Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Skattur
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 16. júní 2009. |
|
Nr. 270/2009. |
Guðbrandur Jóhannsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Sigurður Gísli Gíslason hrl.) |
Kærumál. Skattar. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
G höfðaði mál og krafðist þess að álagning opinberra gjalda skattstjórans í Reykjavík tilgreind gjaldár yrði ómerkt, auk þess sem hann krafðist dráttarvaxta af ofgreiddum sköttum. Héraðsdómur féllst ekki á að vísa málinu frá dómi á þeim grunni að ekki væri vísað til dagsetningar þeirra ákvarðana skattstjóra um álagningu sem krafist væri ógildingar á. Hins vegar segir í úrskurði héraðsdóms að ekki yrði ráðið af málatilbúnaði G að hann véfengdi annað við álagningu opinberra gjalda en þá aðferð sem skattstjóri beitti við útreikning persónuafslátta, vegna tekna sem G hafði erlendis. Þrátt fyrir það krafðist hann þess að skattálagningin yrði felld úr gildi í heild sinni og álagning tilgreindra opinberra gjalda ómerkt, en sú krafa gengi of langt væri litið til markmiðs málsóknar G. Markmið málsóknar G hlyti að vera að krefjast endurálagningar skattstjóra og endurgreiðslu oftekinna skatta. Í stefnu hafi því hins vegar í engu verið lýst hvenær G innti þá skatta af hendi sem hann taldi oftekna, en það hefði skipt verulegu máli þar sem krafa hans um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda fyrnist á fjórum árum frá því greiðsla átti sér stað. Þar sem fyrir lá að hluti meintra endurgreiðslukrafna G væri niður fallinn fyrir fyrningu taldi héraðsdómur að G hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sem hann gæti ekki byggt endurgreiðslukröfu sína á. Hvað varðaði síðari lið kröfugerðar G um dráttarvexti sagði í úrskurði héraðsdóms að ekki lægi fyrir að G hefði ofgreitt skatta tilgreind gjaldár og hver hugsanlegur höfuðstóll meintra ofgreiddra skatta kynnu að vera. Þá væri dráttarvaxtakrafa G hvorki mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Taldi héraðsdómur kröfu G um dráttarvexti því svo óljósa að henni bæri að vísa frá dómi, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með þeirri athugasemd að það væri annmarki á málatilbúnaði G að í fyrri lið kröfugerðar hans væri ekki vísað til tiltekinna stjórnvaldsákvarðana með dagsetningum eða með öðrum hætti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2009, þar sem fallist var kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi í heild sinni og lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Til vara krefst hann þess að frávísun málsins verði ómerkt að hluta og lagt fyrir héraðsdómara að kveða upp efnisdóm um kröfu sóknaraðila um ómerkingu álagninga opinberra gjalda skattstjórans í Reykjavík á sóknaraðila gjaldárin 1999, 2001-2003 og 2005-2008. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Það er annmarki á málatilbúnaði sóknaraðila að ekki er í fyrri lið kröfugerðar hans vísað til tiltekinna stjórnvaldsákvarðana, sem krafa um ómerkingu beinist að, hvorki með dagsetningu eða með öðrum hætti. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðbrandur Jóhannsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 6. apríl sl., um frávísunarkröfu stefnda er höfðað með birtingu stefnu 1. desember 2008.
Stefnandi er Guðbrandur Jóhannsson, Stigahlíð 2, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið. Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að álagning opinberra gjalda skattstjórans í Reykjavík á stefnanda eftirtalin gjaldár;
1. gjaldárið 2008 vegna tekna á árinu 2007
2. gjaldárið 2007 vegna tekna á árinu 2006
3. gjaldárið 2006 vegna tekna á árinu 2005
4. gjaldárið 2005 vegna tekna á árinu 2004
5. gjaldárið 2003 vegna tekna á árinu 2002
6. gjaldárið 2002 vegna tekna á árinu 2001
7. gjaldárið 2001 vegna tekna á árinu 2000
8. gjaldárið 1999 vegna tekna á árinu 1998
verði ómerkt.
Í öðru lagi, að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á dráttarvöxtum af ofgreiddum sköttum frá og með 1. ágúst 2008 að telja. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið.
Málsatvik
Stefnandi hefur verið heimilisfastur hér á landi frá árinu 1995, en aflað tekna bæði hérlendis og erlendis, í Svíþjóð og í Færeyjum. Snýst ágreiningur máls þessa um túlkun ákvæða tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna, sem birtur var sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 11/1997 í C deild Stjórnartíðinda og hvort skattaleg meðferð tekna stefnanda frá Svíþjóð og Færeyjum hafi verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði fyrrnefnds tvísköttunarsamnings.
