Hæstiréttur íslands

Mál nr. 614/2007


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Uppgjör
  • Ógilding samnings
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 18. september 2008.

Nr. 614/2007.

Sigrún María Eyjólfsdóttir Eydal

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Uppgjör. Ógilding samnings. Sératkvæði.

S stefndi tryggingafélaginu T til greiðslu bóta í tilefni af umferðarslysi sem hún lenti í á árinu 2002. Hafði varanlegur miski S verið metinn 5% og læknisfræðileg örorka S sú sama í kjölfar slyssins og hún gengið til samninga við T á grundvelli matsins. Samkvæmt fyrirliggjandi kvittun í málinu var um lokauppgjör að ræða fyrir allt tjón vegna meiðsla hennar. Eftir þetta taldi S heilsu sinni hraka og að afleiðingar slyssins hefðu orðið meiri en lagt var til grundvallar við bótauppgjörið. Leitaði S því til T með ósk um að hún gengist undir nýtt örorkumat sömu lækna og var það samþykkt af T með fyrirvara um að í því fælist ekki viðurkenning á skyldu til greiðslu frekari bóta. Var það niðurstaða læknanna að varanlegur miski og varanleg örorka S af völdum slyssins væri nú 8%. Í málinu krafði S, T um greiðslu frekari bóta með vísan til niðurstöðu lækna í síðara örorkumatinu. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að aukið varanlegt tjón S yrði rakið til ófyrirsjáanlegra breytinga á heilsufari hennar, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á skilyrði ákvæðisins um að slíkar ófyrirsjáanlegar breytingar yrðu að leiða til þess að miskastig eða örorkustig yrði verulega hærra en áður var talið, væri ekki hægt að horfa til þess hversu miskastig eða örorkustig hefði hækkað hlutfallslega, heldur yrði að taka mið af hækkuninni sem slíkri í stigum talið. Þar sem miski og varanleg örorka S hækkuðu aðeins um 3 stig var ekki talið að sú hækkun yrði talin veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga, sbr. dóma Hæstaréttar nr. 514/2002 og 199/2003. Þá kom ekki til álita að ógilda samninginn með stoð í ólögfestum reglum fjármunaréttar um brostnar forsendur, né með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Var T því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. nóvember 2007. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 859.623 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 11. mars 2002 til 1. júlí 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

I.

Áfrýjandi varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 11. mars 2002 og er óumdeilt að stefndi beri bótaskyldu af þeim sökum gagnvart henni. Aðilarnir leituðu í sameiningu eftir mati tveggja nafngreindra lækna á tímabundnu og varanlegu tjóni áfrýjanda og luku þeir örorkumati 19. mars 2003. Þar kom fram að áfrýjandi hafi hlotið áverka á hægra hné, sem valdið hafi „sköddun á liðbrjóski“ en ekki „skemmdir á beini eða liðþófa.“ Taldist hún hafa verið með öllu óvinnufær vegna þessa frá slysdegi til 3. júní 2002 og eiga rétt til þjáningabóta fyrir sama tímabil vegna veikinda, án þess að hún hafi verið rúmliggjandi. Varanlegur miski hennar var metinn 5% og varanleg örorka sú sama. Á grundvelli þessa örorkumats gengu aðilarnir til bótauppgjörs 2. júlí 2003 og greiddi stefndi samkvæmt því áfrýjanda 1.500.334 krónur að meðtöldum vöxtum og innheimtukostnaði.

Í júní 2004 leitaði áfrýjandi til sérfræðings í bæklunarlækningum vegna slæmra verkja í hægra hné og var liðspeglun gerð af því tilefni. Við hana greindist „rifinn innri liðþófi“, svo sem fram kemur í vottorði læknisins 8. september 2004, og var hluti liðþófans numinn brott í þeirri aðgerð. Af þessu tilefni leitaði áfrýjandi eftir því við stefnda að þau sammæltust um að hún gengist á ný undir örorkumat sömu lækna og fyrr. Á þetta féllst stefndi, en óumdeilt er að hann hafi gert það með fyrirvara um að í því fælist ekki viðurkenning á skyldu til greiðslu frekari bóta. Læknarnir luku nýju örorkumati 29. mars 2005. Samkvæmt því töldu þeir að áfrýjandi byggi við „ertingarástand í hægri hnélið með brjósksköddun undir hnéskel“, sem rakið yrði að hluta til slyssins 11. mars 2002 en að öðru leyti til slyss, sem áfrýjandi hafi orðið fyrir á árinu 1989. Á þessum grunni var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda af völdum slyssins 2002 væri alls 8%. Í málinu leitar áfrýjandi skaðabóta vegna 3% varanlegs miska og sama stigs varanlegrar örorku, sem ekki hafi verið bætt samkvæmt fyrrnefndu uppgjöri 2. júlí 2003.

