Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/2008

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) og Y (Brynjar Níelsson hrl.)

Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot
  • Sératkvæði

Reifun

X og Y voru sakfelldir í héraði fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa í ágóðaskyni, lagt á ráðin og staðið saman að innflutningi á samtals 701,54 grömmum af kókaíni, sem flutt voru í tvennu lagi til Íslands frá Hollandi um Danmörku, ætluðu til söludreifingar hér á landi. Y játaði aðild sína að innflutningnum, með þeim athugasemdum að hann hefði ekki lagt á ráðin um innflutninginn með X, sem ekki hefði komið að málum og þá kvað hann háttsemi sín ekki hafa verið í ágóðaskyni. Hæstiréttur staðfesti sakfellingu Y og var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi. X neitaði sök bæði við meðferð málsins í héraði og hjá lögreglu. Enginn meðákærðu bar hann sökum og ekkert vitni bar um aðild hans að ákæruefnunum. Lögreglan hleraði síma ákæru og fylgdist sérstaklega með ferðum X í um það bil ár áður en hann var handtekinn og kom fyrir hlerunartækjum í bifreið hans. Hins vegar var hvergi að finna í gögnum lögreglu staðfestingu á aðild X að umræddum fíkniefnainnflutningi. Samkvæmt þessu var ekki talið að fram hefði komið sönnun um háttsemi X er laut að þeim ákæruatriðum sem honum var gefið að sök. Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Þriðjudaginn 7

 

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Y Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnum 9. og 17. júlí 2008 í samræmi við yfirlýsingar beggja ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærðu en þyngingar á refsingu þeirra.

Ákærði, X, krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði, Y, krefst þess að refsing verði milduð.

Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi, en ákærðu og fjórir aðrir menn voru ákærðir fyrir fíkniefnabrot og voru allir nema einn dæmdir sekir. Eins og þar segir neitaði ákærði X sök bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá bar enginn meðákærðu hann sökum, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi, og ekkert vitni bar um aðild hans að ákæruefnunum. Í héraðsdómi er rakið að samskipti ákærða X við meðákærða Y hafi verið mikil um það leyti er atvik gerðust og það tengt tímasetningum við innflutning á fíkniefnunum. Þá er því lýst að lögregla hafi hlerað síma ákærðu um allnokkra hríð. Sérstaklega hafi hún fylgst með ferðum ákærða X í um það bil ár áður en hann var handtekinn, auk þess sem hún hafi komið fyrir hlerunartæki í bifreið hans. Í rannsóknargögnum lögreglu er þó hvergi að finna staðfestingu á aðild ákærða X að umræddum fíkniefnainnflutningi. Samkvæmt þessu verður ekki talið að fram hafi komið sönnun um þá háttsemi sem ákærða X er gefin að sök í málinu, sbr. nú 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður hann því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.

Ákærði Y hefur játað aðild sína að innflutningnum eins og henni er lýst í 2. tölulið ákærunnar, þó með þeirri athugasemd að hann kveður ákæru ranga um að hann hafi „lagt á ráðin“ um innflutninginn. Þá kveður hann háttsemi sína ekki hafa verið í ágóðaskyni eins og segir í inngangskafla ákærunnar. Þess ber að gæta að í 1. tölulið ákærunnar, þar sem fjallað er um ætlað brot ákærða X, er gert ráð fyrir að hann hafi falið ákærða Y að finna samverkamenn til að fara til Hollands og annast milligöngu við innflutning fíkniefnanna. Framburður annarra ákærðu og vitna um þátt ákærða Y í innflutningnum er rakinn í héraðsdómi sem og önnur gögn úr rannsókn málsins. Af þeim er ekki með öllu ljóst hversu ríkur þáttur hans var við að leggja á ráðin um innflutning fíkniefnanna til landsins, en fram er komið að eftir að ákvörðun hafði verið tekin um það tók ákærði Y að sér samkvæmt fyrirmælum að finna samverkamenn og annast milligöngu við innflutninginn, eins og lýst er í 2. tölulið ákærunnar. Þegar einungis er litið til játningar ákærða Y sést að hann lýsir veigamiklum þætti sínum í atburðarrásinni. Eins og áður greinir verður ákærði X sýknaður af kröfu ákæruvalds og er því ekki sannað við hvern eða hverja ákærði Y ráðfærði sig um innflutning fíkniefnanna. Verður ekki fallist á þá viðbáru ákærða Y að honum hafi gengið það eitt til verksins að hjálpa ónafngreindum vini sínum úr vandræðum. Þykir víst að flytja hafi átt umrædd fíkniefni til landsins til sölu í ágóðaskyni en um var að ræða mikið magn sterkra fíkniefna og var ákærði Y beinn þátttakandi í framkvæmdinni þótt ósannað sé að hann hafi stjórnað henni. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er sannað að ákærði Y hafi gerst sekur um brot það sem hann er sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi og réttilega er heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

Sakarferill ákærða Y er nægilega rakinn í héraðsdómi. Ákærði var 7. desember 2004 dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir hótunarbrot og vopnalagabrot og var það skilorð ekki tekið upp með síðari dómum yfir honum. Verður sá dómur nú tekinn upp og ákærði dæmdur í einu lagi fyrir brot sem hann var þar sakfelldur fyrir og brotið nú, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá rauf ákærði með broti sínu skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 24. september 2006 á 9 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar vegna umferðarlagabrots samkvæmt dómi 23. nóvember 2005. Ber því einnig að ákveða refsingu í einu lagi með hliðshjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði á sér engar málsbætur. Þáttur hans var veigamikill í innflutningi fíkniefnanna, en um var að ræða mikið magn af mjög sterku kókaíni. Þá verður litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hengingarlaga við ákvörðun refsingar. Að þessu sérstaklega virtu verður refsing ákærða staðfest.

Með héraðsdómi voru ákærðu dæmdir til að greiða óskipt sakarkostnað 401.332 krónur, en þrír meðákærðu í héraði dæmdir til að greiða með þeim óskipt hluta af þeirri fjárhæð. Þá voru ákærðu hvor um sig dæmdir til greiðslu þóknunar til verjenda sinna. Ákærði X verður ekki dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar í héraði og skulu málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans þar greiðast úr ríkissjóði, en þau voru hæfilega ákveðin. Þá skulu greiðast úr ríkissjóði málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um greiðslu sakarkostnaðar að því er ákærða Y varðar verður staðfest. Hann verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins að því er hann varðar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins.

Héraðsdómur er óraskaður um refsingu ákærða, Y.

Ákærði, X, er sýkn af kröfu um sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dæmd málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans í héraði greiðast úr ríkissjóði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað að því er varðar ákærða, Y, er staðfest. Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins að því er hann varðar, sem samtals nemur 337.637 krónum, þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Sératkvæði Hjördísar Hákonardóttur

Ég tel að staðfesta eigi hinn áfrýjaða dóm að því er báða ákærðu varðar með vísan til forsendna hans. Samkvæmt þessari niðurstöðu tel ég að ákærðu eigi að greiða óskipt annan áfrýjunarkostnað en málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti. Ég er sammála meirihluta dómenda um fjárhæð málsvarnarlauna.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2008.

