Hæstiréttur íslands
Mál nr. 105/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Vanlýsing
|
|
Þriðjudaginn 17. febrúar 2015 |
|
Nr. 105/2015. |
Össur Brynjólfsson (Einar Páll Tamimi hdl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Vanlýsing.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu Ö var hafnað og staðfest sú afstaða slitastjórnar G hf. að taka kröfu Ö ekki inn á kröfuskrá þar sem henni hafði ekki verið lýst fyrr en eftir að kröfulýsingarfrestur samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. rann út.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2015, þar sem kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín verði viðurkennd við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Össur Brynjólfsson, greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2015.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 8. nóvember 2013. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 31. janúar 2014 og fyrst tekið til úrskurðar föstudaginn 31. október 2014, en endurflutt og tekið til úrskurðar að nýju föstudaginn 16. janúar sl.
Sóknaraðili er Össur Brynjólfsson, Greniási 2, Garðabæ, en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess krafa sú sem hann lýsti með kröfulýsingu 31. júlí 2013 verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og verði færð á kröfuskrá við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað og þannig verði staðfest sú afstaða slitastjórnar hans að krafan sé niður fallin gagnvart varnaraðila og verði ekki tekin á kröfuskrá. Þá krefst hann málskostnaðar og einnig álags á málskostnað, sbr. c. lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Eins og mál þetta var borið undir dóminn og eftir að sóknaraðili breytti kröfugerð sinni undir rekstri þess er hér aðeins til úrlausnar hvort krafa sóknaraðila skuli færast á kröfuskrá varnaraðila eða hvort hún teljist fallin niður fyrir vanlýsingu. Er því á þessu stigi ekki deilt um efnislegt réttmæti kröfunnar.
I
Málsatvik eru þau að sóknaraðili og varnaraðili gerðu með sér bílasamning/kaupleigusamning um bifreiðina NF-639 þann 7. ágúst 2007. Samningsfjárhæð var 3.529.041 króna. Fyrsti gjalddagi mun hafa verið 15. september 2007, en gjalddagar samtals 60 einu sinni í mánuði. Lánsfjárhæðin miðaðist við gengi tveggja erlendra gjaldmiðla til jafns, þ.e.a.s. japanskra jena og svissneskra franka. Í júlí 2008 seldi sóknaraðili umrædda bifreið og var samningurinn yfirtekinn af kaupanda. Byggir sóknaraðili á að hann hafi við uppgjör umrædds samnings ofgreitt varnaraðila nánar tiltekna fjárhæð þar sem samningurinn hafi verið bundinn gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Gerir sóknaraðili einnig kröfu um greiðslu vaxta af framangreindri fjárhæð frá uppgjörsdegi og til 22. apríl 2009, sem telst upphafsdagur slitameðferðar varnaraðila.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Hinn 15. október 2008 var Nýi Glitnir banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) stofnaður um innlenda bankastarfsemi varnaraðila í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að færa hluta af starfsemi varnaraðila til nýs banka sem stofnaður hafði verið og var að fullu í eigu íslenska ríkisins. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009. Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009. Áður en sá tími var á enda, 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt ákvæðum 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt lögum nr. 44/2009, en viðkomandi lagareglur er nú að finna í XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þ.á m. um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna varnaraðila, 25. maí 2009, og birtist hún fyrst í Lögbirtingarblaðinu, 26. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum því 26. nóvember 2009. Slitameðferð varnaraðila stendur enn yfir. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni 31. júlí 2013.Vísar hann til þess að honum hafi ekki verið kunnugt, eða geta verið kunnugt um tilvist eða efni kröfu sinnar fyrir lok kröfulýsingarfrests, en fyrstu dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingarákvæða í lánssamningum hafi fallið á árinu 2010, en réttarstaðan hafi verið að skýrast síðan eftir því sem fleiri dómar hafi fallið um þetta efni.
Varnaraðili hafnaði því að taka kröfu sóknaraðila á kröfuskrá og vísaði einkum til þess að hann teldi kröfuna fallna niður fyrir vanlýsingu. Sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu innan lögmæltra tímamarka. Eftir að reynt hafði verið að jafna ágreining aðila án árangurs var málinu vísað til úrlausnar dómsins.
