Hæstiréttur íslands
Mál nr. 74/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
- Brot gegn valdstjórninni
- Lögreglurannsókn
- Hæfi
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. maí 2011. |
|
Nr. 74/2011. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Þórleif Guðjónsdóttur (Óskar Sigurðsson hrl.) (Kristján B. Thorlacius hrl. fyrir brotaþola) |
Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Lögreglurannsókn. Hæfi. Skilorð. Skaðabætur.
Þ var sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa kastað glerglasi í höfuð lögreglukonu svo hún hlaut bólgu og mar á enni. Ekki þótti unnt að draga í efa óhlutdrægni sýslumannsins á Selfossi eða lögreglumanna hans sem unnu að rannsókn málsins, enda þótt brotaþoli hefði starfað við sama sýslumannsembætti. Refsing Þ var ákveðin fangelsi í átta mánuði sem var skilorðsbundin til þriggja ára vegna ungs aldurs og hreins sakaferils Þ og vegna þess að afleiðingar brotsins voru ekki alvarlegar. Þ var einnig gert að greiða brotaþola 100.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærða krefst aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hún verði sýknuð og einkaréttarkröfu vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
Jóhanna Eivindsdóttir Christiansen krefst að ákærðu verði gert að greiða sér 300.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Í málinu er ákærðu gefið að sök brot gegn valdstjórninni og sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 1. nóvember 2009 við veitingahúsið 800 Bar á Selfossi ráðist með ofbeldi að lögreglumanninum Jóhönnu Eivindsdóttur Christiansen, sem var við skyldustörf, með því að hafa kastað gleríláti í höfuð hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu og mar á enni. Var þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Fyrir Hæstarétti krefst ákærða sem áður segir aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Málatilbúnaður hennar um þessa kröfu er einkum reistur á að sýslumaðurinn á Selfossi hafi sem lögreglustjóri verið vanhæfur til að stjórna rannsókn málsins. Starfsmenn hans hafi annast rannsókn á þeim brotum sem ákærða er sökuð um í málinu og beinst hafi gegn starfsfélaga þeirra og undirmanni sýslumanns. Embætti hans sé fremur fámennt og starfstengsl lögreglumanna sem þar starfi séu nánari en ella. Af þeim sökum verði óhlutdrægni lögreglumannanna sem önnuðust rannsókn málsins og yfirmanns þeirra dregin í efa. Ekkert er fram komið sem veldur því að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni sýslumannsins eða lögreglumanna þeirra sem unnu að rannsókn málsins. Með vísan til þess og dóms Hæstaréttar 19. apríl 2010 í máli nr. 155/2010 er þessari málsástæðu ákærðu hafnað. Önnur atriði sem ákærða hefur teflt fram til stuðnings kröfu sinni um frávísun málsins lúta að sönnun og hafa þau heldur ekki áhrif á sakarmat. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfu ákærðu um að vísa málinu frá héraðsdómi og verður hann staðfestur með vísan til forsendna hans, þó þannig að vegna ungs aldurs ákærðu, hreins sakaferils og þess að afleiðingar brotsins voru ekki alvarlegar skal refsing hennar að öllu leyti vera skilorðsbundin.
Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að refsing ákærðu, Þórleifar Guðjónsdóttur, skal að öllu leyti vera skilorðsbundin.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 454.112 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2010.