Málið, sem dómtekið var 9. júní sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 1. október 2007 á hendur „X, kennitala [...], [heimilisfang], Guðmundi Smárasyni, kennitala [...], [...], Kópavogi, Ingþóri Halldórssyni, kennitala [...], [...], Reykjavík, Y, kennitala [...], [...], Hafnarfirði, Ómari Vagni Snævarssyni, kennitala [...], [...], Reykjavík, og B, kennitala [...], [heimilisfang], fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2006 nema annað sé tekið fram:

Gegn ákærðu X og Y fyrir stórfellt brot gegn ávana- og fíkniefnalögum framið í september og október með því að hafa, í ágóðaskyni, lagt á ráðin og staðið saman að innflutningi á samtals 701,54 g af kókaíni, sem flutt voru í tvennu lagi til Íslands frá Hollandi um Danmörku, ætluðu til söludreifingar hér á landi.  Gegn ákærðu Guðmundi, Ingþóri og Ómari Vagni, fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum í október, með því að hafa, í ágóðaskyni, móttekið hluta kókaínsins í Hollandi, haft efnin í vörslum sínum og flutt hingað til lands, ákærði Guðmundur er flutti inn 403,50 g af efnunum og ákærðu Ingþór og Ómar Vagn er fluttu inn 298,04 g af efnunum.  Gegn ákærða B fyrir hlutdeild í ávana- og fíkniefnalagabrotum meðákærðu Y og Guðmundar í október, með því að hafa aðstoðað við innflutning fíkniefnanna.  Allt eins og nánar er lýst í ákæruliðum 1-5:

1. Ákærði X

lagði á ráðin með meðákærða Y í lok september og byrjun október um innflutning á kókaíni og fól honum að finna samverkamenn til að fara til Hollands, sækja fíkniefnin og flytja þau til Íslands, miðla til þeirra upplýsingum um símanúmer óþekkts vitorðsmanns í Hollandi, er skyldi afhenda fíkniefnin, koma til þeirra peningum og annast nauðsynleg samskipti við þá vegna fararinnar og síðar að móttaka fíkniefnin frá þeim hér á landi.  Ákærði afhenti meðákærða Y , í tvennu lagi, reiðufé, til að nota til farmiðakaupa og uppihalds vegna farar samverkamannanna, í fyrra skiptið, þriðjudaginn 3. október, á heimili sínu, er hann afhenti óþekkta peningafjárhæð, og í síðara skiptið, þriðjudaginn 10. október, á bifreiðastæði gegnt veitingahúsinu Argentínu við Barónsstíg 10a, er hann afhenti að minnsta kosti kr. 110.000.  Samverkamennirnir, sem meðákærði Y fékk til verksins, með samþykki ákærða, voru meðákærðu Guðmundur, Ingþór og Ómar Vagn, sbr. 2., 3. og 4. ákærulið.

2. Ákærði Y

lagði á ráðin með meðákærða X og tók að sér að annast samskipti við samverkamenn og móttaka frá þeim fíkniefnin hér á landi, sbr. 1. ákærulið.  Samkvæmt fyrrgreindum ráðagerðum, á sama tímabili, setti ákærði sig í samband við samverkamennina, meðákærðu Guðmund og Ingþór, hitti þá í nokkur skipti, hvorn í sínu lagi, fékk þá til að taka að sér að flytja fíkniefnin til landsins, kom áleiðis beiðni meðákærða Ingþórs og samþykki meðákærða X, að meðákærði Ómar Vagn kæmi þar einnig að verki sem samverkamaður, miðlaði upplýsingum til þeirra frá meðákærða X um fyrrgreindan óþekktan vitorðsmann í Hollandi og afhenti þeim peninga í reiðufé frá honum til farmiðakaupa og uppihalds og aðstoðaði við bókun farmiða.  Á tímabili frá 9. til 12. október var ákærði í símasamskiptum við meðákærðu Guðmund og Ingþór í Hollandi og naut aðstoðar meðákærða B að því er varðar samskipti við meðákærða Guðmund, samræmdi og samþykkti ráðagerðir um breytingar á farmiðum, útvegun peninga, afhendingu efnanna í Hollandi og flutning og móttöku þeirra á Íslandi, sbr. 3., 4. og 5. ákærulið.  Þriðjudaginn 10. október móttók ákærði reiðufé frá meðákærða X, sbr. 1. ákærulið, og kom því áleiðis til meðákærðu Ingþórs og Guðmundar í Hollandi, kr. 60.000, er ákærði millifærði í útibúi Landsbankans í Smáralind í Kópavogi, og kr. 50.000, er ákærði afhenti meðákærða B í bifreið við Barónsstíg og í Austurstræti og fól honum að leggja inn á bankareikning meðákærða Guðmundar, sbr. 5. ákærulið.

3. Ákærðu Ingþór og Ómar Vagn

tóku að sér, í félagi, í byrjun október, að beiðni meðákærða Y, að flytja til landsins hluta af umræddu kókaíni og móttóku frá honum upplýsingar og peninga, sbr. 1. og 2. ákærulið.  Ákærðu skiptu með sér verkum.  Að morgni föstudagsins 6. október fóru ákærðu til Hollands til að sækja fíkniefnin.  Á tímabili frá 7. til 11. október annaðist ákærði Ómar Vagn símasamskipti við óþekktan vitorðsmann í Amsterdam vegna afhendingar efnanna.  Miðvikudaginn 11. október móttók ákærði Ómar Vagn efnin frá óþekktum vitorðsmanni í Amsterdam.  Ákærðu fluttu efnin sama dag á hótel í borginni og höfðu efnin þar í vörslum sínum.  Á tímabili frá 10. til 12. október annaðist ákærði Ingþór símasamskipti við meðákærða Y á Íslandi og samræmdi ráðagerðir um móttöku og flutning efnanna til landsins og útvegun peninga til uppihalds og farmiðakaupa.  Að morgni fimmtudagsins 12. október fluttu ákærðu efnin til Kaup­mannahafnar og þaðan með flugi sama kvöld til Keflavíkurflugvallar, ákærði Ómar Vagn er bar efnin á sér og ákærði Ingþór er fylgdi honum.  Ákærðu fluttu efnin sama kvöld frá flugvellinum til Reykjavíkur og höfðu þau í vörslum sínum í bifreið ákærða Ingþórs er þeir voru handteknir síðar um kvöldið á Reykjanesbraut við Bústaðaveg og fundust efnin við leit í bifreiðinni.

4. Ákærði Guðmundur

tók að sér í byrjun október, að beiðni meðákærða Y, að flytja til landsins hluta af umræddu kókaíni, sbr. 1. og 2. ákærulið.  Ákærði fór laugardaginn 7. október til Hollands til að sækja fíkniefnin.  Mánudaginn 9. október fékk ákærði meðákærða B til að hafa milligöngu um samskipti við meðákærða Y og útvega hjá honum peninga til uppihalds og farmiðakaupa, sbr. 2. og 5. ákærulið.  Miðvikudaginn 11. október hafði ákærði samband við óþekktan vitorðsmann í Amsterdam, hitti hann á óþekktum stað í borginni og móttók frá honum efnin og flutti þau á hótel í borginni og hafði í vörslum sínum.  Síðar um kvöldið hafði ákærði símasamband við meðákærða Y og samræmdi ráðagerðir um farmiðakaup og flutning efnanna til landsins og naut við það aðstoðar meðákærða B, sbr. 2. og 5. ákærulið.  Að kvöldi fimmtu­dagsins 12. október flutti ákærði efnin til Kaupmannahafnar og daginn eftir hingað til lands með flugi til Keflavíkurflugvallar, en efnin fundust við leit á ákærða við komuna til landsins.

5. Ákærði B

samþykkti beiðni meðákærða Guðmundar um aðstoð og milligöngu þótt honum hafi þá og næstu daga þar á eftir hlotið að vera ljóst að peningarnir og boðskiptin voru vegna innflutnings fíkniefna, sem meðákærðu voru að flytja til landsins, sbr. 2. og 4. ákærulið.  Næstu daga á eftir var ákærði í símasamskiptum við meðákærða Guðmund í Hollandi og meðákærða Y hér á landi og bar á milli þeirra boð um útvegun peninga og breytingar á farseðli vegna fyrirhugaðrar ferðar meðákærða Guðmundar með fíkniefnin til landsins.  Þriðjudaginn 10. ágúst móttók ákærði peninga frá meðákærða Y, sbr. 2. ákærulið, og fór með þá síðar sama dag í útibú Landsbankans í Smáralind og lagði inn á bankareikning meðákærða Guðmundar.  Miðvikudaginn 11. október hafði ákærði milligöngu um að meðákærðu Guðmundur og Y töluðu síðar sama kvöld saman í síma og samræmdu ráðagerðir um farmiðakaup og flutning efnanna til landsins, er ákærði hitti meðákærða Y á veitingastaðnum Thorvaldsen Bar við Austurstræti 10 og lánaði honum síma sinn.

Heimfærsla til refsiákvæða:

                Háttsemi ákærðu X og Y telst varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.

                Háttsemi ákærðu Ingþórs, Ómars Vagns og Guðmundar telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

                Háttsemi ákærða B telst varða við sömu ákvæði og háttsemi ákærðu Guðmundar, Ingþórs og Ómars Vagns, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni.