II.

Í örorkumati 19. mars 2003 var sem áður segir komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi í umferðarslysinu 11. mars 2002 orðið fyrir nánar tilteknu tímabundnu og varanlegu líkamstjóni, sem stafaði af sköddun á liðbrjóski í hægra hné. Í örorkumatinu 29. mars 2005, sem áfrýjandi reisir nú kröfu sína á, var hún talin hafa orðið fyrir meira tjóni en upphaflega var ætlað, en í sjúkdómsgreiningu var þar rætt um að slysið hafi leitt af sér ertingarástand í hnélið með brjósksköddun undir hnéskel. Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fyrir dóm annar þeirra tveggja lækna, sem stóðu að báðum örorkumötunum. Aðspurður um það í hverju aukið líkamstjón áfrýjanda samkvæmt síðara örorkumatinu hafi falist sagðist læknirinn telja það „hafa leitt af versnun sem að varð eftir að við gerðum fyrri matsgerðina og ... við töldum þar af leiðandi hafa verið ófyrirséða.“ Hann lýsti því jafnframt að þeir tveir hafi ekki að öllu leyti verið sammála lækninum, sem gerði liðspeglun á áfrýjanda á árinu 2004, um að rekja mætti rifinn liðþófa í hægra hné hennar til slyssins 11. mars 2002, enda væri það ekki sannað. Að öðru leyti en hér um ræðir liggja ekki fyrir í málinu sérfræðileg gögn um áhrif slyssins á heilsufar áfrýjanda. Er því óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að aukið varanlegt tjón hennar samkvæmt síðara örorkumatinu verði ekki rakið til áður óþekktra áverka, heldur til frekari einkenna af meiðslum, sem greindust í tengslum við fyrra örorkumatið. Stefndi hefur á hinn bóginn ekki hrakið það, sem fram kom í áðurgreindum vitnisburði fyrir héraðsdómi, að þessi breyting á heilsufari áfrýjanda hafi verið ófyrirséð þegar örorkumat var gert 19. mars 2003.

Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 má taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorku ef ófyrirsjáanlegar breytingar verða á heilsufari tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Þegar metið er hvort skilyrðum þessa ákvæðis sé fullnægt er ekki unnt að horfa til þess hversu miskastig eða örorkustig hefur hækkað hlutfallslega frá því mati, sem lagt var til grundvallar við upphaflega bótaákvörðun, heldur verður að taka mið af hækkuninni sem slíkri í stigum talið. Þótt varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda sé sem svarar 60% hærri samkvæmt örorkumatinu 29. mars 2005 en talið var í matinu frá 19. mars 2003 verður samkvæmt þessu að horfa til þess að hækkunin var um þrjú stig varðandi hvorn þáttinn eða úr fimm í átta. Sú hækkun verður ekki talin veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 22. maí 2003 í máli nr. 514/2002 og 4. desember 2003 í máli nr. 199/2003.

Líta verður svo á að í 11. gr. skaðabótalaga sé sérregla um áhrif þess að forsendur, sem lagðar hafa verið til grundvallar við ákvörðun skaðabóta, reynist síðar brostnar. Getur því ekki komið til álita óháð þessu ákvæði að ógilda samning um uppgjör bóta með stoð í ólögfestum reglum fjármunaréttar um brostnar forsendur, sem áfrýjandi hefur meðal annars stutt kröfu sína við. Þá eru heldur ekki efni til að fallast á með áfrýjanda að unnt sé að víkja samningi hennar við stefnda 2. júlí 2003 til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, enda getur það hvorki talist ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri fyrir sig þennan samning, sem ekki verður haggað við eftir reglum 11. gr. skaðabótalaga.

Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar með talið ákvæði hans um málskostnað. Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ákvæði 11. gr. skaðabótalaga hefur að geyma sérreglu um það hvenær heimilt er að kröfu tjónþola að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða varanlega örorku. Ég er sammála meirihluta dómenda um að rétt sé að fyrst komi til skoðunar hvort sú sérstaka regla eigi við um áfrýjanda áður en öðrum málsástæðum hennar verði svarað, enda þótt hún hafi lagt málið fyrir dóminn með öðrum hætti.

