því hafi hann játað.  Þeir hafi jafnframt ákveðið að Víðir myndi ekki segja neinum frá honum og Gareth myndi ekki segja Ingu frá þessu.  Kvaðst Gareth hafa átt að fá 100.000 krónur fyrir þetta.  Hann hafi áður keypt pillur af fíkniefnasölum og ekki fundist mikill munur á.  Hann hafi ekki áttað sig á að þetta væri svona mikið.  Ákærði kvaðst hafa sagt meðákærða Víði hvar þau bókuðu flugið.  Taldi hann að hann hefði hringt í Víði til að segja honum þetta svo að hann kæmist með sama flugi og þau til London.  Kvaðst Gareth ekki hafa vitað hvort af þessu yrði fyrr en hann hitti Víði á flugvellinum.  Aðspurður kvaðst Gareth ekki vita hvernig Víðir komst í samband við fíkniefnasala í London en Víðir hafi verið með síma allan tímann.  Ákærði neitaði því að hann hefði gefið Víði upplýsingar um fíkniefnasalann.  Hann kannaðist hins vegar við að Víðir hafi sagt honum að hann ætti að fá E-töflur afhentar á þessum bar.  Það hefði þó ekki skipt máli hvaða fíkniefni voru í pakkanum, þó hefði hann hugsanlega sett mörkin við heróín  Sagðist hann halda að Víðir hafi ekkert talað um hve margar E-töflurnar áttu að vera enda hefði það ekki skipt máli því maður gerði sér ekki grein fyrir því fyrr en maður sæi töflurnar.  Aðspurður hvort það væru venjulegir viðskiptahættir þegar fíkniefni væru keypt að telja ekki greiðsluna og vita ekki magn keyptra fíkniefna kvaðst hann halda að þetta væri ekki venjan.  Hann sagðist alltaf telja þegar hann keypti efni sem væri alltaf í litlu magni.  Segist hann hafa átt von á því að fíkniefnin væru innsigluð.

Við yfirheyrslu lögreglu 31. ágúst kvaðst ákærði Gareth hafa verið u.þ.b. klukkutíma að sækja E-töflurnar  Hann hafi gengið frá gistihúsinu að neðanjarðarstöð, tekið lestina, þurft að skipta tvisvar um lest og gengið svo frá lestarstöðinni.  Kvaðst hann ekki muna hvað lestarstöðin heitir sem hann fór út á en hún væri á grænu línunni.  Á umslaginu sem hann fór með hafi verið nafn á neðanjarðarlestarstöðinni og nafnið á barnum.  Kvaðst Gareth ekki hafa vitað hvernig hann átti að komast á barinn frá lestarstöðinni en hann hafi spurt til vegar á brautarstöðinni.  Ákærði minntist þess að hafa farið í verslun á laugardeginum eða sunnudeginum. Hann kvaðst vera sammála framburði Ingu, sem síðar verður rakinn, um atburði föstudagsins að öðru leyti en því að þau hafi eytt um 180.000 krónum í ferðinni. Hann minntist þess ekki að hafa keypt límband í stórmarkaði.