Dómkröfur:

1. Að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

2. Að framangreind fíkniefni, sem lagt var hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.  Jafnframt að gerð verði upptæk samkvæmt sömu ákvæðum, 0,95 g af amfetamíni og 9,62 g af hassi, og enn fremur að gerð verði upptæk samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, slöngvubyssa, kastexi og butterfly hnífur, sem lagt var hald á við rannsókn málsins 17. október 2006 á þáverandi dvalarstað ákærða Guðmundar að Strandaseli 6 í Reykjavík.“

                Ákærðu X og B neita sök og krefjast sýknu.

                Ákærðu Guðmundur, Ingþór og Ómar Vagn játa sök og krefjast vægustu refsinga.

                Ákærði Y neitar sök að hluta til og krefst vægustu refsingar.

                Þess er krafist af hálfu allra ákærðu að sakarkostnaður falli á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjenda þeirra.

II

                Í gögnum málsins segir að rannsókn lögreglu á ætluðu fíkniefnamisferli ákærða X hafi hafist í desember 2005 eftir að nafn hans hafi ítrekað komið við sögu í öðrum rannsóknum lögreglunnar.  Í framhaldinu voru símar ákærða hleraðir auk þess sem hlerunarbúnaði var komið fyrir í bifreið hans.  Rannsóknin leiddi til þess að grunur féll einnig á aðra ákærðu og um mánaðarmót september og október 2006 var lögreglan þess fullviss að ákærðu væru að undirbúa innflutning á verulegu magni fíkniefna á næstunni. 

                Í skýrslum lögreglu kemur fram að frá og með 25. september hafi ákærði Y verið í símasambandi við ákærða X og þeir hist og ræðst við utan bifreiða sem þeir voru á.  Um svipað leyti hafi hafist símasamskipti ákærða Y við ákærðu Guðmund og Ingþór.  Ákærðu Ingþór og Ómar Vagn flugu til Hollands föstudaginn 6. október og ákærði Guðmundur daginn eftir.  Eftir að þeir voru komnir út hættu ákærðu X og Y áfram að vera í samskiptum, en þau hófust aftur eftir að ákærðu, sem voru úti, lentu í vandræðum vegna þess að fíkniefnin sem þeir áttu að sækja voru ekki tilbúin.  Vantaði þá fé til uppihalds og eins til að geta breytt farmiðum.  Ákærði Guðmundur hringdi í ákærða Y vegna þessa, en hann brást reiður við og vildi ekki hafa samskipti við hann.  Varð það til þess að ákærði Guðmundur leitaði til ákærða B og bað hann að hafa milligöngu um samskipti við ákærða Y.  Ákærði Y hafði hins vegar samskipti við ákærða Ingþór.  Í skýrslum lögreglu kemur fram að ákærði Y hafi verið í miklum samskiptum við ákærða X á sama tíma og hann var í framangreindum samskiptum við ákærða Ingþór og ákærða B.

                Ákærðu Ingþór og Ómar Vagn komu til landsins að kvöldi 12. október.  Þeim var hleypt óáreittum í gegnum tollskoðun, en veitt eftirför og þeir handteknir rétt fyrir miðnættið, þá komnir til Reykjavíkur.  Í fórum þeirra, nánar tiltekið í íþróttaskóm, fundust 298,04 grömm af efni sem niðurstöður rannsókna sýndu að var kókaín.  Daginn eftir voru ákærðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 24. október og sátu í því allan tímann.

                Ákærði Guðmundur var handtekinn 13. október er hann kom til landsins og í fórum hans, nánar tiltekið í skóm, fundust 403,50 grömm af efni sem niðurstöður rannsókna sýndu að var kókaín.  Ákærði var sama dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. október og sat í því allan tímann.  Við leit á heimili hans fundust þeir hlutir og fíkniefni sem í ákæru greinir og krafist er upptöku á.

                Ákærði Y var handtekinn 23. október og ákærði B sama dag.  Ákærði X var handtekinn 7. nóvember.  Ákærði Y var úrskurðaður í gæsluvarðhald 24. október til 3. nóvember, en það var síðan framlengt til 10. nóvember og aftur til 17. sama mánaðar.  Hann var látinn laus 15. nóvember.  Ákærði B var úrskurðaður í gæsluvarðhald 24. október til 3. nóvember og sat í því þann tíma.  Ákærði X var úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag og hann var handtekinn til 21. nóvember.  Ákærði var látinn laus 15. nóvember. 

                Sýnishorn af efnunum sem tekin voru af ákærðu voru rannsökuð og sýndu niðurstöður að um mjög sterkt kókaín var að ræða.  Jakob Kristinsson dósent, sem rannsakaði sýnin, staðfesti matsgerðir sem hann vann í málinu og staðfesti að um mjög sterkt efni hafi verið að ræða.  Af kókaíninu, sem ákærðu Ingþór og Ómar Vagn fluttu inn voru tekin 4 sýni og var magn kókaíns í þeim 79%, 81% og 84%.  Af efninu sem ákærði Guðmundur flutti inn voru tekin 2 sýni og var magn kókaíns í þeim 85%.

                Nú verður rakið í höfuðatriðum það sem fram kom við yfirheyrslur lögreglu.

                Ákærði X neitaði allri aðild að málinu og kvaðst ekki þekkja meðákærðu nema Y.  Þeir væru búnir að þekkjast í nokkur ár og upp á síðkastið hafi meðákærði verið að reyna að fá sig til að ganga í AA samtökin.  Ákærði kannaðist við að hafa lánað meðákærða peninga nýlega, 50 þúsund krónur.  Endurrit símhlustana og önnur gögn voru borin undir ákærða, en hann kvað þau ekki tengjast fíkniefnamisferli á nokkurn hátt.  Ákærði kvað sig, meðákærða Y og Jóhann Einar Björnsson hafa verið að áætla för til Amsterdam í byrjun október 2006.

                Ákærði Guðmundur bar hjá lögreglu að meðákærði Y hafi fengið sig til ferðarinnar og haft milligöngu á milli sín og þeirra sem áttu efnin, en hann kvaðst ekki vita nákvæmlega hverjir það voru.  Ákærði kvaðst hafa lent í peningavandræðum úti og hringt í meðákærða B til að biðja hann að hafa samband við meðákærða Y.  Ákærði gat ekki fullyrt að meðákærði B hafi vitað hverra erinda hann var erlendis.  Ákærði var yfirheyrður fyrir dómi áður en honum sleppt úr gæsluvarðhaldi og neitaði hann þá að nafngreina þá menn sem hefðu sent hann út og hann kvaðst skulda peninga. 

                Hjá lögreglu bar ákærði Ingþór að ákærði Y hefði fengið sig til að fara til Amsterdam og sækja fíkniefni til tiltekins manns.  Sér hafi jafnframt verið ljóst að ákærði Y var milliliður, en hann hafi ekki vitað hver raunverulega hafi staðið á bak við innflutninginn.  Ákærði Y hafi látið sig hafa fé fyrir ferðinni og upplýsingar um hvernig ætti að nálgast efnin ytra.

                Ákærði Y neitaði í fyrstu að tjá sig um málið við lögreglu, en við yfirheyrslu 1. nóvember 2006 skýrði hann frá því að meðákærðu Ingþór og Guðmundur hefðu beðið sig um að koma þeim í samband við menn er gætu sent þá til útlanda að sækja fíkniefni gegn greiðslu.  Í tilviki ákærða Guðmundar átti hann að vinna af sér upp í fíkniefnaskuld.  Ákærði kvaðst hafa komið þessu sambandi á og látið meðákærðu hafa peninga fyrir ferðakostnaði og upplýsingar um hvernig ætti að nálgast efnin úti.  Hann hafi einnig aðstoðað meðákærða Ingþór við farmiðakaup.  Það hafi verið ákærði Ingþór sem hafi fengið meðákærða Ómar Vagn með sér.  Ákærði kvað meðákærða Guðmund hafa að eigin frumkvæði hringt í meðákærða B og fengið hann til að hafa samband við sig vegna peningavandræða meðákærða Guðmundar.  Ákærði kvaðst þekkja meðákærða X en kaus að tjá sig ekki um samskipti þeirra undanfarið og heldur ekki hvort hann hefði tekið við peningum frá meðákærða.  Undir ákærða voru bornar upplýsingar um að hann hefði hitt meðákærða á tilteknum stöðum, en hann kaus að tjá sig ekki um það.  Undir ákærða voru bornar ýmsar upplýsingar sem lögreglan taldi tengja meðákærða X við málið en hann kaus að tjá sig ekki um þau atriði.  Spurður um áform um utanlandsför á næstunni kvaðst ákærði ekki hafa haft nein slík áform uppi, hvorki einn né með meðákærða X eða Jóhanni Einari Björnssyni.  Þá kvaðst hann ekki hafa fengið peninga að láni hjá meðákærða.

                Ákærði Ómar Vagn bar hjá lögreglu að meðákærði Ingþór hefði fengið sig með í förina og hafi hann átt að fá 500 þúsund krónur fyrir.  Ákærði kvaðst hafa hringt í mann ytra sem svo hafi komið með efnin til sín.  Ákærði kvað meðákærða hafa skýrt sér frá því að maður að nafni Nonni væri milliliður við innflutninginn og eigandi efnanna væri erlendis.

                Ákærði B kvað meðákærða Guðmund hafa hringt í sig frá útlöndum og beðið sig um peningalán og hafi hann millifært fé inn á reikning hans.  Hluta af þessu fé hafi hann fengið hjá meðákærða Y, en ákærði Guðmundur hafi beðið sig um að hafa samband við hann.  Ákærði kvaðst ekkert hafa komið nálægt innflutningi fíkniefna og ekki hafa vitað hvað meðákærði Guðmundur var að gera erlendis. 

                Vitnið Jóhann Einar Björnsson var spurt um áætlaða utanför þess og ákærðu X og Y.  Vitnið bar að þeir þrír hafi haft hug á að fara til útlanda í október 2006.

III

                Ákærði X kvaðst fyrir dómi vera saklaus af því sem á hann væri borið í ákærunni.  Hann kvaðst ekkert hafa komið nálægt innflutningi fíkniefna sem ákært er fyrir í málinu.

                Ákærði kvaðst þekkja meðákærða Y og hafa þekkt í að minnsta kosti 10 ár.  Í september og október 2006 kvaðst ákærði hafa verið í samskiptum við meðákærða eins og gerist meðal vina, en á þessum tíma hafi ekki verið meira um samskipti þeirra á milli en áður.  Hann hafi lánað meðákærða peninga í tvö skipti á þessum tíma, þar á meðal 60 þúsund krónur fyrir utan veitingahúsið Argentínu.  Á þessum tíma hafi þeir tveir og Jóhann Einar Björnsson verið að ráðgera utanför og hafi meðákærði verið að vinna að því að breyta farmiðum fyrir þá.  Lögreglan hleraði samtal milli ákærða, Jóhanns Einars, og meðákærða fyrir utan Argentínu 10. október 2006 og var það spilað í aðalmeðferðinni.  Þar kemur meðal annars fram að einhver segir: „Ég sagði þeim að bíða.“  Ákærði sagðist ekki vita um hvað væri verið að tala, nema hvað það tengdist væntanlegri utanför.  Síðar í samtalinu er talað um að láta þá koma seinni partinn og kvað ákærði þessi orð hafa heyrst rangt, þeir hafi ekki verið að tala um neitt slíkt.  Spurður um hvað honum og meðákærða fór á milli við Laugarnes­kirkju að kvöldi 12. september 2006 kvaðst ákærði ekki muna það.  Ákærði kvaðst hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma og hafi meðákærði verið að reyna að fá hann í meðferð.  Þeir hafi verið að ræða það og auk þess um daginn og veginn.  Upptaka af samtali í bifreið frá 25. september 2006 var spiluð fyrir ákærða, en það er samtal á milli hans og Jóhanns Einars.  Í því spyr Jóhann Einar hvenær sé næst og ákærði svarar að það sé meira en mánuður.  Ákærði sagðist ekki vita hvað átt væri við með hvað væri næst og heldur ekki svar hans um meira en mánuð.  Gögn varðandi fjölda símtala ákærða við meðákærða frá 11. júlí 2006 og áfram voru borin undir ákærða og honum bent á að samskipti þeirra virtust hafa aukist mikið í lok september.  Ákærði kvað meðákærða þá hafa verið kominn úr meðferð og hafi hann verið að reyna að koma sér í meðferð og væri það skýringin á miklum samskiptum þeirra.  Ákærða var bent á að hann og meðákærði hafi verið í miklum samskiptum á sama tíma og meðákærði var að útvega flugmiða fyrir þá meðákærðu sem sendir voru eftir fíkniefnunum.  Ákærði kvaðst ekkert hafa tengst því máli.  Þá var ákærða bent á símtal milli hans og meðákærða 3. október, en það hafi verið á sama tíma og meðákærði var í samskiptum við meðákærðu Guðmund og B.  Ákærði kvað hér hafa verið um tilviljun að ræða og ekki mundi hann eftir að hafa hitt meðákærða í framhaldi af símtalinu.  Einnig hafi það verið tilviljun að hann hafi hitt meðákærða um svipað leyti og meðákærðu voru afhentir peningar til farmiðakaupa.  Upplýsingar um önnur símtöl voru bornar undir ákærða, en þau voru um svipað leyti og meðákærði var í samskiptum við aðra meðákærðu um fíkniefnainnflutninginn og kvað ákærði um tilviljanir að ræða.  Ákærði ítrekaði að hann hefði engan þátt átt í fíkniefnainn­flutningnum.  Samtöl þeirra meðákærða hefðu aðallega snúist um tilraunir hans til að koma sér í meðferð en einnig um aðra hluti.  Hann kvaðst ekki hafa vitað að meðákærði hafi verið í samskiptum við menn í Hollandi á þessum tíma.  Ákærða var bent á að símtöl hans og meðákærða hefðu leitt til þess að þeir þurftu að hittast og enn fremur að á sama tíma hefði meðákærði verið í símasamskiptum við aðra meðákærðu sem ýmist voru í Hollandi eða hér á landi.  Ákærði kvaðst ekki hafa skýringar á þessu.  Þetta væru tómar tilviljanir.  Nánar spurður um framangreindan fund fyrir utan veitingahúsið Argentínu kvað ákærði sig, meðákærða og Jóhann Einar hafa skipulagt utanför 6. október og hafi þeir verið að ráðgast um hana á þessum fundi.  Þeir hafi misst af flugi og verið að ráðgera nýja för í stað hennar.

                Ákærði Guðmundur játaði sök.  Hann bar að hafa kynnst meðákærða Y fyrir 6 – 7 árum.  Ákærði kvaðst hafa skuldað fyrir fíkniefnum og hafi meðákærði stungið upp á því við hann að hann færi til útlanda að sækja fíkniefni.  Meðákærði hafi ekki verið í samskiptum við þá sem ákærði skuldaði fyrir fíkniefnum.  Þeir hafi hins vegar verið í samskiptum við þann sem stóð á bak við fíkniefnainn­flutninginn og hafi meðákærði vitað deili á honum.  Meðákærði hafi haft milligöngu um för hans fyrir sig.  Skuldin hafi verið um ein milljón og hafi ákærði átt að fá um 600 þúsund krónur af henni felldar niður sem endurgjald fyrir förina.  Meðákærði hafi látið sig hafa peninga fyrir flugfargjaldi og hafi þeir komið frá þeim sem stóð á bak við innflutninginn.  Hann hafi einnig látið sig hafa miða með símanúmeri á og skildist ákærða að númerið væri komið frá þeim sem átti efnin.  Þegar út var komið tafðist af einhverjum ástæðum að hann fengi efnin afhent og hafi hann orðið peningalaus, enda þurft að kaupa nýjan flugmiða og vera lengur á hóteli.  Ákærði kvaðst hafa haft samband við meðákærða B og beðið hann að hafa samband við meðákærða Y til að útvega peninga og leggja inn á reikning sinn.  Meðákærði B hafi engan þátt átt í fíkniefnainnflutningnum, haft hafi verið samband við hann vegna þess að hann var sameiginlegur vinur ákærða og meðákærða Y.  Ákærði kvaðst ekki hafa sagt meðákærða B hvað hann væri að gera þarna úti, en hann taldi meðákærða hafa grunað hvað hann væri að gera.  Ákærði kannaðist við að hafa beðið meðákærða B um að kanna með lögfræðing fyrir sig, enda hafi hann talið fullvíst að hann yrði handtekinn við komuna til landsins.  Ákærði kvað meðákærða Y hafa átt að taka við fíkniefnunum eftir að þau væru komin til landsins og koma þeim til þeirra sem áttu þau.  Þetta var ný áætlun en upphaflega hafi ákærði átt að skilja efnin eftir fyrir utan svalirnar heima hjá sér.  Hann kvað meðákærða Y hafa sagt sér í bæði skiptin hvernig tekið yrði við efnunum hjá honum.  Ákærði neitaði að gefa upp nöfn annarra manna en meðákærðu sem tengdust innflutningnum.  Hann hafi hins vegar vitað að meðákærði Y væri aðeins milliliður sem engu hefði ráðið um málin og ekki verið að innheimta skuldina.  Aðkoma meðákærða að málinu gagnvart sér hafi fyrst og fremst verið að aðstoða sig við að borga fíkniefnaskuld sína. 