Mál þetta, sem þingfest var 3. júní 2010 og dómtekið 17. nóvember 2010, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 10. maí 2010 á hendur Þórleif Guðjónsdóttur, kt. 170387-3259, Grundartjörn 4, Árborg,
„ fyrir brot gegn valdstjórninni og sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. nóvember 2009, við veitingastaðinn 800 Bar, Eyrarvegi [sic.] 35, Árborg, ráðist með ofbeldi að lögreglumanninum Jóhönnu Eivinsdóttur Christiansen, sem var við skyldustörf, með því að hafa kastað gleríláti í höfuð hennar svo hún hlaut bólgu og mar á enni
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 1010/1976, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 1. gr. laga nr. 25/2007.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Í málinu gerir Jóhanna Eivinsdóttir Christiansen, kt. 140580-5709, kröfu um miskabætur að fjárhæð kr. 300.000, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 8. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001.“
Mál þetta var þingfest 3. júní 2010 og kom þá ákærða fyrir dóm og óskaði eftir að Hilmar Ingimundarson hrl. yrði skipaður verjandi sinn og var lögmaðurinn skipaður verjandi ákærðu í þinghaldinu. Óskaði ákærða jafnframt eftir fresti til að taka afstöðu til sakargifta og bótakröfu. Var málið aftur tekið fyrir 10. júní 2010 og kom þá ákærða aftur fyrir dóminn ásamt skipuðum verjanda sínum og neitaði sakargiftum og mótmælti bótakröfu. Var ekki óskað eftir að leggja fram greinargerð af hálfu ákærðu og var málinu frestað til aðalmeðferðar 3. september 2010. Aðalmeðferð hófst 3. september 2010 og gaf þá ákærða skýrslu, en jafnframt gáfu þá skýrslu vitnin Guðjón Smári Guðjónsson, Arnar Þór Guðmundsson og Hermundur Guðsteinsson. Var þá aðalmeðferð frestað til 16. september 2010 vegna veikinda brotaþola sem hafði verið óskað eftir að gæfi skýrslu. Framhaldi aðalmeðferðar sem fyrirhuguð var 16. september 2010 var svo frestað vegna veikinda skipaðs verjanda ákærðu. Fór framhald aðalmeðferðar fram 17. nóvember 2010 en í byrjun þess þinghalds óskaði ákærða þess að Stefán Karl Kristjánsson hdl. yrði skipaður verjandi sinn og var það gert. Var málið tekið til dóms að lokinni aðalmeðferðinni.
Verjandi ákærðu krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds í málinu og frávísunar á bótakröfunni. Til vara krafðist verjandi þess að ákvörðun refsingar yrði frestað skilorðsbundið en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að dæmd refsing yrði bundin skilorði og í því tilfelli verulegrar lækkunar á bótakröfu. Í öllum tilfellum krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna, bæði fyrir sig og vegna Hilmars Ingimundarsonar hrl., að mati dómsins.
Af hálfu bótakrefjanda eru gerðar sömu kröfur og greinir í bótakröfunni sjálfri og lýst er í ákærunni.
Málavextir.
Samkvæmt rannsóknargögnum er upphaf máls þessa að rekja til þess að lögregla var send að skemmtistaðnum 800 Bar á Selfossi aðfaranótt 1. nóvember 2009 vegna æsts manns sem dyraverðir voru með þar í tökum. Var maðurinn færður í lögreglubifreið. Svo kemur fram að þegar lögreglumaðurinn Jóhanna Eivinsdóttir ætlaði að fara inn á skemmtistaðinn til að ræða við dyraverði þá hafi ákærða staðið þar fyrir dyrum og Jóhanna hafi vísað henni frá dyrum með því að taka í hana og færa hana frá. Hafi ákærða staðið 2-3 metra frá Jóhönnu og brugðist illa við tilmælum Jóhönnu og kastað glasi, sem hún hafi haldið á, af afli í átt að Jóhönnu, en í þann mund hafi Jóhanna snúið sér við í átt að ákærðu og hafi þá glasið komið í enni Jóhönnu. Segir í frumskýrslu að ekki hafi verið nein orðaskipti milli þeirra Jóhönnu og ákærðu en að árásin hafi verið tilefnislaus með öllu. Hafi glasið brotnað þegar það lenti í jörðinni og hafi verið um að ræða hálfs lítra bjórglas. Segir í frumskýrslu að Jóhanna hafi fengið stóra kúlu á höfuð og kvartað undan höfuðverk en að ákærða, sem hafi verið áberandi ölvuð og illa áttuð, hafi verið handtekin og færð á lögreglustöð. Hafi verið leitað eftir því við starfsmenn 800 Bar að fá efni úr öryggismyndavél til skoðunar vegna þessa, en aðeins einn starfsmaður staðarins gæti útvegað það.
