Hæstiréttur íslands

Mál nr. 286/2007


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður


         

Fimmtudaginn 17. janúar 2008.

Nr. 286/2007.

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

Soffíu Zophoníasdóttur

(Guðni Á Haraldsson hrl.)

 

Lífeyrissjóður.

S var um árabil leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg og er hún lét af störfum árið 2002 hóf hún töku lífeyris hjá lífeyrissjóðnum L. Samkvæmt samþykktum L var almenna reglan sú að um breytingar á lífeyri eftir að taka hans hæfist færi eftir svonefndri meðaltalsreglu. Samþykktir L kváðu þó jafnframt á um að á fyrstu þremur mánuðum eftir að lífeyrisgreiðslur hæfust gætu sjóðfélagar tekið ákvörðun um að breytingar á lífeyrisgreiðslum tækju mið af svonefndri eftirmannsreglu. Í málinu kvaðst S hafa valið svonefnda eftirmannsreglu í símtali við starfsmann L um það leyti sem taka lífeyris hennar hófst. Árið 2005 þegar umtalsverð breyting var gerð á dagvinnulaunum leikskólastjóra kvaðst hún hins vegar hafa orðið þess vör að breytingar á lífeyri hennar færu ekki eftir þeirri reglu. Í framhaldinu ritaði S bréf til L þar sem hún taldi að mistök hefðu átt sér stað og óskaði leiðréttingar sinna mála. Á fundi stjórnar L var erindi S tekið fyrir og því hafnað. Höfðaði S mál á hendur L og krafðist þess að sú ákvörðun L um að lífeyrisgreiðslur hennar færu eftir meðaltalsreglu sjóðsins þar sem S hefði ekki óskað eftir öðru innan þriggja mánaða frá upphafi lífeyrisgreiðslna hennar yrði ógild. Í rökstuðningi sínum byggði L á því að ákveðnar reglur hefðu gilt við val sjóðfélaga á eftirmannsreglunni, en tilkynna hefði þurft L um valið skriflega á þar til gerðu eyðublaði og hefði slíkt eyðublað verið sent S í bréfi við byrjun töku hennar á lífeyri frá L. Væri því útilokað að val S hefði getað byggst á ákvörðun í símtali. Í málinu lá fyrir að slík skrifleg tilkynning hafði aldrei borist frá S til L. S bar því hins vegar við að hún hefði aldrei móttekið fyrrnefnt bréf frá L þar sem val á eftirmannsreglunni var útskýrt. Byggði hún meðal annars á því að líta bæri á L sem stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefði L því borið að virða rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaganna og þannig átt að fullvissa sig um vilja sjóðfélaga svo ekki færi á milli mála hvora regluna sjóðfélagi veldi. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða tækju til starfsemi L. Samkvæmt 1. gr. samþykkta L væri hann eign Reykjavíkurborgar og sjóðfélaga og væri stjórn sjóðsins skipuð fulltrúum sem annars vegar væru tilnefndir af Reykjavíkurborg og hins vegar af Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Yrði því ekki litið svo á að ákvæði stjórnsýslulaga næðu yfir ákvarðanir L. Samkvæmt grunnrökum 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997 yrði að gera ríkar kröfur til lífeyrissjóða um að veita sjóðfélögum sínum ráðgjöf og tryggja að þeir hefðu lágmarksupplýsingar til þess að geta tekið ákvörðun um þá valkosti sem þeim stæðu til boða. Yrði L að bera hallann af því að óljóst var hvaða upplýsingar S fékk um þá kosti er til boða stóðu og í hvaða formi, svo og hvort hún hefði tilkynnt áfrýjanda um val sitt á milli þeirra. Var því ákvörðun L um að breytingar á lífeyrissgreiðslum S færu eftir meðtalsreglu ógild.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Stefnda var um árabil leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg. Hún lét af störfum í ágústlok 2002 og hóf þá töku lífeyris frá áfrýjanda. Samkvæmt grein 12.4 í samþykktum áfrýjanda er almenn regla um breytingar á lífeyri eftir að taka hans hefst svonefnd meðaltalsregla. Í henni felst að breytingar á lífeyrisgreiðslum skulu ákveðnar til samræmis við meðaltalsbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands. Samkvæmt grein 12.8 í samþykktunum gefst þeim sjóðfélögum, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi, kostur á að velja í stað meðaltalsreglunnar svonefnda eftirmannsreglu, en samkvæmt henni breytast lífeyrisgreiðslur til samræmis við þær breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem lífeyrisþegi gegndi síðast. Ákvörðun um að fylgja skuli eftirmannsreglu skal samkvæmt grein 12.8 tekin eigi síðar en þremur mánuðum eftir að greiðsla lífeyris hefst. Stefnda kveðst hafa valið svonefnda eftirmannsreglu í símtali við starfsmann áfrýjanda um það leyti sem taka lífeyris hófst. Hafi hún staðið í þeirri trú að lífeyrir hennar fylgdi þeirri reglu, en orðið þess áskynja að svo var ekki eftir að umtalsverð breyting varð á dagvinnulaunum leikskólastjóra í apríl 2005. Áfrýjandi kveður  ákveðnar formreglur hafa gilt við val sjóðfélaga á eftirmannsreglunni. Útilokað sé því að val stefndu á þeirri reglu hafi getað byggst á ákvörðun í símtali enda þurfi að tilkynna áfrýjanda um það skriflega á þar til gerðu eyðublaði. Hafi stefndu verið sent bréf í byrjun september 2002 þar sem þessir tveir kostir voru skýrðir og athygli á því vakin að endursenda þyrfti útfyllt eyðublað innan þriggja mánaða yrði eftirmannsregla  fyrir valinu. Engin slík tilkynning hafi borist frá stefndu og því fari um lífeyri hennar eftir meðaltalsreglunni. Stefnda kveðst aldrei hafa fengið slíkt bréf um val á eftirmannsreglu frá áfrýjanda. Málavöxtum og málsástæðum aðila er að öðru leyti lýst í héraðsdómi.

