Hæstiréttur íslands

Mál nr. 632/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


Föstudaginn 9. desember 2011.

Nr. 632/2011.

Faxafen ehf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Andri Árnason hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

F ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu A hf. um að bú F ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í dómi Hæstaréttar sagði að þrengri kostir hefðu verið settir F ehf. í áskorun A hf. en heimilt væri samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var kröfu A hf. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 22. nóvember 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2011, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipa. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir krafðist varnaraðili þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli að sóknaraðili hefði ekki sinnt áskorun hans samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010. Óumdeilt er að sóknaraðili svaraði ekki þessari áskorun, en hann hefur andmælt því að áskorunin hafi fullægt skilyrðum ákvæðisins.

Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að fullnægðu einhverju af þeim skilyrðum sem þar eru talin upp í fimm töluliðum, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Með framangreindri 17. gr. laga nr. 95/2010 var bætt við skilyrði þar sem lánardrottni er heimilað að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldara hafi hann ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun hans, sem birt hefur verið skuldara eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við lánardrottin þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna kom fram að í þessu ákvæði fælist að skuldari þyrfti að lýsa því yfir að efnahag hans væri ekki þannig komið að hann væri ógreiðslufær. Með þessu væri leitast við að koma í veg fyrir að skuldari gæti tafið gjaldþrotaskipti, sem skilyrði væru fyrir, með því einu að halda að sér höndum.

Með vísan til framangreinds ákvæðis sendi varnaraðili sóknaraðila bréflega áskorun 15. desember 2010, sem birt var fyrirsvarsmanni sóknaraðila daginn eftir. Þar var ætluð vangoldin skuld varnaraðila tilgreind og sundurliðuð. Þá sagði: „Arion banki hf. skorar hér á yður, sem stjórnarmann og prókúruhafa Faxafens ehf., að beina yfirlýsingu til bankans þar sem því er lýst yfir að Faxafen ehf. sé greiðslufært og að efnahagur félagsins sé með þeim hætti að félagið verði fært að greiða ofangreindar skuldir við Arion banka hf. innan tveggja (2) vikna frá dagsetningu yfirlýsingarinnar. Hafi slík yfirlýsing ekki borist bankanum ... innan þriggja (3) vikna frá dagsetningu þessarar áskorunar, verður gerð krafa um að bú Faxafens ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991  ...“

Umrætt ákvæði laganna er sérregla sem tekin var upp í lög nr. 21/1991 til að auðvelda lánardrottni að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi skuldara. Að því gættu verður lánardrottinn, kjósi hann að neyta þessa úrræðis, að fullnægja í hvívetna þeim skilyrðum sem þar eru sett. Með fyrrgreindri áskorun gerði varnaraðili það að skilyrði að sóknaraðili skyldi lýsa því yfir að hann yrði fær um að greiða skuld sína við varnaraðila innan tveggja vikna frá dagsetningu yfirlýsingar sinnar. Sá frestur á sér ekki stoð í orðalagi 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 en þar segir að skuldari skuli lýsa því yfir að hann telji sig geta greitt gjaldfallna skuld sína „innan skamms tíma“. Samkvæmt því voru sóknaraðila settir þrengri kostir í áskorun varnaraðila en heimilt var samkvæmt ákvæðinu. Af þeirri ástæðu bar héraðsdómi að hafna kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Eins og atvikum er háttað er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Arion banka hf., um að bú sóknaraðila, Faxafens ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2011.

Með bréfi sem barst dóminum 6. júní 2011 krafðist sóknaraðili, Arion banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Faxafens ehf., kt. 440204-2870, Faxafeni 10, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Við munnlegan málflutning krafðist sóknaraðili einnig málskostnaðar. 

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

Beiðnin var tekin fyrir í dómi 7. september sl.  Komu þá fram mótmæli og var þingfest ágreiningsmál þetta, sem tekið var til úrskurðar 19. október sl. 

Sóknaraðili kveðst eiga fjárkröfu á hendur varnaraðila, sem hann byggir á þremur lánssamningum frá 17. apríl 2007.  Sóknaraðili segir að allir samningarnir séu í erlendum gjaldmiðlum.  Í beiðni eru kröfur samkvæmt öllum samningunum taldar nema 603.539.781 íslenskri krónu, miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla 31. maí 2011. 

Samningarnir eru nánar þessir: 

Samningur nr. 351-35-4990.  Eftirstöðvar höfuðstóls að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum til 15. desember 2010 eru samkvæmt beiðni 159.242,28 evrur, 109.363.098 japönsk jen og 1.124.526,59 svissneskir frankar. 