II
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að kröfulýsingarfrestur við slitameðferð varnaraðila hafi runnið út 26. nóvember 2009. Sóknaraðili telji að eins og hér hátti til, þ.e.a.s. þegar honum hafi hvorki verið né mátt vera ljós tilvist kröfu sinnar og enn síður efni hennar við lok kröfulýsingarfrests, skuli honum heimilt að koma kröfu sinni að, nú þegar bæði atriði liggi loks ljós fyrir. Aðstæður málsaðila og málsforræðisregla einkamálaréttarfars valdi því að dómar Hæstaréttar Íslands hingað til, er varði frávik frá meginreglunni um útilokunaráhrif vegna vanlýsingar verði ekki lagðir til grundvallar um kröfu sóknaraðila í máli þessu. Sóknaraðili telji mörg sjónarmið styðja það að krafa hans verði tekin til greina svo sem hún sé sett fram.
Frá því að samningur sóknaraðila og varnaraðila hafi verið gerður upp við sölu umræddrar bifreiðar, þ.e. á tímabilinu frá 2010 og allt fram á þetta ár, hafi fallið fjölmargir dómar í Hæstarétti sem slegið hafi því föstu að gengistrygging sú sem samningurinn leggi til grundvallar hafi verið og sé ólögmæt, auk þess að veita undir það síðasta leiðbeiningar um það hvernig skuldbindingar aðila slíkra samninga skyldu reiknaðir og eftir atvikum gerðir upp. Kröfufjárhæð sóknaraðila byggi á niðurstöðu áðurnefndra dóma.
Sóknaraðili haldi því fram að útilokunarreglu 118. gr. laga nr. 21/1991 verði ekki beitt gegn honum, enda fælist í beitingu reglunnar ónauðsynleg og ólögmæt skerðing á eignarrétti hans sem varinn sé af 72. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Engir almannahagsmunir réttlæti slíka skerðingu svo sem t.a.m. megi glöggt sjá þegar reglur um lýsingu kröfu eftir lok kröfulýsingarfrests í nágrannalöndum Íslands séu skoðaðar.
Eins og á standi hafi sóknaraðili enga möguleika haft á að lýsa kröfu sinni sem hvorki hann né nokkur annar hafi vitað eða mátt vita að væri fyrir hendi né hvert inntak væri fyrir lok kröfulýsingarfrests. Aukinheldur liggi rætur kröfunnar í ólögmætri háttsemi varnaraðila sjálfs sem hafi boðið samninga svo sem þann sem sóknaraðili hafi gert við hann sem „hilluvöru“ sem honum og öðrum neytendum hafi staðið til boða ásamt öðrum stöðluðum samningum.
Hæstiréttur hafi vikið að sanngirnisrökum í fleiri en einum dóma sinna að því er varði kröfur sem fram hafi komið eftir lok kröfulýsingarfrests, þ.e.a.s. hafi ekki einskorðað sig við skýringu á lagatextanum, þó svo að rök hafi ekki í þeim dómum leitt til þeirrar niðurstöðu að kröfur yrðu viðurkenndar. Öndvert við aðstöðuna í þessu máli, hafi kröfuhafi í þeim málum vitað af tilvist kröfu sinnar við lok kröfulýsingarfrests, þó svo umfang kröfunnar hafi eftir atvikum ekki verið fullljóst.