                Ákærði Ingþór játaði sök.  Hann bar að hafa kynnst meðákærða Y í meðferð.  Ákærði kvaðst hafa átt frumkvæðið að því að hann fór í ferðina.  Sig hafi langað í utanför og haft orð á því við meðákærða.  Ákærði hafi síðan leitað til meðákærða Ómars Vagns og borið það undir meðákærða Y, en hann kvaðst ekkert vita hvort meðákærði hafi þurft að bera þetta undir aðra.  Ákærði kveðst ekki hafa haft samband við nokkurn annan hér á landi en meðákærða Y varðandi innflutninginn.  Úti í Hollandi hafi meðákærði Ómar Vagn hringt í manninn sem átti að afhenda þeim efnin.  Ákærði hafi hins vegar haft samband við meðákærða Y vegna þess að afhending efnanna dróst.  Hann kvað það hafa litið svo út sem meðákærði gæti ákveðið það sem ákveða þurfti í sambandi við ferðina og gæti tekið ákvarðanir fljótt og örugglega.  Aðrir hafi ekki átt þar hlut að máli.  Flugmiða sinn kvaðst ákærði hafa pantað sjálfur og ákveðið hvenær yrði farið.  Spurður um meðákærða A kvaðst ákærði ekki kannast við hann.

                Ákærði Y Arnarson neitaði sök að hluta til, það er að hafa staðið að skipulagningu og fjármögnun fíkniefnainnflutningsins.  Ákærði játaði að hafa átt tiltekinn þátt í innflutningnum eins og nánar verður rakið.  Upphaflega átti hann að afhenda meðákærðu símanúmer og leiðbeiningar um hvað þeir áttu að gera við efnin þegar þeir kæmu til baka.  Hann hafi ekki átt að fá greitt fyrir þetta, hann hafi verið að gera meðákærðu Guðmundi og Ingþóri greiða með milligöngunni.  Hans hlutverki átti að ljúka þegar þeir væru farnir út.  Hann neitaði því að meðákærði X hafi átt einhvern þátt í málinu.  Hann kvaðst ekki vilja nafngreina þann eða þá sem hafi átt efnin og í raun staðið á bak við innflutninginn.  Meðákærði B hafi ekkert vitað um fíkniefnainnflutninginn. 

                Ákærði kvað meðákærða Guðmund hafa leitað til sín í september 2006 vegna fíkniefnaskuldar og spurt sig hvort ákærði gæti aðstoðað hann.  Ákærði sagði honum að hann þekkti menn og gæti athugað málið fyrir hann.  Hann kvaðst síðan hafa farið í meðferð og hitt þar meðákærða Ingþór og sagt honum frá meðákærða Guðmundi og hvað hann væri með á prjónunum, en þeir tveir þekktust.  Meðákærði Ingþór hafi spurt hvort hann gæti tekið þátt í þessu og ætlaði ákærði að hjálpa þeim.  Ákærði kvaðst hafa rætt við fólk vegna þessara beiðna meðákærðu um að hann aðstoðaði þá með því móti að þeir flyttu fíkniefni til landsins.  Vel geti verið að það fólk hafi verið í sambandi við einhverja aðra.  Ákærði kvaðst svo hafa haft samband við meðákærðu í september eða október 2006 og afhent þeim miða með símanúmeri ytra og sagt þeim hvenær þeir ættu að fara, en þær upplýsingar hafi hann fengið frá öðrum.  Meðákærðu hafi vitað hvor af öðrum en ekki verið í samskiptum sín á milli.  Ákærði neitaði að hafa komið fram gagnvart meðákærðu sem aðalmaður.  Meðákærði Ingþór hafi síðar leitað til sín með bón um að meðákærði Ómar Vagn fengi einnig að vera þátttakandi í þessu og kvaðst ákærði hafa borið það undir aðra aðila sem hafi samþykkt meðákærða.  Næst hafi það gerst að ákærði var látinn hafa peninga fyrir farmiðum meðákærðu.  Ákærði hafi aðstoðað meðákærða Ingþór við farmiðakaup, en meðákærði Guðmundur hafi annast þau mál sjálfur.  Meðákærðu lentu í einhverjum vandræðum ytra og hafi meðákærði Ingþór haft samband við ákærða sem hafi aðstoðað hann.  Meðákærði Guðmundur hafi hins vegar haft samband við meðákærða B, enda hafi ákærði ekki viljað greiða úr málunum beint fyrir meðákærða Guðmund.  Það hafi verið á þennan hátt sem meðákærði B kom að málinu, en hann vissi ekki hvað var að gerast og kvaðst ákærði ekki hafa upplýst hann um það.  Þegar peningavandræði meðákærða Guðmundar komu upp kvaðst ákærði hafa haft samband við meðákærða X, sem væri æskufélagi sinn, og beðið hann að lána sér fé og hafi hann gert það.  Til að ræða þessi mál hafi þeir hist fyrir utan veitingahúsið Argentínu 10. október 2006.  Meðákærði B hafi X hafi ekki vitað til hvers peningarnir voru ætlaðir, en þeir hafi verið afhentir meðákærða B til að leggja inn á reikning meðákærða Guðmundar.  Spurður um fund á Thorvaldsensbar með meðákærða B kannaðist ákærði við að þá hafi meðákærði Guðmundur hringt í meðákærða B, en ákærði hafi talað við hann í síma B.  Hann kvað meðákærða ekki hafa verið viðstaddan á meðan.

                Ákærði staðfesti frásögn meðákærða Guðmundar um að upphaflega hafi ekki verið gert ráð fyrir að hann tæki við fíkniefnunum, en það hafi breyst við tafirnar ytra.  Ekki mundi ákærði hver kom skilaboðum um þetta til meðákærða Guðmundar.                 Ákærði var spurður um samskiptin við meðákærða X og bent á mikil símasamskipti sem byrjuðu í kringum 25. september 2006 og stóðu yfir á með meðákærðu voru erlendis og ákærði var í samskiptum við þá.  Ákærði kvað ekkert vera óeðlilegt við þessi samskipti þeirra.  Þeir hefðu verið vinir í 10 ár og hafi hann meðal annars verið að reyna að koma meðákærða í meðferð.  Ákærða var bent á að við lögreglurannsókn málsins hafi hann alfarið neitað að tjá sig um hugsanlegan þátt meðákærða X.  Ákærði vísaði til vináttu þeirra.  Meðákærði hafi lent í fangelsi vegna fíkniefnamisferlis og hafi hann ekki viljað bendla hann við eitt eða neitt varðandi þetta mál.  Ekkert óeðlilegt væri við þetta, enda hefði hann einnig neitað að tjá sig um ætlaðan þátt annarra manna í málinu.

                Ákærði var spurður um símtal sem lögregla hlustaði 25. september 2006 og hvort hann hefði hitt meðákærða að kvöldi þessa dags við Laugarneskirkju.  Hann kvaðst ekki muna eftir því og ekkert geta borið um samtalið sem var milli meðákærða X og Jóhanns Einars Björnssonar.  Hljóðritun af samtali fyrir utan veitingahúsið Argentínu var borið undir ákærða og kvaðst hann hafa þar verið að ræða við meðákærða.  Í samtalinu kemur fram að ákærði hafi sagt einhverjum að bíða og kvaðst hann ekki muna eftir því.  Samtal þeirra þarna hafi snúist um væntanlega ferð þeirra ákærðu og Jóhanns Einars til Amsterdam.  Ákærða var bent á að hann hafi ekki viljað tjá sig um þetta hjá lögreglu.  Hann skýrði það ekki, en sagðist alls ekki hafa átt við meðákærðu sem þá voru erlendis.  Varðandi þau orð í samtalinu þar sem ákærði segir að sextíuþúsund eigi að vera alveg nóg fyrir báða, kvaðst ákærði ekki muna um hvað var verið að ræða.  Hugsanlega hefði hann átt við að upphæðin myndi duga fyrir meðákærða og Jóhann Björn, en þeir höfðu misst af flugi.  Ákærða var bent á að sama dag hefði hann lagt þessa sömu upphæð inn á reikning meðákærða Ingþórs, en hann hafi þá verið í Hollandi.  Sama dag hafi hann afhent meðákærða B peninga til að leggja inn á reikning meðákærða Guðmundar.  Ákærði ítrekaði að þetta samtal hafi snúist um væntanlegt ferðalag ákærða, meðákærða X og Jóhanns Einars.  Honum var bent á að síðar í samtalinu tali hann um að þeir nái að breyta miðunum og kvaðst hann ekki muna þetta nákvæmlega og skýrði það ekki frekar.  Seinna í samtalinu er meðákærði að tala um þá og kvað ákærði meðákærða ekki hafa verið að tala um meðákærðu sem voru erlendis, enda hafi hann ekki vitað af þeim.  Í lok samtalsins er ákærði aftur að tala um þá og kvaðst hann ekki muna um hverja hann hafi verið að tala. 