Meðal rannsóknargagna eru ljósmyndir sem sýna andlit Jóhönnu og er greinileg og stór bólgukúla vinstra megin á enni. Þá er í rannsóknargögnum áverkavottorð Arnars Þórs Guðmundssonar læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, dags. 17. janúar 2010, en þar segir að Jóhanna hafi leitað til vaktlæknis Jórunnar V. Valgarðsdóttur 1. nóvember 2009 vegna líkamsárásar sem hún hafi orðið fyrir. Hafi Jóhanna lýst því að stúlka hafi barið sig vinstra megin í höfuð með hálfs lítra bjórglasi. Hafi glasið ekki brotnað, Jóhanna hvorki rotast né dottið og hafi hún munað eftir öllu sem hafi gerst. Hafi hún fengið kúlu á ennið vinstra megin sem hún hafi kælt strax. Við skoðun komi í ljós bólga og mar á enni vinstra megin uppi við hársrót, 5 cm að þvermáli. Mjög aumt við þreifingu. Áverkar komi vel saman við að hún hafi fyrr þann sólarhring fengið högg á ennið.
Ákærða gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins. Kvaðst ákærða ekki muna eftir þessu neitt annað en að það hefðu verið slagsmál í anddyri á 800 Bar og hún hafi slegið eitthvað frá sér. Hún hefði samt ekki verið beinn þátttakandi í slagsmálum en hafi bara einhvern vegin lent inni í þeim. Ákærða kvaðst muna að hafa farið í lögreglubíl. Kvaðst ákærða hafa verið búin að drekka mikið magn áfengis og ýmsar tegundir þess allt frá klukkan 17:00 daginn áður en hún hafi verið í svokallaðri óvissuferð og hafi þar verið frítt áfengi.
Jóhanna Eivinsdóttir Christiansen gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins og skýrði svo frá að hún hafi farið að 800 Bar til að sinna verkefni. Ákærða hafi viljað fara inn á staðin og vitnið hafi þurft að vísa henni frá dyrum og hafi ákærða tekið því illa. Hafi vitnið þurft að vísa ákærðu frá nokkrum sinnum, en á endanum hafi hún tekið í handlegg hennar og leitt hana aðeins frá hurðinni. Nánast á því augnabliki hafi hún séð, útundan sér, ákærðu lyfta bjórglasi sem hún hafi haft í höndinni og kasta því að sér. Glasið hafi hafnað vinstra megin á enni vitnisins og hafi ekki brotnað fyrr en það hafi lent á jörðinni. Taldi vitnið að botninn á glasinu hefði hafnað í enninu. Taldi vitnið að ákærða hefði staðið um 2-3 metra frá sér þegar hún hafi kastað glasinu, sem hafi verið hálfs lítra bjórglas. Hafi vitnið leitað læknis og hafi hún fengið stóra kúlu sem hafi verið í marga daga og kvaðst vitnið enn finna fyrir eymslum við snertingu þegar skýrslan var tekin 2. mars 2010.
Þann 9. mars 2010 gerði Jóhanna skriflega bótakröfu þar sem er byggt á almennum reglum skaðabótaréttar og skaðabótalögum nr. 50/1993 og er sérstaklega vísað til 26. gr. laganna. Segir í bótakröfunni að hún hafi orðið fyrir fólskulegri líkamsárás, algerlega að tilefnislausu og séu öll skilyrði sakarreglunnar uppfyllt.
Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærða bar við aðalmeðferð málsins fyrir dómi að hún myndi ekkert eftir samskiptum sínum við lögreglu umrætt sinn. Hún hafi verið í óvissuferð og svo hafi hún farið á 800 Bar en verið komin út. Ákærða kvaðst hafa drukkið mikið áfengi af ýmsum gerðum frá því um klukkan 17 eða 18 daginn áður. Bæði sterkt og veikt. Ekki vissi ákærða hvenær áfengisneyslu hennar lauk umrætt sinn, en bar að hún hefði verið við drykkju inni á 800 Bar. Hún kvaðst muna eftir því að hafa verið úti í bíl og hafa verið að leita sér að fari heim og hafi ákveðið að fara aftur inn til að hlýja sér og eftir það myndi hún aðeins gloppur. Kvaðst ákærða muna eftir að hafa verið í handjárnum og muna aðeins eftir sér inni á lögreglustöð. Ekkert mundi ákærða eftir að hafa talað við eða séð lögreglumann fyrir utan 800 Bar. Ákærða taldi að hún hefði hvorki meira né minna þol gagnvart áfengi en gengur og gerist, en að hún hefði verið í „blackout“-ástandi, en slíkt hefði hent hana áður. Ákærða mundi ekki eftir sér með glerílát utan við skemmtistaðinn og ekki eftir bjórglösum, hvorki innan dyra né utan. Hjá ákærðu kom fram að hún legði nú stund á tómastunda og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.
