Hæstiréttur íslands
Mál nr. 524/2004
Lykilorð
- Umboðssvik
- Fjárdráttur
- Fasteignasala
|
|
Fimmtudaginn 22. september 2005. |
|
Nr. 524/2004. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Finnboga Kristjánssyni (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Umboðssvik. Fjárdráttur. Fasteignasala.
F var sakfelldur fyrir umboðssvik og fjárdrátt. Við ákvörðun refsingar F var það virt honum til refsiþyngingar að brot hans voru stórfelld og fjárdráttarbrot hans framin í skjóli stöðu hans sem löggiltur fasteignasali. Tekið var fram að F hefði ekki gerst áður sekur um refsiverða háttsemi og að hann hefði leitast við að bæta fyrir brot sín með því að endurgreiða mikið af þeim fjármunum sem hann dró sér. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2004 og krefst sakfellingar ákærða samkvæmt I. kafla ákæru og staðfestingar á sakfellingu samkvæmt II. kafla ákæru jafnframt sem hann krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin.
Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi er ákærða gefin að sök í I. kafla ákæru umboðssvik með því að hafa meðal annars vanrækt að tryggja A afsal, í tilefni af samningi um sameiginleg kaup þeirra á fasteigninni að Síðumúla 2 í Reykjavík, fyrir 21% fasteignarinnar án veðbanda, gegn greiðslu A. Hafi hann þannig misnotað sér aðstöðu sína og veðsett eignina án vitundar A umfram ákvæði í samningnum fyrir 16.350.000 krónur og rýrt svo veðhæfi eignarinnar að ókleift reyndist að afhenda A umsaminn hluta eignar hans án veðbanda. Samkvæmt II. kafla ákæru er honum gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa í sjö skipti dregið sér og notað í eigin þágu og fasteignasölunnar Fróns ehf., sem var í eigu ákærða, 26.918.484 krónur af fjármunum, sem hann tók við hjá viðskiptavinum fasteignasölunnar vegna sölu á fasteignum sem hann annaðist. Varð niðurstaða málsins í héraði sú að ákærði var sýknaður af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákærunnar, en sakfelldur samkvæmt II. kafla hennar.
Ákærði neitar sök samkvæmt I. kafla ákæru. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að ekki bæri að skilja þennan kafla ákærunnar svo að sú háttsemi ákærða að vanrækja að tryggja A afsal, eins og þar er nánar lýst, væri talin refsiverð samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, heldur væri þessi lýsing hluti af málavöxtum. Ákæruefnið lyti því einvörðungu að þeirri háttsemi ákærða að misnota sér aðstöðu sína með þremur veðsetningum, samtals að fjárhæð 16.350.000 krónur, eins og lýst er í ákæru með þeim afleiðingum sem þar greinir.
Málavöxtum er rækilega lýst í héraðsdómi. Þar kemur meðal annars fram að ákærði, sem var löggiltur fasteignasali, rak fasteignasöluna Frón ehf. í leiguhúsnæði á 2. hæð í Síðumúla 2 í Reykjavík. Átti fasteignasalan forkaupsrétt að húsnæðinu. A, grafískur hönnuður, hafði vinnustofu sína í leiguhúsnæði á sömu hæð. Fasteignasalan festi kaup á hæðinni með samningi 22. desember 2000. Samkvæmt samningnum skyldi kaupverðið, 44.500.000 krónur, greitt í fyrsta lagi með 12.200.000 krónum við undirritun kaupsamnings, í öðru lagi 15. janúar 2000 með „skilyrtu veðleyfi með láni frá Sparisj. vélstj. Ísl.“ að fjárhæð 30.000.000 krónur og í þriðja lagi með 2.300.000 krónum í peningum 15. maí 2001. Kveðst ákærði sjálfur hafa greitt 2.700.000 krónur vegna kaupanna auk þeirra 9.500.000 króna sem A afhenti honum. Sama dag og ákærði undirritaði kaupsamninginn gerðu ákærði og A með sér skriflegt samkomulag „vegna kaupa á Síðumúla 2, 2. hæð í Reykjavík, 588,5 fm kaupverðið er 44.500.000,- [A] leggur fram kr. 9.500.000,- en Finnbogi kr. 35.000.000,-. Og skipta þeir þessum eignarhluta með sér skv. innborgun og gerður verður skiptasamningur við fyrsta tækifæri.“ Samkvæmt gögnum málsins greiddi A sama dag fasteignasölunni sinn hluta samkvæmt samkomulaginu. Ekki var gerður eignaskiptasamningur milli ákærða og A og sá síðarnefndi fékk ekki afsal fyrir sínum hluta húsnæðisins, en eigandi þess gaf út afsal til ákærða 15. júní 2001. Ákærði veðsetti síðan alla hæðina fyrir hönd fasteignasölunnar fyrir andvirði 16.350.000 króna með þeim hætti sem lýst er í héraðsdómi. Hafði eignin þá þegar verið veðsett 29. desember 2000 og 12. janúar 2001 fyrir samtals rúmar 30.000.000 krónur í samræmi við áðurnefndan kaupsamning um eignina.