Við yfirheyrslu lögreglu 11. september sagði ákærði að þau Inga hafi verið að leita að herbergjunum á gistiheimilinu þegar meðákærði Víðir afhenti honum umslagið og miðann, en Inga hafi ekki orðið vör við þetta.  Víðir hafi minnst á að fara sem fyrst.  Hann neitaði því að það hafi verið hans hugmynd að nota aukaherbergið sem geymslustað fyrir E-töflurnar.  Þá skýrði ákærði Gareth frá því hvaða leið hann hafi farið frá gistiheimilinu að barnum þar sem hann fékk E-töflurnar afhentar.  Kvaðst hann hafa tekið lest frá Borough á svartri línu neðanjarðarlestarkerfisins en gistiheimilið hafi verið þar rétt hjá.  Hann hafi farið af við stöð sem heitir Bank og gengið að stöð sem heitir Monument.  Þar hafi hann tekið grænu línuna vestur til vesturhluta Lundúna og farið út á lestarstöð sem heitir Ravenscourt Park.  Er eftir honum haft að honum hafi fundist þetta lengri leið en þetta væri samkvæmt korti sem hann skoðaði í yfirheyrslunni af neðanjarðarlestarkerfinu.  Eftir skiptin í bílnum hafi Stamford Brook verið næsta lestarstöð en hún væri líka á grænu línunni.  Kvaðst hann hafa farið þaðan sömu leið til baka.  Eftir skoðun á korti kvaðst Gareth telja að barinn hafi staðið við King Street.  Hann sagðist ekki hafa komið skilaboðum til Víðis á föstudagskvöldinu um að allt hafi gengið að óskum, enda hafi honum ekki fundist það þar sem hann hafi enn verið í uppnámi þegar hann kom til baka.  Ákærði taldi eitt stykki E-töflu kosta 10 pund en hann kvaðst ekki vera viss um verðið þegar keypt væri í miklu magni.  Á Íslandi hafi hann greitt frá 2.000 til 4.000 krónur fyrir hverja E-töflu.  Aðspurður um peningaúttektir og innlagnir sínar í maí 2000 kvaðst hann hafa greitt eitthvað vegna fyrirtækis síns og svo hafi hann farið með fjölskyldu sína í tvær til þrjár vikur í maí til Norður Wales í heimsókn til systur sinnar og keypt 5000 pund fyrir þá ferð.  Gjaldeyriskaup sín í maí sl. fyrir rúmlega eina milljón íslenskra króna útskýrði hann með þeim hætti að hann hafi tekið út „svarta peninga”og hafi þeir verið fyrir ferðalaginu til Norður Wales.  Hann hafi ætlað að kaupa tvö mótorhjól í þeirri ferð, koma með þau bæði heim og selja annað.  Ekkert hafi hins vegar orðið af því. Hann hafi keypt þar gírkassa og mismunadrif fyrir bifreið sína og kerru undir sæsleða.  Kvaðst hann hafa komið heim með um hálfa milljón króna til baka en þau hafi verslað mikið þarna úti. 

Við yfirheyrslu lögreglu þann 27. nóvember sagði ákærði að eftir á að hyggja hafi hann tengt símtöl Víðis í Londin til Spánar við fíkniefnakaupin. . Hann skýrði nú svo frá að hann myndi ekki hvenær og hvort Víðir skýrði honum frá því að um E-töflur væri að ræða, en hann hafi grunað að svo væri.  Varðandi símagögn þau sem lögregla aflaði með hlustun neitaði hann því að símtölin tengdust á einhvern hátt fíkniefnum eða fíkniefnainnflutningi.

Fyrir dómi bar ákærði Gareth í flestum meginatriðum með sama hætti og áður en bætti einnig nokkuð við sinn fyrri framburð.  Í nokkrum atriðum var framburður hans þó á annan veg en við rannsókn málsins.  Hann sagðist hafa skilað Víði gasinu, sem hann fékk lánað um hvítasunnuhelgina, einni eða tveimur vikum fyrir ferðina til London.  Þá hafi hann sagt Víði að þau ætluðu að fara þarna út og hann myndi aðstoða Víði ef þetta væri þá helgi sem Víðir ætlaði að flytja inn fíkniefnin.  Kvaðst ákærði Gareth ekki hafa vitað þegar hann fór út á flugvöll að hann myndi sækja fíkniefnin fyrir Víði, en hann hafi sagt Víði 1-2 vikum áður að þau Inga væru að fara til London.  Ákærði sagði að þeir Víðir hafi hist á Liverpoolstöðinni af tilviljun og hafi Víðir beðið sig um að taka hann með í hótelpöntuninni.  Kvaðst ákærði hafa sagt Ingu er hann hafði fengið umslagið frá Víði að hann þyrfti að bregða sér frá til að hitta vin sinn  Þeir Víðir hafi ekki þurft að ræða þetta þarna úti þar sem Víðir hafi beðið hann um þetta áður og kvaðst ákærði því „sjálfkrafa” vitað að hann myndi „fara og gera þessi skipti” ef ákærði Víðir kæmi átil London.