Skilyrði endurupptöku samkvæmt nefndri lagagrein eru að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.

Ég er sammála meirihluta dómenda um að breyting á heilsufari áfrýjanda hafi verið ófyrirséð þegar örorkumat var gert 19. mars 2003 og því sé uppfyllt hið fyrra skilyrði greinarinnar.

Ég er hins vegar ósammála niðurstöðu meirihlutans um hvort uppfyllt sé það skilyrði greinarinnar að miskastig eða örorkustig áfrýjanda sé nú verulega hærra en áður var talið. Ég tel að líta verði til þess hversu miskastig eða örorkustig hafi hækkað hlutfallslega frá fyrra mati, sem lagt var til grundvallar við upphaflega bótaákvörðun, en að ekki verði einungis tekið mið af hækkuninni sem slíkri í stigum talið. Í þessu sambandi hef ég í fyrsta lagi í huga þá staðreynd að í lagaákvæðinu sjálfu er ekki kveðið á um að við þá ákvörðun skuli einungis miða við tiltekin stig, eins og auðveldlega hefði þar mátt koma fram hafi það verið vilji löggjafans. Talað er um að hinar ófyrirséðu breytingar á heilsu tjónþola leiði til þess að „ætla megi“ að miskastig eða örorkustig verði verulega hærra en áður var metið. Þetta orðalag greinarinnar vísar til þess að líta beri til hinnar hlutfallslegu hækkunar. Einnig kemur fram í athugasemdum með þessu ákvæði skaðabótalaga að hér sé um að ræða reglu einungis til hagsbóta fyrir bótaþega til að krefjast endurupptöku og að skilyrði fyrir endurupptöku séu í samræmi við almennar reglur fjármunaréttar. Af öllu þessu verður sú ályktun dregin að skýra skuli ákvæðið þannig að líta megi í hverju einstöku tilviki til hlutfallslegrar hækkunar frá því tjóni sem áður hefur verið metið.

Varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda var metinn 60% hærri í örorkumati 29. mars 2005 en í mati 19. mars 2003. Samkvæmt framansögðu telst uppfyllt það skilyrði 11. gr. skaðabótalaga að um sé að ræða verulega hækkun varanlegs miska og örorku áfrýjanda frá því sem áður hafði verið talið. Því tel ég að fallast beri á dómkröfu áfrýjanda, þó þannig að dráttarvextir af höfuðstól kröfu hennar miðist við þingfestingardag málsins í héraði 12. október 2006, líkt og stefndi krefst, en fjárkrafa áfrýjanda kom fyrst fram í stefnu birtri 6. þess mánaðar. Þá tel ég rétt að stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2007.

Mál þetta var þingfest 12. október 2006.  Það var dómtekið 11. maí sl. en tekið til endurflutnings 19. september sl. og dómtekið sama dag. 

Stefnandi er Sigrún María Eyjólfsdóttir Eydal, Laufengi 9, Reykjavík.

Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 859.623 krónur auk 4,5% vaxta af 190.605 krónum frá 11. mars 2002 til 3. júní 2002, en þá af stefnufjárhæð frá þeim degi til 1. júlí 2005 en með dráttarvöxtum af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og almennra vaxta frá þeim degi til greiðsludags. 

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda eru þær að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins.

Málavextir

Málavextir eru þeir að þann 11. mars 2002 lenti stefnandi í umferðaróhappi á mótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar í Reykjavík.

Nánari tildrög voru þau að stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar RT 091 og ók vestur Sæbraut á vinstri akrein.  Á akreininni fyrir framan var bifreiðin LL 138 kyrrstæð með viðvörunarljósum vegna bilunar að sögn ökumanns hennar.  Stefnandi áttaði sig of seint á því að LL 138 var kyrrstæð og þrátt fyrir nauðhemlun tókst henni ekki að koma í veg fyrir árekstur og lenti RT 091 aftan á LL 138.  Stefnandi rak hægra hné í mælaborðið og kvartaði einnig um óþægindi í hnakka.  Hún leitaði læknis daginn eftir óhappið eða þann 12. mars 2002.

