Hæstiréttur íslands

Mál nr. 277/2001


Lykilorð

  • Aðild
  • Kröfugerð
  • Lögspurning
  • Flýtimeðferð
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. október 2001.

Nr. 277/2001.

Alþýðusamband Íslands

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

og gagnsök

 

Aðild. Kröfugerð. Lögspurning. Flýtimeðferð. Frávísun frá héraðsdómi

ASÍ höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu (Í) til viðurkenningar á að 1., 2., og 3. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira tækju ekki til tilgreindra stéttarfélaga. Einnig krafðist ASÍ viðurkenningar á að sömu ákvæði laganna fælu í sér ólögmæta skerðingu á samningsfrelsi og verkfallsrétti annarra tilgreindra félaga og að lögin yrðu dæmd óskuldbindandi fyrir þau að því er framangreindar lagagreinar varðaði. Samhljóða krafa var gerð til vara fyrir þau félög er fyrri aðalkrafa ASÍ laut að. Talið var að hagsmunir launþega innan raða viðkomandi stéttarfélaga gætu samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 færst áfram í hendur ASÍ, enda væri nægileg stoð fyrir slíkri hagsmunagæslu í lögum ASÍ. Var því hafnað þeirri röksemd Í að ASÍ væri almennt ekki fært að beita ákvæði 3. mgr. 25. gr. fyrrgreindra laga til málsóknar vegna hagsmuna launþega innan aðildarfélaga sinna. Hins vegar var talið að sá háttur á málshöfðun ASÍ að gera dómkröfur sem lutu berum orðum að réttindum og skyldum nafngreindra stéttarfélaga væri í andstöðu við umrætt lagaákvæði sem ekki felur í sér málsóknarumboð til félaga eða samtaka, heldur flytur í hendur þeirra aðild að máli um hagsmuni ótiltekinna félagsmanna þeirra. Þá var kröfugerð ASÍ, eins og hún var orðuð, ekki talin beinast að ákveðnu sakarefni, heldur fela það eitt í sér, andstætt ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að leitað væri lögfræðilegrar álitsgerðar dómstóla. Vegna þessara annmarka á málatilbúnaði ASÍ var málinu vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júlí 2001. Hann krefst þess aðallega :

1. Að viðurkennt verði að 1. gr., 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira taki ekki til Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar.

2. Að viðurkennt verði að sömu ákvæði framangreindra laga feli í sér ólögmæta skerðingu á samningsfrelsi og verkfallsrétti Sjómannafélags Reykjavíkur, Sjómannafélags Hafnarfjarðar, Matsveinafélags Íslands, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Patreksfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar, Verkalýðsfélagsins Varnar á Bíldudal, Verkalýðsfélagsins Brynju á Þingeyri, Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri, Verkalýðsfélagsins Súganda á Suðureyri, Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga á Súðavík, Sjómannafélags Ísfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðsfélags Hólmavíkur, Verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps á Drangsnesi, Stéttarfélagsins Samstöðu á Blönduósi, Öldunnar, stéttarfélags á Sauðárkróki, Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði, Sjómannafélags Ólafsfjarðar, Sjómannafélags Eyjafjarðar, Verkalýðsfélags Húsavíkur, Verkalýðsfélags Raufarhafnar, Verkalýðsfélags Þórshafnar, Afls, starfsgreinafélags Austurlands, Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar, Vökuls, stéttarfélags á Höfn, Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs á Selfossi, Verkalýðs- og sjómannafélagsins Bjarma á Stokkseyri, Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans í Hveragerði, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis og að lögin verði dæmd óskuldbindandi fyrir þau að því er framangreindar lagagreinar varðar.

Til vara krefst aðaláfrýjandi þess, ef fyrri lið aðalkröfu verður hafnað, að viðurkennt verði að 1. gr., 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001 feli í sér ólögmæta skerðingu á samningsfrelsi og verkfallsrétti Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar og að lögin verði dæmd óskuldbindandi fyrir þau að því er framangreindar lagagreinar varðar.

Aðaláfrýjandi krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 21. ágúst 2001. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að kjarasamningar sjómanna urðu lausir 15. febrúar 2000, þegar lög nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna féllu úr gildi. Fóru þá í hönd samningaviðræður, sem báru ekki árangur. Félög innan Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands boðuðu verkfall, sem hófst 15. mars 2001. Aðildarfélög Landssambands íslenskra útvegsmanna boðuðu verkbann gagnstætt þessum aðgerðum. Með lögum nr. 8/2001 um frestun á verkfalli fiskimanna var verkföllum og verkbönnum frestað frá 19. mars til 1. apríl 2001. Vinnustöðvun hófst á ný að þeim tíma liðnum. Sjómannasamband Íslands aflýsti verkfalli sínu 15. maí 2001, en áður hafði Sjómannafélag Eyjafjarðar afturkallað umboð sitt til sjómannasambandsins til samningsgerðar fyrir sína hönd og stóð því verkfall þess félags áfram. Útvegsmenn hreyfðu ekki við verkbanni sínu.