Ákærði Gareth sagði fyrir dómi að það hafi tekið hámark fimm mínútur að ganga frá gistihúsinu að neðanjarðarlestarstöðinni Boroug.  Skýrði hann að öðru leyti frá á sama veg og áður um leiðina sem hann fór að barnum.  Hann bætti því við fyrri framburð sinn að þegar hann kom inn á barinn hafi tveir karlmenn, sem vissu nafn hans, nálgast hann.  Einnig lýsti hann nánar bifreiðinni þar sem skiptin fóru fram. Ákærði Gareth sagði nú að ferðin á barinn og til baka hafi tekið hámark tvær klukkustundir.  Bætti ákærði því við fyrri framburð að hann hafi sagt Víði á laugardeginum að pakkarnir væru inni í aukaherberginu.  Ákærði sagði að þau Inga hafi sett allt sem þau keyptu í bakpoka sem þau voru alltaf með, einnig dósirnar sem þau keyptu.  Ákærði sagði að verið gæti að hann hafi skilið bakpokann eftir í setustofunni þegar hann fór í sturtu.  Hann gat ekki gefið aðra skýringu á hvarfi dósanna en þá að meðákærði hafi tekið þær.

Um gjaldeyriskaup sín fyrir rúmlega eina milljón króna í maí 2000 sagði ákærði, eins og áður, að það fé hafi verið ætlað til notkunar í ferð í maí til Norður Wales.  Fyrst sagðist hann hafa eytt mestu af fénu í ferðinni en sagðist svo kunna að hafa komið heim með 600-700 þúsund krónur, hann myndi ekki nákvæmlega hversu miklu hann hafi eytt en það hafi verið töluvert. Sagðist ákærði ekki hafa þurft að gefa upp kennitölu eða því um líkt þegar hann skipti pundum í krónur, hugsanlega vegna þess hann tali alla jafna ensku.  Þess vegna hafi þessi gjaldeyrisviðskipti ekki verið skráð.  Hann hafi lagt þetta fé inn á reikning sinn í smærri fjárhæðum upphæðum til að sýna fram veltu til að geta fengið lánsfé og benti á þrjú innlegg sem samtals námu 655.000 krónum.

Aðspurður kvaðst ákærði Gareth ekki hafa sagt lögreglu hver sannleikurinn væri þegar niðurstöður úr fingrafararannsókn lágu fyrir vegna þess að þegar þetta samkomulag var gert hafi hann gert ráð fyrir að fíkniefnin væru á leiðinni til Spánar. Síðar sagði hann fyrir dóminum að Víðir hafi ekkert sagt um það hvert efnin ættu að fara, en hann hafi dregið sínar eigin ályktanir kannski m.a. vegna þess að Víðir talaði oft um Spán.

