Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-44

A (sjálfur)
gegn
Elíasi Halldóri Ágústssyni (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Ærumeiðingar
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Vanhæfi
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 28. mars 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. mars 2022 í máli nr. 726/2020: Elías Halldór Ágústsson gegn A og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að þrenn ummæli sem gagnaðili hafði uppi um hann í athugasemdakerfum fjölmiðla yrðu ómerkt og honum dæmdar miskabætur úr hendi gagnaðila.

4. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu ummælanna og honum dæmdar miskabætur. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að forsjármál leyfisbeiðanda og barnsmóður hans hefði verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og hafi sú umræða verið liður í umfjöllun um rekstur forsjármála, réttindi karla, kvenna og barna í slíkum málum, stöðu erlendra foreldra, tálmanir, kynbundið ofbeldi og fleira. Ummæli gagnaðila hefðu fallið í þjóðfélagsumræðu um framangreind atriði. Í ljósi þátttöku og framgöngu leyfisbeiðanda sjálfs í þeirri umræðu, þar sem hann fjallaði meðal annars um einkamálefni sín og annarra, þyrfti hann að þola skertari einkalífsvernd en ella. Landsréttur taldi að orðið ofbeldismaður, sem gagnaðili notaði í ummælum sínum, vísaði ekki með beinum hætti til tiltekins refsiverðs verknaðar og yrði í ljósi samhengis litið á þau sem gildisdóm. Þá þótti ekki unnt að leggja til grundvallar að gagnaðili hefði ekki verið í góðri trú um réttmæti þess sem hann tjáði sig um.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Bendir hann meðal annars á að misræmi sé í dómaframkvæmd og æruvernd hafi aldrei verið mikilvægari. Í dómi Landsréttar felist það fordæmi að saklaus maður geti ekki brugðist sér til varnar og sagt sannleikann, ella sé hann talinn þáttakandi í umræðu. Þá varði úrslit málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans enda lúti það að stjórnarskrárbundnum mannréttindum hans og því að hann sé saklaus sakaður um að vera ofbeldismaður. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að einn dómara í Landsrétti hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins þar sem leyfisbeiðandi hafi gagnrýnt dóm Landsréttar í forsjármáli hans, sem dæmdur var af systur dómarans, og sú tjáning leyfisbeiðanda hafi verið gerð að forsendu fyrir sýknuniðurstöðu. Leyfisbeiðandi telur ennfremur að dómur Landsréttar sé rangur að efni til og dæmt hafi verið þvert á öll fyrri dómafordæmi. Þá feli dómurinn í sér brot á tjáningarfrelsi leyfisbeiðanda þar sem notað sé gegn honum að hafa tjáð sig og tjáning hans hafi orðið til þess að hann njóti ekki einkalífsverndar. Að auki bendi engin gögn til þess að gagnaðili hafi verið í góðri trú þegar hann lét ummæli sín falla.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.