Hinn 16. maí 2001 tóku gildi áðurnefnd lög nr. 34/2001. Í 1. gr. þeirra voru lýst óheimil verkföll Sjómannafélags Eyjafjarðar og félaga innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og verkbönn aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart félögum innan Alþýðusambands Vestfjarða og Sjómannasambands Íslands, svo og verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir, sem ætlað væri að knýja fram aðra skipan kjaramála en mælt var fyrir um í lögunum, frá gildistöku laganna og svo lengi sem ákvörðun gerðardóms samkvæmt 2. gr. og 3. gr. laganna hefði gildi. Tekið var fram að heimilt væri að semja um slíkar breytingar, en ekki mætti knýja þær fram með vinnustöðvun. Í 1. mgr. 2. gr. laganna var kveðið á um það að Hæstiréttur Íslands skyldi tilnefna þrjá menn í gerðardóm ef félög, sem getið var í 1. gr. laganna, næðu ekki samkomulagi fyrir 1. júní 2001. Skyldi gerðardómurinn taka ákvörðun um atriði, sem nánar greindi í sjö stafliðum 1. mgr. 2. gr. laganna, varðandi kjaramál þeirra fiskimanna, sem um ræddi í 1. gr. Í 2. mgr. 2. gr. laganna voru ákvæði um formennsku í gerðardóminum og málsmeðferð hans. Samkvæmt 3. gr. laganna bar gerðardóminum eftir því, sem átt gat við, að hafa hliðsjón við ákvarðanir sínar af kjarasamningum, sem gerðir höfðu verið undanfarna mánuði, og almennri þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra, sem ákvarðanirnar vörðuðu. Skyldi gerðardómurinn ljúka störfum fyrir 1. júlí 2001 og yrðu ákvarðanir hans bindandi frá gildistöku laganna og til þess tíma, sem hann tæki sjálfur ákvörðun um.

Samningar náðust ekki um kjaramál sjómanna innan þess frests, sem mælt var fyrir um í áðurnefndri 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2001. Hæstiréttur tilnefndi 1. júní 2001 menn til að sitja í gerðardómi samkvæmt því ákvæði og lauk hann störfum með úrskurði 30. sama mánaðar. Í úrskurðinum var ákveðið að hann myndi gilda til ársloka 2003.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 5. júní 2001.

II.

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geta félög eða samtök manna í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra ef það samrýmist tilgangi félagsins eða samtakanna að að gæta þeirra hagsmuna, sem dómkrafan tekur til.

Ætla verður að ótilgreindur hópur launþega í þeim 36 stéttarfélögum, sem getið er í tveimur liðum aðalkröfu aðaláfrýjanda, hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um kjaramál sín, eins og þeim var skipað með fyrrnefndum ákvæðum I. kafla laga nr. 34/2001. Þá hagsmuni geta umrædd stéttarfélög þeirra látið til sín taka eftir hljóðan 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Óumdeilt er að stéttarfélög þessi séu meðal aðildarfélaga aðaláfrýjanda. Hagsmunir launþega innan raða þeirra geta því samkvæmt sama ákvæði færst áfram í hendur aðaláfrýjanda, enda er nægileg stoð fyrir slíkri hagsmunagæslu í lögum Alþýðusambands Íslands, sem samþykkt voru á 39. þingi þess á árinu 2000. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að fallast á þá röksemd fyrir frávísunarkröfu gagnáfrýjanda að aðaláfrýjanda sé almennt ekki fært að beita ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til málsóknar vegna hagsmuna launþega innan aðildarfélaga sinna.

III.

Í fyrri lið áðurgreindrar aðalkröfu sinnar leitar aðaláfrýjandi viðurkenningar á því að ákvæði 1. gr., 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001 taki ekki til Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar. Með síðari lið aðalkröfunnar krefst aðaláfrýjandi viðurkenningar á því að sömu lagaákvæði „feli í sér ólögmæta skerðingu á samningsfrelsi og verkfallsrétti“ 33 nafngreindra stéttarfélaga, svo og að „lögin verði dæmd óskuldbindandi fyrir þau að því er framangreindar lagagreinar varðar.“ Í varakröfu er leitað dóms um þessi síðastgreindu atriði í þágu þeirra þriggja verkalýðsfélaga, sem getið er í fyrri lið aðalkröfu, verði ekki fallist á hann.

Með framangreindum dómkröfum leitar aðaláfrýjandi ekki viðurkenningar á því að stéttarfélögum innan raða hans sé þrátt fyrir ákvæði 1. gr., 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001 heimilt að efna til verkfalls og að ákvörðun gerðardómsins ráði ekki kjörum fiskimanna í þessum félögum. Dómstólum er ekki unnt með skýringu á kröfugerð aðaláfrýjanda að færa hana í slíkan búning, þegar af þeirri ástæðu að málinu er beint að gagnáfrýjanda einum en ekki þeim vinnuveitendum eða samtökum þeirra, sem dómkröfur þessa efnis myndu varða. Kröfugerð aðaláfrýjanda, eins og hann hefur kosið að orða hana, hefur að geyma málsástæður, sem eiga þar ekki heima. Kröfurnar beinast ekki að ákveðnu sakarefni af þeim toga, sem að framan greinir, heldur fela þær það eitt í sér, andstætt ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að leitað er lögfræðilegrar álitsgerðar dómstóla.

Þótt aðaláfrýjanda verði samkvæmt því, sem áður segir, almennt talið heimilt að sækja mál um hagsmuni ótilgreindra launþega í röðum aðildarfélaga sinna í skjóli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, hefur hann í máli þessu gert dómkröfur, sem lúta berum orðum að réttindum og skyldum nafngreindra stéttarfélaga. Sá háttur á málshöfðun er í andstöðu við umrætt lagaákvæði, sem felur ekki í sér málsóknarumboð til félaga eða samtaka, heldur flytur í hendur þeirra aðild að máli um hagsmuni ótiltekinna félagsmanna þeirra.