Verður nú gerð grein fyrir framburði vitnisins Ingu Hrundar Haraldsdóttur, sambýliskonu ákærða Gareths, við rannsókn og meðferð málsins.  Við fyrstu yfirheyrslu lögreglu 14. ágúst 2000 sagði hún að þau Gareth hafi ákveðið í júlí að fara í helgarferð til London.  Dóttir hennar hafi verið í sveit og þau hafi ákveðið að fara tvö saman. Þau hafi hitt fyrrverandi vinnufélaga Gareths, Víði, eftir að þau fóru um vegabréfsskoðun.  Kvað hún að Gareth og Víðir hafi heilsast og spjallað lítillega saman áður en þau fóru í flugvélina.  Ingu minnti að þau hafi gengið þrjú saman að flugvélinni en eftir það hafi hún ekki séð Víði fyrr en úti í London.  Þau hafi hitt Víði aftur á Liverpool lestarstöðinni.  Inga sagði að þau Gareth hafi ekki pantað sér hótel áður en þau fóru út og því hafi Gareth ákveðið að útvega þeim gistingu. Gareth hafi sagt sér að hann myndi hjálpa Víði til þess líka.  Eftir langa mæðu hafi Gareth tekist að útvega þeim þremur gistingu á gistiheimili í London.  Þau hafi tekið lest og farið út á lestarstöð sem hana minnti að héti Borough. Kvaðst Inga ekki muna hvað gistiheimilið heiti en þau hafi gengið götuna sem lestarstöðin var við í u.þ.b. tíu mínútur áður en þau komu að gistiheimilinu. Þar hafi einungis verið einstaklingsherbergi og hafi þau verið í þremur slíkum.  Þau Gareth hafi síðan einungis notað annað herbergið sem þau höfðu pantað.  Gareth hafi strax farið út því hann hafi ætlað að hitta vini sína en hún hafi á meðan farið í sturtu og tekið upp úr töskunum.  Hann hafi svo komið u.þ.b. klukkustund síðar og sagt að vinir sínir hafi ekki verið heima.  Þau hafi síðan farið tvö út að borða og svo heim á hótelið.  Gistiheimilið hafi verið í nokkrum blokkum með mismunandi inngöngum.  Þau Gareth hafi verið í annarri blokk en Víðir. Víðir hafi síðan komið á laugardeginum í það herbergi sem þau Gareth notuðu ekki. Þau Gareth hafi hitt Víði aftur á laugardeginum og fór hann með þeim í nokkrar búðir og útsýnisferð.  Inga kvaðst ekki muna hvort þau hafi borðað öll saman á laugardagskvöldinu eða sunnudagskvöldinu.  Á sunnudeginum hafi þau þrjú farið saman á markað og eytt deginum þar.  Inga kvaðst ekki muna hvort þau hafi mælt sér mót á mánudagsmorgninum en Víðir hafi verið kominn þangað.  Þau þrjú hafi tekið lest á Stansted flugvöll og hafi leiðir þeirra Gareths og Víðis skilið þegar þau fóru að leita að skrifstofunni fyrir endurgreiðslu skatts af vörum.  Kvaðst hún ekki hafa séð Víði eftir það.

Inga kvaðst ekki hafa orðið vör við meðhöndlun fíkniefna í þessari ferð til London. Hún kvaðst hafa keypt ensk pund fyrir 50.000 krónur. Gareth hafi látið sig fá 100.000 krónur og hún hafi látið systur sína fá 50.000 krónur af því fé til að skipta í öðrum banka.  Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við tösku frá Víði inni á herbergi þeirra Gareths á gistiheimilinu.  Kvaðst hún ekki minnast þess að Gareth hafi einhvern tímann verið einn í einhvern tíma á herberginu þeirra.  Hún kvaðst hafa keypt 3-4 dósir handa móður sinni á markaðnum og minnir hana að í einhverri þeirra hafi verið te og í einhverri hafi verið sælgæti.  Þetta hafi verið járndósir með loki og eitthvað málaðar að utan.  Kvaðst hún hafa haldið að hún hafi pakkað þeim niður en þegar hún kom heim hafi þær ekki verið með.  Hún hlyti að hafa gleymt þeim úti í London á gistiheimilinu.  Nánar aðspurð kvaðst Inga ekki muna nákvæmlega hvort hún pakkaði þessum dósum sjálf niður.  Þau hafi gengið frá öllu því sem þau keyptu um kvöldið og pakkað því niður í farangur sinn.  Er Ingu voru sýndar dósirnar sem fundust  í farangri Víðis kvað hún þær vera þær sömu og hún keypti á markaðinum.  Neitaði hún að hafa tekið þátt í að pakka E-töflum í þessar dósir.

Við yfirheyrslu lögreglu 15. ágúst bar Inga að það gæti verið að þau hafi skilið herbergið eftir ólæst einhvern tímann á tímabilinu frá því þau komu frá markaðinum á sunnudagskvöldinu þar til þau fóru út á flugvöll á mánudagsmorgun en þá aðeins á meðan þau voru frammi í eldhúsi.  Á sunnudagskvöldinu kvaðst hún telja að þau hafi þrjú farið saman út að borða.  Hún hafi horft á sjónvarpið sem var í eldhúsinu bæði kvöldin. Hafi hún horft á sjónvarpið aðeins í stuttan tíma á sunnudagskvöldinu en Víðir og Gareth hafi verið þar líka. Kvaðst Inga hafa farið síðan inn í herbergið sitt í sturtu en Gareth hafi síðan komið eftir að hún var búin í sturtu. Kvaðst Inga ekki muna hvort Víðir hafi farið eitthvað meðan hún var að horfa á sjónvarpið en Gareth hafi setið hjá sér allan tímann.  Víðir hafi örugglega ekki komið inn í herbergi þeirra Gareths á sunnudeginum.  Aðspurð kvaðst Inga ekki vita hvernig dósirnar sem hún keypti hafi komist í farangur Víðis.  Hafi þau sett alla munina sem þau keyptu á markaðinum á sunnudeginum í bakpoka sem Gareth hafi verið með. Inga kvað Gareth hafa pakkað þeim munum sem þau keyptu á markaðinum fyrr um daginn niður í tösku.

