Hæstiréttur íslands

Mál nr. 658/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. desember 2009.

Nr. 658/2009.

A

(Kristín Björg Pétursdóttir hdl.)

gegn

Héraðsdómi Reykjavíkur

(enginn)

 

Kærumál. Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Talið var að 5. tl. 4. gr. laga nr. 50/2009 um að skuldari hafi tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað ætti við í tilviki A þegar litið væri til tekna hans og áætlaðrar greiðslubyrði. Að þessu virtu yrði að hafna beiðni A.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2009, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna. Kæruheimild er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 2. mgr. 63. gr. d. og 179. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna, sem hvíla á eign hans að [...]. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili óskaði 24. júlí 2009 eftir heimild Héraðsdóms Reykjaness til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna við lánardrottna sína samkvæmt lögum nr. 50/2009. Dómstóllinn sendi Héraðsdómi Reykjavíkur beiðnina til meðferðar 22. september 2009. Í hinum kærða úrskurði er í helstu atriðum greint frá eignum og skuldum sóknaraðila, svo og tekjum og aðstæðum að öðru leyti. Í greiðsluáætlun, sem fylgdi beiðni sóknaraðila til héraðsdóms, greinir svo frá að heildarskuldir hans nemi rúmum 117 milljón krónum, en þar af séu eftirstöðvar lána rúmlega 98 milljón krónur og skuldir í vanskilum rúmlega 19 milljón krónur. Fasteign sóknaraðila er tilgreind að verðmæti rúmlega 34 milljón krónur og skuldir umfram eignir því um 83 milljón krónur. Hvað varðar tekjur sóknaraðila greinir í sömu áætlun að þær séu 295.874 krónur á mánuði, en þar af séu bætur frá almannatryggingum, vaxtabætur og barnabætur samtals 225.874 krónur og „aðrar tekjur“ 70.000 krónur. Þar mun vera vísað til tekna af atvinnurekstri sóknaraðila í einkahlutafélagi hans við [...]. Mánaðarleg útgjöld, þar á meðal til framfærslu, að frátöldum lið vegna húsnæðis telur sóknaraðili nema 158.289 krónum, en að viðbættum 110.000 krónum vegna þess liðar séu þau 259.589 krónur. Tillaga hans er sú að hann greiði 36.285 krónur á mánuði upp í skuldir sínar næstu þrjú árin og verði sú fjárhæð bundin við launavísitölu. Að auki greiðist áðurnefndar 110.000 krónur á mánuði upp í fasteignaveðskuldir.

Sóknaraðili kveður yfir 90% skuldanna hvíla með veði á fasteign hans, en hann hafi keypt hana á árinu 2006. Þær séu að miklu leyti bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla, en íslenska krónan hafi eftir það lækkað mjög gagnvart þeim og skuldirnar hækkað að sama skapi. Í málinu liggur einnig fyrir að sams konar skuld hvílir á sóknaraðila vegna kaupa hans á bifreið á árinu 2006.

II

Meðal málskjala eru ljósrit skattframtala sóknaraðila 2006 til 2009 vegna tekjuáranna 2005 til 2008. Öll þessi ár naut hann tekna frá Tryggingastofnun ríkisins vegna örorku. Aðrar tekjur eru ekki tilgreindar fyrir árin 2005 og 2008, en árið 2006 hafði hann 970.000 krónur í tekjur af áðurnefndri atvinnustarfsemi sinni og 1.320.000 krónur árið 2007. Í beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignarveðlána tekur sóknaraðili fram að hann hafi nú „mjög takmarkaðar tekjur, þar sem lítið er um framkvæmdir hjá fólki og fyrirtækjum um þessar mundir.“ Áður er fram komið að samkvæmt skattframtali sóknaraðila 2009 hafði hann engar atvinnutekjur á árinu 2008.

Í kæru til Hæstaréttar kemur fram að þegar sóknaraðili keypti fasteign sína á árinu 2006 hafi hann gert ráð fyrir að greiðslubyrði vegna fasteignalána yrði um það bil 240.000 krónur á mánuði. Með því að taka stutt lán „var sá möguleiki fyrir hendi .... að lengja í lánum og lækka mánaðarlega greiðslubyrði ... verulega eða í rúmar 100 þús. krónur á mánuði.“ Ekkert liggur fyrir um að sú hafi orðið raunin eða að þetta hafi yfir höfuð verið unnt. Samkvæmt skattframtölum sóknaraðila voru tekjur hans á árinu 2006 samtals 2.532.963 krónur og 2.343.304 krónur árið 2007. Fyrrnefnda árið voru mánaðartekjur hans því 211.080 krónur og ívið lægri hið síðarnefnda. Mánaðarlegar afborganir af fasteignalánum sóknaraðila árið 2006 hefðu þannig numið hærri fjárhæð en tekjur á mánuði voru og átti þá enn eftir að taka tillit til framfærslukostnaðar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 hafnar dómari beiðni um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána ef svo stendur á sem síðan greinir í átta töluliðum. Samkvæmt 5. tölulið á það meðal annars við hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Hafið er yfir vafa að þetta á við í tilviki sóknaraðila þegar litið er til þess sem áður greindi um mánaðarlegar tekjur hans árið 2006 og áætlaðrar greiðslubyrði vegna fasteignalána á sama tíma. Þegar þetta er virt verður beiðni hans hafnað. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2009.

