Hæstiréttur íslands
Mál nr. 111/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 20. mars 2000. |
|
Nr. 111/2000.
|
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir settur saksóknari) gegn Andrési Ingibergssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að A skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2000.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að Andrési Ingibergssyni, kt. 230779-4229, með lögheimili að Brekkubæ 12, Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl nk., kl. 16.00.
[...]
Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl.
Í málinu þessu hefur kærði gengist við því að hafa átt aðild að innflutningi á verulegu magni fíkniefna til landsins sem ætlað var til sölu. Þá hefur hann viðurkennt að hafa flutt peninga, sem fengust fyrir sölu fíkniefna, milli manna. Telst því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykja hafa verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brot kærða sé þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Ákæra mun verða gefin út alveg á næstu dögum samkvæmt því sem fulltrúi ríkissaksóknara hefur upplýst hér fyrir dómi. Telst tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt kröfu ríkissaksóknara því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þannig að fallast ber á kröfu ríkissaksóknara. Kærði er því úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kkvaðp upp dóminn.
Úrskurðarorð:
Kærði, Andrés Ingibergsson, kt. 230779-4229, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.