Sú krafa sem hér sé sett fram sé þannig vaxin að einsýnt sé að öll sanngirnisrök leiði til þess að hún skuli viðurkennd. Það myndi ekki hafa óeðlileg áhrif á hagsmuni varnaraðila sem beri stærsta ábyrgð á því að samningurinn að baki kröfunni hafi yfirleitt verið gerður og þ.a.l. því að sóknaraðili hafi staðið í þeirri trú að hann væri lögmætur og hafi ekki vitað um kröfu sína vegna ofgreiðslu á grundvelli hans. Það myndi ekki hafa óeðlileg áhrif á slitaferlið sjálft þar sem frumvarp til úthlutunar liggi ekki fyrir. Þá myndi það ekki raska hagsmunum annarra kröfuhafa sem ekki hafi getað vænst annars en að allir þeir sem ættu kröfu gegn fjármálafyrirtæki myndi lýsa henni og að við úthlutun fengju þeir einungis endurheimtur í samræmi við það. Sú aðstaða að krafa sóknaraðila komist að nú, feli því það eitt í sér að aðrir kröfuhafar fái það út úr slitunum sem þeim raunverulega beri en ekki meira. Loks hafi sóknaraðili enga möguleika átt á að lýsa kröfu sinni fyrr, þar sem tilvist hennar og efni hafi ekki legið fyrir fyrr en nú og það sé alfarið sök fjármálafyrirtækisins.
Til þess standi heldur engin eðlisrök að komið verði að kröfu á grundvelli 2. tl. 118. gr. en ekki kröfu sem kröfuhafi hafi ekki getað vitað um að hann ætti eða hvers efnis væri þegar kröfulýsingarfresti hafi lokið. Ekki verði með nokkru móti séð að sú aðstaða kröfuhafa sem búsettur sé erlendis að vita ekki um gjaldþrotaskipti/slitameðferð, feli í sér ríkari ástæðu til að heimila honum að koma að kröfu sinni eftir lok kröfulýsingarfrests en sú aðstaða kröfuhafa sem búsettur sé á Íslandi sem hvorki viti né megi vita um tilvist og efni kröfu sinnar.
III
Varnaraðili vísar til þess í greinargerð að krafa sóknaraðila byggist á því að uppgreiðslustaða við nafnbreytingu á greiðanda samningsins hafi verið grundvölluð á ólögmætum gengistryggðum lánasamningi og að sóknaraðili hafi af þeim sökum orðið fyrir einhverskonar tjóni, þó slíkt sé ekki tekið fram berum orðum hafi ofgreitt. Varnaraðili byggi á því að málsgrundvöllur sem og frambornar málsástæður sóknaraðila séu órökstuddar með öllu og hann hafni þeim alfarið.
Varnaraðili geri kröfu um að afstaða hans um að hafna kröfunni verði staðfest enda ekki komin fram rök sem leiða eigi til þeirrar niðurstöðu að líta beri framhjá þeim vanlýsingaráhrifum sem 118. gr. laga nr. 21/1991 mæli fyrir um.
Sóknaraðili virðist gefa sér að lán hans sem greitt hafi verið upp sé óumdeilt svokallað gengistryggt lán og vísi þannig til þess að frá uppgreiðslu hafi fallið fjölmargir dómar Hæstaréttar sem slegið hafi slíku föstu. Sóknaraðili tilgreini hvorki hvaða dómar Hæstaréttar þetta séu né hvert fordæmisgildi þeirra sé varðandi þau atriði sem renni stoðum undir það að lán hans teljist í raun ólöglegt gengistryggt lán. Sé þessi málsástæða sóknaraðila órökstudd og sé henni alfarið hafnað.
Sóknaraðili byggi kröfu sína á því að vanlýsingaráhrif 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki að gilda í hans tilfelli og telji einungis upp þá ástæðu að hann hafi ekki mátt vita um kröfu sína fyrir lok kröfulýsingarfrests. Af þeim sökum telji sóknaraðili að líta verði til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1.viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Þessari málsástæðu sé harðlega mótmælt enda séu vanlýsingaráhrif 118. gr. laga nr. 21/1991 skýr hvað varði kröfur sem berist eftir lok kröfulýsingarfrest. Þannig komi fram í lagareglunni að ef kröfu á hendur þrotabúi sé ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti ljúki skv. 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 og ekki sé unnt að fylgja henni fram gagnvart því skv. 116. gr. sömu laga þá falli hún niður gagnvart búinu. Reglan sé mjög skýr og hafi undantekningar frá henni verið skýrðar þröngt enda sé reglunni ætlað að gæta jafnræðis kröfuhafa og tryggja málshraða. Þannig álíti varnaraðili að ekki sé hægt að koma kröfu að við slitameðferð varnaraðila nema þær undantekningar sem settar séu fram í 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við. Ekki verði séð að byggt sé á því af hálfu sóknaraðila að umræddar undantekningar eigi við í málinu. Eigi þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu varnaraðila um höfnun enda óumdeilt að kröfu sóknaraðila hafi ekki verið lýst fyrir slitastjórn varnaraðila fyrr en eftir lok kröfulýsingarfrests.