Vegna þeirra annmarka á málatilbúnaði aðaláfrýjanda, sem að framan greinir, verður að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi, Alþýðusamband Íslands, greiði gagnáfrýjanda, íslenska ríkinu, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2001.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 11. júlí sl. að loknum munnlegum málflutningi, höfðaði Grétar Þorsteinsson, kt. 201040-4779, Brekkustíg 5 í Reykjavík, fyrir hönd Alþýðusambands Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, sem forseti sambandsins, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Árna Matthíasi Mathiesen sjávarútvegsráðherra, kt. 021058-4409, Lindarbergi 18, Hafnarfirði, f.h. íslenska ríkisins, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu móttekinni af lögmanni stefnda 5. júní 2001.

Flýtimeðferð málsins var heimiluð 5. júní 2001.

Stefndi krafðist frávísunar málsins og gekk úrskurður um þá kröfu 2. júlí sl. Var henni hafnað.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þessar:

1. Að viðurkennt verði að 1. gr. og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira taki ekki til Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar.

2. Að viðurkennt verði að 1. gr. og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiski­manna og fleira feli í sér ólögmæta skerðingu á samningsfrelsi og verkfallsrétti Sjó­mannafélags Reykjavíkur, Sjómannafélags Hafnarfjarðar, Matsveinafélags Íslands, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Patreksfjarðar, Verkalýðs- og sjómanna­félags Tálknafjarðar, Verkalýðsfélagsins Varnar á Bíldudal, Verkalýðsfélagsins Brynju á Þingeyri, Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri, Verkalýðsfélagsins Súganda á Suðureyri, Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga á Súðavík, Sjómannafélags Ísfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðs­félags Hólmavíkur, Verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps á Drangsnesi, Stéttarfélagsins Samstöðu á Blönduósi, Öldunnar, stéttarfélags á Sauðárkróki, Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði, Sjómannafélags Ólafsfjarðar, Sjómannafélags Eyjafjarðar, Verkalýðsfélags Húsavíkur, Verkalýðsfélags Raufarhafnar, Verkalýðsfélags Þórs­hafnar, Afls, starfsgreinafélags Austurlands, Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar, Vökuls, stéttarfélags á Höfn, Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs á Selfossi, Verkalýðs- og sjómannafélagsins Bjarma á Stokkseyri, Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans í Hveragerði, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis og að lögin verði dæmd óskuldbindandi fyrir þau að því er framangreindar lagagreinar varðar.

Stefnandi krefst þess til vara, ef krafa nr. 1 nær ekki fram að ganga, að viðurkennt verði að 1. gr. og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira feli í sér ólögmæta skerðingu á samningsfrelsi og verkfallsrétti Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar og að lögin verði dæmd óskuldbindandi fyrir þau að því er framangreindar lagagreinar varðar.

Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II

Hinn 15. febrúar 2000 féllu úr gildi lög nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna. Lög þessi giltu um kjaramál fiskimanna í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og aðildarfélögum Alþýðusambands Vestfjarða, svo og Vélstjórafélagi Íslands, Vélstjórafélagi Ísafjarðar, Vélstjórafélagi Suðurnesja og Vélstjórafélagi Vestmannaeyja.

Við gildislok laganna urðu samningar sjómanna lausir. Viðræður um nýja kjarasamninga leiddu ekki til árangurs að öðru leyti en því að vélstjórar sömdu við Landssamband íslenskra útvegsmanna 9. maí sl.

Flest önnur félög, sem hlut áttu að máli, boðuðu verkfall sem hófst þann 16. mars sl. og verkbann Landssambands íslenskra útvegsmanna fylgdi í kjölfarið. Þann 19. mars frestaði Alþingi verkfallinu og verkbanninu til 1. apríl sl. með lögum nr. 8/2001 um frestun á verkfalli fiskimanna.

Verkfallið hófst aftur 2. apríl 2001 og sama máli gegndi um verkbannið. Með lögum nr. 34/2001, sem sett voru þann 16. maí sl., bannaði Alþingi verkfallið og verkbannið og ákvað að þriggja manna gerðardómur, skipaður af Hæstarétti Íslands, skyldi ákveða þar til greind atriði um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum, sem nefnd eru í 1. grein laganna, næðust samningar ekki fyrir 1. júní 2001. 

1. gr. laga nr. 34/2001 er svohjóðandi:

Verkföll Sjómannafélags Eyjafjarðar og aðildarfélaga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum í Alþýðusambandi Vestfjarða og aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. og 3. gr. Þó er aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun.

Upphaf 2. greinar laganna er svohjóðandi:

Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001 skal Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm. Skal gerðardómurinn ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr: ...

Í lok lagagreinarinnar segir:

Hæstiréttur kveður á um hver hinn þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman. Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Aðilar skv. 1. gr. skulu eiga rétt á að gera gerðardóminum grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan frest í því skyni.

3. gr. laganna er svohljóðandi:

Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr.

Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi  frá gildistöku laga þessara og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001. Hann skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna.

III

Stefnandi telur vafa leika á því hvort lög nr. 34/2001 taki til þeirra verkalýðsfélaga sem nefnd eru í 1. tl. aðalkröfu stefnanda, þ.e. Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar. Samkvæmt hljóðan sinni nái 1. gr. laganna aðeins til þeirra félaga sem verið hafi í verkfalli eða verkbann náði til þegar lögin tóku gildi. Framangreind verkalýðsfélög hafi ekki boðað verkfall né heldur hafi verið lagt á þau verkbann í þeim kjarasamningaviðræðum sem yfir stóðu. Í 2. gr. laganna sé hins vegar vísað til þeirra samtaka sem nefnd séu í 1. gr. en þar á meðal sé Sjómannasamband Íslands sem verkalýðsfélögin þrjú eigi aðild að. Þessi vafi sem leiki á gildissviði laganna eigi að leiða til þröngrar skýringar á því hvert það sé. Beri því að líta svo á að lögin nái ekki til félaganna þriggja.