                Samtal milli ákærða og meðákærða B frá 13. október 2006 var spilað fyrir ákærða.  Hann kvaðst ekkert muna eftir þessu símtali og kvaðst ekkert tjá sig um það. 

                Ákærði Ómar Vagn Snævarsson játaði sök.  Hann bar að meðákærði Ingþór hafi fengið sig til að taka þátt í að flytja inn fíkniefni eins og hann er ákærður fyrir.  Hann kvaðst ekki hafa átt samskipti við neinn annan hér á landi, en hann hafi haft samskipti við mann í Hollandi vegna þess að meðákærði tali ekki ensku.  Þeir hafi fengið efnin hjá þeim manni og voru þau falin í skó.  Hann hafi átt að fá 500 þúsund krónur fyrir þetta.  Ákærði kvaðst ekki vita hverjir stóðu á bak við innflutninginn hér á landi, en hann hafi þó heyrt símtöl meðákærða hingað til lands eftir að afhending efnanna hafði dregist.  Meðákærði hafi séð um farmiðakaup og annað er laut að skipulagningu ferðarinnar. 

                Ákærði B neitaði sök, en kvaðst þekkja meðákærðu Y og Guðmund og vita til þess að þeir þekkist.  Hann kvað meðákærða Guðmund hafa hringt í sig frá Amsterdam og beðið sig um peningalán þar eð hann væri kominn í vandræði þarna úti.  Ákærði kvað meðákærða hafa beðið sig að hafa samband við meðákærða Y til að fá peninga.  Hann gat ekki skýrt af hverju meðákærði Guðmundur hafði ekki beint samband við meðákærða Y.  Hann kvaðst hafa fengið peninga hjá meðákærða Y heima hjá honum en ekki við veitingahúsið Argentínu.  Þetta hafi verið 30 til 50 þúsund krónur.  Borin var undir hann lögreglurannsókn þar sem fram kemur að ákærði var talinn hafa veitt peningum viðtöku við Argentínu en hann kannaðist ekki við það.  Hann kvaðst hafa lagt peningana inn á reikning meðákærða Guðmundar.  Ákærði kvaðst ekkert hafa velt fyrir sér til hvers meðákærði þyrfti peningana, hann hafi bara verið að gera honum greiða.  Hann hafi vitað að meðákærði hafi notað fíkniefni en ekki tengt það við utanför hans fyrr en undir lokin þegar meðákærði hafi beðið sig að benda sér á lögfræðing.  Eftir þetta hafi ákærði lánað meðákærða Y síma á Thorvaldsensbar til að hann gæti talað við meðákærða Guðmund, en hann hafi ekki heyrt orðaskipti þeirra.  Það hafi hins vegar fyrst verið eftir að hann sá í Fréttablaðinu að maður hafi verið tekinn í Leifsstöð með fíkniefni að hann hafi farið að gruna í hvaða erindagjörðum meðákærði Guðmundur hafi verið úti.  Ákærða kvað sig ekki hafa grunað að meðákærði væri að flytja inn fíkniefni þegar hann lagði peningana inn á reikning meðákærða. 

                Undir vitnið Tryggva Lárusson var borið samtal sem hann átti við ákærða A 13. október 2006, en þar ræðir ákærði um gæsluvarðhald.  Vitnið kvað þá báða hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma og óttast lögregluna.  Líklegast hafi samtalið verið sprottið af því.  Vitnið var spurt um samtal á milli hans, ákærða X og Jóhanns Einars Björnssonar 5. október 2006.  Samkvæmt rannsóknargögnum telur lögreglan að fyrst hafi ákærði og Jóhann Einar rætt um bílaviðskipti, en eftir að vitnið bættist í hópinn hafi þeir rætt hugsanlega Amsterdamför ákærða og Jóhanns Einars.  Vitnið kvað þetta samtal hafa verið fyllirísrugl.

                Vitnið Jóhann Einar Björnsson kvaðst vera æskufélagi ákærða X og einnig þekkja ákærða Y.  Hann kvað þá hafa ætlað saman til útlanda í október 2006, en á þessum tíma hafi verið mikil óregla á sér og ákærða X.  Upptaka af samtali frá 25. september 2006 var spiluð fyrir vitnið og kvað það sig og ákærða X vera að ræða saman.  Jóhann Einar bar að þeir hafi ekki verið allsgáðir þarna, en samtalið hafi ekki tengst innflutningi fíkniefna.  Vitnið var á sama hátt spurt um samtal milli hans og ákærðu við veitingahúsið Argentínu.  Það kvað samtalið hafa snúist um væntanlega utanför þeirra og breytingu á farmiðum í sambandi við hana.  Þá minnti það að ákærði X hafi við þetta tækifæri lánað ákærða Y peninga, en hvort það tengdist ferðalagi þeirra vissi vitnið ekki.  Vitnið kvað ákærða X hafa greitt fyrir farmiða sinn og vitnisins, en ferðin hafi svo ekki verið farin.  Nánar spurt um ýmis atriði í samtalinu kvaðst vitnið ekkert geta upplýst um þau, en taldi að vísun til orðsins „þeirra“ gæti átt við starfsfólk ferðaskrifstofunnar.

                Vitnið Kjartan Bergur Ysson bar að hafa rætt við ákærða X og vitnið Tryggva 26. september 2006, en samtalið var hljóðritað.  Vitnið kvaðst muna ógreinilega eftir samtalinu.  Það hafi hitt ákærða og vitnið, sest inn í bíl þeirra og fengið sér tóbak í nefið. 

                Vitnið Y Ragnar Birkis Deller var spurt um samtal frá 13. október 2006 milli hans og ákærða X sem lögreglan hljóðritaði og telur fjalla um fíkniefnaeign ákærða.  Vitnið kvað símtalið ekki hafa fjallað um fíkniefni.  Vitnið og ákærði væru góðir vinir og bæri að líta á samtalið í því ljósi.

                Vitnið Garðar Hólm Birgisson, sölumaður fasteigna, kvaðst þekkja ákærða X.  Fyrir vitnið var leikin hljóðupptaka frá 17. október 2006 þar sem vitnið ræðir við ákærða.  Vitnið kvað þá hafa verið að ræða um fasteign á Akranesi sem vitnið var að selja fyrir ákærða, en þeir hafi ekki verið að ræða um fíkniefni.

                Steindór Ingi Erlingsson rannsóknarlögreglumaður stjórnaði rannsókn málsins.  Hann kvað hana hafa staðið í rúmt ár, en hún hafi hafist við það að nafn ákærða X hafi komið oft fyrir í öðrum rannsóknum.  Þetta hafi orðið til þess að lögreglan hóf að fylgjast með honum og hlera síma hans.  Þá hafi verið komið fyrir hljóðupptökubúnaði í bifreið hans.  Það var mat lögreglunnar að ákærði hafi greinilega verið í einhvers konar fíkniefnaviðskiptum og haft mikinn vara á sér.  Hljóðupptökur úr bifreiðinni hafi sýnt að þegar menn vildu ræða eitthvað fíkniefnatengt við ákærða hafi hann þaggað niður í þeim og sagt að við ræðum ekki um þetta hér inni.  Bílnum hafi verið lagt og þeir sem voru í honum hafi farið út.  Steindór Ingi bar að lögreglumenn hafi einnig séð að ákærði og menn sem voru í bifreiðinni hafi verið að skrifa eitthvað og skiptast á blöðum.  Varðandi samskipti ákærða við meðákærða Y bar Steindór Ingi að það hafi fyrst verið eftir fund við Laugarneskirkju 25. september 2006 sem samskipti meðákærða og ákærða hófust, fyrir þann tíma hafi sama og engin samskipti verið þeirra á milli.  Lögreglan hafi hlustað bíl ákærða X á þessum tíma. 

