Hæstiréttur íslands
Mál nr. 342/2004
Lykilorð
- Kaup
- Forsenda
- Greiðsla
- Dráttarvextir
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2005. |
|
Nr. 342/2004. |
Útfararstofa Íslands ehf. (Steinar Þór Guðgeirsson hrl.) gegn Fjöl-smíð ehf. (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kaup. Forsendur. Greiðsla. Dráttarvextir. Aðfinnslur.
Ú ehf. var gert að greiða F ehf. skuld samkvæmt átta reikningum fyrir 54 líkkistur auk fylgibúnaðar. Mótmælum Ú ehf. við reikningunum, sem komu fyrst fram eftir að F ehf. stefndi Ú ehf. til greiðslu þeirra, var hafnað, en Ú ehf. hafði áður greitt inn á kröfuna. Voru reikningarnir því lagðir til grundvallar um fjölda þeirra líkkista sem Ú ehf. hafði móttekið. Aftur á móti var samningur aðila ekki talinn hafa heimilað F ehf. að fella niður afsláttarkjör til Ú ehf. Var krafa F ehf. því lækkuð um fjárhæð sem svaraði til afsláttarins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. ágúst 2004. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda, en til vara að dómkröfur stefnda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um andvirði átta reikninga alls að fjárhæð 4.035.912 krónur ásamt dráttarvöxtum frá dagsetningu hvers reiknings um sig. Reikningarnir eru dagsettir frá 3. september 2002 til 18. október sama ár og eru fyrir 54 líkkistum auk fylgibúnaðar. Þetta var unnið samkvæmt samningi aðila frá maí 2000, sem var til fimm ára, um að áfrýjandi keypti allar kistur, sem hann þarfnaðist í rekstri sínum hjá stefnda og fengi auk þess aðstoð við útfararþjónustu eftir þörfum. Samhliða þessum samningi gerði Útfararstofa Hafnarfjarðar ehf. einnig sambærilegan samning við stefnda, en sömu aðilar munu standa að stofunum báðum. Samkvæmt samningunum veitti stefndi stofunum 10% afslátt frá útgefnum verðlista og fylgdi hann samningunum. Í 8. gr. þeirra var kveðið á um það að þeim mætti segja upp af hálfu hvors aðila yrði um að ræða verulegar vanefndir.
Með bréfi stefnda 17. október 2002 sagði hann upp báðum samningunum með þriggja mánaða fyrirvara með vísun til 8. gr. þeirra og áttu því þeir að falla niður 31. janúar 2003. Auk þess var áfrýjanda tilkynnt að hann fengi ekki frekari vörur afhentar nema gegn staðgreiðslu. Þá var skorað á hann að greiða eða semja um greiðslu á þeirri skuld, sem í vanskilum væri, eigi síðar en 31. október 2002. Lögmaður stefnda sendi áfrýjanda innheimtubréf 18. nóvember sama ár og krafðist greiðslu skuldarinnar innan sjö daga. Að öðrum kosti kvaðst hann innheimta kröfuna með aðför eða stefna málinu fyrir dóm. Í innheimtubréfi þessu var höfuðstóll kröfunnar tilgreindur eftir að umsaminn afsláttur hafði verið dreginn frá höfuðstólnum. Samkvæmt gögnum málsins greiddi áfrýjandi 400.000 krónur inn á kröfuna 3. desember 2002. Lögmaður stefnda sendi áfrýjanda síðan áminningarbréf 5. sama mánaðar og hafði þá bætt afslættinum við höfuðstól kröfunnar. Segir í bréfinu að á reikningum sé getið um afslátt en þar sem greiðsla hafi ekki borist fyrir eindaga sé sá afsláttur fallinn niður. Stefna var gefin út á hendur áfrýjanda sama dag og birt daginn eftir. Er þar gert ráð fyrir áðurgreindri greiðslu inn á heildarkröfuna. Eftir málshöfðun hefur áfrýjandi greitt fyrst 250.000 krónur 27. desember 2002 og síðar 45.244 krónur 31. mars 2003 og er tekið tillit til þeirra greiðslna í dómsorði héraðsdóms með sama hætti og fyrri innborgunar.
