Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/2009


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hegningarauki
  • Vanaafbrotamaður


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. desember 2009.

Nr. 372/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

Lárusi Birni Svavarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Þjófnaður. Hegningarauki. Vanaafbrotamaður.

L var sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var umrætt þjófnaðarbrot framið fyrir uppkvaðningu dóms sem L hafði hlotið 2. júní 2009 þar sem hann var dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir þjófnaðarbrot, eignaspjöll, húsbrot og fíkniefnabrot. Með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga, svo og 72. gr. og 255. gr. sömu laga, var L dæmdur í tveggja mánaða fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. júní 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði milduð.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði ekki gerð refsing. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing hans verði milduð og ákvörðuð sem hegningarauki við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009.

Fallist er á með héraðsdómi að nægilega sé sannað að ákærði hafi 10. júní 2008 farið í heimildarleysi inn í hús að G, Hveragerði, íbúð [...]. Telst einnig sannað að hann hafi rótað til í svefnherbergi í íbúðinni og safnað saman skartgripum og að ásetningur hans með því hafi verið að komast yfir verðmæti. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi komu húsráðandi og fleiri í veg fyrir að ákærði gæti haft verðmætin á brott með sér. Sú háttsemi ákærða sem hér um ræðir er réttilega færð til 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga. Honum verður ekki jafnframt gerð refsing samkvæmt 231. gr. laganna.

            Ákærði var í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. júní 2009 dæmdur fyrir 11 þjófnaðarbrot, eignaspjöll, húsbrot og fíkniefnabrot. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 10 mánuði, en til frádráttar refsivistinni kæmi óslitið gæsluvarðhald hans frá 13. apríl 2009 til uppkvaðningardags dómsins. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp degi síðar í Héraðsdómi Suðurlands.

            Refsingu ákærða fyrir það brot sem hann er fundinn sekur um í þessu máli ber samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga að ákveða sem hegningarauka við framangreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Ákærði er vanaafbrotamaður og verður við ákvörðun refsingar tekið tillit til 72. gr. almennra hegningarlaga, svo og til 255. gr. sömu laga. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi.

            Ákvörðun hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

            Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð

Ákærði, Lárus Björn Svavarsson, sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði 200.620 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands, ár 2009, miðvikudaginn 3. júní.

Mál þetta, sem þingfest var 13. mars sl. og dómtekið 11. maí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 28. janúar 2009, á hendur Lárusi Birni Svavarssyni, kt. 120951-4839, til dvalar í gistiskýlinu við Þingholtsstræti í Reykjavík,

„fyrir húsbrot og tilraun til þjófnaðar

með því að hafa, skömmu fyrir hádegi þriðjudaginn 10. júní 2008 í heimildarleysi og óleyfi farið inn í íbúð [...] við G í Hveragerði, rótað þar til og safnað saman skartgripum úr svefnherbergisskúffu í auðgunarskyni, er komið var að ákærða þar sem hann hafði lagt skartgripi á náttborð og hjónarúm og falið hálsmen undir kodda í rúminu, en ákærði hafði áður reynt að varna húsráðanda inngöngu í herbergið.

Telst brot ákærða varða við 231. gr. og 244 gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði mætti fyrir dóminn þann 15. apríl sl. og óskaði þá eftir skipuðum verjanda. Við þá fyrirtöku játaði ákærði að hafa farið inn í íbúð að G í Hveragerði en neitaði að hafa gert tilraun til þjófnaðar og að hafa varnað konunni inngöngu í svefnherbergið. Aðalmeðferð fór fram þann 11. maí sl. Af hálfu ákærða er krafist sýknu en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing er lög leyfa vegna tilraunar til þjófnaðar. Þá var gerð krafa um greiðslu málsvarnarlauna og að þau yrðu greidd úr ríkissjóði. Var málið dómtekið að aðalmeðferð lokinni.

Málavextir.