Ákærði hefur haldið því fram að A hafi verið fullkunnugt um flutning veðsetninganna í júní 2001 og veðsetninguna í júlí sama ár, sem ákæran lýtur að. A hefur hins vegar fullyrt að honum hafi ekki verið um þetta kunnugt fyrr en eftir þann tíma. Ákærði var sem fyrr segir löggiltur fasteignasali. Hann hirti þó hvorki um að tryggja rétt A með því að gefa út afsal fyrir eignarhluta hans né að sjá um að eignaskiptasamningur yrði gerður um eign þeirra. Er ekkert fram komið í málinu sem styrkir þá staðhæfingu ákærða að hann hafi haft heimild A til áðurnefndra veðsetninga eignarinnar eða þær verið með hans vitund. Með veðsetningunum misnotaði hann því aðstöðu sína og stefndi fjárhagslegum hagsmunum A í verulega hættu. Braut hann þannig gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur játað sakargiftir á hendur sér samkvæmt II. kafla ákæru. Hann unir sakfellingu hins áfrýjaða dóms á þessum þætti málsins. Er hann því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti nema að því er snertir ákvörðun refsingar.
Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru voru framin í júní og júlí 2001 og sjö fjárdráttarbrot hans samkvæmt II. kafla ákæru á tímabilinu frá mars 2002 til apríl 2003. Með þeim síðarnefndu dró ákærði sér og fasteignasölunni tæpar 27.000.000 króna. Hann endurgreiddi fjármunina sem hann dró sér samkvæmt 1. til 3. tölulið II. kafla ákæru eins og þar er nánar lýst. Gögn málsins sýna ennfremur að hann endurgreiddi í janúar 2003 fjármunina sem hann dró sér samkvæmt 4. lið, á tímabilinu maí til október 2003 vegna fjárdráttarins samkvæmt 5. lið og í janúar 2003 samkvæmt 6. lið. Þá voru lögð gögn fyrir Hæstarétt sem styðja þá fullyrðingu ákærða að hann hafi greitt rúma eina milljón krónur vegna fjárdráttar síns samkvæmt 7. lið. Við ákvörðun refsingar ákærða verður það virt honum til refsiþyngingar að brot hans voru stórfelld og fjárdráttarbrot hans framin í skjóli stöðu ákærða sem löggiltur fasteignasali, en viðskiptamenn hans áttu að geta treyst honum. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi og hann hefur sem fyrr segir leitast við að bæta fyrir brot sín með því að endurgreiða mikið af þeim fjármunum sem hann dró sér. Þegar allt framangreint er virt er refsing hans ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þegar litið er til brota ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt reikningum Fangelsismálastofnunar ríkisins og ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dómsorð:
Ákærði, Finnbogi Kristjánsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og áfrýjunarkostnað, 930.890 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 871.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2004.
Málið er höfðað gegn Finnboga Kristjánssyni, Grandavegi 9, Reykjavík, kt. [ ], "fyrir umboðssvik og fjárdrátt í starfi sem löggildur fasteignasali á fasteignasölu ákærða, Fasteignasölunni Fróni ehf., Síðumúla 2, Reykjavík, kt. 711095-3149 svo sem hér segir:
I. Umboðssvik gagnvart, A á fyrri hluta ársins 2001 í framhaldi af samningi þeirra 22. desember 2000 um sameiginleg kaup á 2. hæð hússins nr. 2 við Síðumúla í Reykjavík, sem fasteignasalan Frón ehf. hafði forkaupsrétt að og ákærði keypti fyrir hönd fasteignasölunnar sama dag án veðbanda á 44.500.000 kr. gegn 12.200.000 kr. greiðslu við undirritun kaupsamnings, 30.000.000 kr. 15. janúar 2001 gegn skilyrtu veðleyfi og 2.300.000 kr. lokagreiðslu sama ár, vanrækt að tryggja A afsal fyrir veðbandslausum 21% fasteignarinnar gegn greiðslu A til ákærða á 9.500.000 kr. þann 22. desember 2000 í samræmi við nánari afmörkun í eignaskiptasamningi, sem gera átti við fyrsta tækifæri samkvæmt samningi ákærða og A, og hafa jafnframt, stuttu eftir að Frón ehf. hafði fengið afsal fyrir fasteigninni 15. júní 2001, misnotað sér aðstöðu sína og veðsett eignina án vitundar A umfram ákvæði í kaupsamningi fyrir andvirði 16.350.000 kr., - þann 15. júní látið flytja veð fyrir andvirði 7.800.000 kr. á fasteignina af fasteign ákærða að [ ] þann 18. júní fyrir láni að andvirði 2.300.000 kr. vegna lokagreiðslu Fróns ehf. samkvæmt nefndum kaupsamningi og þann 3. júlí fyrir andvirði 6.250.000 kr. vegna launaskuldar fasteignasölunnar, og með veðsetningunum rýrt svo veðhæfi eignarinnar að ókleyft reyndist að afhenda A umsaminn hluta eignar hans veðbandslausan. M. 006-2002-64.
Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II. Fjárdrátt með því að hafa dregið sér og notað í eigin þágu og fasteignasölunnar, á tímabilinu frá mars 2002 til apríl 2003, í 7 skipti alls 26.918.484 kr. af fjármunum, sem hann tók við hjá viðskiptavinum fasteignasölunnar vegna sölu á fasteignum, sem ákærði annaðist svo sem rakið er:
1.
Í lok mars 2002 4.755.836 kr. af fjármunum, sem hann tók við hjá seljanda og kaupendum íbúðar í [...], D, E og F, þann 1. og 9. mars samkvæmt umboði í kaupsamningi, dagsettum 2. nóvember 2001, og ganga áttu til greiðslu veðskulda sem hvíldu á íbúðinni.
Ákærði endurgreiddi seljanda íbúðarinnar með eftirfarandi hætti: Þann 23. apríl sama ár 1.751.095 kr., þann 7. maí 2.000.000 kr. með fjármunum sem ákærði hafði dregið sér samkvæmt ákærulið I.3 og að fullu þann 16. maí sama ár.M. 010-2003-23949.
2.
Í apríl 2002 alls 3.821.101 kr. sem ákærði tók við 19. sama mánaðar og ganga áttu til greiðslu veðskuldar og til seljanda íbúðar við [...], samkvæmt kaupsamningi dags. sama dag, 2.000.000 kr. sem ákærði tók við hjá kaupanda íbúðarinnar G, og 1.821.101 kr. af andvirði húsbréfa, sem ákærði tók við hjá seljandanum H.
Ákærði greiddi veðskuldina kr. 3.200.000 þann 7. maí sama ár með fjármunum, sem hann hafði dregið sér samkvæmt ákærulið I.3 og skuld sína 321.098 kr. til seljanda 15. sama mánaðar. M. 010-2003-24316.
3.
Þann 6. maí 2002 dregið sér andvirði húsbréfa, 5.676.958 kr, sem ákærði tók að sér að innleysa fyrir I seljanda íbúðar í [...], samkvæmt kaupsamningi dags. 15. mars sama ár. Daginn eftir notaði ákærði 3.200.000 kr. af fjármununum til að greiða skuld vegna fjárdráttar samkvæmt ákærulið I.2 og 2.000.000 kr. til greiðslu skuldar vegna fjárdráttar samkvæmt ákærulið I.1. M. 010-2003-5913.
4.
Þann 6. júní 2002 dregið sér andvirði húsbréfa, 1.404.549 kr., sem ákærði hafði milligöngu um fyrir J, umboðsmann seljanda íbúðar að Austurbergi 6, Reykjavík, að láta skrá á seljanda íbúðarinnar en fasteignaverðbréfin höfðu verið framseld til ákærða. M. 010-2003-24839.
5.
Í lok nóvember og byrjun desember 2002 dregið sér samtals 3.031.043 kr. sem ákærði tók við 25. og 29. nóvember hjá K, kaupanda íbúðar við Huldubraut 11, Kópavogi, og ganga áttu til greiðslu veðskulda sem hvíldu á íbúðinni. M. 010-2003-10004.
6.
Í desember 2002 dregið sér 2.124.384 kr., sem ákærði tók við hjá kaupendum íbúðar í [...], L, og M, þann 17. sama mánaðar samkvæmt kaupsamningi dagsettum sama dag og ganga áttu til seljenda íbúðarinnar N, og O, og til greiðslu veðskulda sem hvíldu á íbúðinni. M. 010-2003-24556
7.