Með bréfi lögmanns áfrýjanda 11. desember 2002 mótmælti áfrýjandi kröfu stefnda og sérstaklega framangreindu áminningarbréfi og taldi ekkert samræmi vera milli þess og innheimtubréfsins, sem áður er getið. Þá hélt hann því fram að reikningarnir væru of háir, enda væri ljóst að hann hefði ekki móttekið 54 kistur á því tímabili sem reikningarnir nái yfir. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi sinnt þessum kvörtunum. Málið var síðan þingfest 19. desember 2002. Málsatvikum og málsástæðum er að öðru leyti lýst í héraðsdómi.
II.
Að framan er því lýst að áfrýjandi gerði ekki athugasemdir við reikninga stefnda eða innheimtubréf hans 18. nóvember 2002 heldur greiddi inn á kröfuna 400.000 krónur 3. desember 2002. Það er fyrst eftir að áminningarbréf er sent og hætt er að reikna með umsömdum afslætti að hann gerir athugasemdir þar um og við magn þess sem stefndi telur sig hafa afhent. Verður að fallast á það með héraðsdómi að eins og atvikum sé háttað megi leggja til grundvallar kröfugerð stefnda um magn þess sem stefndi afhenti. Þá ber að fallast á það með héraðsdómi að greiðslur frá Útfararstofu Hafnarfjarðar ehf. geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls þar sem þær stafa frá öðrum aðila, sem líka var í viðskiptum við stefnda, enda ekki tilgreint að greiðslurnar ættu að ganga inn á reikninga á hendur áfrýjanda. Þá verður áfrýjandi ekki talinn hafa sýnt fram á að greiðsla sem hann telur sig hafa innt af hendi til stefnda í febrúar árið 2000, eða áður en fyrrnefndur samningur aðila var gerður, eigi að koma til frádráttar kröfu stefnda.
Í samningi aðila frá maí 2000 kemur fram að áfrýjandi er að beina öllum viðskiptum sínum með greindar vörur til stefnda. Verður ekki annað ráðið af samningnum en að það sé forsenda afsláttarins sem hann fær. Ályktun um aðrar forsendur verður ekki dregin af samningnum. Reiknað er með afslættinum á framlögðum reikningum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að afslátturinn hafi verið felldur niður enda þótt greiðslur hafi dregist áður en kom til slita milli aðila. Í uppsagnarbréfi stefnda er ekkert á afsláttinn minnst og enn er hann dreginn frá í innheimtubréfi hans 18. nóvember 2002. Dráttarvextir eru það almenna vanefndaúrræði sem heimilað er við greiðsludrátt. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að greiðsla við sýningu reiknings hafi verið forsenda afsláttarkjaranna. Verður ekki talið að samningur aðila hafi heimilað stefnda að fella niður afsláttarkjör áfrýjanda í áminningarbréfinu 5. desember 2002 og stefnu til héraðsdóms, en áfrýjandi mótmælti þessari aðferð stefnda strax fyrir þingfestingu málsins.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan því sú að krafa stefnda er tekin til greina með þeirri breytingu að draga ber 10% afslátt frá höfuðstól kröfu stefnda og verður hann þannig 3.102.962 krónur. Þá er rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við 31. október 2002 en í uppsögn stefnda á samningi aðila er greiðslu krafist miðað við þann dag, svo sem áður er getið.
Rétt er að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.
Það athugist að ágripi málsins er áfátt að því leyti að skjölum er ekki raðað í tímaröð og nokkur þeirra eru ólæsileg að mestu.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Útfararstofa Íslands ehf., greiði stefnda, Fjöl-smíð ehf., 3.102.962 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. október 2002 til greiðsludags, allt að frádregnum 400.000 krónum sem greiddar voru 1. desember 2002, 250.000 krónum sem greiddar voru 27. desember 2002 og 45.244 krónum sem greiddar voru 31. mars 2003.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 6. desember 2002.