Í frumskýrslu lögreglu, þann 10. júní 2008, segir að A hafi haft samband við lögregluna á Selfossi og óskað eftir aðstoð að G, íbúð [...], þar sem ákærði hafi verið inni hjá henni að gramsa í skúffum er hún kom heim til sín. Þegar lögreglan kom á vettvang sat ákærði úti í garði í umsjá A og vitna. 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvað málavexti þá að hann hafi komið til Hveragerðis og ætlað að hitta kunningja sína, Beggu og Víði. Hefði hann farið í Eden í Hveragerði og hitt þar fyrir konu og spurt hana um dvalarstað kunningja sinna. Hefði kona þessi sagt honum að hjón þessi væru flutt að L í Hveragerði. Hefði konan boðist til að fylgja honum að heimili þeirra og gengið með honum að íbúð sem hún sagði þau búa í. Hefði ákærði bankað en konan hefði gengið beint inn en síðan farið burtu með þeim orðum að Begga hlyti að fara að koma. Hann hefði beðið, ekki lengi, þar til kona hefði komið og sagt honum að engin Begga og Víðir byggju þarna. Aðspurður fyrir dóminum kvað ákærði engar merkingar eða nöfn hafa verið við íbúðina sem hann fór inn í. Aðspurður kvaðst hann hafa gengið í um tuttugu mínútur frá Eden að íbúðinni en hann hefði ekki lagt á minnið hversu lengi hann gekk. Aðspurður kvað hann konuna sem fylgdi honum frá Eden hafa opnað útidyrnar á G en síðan horfið. Konan sem kom svo síðar hefði spurt hann kvað hann væri að gera í íbúðinni og eftir að hafa sagt henni erindi sitt hefði hún sagt honum að bíða, sem hann hefði gert, og konan þá líklega hringt á lögregluna. Þegar leið á framburð ákærða fyrir dóminum kvað hann tvær konur hafa komið að sér. Hann hefði verið í ganginum þegar lögreglan kom á staðinn. Ákærði neitaði alfarið að hafa farið inn í svefnherbergið, hann hefði aldrei farið lengra en inn í forstofu. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa kannast við konuna sem hann hitti í Eden, hún hefði verið með slétt skollitað hár og hafi vitað hvar Begga og Víðir bjuggu. Undir ákærða var borinn framburður hans fyrir lögreglu þar sem hann hefði sagst hafa kannast við konuna frá Reykjavík, en fyrir dóminum kvaðst ákærði ekki hafa séð konuna í Hveragerði áður. Ákærði kvaðst hafa fengið far með vörubifreið sem kom frá Ingólfsfjalli og verið ekið í Eden en hann hafi verið að koma frá Selfossi. Í skýrslu lögreglunnar var haft eftir ákærða að hann hefði verið á leið frá bæ rétt við Stokkseyri til Hveragerðis og fengið far með bláum bíl og hafi bílstjórinn unnið í Veiðihúsinu í Reykjavík. 

Haukur Páll Ægisson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall til Hveragerðis þar sem tilkynnt hefði verið um innbrot. Þegar lögreglan kom að hefði ákærði setið í stól fyrir utan húsið. Húsráðandi hefði sýnt honum inn í svefnherbergið þar sem búið var að róta í skúffum. Skúffa hafi verið opin í kommóðu og greinilega búið að róta í henni. Á rúminu hefðu legið skartgripir sem búið var að tína til. Skartgripaskrín hafi einnig verið bak við herbergishurðina sem greinilega var búið að taka til. Ákærði hefði tjáð lögreglunni að hann hafi verið búinn að vera einn og hálfan sólarhring í Hveragerði en hann hafi ætlað að hitta Brynju. Haukur kvað póstkassa hafa verið við hliðina á útidyrunum og hafi nafn A verið á honum. Leitað hefði verið á ákærða og lítill hnífur fundist á honum en engir skartgripir. Aðspurður kvað hann ákærða hafa sagst ætla að hitta Brynju, það væri enginn misskilningur hjá sér.

Aðalsteinn Þór Guðmundsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið að G vegna tilkynningar um innbrot. Þegar lögreglan kom að hefðu nokkrir einstaklingar verið fyrir utan húsið og ákærði setið hinn rólegasti í stól. Leitað hafi verið á ákærða og ekkert saknæmt fundist á honum. Ákærði hefði tjáð lögreglunni að hann hefði ætlað að hitta einhverja konu í G. Hann hefði líka sagt lögreglunni að hann hefði farið inn til að hringja á leigubifreið. Þá hefði hann talað um einhverja konu sem hefði verið með honum en farið í burtu. Aðalsteinn kvaðst hafa farið inn í svefnherbergi og A bent honum á skartgripi sem búið var að setja á kommóðu fyrir aftan hurðina. Þá hefði kommóðuskúffa við hliðina á rúminu verið opin og greinilega búið að róta í henni. Þá hefðu skartgripir verið undir kodda í rúminu. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa gert neina tilraun til að flýja eða verið með mótþróa á staðnum.