Með sameiginlegri matsbeiðni lögmanns stefnanda og stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. var þess farið á leit við læknana Atla Þór Ólason og Leif N. Dungal að þeir mætu afleiðingar óhappsins fyrir stefnanda samkvæmt skaðabótalögum.

Matsgerðin er dags. 19. mars 2003 og voru helstu niðurstöður þær að varanlegur miski og varanleg örorka var metin 5%.

Þar sem bótaskylda var óumdeild var gengið til uppgjörs á grundvelli matsgerðarinnar og fyrirvaralaust lokauppgjör undirritað 2. júlí 2003 og nam heildargreiðsla stefnda 1.135.936 krónum.

Með bréfi til stefnda, dags. 17. sept. 2004, óskaði lögmaður stefnanda eftir endurupptöku málsins á grundvelli vottorðs Stefáns Dalberg læknis, dags. 8. september 2004.  Þá var óskað samþykkis stefnda á því að matslæknarnir Atli Þ´9r Ólason og Leifur N. Dungal endurmætu örorku stefnanda svo unnt væri að meta hvort skilyrði væru til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur.

Í bréfi sínu, dags. 9. desember 2004, féllst stefndi á þessa málaleitan lögmannsins, þó með þeim fyrirvara að ekki fælist í því viðurkenning á réttmæti endurupptöku.

Niðurstaða endurmats, dags. 29. mars 2005, var sú að varanlegur miski og varanleg örorka var hækkuð úr 5 % í 8 %.

Lögmaður stefnanda ritaði stefnda TM hf. bréf, dags. 26. apríl 2005, og óskaði eftir afstöðu félagsins til endurupptöku sem hann taldi vera fyrir hendi.

Stefndi svaraði erindinu með bréfi, dags. 27. apríl 2005, og hafnaði kröfu lögmanns stefnanda.  Segir í bréfinu að samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga þurfi breytingar á heilsufari tjónþola að vera ófyrirsjánlegar og hækkun á miska/örorku veruleg eigi endurákvörðun að koma til greina.  Með hliðsjón af skýrum fordæmum Hæstaréttar verði 3% hækkun ekki talin veruleg og var erindinu hafnað.

Stefnandi vildi ekki una þessum málalokum og hefur því höfðað mál þetta.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Aðalmálsástæða stefnanda er sú að uppgjör aðila sé haldið ógildingarannmörkum. Um það vísist til þess að uppgjörið hafi verið gert á röngum forsendum, þ.e. ekki hafi verið vitað um fleiri afleiðingar slyssins, sem metnar voru. Stefndi hefði mátt vita að aldrei yrði gengið til uppgjörs hefði sú vitneskja legið fyrir.

Verði ekki fallist á þessa röksemd fyrir málsástæðunni sé þess krafist að samningnum verði vikið til hliðar í samræmi við stefnukröfur með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936  en til vara að hluta.

Verði samningurinn talinn gildur og ekki vikið til hliðar, og verði talið að rangar forsendur leiði ekki til að hann teljist ógildur, sé honum rift á grundvelli rangra og brostinna forsendna, að því leyti sem hann sé gildur.  Leiði af riftuninni að taka beri stefnukröfurnar til greina.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður er byggt á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en ljóst sé að örorka stefnanda sé 60% hærri en hún var áður metin.  Séu þá öll skilyrði til að taka málið upp að nýju samkvæmt þeirri grein.

                Sundurliðun kröfugerðar:

                Kröfugerð stefnanda sundurliðist þannig:

                                Varanlegur miski 3%                    190.605 kr.

                                Varanleg örorka 3%                      669.018 kr.

                                Samtals                                           859.623 kr.

 

Um málskostnað vísist til XXI. kafla 1. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr.  Tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

Málsástæður og lagarök stefnda

Í greinargerð stefnda segir að í máli þessu sé ekki deilt um bótaskyldu.  Hún sé viðurkennd og hafi stefndi þegar greitt stefnanda bætur, sem hafi grundvallast á örorkumati læknanna Leifs N. Dungal og Atla Þórs Ólasonar, dags. 19. mars 2003. Um hafi verið að ræða fullnaðargreiðslu og tekið hafi verið á móti henni án nokkurra fyrirvara af hálfu stefnanda, sem hafi notið aðstoðar lögmanns við uppgjörið.