Stefndi telur það engum vafa undirorpið að lögin nái ekki til félaganna þriggja, þar sem þau hafi hvorki boðað verkfall né verkbann á þau lagt og krefst sýknu af þessari kröfu á grundvelli aðildarskorts.

IV

Stefnandi heldur því fram að fyrstu þrjár greinar laga nr. 34/2001 brjóti í bága við 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og séu því óskuldbindandi fyrir þau félög sem lögin nái til. Sú stjórnarskrárgrein verndi bæði félaga- og samningsfrelsi stéttarfélaga og þar með rétt þeirra til þess að beita verkföllum í kjarabaráttu. Stjórnarskrárgjafinn nefni stéttarfélög sérstaklega í 74. gr. stjórnarskrárinnar sem sýni hve þau félög hafi þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Þá hafi verið sett sérstök lög, nr. 80/1938, um starfsemi stéttarfélaga sem beri vott um þjóðfélagslegt mikilvægi þeirra. Í þessum lögum sé kveðið á um rétt stéttarfélaga til þess að fara í verkfall og þau skilyrði sem uppfylla þurfi til þess að verkfallsréttinum sé beitt með lögmætum hætti.  Mikilvægasta hlutverk stéttarfélaga sé að standa að gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn sína og til þess að gegna því hutverki sé þeim nauðsynlegt að geta beitt þeim heimildum sem þau hafi að lögum án sérstakra afskipta stjórnvalda og löggjafans.

Stefnandi heldur því fram að með setningu laga nr. 34/2001 hafi stefndi brotið gegn ákvæðum 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Skýra verði 74. gr. stjórnarskrárinnar í samræmi við mannréttindasáttmálann en glöggt komi fram í greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 að stjórnarskrárgjafinn hafi haft í huga að slíkum skýringum yrði beitt.

Í 11. grein mannréttindasáttmálans sé sérstaklega kveðið á um rétt til þess að stofna stéttarfélög og að sá réttur skuli ekki háður öðrum takmörkunum en lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til m.a. vegna þjóðaröryggis og almannaheilla. Í greininni sé ekki nefnd nein takmörkun sem varði efnahagsleg markmið. Hér verði líka að hafa í huga að verkföll séu þess eðlis að þau hljóti að hafa í för með sér áhrif á ýmiss konar hagsmuni, að öðrum kosti kæmu þau ekki að gagni. Framannefnd grein mannréttindasáttmálans verndi rétt stéttarfélaga til þess að beita verkföllum og þær takmarkanir sem hún kveði á um eigi ekki við um þau verkföll sem bönnuð hafi verið með lögum nr. 34/2001 þar sem hvorki þjóðaröryggi né almannaheill hafi verið stefnt í voða.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í dómum sínum viðurkennt rúman rétt aðildarríkja mannréttindasáttmálans til þess að skipa þeim málum sem 11. gr. sáttmálans nái til með þeim hætti sem þeim sýnist bestur en innan þeirra marka sem greinin setji. Íslensku reglurnar byggist bæði á samningsfrelsi og verkfallsrétti. Þvinguð gerðardómsmeðferð, eins og lög nr. 34/2001 kveði á um, sé ekki hluti af  íslensku reglunum og sé jafnframt andstæð 11. gr. mannréttindasáttmálans.

Af  hálfu stefnanda er á það bent að mannréttindadómstóllinn hafi við skýringu sína á 11. gr. mannréttindasáttmálans haft til hliðsjónar samþykktir ILO, Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98, og eins 6. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu. Beri að hafa þetta í huga við skýringu á 74. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi hafi undirgengist skyldur samkvæmt þessum samþykktum öllum en brotið gegn þeim með setningu laga nr. 34/2001.

Af hálfu stefnda er á það bent að með dómi sé ekki hægt að víkja lögum til hliðar eða ógilda þau að hluta eða í heild, eins og stefnandi geri kröfu um. Hins vegar sé með dómi hægt að hafna beitingu réttarreglu sé hún ósamrýmanleg ákvæðum stjórnarskrár.

Stefndi heldur því fram að réttur stéttarfélaga til verkfalla vegna kjarabaráttu sé ekki varinn af stjórnarskránni. Slíka vernd sé ekki að finna í 74. eða 75. gr. stjórnarskrárinnar eða í öðrum ákvæðum hennar. Með setningu laga nr. 34/2001 hafi félagafrelsi þeirra stéttarfélaga sem lögin ná til ekki verið skert svo brjóti í bága við 74. gr. stjórnarskrárinnar. Með lögunum hafi ekki verið hróflað við starfsemi stéttarfélaganna eða grundvelli þeirra raskað.

Stefndi heldur því fram að almenna löggjafanum sé heimilt að skipa verkfallsrétti með lögum og setja honum takmarkanir svo sem hann hafi t.d. gert með lögum nr. 80/1938. Með sama hætti hafi verið heimilt að setja lög nr. 34/2001. Hér sé um að ræða sérlög sem samkvæmt almennum skýringarreglum gildi framar almennum lögum og eins gildi yngri lög framar eldri lögum. Dómstólar hafi ekki heimild til þess að víkja almennum lögum til hliðar enda þótt þau kunni að stangast á við önnur almenn lög heldur verði þeir í því tilviki að grípa til skýringaraðferða. Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi gildi á Íslandi sem almenn lög og verði að skýra ákvæði hans í því ljósi.