Vitnið Guðjón Smári Guðjónsson lögreglumaður bar um það fyrir dómi að hafa verið kallaður að 800 Bar til að ná í æstan mann sem dyraverðir hefðu tekið tökum. Þegar sá hafi verið kominn í lögreglubílinn hafi vitnið staðið við afturendann á lögreglubílnum, sem hafi verið lagt fyrir framan skemmtistaðinn. Milli vitnisins og þeirra ákærðu og Jóhönnu hafi verið á að giska 4-5 metrar, en þær hafi verið nálægt við eða í línu við framenda lögreglubílsins. Jóhanna hafi verið að fara inn á skemmtistaðinn til að ná tali af dyraverðinum sem hafi haldið hinum æsta manni til að fá hjá honum upplýsingar. Hafi Jóhanna verið búin að vísa ákærðu frá dyrunum, en búið hafi verið að loka skemmtistaðnum, en ákærða hafi ekki látið sér segjast og komið jafnharðan til baka. Í síðasta skiptið sem Jóhanna hafi vísað ákærðu frá dyrunum hafi ákærða í beinu framhaldi kastað glasi sem hún hafi haldið á í hægri hendi í átt að Jóhönnu og hafi glasið lent í höfði Jóhönnu. Á milli ákærðu og Jóhönnu hafi þá verið um 2-3 metrar. Vitninu fannst glasinu hafa verið kastað mjög laust, en þó kastað, þannig hafi ákærða fært hönd og handlegg aftur fyrir höfuð og kastað svo glasinu fram á við. Um hafi verið að ræða hálfs lítra bjórglas. Ekki hafi komið til álita að sópa upp hinu brotna glasi og vigta það eða rannsaka frekar. Vitninu fannst kastinu hafa verið beint að Jóhönnu, en enginn hafi verið við hlið hennar. Vitnið hafi hlaupið til og tekið ákærðu frá og handtekið hana. Lögreglumaðurinn Hermundur hafi verið inni í lögreglubílnum þegar þetta hafi gerst. Glasið hafi brotnað þegar það lenti á jörðinni. Eftir þetta hafi Jóhanna sýnilega verið bólgin á höfði og kvartað um höfuðverk og sljóleika, en vitnið minnti að hún hefði lokið vaktinni. Ekki mundi vitnið hvort áverki var hægra eða vinstra megin á enni Jóhönnu. Ákærða hafi verið töluvert ölvuð og hafi t.a.m. ekki gert sér grein fyrir því hvers vegna hún væri í haldi lögreglu á lögreglustöð, en hún hafi þó skilið að vitnið og samstarfsmenn hans væru lögreglumenn. Þeir hafi verið á merktum lögreglubíl á vettvangi og í einkennisfatnaði lögreglu. Fleira fólk hafi verið á staðnum en ekki hafi verið tekin niður nöfn þeirra eða teknar af þeim skýrslur þá, en þeir lögreglumennirnir hafi þurft að fara með ákærðu og hinn æsta mann á lögreglustöð og hafi ekki haft ráðrúm til að taka niður nöfn vitna. Vitnið bar að ítrekað hafi verið reynt að fá myndbandsupptöku úr öryggismyndavél frá umræddum skemmtistað en það hafi ekki fengist.
Vitnið Arnar Þór Guðmundsson læknir á Heilsugæslustöð á Selfossi staðfesti læknisvottorð sem fyrir liggur í málinu. Kvað vitnið áverkavottorð sitt vera byggt á færslu læknis sem hafi skoðað Jóhönnu, en það hafi ekki verið vitnið sjálft. Væri vottorðið alfarið byggt á þeirri nótu, en vitnið hafi ekki séð Jóhönnu. Í nótu læknisins hafi staðið að Jóhanna hafi skýrt frá því að stúlka hafi barið hana. Skráning sem höfð sé eftir sjúkling eigi að vera mjög nákvæm. Vitnið bar um það að áverki væri í samræmi við frásögn Jóhönnu um atvik. Vitnið, sem er heimilislæknir, bar að það geti verið hættulegt að fá glerglasi kastað í höfuð. Bjórglas geti verið þungt og geti rotað, en það geti líka brotnað og þannig valdið miklum og varanlegum áverkum. Í flestum tilvikum myndi maður þó búast við að ekki hlytust af slíkir varanlegir áverkar. Það að rotast geti bent til alvarlegra áverka og geti líka orðið til þess að viðkomandi slasist í fallinu. Við rothögg geti orðið heilablæðing sem geti leitt til dauða.