Stefnandi heldur því fram að skattstjóri skerði persónuafslátt sinn um hlutfall hinna erlendu tekna af heildartekjunum. Beri hins vegar að veita skattfrádrátt reikni skattstjóri hann ekki af reiknuðum skatti fyrir frádrátt persónuafsláttar, heldur af reiknuðum skatti eftir frádrátt hans sem geri það að verkum að persónuafslátturinn dreifist bæði á innlendar og erlendar tekjur. Hafi stefnandi af þeim sökum ofgreitt tekjuskatt hin umdeildu ár.
Málsástæður og lagarök stefnda varðandi frávísunarkröfu
Stefndi kveður að í stefnu sé ekki gerð grein fyrir álagningunni sjálfri eða þeim tekjum sem sæti skattlagningu, hvorki eðli þeirra né uppruna. Dómkröfur stefnanda um ógildingu álagningar tiltaki hvorki fjárhæðir né sé gerð grein fyrir um hvers konar tekjur sé að ræða. Í kröfugerð stefnanda sé ekki vísað til tiltekinna stjórnvaldsákvarðana, hvorki með dagsetningum né öðru. Sé stefnda ófært að verjast kröfum stefnanda vegna þessa. Í þessu sambandi bendir stefndi á að samkvæmt tvísköttunarsamningi skipti það máli hvers eðlis tekjur séu.
Því sé ekki lýst í stefnu hvort stefnandi hafi greitt umrædda skatta og þá hvenær eða að hve miklu leyti. Þess vegna telji stefndi kröfu stefnanda undir fyrsta lið um ógildingu álagningar opinberra gjalda á stefnanda vera vanreifaða og ekki í samræmi við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefnandi hafi ekki uppi kröfu um endurgreiðslu og lýsi því ekki hvort, hvenær og að hve miklu leyti hann hafi greitt umrædda skatta. Samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995, fyrnist krafa um endurgreiðslu á 4 árum frá því að greiðsla átti sér stað. Sama gildi um áfallna vexti. Hafi stefnandi greitt umrædda álagða skatta sé því ljóst að verulegur hluti endurgreiðslu sé fallinn niður fyrir fyrningu, en um þetta sé ekki fjallað í stefnu. Sé réttur sá til endurgreiðslu, sem stefnandi virðist byggja á að sé til staðar, fallinn niður vegna fyrningar, geti stefnandi ekki haft af því lögvarða hagsmuni að fá dóm um kröfur sínar, enda geti þær þess vegna ekki leitt til endurgreiðslu. Að þessu leyti vísi stefndi til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Ef meint endurgreiðslukrafa stefnanda er fyrnd, hafi hann ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um ógildinguna, enda leiði hún þá ekki til neins.
Sá ágreiningur sem stefnandi hafi uppi varðandi álagningu skatta hafi ekki sætt málsmeðferð skattyfirvalda, en það hefði þó verið eðlilegt. Stefnanda hefði verið rétt að beina kröfum sínum til viðkomandi skattyfirvalda, krefjast úrskurðar skattstjóra um álagningu opinberra gjalda vegna allra umræddra gjaldára, nema vegna gjaldáranna 1999 og 2001, en honum hafi verið rétt að kæra úrskurð skattstjóra um endurálagningu vegna þeirra til Yfirskattanefndar.
Stefnandi geri kröfu um að viðurkennt verði að hann eigi rétt til dráttarvaxta af ofgreiddum sköttum frá og með 1. ágúst 2008 að telja. Hann geri þó ekki kröfu um að meintir ofgreiddir skattar verði endurgreiddir. Stefndi telur þetta ekki getað staðist. Til að geta gert kröfu um dráttarvexti hljóti stefnandi jafnframt að þurfa að gera kröfu um greiðslu á þeim höfuðstól eða kröfu sem dráttarvextirnir eigi að reiknast af. Stefndi telji þessa kröfu stefnanda ekki vera í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi geri ekki kröfu um endurgreiðslu eða um að viðurkennt verði að hann eigi rétt til endurgreiðslu, en dómur um endurgreiðslu eða viðurkenningu um rétt til endurgreiðslu hljóti að vera forsenda fyrir því að dæmt verði um rétt til dráttarvaxta. Meðan ekki liggi fyrir um rétt stefnanda til endurgreiðslunnar, telji stefndi ófært að leita dóms um rétt til dráttarvaxta af sömu kröfu, en jafnvel þótt fallist yrði á kröfu stefnanda um ómerkingu, sé meintur réttur hans til endurgreiðslu utan dómkrafna.
Krafa stefnanda um viðurkenningu dráttarvaxta sé að auki vanreifuð að mati stefnda, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og í raun ekki dómhæf. Ekki sé í kröfunni vísað til tiltekinnar álagningar endurákvörðunar, gjaldára eða tekjuára og heldur ekki til neinnar fjárhæðar. Stefndi telji ófært að dæma um dráttarvexti eða rétt til þeirra, án þess að þetta liggi fyrir. Þá sé ekki lýst í stefnunni eða gerð grein fyrir því hvort, hvenær eða að hve miklu leyti stefnandi hafi greitt eða ofgreitt umrædda skatta.
