Hæstiréttur íslands

Mál nr. 438/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 3

 

Miðvikudaginn 3. desember 2003.

Nr. 438/2003.

Óskar Geir Pétursson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Ó á hendur T var vísað frá dómi. Í tilefni af því að kröfugerð hans fyrir Hæstarétti var með tiltekinni lagfæringu var tekið fram að frávísunarúrskurði héraðsdóms yrði ekki skotið til Hæstaréttar til þess að fá lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfugerð í annarri mynd en þeirri, er þar lá fyrir. Þá var kröfugerð Ó fyrir héraðsdómi svo ónákvæm og óljós að efnisdómur varð ekki felldur á hana, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega „að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þann veg, að aðaldómkrafa sóknaraðila samkvæmt héraðsstefnu verði tekin til efnismeðferðar með eftirtaldri lagfæringu: Að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatryggingalaga í málinu nr. 207/2002, frá 15. janúar 2003. Að Tryggingastofnun ríkisins verði dæmd til að meta þá áverka sem stefnandi fékk í vinnuslysinu þann 7. janúar 2000 á grundvelli 2. mgr. 12. greinar almannatryggingalaga nr. 117/1993, eftir staðli reglugerðar nr. 379/1999.“ Til vara krefst sóknaraðili þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg „að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatryggingalaga í málinu nr. 207/2002, frá 15. janúar 2003: Óskar Geir Pétursson gegn Tryggingastofnun ríkisins.“ Að því frágengnu krefst hann þess hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg „að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatryggingalaga í málinu nr. 207/2002 frá 15. janúar 2003.“ Síðasta varakrafa hans er að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg „að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatryggingalaga í málinu nr. 207/2002, frá 15. janúar 2003, þess efnis að 5% örorkumat Tryggingastofnunar, vegna slyss, sem Óskar Pétursson varð fyrir 7. janúar 2000 sé staðfest og Tryggingastofnun ríkisins verði dæmd skyld til að meta þá áverka sem stefnandi hlaut í slysinu 7. janúar 2000, samkvæmt 4. grein laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, þannig að fyrst verði metnar afleiðingar slyssins samkvæmt læknisfræðilegu sjónarmiði og síðan þeir erfiðleikar sem tjónið (áverkarnir) veldur í lífi stefnanda.“ Þá gerir hann kröfu um „hærri málskostnað í héraði“ og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Kemst krafa hans um málskostnað í héraði því ekki að fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili hafði í héraði uppi aðalkröfu og varakröfu á hendur varnaraðila. Reisti varnaraðili kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á ástæðum, er vörðuðu kröfugerð sóknaraðila og málatilbúnað hans að öðru leyti. Var málið flutt fyrir héraðsdómi um frávísunarkröfu varnaraðila og úr því leyst með hinum kærða úrskurði hvort kröfugerð sóknaraðila væri tæk til efnisdóms, svo og hvort það heyrði undir dómstóla að skera úr um sakarefnið eins og málatilbúnaði hans var háttað. Úrskurði um að máli sé vísað frá héraðsdómi vegna þess að hnökrar séu á kröfugerð stefnanda verður ekki skotið til Hæstaréttar til þess að fá lagt fyrir héraðsdómara að hann taki til efnismeðferðar kröfugerð í annarri mynd en þeirri, er þar lá fyrir. Geta kröfur sóknaraðila því ekki komið til umfjöllunar fyrir Hæstarétti að því leyti, sem þær eru þessu marki brenndar.

Í héraði gerði sóknaraðili þá aðalkröfu að felldur yrði úr gildi nánar tilgreindur úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga varðandi örorkumat hans vegna slyss, er hann varð fyrir 7. janúar 2000, og að varnaraðili yrði dæmdur til að meta þá áverka, sem sóknaraðili hlaut í slysinu, til örorku á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993 um almennatryggingar samkvæmt þeim staðli, sem saminn hefur verið á grundvelli reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Líta verður svo á að þessi krafa sóknaraðila myndi eina heild. Síðari þátturinn í kröfunni er svo ónákvæmur og óljós að efnisdómur verður ekki felldur á hana, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Með því að sömu annmarkar eru á varakröfu sóknaraðila fyrir héraðsdómi verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins staðfest.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað verður staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Óskar Geir Pétursson, greiði varnaraðila, Tryggingastofnun ríkisins, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2003.

          Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 1. þ.m. er höfðað með stefnu útgefinni 19. mars 2003 og var málið þingfest þann 27. sama mánaðar.           

          Stefnandi er Óskar Geir Pétursson, kt. 010952-4099, Bakkagötu 3,  Kópaskeri.

          Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu.

          Stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík.

          Stefnandi gerir aðallega þá dómkröfu, að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatrygginga í málinu nr. 207/2002, frá 15. janúar 2003, þess efnis, að 5% örorkumat Tryggingastofnunar vegna slyss, sem Óskar Geir Pétursson, kt. 010952-4099, varð fyrir, 7. janúar 2000, sé staðfest, og Tryggingastofnun ríkisins verði dæmd til að meta þá áverka, sem stefnandi hlaut í slysinu til örorku á grundvelli 2. mgr. 12. greinar almannatryggingalaga nr. 117/1993, samkvæmt þeim staðli, sem saminn hefur verið á grundvelli reglugerðar nr. 379/1999.

          Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu, að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatrygginga í málinu nr. 207/2002,  frá 15. janúar 2003, þess efnis að 5% örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins vegna slyss sem Óskar Geir Pétursson, kt. 010952-4099 varð fyrir, þann 7. janúar 2000, sé staðfest, og Tryggingastofnun ríkisins verði dæmd skyld til að meta þá áverka sem stefnandi hlaut í slysinu þann 7. janúar 2000, þannig að fyrst séu metnar afleiðingar slyssins út frá læknisfræðilegu sjónarmiði og síðan þeir erfiðleikar sem tjónið (áverkarnir) veldur í lífi stefnanda í samræmi við 4. grein laga nr. 50/1993 með síðari breytingum.

          Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, þar sem hliðsjón verði höfð af því, að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og þeim kostnaði sem stefnandi verður fyrir vegna málsins.

          Stefndi gerir aðallega þá dómkröfu að máli þessu verði vísað frá dómi.

          Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

          Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

 

          Málavextir eru þeir, eftir því, sem segir í stefnu, að þann 7. janúar 2000 varð stefnandi fyrir slysi, þar sem hann var við vinnu sína um borð í Hrísey EA-410.

          Í kjölfar slyssins var stefnandi metinn til læknisfræðilegrar örorku af Atla Þór Ólasyni þann 18. júní 2002 til grundvallar bótum úr slysatryggingu sjómanna (launþegatryggingu). Hafi Atli Þór metið varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda  5%. Stefnandi hafi síðan krafist mats hjá stefnda samkvæmt almannatryggingalögum og var niðurstaða þess mats einnig 5%. Stefnandi kærði niðurstöðu þessa til Úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 25. október 2002 og krafðist þess, að örorka sín vegna slyssins yrði metin á grundvelli 2. mgr. 12. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, samkvæmt þeim staðli, sem saminn hefði verið á grundvelli reglugerðar nr. 379/1999. Með úrskurði nefndarinnar 15. janúar 2003 er 5% örorkumat Tryggingastofnunar vegna slyss sem Óskar Geir Pétursson, kt. 010952-4099, varð fyrir 7. janúar 2000, staðfest

          Mál þetta var tekið til munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu stefnda þann 1. þ.m.

          Stefndi ítrekaði kröfu sína um að málinu verði vísað frá dómi og krafðist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

          Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefnda og krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

          Stefndi reisir kröfu sína um frávísun málsins á þeim málsástæðum, að bæði aðal- og varakrafa stefnanda séu ódómtækar, auk þess sem það eigi ekki undir dómstóla að ákveða hvernig meta skuli örorku stefnanda eftir ákvæðum almannatryggingalaga nr. 117/1993.

