Hæstiréttur íslands
Mál nr. 464/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Réttindaröð
|
|
Fimmtudaginn 4. september 2008. |
|
Nr. 464/2008. |
Þorbjörn Jónasson(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn þrotabúi Benedikts Matthíassonar (Katrín Theodórsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu Þ um að viðurkennd yrði krafa hans í þrotabú B um afhendingu tiltekinna fjármuna utan skuldaraðar. Bar Þ því við í málinu að hann væri réttur eigandi fjármunanna. Þar sem ekki þótti sannað að umræddir fjármunir væru eign Þ, samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., var kröfunni hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að viðurkennd yrði krafa hans á hendur varnaraðila um afhendingu á 190.000 evrum utan skuldaraðar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans á hendur varnaraðila verði viðurkennd. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en að því frágengnu að ekki verði viðurkenndur réttur sóknaraðila til hærri fjárhæðar en þeirrar, sem „greidd var inn á fjárvörslureikning varnaraðila þann 20. júlí 2007 ásamt áunnum vöxtum að frádregnum kostnaði þrotabúsins á máli þessu.“ Í öllum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir kröfu sinni um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Þorbjörns Jónassonar, um að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila, þrotabúi Benedikts Matthíassonar, um afhendingu á 190.000 evrum utan skuldaraðar.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2008.
Með bréfi skiptastjóra í þrotabúi Benedikts Matthíassonar, mótteknu 21. maí 2008, var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 13. júní 2008 og tekið til úrskurðar 31. júlí sl.
Sóknaraðili krefst þess að hnekkt verði þeirri ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi varnaraðila að hafna afhendingu á 190.000 evrum til sóknaraðila, og að krafa sóknaraðila um afhendingu fjárins verði viðurkennd utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og varnaraðila sé heimilt að hagnýta þá fjármuni sem Ríkislögreglustjóri greiddi inn á fjárvörslureikning varnaraðila þann 20 júlí 2007, ásamt áunnum vöxtum, til hagsbóta fyrir kröfuhafa þrotabús Benedikts Matthíassonar. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 18. desember 2003, var bú Benedikts Matthíassonar, kt. 310874-4189, tekið til gjaldþrotaskipta. Sama dag var Katrín Theodórsdóttir hdl. skipuð skiptastjóri búsins. Frestdagur við skiptin var 17. nóvember 2003. Alls var 22 kröfum lýst í búið, samtals að fjárhæð 18.131.863 krónur. Með bréfi skiptastjóra 20. júlí 2004 var boðað til skiptafundar þar sem skrá yfir lýstar kröfur var lögð fram. Ekki var tekin afstaða til almennra krafna þar sem um eignalaust bú var að ræða. Ekki var gerð athugasemd við afstöðu skiptastjóra á skiptafundi 23. ágúst 2004.
Áður en skiptalok höfðu verið auglýst voru 190.000 evrur teknar úr vörslum þrotamanns og haldlagðar af lögreglunni á Keflavíkurflugvelli 2. september 2006. Staðhæfði þrotamaður í fyrstu að hann væri eigandi fjármunanna, en við yfirheyrslu hjá Ríkislögreglustjóra 21. febrúar 2007 var lögð fram staðfesting manns sem kvaðst vera eigandi fjárins, þ.e. sóknaraðila máls þessa. Er sú staðfesting dagsett 28. desember 2006. Kemur þar fram að sóknaraðili hafi afhent þrotamanni fjármunina til bifreiðakaupa í Þýskalandi. Með bréfi Ríkislögreglustjóra 21. febrúar 2007 var skiptastjóra gert viðvart um fjármunina. Í kjölfarið gerði skiptastjóri kröfu um afhendingu fjárins til þrotabúsins. Voru fjármunirnir í vörslum lögreglunnar til 20. júlí 2007, en þann dag greiddi Ríkislögreglustjóri 15.733.494 krónur inn á fjárvörslureikning skiptastjóra.
Með bréfi 28. ágúst 2007 lýsti sóknaraðili kröfu í þrotabúið um afhendingu fjárins á grundvelli 109. gr. l. nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Óskaði skiptastjóri eftir því að sóknaraðili sannaði eignarrétt sinn á fjármununum í samræmi við áskilnað 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Hinn 20. mars 2008 tók skiptastjóri formlega afstöðu til kröfu sóknaraðila með því að viðurkenna ekki kröfu hans að svo stöddu. Jafnframt boðaði hann til skiptafundar og kom þar fram að sætti afstaða skiptastjóra ekki mótmælum á fundinum yrði hún talin endanlega samþykkt við skiptin í samræmi við 120. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Skiptafundurinn var haldinn 16. apríl 2008. Fyrir hönd sóknaraðila mætti þar Jóhanna Katrín Magnúsdóttir hdl. og mótmælti afstöðu skiptastjóra til lýstrar kröfu sóknaraðila. Með heimild í 171. gr. gjaldþrotaskiptalaga beindi skiptastjóri ágreiningnum til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.