Þann 8. apríl 2003 dregið sér alls 6.104.613 kr. af fjármunum sem ganga áttu til greiðslu veðskulda og til seljanda vegna sölu á íbúð í [...], samkvæmt kaupsamningi dags. 2. sama mánaðar, - 1900.000 kr. sem hann tók við hjá kaupanda íbúðarinnar, P, og 4.204.613 kr. af andvirði húsbréfa, sem hann seldi í umboði seljanda íbúðarinnar, Q. Ákærði ráðstafaði 6.100.402 kr. af peningunum 8. sama mánaðar til greiðslu skuldar vegna fjárdráttar ákærða samkvæmt ákærulið I.3. M. 010-2003-23757.
Framangreind brot ákærða í II. lið teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."
Málavextir.
I. kafli ákærunnar, umboðssvik.
Fyrir liggur að ákærði rak fasteignasöluna Frón ehf. í leiguhúsnæði á 2. hæð í Síðumúla 2 hér í borg, og A, grafískur hönnuður, rak vinnustofu sína á sömu hæð á þeim tíma sem hér skiptir máli. Ákærða gafst kostur á því, í krafti forkaupsréttar fasteignasölunnar, að kaupa húsnæði þetta í nafni fasteignasölunnar. Varð það að ráði með þeim A að ákærði keypti þessa hæð í húsinu en A keypti hluta af því af ákærða. Gerðu þeir með sér skriflegt samkomulag 22. desember 2000 í þessa veru. Þar kemur fram að húsnæðið sé 588,5 fermetrar og kaupverðið 44.500.000 krónur. Skyldi A leggja fram 9.500.000 krónur en ákærði 35.000.000 krónur. Skipti þeir með sér „þessum eignarhluta skv. innborgun og gerður verður skiptasamningur við fyrsta tækifæri“. Ákærði undirritaði kaupsamning um húsnæðið þennan sama dag. Samkvæmt honum var fyrsta greiðslan, 12.200.000 krónur í peningum, innt af hendi við undirritun samningsins. Þá var þar einnig veitt 30 milljón króna veðleifi fyrir láni 15. janúar 2000 (svo) og gekkst kaupandi undir að greiða vexti af láninu frá dagsetningu kaupsamnings. Loks var kveðið á um 2,3 milljóna króna peningagreiðslu 15. maí 2001. A greiddi ákærða sama dag 9,5 milljónir króna í samræmi við samkomulag þeirra en ákærði fékk afsal fyrir fasteigninni 15. júní 2001 gegn lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningnum. Ekki var gerður samningur um eignaskipti milli ákærða og A og A fékk ekki afsal fyrir sínum hluta húsnæðisins. Meðal gagna málsins er samþykkt kauptilboð, dagsett 11. janúar 2002, frá fyrirtæki Birgi, Taktík, til fyrirtækis ákærða, Fróns ehf., um hluta húsnæðisins, að fjárhæð 12.170.000 krónur. Samkvæmt því töldust 9,5 milljónir af verðinu hafa verið greiddar við afhendingu, en 2.670 þúsund skyldu greiðast við gerð kaupsamnings. Húsnæðið var skilgreint sem skrifstofuhúsnæði á 2. hæð í suð-vestur hluta, merkt 0202 í skiptasamningi, í húsi nr. 2 við Síðumúla. Samkomulagi ákærða og A frá 22. desember 2000 var aldrei þinglýst. Þá liggur það fyrir að ákærði veðsetti fasteign þessa í þrennu lagi sumarið 2001 fyrir samtals 16.350.000 krónum, eins og rakið verður, og að veðsetningum þessum var þinglýst. Ekki er getið um samkomulag ákærða og A í skuldabréfunum. Loks liggur það fyrir að fasteign þessi var seld á nauðungaruppboði í júní 2003. Ekki verður séð að rétti A hafi verið lýst við nauðungarsöluna.
Ákærði hefur lagt fram gögn sem hann telur sýna fram á það að D, starfsmaður fasteignasölunnar, hafi dregið sér fé úr fyrirtækinu meðan hann starfaði þar. Þar á meðal er samkomulag um endurgreiðslu D á fjármunum til fasteignasölunnar, uppsögn, kyrrsetningarbeiðni, kæra og viljayfirlýsing.