                Lögreglan hafi orðið vitni að og hlerað fund fyrir utan veitingahúsið Argentínu og þá hafi henni orðið ljóst að ákærði var í samskiptum við mann, meðákærða Y, sem var í samskiptum við menn sem voru erlendis og taldi hún að hann væri að bera skilaboð til svonefndra burðardýra.  Það hafi verið þá sem lögregla fékk grun um að meðákærði stæði að málinu með ákærða.  Eftir þennan tíma hafi samskipti ákærðu aukist mjög mikið og þeir verið nær daglega í samskiptum og eftir samskipti meðákærða við ákærða hafi meðákærði verið í samskiptum við þá sem fóru út og áttu að flytja fíkniefnin til landsins.  Það var mat lögreglunnar að þessi samskipti tengdust, enda voru bara nokkrar sekúndur á milli þessara símtala.  Steindór Ingi bar að aldrei hafi komið fram í samtölum ákærðu að meðákærði væri að reyna fá ákærða í vímuefnameðferð.  Ekkert í samtölunum hafi heldur bent til þess að ákærði hefði hug á að fara í slíka meðferð.  Þá hefur heldur ekki komið fram að ákærði hafi verið í sambandi við einhvern annan en meðákærða varðandi innflutninginn á fíkniefnunum. 

                Eftir að meðákærðu fóru út hafi samskipti ákærðu X og Y minnkað og jafnvel hætt þar til vandamál virtust hafa komið upp erlendis.  Steindór Ingi kvað það vel þekkt, þegar verið væri að flytja inn fíkniefni að þeir sem stæðu að innflutningnum væru í sem minnstum samskiptum við þá sem flyttu inn vegna þess að alltaf væri reiknað með því að lögreglan væri að fylgjast með.  Þegar vandræðin komu upp úti fóru ákærðu, sem þar voru staddir, að hafa samskipti við ákærða Y.  Í kjölfarið þurfti ákærði nauðsynlega að hitta ákærða X og virtist það hafa verið tilefni fundarins við veitingahúsið Argentínu 10. október 2006 sem lögreglan fylgdist með.  Steindór Ingi kvaðst hafa séð að ákærði X hefði farið inn í bílinn, en þeir ræddust við úti.  Hann sótti eitthvað sem virtust vera peningar og eins og taldi þá og afhenti ákærða Y.  Steindór Ingi tók fram að ákærðu hefðu ræðst við úti en ákærði X hefði gleymt að loka bílhurðinni og þess vegna hafi mátt greina samtal þeirra.  Í fram­haldinu hafi 60 þúsund krónur verið lagðar inn á reikning eins ákærðu sem voru erlendis.  Eftir að ákærðu hafi verið komnir með fíkniefnin til landsins hafi ákærðu X og Y verið í sambandi, bæði í síma og eins hist, eftir að ákærði Y hafði verið í sambandi við meðákærðu Ingþór og Ómar Vagn. 

                Þorbjörn Valur Jóhannsson rannsóknarlögreglumaður vann að rannsókn málsins að hluta til.  Hann kvaðst meðal annars hafa haft eftirlit með ákærða X.  Hann kvað tilganginn með því að hleypa ákærðu Ingþóri og Ómari Vagni í gegnum tollinn með fíkniefnin hafa verið þann að leiða lögregluna að þeim manni eða mönnum sem stæðu á bak við innflutninginn.  Fljótlega eftir að ákærðu voru komnir í gegn hafi þeir haft samband við ákærða Y og þeir mælt sér mót.  Ákærði Y hafi hringt í ákærða X strax eftir að ákærðu Ingþór og Ómar Vagn höfðu talað við hann en ekki náð sambandi við hann.  Hann hafi ekki náð sambandi við hann fyrr en eftir að lögreglan hafði handtekið ákærðu Ingþór og Ómar Vagn.  Ákærði Y hafi á þessum tíma verið að reyna að ná sambandi við ákærða A og það hafi að lokum tekist og þeir hist í framhaldinu við heimili ákærða Y.  Þorbjörn Valur kvað ekkert hafa komið fram í hlustunum sem benti til þess að ákærði Y væri að reyna að fá ákærða A í vímuefnameðferð.  Ekkert í málinu hafi bent til þess að ákærði X hefði hug á að fara í meðferð. 

IV

                Ákærði X hefur neitað sök frá upphafi rannsóknar málsins hjá lögreglu eins og rakið var. Enginn meðákærðu ber hann sökum og ekkert vitni hefur borið um aðild hans að ákæruefnunum.  Krafa ákæruvaldsins um sakfellingu ákærða byggist á því að önnur sönnunargögn, endurrit af hlustunum og samskipti hans við meðákærða Y, bendi svo sterklega til þess að hann sé aðalmaðurinn á bak við fíkniefnainnflutninginn að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa.

                Í III. kafla var framburður ákærðu rakinn.  Samkvæmt því sem þar kemur fram telur dómurinn sannað að ákærði Y hafi verið milliliður milli þess, eða þeirra, sem fjármögnuðu fíkniefnakaupin í Hollandi og flutning þeirra til landsins, og ákærðu Guðmundar, Ingþórs og Ómars Vagns sem fluttu þau til landsins.  Í rann­sóknargögnum lögreglu kemur fram að hún hóf að fylgjast með ákærða X um það bil ári áður en þetta mál kom upp.  Þegar leið að mánaðarmótum september og október 2006 jukust samskipti ákærða við meðákærða Y, þeir ræddust oft við í síma og hittust í framhaldinu.  Meðákærði hafði engin viðlíka samskipti við annan mann eða aðra menn á þessu tímabili.  Í Hollandi seinkaði afhendingu fíkniefnanna til meðákærðu, er þangað höfðu verið sendir, og höfðu þeir samband heim til að fá fé til að greiða kostnað við lengri dvöl og breytingar á farmiðum.  Þeir höfðu samband við meðákærða Y, ýmist beint eða óbeint, eins og lýst var.  Á sama tíma hófust aftur mikil samskipti milli hans og ákærða X, en þau höfðu legið niðri um hríð, eða frá því meðákærðu fóru til Hollands.  Þá ber að geta þess að ákærði Y sneri sér til ákærða X og fékk fé lánað hjá honum til að láta senda meðákærða Guðmundi.

                Við yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði ákærði Y alfarið að tjá sig um samskiptin við ákærða X á þessu tímabili, en þeir sátu báðir í einangrun í gæsluvarðhaldi. Fyrir dómi bar hann hins vegar að hann hafi verið að reyna að fá hann í meðferð vegna fíkniefnaneyslu og þess vegna rætt svona oft við hann.  Ákærði X bar á sama hátt, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi.  Þá kom fram hjá báðum að þeir hefðu þekkst lengi og væru góðir vinir og ekkert væri óeðlilegt við að þeir ræddust við.  Lögreglumenn sem unnu að rannsókn málsins báru hins vegar að í samtölum ákærðu hafi ekki komið fram að ákærði Y væri að reyna að fá ákærða X í meðferð.  Af efni þeirra hljóðrituðu samtala sem eru meðal gagna málsins verður ekki ráðið að ákærði Y hafi verið að hvetja ákærða X til að fara í meðferð eða ganga í AA samtökin.  Framburður ákærða X um að hann, ákærði Y og Jóhann Einar Björnsson hafi verið að ráðgera utanför styðst við framburð Jóhanns Einars hjá lögreglu og fyrir dómi, en ákærði Y kannaðist ekki við þessa ferð þegar hann var yfirheyrður í gæsluvarðhaldinu, en kannaðist hins vegar við hana fyrir dómi.  Af efni þeirra hljóðrituðu samtala sem eru meðal gagna málsins og eru á milli þessar þriggja, verður ekki ráðið að þau snúist um utanför þeirra. 

                Með játningu ákærða Y, sem styðst við önnur gögn málsins eins og rakið var, er sannað að hann var milliliður milli þess eða þeirra sem áttu fíkniefnin og þeirra meðákærðu sem sóttu þau til Hollands.  Á sama tíma var hann í miklum samskiptum við meðákærða X og hið sama gerist þegar dróst að afhenda fíkniefnin ytra.  Hann var ekki viðlíka mikið í samskiptum við aðra menn.