Ágreiningur máls þessa snúist því um það hvort stefnandi kunni að eiga rétt á frekari bótum, með vísan til niðurstöðu síðara matsins, dags. 29. mars 2005, þar sem matsmenn töldu varanlegan miska og varanlega örorku vera 8% í stað 5% í fyrra mati.

Af hálfu stefnanda er aðallega á því byggt að uppgjörið 2. júlí 2003 sé haldið ógildingarannmörkum, nánar tiltekið röngum forsendum og í þessu sambandi sé einnig vísað til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Á því sé byggt að riftun sé heimil vegna rangra og brostinna forsendna og loks sé vísað til 11. gr. skaðabótalaga þar sem örorka stefnanda sé 60% hærri í síðara matinu.

Af hálfu stefnda er þessum sjónarmiðum mótmælt.

Stefndi telur reyndar að endurupptöku í máli sem þessu verði að byggja á 11. gr. skaðabótalaga.  Þar hafi löggjafinn sett þær leikreglur sem gilda skuli í þeim efnum.  Engu að síður sé minnt á að til hins upphaflega uppgjörs hafi verið gengið að frumkvæði lögmanns stefnanda og hefðbundin gögn þar lögð til grundvallar.

Þó matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að örorka og miski hafi hækkað um 3% sé ekki fallist á að forsendur hafi brostið eða teljist rangar.

Sérstaklega sé mótmælt að 36. gr. samningalaga geti hér komið til álita og lögð á það áhersla að stefnandi hafi notið aðstoðar lögmanns við uppgjörið.

Eftir standi þá 11. gr. skaðabótalaga.  Til þess að endurupptaka sé heimil samkvæmt henni þurfi að uppfylla tvenn skilyrði.  Annars vegar að breytingar á heilsu hafi verið ófyrirsjáanlegar og hins vegar að þær teljist verulegar. 

Um fyrra atriðið, að heilsufarsbreytingar séu ófyrirsjáanlegar, þá komi fram í niðurlagi síðari matsgerðarinnar að um sé að ræða versnun í hné, sem að hluta til megi rekja til slyssins 11. mars 2002, sem svo aftur þýði 3% hækkun örorku og miska.  Spurningin sé hins vegar hvort þetta geti talist ófyrirséð og því hafnar stefndi.

Það liggi í hlutarins eðli að alltaf megi reikna með einhverri versnun í meiðslum sem þessum.  Fólk eldist og slitnar og sé það veikt fyrir geti þetta gerst.

Í báðum matsgerðunum sé verið að meta einkenni frá hægra hné.  Hefðu komið fram einhver önnur einkenni, t.d. í baki eða hálsi, væri verið að tala um ófyrirséðar breytingar.  Um það sé hins vegar ekki að ræða hér.  Því hljóti stefndi að hafna því að skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga um að breytingar á heilsu tjónþola geti talist ófyrirséðar, eigi við rök að styðjast.

Jafnframt hafnar stefndi því alfarið að hægt sé að fallast á það með stefnanda að hækkun örorku og miska geti talist veruleg.  Hækkun um 3 prósentustig geti aldrei talist veruleg.  Þetta sé vissulega matsatriði sem löggjafinn hafi eftirlátið dómstólum að skera úr um, en miðað við þá dóma sem fallið hafi um álitaefnið sé niðurstaðan skýr að mati stefnda.  3% hækkun sé ekki veruleg og óhætt sé að fullyrða að slík niðurstaða samræmist almennri máltilfinningu hvað þetta varðar.

Stefndi leggur og áherslu á að ekki nægi að öðru skilyrði 11. greinar skaðabótalaga sé fullnægt til þess að endurupptaka sé heimil, heldur þurfi hvoru tveggja að vera fyrir hendi.

Stefndi mótmælir þeirri nálgun stefnanda að skoða álitaefnið út frá hlutfallslegri hækkun, eins og hann geri, og fellst ekki á þau sjónarmið er þar liggja til grundvallar.

Af þessu leiði, að mati stefnda, að hafna beri kröfum stefnanda um endurupptöku og sýkna beri stefnda af kröfum hans í máli þessu.

Dráttavaxtakröfu er mótmælt, enda ekki lagaskilyrði til að fallast á hana þar sem formleg krafa hafi ekki verið sett fram af hálfu stefnanda fyrr en við birtingu stefnu í máli þessu 6. október 2006.