Varnaraðili hafni því að í beitingu 118. gr. laga nr. 21/1991 felist „ónauðsynleg og ólögmæt skerðing á eignarrétti“ sóknaraðila eins og byggt sé á af hans hálfu. Sóknaraðili geri engan reka að því að skýra nánar þessa málsástæðu og útlista, til dæmis, með hvaða hætti ætluð krafa hans eigi að njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Kröfu sóknaraðila hafi verið lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 en ekki sem sértökukröfu skv. 109. gr. sömu laga eða annarri forgangskröfu sem taki til beins eða óbeins eignarréttar. Einu rökin sem sóknaraðili styðjist við í sínum málatilbúnaði lúti að því að hann sem kröfuhafi hafi ekki vitað eða mátt vita að hann ætti tilkall til kröfu vegna uppgreiðslufjárhæðarinnar eða hvert inntak þeirrar kröfu væri. Varnaraðili bendi á að í þeim undantekningarreglum sem 1. til 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 fjalli um sé ekki að finna neina undanþágu frá vanlýsingaráhrifum handa þeim sem kunni að hafa verið ókunnugt um rétt efni kröfu sinnar á meðan fresti hafi ekki verið lokið til að lýsa henni. Vísist um þetta atriði m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 222/2001.
Varnaraðili bendi á að eitt meginskilyrði þess að almenn takmörkun samrýmist stjórnarskrá sé að hún hvíli á skýrri lagaheimild. Undir þetta falli tvímælalaust reglur um vanlýsingu sem mæli fyrir um brottfall kröfuréttinda ef rétthafinn gefi sig ekki fram, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, 58. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Varnaraðili vísi hér einnig til dóms Hæstaréttar í máli nr. 92/1995, þar sem því hafi verið hafnað að brottfall ítaksréttinda án bóta samrýmdist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og tekið fram að réttarreglur um brottfall réttinda án bóta, ef þeim sé ekki beitt eða haldið fram, hafi lengi gilt, svo sem fyrrnefndar reglur um vanlýsingu og fyrningu.
Það skipti
máli hér að mati varnaraðila hvenær ætluð krafa sóknaraðila eigi að hafa
stofnast, en í dómaframkvæmd hafi verið litið svo á að á því tímamarki þegar
skuldari greiði kröfuhafa umfram það sem efni standi til, stofnist
endurheimtukrafa. Virðist kröfugerð sóknaraðila í raun byggja á því þar sem
upphafstími vaxtakröfu sóknaraðila miðist við þann dag sem lánasamningurinn
hafi verið færður á nafn þess aðila er tekið hafi yfir samninginn, þ.e.
uppgjörsdaginn.
Engar réttarheimildir standi til þess að krafa geti stofnast við uppkvaðningu
ótilgreindra dóma Hæstaréttar eins og sóknaraðili virðist byggja á eða þá að
krafan geti stofnast við uppgreiðslu en orðið virk á þeim tímapunkti er
sóknaraðili hafi fengið vitneskju um efni þeirra. Slíkar niðurstöður eigi sér
enga stoð í meginreglum kröfuréttar um stofnun kröfu. Þá geti sóknaraðili ekki
borið því við að aðrir ótilgreindir lántakendur sem staðið hafi í málaferlum
vegna sambærilegs ágreinings geti með einhverjum hætti ákvarðað kröfuréttindi
til handa sóknaraðila gagnvart varnaraðila. Varnaraðili telji þvert á
málatilbúnað sóknaraðila að það fari gegn málsforræðisreglu einkamálaréttarfars
ef niðurstaða í öðrum óskyldum dómsmálum geti verið grundvöllur kröfugerðar
sóknaraðila í því máli sem hér sé rekið. Varnaraðili telji að niðurstaða í þeim
málum eigi í það minnsta ekki að leiða til þess að krafa til handa sóknaraðila
geti stofnast í skilningi kröfuréttar við tímamark þeirra dóma.
Eins og áður sé rakið telji varnaraðili að frambornar málsástæður sóknaraðila gangi þvert á tilgang laga um gjaldþrotaskipti um jafnræði kröfuhafa og málshraða. Sóknaraðili hafi hins vegar dregið það til loka júlímánaðar 2013 að lýsa kröfu sinni, þegar rúmlega þrjú ár hafi verið liðin frá því að fyrstu dómar Hæstaréttar er varðað hafi lögmæti gengistryggingarákvæða í lánasamningum hafi verið kveðnir upp í júní 2010. Varnaraðili telji þannig að ekkert hafi átt að standa því í vegi að sóknaraðili héldi uppi kröfu á hendur varnaraðila, teldi hann sig eiga tilkall til slíkrar kröfu. Jafnframt sé bent á í því sambandi að um tuttugu mánuðir hafi liðið frá uppgreiðslu lánsins og þar til kröfulýsingarfresti hafi lokið við slitameðferð varnaraðila. Varnaraðili telji einsýnt að hafna beri kröfu sóknaraðila hvað sem líði tilvísunum hans til 72. gr. stjórnarskrárinnar og óljósrar tilvísunar til Mannréttindasáttmála Evrópu. Eftir standi að það sé sóknaraðili sem verði að bera hallann af því að hafa ekki lýst kröfu sinni fyrr en raun beri vitni.
Varnaraðili bendi á að form og skilyrði þess að lýsa kröfu við gjaldþrotaskipti séu sanngjörn og eðlileg, eins og margoft hafi verið staðfest í dómaframkvæmd, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 619/2010. Það sem skipti meginmáli hér að mati varnaraðila sé að gjaldþrotaskiptalöggjöfin byggi á þeirri meginreglu að allir kröfuhafar skuli sitja við sama borð og kröfur þeirra að hljóta sömu meðferð. Standi engin rök til þess að mati varnaraðila að víkja beri frá þeim á grundvelli sanngirnissjónarmiða eins og sóknaraðili haldi fram.
Varnaraðili telji auk þess rétt að benda á að sóknaraðili vísi ekki til neinna réttarheimilda að undanskildum óljósum tilvísunum til Hæstaréttardóma í kröfulýsingu, sem að vísu sé ekki getið í greinargerð, sem og óljósrar tilvísunar í eðli máls. Einu rök sóknaraðila séu því að er virðist þau að hann hafi ekki getað vitað að hann hafi getað átt kröfu. Þannig virðist sóknaraðili telja að engum hafi mátt vera ljóst að ákveðnir lánasamningar kynnu að vera ólögmætir. Þessi staðhæfing geti hins vegar ekki staðist enda hefði þá ekki verið grundvöllur fyrir nokkurn aðila til að höfða mál um ólögmæti slíkra lánasamninga. Varnaraðili telji það þannig eðli slíkra mála að við ákveðna athöfn eða athafnaleysi verði til krafa sem grundvallist eftir atvikum á tjóni sem hlotist hafi af þeirri athöfn eða athafnaleysi. Þá þegar verði hins vegar til krafa á hendur þeim aðila sem eigi að hafa valdið tjóninu. Krafan geti ekki orðið til síðar vegna dóma Hæstaréttar í málum annarra aðila. Varnaraðili telji það því rangt að sóknaraðili hafi ekki átt möguleika á því að lýsa kröfunni fyrr þar sem tilvist hennar hafi ekki legið fyrir. Varnaraðili telji staðhæfinguna einfaldlega ekki standast, enda fari hún gegn öllum meginreglum kröfuréttar og skaðabótaréttar um stofnun krafna eins og fyrr segi. Beri sóknaraðili alla sönnunarbyrði um hið gagnstæða.
Ef ekki verði fallist á framangreindar málsástæður varnaraðila, þá byggi hann á því að krafa sóknaraðila sé niður fallin sökum fyrningar eða eftir atvikum á grundvelli tómlætis.
Varnaraðili vísi til þess að miklar umræður hafi átt sér stað um slitameðferð varnaraðila og lok kröfulýsingarfrests við hana. Sóknaraðili hafi þannig getað og hefði átt að gera sér grein fyrir því, teldi hann sig eiga kröfu á varnaraðilar, að honum bæri að hafa hana uppi fyrir lok kröfulýsingarfrests, eða í öllu falli að lýsa henni án ástæðulauss dráttar.
Varnaraðili byggi á því að krafa sóknaraðila sé fyrnd með vísan til 3. gr. laga nr. 105/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Vísi varnaraðili til þess að á því tímamarki þegar skuldari greiði kröfuhafa umfram það sem efni standi til, stofnist endurheimtukrafa til handa skuldara. Lögskiptum aðila hafi lokið við uppgjörsdag og verði það að teljast óumdeilt. Ef lögskiptum ljúki með greiðslu láns eða með því að þriðji aðili taki yfir skuldbindingar greiðanda, sama hvort greiðslan sé framkvæmd vegna ólögmæts lánssamnings eða ekki, þá sé ekki hægt að miða við neitt annað tímamark varðandi upphaf fyrningarfrests heldur en þann uppgjörsdag. Önnur niðurstaða myndi fela í sér að lögskiptum aðila hefði ekki lokið með aðilaskiptum eða uppgreiðslu samningsins. Væri með því verið að koma í vega fyrir að samningar hefðu nokkurt gildi og að endanlegt uppgjör væri því ekki raunverulegt uppgjör.
Beri því samkvæmt framanröktu að telja frest frá uppgjörsdegi, 15. júlí 2008, enda geti greiðandi í fyrsta lagi átt rétt til endurgreiðslu frá því tímamarki, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 105/2007. Réttur sóknaraðila til að innheimta greiðslu úr hendi varnaraðila hafi því fallið niður 16. júlí 2012.
Ef ekki verði fallist á að krafan sé fyrnd þá sé á því byggt af hálfu varnaraðila að krafa sóknaraðila hafi misst réttarvernd sína sökum tómlætis, sérstaklega með hliðsjón af því að enginn fyrirvari hafi verið gerður við aðilaskiptin sem og þess dráttar sem orðið hafi á innheimtu kröfunnar. Almennt sé talið að réttur til endurheimtu ofgreiðslu geti skerst eða fallið niður mun fyrr en fyrningarfrestur segi til um, vegna tómlætis. Telji varnaraðili að miða eigi hér við sama tímamark og varði upphaf fyrningarfrests, þ.e. við uppgreiðslu en áhrif tómlætis til niðurfellingar kröfuréttinda séu sterk hvað varði kröfur af því tagi sem hér séu til umfjöllunar sem skýrist af sjónarmiðum um mikilvægi þess að aðilar kröfuréttarsambands geti treyst því að í greiðslu felist endanlegt uppgjör kröfu.
Verði fallist á með sóknaraðila að krafa hans sé ekki of seint fram komin og að ákvæði 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við, þá telji varnaraðili að málsástæður sóknaraðila séu ekki settar fram með þeim hætti sem 117. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 177. gr. sömu laga, áskilji og að grundvöllur kröfu sóknaraðila sé svo óljós að leiða eigi sjálfkrafa til höfnunar kröfunnar sökum vanreifunar.
Varnaraðili vísi til þess að hvergi komi fram hver sé grundvöllur kröfunnar, hvort krafan sé í formi skaðabótakröfu eða í hvaða formi öðru hún kunni að vera sett fram. Ekki sé vísað til neinna laga sem varnaraðili eigi að hafa brotið heldur látið nægja að vísa almennt til þess að krafa sóknaraðila hafi ekki orðið ljós fyrr en eftir ótilgreinda dóma Hæstaréttar. Varnaraðila sé því í raun ómögulegt að taka til varna á þeim grunni, hvort sem litið sé til framsetningar málsástæðna í kröfulýsingu eða greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms. Varnaraðili fari því fram á að kröfu sóknaraðila verði hafnað af þessum sökum.
Varnaraðili kveðst vísa til ákvæða laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 44. gr. laga nr. 4/2009 og síðari breytingar, meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og hraða málsmeðferð, meginreglna kröfuréttar og skaðabótaréttar um stofnunarhætti krafna. Kröfu um málskostnað byggi varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðili stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og því þurfi að taka tillit til skyldu hans til greiðslu slíks skatts af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar honum til handa. Við munnlegan málflutning krafðist varnaraðili álags á málskostnað með vísan til c. liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
IV
Fallast má á með varnaraðila að málatilbúnaður sóknaraðila hefði mátt vera skýrari í kröfulýsingu hans og í greinargerð til dómsins. Á hinn bóginn verður ekki séð að þessi ágalli hafi verið með þeim hætti að það eitt og sér leiði til höfnunar kröfu sóknaraðila, en af hans hálfu var málatilbúnaður skýrður nánar við munnlegan flutning málsins og ekki verður séð að neitt það hafi þar komið fram sem ekki átti sér stoð í kröfulýsingu og greinargerð þannig að talist gætu nýjar málsástæður. Þá verður ekki séð að vörnum hafi orðið áfátt vegna umrædds óskýrleika.
Í málinu byggir sóknaraðili á því að hann eigi að geta komið að kröfu við slitameðferð varnaraðila þar sem hann hafi hvorki vitað né mátt vita af tilvist kröfunnar fyrir lok kröfulýsingarfrests. Telur hann að þurfi hann að sæta vanlýsingaráhrifum sem mælt er fyrir um í 118. gr. laga nr. 21/1991 færi slík niðurstaða í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 64/1994 og raskaði með því eignarréttindum sóknaraðila sem varin séu af nefndum ákvæðum. Vísar sóknaraðili til þess að með því að krafa hans falli niður vegna vanlýsingar þá felist í þeirri niðurstöðu brot á innbyggðri meðalhófsreglu fyrrnefndra ákvæða um vernd eignarréttar.
Í 118. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um það að krafa falli niður gagnvart þrotabúi sé henni ekki lýst innan kröfulýsingarfrests. Þá eru í ákvæðinu taldar upp í sex töluliðum undantekningar frá fyrrnefndri meginreglu. Sóknaraðili byggir ekki á því að krafa hans falli undir neina þessara undantekninga. Í réttarframkvæmd hefur reglum um vanlýsingu verið beitt fortakslaust og án tillits til þess hvort viðkomandi kröfuhafi telst neytandi eða sérfræðingur á viðkomandi sviði og er talið að með þessu sé stuðlað að jafnræði kröfuhafa.
Með dómi Hæstaréttar 18. ágúst 2014 í máli nr. 443/2014 var hafnað kröfu sem lýst eftir lok kröfulýsingarfrests við slitameðferð varnaraðila og vísaði sóknaraðili þess máls til allra þeirra meginsjónarmiða sem sóknaraðili þessa máls vísar til. Er ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að sá dómur hafi ekki fordæmisgildi varðandi þann ágreining sem hér er til úrlausnar þar sem ekki hafi verið fjallað með nægilega skýrum hætti um hvernig fullnægt væri skilyrðum 72. gr. stjórnarskrár og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmálans um meðalhóf. Er það mat dómsins að tilvitnaður dómur Hæstaréttar feli í sér afdráttarlaust fordæmi sem leggja beri til grundvallar úrlausn fyrirliggjandi ágreinings, enda sakarefni sambærileg sem og röksemdir aðila. Verður þegar af framangreindum ástæðum að hafna kröfu sóknaraðila og fallast á með varnaraðila að krafan komist ekki að við slitameðferð varnaraðila vegna vanlýsingar, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991.
Í ljósi framangreindra málsúrslita verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykir ástæða til þess eins og hér stendur á að mæla fyrir um greiðslu álags á málskostnað eins og varnaraðili krefst. Á hinn bóginn er tekið tillit til þess hagræðis sem af því hlaust að málið var flutt samhliða tveimur öðrum sambærilegum málum. Þá er og tekið tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Framangreindri kröfu sóknaraðila, Össurar Brynjólfssonar, sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf., 31. júlí 2013, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.