                Það er niðurstaða dómsins, þrátt fyrir neitun ákærða X, að ákæruvaldinu hafi tekist með framangreindum sönnunargögnum að sanna, svo hafið sé yfir skynsamlega vafa að ákærði hafi átt þann þátt í fíkniefnainnflutningnum sem hann er ákærður fyrir og verður hann því sakfelldur samkvæmt ákærunni, en brot hans er þar rétt fært til refsiákvæða.

                Ákærðu Guðmundur, Ingþór og Ómar Vagn hafa skýlaust játað sök sína og styðjast játningar þeirra við önnur gögn málsins eins og rakið hefur verið.  Þeir verða því sakfelldir samkvæmt ákærunni, en brot þeirra eru þar rétt færð til refsiákvæða.

                Ákærði Y játaði sök að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki hafa komið að skipulagningu og fjármögnun fíkniefnainnflutningsins.  Þegar litið er til framburðar ákærða og meðákærðu er ljóst að ákærði kom fram gagnvart meðákærðu sem skipuleggjandi og stjórnandi innflutningsins og það var hann sem greiddi og lét greiða úr málum ytra þegar meðákærðu lentu þar í vandræðum.  Í ákæru er honum ekki sérstaklega gefið að sök að hafa átt þátt í fjármögnuninni og því þarflaust að fjalla frekar um það.  Að þessu athuguðu og með vísun til játningar ákærða, sem styðst við önnur gögn málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru en brot hans er þar rétt fært til refsiákvæða.

                Ákærði B neitaði sök, en hefur kannast við að hafa leitað til meðákærða Y og komið til hans boðum frá meðákærða Guðmundi um fjárskort hans í Hollandi eins og rakið var.  Framburður meðákærðu leiðir ekki líkur að því að ákærða hafi verið ljóst þegar hann tók að sér að aðstoða meðákærða Guðmund að hann væri ytra í fíkniefnaleiðangri.  Ákærði hefur hins vegar borið að sig hafi farið að gruna, eftir að meðákærði var kominn til landsins og hafði verið handtekinn, í hvaða tilgangi hann hafi farið út.  Að svo vöxnu máli, og gegn neitun ákærða, er ekki komin fram lögfull sönnun um að hann hafi átt þá hlutdeild í brotum meðákærðu Guðmundar og Y sem hann er ákærður fyrir og verður hann þar af leiðandi sýknaður af ákærunni.

                Ákærði X var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað 1996 og aftur 1997.  Árið 2000 var hann dæmdur í 5 mánaða fangelsi, þar af 4 mánuði skilorðsbundið, fyrir áfengislagabrot og sama ár var hann dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot.  Þá hefur ákærði nokkrum sinnum verið sektaður fyrir áfengis- og umferðarlagabrot.  Eftir að hann framdi brot það sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur hann tvívegis verið sektaður fyrir umferðarlagabrot.

                Ákærði Guðmundur hefur frá árinu 2000 verið sektaður 7 sinnum fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot, síðast 15. janúar sl.  Árið 2003 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot.

                Ákærði Ingþór var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot árið 2002 og árið eftir í skilorðsbundið 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað.  Aftur var hann dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi árið 2005 fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot.  Þann 25. október 2006 var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir hylmingu, gripdeild, tilraun til þjófnaðar, rán, skjalafals og fíkniefnalagabrot og 14. mars 2007 var hann dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir fjársvik og skjalafals.  Tveimur síðastgreindu dómunum var áfrýjað til Hæstaréttar sem dæmdi ákærða í 18 mánaða fangelsi 22. nóvember 2007.  Þann 13. nóvember 2007 hafði hann auk þess verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir rán.  Þá eru ótalin þau 12 skipti sem ákærði hefur verið sektaður fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot á árunum 1998 til 2006.

                Ákærði Y var sakfelldur fyrir þjófnað árið 2001 en ekki gerð refsing.  Hann var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi árið 2003 fyrir fíkniefnalagabrot og aftur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið árið 2004 fyrir hegningar- og vopnalaga­brot.  Árið 2005 var hann dæmdur í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi fyrir umferðar­lagabrot.  Frá árinu 2000 hefur hann verið sektaður 10 sinnum fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot, síðast 31. janúar sl.

                Ákærði Ómar Vagn var dæmdur í skilorðsbundið 45 daga fangelsi fyrir þjófnað árið 1995.  Árið 2002 var hann tvívegis dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot.  Árið 2004 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir umferðarlaga­brot og í 75 daga og 90 daga fangelsi árið 2006 fyrir samskonar brot.  Þá hefur hann 4 sinnum verið sektaður fyrir umferðar- og hegningarlagabrot og einu sinni sakfelldur en ekki gerð refsing fyrir vopnalagabrot.

                Refsing ákærða X er ákveðin fangelsi í 2 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og nánar greinir í dómsorði.

                Ákærði Guðmundur skal sæta fangelsi í 12 mánuði, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og nánar greinir í dómsorði.

                Ákærði Ingþór skal sæta fangelsi í 6 mánuði, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og nánar greinir í dómsorði.

                Ákærði Y skal sæta fangelsi í 2 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og nánar greinir í dómsorði.

                Ákærði Ómar Vagn skal sæta fangelsi í 9 mánuði, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og nánar greinir í dómsorði.

                Við ákvörðun refsinga allra ákærðu, nema Ómars Vagns, er höfð hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga.

                Haldlögð fíkniefni og vopn skulu gerð upptæk til ríkissjóðs eins og krafist er í ákæru og með vísun til þar greindra lagaákvæða.

                Sakarkostnaður, annar en málsvarnarlaun, er samtals 401.332 krónur og verða ákærðu X og Y dæmdir til að greiða þá fjárhæð óskipt.  Ákærðu Ingþór og Ómar Vagn skulu greiða 263.998 krónur af þessari fjárhæð óskipt með ákærðu X og Y.  Ákærði Guðmundur skal greiða 137.334 krónur af framangreindum heildarkostnaði óskipt með ákærðu X og Y.

                Ákærði X skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðarsonar hdl., 1.133.199 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði Guðmundur skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Erlendar Þórs Gunnarsonar hdl., 620.508 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Einnig skal hann greiða þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Önnu Lindu Bjarnadóttur hdl., 179.452 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði Ingþór skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði Y skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Bjarna Haukssonar hdl., 1.213.460 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

   Ákærði Ómar Vagn skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sveins Andra Sveinssonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða B, Brynjar Níelssonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti skulu greidd úr ríkissjóði.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

                Ákærði X sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 7. til 15. nóvember 2006.

                Ákærði Guðmundur Smárason sæti fangelsi í 12 mánuði, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 13. til 24. október 2006.

                Ákærði Ingþór Halldórsson sæti fangelsi í 6 mánuði, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 13. til 24. október 2006.

                Ákærði Y Arnarson sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 24. október til 15. nóvember 2006.

                Ákærði Ómar Vagn Snævarsson sæti fangelsi í 9 mánuði, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 13. til 24. október 2006.

                Ákærði B er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.

                Upptæk til ríkissjóðs skulu vera 701,54 grömm af kókaíni, 0,95 grömm af amfetamíni, 9,62 grömm af hassi, slöngvubyssa, kastöxi og butterfly hnífur.

                Ákærðu X og Y skulu greiða óskipt 401.332 krónur í sakarkostnað.  Ákærðu Ingþór og Ómar Vagn skulu greiða 263.998 krónur af þessari fjárhæð óskipt með ákærðu X og Y.  Ákærði Guðmundur skal greiða 137.334 krónur af framangreindum heildarkostnaði óskipt með ákærðu X og Y.

                Ákærði X skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Gríms Sigurðarsonar hdl., 1.133.199 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði Guðmundur skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Erlendar Þórs Gunnarsonar hdl., 620.508 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Einnig skal hann greiða þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Önnu Lindu Bjarnadóttur hdl., 179.452 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði Ingþór skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði Y skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Bjarna Haukssonar hdl., 1.213.460 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði Ómar Vagn Snævarsson skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sveins Andra Sveinssonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða B, Brynjar Níelssonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti skulu greidd úr