Stefndi lýsir því að efnahagslíf Íslendinga þoli ekki mikla röskum í sjávarútvegi og stjórnvöldum og löggjafanum beri skylda til þess að verja það áföllum. Verkfall sjómanna hafi staðið í þann tíma að það hafi verið farið að valda verulegu efnahagslegu tjóni og gríðarlegir almannahagsmunir hafi verið í húfi. Samningsumleitanir hafi reynst árangurslausar og í þeim hafi ekkert miðað. Þess vegna hafi verið brugðið á það ráð að setja lög um það hvernig kjaradeilan skyldi útkljáð. Frekari lýsingu á ástæðum lagasetningarinnar sé að finna í frumvarpi til laga nr. 34/2001 þar sem segi m.a.:

Vinnustöðvunin hefur nú þegar valdið miklum skaða fyrir atvinnulíf landsmanna, nýtingu auðlinda sjávar, útflutningshagsmuni og fleiri þætti. Áhrif hennar eru hvað alvarlegust fyrir einstaklinga sem starfa við fiskvinnslu og fyrirtæki og sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, en að auki hefur hún þegar haft áhrif langt út fyrir þá hagsmuni sem samningsaðilar fjalla um. Skýr merki eru um neikvæð áhrif vinnustöðvunarinnar á efnahagslífið og ef ekkert er að gert mun hún valda óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild. Hér eru því ríkir almannahagsmunir í húfi og nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir þann mikla efnahagsskaða sem áframhaldandi stöðvun fiskiskipaflotans myndi annars valda.

Stefndi bendir á að í lögum nr. 34/2001 sé aðilum gefið tækifæri í tvær vikur til þess að ná samningum og raunar hafi þeir einnig getað samið á þeim tíma sem gerðardómurinn hafi starfað þ.e. í júnímánuði síðastliðnum.

Stefndi heldur því fram að í lögum nr. 34/2001 sé reynt að tryggja hlutlausa málsmeðferð fyrir gerðardómi. Hæstiréttur hafi skipað dómendur en ekki stjórnvöld. Dóminum hafi verið gefið ákveðið svigrúm en ekki fyrirmæli. Aðilar hafi getað sótt og varið mál sitt fyrir dóminum og komið þar að skýringum sínum. Lögin hafi verið neyðarráðstöfun en að öllu leyti málefnaleg og einungis tekið til þeirra stéttarfélaga sem hafi verið í verkfalli eða verkbann lagt á.

V

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að íslenskur stjórnskipunarréttur hafi að geyma meðalhófsreglu sama efnis og meðalhófsregla stjórnsýslulaga, enda þótt reglan sé ekki orðuð í stjórnarskránni. Þessa reglu hafi stefndi brotið með setningu laga nr. 34/2001.

Samkvæmt meðalhófsreglunni hafi stefnda borið, fyrst hann á annað borð hafi talið nauðsynlegt að hafa afskipti af kjaradeilunni, að grípa ekki til umfangs- eða viðurhlutameiri ráðstafana en nauðsynlegt hafi verið til að leiða hana til lykta.

Enda þótt í lögunum segi að gerðardómur eigi að ákveða þar til greind atriði um kjaramál fiskimanna þá sé ekki um að ræða gerðardóm í venjulegum skilningi heldur stjórnsýslunefnd sem þó sé skipuð af Hæstarétti en ekki stjórnvöldum. Þar með hafi stjórnvöld firrt sig stjórnsýsluábyrgð á skipun dómsins en lagt þá ábyrgð á Hæstarétt. Málsaðilum sé ekki ætlaður neinn hlutur að þessum svokallaða gerðardómi, hvorki skipun hans né málsmeðferð. Tímalengd ákvarðana gerðardómsins sé ekki ákveðin í lögunum heldur sé ákvörðun um það lögð í vald dómsins. Með lögunum hafi verkföll, sem ekki stóðu yfir, verið bönnuð en engin ákvæði séu um það í lögum að kjarasamningar megi ekki vera lausir.

Þá hafi gerðardóminum verið markaður mjög skammur tími til starfa sinna sem takmarkað hafi möguleika hans á því að ná saman sjónarmiðum aðila.

Stefndi hefði getað í stað þessa komið á hefðbundnum gerðardómi þar sem aðilar hefðu átt hlut að skipun hans og ákvörðunum, gagnaöflun, málflutningi og niðurstöðu.

Stefndi hefði einnig getað skipað sérstaka sáttanefnd samkvæmt 5. mgr. 20. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Þá hefði einnig verið hægt að leggja fram miðlunartillögu sáttasemjara.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að í íslenskum stjórnlögum sé ekki til að dreifa meðalhófsreglu, skráðri eða óskráðri, eins og í stjórnsýsluréttinum. Meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sé ætlað það hlutverk að vernda þegnana gegn stjórnvöldum en þeir verði hins vegar að lúta þeim lögum sem löggjafinn setji svo fremi að þau brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.

Sú meðferð sem gert sé ráð fyrir í lögum nr. 34/2001 einkennist af hlutleysi, Hæstarétti sé ætlað að skipa gerðardómsmenn, gert sé ráð fyrir nauðsynlegri gagnaöflun og skýrslutöku og aðilar eigi rétt á því að gera gerðardóminum grein fyrir sjónarmiðum sínum og eigi rétt á ákveðnum fresti í því skyni.

Þetta fyrirkomulag líkist fyrirkomulagi almennra dómstóla og aðferðin við skipun dómsins tryggi meiri hlutlægni en sú gamaldags aðferð að aðilar skipi gerðardómsmenn.

Stefndi heldur því fram að honum hafi engin skylda borið til að skipa sáttanefnd samkvæmt 5. mgr. 20. gr. laga nr. 80/1938 og eins sé það að stjórnvöld hafi ekkert yfir ríkissáttasemjara að segja og störfum hans.