Niðurstaða

Við uppgjör aðila á skaðabótum til handa stefnanda, lá fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna.  Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að byggt hafi verið á þeirri matsgerð og að við útreikning tjónsbóta til stefnanda hafi verið farið eftir reglum skaðabótalaga um útreiknings tjóns.  Þá er fram komið að lögmaður stefnanda tók við greiðslu úr hendi stefnda án þess að nokkrar athugasemdir væru gerðar.  Verður ekki annað séð en að gengið hafi verið til uppgjörs með eðlilegum hætti og byggt hafi verið á þeim forsendum sem fyrir lágu á þeim tíma.

Stefnandi byggir á því að uppgjör aðila hafi verið haldið ógildingarannmörkum þar sem það hafi verið gert á röngum forsendum.  Ekki hafi á umræddum tíma verið vitað um allar afleiðingar slyssins.  Stefnandi gerir hins vegar ekki grein fyrir því í stefnu hverjar þessar auknu afleiðingar séu.

Stefnandi hefur lagt fram í málinu endurmat læknanna Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, sem dags. er 29. mars 2005.  Í niðurstöðu þar segir að við slysið 11. mars 2002 hafi stefnandi orðið fyrir 8% varanlegum miska og 8% varanlegri örorku.  Er örorka stefnanda metin 3% hærri en í fyrri matsgerð.  Samkvæmt niðurstöðu matsmanna má rekja aukinn varanlegan miska til versnunar í hné.

Í fyrri matsgerðinni töldu matsmenn stefnanda hafa skaddast á liðbrjóski hægri hnéliðar.  Ekki komu fram skemmdir á beini eða liðþófa.  Hún hafði haft áreynsluverki á hné og eymsli og hrjúfleika undir hnéskel sem sé merki um sköddun á liðbrjóski.  Í endurmatinu segir að við skoðun komi í ljós ertingarástand í hægri hnélið með bólgu og eymslum um allan liðpokann en ekki sé vökvi í liðnum.  Beygigeta sé aðeins skert hægra megin.  Ástand ertingar sé að öllum líkindum að hluta til vegna brjósksköddunar í hnéskel en brjósksköddun í hnéskel hafi verið tengd slysinu 2002.  Rekja matsmenn einhvern hluta versnunar í hné til slyssins og meta þann þátt til 3% varanlegs miska.  Bar Leifur Dungal læknir fyrir dómi að matsmenn teldu umrædda viðbótarörorku hafa leitt af versnun sem orðið hafi eftir að fyrri matsgerð var gerð.

Af framangreindri matsgerð verður ekki ráðið að í ljós hafi komið nýir áverkar eða sjúkdómseinkenni sem ekki hafi verið tekið tillit til í fyrra mati og við uppgjör aðila.  Er niðurstaða matsmanna sú að um versnun á hné sé að ræða.  Þykir því ekki sýnt fram á annað en að byggt yrði á sömu forsendum nú og byggt var á við uppgjör tjónsins.  Er því ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að uppgjör aðila verði ógilt vegna brostinna forsendna.

Stefnandi byggir á því að samningi um uppgjör verði vikið til hliðar í samræmi við stefnukröfur með vísan til 36. gr. laga nr. nr. 7/1936.  Í nefndri lagagrein segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að við uppgjör bótanna hafi atvik verið með þeim hætti að samningi um uppgjör verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga. 

Í 11. gr. skaðabótalaga er heimild til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur.  Skilyrði slíkrar endurupptöku er að ófyrirsjánlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.

Stefnandi byggir kröfur sínar m.a. á þessu ákvæði skaðabótalaganna og heldur því fram að örorka stefnanda sé 60% hærri en hún var áður metin og því séu öll skilyrði til að endurupptaka málið.

Eins og áður segir hefur stefnandi ekki gert grein fyrir þeim ófyrirsjáanlegu  breytingum sem stefnandi telur hafa orðið á heilsufari sínu.  Af endurmati verður ekki ráðið að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda heldur sé um versnun á hné að ræða sem leiði til 3% viðbótarmiska hjá stefnanda.  Er ekki talið að 3% breyting á miskastigi sé veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga.  Eru skilyrði 11. gr. skaðabótalaga því ekki uppfyllt og því ekki fallist á að efni séu til að taka upp að nýju ákvörðun fyrir varanlegan miska eða örorku stefnanda, enda var gengið til þess uppgjörs án nokkurra fyrirvara eins og áður segir.

Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. 

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf. skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigrúnar Maríu Eyjólfsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.