Við yfirheyrslu lögreglu 30. ágúst neitaði Inga því að þau Gareth hafi keypt límband á sunnudeginum. Kvaðst hún ekki minnast þess að Gareth hafi keypt límband það kvöld.  Minnti hana að þau hafi stoppað í verslun sem var rétt hjá gistihúsinu og þá hafi hún verið ein inni í búðinni að skoða eitthvað en þegar hún kom til baka hafi þeir verið komnir út og hún hafi haft orð á að þeir hefðu átt að láta hana vita. Hún kvaðst ekki muna hvers vegna Víðir fór með þeim út að borða á sunnudagskvöldinu. Inga bar að hún ætti erfitt með að átta sig á hve miklu þau eyddu í ferðinni en taldi að þau hefðu eytt u.þ.b. 100.000 krónum í mat, verslanir og gistingu.

Fyrir dómi bar vitnið Inga að mestu leyti í samræmi við fyrri framburð sinn.  Bætti hún þó við að erfitt væri að segja hve lengi Gareth hefði verið í burtu á föstudeginum. Taldi hún að hann hefði verið í 1-2 klst. Hún sagði að það hafi verið frekar sameiginleg ákvörðun að Víðir flutti sig yfir í aukaherbergið en að frumkvæði Gareths. Gareth hafi farið til Víðis og leyft honum að fara í herbergið svo þau gætu öll farið saman á markaðinn á sunnudagsmorgninum.

Runólfur Þórhallsson, rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild lögreglunnar, sem stjórnaði rannsókn málsins, kom fyrir og staðfesti gögn málsins.

Þá kom fyrir dóminn sem vitni Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræði við Háskóla Íslands.  Staðfesti hann niðurstöðu matsgerðar sinnar um að sýnishorn taflnanna hafi innihaldið MDMA og að þær féllu undir skilgreiningu breskra laga á MDMA.

III.

Niðurstaða

Ákærðu hafa báðir játað hluta sakargifta á hendur þeim.  Ákærði Gareth hefur játað að hafa að beiðni meðákærða farið á bar í London gegn 100.000 króna þóknun og afhent þar umslag, sem í voru peningar, og að hafa fengið umrædd fíkniefni í staðinn og skilið þau eftir í herbergi, sem hann hafði á leigu, en ákærði Víðir hafði síðar aðgang að.  Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir að um E-töflur var að ræða en ekki vitað um fjölda taflanna.  Þá hefur hann viðurkennt að hafa sagt ákærða Víði hvenær hann færi til London og rætt við hann einni eða tveimur vikum fyrir brottförina. Hafi Víðir þá beðið sig um að sjá um að afhenda peningana og ná í fíkniefnin í London ef Víðir kæmi þangað.  Ákærði Gareth hefur viðurkennt að hann hafi pantað gistingu fyrir Víði þegar þau komu út og að hafa látið Víði hafa aukaherbergið sem var við hliðina á þeim á laugardeginum.  Hann hefur neitað því að þeir hafi ákveðið að flytja fíkniefnin inn í sameiningu, enda hafi hann gert þetta fyrir meðákærða, sem hafi verið í fjárhagsvandræðum.