Ákærði segir A hafa verið fullkunnugt um efni kaupsamningsins sem ákærði gerði við eiganda húsnæðisins 22. desember 2000. Segist hann hafa gert A grein fyrir veðsetningunum sem kveðið er á um í samningnum. Hann kveður þá A svo hafa útbúið kauptilboðið 11. janúar 2002 vegna óskar A um að kaupa stærri hlut en þeir ætluðu í upphafi, en þá hefði verið gengið út frá því að eignarhluti A svaraði nokkurn veginn til hluta hans af útborguninni, þ.e. 9,5 milljónum króna. Ákærði segir veðhöfunum hafa verið kunnugt um samkomulag þeirra A og um kauptilboðið. Hagsmunir A hafi verið tryggðir vegna þess að síðari veðhafar hafi vitað af samkomulagi þeirra A. Hafi samkomulagið milli þeirra verið gert til þess að tryggja betri rétt hans gegn síðari veðhöfum. Kveðst ákærði hafa sýnt veðhöfunum samkomulag þeirra A. Hafi D, lögfræðingi fasteignasölunnar, sem fékk skuldabréfið verið vel kunnugt um þennan gerning ákærða og A. Hann segir að aldrei hafi reynt á það hvort hinir veðhafarnir tveir myndu virða betri rétt A. Hafi þeir beðið eftir skiptasamningi til þess að geta útbúið veðbandslausnina. Við nauðungarsölu á fasteigninni hafi A ekki lýst kröfu sinni og krafist forgangs vegna þess að veðhafarnir hafi verið grandsamir um rétt hans. Ákærði kveður það hafa verið gáleysi hjá sér að þinglýsa ekki samkomulagi þeirra A, enda hafi það verið vottað og þinglýsanlegt. Hann kveðst hafa rift samningnum við A eftir að hafa orðið áskynja um viðhorfsbreytingu hjá honum til þessara viðskipta þeirra. Hann kveðst hafa reynt að selja húsnæðið til þess að geta endurgreitt A hans hlut.
Ákærði segir að eftir að forkaupsréttur hans varð virkur hafi A eindregið hvatt hann til þess að neyta þess réttar. Hafi þeir ráðgast um hvernig hægt væri að kljúfa þetta. Hafi hann gert A grein fyrir fjárhagsgetu sinni, sem hafi verið takmörkuð. Eftir að ákærði hafði fengið loforð fyrir 30 milljón króna láni hafi hann sýnt A það. Birgir hafi þá útvegað 9,5 milljónir sem hafi tryggt fjármagn til kaupanna. Það sem tafði gerð eignaskiptasamningsins hafi verið það að A, sem sé teiknari og hafði unnið við gerð skiptasamninga, hafi tekið að sér að sjá um skiptasamninginn og réði til þess C, arkitekt og löggiltan skiptamann. Hafi A alfarið séð um samskiptin við C og viljað hafa hönd í bagga um gerð þessa gernings. Það sé A um að kenna að tafist hafi að gera þennan samning. Kveðst ákærði ekki hafa haft samskipti við C nema að hann hafi setið einn fund með honum og A.
A hefur komið fyrir dóm og sagt að hann hafi ekki vitað um kaupsamninginn sem ákærði gerði sama dag og þeir gerðu með sér samkomulagið. Hafi hann ekki séð það skjal fyrr en hjá lögreglunni þegar hann gaf þar skýrslu. Hann segist ekki hafa haft vit á því að láta þinglýsa samkomulaginu sem þeir ákærði gerðu í desember 2000. Hann kveðst hafa litið svo á að ákærði stæði einn að kaupunum en hann væri svo að kaupa sinn hlut af ákærða. Hann kveðst ekki hafa vitað hvernig ákærði ætlaði að fjármagna sinn hluta af kaupunum og ekki hafa vitað að ákærði ætti í erfiðleikum með það. Ákærði hafi hins vegar vitað að hann þurfti að opna yfirdrátt á bankareikningi sínum til þess að geta innt af hendi sinn hluta af greiðslunni. Ekki hafi verið rætt milli þeirra hvað vitnið þyrfti að gera til þess að fá sinn hluta veðbandslausan. Hann kveðst ekki hafa gert eignaskiptasamninga áður, en hann kunni þó á tæknilegu hliðina við þess háttar gerninga, teikningar og þess háttar. Lagalegu hliðina hafi hann ekki á valdi sínu, enda grafískur hönnuður. Þá kveðst hann vera ókunnugur fasteignaviðskiptum. Hann kveðst fljótlega hafa farið að ganga á eftir ákærða með það að ganga frá viðskiptunum þeirra á milli, enda hafi bankinn verið að ýta á eftir að ganga frá málinu. Ekkert hafi þó gerst í þessu, ákærði hafi sagt að þetta yrði að hafa sinn gang, að þetta væri að koma. Kveðst hann hafa treyst ákærða í þessu efni. Svo hafi það komið fram hjá ákærða að gera þyrfti eignaskiptasamning og kveðst vitnið þá hafa gengið í það mál. Ekki muni hann hvenær á árinu 2001 ákærði hafi komið fram með þetta, líklega hafi það verið um vorið. Kveðst hann hafa fengið C arkitekt, í verkið fyrir sig og þeir unnið í þessu fram á haust þetta ár.