Samningur nr. 318-35-4991.  Eftirstöðvar höfuðstóls að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum til 15. desember 2010 eru samkvæmt beiðni 51.748.450 japönsk jen og 549.363,38 svissneskir frankar. 

Samningur nr. 318-35-4992.  Eftirstöðvar höfuðstóls að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum til 15. desember 2010 eru samkvæmt beiðni 28.447.460 japönsk jen, 289.091,63 svissneskir frankar og 182.808,87 evrur. 

Þá er í beiðni reiknaður kostnaður í íslenskum krónum, 16.876.313 krónur. 

Sóknaraðili skoraði á varnaraðila að lýsa félagið gjaldfært og að það yrði fært um að greiða tilgreindar skuldir við sóknaraðila innan tveggja vikna frá dagsetningu yfirlýsingarinnar.  Var skorað á varnaraðila að svara innan þriggja vikna, ella yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi félagsins.  Í áskoruninni er heildarskuldin sögð nema 431.876.282 krónum, miðað við gengi 15. desember 2010.  Áskorunin var birt forsvarsmanni varnaraðila 16. desember 2010. 

Varnaraðili svaraði ekki áskoruninni. 

Varnaraðili kveðst hafa greitt af lánunum til sóknaraðila allt þar til hann sá að í þeim fælist ólögmæt gengistrygging.  Hann hafi þá hætt að greiða og leitað eftir því við sóknaraðila að hann krefði sig um lögmætar efndir.  Sóknaraðili hafi þrátt fyrir mikil samskipti aðila enn krafið um réttar efndir. 

Varnaraðili bendir á að í áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 reikni sóknaraðili kröfur sínar á 431.408.282 krónur og segist miða við gengi gjaldmiðla 15. desember 2010.  Ekki sé heldur komið fram hvort og þá hvenær lán samkvæmt síðasta lánssamningnum hafi verið gjaldfellt. 

Varnaraðili byggir á því að í áskorun þessari hafi hann verið krafinn um yfir­lýsingu vegna mun hærri skuldar en sóknaraðili gat krafið hann um.  Þetta leiði af því að í samningunum felist ólögmæt gengistrygging, en sjónarmið varnaraðila um þetta atriði verða reifuð hér síðar.  Áskorun samkvæmt 5. tl. hljóti að miða við ákveðna fjárhæð.  Það verði að vera hin raunverulega skuld.  Ekki sé hægt að heimila gjaldþrotaskipti vegna þess að skuldari lýsi sig ekki færan um að greiða tilbúna skuld.  Því sé skilyrðum 5. tl. ekki fullnægt hér. 

Varnaraðili kveðst ekki geta tekið afstöðu til þess hvort félagið sé greiðslufært fyrr en vitað sé hvað félagið skuldi.  Þess verði ekki krafist af sér að hann lýsi sig færan um að greiða skuld sem feli í sér ólögmæta gengistryggingu og sé því reiknuð mun hærri en hún sé í raun.  Hversu miklu hærri sé ekki vitað þar sem sóknaraðili hafi ekki reiknað kröfuna samkvæmt lögum. 

Þá byggir varnaraðili á því að óheimilt hafi verið að krefja hann um yfirlýsingu innan tveggja vikna frá dagsetningu áskorunarinnar.  Samkvæmt 5. tl. skuli slík yfirlýsing gefin innan skamms tíma.  Formskilyrðum ákvæðisins sé því ekki fullnægt. 

Varnaraðili byggir á því að lán að fjárhæð 110.000.000 króna hafi ekki verið gjaldfellt.  Heimildir til gjaldfellingar sé að finna í 9. gr. samningsins, en 10. gr. fjalli um tilkynningar milli aðila.  Sóknaraðili hafi ekki tilkynnt gjaldfellingu þessa láns.  Leiði af eðli máls að áskilnaði 10. gr. samningsins hafi ekki verið fylgt.  Því geti sóknaraðili ekki byggt áskorun samkvæmt 5. tl. á láni sem ekki hafi verið gjaldfellt, og krafist þess um leið að unnt verði að greiða innan tveggja vikna. 

Varnaraðili byggir á því að krafa um gjaldþrotaskipti hafi komið fram of löngu eftir að áskorunin var send.  Beita verði hér grunnrökum 65. gr. gjaldþrotalaga þannig að krafa um gjaldþrotaskipti verði að koma fram innan skamms tíma frá því að skuldari verður ekki við áskorun um að lýsa sig gjaldfæran.  Sá langi tími sem leið í þessu tilviki hafi ekki verið skýrður.  Sóknaraðili hafi tapað þeim rétti sem hann kunni að hafa skapað sér með áskoruninni.  Vísar varnaraðili hér jafnframt til almennra reglna um tómlæti. 