Ákærði Víðir hefur játað að hafa farið til London og flutt inn fíkniefni í farangri sínum.  Þetta hafi hann gert að beiðni meðákærða Gareths, sem hafi ætlað að borga honum 350.000 króna þóknun fyrir greiðann.  Kveður hann meðákærða hafa komið fíkniefnunum fyrir í tösku hans á hótelherbergi í London.  Þá hefur Víðir skýrt svo frá að hann hafi skipt 200.000 krónum, sem Gareth hafi látið hann fá, í tveim mismunandi bönkum.  Gareth hafi hins vegar tekið þau pund hjá sér á þriðjudegi fyrir brottför og einnig látið sig hafa 25.000 krónum fyrir farseðli og síðar 50.000 krónum í farareyri.  

Fyrir liggur í málinu fingrafararannsókn á þeim fingraförum sem lyft var af fíkniefnapakkningunum.  Kemur þar fram að samanburðarhæf fingraför, sem lyft var af plastpokunum sem fíkniefnin voru í, reyndust samræmast einkennum fingrafara Gareths.

Í máli þessu benda ákærðu hvor á annan og reyna að gera sem minnst úr eigin hlut að fíkniefnainnflutningnum.  Þeir eru sammála um að þeir hafi átt samskipti í apríl og maí 2000 þar sem þeir hafi verið í sambandi vegna bilunar bifreiðar Gareths auk þess sem Víðir hafi lánað Gareth gas fyrir gasgrill um hvítasunnuhelgina.  Er þessi framburður í samræmi við rannsókn lögreglu á útskrift símtala þeirra, en þessi gögn liggja frammi í málinu.  Einnig er fram komið að ákærðu voru í símasambandi skömmu fyrir brottförina til London, eins og að framan er rakið, þótt efni þeirra símtala sé ekki upplýst.

Eins og að framan greinir hefur ákærði Gareth fullyrt að hann hafi sagt meðákærða Víði 1-2 vikum fyrir brottför hvenær hann yrði í London og að hann væri reiðubúinn að aðstoða Víði að sækja fíkniefnin ef til þess kæmi.  Ákærði Víðir fullyrðir hins vegar að hann hafi einungis flutt inn fíkniefnin fyrir meðákærða gegn ofangreindri greiðslu.  Þeir skýra á sama veg frá ferðinni til London og að þeir hafi verið samferða frá þeim stað sem Gareth pantaði gistingu fyrir þá að gistiheimilinu. Ber þeim saman um að þeir hafi ekki verið saman föstudagskvöldinu en það sem eftir var dvalarinnar hafi þeir og Inga, sambýliskona ákærða, verið meira og minna saman.  Ákærði og Gareths, sögðust ekki muna hvað þau gerðu á laugardagskvöldið.  Þau þrjú hafi síðan farið saman í lest frá gistiheimilinu og út á flugvöll en ekki setið saman í flugvélinni á heimleiðinni.  Framburður ákærðu um flest annað er ósamhljóða.

Framburður ákærða Víðis hefur verið trúverðugur og stöðugur í öllum meginatriðum.  Eina misræmi í framburði hans var frásögn hans um það hvenær meðákærði hafði við hann samband í því skyni að fá hann til að flytja efnin til landsins.  Sagði hann í fyrstu við rannsóknina að það hefði verið 2-3 vikum fyrir brottförina en fyrir dómi 3-5 vikum áður.  Þetta misræmi kann að stafa af misminni hans, enda virðist hann hafa lagt spilin á borðið strax í upphafi rannsóknarinnar.  Framburður ákærða Gareths er hins vegar í heild óstöðugur og á stundum ótrúverðugur.  Í fyrstu neitaði hann að vita nokkuð um þennan innflutning.  Síðar breytti hann þeim framburði sínum, er honum var kynnt að fingraför hans hefðu fundist á pakkningunum utan um fíkniefnin, og játaði þátt sinn eins og að framan er lýst.  Frásögn hans um ástæðu þess að meðákærði skipti um herbergi á gistiheimilinu