Vitnið Hermundur Guðsteinsson lögreglumaður bar um það að hafa komið á vettvang vegna stympinga sem hefðu orðið innan dyra. Vitnið hafi verið aftur í lögreglubílnum að taka framburð manns þegar var komið með ákærðu að bílnum í járnum. Vitnið kvaðst ekki hafa séð atburðinn sem ákært er út af. Ákærða hafi verið sjáanlega ölvuð, en hún hafi þó virst skilja það að hann væri lögreglumaður og að bíllinn væri lögreglubíll. Í fangamóttöku hafi ákærða hins vegar ekki virst vera vel áttuð á þessu. Vitnið kvaðst hafa séð heljar kúlu á enni Jóhönnu, en Jóhanna hafi kvartað undan miklum eymslum og höfuðverk það sem eftir var vaktarinnar. Vitninu hafi verið sagt af Guðjóni Smára á vettvangi að ákærða hafi kastað glasi í höfuð Jóhönnu. Slangur af fólki hafi verið fyrir utan skemmtistaðinn, en ekki hafi verið gerð af sinni hálfu tilraun til að taka niður nöfn þess.
Vitnið Ragnheiður Jóhanna Eivinsdóttir Christiansen lögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði frá því að hún hafi verið við skyldustörf við 800 Bar á Selfossi en þangað hafi hún verið send vegna slagsmála. Vitnið hafi verið við dyr skemmtistaðarins og beðið eftir dyraverði sem hún hafi þurft að tala við og ákærða hafi verið fyrir utan skemmtistaðinn og vitnið hafi meinað henni inngöngu en ákærða hafi ítrekað reynt að komast inn og þá hafi vitnið tekið í handlegg ákærðu og tekið hana til hliðar og þegar vitnið hafi svo snúið sér undan þá hafi vitnið séð handarhreyfingu og fengið glas í höfuðið, en ákærða hafi haldið á hálfs lítra bjórglasi, sem hún hafi kastað í vitnið. Milli vitnisins og ákærðu hafi verið um 2-4 metrar. Glasið hafi ekki getað hafa komið frá neinum öðrum. Höggið hafi verið verulega þungt og hafi vitnið verið nokkrar sekúndur að átta sig á hvað hafi gerst. Glasið hafi brotnað við að lenda á jörðinni. Hafi vitnið fengið risastóra kúlu á ennið og verið aum í einn og hálfan mánuð eftir þetta, en hún hafi lokið við vaktina og ekki misst úr vinnu vegna þessa. Lögreglumennirnir Guðjón Smári og Hermundur hafi verið með sér og hafi sá fyrrnefndi verið við lögreglubílinn en sá síðarnefndi inni í lögreglubílnum. Lögreglubíllinn hafi verið um 5-7 metra frá. Guðjón Smári hafi verið fyrir framan bílinn, sem hafi snúið að skemmtistaðnum. Vitnið kvað ákærðu hafa verið mjög ölvuð og ekki viðræðuhæf. Vitnið kvaðst hafa verið í einkennisfatnaði lögreglu en kvaðst þess ekki fullviss að ákærða hefði gert sér grein fyrir að hún væri lögreglumaður, en vitnið kvaðst ekki hafa kynnt sig sérstaklega sem lögreglumann. Vitninu fannst ákærða ekki átta sig á gerðum sínum fyrr en eftir að í lögreglubílinn var komið en þá hafi ákærða grátið. Vitnið taldi að ákærða hefði ekki ætlað að kasta glasinu í neinn annan, enda hefði hún kastað glasinu í beinu framhaldi af afskiptum vitnisins af ákærðu. Ákærða hafi verið óhlýðin við sig þegar vitnið var að meina ákærðu inngöngu á skemmtistaðinn. Vitnið taldi útilokað að hún hefði sagt lækni að hún hafi verið barin í höfuð og ef slíkt kæmi fram í vottorði þá væru það mistök viðkomandi læknis, enda hafi ákærða staðið það langt frá sér að hún hefði ekki getað barið hana með glasinu. Vitnið kvaðst ekki hafa skoðað gögn málsins og aðeins hafa skömmu eftir atvikið séð frumskýrsluna.
