Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2013


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Stjórnvaldsákvörðun


                                     

Fimmtudaginn 6. júní 2013.

Nr. 55/2013.

Arion banki hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Fjármálaeftirlitinu og

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Dróma hf.

(Hlynur Jónsson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Slit. Stjórnvaldsákvörðun.

Með ákvörðun 21. mars 2009 tók FME yfir vald hluthafafundar SPRON hf., vék stjórn bankans frá störfum og skipaði skilanefnd yfir honum. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi A hf. meðal annars taka yfir skuldbindingar SPRON hf. vegna innstæðna í bankanum. Þá skyldi stofnað sérstakt hlutafélag í eigu SPRON hf., D hf., sem átti meðal annars að taka yfir skuldbindingar gagnvart A hf. vegna yfirtöku A hf. á innstæðuskuldbindingum SPRON hf. Sem endurgjald fyrir þessar skuldbindingar skyldi D hf. gefa út skuldabréf til A hf. D hf. og A hf. komu sér ekki saman um vaxtakjör af skuldabréfinu og tók FME ákvarðanir um vaxtakjör þess. Í málinu krafðist A hf. þess að hluti einnar ákvörðunar FME, sem laut að afnámi vaxtaálags eftir nánar tilgreint tímamark, yrði felldur úr gildi, þannig að eftir stæði áður ákvarðað vaxtaálag FME samkvæmt fyrri ákvörðun þess. Talið var að rökstuðningur FME fyrir breyttu vaxtaálagi væri ítarlegur. Þá var hann ekki byggður á röngum forsendum eða ólögmætum sjónarmiðum og í fullu samræmi við boðaðar forsendur samkvæmt fyrri ákvörðun FME um vaxtakjör og vaxtagreiðslur. Að auki voru heimildir FME til töku ákvörðunarinnar ótvíræðar en hún hafði verið tekin á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 161/2002. Þá hefði A hf. mátt eiga von á þessari breytingu í ljósi endurskoðunarákvæðis í fyrri ákvörðun FME. Voru FME og D hf. því sýknuð af kröfu A hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2013. Hann krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun stefnda Fjármálaeftirlitsins 4. febrúar 2011, sem tekin var vegna ágreinings milli áfrýjanda og stefnda Dróma hf. um vaxtakjör og vaxtagreiðslur á skuld þess síðarnefnda við áfrýjanda samkvæmt samningi 22. júní 2009 er gerður var í kjölfar yfirtöku áfrýjanda sem þá hét Nýi Kaupþing banki hf., á innstæðum í SPRON hf., að því er varðar niðurfellingu 1,75% vaxtaálags á REIBOR-vexti frá 30. júní 2010 og þar til skuldin hefur verið greidd að fullu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, hvor fyrir sitt leyti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi tiltók stefndi Fjármálaeftirlitið í ákvörðun sinni 5. júní 2009, um ágreining áfrýjanda og meðstefnda Dróma hf. um vaxtakjör og vaxtagreiðslur af skuld hins síðarnefnda, að því væri heimilt að taka ákvörðunina til endurskoðunar að beiðni aðila á sex mánaða fresti og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar á yfirteknum innlánum, kostnaði og áhættu sem áfrýjandi tæki á sig og öðrum atvikum. Stefndi Drómi hf. krafðist 2. desember 2009 endurskoðunar á ákvörðuninni. Þeirri endurskoðun lauk með nýrri ákvörðun 4. febrúar 2011, sem áfrýjandi leitast nú við að hnekkja að hluta. Í héraðsdómi er einnig lýst þeim breytingum, sem stefndi Fjármálaeftirlitið taldi að orðið hefðu á forsendum sem ákvörðun þess 5. júní 2009 var reist á og hvaða forsendur hennar væru enn óbreyttar. Ákvörðunin 4. febrúar 2011 er á því reist að tilgreindar forsendur fyrri ákvörðunar hafi breyst.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um ógildingu fyrst og fremst á því að það sé rangt mat af hálfu stefnda Fjármálaeftirlitsins að ábyrgð íslenska ríkisins á skuldbindingu stefnda Dróma hf. samkvæmt samningnum hafi fyrst komið til eftir ákvörðunina 5. júní 2009. Við töku þeirrar ákvörðunar hafi verið gengið út frá því sem vísu að íslenska ríkið myndi ábyrgjast skaðleysi áfrýjanda vegna yfirtöku innlánsskuldbindinganna. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um þennan þátt, en óumdeilt er í málinu að stefndi Fjármálaeftirlitið var að lögum bært til að taka ákvörðunina. Þá verður einnig staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákvörðun stefnda Fjármálaeftirlitins um að niðurfelling 1,75% vaxtaálagsins skuli taka gildi frá 30. júní 2010, verði ekki hnekkt.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefndu hvorum um sig málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Arion banki hf., greiði stefndu, Fjármálaeftirlitinu og Dróma hf., málskostnað fyrir Hæstarétti, hvorum um sig 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2012.