          Stefnandi krefjist þess aðallega að úrskurður úrskurðarnefndar almanna-trygginga í máli nr. 207/2000 verði felldur úr gildi og að stefnda verði dæmd til að meta áverka stefnanda eftir tilteknum mælikvarða. Til vara krefjist stefnandi þess, að úrskurðinn verði felldur úr gildi og stefnda verði dæmd til að meta áverka útfrá tilteknum öðrum mælikvarða en krafist er í aðalkröfu.

          Í 1. mgr. 4. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 segi að forstjóri annist stjórn stofnunarinnar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. 4. gr. laganna segi að deildarstjórar annist venjulega afgreiðslu mála, hver fyrir sína deild. Í 1. mgr. 7. gr.  segi að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögunum leggi sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið. Með lagaákvæðum þessum sé valdið til að kveða á um ofangreind atriði falin tilteknum stjórnvöldum. Í því felist, að það falli utan valdsviðs dómstóla að kveða á um þau atriði, sem stefnandi krefst í þessu máli, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Sakarefnið eigi ekki undir dómstóla og beri því að vísa því frá dómi.

          Frávísunarkrafa stefnda sé einnig reist á því, að dómkröfur stefnanda séu ódómtækar þar sem þær séu bæði óákveðnar og óljósar. Slík kröfugerð brjóti gegn ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Kröfum stefnanda um að Tryggingastofnun ríkisins skuli meta afleiðingar af slysi stefnanda eftir þeim mælikvörðum sem stefnandi lýsi í dómkröfu sinni, sé ekki unnt að fullnægja með aðför né feli kröfurnar í sér að tiltekin og afmörkuð réttindi stefnanda séu viðurkennd. Ekki sé unnt að leggja kröfurnar til grundvallar dómi óbreyttar, enda fæli slík úrlausn ekki í sér ákveðin endalok þess réttarágreinings sem fyrir hendi sé. Þessi annmarki á kröfugerð stefnanda sé verulegur og leiði til frávísunar að mati stefnda.

 

          Niðurstaða:

          Þegar leyst er úr því, kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda uppfylli skilyrði réttarfarslaga til að sakarefnið verði borið undir dómstóla, verður að líta til þess, að af hans hálfu er þess krafist, að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 15. janúar 2003 um að 5% örorkumat stefnda vegna slyss stefnanda sé staðfest. Jafnframt er þess krafist stefndi verði dæmdur til meta þá áverka, sem hann hlaut í slysi sínu með nánar tilteknum öðrum hætti en gert var í úrskurðinum   Eins og kröfurnar eru settar fram, verður að skilja þær og málatilbúnað stefnanda að öðru leyti þannig að hann geri ekki sjálfstæða kröfu um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi, heldur sé þar um að ræða hluta þeirra krafna, að dómurinn kveði á um þær aðferðir og viðmiðanir, sem ætlast er til að stefndi beiti við nýtt mat.

 

          Samkvæmt framangreindu ber stefnda að taka ákvarðanir, sem lög um almannatryggingar segja til um, þar á meðal um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt þeim lögum, en úrskurðarnefnd almannatrygginga skv. 1. mgr. 7. gr. laganna, leggur þar á endanlegan úrskurð, ef ágreiningur rís. Með kröfu stefnanda er farið fram á að dómurinn kveði á um skyldur stefnda og ákveði aðgerðir sem stefnandi telur, að stefnda beri að grípa til samkvæmt lögunum. Verður ekki fallist á, að það sé á valdsviði dómsins að kveða á um að stefndi eða úrskurðarnefndin skuli meta örorku stefnanda eftir öðrum viðmiðunum eða lögum, en gert hefur verið.

 

          Samkvæmt þessu heyrir sakarefnið ekki undir dómstóla og ber með vísan til þess og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi.

  

          Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 

          Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., kr. 100.000, greiðist úr ríkissjóði.

  

          Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o ð:

          Máli þessu er vísað frá dómi.

          Málskostnaður fellur niður.

          Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., kr. 100.000, greiðist úr ríkissjóði.