og hvarf dósanna, sem fíkniefnin fundust í, þykir afar ótrúverðug og bendir til að þáttur ákærða hafi verið annar og meiri en hann hefur viljað játa.  Síðbúin skýring hans á því að hann hafi talið að fíkniefnin ættu að fara til Spánar en ekki til Íslands er einnig ótrúverðug og engum rökum studd og virðist hún frekar vera úr lausu lofti gripin eftir á, enda viðurkenndi hann við rannsókn málsins að þeir Víðir hafi rætt um innflutning Víðis á fíkniefnunum á Íslandi.  Þá þykja skýringar hans á gjaldeyriskaupum hans og innlögn þess fjár sem hann kom heim með á ný úr ferð sinni utan í maí með ólíkindablæ og bendir til þess að ákærði hafi með þessu fé fjármagnað að einhverju eða öllu leyti fíkniefnakaupin.  Þrátt fyrir að trúnaður sé lagður á stöðugan framburð ákærða Víðis og framburður ákærða Gareths sé ótrúverðugur og hvarflandi eru ekki fram komin nægileg gögn í málinu því til sönnunar, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að þáttur ákærða Gareths hafi verið annar en sá að sækja fíkniefnin og afhenda þau meðákærða.  Þegar litið er til framburðar ákærðu þykir einnig fyllilega sannað að ákærði Gareth hafi vitað að fíkniefnin voru E-töflur og hlaut ákærða Gareth að hafa verið það ljóst að fíkniefnin áttu að fara til dreifingar á Íslandi í ágóðaskyni.  Hann lét sér það í léttu rúmi liggja hversu mikið magn fíkniefnanna pakkaði efnunum inn og skildi þau eftir í herbergi meðákærða.  Er fíkniefnin komu til landsins voru þau pökkuð á þann veg sem ákærði hefur lýst.  Samkvæmt þessu getur ákærði ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki tekið þátt í að móttaka og afhenda það magn fíkniefna sem flutt var til landsins.

Með játningu ákærða Víðis og öðru því sem fram er komið þykir sannað að hann hafi flutt inn það magn fíkniefna sem í ákæru er getið. 

Brot ákærða Víðis varðar við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 65, 1974 og brot ákærða Gareth við sömu ákvæði, sbr. og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga, en sækjandi lagði fram gögn við meðferð málsins því til staðfestu að meðhöndlun efnisins MDMA er refsivert á Englandi.

Viðurlög.

Ákærði Víðir var dæmdur 14. september 1991 í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, vegna líkamsárásar.  Hann hefur ekki fyrr hlotið refsingu fyrir fíkniefnabrot og ekki sætt öðrum refsingum fyrir brot gegn hegningarlögum.

Ákærði Gareth hefur ekki sætt refsingu svo vitað sé, hvorki hér né í heimalandi sínu.  Við ákvörðun refsingar ákærða Víðis verður litið til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega.   Sá vafi sem leikur á því hver skipulagði brotið og hvor þeirra fékk hinn til þátttöku í brotinu gegn greiðslu verður að meta báðum ákærðu í hag við ákvörðun refsingar.  Ákærðu áttu báðir sinn þátt í því að mikið magn hættulegra fíkniefna voru flutt til landsins, sbr. H.1997.328, sem ætlað var til sölu hér á landi.  Þykir refsing þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár.

Ákærði Víðir var úrskurðaður í gæsluvarðhald 25. júlí sl. og ákærði Gareth 25. ágúst sl. og hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi síðan.  Ber að draga frá refsingu þeirra gæsluvarðhald þeirra, ákærða Víðis frá 25. júlí sl. og ákærða Gareth frá 25. ágúst sl. að fullri dagatölu.

Upptækt skal gera 5007 töflur og 5,05 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA sem hald var lagt á við rannsókn málsins, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.

Ákærði Víðir er dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls G. Sigurbjörnssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.

Ákærði Gareth er dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róbers Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.

Ákærðu eru dæmdir til að greiða annan sakarkostnað óskipt.

Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara sótti málið af hálfu ákæruvalds

Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærðu, Gareth John Ellis og Víðir Þorgeirsson, sæti hvor um sig fangelsi í 7 ár.  Frá refsingu þeirra skal draga gæsluvarðhald þeirra, ákærða Víðis frá 25. júlí sl. og ákærða Gareth frá 25. ágúst sl. að fullri dagatölu.

Upptækt skal gera 5007 töflur og 5,05 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA.

Ákærði Víðir greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls Georgs Sigurbjörnssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.

Ákærði Gareth greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róbers Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.