A segir að honum hafi verið alls ókunnugt um veðsetningar ákærða á fasteigninni fyrr en í árslok 2001, að hann varð sér úti veðbókarvottorð. Um kauptilboðið 11. janúar 2002 segir vitnið að ákærði hafi komið með það til sín á skrifstofuna og sagt að það væri aðeins sýndarplagg til þess að “losa um” í viðskiptabanka ákærða. Kveðst vitnið hafa skrifað undir þetta “í öllum þessum leikaraskap.” Hann kveðst hafa farið að óttast um hagsmuni sína eftir að hann komst að því að ákærði hafði veðsett fasteignina og rekið harðar á eftir því að ákærði efndi samkomulag þeirra. Þeir hafi svo hist á fundi og eiginkonur þeirra einnig. Hafi fundurinn ekki leitt til annars en þess að persónulegum samskiptum þeirra ákærða lauk og lögmaður vitnisins tók málið í sínar hendur. Ákærði hafi svo rift samkomulagi þeirra með bréfi. Vitnið segir að komið hafi tals að lýsa kröfum í eignina þegar hún var seld nauðungarsölu, en það hafi hann alfarið lagt í hendur lögmanni sínum. Aðspurður hvers vegna hann hafi skrifað undir kauptilboðið þótt honum væri þá orðið kunnugt um veðsetningarnar, segir hann að honum hafi verið mikil nauðsyn á því að fá veð fyrir skuldinni svo hann losnaði við yfirdráttarvextina.
C arkitekt, hefur skýrt frá því að það hafi verið í maí eða júní að A fékk hann til þess að gera teikningar vegna eignaskiptasamnings í Síðumúla 2. Hafi honum skilist að þetta væri einnig gert að vilja þess sem A væri að kaupa af. Þegar hann, um sumarið, krafðist greiðslu fyrir vinnu sína hjá seljandanum, eins og A hefði bent honum á að gera, hafi honum skilist á seljandanum að óvíst væri með hana og hann þá hætt að vinna við verkið.
B, starfsmaður útibús Sparisjóðs vélstjóra, kveðst að mestu hafa séð um samskiptin við ákærða. Stóru lánin sem hann tók þegar hann keypti húsnæðið hafi þó ekki farið um hennar hendur, heldur í gegnum aðalbankann. Hún hefur kannast við það að ákærði hafi í janúar 2002 sýnt kauptilboðið í sparisjóðnum og það verið í sambandi við rýmkun á yfirdráttarheimild hans þar. Hafi hann upplýst hana um það, sem henni hafði verið ókunnugt um, að hann hefði selt Birgi hlut í húsnæðinu, og væri nú að selja honum meira. Hafi ákærði verið kominn í vanskil út af fasteigninni sem hann hafði keypt og hann viljað sýna fram á að hann ætti von á peningum. Hún segir Hallgrím í aðalbankanum einnig hafa frétt eftir Birgi að einhver viðskipti, sem þau ekki vissu um, hefðu verið á milli hans og ákærða jafnhliða kaupum ákærða á húsnæðinu.
D lögfræðingur, hefur skýrt frá því að hann hafi átt inni laun hjá fasteignasölu ákærða og ákærði gefið út tvö skuldabréf fyrir þessari fjárhæð. Kveðst hann eingöngu hafa séð um skjalagerð fyrir fasteignasölu ákærða en ekki unnið önnur lögfræðistörf fyrir hana. Hann kveðst ekki hafa vitað af samningi ákærða og A á þessum tíma og það hafi ekki verið fyrr en eftir að ákærði hafði gefið út bréfin að hann sagði vitninu að hann ætti í einhverjum samningum við A. Ekki muni hann nákvæmlega hvenær það var. Hann segist oft hafa rekist á A þegar hann leit við á fasteignasölunni en samning þeirra ákærða hafi aldrei borið á góma svo hann heyrði.