Eins og áður er vikið að byggir varnaraðili á því að lánssamningar aðila hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundnir gengi erlendra gjaldmiðla.  Vísar hann til þess að höfuðstóll hafi einungis verið tilgreindur í íslenskum krónum, en myntviðmið í hlutföllum.  Þá hafi hann skuldbundið sig til að nýta lánsféð til þess m.a. að fjárfesta í fasteignum.  Þá hafi verið greitt af lánunum í íslenskum krónum, yfirleitt þannig að sóknaraðili hafi skuldfært bankareikning varnaraðila sem hafi verið í íslenskum krónum.  Loks komi glöggt fram í samningunum að erlendu gjaldmiðlarnir hafi verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar. 

Varnaraðili segir að sóknaraðili sé bundinn af því að hafa miðað kröfur sínar við gengi erlendra gjaldmiðla.  Hann beri hallann af því að hafa ekki lagt fram út­reikning á raunverulegri stöðu skuldanna.  Ekki sé unnt að taka kröfu hans til greina fyrr en hann hafi sent varnaraðila áskorun samkvæmt 5. tl. þar sem fram komi rétt fjárhæð. 

Varnaraðili kveðst eiga eignir til að mæta skuldum.  Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2010 séu eignir félagsins taldar nema 362.050.134 krónum.  Húseign félagsins að Faxafeni 10 sé þar færð á of lágu verði.  Eignirnar nemi samtals 499.000.000 króna. 

Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði.  Þá hafi hann ekki lagt fram réttan útreikning á kröfu sinni og verði því að miða við að krafan sé nægilega tryggð.  Þá kveðst varnaraðili hafa tryggar tekjur af leigusamningi, auk þess sem mögulegt sé að leigja meira rými, en þá myndu tekjur aukast enn. 

Varnaraðili mótmælir því loks að sóknaraðili geti reiknað dráttarvexti á kröfur sínar.  Hann hafi ekki verið krafinn um lögmætar efndir og kröfur hafi ekki verið gjaldfelldar.  Enn fremur vísar varnaraðili hér til 7. gr. laga nr. 38/2001. 

Niðurstaða

Aðila greinir á um fjárhæð skulda varnaraðila.  Sá ágreiningur snýst þó eingöngu um það hvort lánasamningarnir séu í erlendum gjaldmiðlum, eða hvort í þeim hafi verið samið um verðtryggingu miðað við gengi þessara gjaldmiðla. 

Skilmálar lánssamninganna þriggja eru samhljóða um þau atriði sem hér skipta máli.  Lánsfjárhæðin er tilgreind með orðunum „... að lána að jafnvirði íslenskar krónur [fjárhæð] í eftirfarandi myntum: ...“.  Myntirnar eru tilgreinar með skamm­stöfun og hversu hátt hlutfall lánsins er í hverri mynt. 

Samkvæmt samningunum skyldi lánsfjárhæðin greidd inn á bankareikninga varnaraðila í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Sóknaraðila var heimilt samkvæmt grein 2.5 að skuldfæra annan bankareikning varnaraðila fyrir afborgunum og vöxtum.  Innstæða á þeim bankareikningi er í íslenskum krónum.  Hins vegar er svohljóðandi ákvæði í grein 2.7:  Lánið ber að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af, en greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum sem hann skal greiða í erlendum myntum, þá skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans. 

Þar sem varnaraðili ber það fyrir sig að lánin hafi verið veitt til fjárfestingar í fasteignum er rétt að taka fram að í grein 2.3 skuldbindur varnaraðili sig til að nýta lánsféð til fjárfestingar í fasteignum og verðbréfum.  Þetta er ekki nánar afmarkað. 

Af framangreindum ákvæðum lánssamninganna má sjá að málsaðilar hafa gengið langt í því að skilgreina réttindi sín og skyldur samkvæmt þeim í erlendum gjaldmiðlum.  Fjárhæð lánsins er vissulega tilgreind í íslenskum krónum, en sem jafn­virði tiltekinnar fjárhæðar.  Tilgangur lánveitingarinnar svarar engu um þetta álitaefni.  Verður ekki fallist á það með varnaraðila að lán þessi séu í reynd í íslenskum krónum og gengistryggð.  Atvik eru hér að nokkru ólík því sem var í hæstaréttarmáli nr. 155/2011, einkum þannig að skjöl þessa máls bera með sér að lánin hafi verið greidd út í erlendum gjaldmiðlum. 