 

 

II.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda þau þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Áfrýjandi er lífeyrissjóður og gilda um starfsemi hans ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Verður ekki séð að nein sérákvæði í lögum setji áfrýjanda annan ramma um starfsemina en gildir um lífeyrissjóði almennt. Samkvæmt 1. gr. samþykkta sinna er áfrýjandi „eign Reykjavíkurborgar og sjóðfélaga“. Stjórn sjóðsins er samkvæmt 4. gr. samþykktanna skipuð þremur fulltrúum sem Reykjavíkurborg tilnefnir og tveimur tilnefndum af Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Verður að þessu virtu ekki litið svo á að ákvæði stjórnsýslulaga gildi um ákvarðanir áfrýjanda.

Samkvæmt grunnrökum að baki 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 6. gr.  laga nr. 56/2000, verður að gera ríkar kröfur til þess að lífeyrissjóðir veiti sjóðfélögum sínum ráðgjöf og tryggi að þeir hafi lágmarksupplýsingar til þess að geta tekið ákvörðun um þá valkosti sem þeim standa til boða, ekki aðeins varðandi ávöxtum lífeyrisiðgjalda og ávinnslu lífeyrisréttinda heldur einnig ella þar sem val milli fleiri en eins kosts getur skipt máli fjárhagslega fyrir sjóðfélaga. Í máli þessu verður áfrýjandi að bera hallann af því að óljóst er hvaða upplýsingar stefnda fékk um þá kosti er til boða stóðu og í hvaða formi, svo og hvort hún hafi tilkynnt áfrýjanda um val sitt milli þeirra. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, greiði stefndu, Soffíu Zophoníasdóttur, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2007.

     Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 9. mars sl., er höfðað með stefnu, birtri 6. september 2006.

     Stefnandi er Soffía Zophoníasdóttir, Sigtúni 37, Reykjavík.

     Stefndi er Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, Vegmúla 2, Reykjavík

 

     Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, frá 3. september 2002, þess efnis að greiða stefnanda ellilífeyri skv. meðaltalsreglu gr. 12.4 í samþykktum sjóðsins, sé ógild.

     Þá gerir hann kröfu um að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, að mati réttarins.

     Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

     Stefnandi var leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg og lét af störfum 31. ágúst 2002 eftir 28 ára starf, þá tæplega 68 ára að aldri. Á grundvelli starfslokavottorðs frá Leikskólum Reykjavíkur, dags. 3. september 2002, var henni úrskurðaður ellilífeyrir frá 1. ágúst sama árs og hefur hún til þessa dags fengið lífeyri greiddan frá stefnda. Upphæð lífeyris hennar tekur breytingum samkvæmt svokallaðri „meðaltalsreglu“ gr. 12.4 í samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, en samkvæmt því ákvæði skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

     Stefnandi heldur því hins vegar fram að hún hafi fyrir upphaf lífeyristöku, í samtali við starfsmann stefnda, Arent Claessen, valið svokallaða „eftirmannsreglu“ gr. 12.8 í samþykktum stefnda, en þar er mælt fyrir um að lífeyrisgreiðslur breytist til samræmis við þær breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem sjóðfélagi gegndi síðast. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi í símtali valið eftirmannsregluna við töku lífeyris eða að hafa samþykkt slíkt fyrirkomulag, án skriflegrar umsóknar af hálfu stefnanda. 

     Í stefnu kveðst stefnandi hafa staðið í þeirri trú að lífeyrir hennar færi eftir eftirmannsreglu samkvæmt gr. 12.8 í samþykktum lífeyrissjóðsins. Þegar breyting varð á launum leikskólakennara um áramót 2004/2005 kvaðst hún hafa fylgst með því hvort ellilífeyrir hennar tæki sömu breytingum. Þegar svo var ekki kvaðst hún hafa haft samband við starfsfólk stefnda og var henni tjáð að verið væri að vinna í málinu. Stefnandi ritaði stefnda bréf 28. september 2005, þar sem hún taldi að mistök hefðu átt sér stað og óskaði leiðréttingar sinna mála. Á fundi stjórnar stefnda 30. sama mánaðar var erindi stefnanda tekið fyrir og því hafnað. Í svarbréfi stefnda var stefnanda ekki bent á kæru- eða málskotsleiðir á ákvörðun stjórnarinnar.