                Mál þetta er höfðað með stefnu 3. maí 2011, og tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 16. september sl. Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, en stefndu Fjármálaeftirlitið, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík og Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 4. febrúar 2011, ,,vegna ágreinings um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli Arion banka hf. og Dróma hf. vegna samnings um endurgreiðslu skuldar, sem gerður var í kjölfar yfirtöku Nýja Kaupþings banka hf. á innstæðum SPRON hf.“, að því er varðar niðurfellingu 1,75% vaxtaálags á REIBOR-vexti af skuld stefnda Dróma hf. við stefnanda, samkvæmt samningi um endurgreiðslu skuldar dagsettum 22. júní 2009, frá 30. júní 2010 þar til skuldin hefur verið að fullu greidd upp. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndu krefjast sýknu og greiðslu málskostnaðar.

I

Málsatvik

                Stefndi, Fjármálaeftirlitið, tók ákvörðun 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og neytti um leið heimildar í þágildandi 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í félaginu, víkja stjórn þess frá og setja yfir það skilanefnd. Jafnframt var meðal annars ákveðið þar að Nýi Kaupþing banki hf., sem nú ber nafn stefnanda, tæki í meginatriðum yfir skuldbindingar sparisjóðsins vegna innstæðna og ábyrgða fyrir efndum fyrirtækja og einstaklinga og vegna innflutnings og útflutnings. Stofnað yrði sérstakt hlutafélag í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., sem tæki við öllum eignum og tryggingarréttindum sparisjóðsins, en einnig við skuld hans við stefnanda vegna yfirtöku þess síðarnefnda á fyrrgreindum skuldbindingum. Fyrir þeirri skuld ætti nýja hlutafélagið að gefa út skuldabréf til stefnanda og skyldu allar eignir félagsins og hlutabréf í því sett honum að veði til tryggingar skuldinni. Tekið var fram að tryggja skyldi að vextir af skuldabréfinu stæðu undir kostnaði og áhættu vegna þessara ráðstafana. Ljúka átti aðgerðum á grundvelli ákvörðunarinnar ekki síðar en 6. apríl 2009, en sérstakur fyrirvari var gerður í henni um að stefndi, Fjármálaeftirlitið, gæti gert á henni hvers kyns breytingar. Í samræmi við þessa ákvörðun var stofnað hlutafélag til að taka við eignum og tryggingarréttindum sparisjóðsins og er það stefndi, Drómi hf.

                Tafir urðu á að hrinda öllum atriðum samkvæmt framangreindri ákvörðun í framkvæmd og tók stefndi, Fjármálaeftirlitið, þrívegis nýjar ákvarðanir til að framlengja fresti í þessu skyni, þar á meðal til að ljúka yfirfærslu eigna og útgáfu skuldabréfs og tryggingarskjala, síðast til 5. júní 2009. Þá tók stefndi, Fjármálaeftirlitið, jafnframt ákvörðun 17. apríl sama ár um að bæta eftirfarandi ákvæðum við fyrirmæli í upphaflegu ákvörðuninni um útgáfu skuldabréfs og tryggingarskjala til stefnanda: „Ef ágreiningur er með aðilum sker Fjármálaeftirlitið úr. Skilanefnd SPRON hf. er óheimilt að ráðstafa eignum SPRON hf., nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins, fram að útgáfu skulda- og tryggingarskjala ... en eftir það tímamark skal ráðstöfun eigna SPRON hf. vera í samræmi við skilmála umræddra skjala. Útgáfa skulda- og tryggingarskjala skal háð endanlegu samþykki Fjármálaeftirlitsins.“ Um stoð fyrir þessari ákvörðun var vísað til áðurnefndrar 100. gr. a. laga nr. 161/2002.