R, fyrrverandi sambýliskona ákærða, hefur skýrt frá því að hún hafi unnið á fasteignasölunni hjá ákærða í mörg ár, m.a. á þeim tíma sem A keypti hluta í húsnæðinu og á meðan D lögfræðingur, starfaði fyrir ákærða. Segir hún að það hafi verið altalað meðal starfsfólks á skrifstofunni að A hefði keypt hlut í húsnæðinu. A hafi enda verið tíður gestur á fasteignasölunni. Hún kveðst ekki muna eftir neinum sérstökum samtölum við D um þessi kaup en segir að henni finnist það mjög ólíklegt að hann hafi ekki vitað um þau eða komist hjá því að vita um þau.
S, sem starfaði á fasteignasölu ákærða á þeim tíma sem máli skiptir, hefur skýrt frá því að hann hafi heyrt af sammningi ákærða og A meðan hann vann þarna. Hann kveðst halda að þeir D hafi hætt að starfa hjá ákærða um sama leyti. Hann segir A hafi komið þar oft á þessum tíma, einu sinni til tvisvar í viku. Kveðst hann halda að þetta samkomulag hans og ákærða hafi verið á allra vitorði á fasteignasölunni. Hann hafi þó ekki þekkt náið til efnisatriða heldur það eitt að þeir ákærði væru að kaupa húsnæðið saman.
T sem starfar sem sérfræðingur í útlánum hjá Landsbanka Íslands, kveðst hafa fjallað um veðsetninguna sem um ræðir. Hann kveðst ekki hafa komist yfir það að skoða öll gögn sem henni tengjast hjá bankanum áður en hann kom fyrir dóminn að gefa skýrslu þessa. Hann kveðst engin gögn hafa haft um kaup A á hluta húsnæðisins en kveðst hafa haft veður af því að ákærði ætlaði að selja honum af húsnæðinu. Kveðst hann enda hafa ráðlagt ákærða að selja alla eignina strax því hann hefði keypt hana við mjög hagstæðu verði, 10 15 milljónum undir matsverði. Fasteignasalan hafi enda verið rekin með tapi sem ákærði fjármagnaði með því að veðsetja íbúðarhúsnæði sitt. Að ákæðri hefði verið að selja hluta húsnæðisins í Síðumúla kveðst vitnið ekki hafa vitað fyrr en um ári seinna. Hafi engin skjöl þar að lútandi borist bankanum. Hann tekur þó fram að hann hafi aðeins leitað að skjölum sem voru vistuð inni á tölvudrifi sem er ætlað fyrir “öll lánamál” í tölvu bankans. Hafi hann ekki haft aðgang að “folder” þar sem skjölin eru geymd. Hann kveðst þó treysta sé til þess að fullyrða að þessi viðskipti hafi aldrei komið inn á borð bankans.
Ákærði tekur fram vegna skýrslu T að hann hafi skipt við útibússtjórann en ekki við T, þegar samið var um veðsetninguna sem um ræðir í málinu. Aftur á móti muni þeir T hafa átt fund þegar ákærði reyndi að semja við bankann um “endurfjármögnun” á allri skuldinni á árinu 2002.
Niðurstaða.
A. Ákærða er í fyrsta lagi gefið það að sök að hafa “vanrækt að tryggja A afsal fyrir veðbandslausum” hlut í fasteigninni í samræmi við 9,5 milljón króna hlut hans í fyrstu greiðslunni fyrir húsnæðið. Ekki verður séð að þótt ákærði hafi vanefnt að A fengi afsal fyrir sínum hlut í fasteigninni, geti það talist vera aðgerð sem hafi bundið A í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga. Kemur hvort tveggja til að vanefndin var athafnaleysi af hálfu ákærða og eins hitt að hún getur ekki talist hafa bundið A við neitt í skilningi ákvæðisins. Ber að sýkna ákærða af ákærunni að þessu leyti.
B. Þá er ákærða gefið að sök að hafa misnotað sér aðstöðu sína með því að hafa, 15. júní 2001, án vitundar A, flutt veð af fasteign, sem ákærði átti á Grandavegi 9, á húsnæðið í Síðumúla 2. Í 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39,1978 er vísað til þeirrar meginreglu kröfuréttarins að eldri samningsréttindi um fasteign gangi framar hinum yngri. Þá kemur þar fram að til þess að yngri þinglýst réttindi gangi því aðeins framar eldri óþinglýstum réttindum að rétthafi eftir yngri samningi sé grandlaus um eldri réttindin. Hefur ákærði haldið því fram að veðhafanum, Landsbanka Íslands, hafi verið kunnugt um samkomulag þeirra A, þ.e. útibússtjóranum sem hann skipti við varðandi þennan veðflutning. Annar starfsmaður bankans hefur hins vegar komið fyrir dóminn og fullyrt að samningur um þessi réttindi A hafi aldrei komið inn á borð bankans. Hann hefur þó tekið fram að hann hafi ekki haft tíma til þess að kanna önnur skjöl bankans varðandi þetta en þau sem hafa verið “skönnuð” inn. Verður framburður hans ekki skilinn öðru vísi en svo að hann hafi vissan fyrirvara á þeirri fullyrðingu að samkomulag ákærða og A hafi ekki borið á góma í samningum ákærða og bankans um veðflutninginn. Um þetta atriði hvílir sönnunarbyrðin á ákæruvaldiðnu, sbr. 45. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991. Þykir ekki vera alveg óhætt að slá því föstu í sakamáli að bankanum hafi ekki verið eða ekki mátt vera kunnugt um betri rétt A. Ber því að sýkna ákærða af þessu ákæruatriði.