     Að ósk stefnanda sendi stefndi stefnanda í júní 2006 ljósrit tveggja bréfa, sem stefndi telur víst að hafi verið send til stefnanda við starfslok hennar og ákvörðun ellilífeyris. Bæði bréfin eru dagsett 3. september 2002. Hið fyrra er ákvörðun um fjárhæð lífeyris til handa stefnanda og kemur þar fram að sé þess óskað að ellilífeyrir fari skv. eftirmannsreglu sjóðsins þurfi hún að endursenda meðfylgjandi bréf til lífeyrissjóðsins innan þriggja mánaða. Í síðara bréfinu er í stuttu máli að finna útskýringar á þeim mun sem er á meðaltals- og eftirmannsreglu sjóðsins. Enn fremur segir þar: „Óskir þú eftir að með lífeyrisgreiðslur þínar fari samkvæmt eftirmannsreglu þá vinsamlega sendið bréf þetta aftur til sjóðsins innan 3ja mánaða. Sé það ekki gert verður litið svo á að óskað sé óbreytts fyrirkomulags greiðslu og er ekki hægt að óska breytinga á viðmiði eftir þann tíma.“ Er þetta sú ákvörðun sem krafist er að verði ógilt í máli þessu. Í lok bréfsins er gert ráð fyrir undirritun umsækjanda, með beiðni um að greiðsla lífeyris fari samkvæmt eftirmannsreglu. Bréf þetta er óundirritað.

     Í aðilaskýrslu fyrir dómi kvaðst stefnandi aldrei hafa fengið ofangreind bréf stefnda í hendur. Jafnframt rakti hún þar fyrrgreint samtal við Arent Claessen, starfsmann stefnda. Kvaðst hún skömmu fyrir starfslok hafa hringt í hann og spurt hvað hún þyrfti að gera til að geta hafið töku lífeyris. Hefði Arent tjáð henni að hann gæti afgreitt málið í gegnum síma og þyrfti hún að velja um eftirmanns- eða meðaltalsreglu. Þar sem stefnandi kvaðst ekki þekkja mun á reglunum tveimur hafi starfsmaðurinn útskýrt þann mun fyrir henni. Að því loknu kvaðst stefnandi hafa valið eftirmannsregluna, þar sem fyrirsjáanlegt væri að laun leikskólastjóra ættu eftir að hækka umfram önnur laun, enda stóð til á þessum tíma að færa fasta yfirvinnu leikskólastjóra inn í föst laun þeirra. Hún kvaðst líka minnast þess að Arent hefði í samtali þeirra ekki talið þörf á því að hún að undirritaði neitt þessu til staðfestingar.

     Arent Claessen, sviðsstjóri réttindamála stefnda, kom fyrir dóminn sem vitni. Í máli hans kom fram að á þeim tíma sem stefnandi hóf töku lífeyris hafi sú regla verið við lýði að lífeyrir var afgreiddur til sjóðfélaga á grundvelli starfslokavottorðs. Formlegrar umsóknar hafi ekki verið krafist, slíkt hafi ekki verið til siðs á þeim tíma. Lífeyrisþega hafi aðeins verið sendur úrskurður sjóðsins um lífeyri og með honum hafi fylgt bréf þar sem lífeyrisþega var boðið að velja á milli meðaltalsreglu og eftirmannsreglu. Í bréfinu hafi verið tekið fram að ef sjóðfélagi veldi ekkert yrði lífeyrir greiddur samkvæmt meðaltalsreglu sjóðsins. Bréf þessi hafi ekki verið send í ábyrgðarpósti, aðeins almennum pósti. Tók vitnið fram að þessu fyrirkomulagi hefði verið breytt og væri lífeyrir nú aðeins afgreiddur samkvæmt undirritaðri umsókn sjóðfélaga. Vitnið taldi fráleitt að ákvörðun um val á reglu til töku lífeyris hefði verið afgreidd í símtali við stefnanda, sú ákvörðun hefði orðið að vera skrifleg, enda væri meðaltalsreglan meginregla við lífeyristöku en eftirmannsreglan undantekning.

     Fyrir dóminn kom einnig sem vitni Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Greindi hann frá því að á árinu 2002 hefði Kennarasamband Íslands ráðlagt leikskólastjórum og grunnskólastjórum, sem voru að hefja töku ellilífeyris, að velja eftirmannsregluna. Hafi það verið gert í ljósi þess að fyrir lá að innan tíðar yrði samið um að föst yfirvinna yrði tekin inn í grunnlaun.

     Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að rekja frekar munnlegar skýrslur fyrir dóminum.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

     Stefnandi byggir á því að hún hafi í símtali við starfsmann stefnda, Arent Claessen, valið eftirmannsreglu skv. gr. 12.8 í samþykktum stefnda. Þannig hafi stefnda borið að fara eftir þeirri ákvörðun og greiða ellilífeyri til stefnanda eftir því sem þar kemur fram. Reglan kveði á um að ellilífeyrir taki breytingum eftir launum þeirrar stöðu er viðkomandi gegndi áður en hann hóf töku lífeyris. Regla sú er stefndi greiði stefnanda lífeyri eftir eigi sér stoð í gr. 12.4 í samþykktum sjóðsins, en samkvæmt henni breytist ellilífeyrir til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Stefnandi kveðst heldur ekki kannast við að henni hafi verið send þau bréf er stefndi haldi fram, enda engin sönnun færð fram um slíkt. Þá hafi stefndi enga umsókn í sínum fórum frá stefnanda um ellilífeyri, sem stefnandi telur frumskilyrði fyrir því að taka ellilífeyris geti hafist. Það eitt staðfesti að símtal það sem stefnandi átti við starfsmann stefnda hafi átt sér stað.

     Þá er á því byggt að stefndi sé stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sé  sjóðurinn í eigu borgarsjóðs Reykjavíkurborgar og rekinn á ábyrgð og kostnað borgarinnar, sbr. gr. 1.l og 9.1 í samþykktum sjóðsins. Þannig fari um hæfi stjórnarmanna skv. ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. gr. 4.9 í samþykktum sjóðsins, sbr. og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl.  Á því er byggt að á stjórn sjóðsins hvíli rannsóknarskylda skv. 10. gr. laga nr. 37/1993. Þannig beri stjórn sjóðsins að fullvissa sig um vilja sjóðfélaga svo ekki fari milli mála hvora regluna sjóðfélagi velur. Þessa skyldu hafi stefndi ekki uppfyllt. Þannig hafi hann enga umsókn frá stefnanda undir höndum, engin bréf undirrituð af henni til staðfestingar á vali hennar. Umsóknareyðublað sjóðsins geri heldur ekki ráð fyrir slíku vali, né séu á því upplýsingar til sjóðfélaga um valmöguleika milli meðaltalsreglu og eftirmannsreglu, líkt og t.d. gildi hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þá uppfylli umsóknareyðublað stefnda um ellilífeyri ekki þær kröfur sem gerðar séu skv. ákvæðum laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl. Þannig verði að gera þá kröfu til stefnda að gerður sé skýr greinarmunur á þeim tveimur valmöguleikum er sjóðfélagar hafi um val á lífeyrisreglu. Um það vitnar stefnandi til grunnreglu 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 6. gr. laga nr. 56/2000. Þannig hafi stefndi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera verði til hans skv. ákvæðinu og geti því nú ekki borið fyrir sig að stefnandi hafi þurft að taka sjálfstæða ákvörðun um eftirmannsreglu.

     Kröfu sína rökstyður stefnandi einnig með því að það sjálfvirka val, sem fram komi í gr. 12.4, sbr. og gr. 12.8 í samþykktum fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar, standist ekki þær kröfur sem gerðar séu til lífeyrissjóða skv. 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 6. gr. laga nr. 56/2000 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl. Þannig verði að gera þá kröfu til  lífeyrissjóðs, sem fjármálastofnunar, að hann upplýsi sjóðfélaga um þá valmöguleika sem þeir hafi og afli síðan sjálfstæðs og meðvitaðs samþykkis frá sjóðfélaga um það hvor leiðin sé valin.

     Þá geri 4. mgr. 18. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl., ráð fyrir því að sjóðfélagi eigi rétt á því að lífeyrissjóður rökstyðji ákvörðun sína um réttindi hans. Val um launaviðmiðun sé slík ákvörðun. Af ákvæðinu megi leiða að stefnda hafi, strax er hann tók þá ákvörðun að greiða lífeyri eftir reglu í gr. 12.4 í samþykktum hans, borið að gefa stefnanda kost á rökstuðningi og veita henni upplýsingar um kæruleiðir. Ekkert af þessu hafi verið uppfyllt af hálfu stefnda. Að auki sé öll málsmeðferð stefnda í máli stefnanda sérlega óvönduð. Þannig liggi fyrir að stefndi hafi í svarbréfi sínu til stefnanda, dags. 3. október 2005, hvorki bent henni á að hún geti farið með mál þetta fyrir gerðardóm né að það væri kæranlegt skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Þá hafi henni heldur ekki verið bent á kæruleið skv. gr. 26.1 í samþykktum sjóðsins.

     Þannig byggir stefnandi á því að við ákvörðun stefnda hinn 3. september 2002 hafi ekki verið gætt réttra aðferða, né hafi stefndi gætt þess að fá upplýst samþykki stefnanda fyrir þeirri ákvörðun sem hann síðar tók á kostnað hennar.