                Enn tók stefndi, Fjármálaeftirlitið, ákvörðun 5. júní 2009, þar sem vísað var til upphaflegrar ákvörðunar stefnda og ákvörðunarinnar frá 17. apríl sama ár, svo og að stefnda hafi orðið ljóst 29. maí 2009 að samkomulag tækist ekki milli stefnanda og stefnda, Dróma hf., um „vaxtakjör og vaxtagreiðslur.“ Í þessari síðustu ákvörðun sagði meðal annars eftirfarandi: „Það er ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að skuldin skuli bera ársvexti, sem skulu vera jafnir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði (REIBOR vöxtum eins og þeir eru skráðir af Seðlabanka Íslands ...) að viðbættu 1,75% vaxtaálagi frá þeim tíma þar til skuldin hefur verið að fullu greidd upp. Vextir skulu reiknast frá yfirtökudegi innlána og skulu greiðast mánaðarlega inn á reikning sem kröfuhafi tilgreinir. Vextir reiknast þannig að á ársgrundvelli er margfaldað með fjölda daga og deilt í með 360. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka ákvörðun þessa til endurskoðunar að beiðni aðila á sex mánaða fresti og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar á yfirteknum innlánum, kostnaði og áhættu sem Nýja Kaupþing hf. tekur á sig, sem og öðrum atvikum.“

                Eftir að stefndi, Fjármálaeftirlitið, tók síðastgreinda ákvörðun gerðu stefnandi og stefndi, Drómi hf., samning 22. júní 2009 „um endurgreiðslu skuldar“, þar sem stefndi viðurkenndi að skulda stefnanda 96.700.000.000 krónur, sem greiða ætti eftir nánari ákvæðum samningsins. Um vexti af skuldinni sagði meðal annars eftirfarandi: „Skuldari lofar að greiða vexti af höfuðstól skuldarinnar, eins og hún er á hverjum tíma, og skulu þeir vera þeir vextir sem Fjármálaeftirlitið ákveður á hverjum tíma, sbr. ákvörðun þess frá 5. júní 2009, nú eins mánaðar vextir á íslenskum millibankamarkaði (REIBOR vextir) að viðbættu 1,75% álagi. ... Vextir reiknast frá yfirtökudegi innlána 21. mars 2009. Vexti skal greiða einu sinni í mánuði þann 5. hvers mánaðar þar til skuldin hefur verið að fullu endurgreidd. Vextir eru greiddir eftirá fyrir hvert vaxtatímabil fyrir sig. Fyrsta vaxtatímabilið skal vera frá upphafsdegi vaxta til 5. júlí 2009 er næsta vaxtatímabil hefst. Fyrsti gjalddagi vaxta er því þann 5. júlí 2009.“

                Með bréfi 2. desember 2009 til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, leitaði stefndi, Drómi hf., eftir því að ákvörðun þess fyrrnefnda frá 5. júní sama ár yrði tekin til endurskoðunar „um vaxtakjör“ af skuldbindingu þess síðarnefnda við stefnanda. Meðferð þessa erindis lauk stefndi, Fjármálaeftirlitið, með ákvörðun 4. febrúar 2011 „vegna ágreinings um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli Arion banka hf. og Dróma hf. vegna samnings um endurgreiðslu skuldar sem gerður var í kjölfar yfirtöku Arion banka hf. á innstæðum í SPRON hf.“ Niðurstaða þessarar ákvörðunar var sú að vextir af skuld stefnda, Dróma hf., skyldu vera þeir sömu og ákveðnir voru 5. júní 2009 vegna tímabilsins frá „yfirtökudegi“ til og með 30. júní 2010, en frá þeim tíma skyldu greiðast ársvextir, sem væru jafnháir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði, án vaxtaálags. Í þessari ákvörðun voru að öðru leyti endurtekin efnislega óbreytt þau atriði, sem greindi í niðurstöðu ákvörðunarinnar frá 5. júní 2009.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Af hálfu stefnanda er þess krafist að ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 4. febrúar 2011, verði felld úr gildi, þ.e. hvað varðar afnám vaxtaálags eftir 30. júní 2010. Af því leiði jafnframt, að mati stefnanda, að áður ákvarðað 1,75% vaxtaálag, sbr. ákvörðun 5. júní 2009, standi óhaggað að þessu leyti frá 30. júní 2010.

                Samkvæmt hinni umþrættu ákvörðun, þ.e. um afnám vaxtaálagsins, hafi hún byggt á tilteknum grundvallarforsendum, þ. á m. að mjög hafi dregið úr áhættu stefnanda frá því að ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 5. júní 2009 hefði verið tekin. Að ástæðu þessa mætti rekja til skaðleysisyfirlýsingar fjármálaráðuneytisins, frá 20. ágúst 2009, en áhrif hennar hefðu í för með sér að eiginfjárbinding vegna skuldaskjalsins yrði engin. Þá lægi fyrir að stefnandi hefði tekið tillit til skaðleysisyfirlýsingarinnar í skýrsluskilum til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar. Fengist því ekki annað séð en að stefnandi liti svo á að núverandi skaðleysisyfirlýsing væri fullnægjandi. Varðandi þessa grundvallarforsendu ákvörðunar stefnda, Fjármálaeftirlitsins, þá leyfi stefnandi sér að benda á að við töku hinnar upphaflegu ákvörðunar 5. júní 2009, þegar vaxtaálag hafi verið ákvarðað, hafi verið lagt til grundvallar, og gengið út frá því sem vísu að mati stefnanda, að íslenska ríkið myndi ábyrgjast skaðleysi stefnanda vegna yfirtöku innlánsskuldbindinganna. Hefði enda að öðrum kosti verið ótækt, og andstætt lögum um fjármálafyrirtæki, með stjórnvaldsákvörðun að færa slíka skuldbindingu yfir á stefnanda sem fjármálafyrirtæki. Hafi skuldbindingin þá numið um 94.000.000.000 króna, sem hafi verið langt umfram heimildir fjármálafyrirtækis til lánveitinga til einstakra aðila, sbr. 30. gr. laga nr. 161/2002, en á þessum tíma hafi eigið fé stefnanda verið um 75.000.000.000 króna. Hefði  vaxtaálagið enda að öðrum kosti orðið mun hærra en 1,75% að mati stefnanda. Sé þá jafnframt til þess að líta að stefndi, Drómi hf., sé umsýsluaðili eigna fyrir fyrirtæki sem sé í slitameðferð, þ.e. SPRON, og þar sem endurheimta eigna sé háð verulegum óvissuþáttum eðli málsins samkvæmt. Þá verði heldur ekki séð að stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi getað fellt umrædda skuldbindingu á hlutafélag, sem lúti almennum reglum laga um hlutafélög, án þess að samhliða væri félaginu tryggt skaðleysi af slíkri yfirtöku. Hafi framangreind sjónarmið í reynd verið staðfest í áðurgreindu bréfi fjármálaráðuneytisins til stefnanda, frá 20. ágúst 2009, en í bréfinu hafi meðal annars verið tiltekið að innstæður í SPRON hafi fallið undir yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008 og teldust því að fullu tryggðar af ríkissjóði þótt skuldbindingunum hafi verið ráðstafað til stefnanda. Hafi beinlínis verið lagt til grundvallar að ríkisábyrgð væri til staðar, vegna innstæðna, á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008. Hafi þetta síðan verið áréttað í samningi fjármálaráðherra við skilanefnd Kaupþings banka hf., 17. júlí 2009, þar sem því hafi verið lýst yfir að stjórnvöld myndu halda Kaupþingi banka hf. og stefnanda skaðlausum vegna kröfu stefnanda á hendur stefnda, Dróma hf. Í endanlegri samningsgerð sömu aðila hafi verið gert ráð fyrir því að stjórnvöld lýstu yfir sömu skuldbindingu. Jafnframt að skuldbinding ríkissjóðs að þessu leyti byggði á ákvæðum 1. gr. laga nr. 125/2008, sem þáttur í framkvæmd þeirrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar að tryggja innstæður á Íslandi, sem og þeim aðgerðum sem gripið hafi verið til gagnvart SPRON hf. og eigi sér stoð í áðurgreindum lögum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í ljósi þess sem að framan sé rakið fái stefnandi ekki ráðið að sú grundvallarforsenda ákvörðunar stefnda, Fjármálaeftirlitsins, fyrir afnámi vaxtaálags í ákvörðun sinni 4. febrúar 2011, þ.e. veiting ríkisábyrgðar, fái staðist enda hafi hin upphaflega vaxtaákvörðun, þar sem gagngert hafi verið gert ráð fyrir vaxtaálagi, á sömu forsendu að mati stefnanda, þ.e. að í reynd væri ríkisábyrgð til að dreifa á innstæðum sem fluttar hafi verið til stefnanda með ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009.