II
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að fyrir liggi að varnaraðili geti ekki með nokkru móti leitt líkur að því að umræddir fjármunir séu sjálfsaflafé þrotamanns, enda sé þrotamaður algerlega eignalaus og með stórt gjaldþrot á bakinu.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að viðbúið sé að ef þrotamaður hefði haft yfir slíku fjármagni að ráða hefði ekki komið til gjaldþrotaskipta á búi hans.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að þrotamaður sjálfur hafi staðfest að sóknaraðili eigi þessa fjármuni. Beri að skoða þessa staðfestingu þrotamanns með það í huga að um umtalsverða fjármuni sé að ræða sem hann hafi verið með á sér og að freistandi og auðvelt hefði verið fyrir þrotamann að slá eign sinni á þá og leysa sjálfan sig úr þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem hann hafi verið í.
Í fjórða lagi byggir sóknaraðli á því að fyrir liggi að hann hafi þau fjárráð að fullkomlega sé eðlilegt að hann hafi yfir slíkum fjármunum að ráða.
Í ljósi þessa telur sóknaraðili að fullu upplýst að fjármunir þessir séu eign sóknaraðila og skilyrði 109. gr. gjaldþrotaskiptalaga að fullu uppfyllt.
III
Varnaraðili byggir á því að samkvæmt 73. gr. l. nr. 21/1991 eignist þrotabúið, meðan á gjaldþrotaskiptum standi, þau fjárhagslegu réttindi sem ella hefðu fallið til þrotamannsins, ef þau hefðu komið í eigu hans þegar héraðsdómari kvað upp úrskurð um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta. Á sama hátt missi þrotamaðurinn rétt til að ráða yfir réttindum sem falli til þrotabúsins eftir 72. og 73. gr. laganna. Samkvæmt því hafi varnaraðila verið rétt að krefjast umræddra fjármuna til hagsbóta fyrir þrotabúið er honum var gert viðvart um þá af ríkislögreglustjóra.
Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðila hafi ekki tekist að sanna eignarrétt sinn til þeirra fjármuna sem fundust í fórum þrotamanns, eins og áskilið sé í 109. gr. l. nr. 21/1991. Við mat á sönnun gildi svipaðar reglur og sjónarmið og við aðför, með því að telja að vörslur gerðarþola yfir óskrásettum lausafjármunum gefi líkindi fyrir eignarrétti hans að þeim. Verði þannig sá sem haldi öðru fram að sanna betri rétt sinn. Ekkert í gögnum málsins sanni að sóknaraðili sé eigandi umræddra fjármuna. Kvittun fyrir móttöku sóknaraðila á slysabótum þremur og hálfu ári áður en fjármunirnir fundust í fórum þrotamanns 27. nóvember 2006 feli ekki í sér sönnun fyrir því að peningarnir séu í eigu sóknaraðila. Sóknaraðili verði að sýna fram á hvernig fjármunirnir hafi komist í vörslur þrotamanns með einhverjum hætti. Að öðrum kosti geti þrotamaður komið sér undan yfirvofandi fullnustugerðum með því að fá hvern sem er, hvenær sem er, til að lýsa yfir eignarrétti sínum til þeirra fjármuna eða réttinda sem krafist væri fullnustu í. Einu skilyrðin væru þá að þriðji maður væri borgunarmaður fyrir fjármununum. Ekkert í gögnum málsins sýni að sóknaraðili hafi átt fjármunina á þeim tíma sem þeir fundust í vörslum þrotamanns eða skömmu áður.
Jafnframt byggir varnaraðili á því að gera verði ríkari kröfur til þriðja manns sem beri því við að hann eigi reiðufé í fórum þrotamanns, en þegar um sé að ræða óskrásetta lausafjármuni. Sóknaraðila nægi því ekki að sýna fram á að þrotamaður hafi tekið fjármuni hans til varðveislu heldur verði að auki að krefjast þess að peningarnir séu sérgreindir í vörslum gerðarþola til að fallist yrði á eignarrétt sóknaraðila að þeim.