A, kt. [...], G, Hveragerði, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa skotist frá heimili sínu umræddan dag og farið inn á Heilsustofnun NLFÍ til að setja í þvottavél. Þegar hún kom aftur og opnaði útidyrahurðina hefði svefnherbergishurðinni verið skellt aftur. Hefði hún bæði séð og heyrt að hurðinni var skellt aftur. Enginn trekkur hefði verið og hún því gert sér grein fyrir að einhver væri þar inni. Hún hefði því ætlað að opna hurðina en ýtt hefði verið á móti. Hún hefði því ýtt fastar á hurðina og hurðin við það opnast aðeins. Þá hefði ákærði komið í gættina og hún strax þekkt hann. Fokið hefði í hana og hún spurt ákærða hvern fjandann hann væri að gera þarna. Ákærði hefði þá sagst vera að leita að síma til að hringja á leigubifreið. Dregið hefði verið fyrir gluggana og því rökkvað inni svo hún hefði kveikt loftljósið. Þá hefði hún séð skartgripina á rúminu og orðið verulega reið. Hún hefði spurt ákærða hvort hann væri að stela skartgripunum frá sér en hann neitað. Ákærði hefði sagt henni að kona hefði verið með honum, ljóshærð, en hún farið út á Heilsustofnun. A kvaðst hafa ýtt betur á hurðina og ákærði fært sig bak við hurðina. Þar væri kommóða og hefði hún þá séð gullarmband á kommóðunni og fleiri skartgripi ásamt skartgripaskríni. Ákærði hefði þá ítrekað að hann hefði engu stolið. Kvaðst hún hafa tekið í jakkaboðunginn á ákærða og dröslað honum með sér inn í stofu til að komast í síma. Því næst hefði hún hringt á Heilsustofnunina og beðið um aðstoð sem hefði borist strax. Kvað hún starfsfólk strax hafa leitað um allt hælið að konunni sem ákærði kvað hafa verið með sér. A kvaðst geyma skartgripina sína í náttborði við hliðina á hjónarúminu. Þá hefði hún tekið eftir því að rúmteppið við höfðalag rúmsins var bælt og því leitað þar og þá fundið skartgripi þar. A kvaðst ekki þekkja ákærða nema sem Lalla Johns úr sjónvarpinu og því strax gert sér grein fyrir hver hann væri. A kvaðst aðspurð hafa búið í G, íbúð [...], í um tuttugu ár. Íbúð hennar væri innsta íbúð í raðhúsalengju og væru útidyrnar eini útgangurinn á íbúðinni. Þá væru opnanlegu fögin í gluggum þannig að maður kæmist ekki í gegnum þau. Þá kvað hún B, starfsmann Heilsustofnunar, hafa tjáð sér að hún hefði mætt Lalla efst í G og aftur síðar við H, sem væri næsta gata, og hefði hann verið á leið í átt að NLFÍ og hefði engin kona verið með honum. B kom ekki fyrir dóminn. Aðspurð kvað A það rangt að önnur kona hafi komið með sér heim, þó nokkur tími hafi liðið þar til hjálp barst. Útilokað væri að ákærði hafi upplifað þá komu þannig að þær hafi verið saman tvær konurnar sem komu að honum. A kvaðst ekki kannast við að nokkur kona með nafninu Brynja eða Begga hafi búið sl. tuttugu ár í raðhúsalengjunni.

C, kt. [...], kom fyrir dóminn og kvaðst vera staðgengill framkvæmdastjóra Heilsustofnunarinnar í Hveragerði og hafa fengið upplýsingar um að brotist hefði verið inn hjá einum starfsmanni þeirra. Hún hefði farið þangað strax og hefði A þá staðið í útidyrunum og haldið í ákærða. C kvað A hafa sagt sér strax að hún hefði komið að ákærða inni í svefnherbergi rótandi í skartgripum hennar. C kvaðst hafa litið inn í svefnherbergið og hefðu skartgripir legið þar. C kvaðst ekki kannast við að Begga eða Víðir hafi búið í starfsmannaíbúðunum við G. Aðspurð um konu sem átti að vera í fylgd ákærða, kvað hún leit hafa verið gerða að henni í allri stofnuninni en engin fundist. C kvaðst ekki kannast við að kona að nafni Berglind Guðmundsdóttir eða Gunnarsdóttir hafi unnið á þessum tíma á Heilsustofnuninni eða búið í starfsmannaíbúðunum en margir starfsmenn væru þarna.

D, kt. [...], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að vinna á skiptiborðinu þegar A hringdi í hana og sagði að brotist hefði verið inn hjá sér. Kvaðst hún hafa hent símanum frá sér og hlaupið heim til A ásamt annarri konu. Þegar hún kom hefði A haldið ákærða og þau verið í forstofunni. Kvaðst hún hafa heyrt ákærða nefna konu sem hefði verið með honum og að hún hefði farið inn á Heilsustofnun. Því hefði hún farið aftur inn á stofnun og fengið aðstoð við að leita í húsinu en þar hefði enginn fundist. Hún hefði því farið aftur í G til A og hefði lögreglan komið um sama leyti. D kvaðst ekki geta fullyrt hvort einhver Berglind Guðmundsdóttir eða Gunnarsdóttir hafi unnið á hælinu sl. þrjátíu ár en í kringum eitt hundrað starfsmenn væru þar að öllu jöfnu.