Vitnið Rúnar Þór Steingrímsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði frá því að beðið hafi verið um myndir úr eftirlitsvél við 800 Bar, en vitað sé að það eftirlitskerfi sé ekki alltaf virkt. Ekki hafi alltaf verið skilað inn myndum úr eftirlitsmyndavélinni þó um hafi verið beðið, og raunar hafi gengið erfiðlega að fá slíkar myndir. Vitnið taldi óvíst að myndir hefði haft einhverja þýðingu við rannsókn málsins og óvíst að atvikið hafi fallið innan sjónsviðs eftirlitsmyndavélarinnar. Gengið hafi verið eftir myndum en þær hafi ekki fengist.
Vitnið Jórunn Viðar Valgarðsdóttir heimilislæknir á Heilsugæslunni á Selfossi kom fyrir dóminn og skýrði frá því að hún myndi eftir því að Jóhanna hafi komið til sín á vaktina 1. nóvember 2009. Hún hafi viljað fá skoðun og áverkavottorð. Hún hafi verið við vinnu sína og hún hafi sagt að stúlka hafi barið sig með hálfs lítra bjórglasi í höfuðið. Ekki vissi vitnið hvort um væri að ræða glas á fæti eða krús. Vitnið hafi skoðað Jóhönnu og fundist áverkinn passa við lýsingu hennar á atburðinum. Vitnið kvaðst hafa sjálf skráð niður frásögn Jóhönnu og var viss um að Jóhanna hefði sagt að stúlkan hafi barið sig með glasi og taldi það ekki vera misritun. Áverkinn passi hins vegar líka við það að glasi hafi verið kastað í höfuð Jóhönnu á 2-3 metra færi. Jóhanna hafi borið myndarlega kúlu á enninu, en ekki hafi verið grunur um brot. Svona áverki geti verið 10 14 daga að ganga niður. Einstaklingsbundið geti verið hversu lengi eymsli séu eftir og geti vel verið að þeirra gæti í nokkrar vikur. Vitnið kvað geta verið hættulegt að kasta glasi í höfuð manns. Það geti farið eftir því hvar glasið lendi á höfðinu, t.d. á auga. Ekki gat vitnið svarað því hvort slíkt gæti leitt til heilablæðingar en það myndi geta ráðist af þyngd glassins og af hve miklu afli því væri kastað. Í þessu tilviki hafi ekki verið um að ræða varanlegar alvarlegar afleiðingar. Mögulegar afleiðingar af högginu, miðað við útlit áverkans, hefðu getað verið að missa meðvitund eða sjón ef glasið hefði lent á auga. Að frátöldu því að glasið gæti lent í auga væri varanlegt heilsutjón ekki líklegt.
Niðurstaða.
Ákærða hefur neitað sakargiftum en þó í raun ekki getað borið um atvik málsins nema að litlu leyti þar eð hún kveðst muna lítt eftir þeim vegna ölvunar. Hún hefur lýst því að hún muni ekki eftir neinum samskiptum sínum við lögreglu fyrir utan 800 Bar umrædda nótt, en óumdeilt er þó að þar var hún handtekin af lögreglu.
Fyrir liggur að Jóhanna Eivinsdóttir bar þá áverka sem lýst er í ákæru og gögnum málsins og hafa þeir ekki skýrst af neinu öðru en því að umræddu glasi hafi verið kastað í höfuð hennar. Eru áverkar hennar í samræmi við að glasi hafi verið kastað í hana eins og greinir í ákæru, sbr. framburð læknanna Arnars Þórs og Jórunnar. Með hliðsjón af framburðum vitnanna Guðjóns Smára Guðjónssonar og Jóhönnu Eivinsdóttur, sem nýtur nokkurs stuðnings í framburði vitnisins Hermundar Guðsteinssonar, þykir vera sannað að ákærða hafi kastað umræddu glasi í höfuð Jóhönnu eins og lýst er í ákæru en ekki er öðrum til að dreifa og hefur ekkert komið fram sem dregið geti úr trúverðugleika þessara vitna. Þykir í því sambandi rétt að nefna að ekki hefur það áhrif á þessa niðurstöðu að málið hafi verið rannsakað af lögreglunni á Selfossi það sem brotaþoli vinnur, enda ekkert komið fram um að rannsóknin hafi af þeim sökum verið ákærðu óhallkvæm. Ekki þykir það heldur koma í veg fyrir að dómur verði lagður á málið að ekki hafi verið aflað mynda úr eftirlitsmyndavél eða teknar skýrslur af fleira fólki sem var fyrir utan nefndan skemmtistað umrædda nótt.