C. Ákærða er ennfremur gefið að sök að hafa veðsett umrætt húsnæði fyrir 2,3 milljóna króna láni frá Landsbanka Íslands vegna lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi ákærða við seljanda húsnæðisins. Ljóst er að réttur A gekk ekki framar rétti seljandans til greiðslu fyrir húsnæðið og þótt skuld þessari væri þinglýst á eignina gat það engu breytt fyrir A. Af því leiðir að sýkna ber ákærða af þessu ákæruatriði.
D. Loks er ákærði saksóttur fyrir að veðsetja húsnæðið fyrir 6,25 milljón króna launaskuld við D lögfræðing, sem vann að skjalagerð fyrir hann. Ákærði segir að D hafi verið kunnugt um samkomulag þeirra A. Þessu hefur D neitað en kannast við að hafa oft rekist á A á fasteignasölunni. Tvö vitni sem störfuðu á fasteignasölu ákærða, annað þeirra er að vísu fyrrverandi sambýliskona hans, hafa borið að samkomulagið hafi verið á allra vitorði á fasteignasölunNi. Segir fyrrum sambýliskona ákærða það vera með ólíkindum að D hafi ekki verið kunnugt um þetta samkomulag. Dómaranum þykir með vísan til þess sem vitnin R og S bera, eftir að hafa hlýtt á framburð D og loks eins og málavöxtum er háttað, ekki alveg óhætt að hafna framburði ákærða um það að D hafi verið kunnugt um réttindi A. Með vísan til alls þessa og til þess sem segir undir staflið B hér að framan ber að sýkna ákærða af þessu ákæruatriði.
II. kafli ákærunnar, fjárdráttur.
Ákærði hefur að öllu leyti viðurkennt fjárdráttinn sem hann er ákærður fyrir í II. kafla ákærunnar. Hefur hann gerst sekur um brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga í öllum tilvikunum sem tilgreind eru í þessum ákærukafla. Fyrir liggur að ákærði endurgreiddi fljótlega það fé sem hann dró sér, nema í síðasta tilvikinu.
Refsing og sakarkostnaður.
Ákærði er saksóttur “fyrir umboðssvik og fjárdrátt í starfi sem löggiltur fasteignasali”. Í ákærunni eru brot hans þó ekki talin eiga að varða aukinni refsingu eftir 138. gr. almennra hegningarlaga, eins og löng venja er þó fyrir. Í málflutningi var allt að einu lögð áhersla á það að líta yrði til þess að hann var löggiltur fasteignasali þegar hann framdi brot sín. Ekki er unnt að fallast á þetta sjónarmið ákæruvaldsins, eins og saksókninni er hagað, og verður staða ákærða ekki metin honum til refsiþyngingar.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot. Hann lagði inn réttindi sín og hætti fasteignasölu. Þá hefur hann reynt að selja eignir sínar til þess að endurgreiða það sem hann skuldar vegna síðasta tilviksins. Brot ákærða er hins vegar stórfellt vegna fjárhæðanna sem hann dró sér og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Meðferð málsins hefur dregist nokkuð og þykir vegna þess og vegna viðleitni ákærða til þess að bæta tjón af broti sínu mega ákveða að fresta framkvæmd 12 mánaða af refsingunni og að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Einari Gauti Steingrímssyni hrl., 40.000 krónur í málsvarnarlaun en 660.000 króna málsvarnarlaun til verjandans ber að greiða úr ríkissjóði. Annan kostnað mun ekki hafa leitt af máli þessu.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Finnbogi Kristjánsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Frestað er framkvæmd 12 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði verjanda sínum, Einari Gauti Steingrímssyni hrl., 40.000 krónur í málsvarnarlaun en 660.000 króna málsvarnarlaun til verjandans greiðist úr ríkissjóði.