Stefnandi er Fjöl-smíð ehf., Stapahrauni 5, Hafnarfirði.
Stefndi er Útfararstofa Íslands ehf., Suðurhlíð 35, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða 3.635.912 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III kafla laga um vexti og verðtryggingu þannig:
Af 213.959 krónum frá 3. október 2002 til 10 október 2002, af 1.440.431 krónum frá þeim degi til 16. október 2002, af 1.934.636 krónum frá þeim degi til 23. október 2002, af 2.598.446 krónum frá þeim degi til 30. október 2002, af 2.869.647 krónum frá þeim degi til 18. nóvember 2002 en af 3.635.912 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar. Til frádráttar stefnukröfum komi neðangreindar greiðslur er stefndi hefur greitt eftir að innheimtuaðgerðir lögmanns hófust og verður tekið tillit til þeirra við lokauppgjör kröfunnar: 400.000 krónur sem greiddar voru þann 1. desember 2002, 250.000 krónur, sem greiddar voru þann 27. desember 2002 og 45.244 krónur, sem greiddar voru þann 31. mars 2003.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Til vara er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda.
Stefndi krefst þess jafnframt að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað.
Stefnandi kveður hina umstefnda skuld vera vegna vörukaupa stefnda af stefnanda, skv. 8 reikningum. Reikningar þessir séu vegna viðskipta aðila á tímabilinu 20. ágúst til 23. október 2002 þar sem byggt var á samningi sem aðilar máls þessa gerðu með sér í maímánuði 2000. Á reikningana sé upphaflega ritaður afsláttur, sem veita hafi átt og byggst hafi á þeirri forsendu að reikningarnir greiddust á réttum tíma, þ.e. innan mánaðar frá útgáfu þeirra. Er og ákvæði í samningi aðila um að stefndi skyldi njóta afsláttarkjara. Þar sem sú forsenda hafi brugðist, falli afsláttur niður og er krafist greiðslu án afsláttar. Hefur þeirri fjárhæð sem nam fjárhæð afsláttar því verið bætt við samtölu reikningsupphæðar.
Reikningarnir eru:
Nr. 000613 dags. 03.09.2002 að fjárhæð kr. 613.959,-
Nr. 000614 dags. 09.09.2002 að fjárhæð kr. 495.841,-
Nr. 000605 dags. 09.09.2002 að fjárhæð kr. 398.600,-
Nr. 000606 dags. 09.09.2002 að fjárhæð kr. 332.031,-
Nr. 000615 dags. 16.09.2002 að fjárhæð kr. 494.205, -
Nr. 000616 dags. 23.09.2002 að fjárhæð kr. 663.810,-
Nr. 000617 dags. 30.09.2002 að fjárhæð kr. 271.201,-
Nr. 000620 dags. 18.10.2002 að fjárhæð kr. 766.265,-
Samtals að höfuðstól kr. 4.035.912.
Innheimtubréf var sent þann 18. nóvember 2002 og stefnda gefinn kostur á að greiða innan 7 daga fjárkröfuna með afslætti. Stefndi gerði það ekki. Hinn 3. desember 2002, greiddi hann hins vegar inn á kröfuna kr. 400.000,
Stefnandi byggir kröfur sínar á ofangreindum reikningum, lögum nr. 39/1922 sem og almennum reglum samninga og kröfuréttar um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi varnarþing er vísað til 1. tl. 36.gr. 1. nr. 91/1991.
Hið stefnda félag byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að með engu móti verði séð hvernig stefnandi geti byggt á því í stefnu sinni að afsláttur sem samið hafi verið um í samningi aðila falli niður og hið stefnda félag verði gert að greiða reikninga stefnanda að fullu án afsláttar. Stefnandi vísar til þess í stefnu sinni að krafa hans um greiðslu án afsláttur byggi á þeim grundvelli að forsendur fyrir afslættinum séu brostnar. Kveður stefnandi veitingu afsláttarins, sem um var samið í verksamningi aðila frá maí 2000, hafa verið háða þeirri forsendu að reikningarnir greiddust á réttum tíma, þ.e. innan mánaðar frá útgáfu þeirra. Er þessari málsástæðu stefnanda hafnað og harðlega mótmælt.