Varnaraðili svaraði ekki áskorun sóknaraðila.  Hann mótmælti ekki tilgreindri fjárhæð og ekki heldur frestinum sem honum var veittur.  Er of seint að bera það fyrir sig nú að hann hafi ekki getað svarað því hvort hann gæti greitt hærri fjárhæð en hann skuldaði í raun.  Er heldur ekki fallist á staðhæfingu hans um gengistryggingu lánanna.  Hafi hann viljað fá meiri tíma til að gera upp við sóknaraðila hefði hann átt að gera athugasemd við tímafrestinn sem honum var gefinn.  Á sama hátt hefði hann átt að mótmæla fjárhæðinni sem hann var krafinn um.  Verður því ekki fallist á að sóknaraðili hafi veitt of skamman frest í áskoruninni eða að hún hafi verið marklaus af öðrum ástæðum. 

Sóknaraðili á veðrétt til tryggingar kröfum sínum í 10 eignarhlutum í fast­eigninni Faxafeni 10.  Er skuldin tryggð með 1. og 2. veðrétti, en ekki er upplýst um fjárhæðir lögveðskrafna. Þá á hann samkvæmt handveðssamningi veð í innstæðum varnaraðila á vörslureikningi og eignastýringarsafni. 

Um verðmæti eignarhluta varnaraðila í fasteigninni hefur verið lagt fram mat Péturs Péturssonar, löggilts fasteignasala, sem dagsett er 6. mars 2007.  Þar metur hann eignarhlutann á 380.000.000 króna.  Matsmaður þessi var ekki dómkvaddur og hann vann verk sitt fyrir meira en fjórum árum.  Í þessu máli er ekki unnt að byggja neitt á þessari matsgerð. 

Að fenginni framangreindri niðurstöðu um gjaldmiðla lánsins eru fallnar um sjálfar sig málsástæður varnaraðila um að kröfur sóknaraðila séu nægilega tryggðar.  Hann heldur því ekki fram sjálfur að sóknaraðili eigi veð í eignum að verðmæti yfir 600.000.000 króna.  Þá er ósannað að varnaraðili eigi eignir svo verðmætar sem hann heldur fram, en það hefur ekki þýðingu að fjalla um verðmæti annarra eigna en þeirra sem standa að veði fyrir kröfum sóknaraðila. 

Varnaraðili telur að of langur tími hafi liðið frá því að margnefnd áskorun var birt honum og þar til krafa um gjaldþrotaskipti var sett fram.  Upplýst er að málsaðilar áttu í viðræðum, en hversu stöðugar þær hafa verið kemur ekki fram.  Ekki er settur neinn tímafrestur í 5. tl. til að krefjast gjaldþrotaskipta, þótt eðli máls samkvæmt hljóti einhver takmörk að gilda í því efni.  Reglu 1. tl. verður ekki beitt hér með lögjöfnun.  Beiðni um gjaldþrotaskipti barst dóminum 6. júní 2011, en áskorunin hafði verið birt 16. desember 2010.  Er þessi tími ekki óhæfilega langur. 

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili geti reiknað dráttarvexti og heldur því jafnframt fram að skuld samkvæmt einum lánasamninganna hafi ekki verið réttilega gjaldfelld.  Mótmælin varðandi dráttarvexti byggjast að því er séð verður ekki á öðru en því en að hann hafi ekki verið krafinn um réttar afborganir þar sem kröfurnar séu gengistryggðar með ólögmætum hætti.  Því hefur verið hafnað og því þarf ekki að fjalla frekar um útreikning dráttarvaxta.  Varðandi gjaldfellingu þá er sú málsástæða ekki alls kostar skýr.  Óumdeilt er að sóknaraðili á kröfur á hendur varnaraðila sem í það minnsta eru að talsverðu leyti gjaldfallnar.  Þá eru vanskil á öllum samningunum þannig að gjaldfelling þeirra var heimil.  Sýnt hefur verið fram á samkvæmt þeim aðferðum sem boðnar eru í 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga að varnaraðili er ógjaldfær.  Skiptir þá ekki máli að hve miklu leyti skuldir hans eru gjaldfallnar. 

Samkvæmt framansögðu er fullnægt skilyrðum 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010.  Verður bú varnaraðila því tekið til gjaldþrota­skipta.  Varnaraðila verður einnig gert að greiða sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð

Að kröfu sóknaraðila, Arion banka hf., er bú varnaraðila, Faxafens ehf., kt. 440204-2870, tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.