                Rétt sé að ítreka, með tilliti til atvika sem orðið hafi haustið 2008 og vorið 2009, forsendur þess sem legið hafi til grundvallar bréfi fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2009. Á þeim tíma hafi ríkisstjórnin lýst yfir ábyrgð á innstæðum. Hafi yfirlýsingin verið skilin á þann veg að ríkið myndi beita sér fyrir aðgangi almennings að innstæðum. Þannig hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, tekið ákvörðun í október 2008 um yfirfærslu innstæðna til nýrra banka, sem stofnaðir hafi verið af ríkinu. Þegar komið hafi að því að SPRON hafi verið tekinn til slitameðferðar hafi önnur leið verið farin sem þó hafi gert ráð fyrir ábyrgð ríkisins. Innstæður hafi þannig verið fluttar til stefnanda, sem þegar hafi verið starfandi fjármálafyrirtæki, á grundvelli laga nr. 125/2008, með stoð í yfirlýsingunni. Bréf fjármálaráðuneytisins styðji þann skilning að þetta hafi verið gert á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, enda sé vísað í neyðarlögin frá haustinu 2008. 

                Af öllu framangreindu leiði að umþrætt ákvörðun um afnám vaxtaálags sé byggð á röngum forsendum. Nánar tiltekið á grundvelli veitingar ríkisábyrgðar sem hafi hins vegar þegar verið til staðar og ætla verði jafnframt að hafi legið til grundvallar hinni upphaflegu ákvörðun um 1,75% vaxtaálag á REIBOR. Ákvörðunin sé að þessu leyti haldin ógildingarannmörkum, þ.e. efnislegum annmörkum sem hljóti jafnframt að teljast verulegir. Ákvörðunin hafi jafnframt byggt að þessu leyti á ómálefnalegum sjónarmiðum. Sé hún því ljóslega ógildanleg þegar af þessum ástæðum. Til viðbótar þessu telji stefnandi hafið yfir vafa að sú staðreynd, ein sér, að vaxtaálag hafi verið afnumið afturvirkt, þ.e. frá 30. júní 2010, og stefnandi því í reynd sviptur þegar áunnum vöxtum, leiði til ógildingar ákvörðunarinnar, sbr. meðal annars eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Fái alls ekki staðist að stjórnvald geti svipt aðila þegar áunnum fjárhagslegum réttindum, samkvæmt fyrri stjórnvaldsákvörðun, nema samkvæmt skýru lagaboði. Þeim áskilnaði sé hins vegar ekki fullnægt. Þegar af þessum ástæðum beri að fallast á kröfu stefnanda.

                Um lagarök vísar stefnandi meðal annars til ógildingarreglna stjórnsýsluréttar. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III 

Málsástæður og lagarök stefnda Fjármálaeftirlitsins

                Af hálfu stefnda, Fjármálaeftirlitsins, er á því byggt að hina umdeildu ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, megi rekja til ákvörðunar stefnda frá 21. mars 2009. Með ákvörðun sinni 5. júní 2009 hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, áskilið sér rétt til að taka ákvörðun sína til endurskoðunar að beiðni aðila á sex mánaða fresti og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar á yfirteknum innlánum, kostnaði og áhættu sem stefnandi tæki á sig, sem og öðrum atvikum. Þann 2. september 2009 hafi stefnda, Fjármálaeftirlitinu, borist beiðni frá meðstefnda, Dróma hf., þess efnis að endurskoða fyrrgreinda ákvörðun frá 5. júní 2009. Hafi stefnda, Fjármálaeftirlitinu, því verið rétt og skylt að taka ákvörðun sína frá 5. júní 2009 til endurskoðunar. Áður hafi stefndi veitt aðilum ítrekaða fresti til að ná samkomulagi um endurskoðun á vaxtakjörum og vaxtagreiðslum, en án árangurs. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi breytt fyrri ákvörðun sinni um vaxtakjör, með ákvörðun 4. febrúar 2011 á þann veg að vaxtaálag af skuld meðstefnda, Dróma hf., skyldi fellt niður frá og með 1. júlí 2010 þar til skuldin yrði að fullu greidd upp. Samkvæmt ítarlegri athugun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, hafi þróun orðið á yfirteknum innlánum þannig að mjög hafi dregið úr áhættu stefnanda af skuldaskjali vegna yfirtökunnar. Við úrlausn málsins hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, einkum litið til þess að vextir skuldabréfsins myndu standa undir kostnaði og áhættu vegna yfirtökunnar. Sé það í samræmi við 4. tl. Ákvörðunar stefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 21. mars 2009, þar sem stefndi hafi beint til aðila að tryggja að vextir skuldabréfsins stæðu undir kostnaði og áhættu vegna yfirtöku innlánsskuldbindinganna. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi tekið umþrætta ákvörðun um niðurfellingu vaxtaálags á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI í lögum nr. 161/2002. Framangreint ákvæði veiti víðtækar heimildir, en það hafi upphaflega komið inn í lög um fjármálafyrirtæki með setningu laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sbr. 5. gr. laganna. Hafi löggjafinn þar veitt stefnda, Fjármálaeftirlitinu, víðtækar heimildir til að bregðast við aðstæðum á fjármálamörkuðum og tryggja virkni fjármálakerfisins og traust almennings á því, af því er fram komi í greinargerð með frumvarpi sem orðið hafi að neyðarlögunum.

