Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2013
Lykilorð
- Þjófnaður
- Reynslulausn
|
|
Miðvikudaginn 19. júní 2013. |
|
Nr. 213/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Þorvaldi Jónssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Þjófnaður. Reynslulausn.
Þ var sakfelldur fyrir þjófnaðarbrot samkvæmt 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gert að sæta fangelsi í 8 mánuði. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að með broti sínu rauf Þ reynslulausn og var hún dæmd upp samkvæmt 60. gr. laga nr. 19/1940. Ekki voru talin efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og bundin skilorði.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Þorvaldur Jónsson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 204.361 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 1. mars 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 9. janúar 2013 og dómtekið 15. febrúar sl., var höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þeirri fyrri dagsettri 10. desember 2012, á hendur Þorvaldi Jónssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir húsbrot. Var sú ákæra felld niður í þinghaldi þann 30. janúar sl.
Í þinghaldi þann 9. janúar sl. var ákæra, útgefin 21. desember 2012, birt ákærða þar sem honum er gefinn að sök þjófnaður, með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 17. september 2012, slegið steini í rúðu á sölulúgu söluskálans [...], [...], [...], og í kjölfarið farið í heimildarleysi inn í söluskálann og tekið þaðan ófrjálsri hendi 12 pakka af sígarettum, samtals tjón að verðmæti 47.675 krónur.
Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í þinghaldi þann 15. febrúar sl. játaði ákærði þá háttsemi sem lýst er í ákærunni og var farið með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Ákærði krafðist vægustu refsingar. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann því sakfelldur fyrir brot sín. Háttsemin er í ákæru réttilega færð til refsiákvæða.
Ákærði á langan sakaferil að baki. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum fimmtán sinnum frá árinu 1999 verið gerð refsing fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Ákærði var dæmdur þann 22. september 2009 í tólf mánaða fangelsi, m.a. fyrir brot gegn valdstjórninni, nytjastuld, gripdeild, almannahættu, umferðarlagabrot og fíkniefnaakstur og fíkniefnalagabrot. Þá var ákærði dæmdur í sextíu daga fangelsi með dómi 1. febrúar 2011 fyrir fíkniefnaakstur og að aka sviptur ökurétti. Ákærða var veitt reynslulausn þann 18. júní 2011 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar 210 daga. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið reynslulausnina. Ákærði rauf einnig reynslulausnina með broti gegn lögum um ávana- og fíkniefni en hann gekkst undir viðurlagaákvörðun þann 8. febrúar 2012 vegna þess brots. Var reynslulausnin þá ekki dæmd upp. Ber nú að dæma reynslulausnina upp með hliðsjón af 65. gr. laga 49/2005, sbr. 60. gr. laga nr. 19/1940. Er refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í átta mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar hrl., 130.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Þorvaldur Jónsson, kt. [...], [...], [...], skal sæta fangelsi í átta mánuði.
Ákærði greiði sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar hrl., 130.000 krónur auk virðisaukaskatts.