Varnaraðili byggir á því að leysa verði úr því hvort fjármunirnir tilheyri þrotamanni eða sóknaraðila eftir almennum reglum á sviði eignarréttar. Samkvæmt gildandi rétti gefi vörslur hlutar veigamikla vísbendingu um eignarrétt til hans. Á þeim tíma sem fjármunirnir voru teknir úrs vörslum þrotamanns hafi hann farið með formlega heimild til ráðstöfunar þeirra eins og eigendur hafi að jafnaði, og megi þar nefna handhöfn viðskiptabréfa. Ekkert hafi bent til annars en að þrotamaður hafi verið eigandi fjármunanna á þeim tíma sem lögregla lagði hald á þá, enda hafi hann borið svo þótt hann kysi síðar að hverfa frá þeim framburði. Samkvæmt almennum reglum einkamálaréttarfars beri sá sem haldi fram eignarrétti sínum til lausafjár eða peninga í vörslum annarra sönnunarbyrðina. Ekkert í gögnum málsins bendi til eignarréttar sóknaraðila til fjármunanna, annað en staðhæfing hans og þrotamanns. Ekki sé að finna meðal gagna málsins sönnun um meint bifreiðakaup þrotamanns fyrir sóknaraðila. Þegar eðli málsins sé haft í huga sé augljóst að hætt sé við að þrotamaður, eftir atvikum í samráði við þriðja mann, reyni að hindra að fjármunirnir renni til ráðstöfunar kröfuhafa með því að staðhæfa að þeir tilheyri sér ekki.
Þá byggir varnaraðili á því að niðurfelling á sakamáli því sem var til rannsóknar hjá lögreglunni, vegna skorts á sönnunargögnum, hafi enga þýðingu varðandi eignarhald á þeim fjármunum sem voru í vörslum þrotamanns og því málinu óviðkomandi.
IV
Samkvæmt 109. gr. l. nr. 21/1991 skal afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til. Í framkvæmd hefur verið talið að tvö skilyrði þurfi að uppfylla til að ákvæðið eigi við varðandi peningafjárhæðir. Í fyrsta lagi þarf sá sem krefst peningafjárhæðarinnar að sýna fram á eignarrétt að henni, en í öðru lagi þarf féð að liggja sérgreint í vörslum búsins.
Óumdeilt er að sóknaraðili og þrotamaður bera báðir að þær 190.000 evrur, sem um er deilt í máli þessu, séu eign sóknaraðila. Ljóst er að það eitt og sér nægir ekki sem sönnun fyrir eignarrétti sóknaraðila að fjármununum samkvæmt 109. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Myndi slíkt leiða til þess að þrotamaður gæti komið sér undan yfirvofandi fullnustugerðum með því að fá annan aðila til að lýsa yfir eignarrétti sínum til fjármuna eða réttinda sem krafist væri fullnustu í.
Fyrir liggur að sóknaraðili fékk á árinu 2003 greiddar tæpar 40 milljónir króna í bætur vegna umferðarslyss. Atvik máls þessa eiga sér stað um þremur árum eftir þann tíma. Í máli þessu liggur ekkert fyrir um tengsl sóknaraðila og þrotamanns né heldur um samskipti þeirra á þeim tíma sem atburðir málsins áttu sér stað. Þannig liggur ekki fyrir nein staðfesting þess efnis að þrotamaðurinn hafi móttekið umrædda fjármuni úr höndum sóknaraðila, en um umtalsverða fjármuni er að ræða. Þá liggur ekki fyrir nein staðfesting varðandi peningaúttektir sóknaraðila á þeim tíma sem þrotamaðurinn var tekinn með fjármunina, né heldur liggur fyrir að sóknaraðili hafi fjárfest í evrum fyrir tilgreinda upphæð um það leyti.
Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að ekki sé fram komin sönnun þess að þeir fjármunir sem um er deilt séu eign sóknaraðila samkvæmt 109. gr. l. nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Þá er og til þess að líta að þegar þrotamaður var handtekinn af lögreglunni á Keflavíkurflugvelli 2. september 2006 bar hann að hann væri sjálfur eigandi fjármunanna. Við yfirheyrslu hjá Ríkislögreglustjóra rúmum fimm mánuðum síðar, 21. febrúar 2007, breytti hann hins vegar framburði sínum og kvað sóknaraðila eiga peningana, og lagði þá fram yfirlýsingu sóknaraðila, dagsetta 28. desember 2006. Í ljósi þessa þykir yfirlýsing þrotamanns um að sóknaraðili sé eigandi fjármunanna ekki trúverðug.
Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að hafna beri kröfu sóknaraðila, en fallast á að varnaraðila sé heimilt að nýta þá fjármuni sem Ríkislögreglustjóri greiddi inn á fjárvörslureikning varnaraðila 20. júlí 2007, ásamt áunnum vöxtum, til hagsbóta fyrir kröfuhafa þrotabús Benedikts Matthíassonar, kt. 310874-4189.
Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila er hafnað. Varnaraðila er heimilt að nýta þá fjármuni sem Ríkislögreglustjóri greiddi inn á fjárvörslureikning varnaraðila 20. júlí 2007, ásamt áunnum vöxtum, til hagsbóta fyrir kröfuhafa þrotabús Benedikts Matthíassonar, kt. 310874-4189.
Málskostnaður fellur niður.