     Um kröfugerð vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að öðru leyti vísar hann til laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og  stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 1., 2., 10. og 15. gr. þeirra laga. Um málskostnað vitnar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

     Stefndi byggir kröfu um sýknu á því að hann hafi að fullu og öllu leyti fylgt ákvæðum laga og samþykkta varðandi þá ákvörðun sem dómkröfur þessa máls byggi á. Þar sem engin efni séu til að fallast á kröfur stefnanda beri að sýkna stefnda af þeim öllum. Máli sínu til stuðnings leggur stefndi áherslu á eftirfarandi:

     Í ákvæði gr. 12 í samþykktum fyrir stefnda sé fjallað um rétt sjóðfélaga til ellilífeyris. Meginregla um viðmið launa komi fram í gr. 12.4, en þar sé svo mælt fyrir að eftir að taka lífeyris hefjist skuli breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verði á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr.  gr. 12.3, samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands. Regla þessi, sem nefnist meðaltalsregla, sé meginregla þegar komi að ákvörðun um ellilífeyri sjóðfélaga. Eina undantekningin frá meginreglunni sé svokölluð eftirmannsregla, sem sé að finna í gr. 12.8, þar sem segi að sjóðfélagar sem hefji töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fái lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku samþykktanna geti, þrátt fyrir ákvæði gr. 12.4, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við þær breytingar sem verði á launum er á hverjum tíma séu greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar fyrir hærra launað starf samkv. ákvæðum gr. 12.5 og 16.1 og 16.2, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum greinar 12.4. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skuli tekin eigi síðar en 3 mánuðum eftir að greiðsla lífeyris hefjist.

     Stefndi bendir á að mjög strangar formreglur gildi í tengslum við val sjóðfélaga á eftirmannsreglu, enda um undantekningarreglu að ræða. Þannig hafi sá háttur verið viðhafður allt frá gildistöku ákvæðis sem inniheldur regluna árið 2000, að sjóðfélagar sem æskja þess að taka ellilífeyri á grundvelli hennar, þurfi að tilkynna stefnda það sérstaklega á þar til gerðu eyðublaði. Um ófrávíkjanlegt skilyrði sé að ræða, enda ákvörðunin mikilvæg. Til að undirstrika enn frekar mikilvægið hafi sjóðfélögum verið veittur rúmur umhugsunarfrestur við val á eftirmannsreglu, eða þrír mánuðir. Að þeim tíma liðnum hafi svo verið litið á að endanleg afstaða sjóðfélaga til launaviðmiðs lægi  fyrir og gæti hann eftir það ekki óskað breytinga á launaviðmiði.  Að mati stefnda byggist þetta fyrirkomulag á fyllilega málefnalegum sjónarmiðum, enda sjái það allir í hendi sér að ótækt sé að sjóðfélagar geti ákveðið einhliða, hvenær sem er meðan á töku ellilífeyris stendur, að velja þá reglu sem skili hærri ellilífeyri í það skiptið, með tilheyrandi ringulreið.

     Stefndi tekur fram að öllum sjóðfélögum, sem hefji töku lífeyris hjá stefnda, séu veittar upplýsingar bréflega um þær reglur sem gildi um lífeyrissjóðsgreiðslur og muninn á þeim. Eðli málsins samkvæmt sé um almenna upplýsingagjöf að ræða, án nokkurra skuldbindinga eða loforða, enda sé útilokað fyrir starfsmenn stefnda að spá fyrir um launaþróun í framtíðinni. Til þess beri hins vegar að líta að það hafi verið samdóma álit þeirra sem sömdu um meðaltalsregluna fyrst, að til lengri tíma litið ættu báðar reglunar að skila álíka hækkunum.

     Stefndi kveður málsmeðferð í máli stefnanda fyrir sjóðnum ekki á neinn hátt frábrugðna málsmeðferð þeirra fjölmörgu sjóðfélaga sem leiti til stefnda, er þeir hefji töku lífeyris. Þrátt fyrir að starfsmenn stefnda muni ekki sérstaklega eftir því símtali sem stefnanda sé svo tíðrætt um, og málatilbúnaður hennar fyrir dómi byggist að stórum hluta á, séu  ekki bornar brigður á sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar, enda allt eins líklegt að umrætt símtal hafi átt sér stað. Hins vegar hafni stefndi því alfarið að í símtalinu hafi verið samþykkt, gefið fyrirheit eða veittur ádráttur um að lífeyrir stefnanda færi eftir eftirmannsreglu og ekki hafi borið að staðfesta þá ósk bréflega á þar til gert eyðublað, líkt og reglur stefnda segi til um. Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að þar sem stefndi hafi enga umsókn frá stefnanda í sínum fórum varðandi lífeyrisgreiðslur hafi verið færðar lögfullar sönnur fyrir því að hann hafi valið eftirmannsreglu sem viðmið. Sannleikurinn sé hins vegar sá að sama dag og starfslokavottorð fyrir stefnanda hafi borist stefnda, þ.e. hinn 3. september 2002, hafi henni verið úrskurðaður ellilífeyrir sem tók mið af meðaltalsreglu. Í bréfi, sem stefnanda var sent af þessu tilefni, hafi henni jafnframt verið gefinn kostur á að breyta fyrirkomulagi lífeyrissjóðsgreiðslna innan tilgreinds tímafrests, í þá veru að þær færu eftir eftirmannsreglu. Í málinu liggi fyrir að slíkt gerði stefnandi aldrei. Af þeirri ástæðu hafi stefndi litið svo á að hún hefði valið meðaltalsregluna sem launaviðmið eftirlauna.

