Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-34

Útgerðarfélagið Otur ehf. og Siglunes hf. (Einar Hugi Bjarnason lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fiskveiðistjórn
  • Stjórnsýsla
  • Aflaheimild
  • Skaðabætur
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 16. mars 2023 leita Útgerðarfélagið Otur ehf. og Siglunes hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. febrúar sama ár í máli nr. 663/2021: Útgerðarfélagið Otur ehf. og Siglunes hf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni en telur vafa leika á um að skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðendur eigi rétt á skaðabótum úr hendi gagnaðila vegna úthlutunar á sérstökum byggðakvóta á Þingeyri sex tiltekin fiskveiðiár. Byggðastofnun hafnaði umsókn leyfisbeiðenda um úthlutun þessara viðbótaraflaheimilda og gerði samning við aðra umsækjendur.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Leyfisbeiðendur byggðu mál sitt fyrst og fremst á því að þeir umsækjendur sem samið hefði verið við hefðu brotið gegn 7. gr. reglugerðar nr. 643/2016 um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða með því að landa ekki nema litlum hluta þess afla sem þeir fengu í hendur á grundvelli laganna á Þingeyri. Landsréttur taldi að 7. gr. reglugerðar nr. 643/2016 yrði ekki skilin á þann hátt að landa þyrfti aflanum þar heldur nægði að sama magn afla væri flutt þangað til vinnslu. Var ekki fallist á að sú framkvæmd að afla væri ekið á milli vinnusóknarsvæða bryti gegn reglugerð nr. 643/2016 þannig að leiddi til skaðabótaskyldu. Í dómi Landsréttar kom fram að málefnaleg sjónarmið hefðu legið að baki ákvörðun Byggðastofnunar um að hafna umsókn leyfisbeiðenda og ganga til samninga við aðra umsækjendur. Sú ákvörðun hefði byggst á þeim sérstöku matskenndu sjónarmiðum sem lægju að baki 10. gr. a laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 643/2016 en þar hefði verið horft til verndunar brothættra sjávarbyggða meðal annars að ekki kæmi rof í fiskvinnslu á Þingeyri. Þá var því jafnframt hafnað að með ákvörðuninni hefði verið brotið gegn 10., 11. eða 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem þýðingarmikið sé að fá úr því skorið hvernig túlka eigi 7. gr. reglugerðar nr. 643/2016. Þá telja þeir að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og byggður á rangri lagatúlkun.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.