Málsástæður og lagarök stefnanda varðandi frávísunarkröfu
Stefnandi kveður að í máli þessu sé aðeins deilt um aðferðina við tvísköttun tekna. Hann kveður kröfugerð stefnanda alveg ljósa, um álagningu hvers árs fyrir sig sé að ræða. Ekki sé deilt um hvaða tekjur sé um að ræða á hverju ári fyrir sig, heldur eingöngu um aðferð sem skattyfirvöld hafi viðhaft við álagningu hjá stefnanda. Hann bendir á að einstaklingar og lögaðilar hafi um það val hvort þeir leiti þeirra leiða sem þeim eru færir innan stjórnsýslunnar til að fá leiðréttingu á álögðum gjöldum, eða hvort þeir leiti til dómstóla til að fá úrlausn mála sinna vegna ranglega álagðra gjalda.
Niðurstaða.
Stefnandi krefst þess að ,,álagning opinberra gjalda skattstjórans í Reykjavík á stefnanda“ tilgreind gjaldár verði ómerkt. Er ekki fallist á með stefnda að vísa beri málinu frá dómi, þótt ekki sé vísað til dagsetningar þeirra ákvarðana skattstjóra um álagningu sem krafist er ógildingar á, en ljóst er af dómkröfunni að krafist er ógildingar allrar álagningar opinberra gjalda tilgreind gjaldár. Samkvæmt álagningarseðlum áranna 2008, 2007, 2006, 2005, 2003, 2002, 2001 og 1999 voru álögð gjöld á stefnanda útsvar og tekjuskattur, auk gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra.
Samkvæmt álagningarseðli áranna 2008, 2007, 2006, 2003, 2001 og 1999 var einnig lagður á stefnanda fjármagnstekjuskattur.
Ljóst er af framlögðum gögnum að stefnandi hafði tekjur bæði hérlendis og erlendis þau gjaldár sem hann hefur krafist að álagning opinberra gjalda verði felld úr gildi. Ekki verður ráðið af málatilbúnaði stefnanda að hann vefengi annað við álagningu opinberra gjalda skattstjórans í Reykjavík á stefnanda, en þá aðferð 5 sem skattstjóri beitir við útreikning persónuafsláttar stefnanda vegna tekna sem stefnandi hafði erlendis. Af málssókn stefnanda verður þannig ekki ráðið að hann telji að málsmeðferð skattyfirvalda við álagningu opinberra gjalda hjá stefnanda hafi verið svo áfátt að henni beri að hnekkja af forms- eða efnisástæðum, heldur virðist tilgangur hennar einungis sá að fá úr því skorið hvort beitt hafi verið réttri reikningsaðferð við útreikning persónuafsláttar. Þrátt fyrir þetta krefst stefnandi þess að skattálagningin verði felld úr gildi í heild sinni og að álagning opinberra gjalda tilgreind skattár verði ómerkt. Sú krafa gengur allt of langt, sé litið til markmiðs málssóknar stefnanda.
Stefnandi byggir málssókn sína á því að hann hafi ofgreitt tekjuskatt þau ár sem hann tilgreinir í stefnu, allt aftur til ársins 1999. Markmið málssóknar stefnanda hlýtur því að vera að krefjast endurálagningar skattstjóra og endurgreiðslu oftekinna skatta, fallist dómurinn á dómkröfur hans í máli þessu. Í stefnu er því í engu lýst hvenær stefnandi innti þá skatta af hendi sem hann telur oftekna, en það skiptir verulegu máli þar sem krafa um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda fyrnist á fjórum árum frá því að greiðsla átti sér stað. Stefnandi hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sem hann getur ekki byggt endurgreiðslukröfur sínar á, en engin grein er gerð fyrir þessum sjónarmiðum í stefnu. Full þörf hefði þó verið á því, þar sem fyrir liggur að hluti meintra endurgreiðslukrafna stefnanda er niður fallinn fyrir fyrningu.
Með vísan til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa fyrri kröfu stefnanda frá dómi.
Síðari krafa stefnanda er að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á dráttarvöxtum af ofgreiddum sköttum frá og með 1. ágúst 2008. Þá kröfu sína styður stefnandi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta. Eins og að framan greinir hefur stefnandi ekki gert kröfu í máli þessu um að meintir ofgreiddir skattar verði endurgreiddir. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi ofgreitt skatta tilgreind gjaldár og hver hugsanlegur höfuðstóll meintra ofgreiddra skatta kunni þá að vera. Þá er dráttarvaxtakrafa stefnanda hvorki mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafa stefnanda er samkvæmt framangreindu svo vanreifuð og óljós 6 að ekki verður lagður á hana dómur. Verður henni því vísað frá dómi sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnandi stefnda 200.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnandi, Guðbrandur Jóhannsson greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað.