Hæstiréttur íslands
Mál nr. 290/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 290/2002. |
Kristín Ólafsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Kærumál. Endurupptaka.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mál varnaraðila á hendur Stephen Peter McKeefry yrði endurupptekið. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið upp á ný, svo og að varnaraðila verði gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Kristín Ólafsdóttir, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2002.
I
Mál þetta var tekið til úrskurðar 15. maí 2002. Sóknaraðili, Kristín Ólafsdóttir kt. 180172-4089, Þórsgötu 19, Reykjavík krefst þess að héraðsdómsmálið nr. E-13/2002, Íslandsbanki hf. gegn Stephen Peter McKeefry verði endurupptekið, en varnaraðili, Íslandsbanki hf. kt. 421289-2719, Skútuvogi 11, Reykjavík krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað.
II
Þann 17. desember sl. höfðaði Íslandsbanki hf. kt. 421289-2719, Skútuvogi 11, Reykjavíkur mál á hendur Stephen Peter McKeefry kt. 140771-2690, Þórsgötu 19, Reykjavík til greiðslu kr. 309.568 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 6.599 krónum frá 4. júlí 2001 til 3. ágúst 2001 þá af 3.490 krónum til 5. september 2001 þá af 257.592 krónum til 3. nóvember 2001 þá af 34.573,90 krónum til 5. nóvember 2001 þá af 7.312 krónum til greiðsludags. Þá er krafist staðfestingar á kyrrsetningargerð sem gerð var 20. nóvember 2001 í eignarhluta stefnda í fasteigninni Þórsgötu 19, íbúð 0302, Reykjavík. Þá er krafist málskostnaðar auk kostnaðar vegna kyrrsetningar 3.700 krónur kyrrsetningargjald í ríkissjóð og 14.000 krónur mót við kyrrsetningu. Mál þetta, E-13/2002 var þingfest þann 8. janúar 2002.
Við þingfestingu málsins var ekki sótt þing af hálfu stefnda en málinu frestað að ósk stefnanda til 22. janúar 2002 og var málið dómtekið þann dag. Áður en dómur gekk í málinu barst Héraðsdómi Reykjavíkur bréf lögmanns sóknaraðila, þar sem fram koma ábendingar og athugasemdir vegna málsins og þess farið á leit að Héraðsdómur Reykjavíkur vísi málinu frá dómi ex officio ef skilyrði teljist vera fyrir hendi en gefi sóknaraðila ella frest til að höfða meðalgöngumál svo að unnt verði að láta á athugasemdir og ábendingar hennar reyna sbr. 40. og 41. gr. laga nr. 31/1991. Bréf lögmannsins er dagsett sama dag og málið var dómtekið og kemur fram í bréfinu að það sé sent dóminum með faxi og boðsent sama dag. Bréfið var ekki lagt fram í málinu áður en það var dómtekið.
Sóknaraðili höfðaði síðan mál á hendur varnaraðila, mál nr. E-1822/2002, Kristín Ólafsdóttir gegn Íslandsbanka hf. og var það þingfest 14. febrúar 2002. Í því máli er þess krafist að kyrrsetning Íslandsbanka í eignarhluta Stephen Peter McKeefry, í fasteigninni Þórsgötu 19, Reykjavík, fyrir kröfum stefnda, Íslandsbanka hf. að fjárhæð 383.645 krónur annars vegar og 529.007 krónur hins vegar, verði felld úr gildi. Auk þess er krafist málskostnaðar. Í því máli krefst Íslandsbanki hf. sýknu auk málskostnaðar.
Vegna höfðunar máls nr. E-1822/2002 þar sem krafa er sett fram um að framangreint dómsmál nr. E-13/2002 verði endurupptekið, hélt dómari þess máls að sér höndum hvað snertir dómsuppkvaðningu. Þann 2. apríl 2002 var undirrituðum dómara falin meðferð máls nr. E-1822/2002 auk þess sem honum var falin meðferð þess ágreiningsmáls sem hér er til umfjöllunar.
Í stefnu í máli nr. E-1822/2002 kemur fram krafa stefnanda, sóknaraðila þessa máls, um endurupptöku þá sem hér er til umfjöllunar auk þess sem þess er krafist að málin verði sameinuð. Þegar mál E-1822/2002 var tekið fyrir hjá dómara 17. apríl 2002 var bókað að lögmenn væru sammála um að fresta því máli þar til niðurstaða lægi fyrir um kröfu um endurupptöku og þar með frestað að taka ákvörðun um sameiningu málanna. Í þessu ágreiningsmáli er því einungis til úrlausnar hvort skilyrði séu til endurupptöku máls nr. E-13/2002.
Formleg krafa sóknaraðila um endurupptöku málsins var lögð fram í þinghaldi þann 3. maí 2002. Í þinghaldi 15. maí 2002 var kröfu um endurupptöku mótmælt af hálfu varnaraðila og málið tekið til úrskurðar sama dag.
III
Sóknaraðili kveðst hafa farið fram á það 22. janúar sl. að máli nr. E-13/2002 yrði frestað svo hún gæti stefnt sér inn í það mál vegna ríkra hagsmuna sem hún eigi vegna kyrrsetningar. Hafi stefnandi þess máls, varnaraðili þessa máls, neitað henni um frest. Telur sóknaraðili lagaskilyrði til endurupptöku málsins þar sem stefndi, Stephen McKeefry hafi haft lögmæt forföll þegar hann hvorki mætti við þingfestingu málsins 8. janúar 2002 né við fyrirtöku þess 22. janúar 2002. Liggi fyrir að stefndi dveljist á Nýja Sjálandi og eigi því um langan veg að fara til að mæta til þinghalds. Hafi honum verið ókunnugt um málaferlin enda stefnan hvorki birt honum né lögmanni hans. Telur sóknaraðili því að skilyrði séu fyrir endurupptöku sbr. d-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 4. mgr. sömu greinar.
Fallist dómurinn ekki á að ákvæði 97. gr. fyrrnefndra laga eigi við sé endurupptöku krafist á grundvelli 137. gr. sömu laga og sé tímaskilyrðum þeirra ákvæða fullnægt.
Telur sóknaraðili að hún eigi sömu heimildir og stefndi varðandi endurupptöku málsins í ljósi þeirra hagsmuna sem hún eigi og þeirrar staðreyndar að samkvæmt 40. gr. laga nr. 31/1990 geti hún haft uppi kröfur sínar í sérstöku máli eða með meðalgöngu í kyrrsetningarmálinu. Kröfu hennar um að fresta málinu svo hún gæti höfðað meðalgöngumál hafi verið hafnað og hafi hún því höfðað sérstakt mál um kröfur sínar áður en dómur gekk í máli E-13/2002.
Varnaraðili mótmælir endurupptöku málanna þar sem engin lagaskilyrði séu til þess. Telur hann að hvorki 97. gr. né 137. gr. laga nr. 91/1991 veiti sóknaraðila heimild til aðildar að máli þessu auk þess sem 137. gr. geti ekki átt við þar sem máli því sem krafist sé endurupptöku á sé ekki lokið.
IV
Sóknaraðili byggir kröfu sína um endurupptöku fyrst og fremst á því að stefndi í málinu, Stephen McKeefry hafi haft lögmæt forföll og séu því skilyrði endurupptöku fyrir hendi sbr. d lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu ákvæði teljast forföll aðila frá þinghaldi lögmæt ef þau stafa af því að þörf sé á ferðalagi um langan veg fyrir viðkomandi. Sóknaraðili kveður stefnda dveljast á Nýja Sjálandi og því hefði hann þurft að ferðast um langan veg til að mæta til þinghalds hér á landi. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins getur aðili, sem ekki mætir í máli, en hefur lögmæt forföll sem dómara var ókunnugt um og ekki var unnt að tilkynna honum, snúið sér til dómara með sönnun fyrir forföllum sínum og skriflegri beiðni um endurupptöku máls, enda hafi dómur ekki gengið í því. Engin slík beiðni hefur borist frá aðila málsins og samkvæmt fortakslausu orðalagi ákvæðisins verður þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á það að sóknaraðili, sem ekki er aðili málsins, geti gert kröfu um endurupptöku þess.
Samkvæmt 137. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi beiðst endurupptöku útivistarmáls þegar dómur hefur gengið eða stefna verið árituð innan þriggja mánaða frá því að máli lauk í héraði með ákveðnum skilyrðum. Með sömu rökum og að framan greinir verður ekki fallist á að sóknaraðili geti gert kröfu um endurupptöku málsins þar sem einungis er gert ráð fyrir að stefndi geri kröfu sem þessa. Þá liggur fyrir að málinu er ekki lokið, dómur hefur ekki verið kveðinn upp í því eða stefna árituð og samkvæmt orðanna hljóðan verða eingöngu mál sem lokið hefur verið endurupptekin samkvæmt þessu ákvæði.
Sóknaraðili telur að í ljósi þeirra hagsmuna sem hún eigi og þeirrar staðreyndar að samkvæmt 40. gr. laga nr. 31/1990 geti hún haft uppi kröfur sínar í sérstöku máli eða með meðalgöngu í kyrrsetningarmáli, eigi hún sömu heimildir samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum og stefndi til endurupptöku. Samkvæmt 40. gr. laga nr. 31/1990 getur þriðji maður sem telur rétti sínum hallað í sambandi við kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, haft uppi kröfur sínar í staðfestingarmáli með meðalgöngu eða sótt þær í sérstöku máli. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Skal hann þá stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að honum verði leyfð meðalgangan og dæmt sakarefnið eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður. Fyrir liggur að mál það sem nú er krafist endurupptöku á var dómtekið án þess að sóknaraðili hefði uppi kröfur sínar í málinu með meðalgöngu hins vegar hefur sóknaraðili höfðað sérstakt mál um kröfur sínar eins og boðið er í framangreindu ákvæði. Ekki verður séð að þau úrræði sem sóknaraðili hefur samkvæmt ákvæði 40. gr. laga nr. 31/1990 leiði sjálfkrafa til þess að hún geti átt aðild að máli þessu þrátt fyrir fortakslaust orðalag fyrrgreindra ákvæða um aðild að kröfu um endurupptöku máls.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykja lagaskilyrði ekki vera til þess að taka kröfu sóknaraðila um endurupptöku málsins til greina.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Dögg Pálsdóttir hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Ármann Guðjónsson hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu Kristínar Ólafsdóttur um að mál nr. E-13/2002, Íslandsbanki gegn Stephen McKeefry verði endurupptekið.