VI

Stefnandi heldur því fram að með setningu laga nr. 34/2001 hafi jafnræðisreglan í 65. gr. stjórnarskrárinnar verið brotin svo og gangi lögin gegn 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Í ljós hafi komið að gerðardómurinn hafi lagt til grundvallar við úrskurð sinn kjarasamning Vélstjórafélags Íslands við Landssamband íslenskra útvegsmanna frá 9. maí sl. Það hafi í för með sér að samningsaðili stéttarfélaganna sem eigi í máli þessu, Landssamband íslenskra útvegsmanna, hafi í gerðardóminum fengið framgengt því sem það samdi um við vélstjóra, en stéttarfélögin hafi ekki setið við sama borð að þessu leyti. Til þess að jafnræðis hefði verið gætt hefðu lögin átt að ná til þess að ákveða vélstjórum kjör en nú verði stéttarfélögin að sætta sig við það sem vélstjórar hafi samið um.

Það hefði einnig haft í för með sér brot á jafnræðisreglunni hefði gerðardómurinn lagt til grundvallar nýtt kerfi, s.s. um ákvörðun fiskverðs og fjölda manna í áhöfn, því að það hefði rofið kjaralega einingu á meðal sjómanna.

Þá sé það sennilega brot á jafnræðisreglunni að lögin nái ekki til allra félaga sjómanna jafnt, stéttarfélögin á Snæfellsnesi séu þar undanskilin.

Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað að lög nr. 34/2001 brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar nái ekki til kjarasamninga eða niðurstöðu þeirra, enda sé mönnum frjálst að semja um kaup sitt og kjör. Í lögunum sé gerðardóminum einungis settar ákveðnar viðmiðunarreglur en engin fyrirmæli um niðurstöðu. Hver niðurstaða gerðardómsins hafi síðan orðið skipti engu varðandi deilu aðila í þessu máli.  

VII

Niðurstaða dómsins

Í úrskurði dómsins, sem kveðinn var upp 2. þ. m. um frávísunarkröfu stefnda, er komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt á því að fá efnisdóm um þær kröfur sem hann hefur gert í málinu. Fyrri aðalkrafa stefnanda er sú að viðurkennt verði að 1.,  2.  og 3. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira taki ekki til Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar í Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að lögin nái ekki til framangreindra verkalýðsfélaga og hafa aðilar því sama skilning á lögunum að þessu leyti. Engu að síður krefst stefndi sýknu af þessari kröfu stefnanda á grundvelli aðildarskorts.

Enda þótt skilningur aðila sé hinn sami að því er þessa kröfu stefnanda varðar verður niðurstaða í málinu um hana ekki á þeim skilningi byggður þar sem hér er um að ræða kröfu sem sakarforræði aðila nær ekki til.

Í málinu er upplýst að framangreind verkalýðsfélög eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands sem fór með samningsumboð fyrir þau í kjaradeilunni. Ljóst verður að telja að 1. grein laganna nær ekki til verkalýðsfélaganna þriggja að því leyti sem hún kveður á um bann við yfirstandandi verkföllum og verkbönnum þar sem hvorugt átti við um þessi félög.

Samkvæmt síðari hluta lagareinarinnar eru bönnuð verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlaðar eru til þess að knýja fram aðra skipan kjaramála en þau sem lögin ákveða og er því um að ræða aðgerðir sem ekki gátu komið til fyrr en eftir að lögin, sem sett voru 16. maí sl., tóku gildi. Náði bann greinarinnar þannig bæði til þess sem yfir stóð og eins þess sem síðar hefði getað orðið.

Samkvæmt 2. gr. laganna ber gerðardómi að ákveða þar til greind atriði í kjaramálum fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr. Í þeirri lagagrein er Sjómannasamband Íslands nefnt, að vísu í því samhengi að talað eru um aðildarfélög sambandsins sem verkbann hafi verið lagt á.

Verkalýðsfélögin þrjú sem hér um ræðir áttu í kjaradeilu við viðsemjendur sína með sama hætti og félögin sem fyrri hluti 1. greinar laganna nær ótvírætt til, þau eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands, sambandið fór með samningsumboð fyrir þau og verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir til að knýja fram aðra skipan kjaramála sjómanna en lögin kveðu á um voru bönnuð eftir að lögin tóku gildi.

Samkvæmt því sem að framan er rakið þykir verða að skýra 2. grein laganna svo að hinar umdeildu lagagreinar nái einnig til þessara verkalýðsfélaga.

Er því fyrri aðalkröfu stefnanda hafnað og af því leiðir að það sem á eftir fer í dóminum nær jafnt til allra þeirra félaga sem upp eru talin í stefnukröfum.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að fyrstu þrjár greinar laga nr. 34/2001 brjóti í bág við 74. gr. stjórnarskrárinnar sem verndi félaga- og samningsfrelsi stéttarfélaga þar með rétt þeirra til þess að beita verkfalli í kjarabaráttu. Þessu hafnar stefndi.

Líta verður svo á að hluti af félagafrelsi því sem 74. gr. stjórnarskrárinnar verndar sé réttur stéttarfélaga til þess að semja um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína, en þann rétt eiga þau að lögum, sbr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Verkfallsréttinn verður að skoða sem hluta af framangreindum samningsrétti svo fremi að ekki sé annað tekið fram í lögum. Það er enda aðalregla samkvæmt íslenskum rétti að mönnum séu slíkir samningar frjálsir þótt á henni finnist undantekningar. Hefur það lengi verið svo að einstaka stéttir í þjóðfélaginu njóta ekki verkfallsréttar lögum samkvæmt og sumar hverjar ekki réttar til þess að semja um kaup sitt og önnur kjör.