     Stefndi byggir á því að við mat á sönnun á vali stefnanda á viðmiði eftirlauna skipti öllu máli að regla sú sem hér um ræðir, eftirmannsregla, sé undantekning frá þeirri meginreglu sem um launaviðmið gildi, þ.e. meðaltalsreglu. Í samræmi við ríkjandi lögskýringarsjónarmið beri að skýra undantekningarreglur þröngt og hljóti það að koma í hlut stefnanda að sanna að hún hafi valið svokallaða eftirmannsreglu. Verði sönnunarbyrði um slík atriði ekki lögð á stefnda, enda beri sá sönnunarbyrðina sem vill halda fram einhverju óvenjulegu eða fráviki frá viðurkenndri meginreglu um launaviðmið eftirlauna. Að mati stefnda sé haldlaus sú viðbára stefnanda að hún hafi staðið í þeirri trú að um eftirlaun hennar færi eftir eftirmannsreglu. Hér komi það til að sjóðfélögum sé sjálfum eftirlátið val á þeirri reglu sem eftirlaun skuli taka mið af. Stefnda, sem fyrst og fremst sé ætlað það hlutverk að framfylgja óskum sjóðfélaga í tengslum þeirra við val á reglu, sé hvorki skylt né nauðsynlegt að kanna það sérstaklega, eða leita eftir afstöðu sérhvers sjóðfélaga, hvor reglan verði fyrir valinu. Tilgangur hinnar miklu formfestu varðandi val á reglu sé einmitt sá að tryggja hagsmuni sérhvers sjóðfélaga.

     Til viðbótar byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir tómlæti. Því til stuðnings bendi hann á að fyrsta lífeyrisgreiðsla í tengslum við ellilífeyristöku var lögð inná bankareikning hennar mánaðamótin ágúst/september 2002. Frá þeim tíma og allt til loka septembermánaðar 2005, eða um þriggja ára skeið, hafi stefnandi athugasemdalaust tekið við lífeyrisgreiðslum úr hendi stefnda, án þess að gera fyrirvara um kröfu sína. Við blasi að eftir allan þennan tíma mátti stefnda vera það ljóst að stefnandi hafi verið því samþykkur að um lífeyrisgreiðslur færi eftir meðaltalsreglu og að hún gerði ekki ágreining um þetta atriði. Stefndi heldur því fram að með tómlæti sínu í svo langan tíma hafi stefnandi fyrirgert rétti til að krefjast ógildingar ákvörðunar stefnda.

     Stefndi mótmælir sem rangri þeirri fullyrðingu stefnanda að umsókn frá sjóðfélaga hafi verið skilyrði þess að taka ellilífeyris hæfist hjá stefnda. Þvert á móti bendi hann á að starfslokavottorð hafi eitt verið nægjanlegt og hafi þá greiðsla eftirlauna sjálfkrafa farið fram, óháð afskiptum sjóðfélaga. Telji stefnandi að ef annað fyrirkomulag hafi ríkt beri hann sönnunarbyrði um slíkt.

     Stefndi mótmælir einnig fullyrðingu stefnanda þess efnis að hann hafi brotið rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, enda hafi honum borið að fullvissa sig um vilja stefnanda um val á reglu. Í málinu liggi fyrir að stefndi óskaði staðfestingar stefnanda á því hvor reglan yrði fyrir valinu. Þar sem engin viðbrögð hafi borist frá stefnanda við umræddu erindi hafi verið litið svo á að hún hefði valið meðaltalsregluna. Í skilningi stjórnsýsluréttar hafi málið verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því.

     Loks hafnar stefndi því alfarið að hafa ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til lífeyrissjóða í skilningi 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997. Í nefndu ákvæði segi   lífeyrissjóður, sem bjóði upp á tvo eða fleiri valmöguleika varðandi ávöxtun lífeyrisiðgjalda eða ávinnslu lífeyrisréttinda, skuli hafa í þjónustu sinni starfsfólk, sem hæft sé til að sinna ráðgjöf í þeim efnum og skuli þess gætt að ráðgjöf sé sett fram á hlutlægan og faglegan hátt og taki mið af hagsmunum hvers sjóðfélaga. Telur stefndi hafið yfir allan vafa að málsmeðferð í máli stefnanda hafi verið í fullkomnu samræmi við efnisinntak tilvitnaðs lagaákvæðis, enda hafi stefndi á að skipa afar hæfu starfsfólki sem hafi hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi í störfum sínum.

     Til stuðnings sýknukröfu vísar stefndi til samþykkta fyrir stefnda, sem og laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Um málskostnaðarkröfu vísar hann til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

     Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnandi hafi í samtali við starfsmann stefnda, við upphaf töku ellilífeyris, valið eftirmannsreglu skv. gr. 12.8 í samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og hvort stefndi hafi gætt réttra og lögmætra aðferða er hann ákvað að greiða stefnanda ellilífeyri samkvæmt meðaltalsreglu gr. 12.4 í samþykktum stefnda. 