                Með bréfi er barst dóminum 24. september sl. hefur A, kt. [...],[...], óskað heimildar til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009.  

                 Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé einstæður faðir sjö ára stúlku. Annað barn hans sé nýfætt en það búi ekki hjá honum. Þá eigi umsækjandi tvö fósturbörn sem búi þó ekki hjá honum að staðaldri. Hann sé 75% öryrki eftir [...]. Hann er auk þess [...] og hefur starfsaðstöðu fyrir fyrirtæki sitt, B ehf., í bílskúr á heimili sínu. Orsakir fjárhagserfiðleika séu uppsafnaður vandi sem hafi svo vaxið við hrun hins íslenska efnahags og fall krónunnar.

                Skuldari á raðhús að [...], sem er um 177 fm íbúð með bílskúr. Verðmæti íbúðarinnar er 39.090.000 krónur samkvæmt fasteignamati.

                Kröfur samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009 eru samkvæmt þremur skuldabréfum útgefnum til Sparisjóðs Mýrasýslu, einu til Íslandsbanka og einu til Málsefnis ehf., auk þess sem fjárnám hvílir á eigninni. Eftirstöðvar miðað við að skuldari sé í skilum nema um 78,7 milljónum króna og í vanskilum eru um 7,0 milljónir króna.  Að auki skuldar hann um 20 milljónir króna í samningsskuldir.

                Nettólaun skuldara eru 173.272 krónur og heildartekjur alls 295.874 krónur á mánuði. Áætluð framfærsla skuldara er 259.589 krónur á mánuði en þar af er gert ráð fyrir 110.000 krónum til greiðslu afborgunar húsnæðis.

                Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá Kaupþing banka um að niðurstaða greiðslumats skuldara hafi verið neikvæð og engin lausn fundist á greiðsluvanda hans. Einnig liggur frammi staðfesting á miðlun greiðslna frá bankanum.

                Forsendur og niðurstaða

                Leitað er greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009. Veðkröfur eru allháar og að stórum hluta í vanskilum. Skuldari hefur í beiðni sinni og fylgiskjölum skýrt þau atriði sem áskilin eru í 3. gr. laga nr. 50/2009.

Fram kemur í beiðni að skuldari hafi verið metinn 75% öryrki eftir bílslys árið 1996 en hafi starfað eins og starfsorka hans hafi leyft. Á skattframtali skuldara árið 2006, fyrir tekjuárið 2005, kemur fram að skuldari hafi haft um 1,4 milljónir í örorkubætur en engar aðrar tekjur hafi komið til það tekjuár. Eignir skuldara í árslok voru bifreið að verðmæti um 3,5 milljónir króna. Á skattframtali ársins 2007, fyrir tekjuárið 2006, má sjá að skuldari hafi haft samtals um 2,5 milljónir króna í örorkubætur og laun. Á því tekjuári keypti skuldari fasteignina að [...] að verðmæti um 39 milljónir króna samkvæmt fasteignamati. Að auki keypti skuldari bifreið að verðmæti 4,1 milljónir króna. Þá var skuldari einnig eigandi og framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins C ehf., en það félag hefur nú verið úrskurðað gjaldþrota. Á skattframtali ársins 2008 og 2009, tekjuárin 2007 og 2008, voru tekjur skuldara annars vegar um 2,3 milljónir króna í formi örorkubóta og launa og hins vegar um 1,8 milljónir króna eingöngu í formi örorkubóta. Þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu skuldara á þeim tíma er fasteignin að [...] var keypt í júlí 2006 og til þess að samningsskuldir skuldara voru umtalsverðar á þeim tíma, verður að telja að skuldari hafi með kaupum á fasteigninni hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið verulega fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirrar fjárhagsskuldbindingar var stofnað, sbr. 5. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009.

Með vísan til gagna málsins og þegar tekið er mið af tekjum skuldara samkvæmt skattframtölum áranna 2006-2009, fyrir tekjuárin 2005-2008, átti skuldara að vera ljóst að hann var á engan hátt fær um að standa við fjárskuldbindingar sínar á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Þegar gögn málsins eru virt heildstætt er ljóst að skuldari fullnægir ekki skilyrðum laganna til tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Ber því að hafna beiðni skuldara um greiðsluaðlögun.

Eins og fram er komið eru veðskuldir skuldara verulega háar og hafa aukist umtalsvert á undangegnum misserum þrátt fyrir að staða skuldara hafi verið þröng fyrir. Verður að telja af því sem að ofan greinir að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, hann tekið fjárhagslega áhættu sem var í engu samræmi við greiðslugetu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað og hann hafi á þeim tíma verið með öllu ófær um að standa við þær.

Með vísan til þess er að ofan hefur verið rakið, sbr. 5. og 6. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, ber að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna íbúðarhúsnæðis.

Unnur Gunnarsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Hafnað er beiðni A til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna er hvíla á eign hans að [...].