Í II. kafla laga nr. 80/1938 eru settar all ítarlegar reglur um það hverjum skilyrðum þarf að fullnægja til þess að verkföll og verkbönn séu lögmæt. Þar er verkfallsrétturinn einnig takmarkaður þar sem óheimilt er að hefja vinnustöðvun undir vissum kringumstæðum, sbr. 17. gr. laganna.

Verður að skýra 74. gr. stjórnarskrárinnar svo, og eru þá m.a. höfð í huga þau atriði sem stefnandi telur að líta þurfi til við skýringu greinarinnar og að framan eru rakin, að vernd 74. gr. stjórnarskrárinnar nái ekki til þess að löggjafanum sé óheimilt að setja lög sem takmarka verkfallsréttinn með einum eða öðrum hætti, eða svipta stéttarfélögin honum alveg í ákveðnum tilvikum, að því skilyrði fullnægðu að til grundvallar slíkri lagasetningu liggi efnislega hlutlægar forsendur, þ.e.a.s. að fyrir hendi sé nægilega brýn nauðsyn til þess að koma í veg fyrir að verkföllum verði beitt.

Á grundvelli þess sem að framan segir verður að meta það hvort lög nr. 34/2001 voru sett á efnislega hlutlægum forsendum.

Eins og fyrr er rakið hófst verkfall sjómanna 16. mars sl. að undangengnum löngum en árangurslausum samningaviðræðum. Samningar sjómanna höfðu verið lausir allt frá því að gildistími laga nr. 10/1998 rann út hinn 15. febrúar 2000 eða í rúmt ár. Verkfallinu var frestað hinn 19. mars sl. með lögum nr. 8/2001 til 1. apríl sl. en hófst þá að nýju. Verkbönnum var frestað á sama  hátt. Lög þau sem um er deilt í þessu máli, nr. 34/2001, voru síðan sett 16. maí sl. og samkvæmt þeim var aðilum gefinn frestur til 1. júní sl. til að ná samningum, en fyrr átti ekki að skipa gerðardóminn. Aðilar kjaradeilunnar gátu samið á starfstíma gerðardómsins, sem var mánuður, og geta enn en verkföll og verkbönn í slíkum samningum voru bönnuð frá 16. maí allt til þess að gildistíma úrskurðar gerðardómsins lýkur.

Í stefnu málsins kemur fram að frá 15. febrúar 2000 hafi aðilar kjaradeilunnar haldið fjölda samningafunda og að ríkissáttasemjari hafi átt 70 fundi með þeim. Í málflutningi stefnanda kom fram að aðalágreiningsefni aðila sé hvert fiskverð á að leggja til grundvallar hlutaskiptum og hafi svo verið allan síðasta áratug. Þá kom einnig fram að sá kjarasamningur sem vélstjórar gerðu við Landssamband íslenskra útvegsmanna 9. maí sl. hafi gert illt verra í samningaviðræðunum sem þá stóðu. Verður þannig ekki betur séð en staðan í kjaradeilunni hafi verið sú að eftir 2 mánaða verkfall, með hálfs mánaðar hléi, hafi hvorki gengið né rekið í samningaviðræðunum og ekkert sérstakt fyrirsjáanlegt sem því gæti breytt.

Það er rétt sem stefnandi heldur fram að verkföllum er ætlað það hlutverk að knýja fram samninga með því að hafa þau áhrif á hagsmuni þess sem samið er við að hann gangi til samninga. Að öðrum kosti komi verkföll ekki að gagni. Oftar en ekki hafa verkföll einnig áhrif, bein eða óbein, á hagsmuni annarra en þeirra sem aðild eiga að samningum og kemur slíkt engan veginn í veg fyrir að verkfallsréttinum verði beitt. Hins vegar geta hagsmunirnir verið slíkir og áhrifin það víðtæk að réttlætanlegt sé að löggjafarvaldið komi í veg fyrir verkföll. Má þar minna á að einstökum stéttum er bannað með lögum að fara í verkfall vegna þess að talið er að þeir hagsmunir sem í húfi geta verið séu ríkari en svo að réttlætanlegt sé að þeir séu í hættu vegna verkfalla.

Fyrr í dóminum er lýst þeim forsendum sem lög nr. 34/2001 eru byggð á. Er þar sagt að vinnustöðvunin hafi nú þegar valdið miklum skaða fyrir atvinnulíf landsmanna, nýtingu auðlinda sjávar, útflutningshagsmuni og fleiri þætti og fullyrt að verði ekkert að gert muni vinnustöðvunin valda óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild.   

Þótt hér sé um almenna lýsingu að ræða, án þess að dæmi eða tölur séu nefndar, eru engar forsendur til þess að draga í efa að hún sé rétt. Það gerir stefnandi út af fyrir sig ekki en vísar til þess að verkföllum sé ætlað að hafa knýjandi áhrif í kjarasamningum.

Það er álit dómsins, með vísan til þess sem að framan er sagt, að á þeim tíma sem lög nr. 34/2001 voru sett, hafi staðan í kjaradeilunni, þau áhrif sem verkfall sjómanna hafði haft og mjög líklegt að það myndi hafa, verið þess háttar að löggjafarvaldinu hafi verið heimilt að skerast í leikinn með lagasetningunni án þess að það varði 74. grein stjórnarskrárinnar. Þær greinar laganna sem um er deilt verður því að telja stjórnskipulega gildar. Þessari málsástæðu stefnanda er því hafnað.

 

Stefnandi heldur því fram að með því að grípa ekki til annarra og vægari aðgerða en að setja lög nr. 34/2001 með þeim aðferðum við að ákveða sjómönnum laun hafi löggjafarvaldið brotið meðalhófsreglu sem sé hluti af íslenskum stjórnskipunarrétti, en því andmælir stefndi.