     Stefnandi hefur fastlega haldið því fram að hún hafi í samtali við starfsmann stefnda valið eftirmannsreglu sem launaviðmið við greiðslu lífeyris hennar, eftir að starfsmaðurinn hafði gert henni grein fyrir þeim mun sem væri á þeirri reglu og meðaltalsreglunni. Hafi hún gert það þar sem fyrirsjáanlegt var að laun leikskólastjóra myndu hækka umfram önnur laun og til stóð að færa fasta yfirvinnu inn í föst laun þeirra.  Stefndi ber ekki brigður á að stefnandi hafi rætt símleiðis við Arent Claessen, starfsmann stefnda, en telur fráleitt að í því samtali hafi verið ákveðið að lífeyrisgreiðslur stefnanda færu eftir eftirmannsreglunni og enga nauðsyn bæri til að staðfesta þá ákvörðun skriflega.

     Að áliti dómsins þykir ekki loku fyrir það skotið að stefnandi hafi í samtali við starfsmann stefnda tekið ákvörðun um val á eftirmannsreglu við greiðslu ellilífeyris. Hins vegar verður að telja ósannað að stefndi hafi í því samtali fallist á ákvörðun stefnanda, án formlegrar umsóknar af hennar hálfu. Verður ekki fram hjá því litið að eftirmannsreglan er undantekning frá meginreglunni um launaviðmið við greiðslu lífeyris, þ.e. meðaltalsreglunni, og ákvörðun um val á reglu mikilvæg hverjum sjóðfélaga. Samkvæmt lokamálslið gr. 12.8 í samþykktum stefnda er krafist sjálfstæðrar ákvörðunar af hálfu sjóðfélaga, ef hann hyggst velja eftirmannsreglu í stað meðaltalsreglu við greiðslu ellilífeyris. Með hliðsjón af eðli ákvörðunarinnar og mikilvægi hennar verður að ætla að slíka ákvörðun skuli bera fram skriflega.    

     Í samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar er ekkert kveðið á um hvernig hefja skuli töku lífeyris úr sjóðnum. Fram er komið að ekki var á þessum tíma krafist formlegrar umsóknar frá sjóðfélaga, þótt umsókn sé nú skilyrði fyrir greiðslu sjóðsins. Sú regla var hins vegar við lýði að sjóðfélaga var úrskurðaður lífeyrir á grundvelli starfslokavottorðs frá vinnuveitanda. Úrskurðurinn var sendur sjóðfélaga og með fylgdi bréf, þar sem kynntar voru þær reglur sem stóðu viðtakanda til boða við greiðslu lífeyris, meðaltalsreglu eða eftirmannsreglu. Var sjóðfélaga boðið að velja eftirmannsregluna og tekið fram, að ef hann hefði ekki innan þriggja mánaða óskað eftir því að lífeyrisgreiðslur færu samkvæmt eftirmannsreglu, yrði litið svo á að hann óskaði óbreytts fyrirkomulags á greiðslu. Jafnframt sagði að ekki væri hægt að óska breytinga á viðmiði eftir þann tíma. Bréf þessi voru send lífeyrisþega í almennum pósti. Stefnandi hefur eindregið mótmælt því að hafa séð umrædd bréf frá stefnda.

     Óumdeilt er að engin umsókn er til frá stefnanda um ellilífeyri, enda var umsókn á þeim tíma ekki skilyrði fyrir því að greiðsla lífeyris hæfist. Engin önnur gögn eru heldur í fórum stefnda sem geta staðfest val stefnanda á launaviðmiði við greiðslu lífeyris. Þrátt fyrir að stefndi telji víst að hann hafi 3. september 2002 sent stefnanda bæði úrskurð um lífeyri hennar og fylgibréf vegna umsóknar um eftirmannsreglu, liggur ekki fyrir sönnun um að svo hafi verið gert eða að bréfin hafi borist stefnanda. Í ljósi framburðar stefnanda fyrir dómi, bréfs hennar til stjórnar stefnda 28. september 2005 og gagna málsins að öðru leyti, telur dómurinn ósannað að bréfin hafi borist henni, og hún því ekki haft vitneskju um að lífeyrir hennar færi eftir meðaltalsreglu gr. 12.4 í samþykktum stefnda fyrr en í ársbyrjun 2005, þegar breyting varð á launum leikskólakennara og hún hóf sjálf eftirgrennslan um hækkanir á lífeyrisgreiðslum sér til handa. Þá hefur verið staðfest að ekki komi fram berum orðum á greiðsluseðlum stefnda hvort lífeyrir sé greiddur samkvæmt meðaltalsreglu eða eftirmannsreglu. Með þetta í huga verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. 

     Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var sett almenn umgjörð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna gilda þau um alla lífeyrissjóði. Í lögunum er gert ráð fyrir því að nánar verði kveðið á um starfsemi einstakra sjóða í staðfestum samþykktum þeirra og hefur stefndi sett sér samþykktir um starfsemi sína. Núgildandi samþykktir tóku gildi 2. júní 2004 og tóku við af eldri samþykktum. Eru þær meðal gagna þessa máls og hefur stefndi lýst því yfir að þau ákvæði samþykktanna sem til skoðunar eru í þessu máli séu með öllu óbreytt frá eldri samþykktum.