E, kt. [...], kvaðst hafa fengið boð frá F starfsmanni um að þörf væri á aðstoð í íbúð að G, íbúð [...]. Hann hefði hlaupið strax af stað og þegar hann kom þangað hefði A verið þar og haldið ákærða. Engin læti hafi verið en A hafi verið reið og ákærði sest á stól fyrir utan íbúðina. Ákærði hefði gefið ruglingslegar skýringar á veru sinni þarna og hafi þær ekki verið mjög trúverðugar. A hefði tjáð sér að hún hefði komið að ákærða rótandi í svefnherberginu sínu.

Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök húsbrot og tilraun til þjófnaðar, með því að hafa, á þeim tíma sem í ákæru greinir, farið heimildarlaust inn í íbúðarhús að G í Hveragerði, íbúð [...], rótað þar til og safnað saman skartgripum úr svefnherbergisskúffu í auðgunarskyni. Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa farið inn í umrætt hús en neitaði alfarið að það hafi verið í þeim tilgangi að stela.

Í upplýsingaskýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi tjáð lögreglunni á vettvangi að hann hafi dvalið í Hveragerði í einn og hálfan sólarhring og hafi ætlað að hitta Brynju í umræddu húsi. Í skýrslu lögreglu, sem ákærði gaf síðar sama dag, kvaðst hann hafa fengið far frá bæ, sem væri nálægt Stokkseyri, til Hveragerðis og ætlað að heimsækja konu sem heiti Berglind Rut eða Berglind Gunnarsdóttir. Fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa fengið far rétt við Ingólfsfjall til Hveragerðis. Þá hefur ákærði frá upphafi sagst hafa verið í fylgd með konu sem hann hitti í Eden í Hveragerði og hefði hún fylgt honum að umræddu húsi og sagt honum að Begga og Víðir byggju þar. Ákærði kvaðst, fyrir lögreglu, hafa kannast við þá konu frá Reykjavík, hann hefði hitt hana áður á Landspítalanum. Fyrir dóminum kvaðst ákærði hins vegar ekki hafa séð konuna áður og aðspurður um misræmi í frásögn sinni fyrir lögreglu kvaðst ákærði þá ekki hafa séð konuna í Hveragerði áður.

A kvað fyrir lögreglu og dómi að hún hefði komið inn í forstofu heima hjá sér og bæði séð og heyrt að svefnherbergisdyrunum var skellt um leið og hún kom inn. Þá bar hún eins fyrir dóminum, að hún hefði tekið í hurðarhúninn og ætlað að opna dyrnar en ýtt hefði verið á hurðina á móti henni. Hún hefði því beitt meira afli og hurðin þá opnast og þar fyrir innan hafi ákærði staðið. Þar sá hún skartgripi, á rúminu sínu og skúffu í náttborði opna. Þá fann hún skartgripi á kommóðuskúffu bak við hurð og undir kodda í hjónarúminu. A og ákærða bar saman um að A hefði tekið í hann og haldið honum á meðan hún hringdi eftir aðstoð. Ákærði neitaði því alfarið að hafa farið inn í svefnherbergi A. Verður framburður ákærða að teljast afar ótrúverðugur. Þrátt fyrir neitun ákærða um að hafa farið inn í svefnherbergið og ætlað að stela þar skartgripum, telur dómarinn engan vafa vera á trúverðugleika vitnisins A sem fær einnig stoð í framburði annarra vitna fyrir dóminum, sem komu á vettvang og sáu hvernig umhorfs var í svefnherberginu. Verður því að telja sannað, svo hafið sé yfir allan vafa, að ákærði braut af sér eins og í ákæru greinir og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er réttilega færð til refsiákvæða. Er brot hans ófyrirleytið og óverjandi en með því að fara inn á heimili, brýtur hann gegn friðhelgi einkalífsins og raskar því öryggi og friði sem heimilið á að tryggja einstaklingnum. Verður litið til þess við ákvörðun refsingar. 

Samkvæmt sakavottorði ákærða á hann langan brotaferil að baki, allt frá árinu 1969. Hefur honum þrjátíu og níu sinnum verið gerð refsing fyrir þjófnaðarbrot, þar af átta sinnum síðustu fimm ár og tvisvar sinnum áður fyrir húsbrot. Þá hefur ákærða margoft verið gerð refsing fyrir önnur hegningarlagabrot. Ákærði er vanaafbrotamaður og þrátt fyrir ítrekaðar refsingar heldur hann háttseminni áfram. Að mati dómsins bendir þessi háttsemi ákærða til einbeitts brotavilja ákærða, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið er til framangreinds og 72. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

Að þessari niðurstöðu fenginni og í samræmi við 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er málsvarnarlaun verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 160.000 krónur, og 28.000 krónur í ferðakostnað, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Lárus Björn Svavarsson, sæti fangelsi í tíu mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnaðar, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 160.000 krónur, og 28.000 krónur í ferðakostnað, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.