Telja verður að leiða megi af mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar að löggjafinn verði að gæta meðalhófs í lagasetningu, þ.e.a.s. að í íslenskum stjórnskipunarrétti sé að finna óskráða meðalhófsreglu. Þessi regla er hins vegar ómótuð og allt óljóst um efni hennar.

Það er ljóst að með setningu laga nr. 34/2001 var stefnt að því að binda enda á kjaradeilu sjómanna og verður ekki betur séð en lögin hafi verið til þess fallin að ná því markmiði. Með vísan til þess sem að framan er sagt um eðli og forsendur lagasetningar af þessu tagi verður ekki séð að lög nr. 34/2001 hafi meira óhagræði í för með sér fyrir þá sem þau beinast að var skylt að þola, þ.e.a.s. að þeim var skylt að þola að kjaradeilan yrði tekin úr þeirra höndum og fengin öðrum til lausnar.

Stefnandi telur að löggjafinn hefði, í stað þess að fá gerðardómi skipuðum af Hæstarétti vald til að útkljá kjaradeiluna, átt að notfæra sér ákvæði í 5. mgr. 20. gr. laga nr. 80/1938 um að skipa sérstaka sáttanefnd eða koma á fót gerðardómi þar sem aðilar deilunnar skipuðu dómara og ættu þar með aðild að meðferð málsins fyrir gerðardóminum og niðurstöðu hans.

Þá kom fram í málflutningi stefnanda að stjórnvöld hefðu getað beitt sér fyrir því að ríkissáttasemjari legði fram miðlunartillögu í kjaradeilunni.

Í lögum nr. 80/1938 eru ítarleg ákvæði um heimild sáttasemjara til þess að leggja fram miðlunartillögu til lausnar kjaradeilu. Það er undir mati ríkissáttasemjara eins komið hvort miðlunartillaga skuli lögð fram og í því tilviki ber honum að hafa samráð við samninganefndir deiluaðila. Ljóst má telja af lögunum að stjórnvöld hafa engar  heimildir til að skipa ríkissáttasemjara fyrir verkum og eins ber þess að gæta að um miðlunartillögu eiga deiluaðilar að greiða atkvæði. Miðlunartillaga hefur þannig ekki sjálfkrafa í för með sér lausn á kjaradeilu en að henni var stefnt með lagasetningunni. Dómurinn hefur að framan fallist á það að löggjafarvaldinu hafi verið heimilt að binda endi á kjaradeiluna með lagasetningu og verður því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda sem byggist á því að stjórnvöldum hafi verið tækt að fara þá leið að fá ríkissáttasemjara sérstaklega til þess að leggja fram miðlunartillögu.  

Hinar aðferðirnar tvær, sem stefnandi telur að löggjafinn hefði átt að beita í stað þess að fá þeim gerðardómi sem lögin kveða á um vald í hendur til þess að útkljá kjaradeiluna, eru sama marki brenndar og sú sem löggjafinn fór, þ.e. að valdið til að útkljá kjaradeiluna er tekið úr höndum samningsaðila og fært á annan stað. Vera kann að ein þessara aðferða sé stéttarfélögunum hagkvæmari en önnur, þótt það liggi ekki beinlínis í augum uppi að öðru leyti en því að hefðu stéttarfélögin skipað dómara í gerðardóm hefði þeim ef til vill verið auðveldara að hafa áhrif á niðurstöðu en við þær aðstæður sem lög nr. 34/2001 kveða á  um að þessu leyti.

Telja verður að undir kringumstæðum sem þessum hafi löggjafinn ákveðið svigrúm til þess að leggja mat á það hvaða leið hann telur vænlegasta til árangurs. Ekki þykir sá munur vera á þeirri leið sem löggjafinn fór og þeim leiðum sem stefnandi telur að hann hefði heldur átt að fara að hann sé ekki innan þeirra marka sem meðalhófsreglan kann að setja að þessu leyti. Verður því að hafna þessari málsástæðu stefnanda.

 

Í máli þessu er deilt um gildi fyrstu þriggja greina laga nr. 34/2001. Stefnandi telur það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í  65. grein hennar að lögin nái ekki til vélstjóra sem gert höfðu kjarasamning 9. maí sl. Er gerð grein fyrir þessari málsástæðu stefnanda í VI. kafla hér að framan. Við mat á því hvort framangreindar lagagreinar brjóti gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar verður fyrst og fremst að líta til efnis laganna en ekki framkvæmdar þeirra þar sem málsókn stefnanda nær ekki til hennar.

Samkvæmt þessum forsendum þarf einungis að skoða það atriði í röksemdafærslu stefnanda hvort löggjafanum bar að láta lögin ná einnig til Vélstjórafélags Íslands, sem gert hafði kjarasamning 9. maí sl., svo að jafnræðis væri gætt á milli þeirra sjómanna sem í kjaradeilunni áttu.

Sem fyrr greinir er það aðalregla að mönnum er frjálst að semja um kaup sitt og kjör. Um slíka samninga gilda engar jafnræðisreglur. Enda þótt samningur vélstjóra kunni að hafa haft áhrif á efni laga nr. 34/2001 og það hvernig þau voru framkvæmd þá verður alfarið að hafna því að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar hafi verið brotin af þeim sökum að lög nr. 34/2001 náðu ekki til þess að fella úr gildi nýgerðan kjarasamning vélstjóra og að gerðardóminum samkvæmt lögunum bar ekki að ákveða vélstjórum kaup og kjör.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er öllum kröfum stefnanda hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þenna kváðu upp Friðgeir Björnsson dómstjóri, formaður dómsins, Helgi I. Jónsson héraðsdómari og Skúli J. Pálmason héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands.

Málskostnaður fellur niður.