Fullljóst sé að mati hins stefnda félags, að skilyrði þess að stefnandi geti vikið frá samningi aðila um afslátt stefnda með stoð í ólögfestum reglum samningaréttarins um brostnar forsendur, séu ekki uppfyllt.
Þegar viðskiptasamband stefnda og stefnanda sé skoðað, sbr. viðskiptayfirlit þeirra komi fram að stefndi hafi verið í skuld við stefnanda nánast allan þann tíma sem viðskiptasamband þeirra stóð yfir. Greiddi stefndi sjaldnast reikninga innan mánaðar frá því þeir voru gefnir út. Samt sem áður hafi hann alltaf haldið þeim afslætti sem um var samið. Af þessu sé alveg ljóst að ákvörðunarástæða þess að stefnandi veitti stefnda umræddan afslátt var ekki sú sem haldið er fram í steinu.
Ljóst sé að myndast hafi viðskiptavenja milli stefnanda og stefnda sem fylgt hafi verið um lengri tíma og stöðugt, jafnvel þó að stefndi greiddi ekki reikninga fyrr en nokkru eftir að þeir voru gefnir út. Stefndi hafi því mátt búast við því að þurfa ekki að greiða fyrir vörur án afsláttar enda hefði hann þá augljóslega beint viðskiptum sínum annað. Stefnandi getur ekki breytt þeirri venju né samningi aðila einhliða nú þó harm hafni sagt upp samningi við hið stefnda félag.
Þegar allt ofangreint sé megi vera ljóst að ekki séu skilyrði til þess að krefja stefnda um endurgreiðslu gefins afsláttar með stoð í reglum samningaréttarins um brostnar forsendur og beri að lækka stefnukröfur sem því nemi eða samtals um 932.951 krónur.
Til viðbótar ofangreindu byggir stefndi í öðru lagi á því að stefnandi haft ekki tekið tillit til allra innborgana hins stefnda félags inn á skuld félagsins við stefnanda.
Á árinu 2000 hafi Útfararstofa Hafnarfjarðar greitt tvær innborganir inn á skuld hins stefnda félags við stefnanda. Um hafi verið að ræða greiðslu að fjárhæð 280.000 krónur þann 18. ágúst 2000 og síðan greiðslu að fjárhæð 360.289 krónur.
Öllum aðilum máls þessa hafi vierð ljóst að greiðslur þessar væru greiddar vegna skuldar Útfararstofu Íslands ehf. við stefnanda enda stefnanda kynnt það sérstaklega í upphafi árs 2000 að öll viðskipti við stefnanda væri í gegnum Útfararstofu Íslands. Ekkert stoði fyrir stefnanda að halda því fram að stefnandi haft ekki haft vitneskju um að þessar innborganir voru vegna hins stefnda félags. Í fyrsta lagi hafi Útfararstofa Hafnarfjarðar ekki staðið í skuld við stefnanda þegar ofangreindar greiðslur voru inntar af hendi og jafnframt megi vísa til þess að Útfararstofa Hafnfarfjarðar hafi greitt þrjár innborganir inn á skuld hins stefnda félags á árinu 2002, sem stefnandi hafi fært beint til lækkunar á viðskiptaskuld hins stefnda félags án athugasemda.
Telur stefndi því fráleitt að hálfu stefnanda að færa þessar greiðslur sem inneign á viðskiptareikning Útfararstofu Hafnarfjarðar.
Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að reikningar stefnanda séu of margir og allt of háir. Hið stefnda félag hafi allt frá upphafi mótmælt kröfu stefnanda sem of hárri og útilokað að það haft fengið afhentan slíkan fjölda of kistum og fylgihlutum sem stefnandi krefur hann nú um greiðslu á. Stefndi hafi haft uppi þessi mótmæli allt frá upphafi þegar hann fékk fyrsta kröfubréf frá lögmanni stefnanda.