     Samkvæmt 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 6. gr. laga nr. 56/2000, skal lífeyrissjóður hafa í þjónustu sinni starfsfólk sem hæft er að sinna ráðgjöf í þeim efnum og skal þess gætt að ráðgjöf sé sett fram á hlutlægan og faglegan hátt og taki mið af hagsmunum hvers sjóðfélaga. Jafnframt segir þar að lífeyrissjóður skuli láta útbúa skriflegt kynningarefni þar sem gerð er grein fyrir kostum og göllum einstakra valkosta miðað við mismunandi forsendur. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 56/2000 segir svo m.a. um þá breytingu er síðar varð að 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997: „Í ljósi þess að lífeyrissjóðir gegna sífellt stærra hlutverki í fjármálaráðgjöf við einstaklinga þykir rétt að tryggja að þeir hafi tilteknar lágmarksupplýsingar fyrir sjóðfélaga sína til þess að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um þá valkosti sem þeim standa til boða. Auk þess eru settar almennar vísireglur um það hvernig lífeyrissjóðum ber að haga ráðgjöf sinni.“      

     Stefnandi hefur í máli þessu lagt fram umsóknareyðublöð um ellilífeyri, annars vegar frá stefnda en hins vegar frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Jafnframt hefur hann leitað upplýsinga frá nokkrum stærstu lífeyrissjóðum landsins um það hvort þeir hefðu á árinu 2002 krafist formlegrar umsóknar frá sjóðfélaga við töku lífeyris. Eru svör allra á þann veg að sérstök umsókn hefði verið og sé enn skilyrði fyrir töku lífeyris. Þá liggur frammi í málinu fyrrgreint ljósrit af fylgibréfi stefnda vegna umsóknar um eftirmannsreglu, dags. 3. september 2002.

     Þegar litið er til fyrrgreinds ákvæðis 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, svo og málsmeðferðar annarra lífeyrissjóða við upphaf lífeyristöku sjóðfélaga, verður ekki fram hjá því litið að málsmeðferð stefnda við upphaf lífeyristöku stefnanda samrýmist illa tilgangi tilvitnaðs lagaákvæðis, ekki síst þeim að sjóðfélögum skuli tryggð hlutlæg og fagleg ráðgjöf í því skyni að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um þá valkosti sem þeim stendur til boða. Hins vegar verður ekki fallist á það sjónarmið stefnanda að það sjálfvirka val sem fram kemur í gr. 12.4, sbr. og gr. 12.8 í samþykktum stefnda standist ekki eitt og sér þær kröfur sem gerðar eru til lífeyrissjóða samkvæmt 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997. Forsendan er þó að uppfyllt séu skilyrði ákvæðisins að öðru leyti.

     Dómurinn fellst ekki á að stefndi sé stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga og breytir þar engu um þótt sjóðurinn sé í eigu borgarsjóðs Reykjavíkur, rekinn á ábyrgð og kostnað borgarinnar, eða um hæfi stjórnarmanna fari samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engu að síður gilda meginreglur stjórnsýsluréttar um ýmsar ákvarðanir stefnda, einkum þær er varða réttindamál sjóðfélaga, eins og hér háttar til. Á það bæði við um rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og regluna um andmælarétt, sem 13. gr. laganna kveður á um.

     Samkvæmt rannsóknarreglunni ber að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í andmælarétti felst hins vegar sú regla að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því.

     Að framan hafa verið rakin samskipti stefnanda og stefnda er stefnandi hóf töku lífeyris. Ljóst er að verulega brestur á að stefndi hafi á fullnægjandi hátt upplýst stefnanda um þá valkosti sem henni stóðu til boða, áður en ákvörðun var tekin um að greiða henni til frambúðar ellilífeyri samkvæmt meðaltalsreglu lífeyrissjóðsins. Að einhverju leyti kann það að skýrast af því að stefnanda bárust ekki bréf stefnda, dags. 3. september 2002, og var henni því ekki kunnugt um þær afleiðingar sem það hefði ef umsóknareyðublaði var ekki skilað í tæka tíð. Af sömu ástæðu var henni ekki kleift að neyta andmælaréttar síns eða krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðun stefnda samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 129/1997. Verður stefnandi ekki látin bera hallann af því. Með vísan til áðurgreindra meginreglna stjórnsýsluréttar og 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997 bar þó stefnda að tryggja stefnanda fullnægjandi ráðgjöf og upplýsingar og að því loknu ganga úr skugga um að stefnandi hefði tekið sjálfstæða og upplýsta ákvörðun um val á launaviðmiði við greiðslu ellilífeyris. Var það ekki gert og telur dómurinn það slíkan annmarka á málsmeðferð að virða beri ákvörðun stefnda að vettugi. Er þá sérstaklega litið til þess að ákvörðun þessi hafði mikla þýðingu fyrir stefnanda og var henni íþyngjandi.

     Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu þykja ekki efni til að fjalla um síðari samskipti stefnanda og stefnda.

     Með vísan til alls framanritaðs er fallist á dómkröfu stefnanda, eins og hún er sett fram í stefnu.

     Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilegur 450.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

     Dóminn kveður upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákvörðun stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, frá 3. september 2002, þess efnis að greiða stefnanda, Soffíu Zophoníasdóttur, ellilífeyri samkvæmt meðaltalsreglu gr. 12.4 í samþykktum lífeyrissjóðsins, er ógild.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað að fjárhæð 450.000 krónur.