Hæstiréttur íslands
Mál nr. 37/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Þriðjudaginn 18. janúar 2011. |
|
Nr. 37/2011.
|
A (Páll Kristjánsson hdl.) gegn Akraneskaupstað (Jón Haukur Hauksson hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að felld yrði niður nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af innanríkisráðuneytinu 7. janúar 2011.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 11. janúar 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af innanríkisráðuneytinu 7. janúar 2011. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr., lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að þóknun skipaðs talsmanns hans fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
Að beiðni varnaraðila samþykkti innanríkisráðuneytið 7. janúar 2011 nauðungarvistun sóknaraðila samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr., lögræðislaga og var sú ákvörðun staðfest með hinum kærða úrskurði. Í honum er greint frá vottorði geðlæknis um andlega hagi sóknaraðila og þeim atvikum, sem lágu að baki vistun á sjúkrahúsi gegn vilja hans. Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að þrátt fyrir að hann sé haldinn geðsjúkdómi hafi ekki verið næg ástæða til að vista hann nauðugan og svipta hann frelsi, sem sé mjög íþyngjandi. Hann þekki sjúkdóm sinn og hafi góða innsýn í almenna heilsu sína.
Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr., lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Jóns Hauks Haukssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 11. janúar 2011.
Mál þetta barst dóminum 10. janúar 2011 og var tekið til úrskurðar 11. sama mánaðar. Sóknaraðili er A, kt. [...], [...] á [...], en varnaraðili er B, [...] á [...].
Sóknaraðili krefst þess að fellt verði úr gildi samþykki innanríkisráðuneytisins, frá 7. janúar 2011, um nauðungarvistun hans á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Varnaraðili, krefst þess að kröfunni verði hrundið og að nauðungarvistun sóknaraðila verði staðfest.
I
Með beiðni 7. janúar 2011 óskaði varnaraðili eftir því við innanríkisráðuneytið að sóknaraðili yrði nauðungarvistaður á sjúkrahúsi samkvæmt 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Í kröfu varnaraðila um nauðungarvistun kemur fram að 7. janúar 2011 hafi sóknaraðili verið staddur í [...]skóla [...] á [...] þar sem hann hafi öskrað að kennurum, nemendum og starfsfólki skólans. Hann hafi sparkað í veggi skólans og hent til hlutum. Einnig kemur fram að sóknaraðili hafi tryllst þegar lögregla kom til að sækja hann og að lokum hafi þurft að færa hann burt í handjárnum. Einnig liggur fyrir í gögnum málsins læknisvottorð C, geðlæknis, en þar kemur fram að sóknaraðili hafi veikst á geði [...] ára að aldri. Í niðurlagi vottorðsins segir svo:
[...] ára gamall piltur með sögu um örlyndiseinkenni, geðrof og ofbeldishegðan. Sjúkdómsinnsæi ekki til staðar. Einnig neyslusaga. Hefur átt þokkalega tímabil þegar hann sinnir eftirliti og lyfjameðferð. Nú versnandi geðhagur sl. ár með endurteknum innlögnum vegna örlyndis- og geðrofseinkenna ásamt ógnandi hegðan. Það er því óhjákvæmilegt að hann vistist á viðeigandi deild til að fá lyfja og læknisaðstoð sem hann þarf á að halda
Með bréfi innanríkisráðuneytisins 7. janúar 2011 var fallist á beiðni um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Þeirri ákvörðun hefur sóknaraðili skotið til dómsins, sbr. 30. gr. lögræðislaga.
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að ekki séu fyrir hendi skilyrði 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga til nauðungarvistunar hans.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn fyrir hendi og er vísað til gagna málsins því til stuðnings.
II.
Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins er sóknaraðila ókleift vegna geðsjúkdóms að ráða persónulegum högum sínum. Þótt fram hafi komið að sóknaraðili sé til samvinnu um að þiggja læknismeðferð er innsæi hans í sjúkdóm sinn takmarkað og vilji til að leita lækninga ekki einbeittur. Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að fullnægt sé skilyrðum 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga fyrir nauðungarvistun sóknaraðila. Kröfu sóknaraðila er því hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðra talsmanna aðila úr ríkissjóði svo sem greinir í úrskurðarorði.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu A, kt. [...], um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem ákveðin var af innanríkisráðuneyti 7. janúar 2011.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Páls Kristjánssonar, hdl., og skipaðs talsmanns varnaraðila, Jóns Hauks Haukssonar hdl., 75.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatts til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.