Mótmælir stefndi að hann hafi pantað eða tekið á móti þeim fjölda af kistum á umræddu tímabili sem krafið er um enda ekki ritað á reikninga eða afhendingarseðla um móttöku þeirra. Stefndi hafi mótmælt strax og honum hafi orðið ljóst að stefnandi væri örugglega að krefja hann um fleiri kistur en hann hefði pantað og fengið afhentar. Þetta hafi stefnda ekki orðið ljóst fyrr en lögmaður stefnanda sagði upp samningi aðila og krafði hann um greiðslu eftirstöðva skuldarinnar, samtals að fjárhæð 4.100.000 króna. Hafi stefndi mótmælt þessari kröfu án tafar og ekki verið ástæða fyrir stefnda að gera það fyrr þar sem stefndi hafi talið sig geta treyst því að hann yrði ekki krafinn um greiðslu á kistum sem aldrei hafi verið pantaðar né afhentar. Misræmi þetta hafi ekki komið í ljós fyrr en þá og stefndi strax hafið að rannsaka málið enda reikningarnir aldrei borist fyrr en eftir pöntun og afhendingu en allt misræmið sé einnig innan sama reikningsárs og því ómögulegt fyrir stefnda að átta sig á ofangreindu misræmi fyrr.
Stefndi kveður að stefnandi sé að krefja um 21 kistur umfram það sem hann hafi pantað og fengið afhent. Sönnunarbyrðin um að stefndi haft fengið afhentar þessar viðbótarkistur, sem stefnandi krefur hann um greiðslu fyrir hvíli á stefnanda.
Af ofangreindum orsökum telur stefndi að lækka beri kröfur stefnanda sem nemur ofangreindum 21 kistum ásamt fylgihlutum. Stefndi hafi samkvæmt framansögðu greitt stefnanda að fullu í samræmi við samning aðila og beri því að sýkna harm of öllum kröfum stefnanda í málinu.
Varakröfu sína um verulega lækkun á kröfum stefnanda byggir hið stefnda félag á sömu málsástæðum og varðandi aðalkröfu hans um sýknu af öllum kröfum stefnanda. Vísar stefndi til þess varðandi rökstuðnings fyrir lækkunarkröfum sínum.
Þá mótmælir stefndi kröfu stefnanda um dráttarvexti. Byggir stefndi á því, bæði er varðar aðalkröfu hans um sýknu og varakröfu hans um verulega lækkun á kröfum stefnanda, að um það haft verið samið að stefndi skyldi ekki greiða dráttarvexti enda sé þess með engum hætti getið í samningi aðila né á reikningum stefnanda enda hafi stefnandi aldrei krafið stefnda um greiðslu dráttarvaxta. Jafnframt sé ekkert um það samið milli aðila hvenær gjalddaga reikninga skyldi vera og harðlega mótmælt upphafsdegi dráttarvaxtakröfu í stefnu málsins.
Stefnandi geti ekki einhliða breytt samkomulagi aðila og þeirri venju sem fylgt hafi verið og sé í samræmi við skriflegan samning aðila og krafið stefnda um dráttavexti sem honum hefði ella aldrei borið að greiða. Fallist dómurinn ekki að öllu leyti á dómkröfur stefnda þá telur stefndi að dráttarvextir eigi í fyrsta lagi að reiknast frá þeim degi er dómsmál var höfðað um kröfuna, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Með vísan til 130. gr. laga nr 91/1991 um meðferð einkamála krefst stefndi þess að stefnandi greiði honum málskostnað í máli þessu þannig að málarekstur þessi verði stefnda að skaðlausu, bæði er varðar aðalkröfu hans og varakröfu. Er á því byggt að hvort sem fallist sé að öllu leyti eða að hluta á kröfur stefnda þá telji stefndi að hann hafi fengið dómkröfum sínum framgengt að verulegu leyti og þar sem honum hafi verið nauðsynlegt að taka til varna í málinu, eins og á stóð, þá beri að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu fyrir stefnda.
Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum samninga-, kaupa- og kröfuréttar. Jafnframt vísar stefndi til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Jafnframt vísar stefndi til ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu á samtals 54 líkkistum auk annars svo sem sængurfata, klúta, líkflutninga, krossa o.fl. Stafa reikningar þessir frá viðskiptum aðila á tímabilinu 20. ágúst til 23. október 2002. Stefnandi hefur lagt fram yfirlit frá kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma þar sem fram kemur að samtals 55 útfarir eru skráðar frá stefnda á nefndu tímabili. Enn fremur kemur fram á yfirliti frá Kirkjugarðinum í Hafnarfirði að þar fóru fram 9 útfarir á vegum forsvarsmanns stefnda á tímabilinu 20. ágúst til 16. október 2002. Þá er til þess að líta að í gildi var samningur á milli aðila þar sem stefndi skuldbatt sig til að kaupa allar kistur, sængur kodda, blæjur, krossa og standa hjá stefnanda. Ekki er fyrir að fara gögnum um að athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnda við reikningana fyrr en 5 dögum eftir að stefna var birt honum sem var var 6. desember 2002 en síðasti reikningurinn er dagsettur 18. október s.á. Samkvæmt þessu komu fyrst fram athugasemdir af hálfu stefnda eftir að mál þetta var höfðað og eins og atvikum er háttað hér þykir mega leggja kröfugerð stefnanda til grundvallar um fjölda og magn þess sem stefndi keypti af honum á nefndu tímabili.
Eftir að samningi aðila var sagt upp þann 17 október 2002 með þriggja mánaða fyrirvara átti stefndi engin viðskipti við stefnanda enda þótt samningur aðila væri enn gildur og stefndi skuldbundinn til að kaupa vörur af stefnanda út uppsagnartímann. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að 100 líkkistur voru fluttar inn á vegum stefnda með Dettifossi sem kom til landsins 2. apríl 2002 og að afhendingarheimild tollyfirvalds er dagsett 23. október sama árs. Þá er ljóst af yfirliti um viðskipti aðila sem fram hefur verið lagt í málinu að stefndi var iðulega í verulegum vanskilum við stefnanda og enda þótt hann hafi fengið afslátt samkvæmt samningi þeirra þar til að áminningarbréfi lögmanns stefnanda frá 5. desember 2002 kom, getur hann ekki borið það fyrir sig nú að hann njóti þeirra kjara hér. Kemur þar til að það er augljós forsenda afsláttarins að stefndi standi í skilum með greiðslur sínar en það hefur hann ekki gert. Þá er til þess að líta að hann hefur í engu hlítt samningsskyldum sínum meðan á uppsagnarfresti stóð auk þess að stórfelld kaup hans á líkkistum frá Lettlandi benda til þess að hann hafi engan vilja haft til þess að eiga frekari viðskipti við stefnanda eftir að til uppsagnar kom. Undir þessum kringumstæðum getur stefndi ekki borið fyrir sig að hann eigi að njóta afsláttar þess sem hann áður naut.
Stefnandi ber fyrir sig að hann hafi greitt til stefnanda hærri fjárhæðir en tekið sé tillit til við málssókn þessa. Því er til að svara að um er að ræða greiðslur frá Útafararstofu Hafnarfjarðar sem ekki er aðili þessa máls og getur stefndi ekki borið þær greiðslur fyrir sig sem réttar efndir gagnvart stefnanda máls þessa.
Samkvæmt öllu framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti og eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Útfararstofa Íslands ehf. greiði stefnanda, Fjölsmíð ehf. 3.635.912 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III kafla laga um vexti og verðtryggingu af 213.959 krónum frá 3. október 2002 til 10 október 2002, af 1.440.431 krónum frá þeim degi til 16. október 2002, af 1.934.636 krónum frá þeim degi til 23. október 2002, af 2.598.446 krónum frá þeim degi til 30. október 2002, af 2.869.647 krónum frá þeim degi til 18. nóvember 2002 en af 3.635.912 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 400.000 krónum sem greiddar voru þann 1. desember 2002, 250.000 krónum, sem greiddar voru þann 27. desember 2002 og 45.244 krónum, sem greiddar voru þann 31. mars 2003.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.