Ljóst er að brotaþoli er og var lögreglumaður og við skyldustörf umrædda nótt. Hún var í einkennisfatnaði lögreglumanna og við lögreglustörf og kom á vettvang á merktri lögreglubifreið. Þykir ákærðu ekki hafa getað dulist að hún veittist að lögreglumanni umrætt sinn og er ljóst að verknaður ákærðu varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í ákæru er verknaður ákærðu talinn varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ekki hlaust stórfellt líkams- eða heilsutjón af árásinni og ræður þá heimfærslunni að brotið teljist vera sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar sem notuð er. Ekki er umdeilt í málinu að um hafi verið að ræða hálfs lítra bjórglas og verður byggt á því við úrlausn málsins, en ekki liggur fyrir nánar um lögun glassins eða þyngd þess. Vitnið Guðjón Smári bar að honum hafi ekki virst glasinu kastað af afli, en brotaþoli bar hins vegar að höggið hafi verulega þungt. Fyrir liggur í gögnum málsins að brotaþoli fékk stóra bólgukúlu á enni, en ljóst er að áverkinn er tiltölulega skammt frá auga. Glasið brotnaði ekki við ákomuna, en glasið lenti á framanverðu höfði brotaþola. Hjá báðum læknum kom fram fyrir dóminum að hættueiginleikar þess að kasta glasi í höfuð séu talsverðir. Kom fram hjá báðum læknum að varanlegt tjón á auga geti hlotist af slíku auk möguleika á innri áverkum sem kom einkum fram hjá vitninu Arnari Þór. Með hliðsjón af þessu er það álit dómsins að verknaður ákærðu varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þykir þannig vera komin fram lögfull sönnun um að ákærða hafi gerst sek um þann verknað sem henni er gefinn að sök í ákæru og er þar rétt færður til refsiákvæða. Hefur hún unnið sér til refsingar.
Ákærða hefur ekki áður gerst sek um refsiverðan verknað. Nokkuð er um liðið síðan atvikið varð og hefur ákærða lagt stund á háskólanám. Árás ákærðu gagnvart lögreglukonunni, sem var að sinna skyldustörfum sínum, var með öllu tilefnislaus og þykir lýsa skeytingarleysi og virðingarleysi gagnvart lögreglu sem hafði lögmæt og eðlileg afskipti af ákærðu umrætt sinn. Þykir hæfileg refsing vera 8 mánaða fangelsi, en fært þykir að fresta fullnustu 6 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki eru efni til þess að mati dómsins að fresta fullnustu allrar refsingarinnar og er þá litið til eðlis brots ákærðu.
Með broti sínu hefur ákærða bakað sér bótaskyldu gagnvart Jóhönnu Eivinsdóttur, sem hefur krafist þess að ákærði greiði sér kr. 300.000 í miskabætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Með hliðsjón af atvikum þykja miskabætur til Jóhönnu vera hæfilega ákveðnar kr. 100.000 með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Við rannsókn málsins féll til kostnaður vegna læknisvottorðs kr. 15.890 og ber ákærðu að greiða hann, auk málsvarnarlauna skipaðra verjenda sinna, Hilmars Ingimundarsonar hrl. og Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., en málsvarnarlaunin þykja hæfilega ákveðin kr. 110.000 fyrir hvorn að teknu tilliti til aksturs og virðisaukaskatts.
Daði Kristjánsson saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærða, Þórleif Guðjónsdóttir, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða greiði Jóhönnu Eivinsdóttur Christiansen kr. 100.000 í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2009 til 9. apríl 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða greiði allan sakarkostnað, samtals kr. 235.890, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Hilmars Ingimundarsonar hrl. og Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., kr. 110.000 vegna hvors um sig.