                Stefnandi haldi því fram í stefnu að ákvörðun stefnda frá 4. febrúar 2011 um afnám vaxtaálags sé byggð á röngum forsendum. Telji stefnandi að ákvörðunin byggi á þeirri grundvallarforsendu að dregið hafi úr áhættu stefnanda frá því að ákvörðun stefnda um vaxtaálag hafi verið tekin 5. júní 2009 og að ástæðu þess megi rekja til skaðleysisyfirlýsingar fjármálaráðuneytisins frá 20. ágúst 2009. Stefnandi telji að áhætta bankans hafi ekki breyst frá ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 5. júní 2009, þar sem að þá hafi verið gengið út frá því að íslenska ríkið myndi ábyrgjast skaðleysi stefnanda vegna yfirtöku innlánsskuldbindinganna. Rökstyðji stefnandi þá fullyrðingu sína með því að innstæður SPRON hafi fallið undir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6. október og teldust innstæður því að fullu tryggðar af ríkissjóði. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, mótmæli framangreindum fullyrðingum stefnanda um að ríkið hafi ábyrgst skaðleysi stefnanda vegna yfirtöku innlánsskuldbindinganna fyrir undirritun skaðleysisyfirlýsingarinnar frá 20. ágúst 2009. Þá ítreki stefndi, Fjármálaeftirlitið, að skaðleysisyfirlýsing fjármálaráðuneytisins frá 20. ágúst 2009 hafi aðeins verið ein af mörgum forsendum þess að stefndi hafi endurskoðað ákvörðun sína um vaxtakjörin.

                Stefnandi vísi til þess að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 um að innstæður væru tryggðar að fullu hafi falið í sér skaðleysisyfirlýsingu gagnvart bankanum. Í umræddri yfirlýsingu sem birt hafi verið á heimasíðu forsætisráðuneytisins segi: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“ Í umræddri yfirlýsingu felist að ríkissjóður ábyrgist að innstæðueigendur muni ekki tapa innstæðum sínum þó að fjármálafyrirtæki standi halloka. Hafi yfirlýsingin verið hugsuð sem viðbót við innstæðutryggingu þá sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hafi veitt á grundvelli laga nr. 98/1999, en sú trygging geti verið takmörkuð við 21.887 evrur. Hafi yfirlýsingin verið gefin til að auka traust almennings og fyrirtækja á fjármálakerfinu og koma í veg fyrir stórfelldar úttektir innstæðueigenda af reikningum sínum. Yfirlýsingunni sé því aðeins beint til innstæðueigenda og tryggi hún stöðu þeirra, en ekki fjármálafyrirtækja. Ekki sé hægt að túlka yfirlýsinguna á þann veg að hún tryggi skaðleysi fjármálafyrirtækja vegna innstæðna og veiti þar með fjármálafyrirtækjum einhvers konar ríkisábyrgð á innstæðum. Þessu til stuðnings megi vísa til þess að í framkvæmd hafi staða innstæðueigenda, á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, verið tryggð með því að séð hafi verið til þess að innstæður í fjármálafyrirtækjum, sem standa höllum fæti og stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi tekið yfir vald hluthafafundar í, hafi verið fluttar til annarra fjármálafyrirtækja með ákvörðunum stefnda, Fjármálaeftirlitsins. Þannig hafi ríkið almennt ekki komið þeim fjármálafyrirtækjum sem standa höllum fæti til bjargar, heldur einbeitt sér að því að tryggja stöðu innstæðueigenda með flutningi innstæðnanna. Í ljósi þessa sé skýrt að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 um að innstæður væru tryggðar að fullu hafi á engan hátt falið í sér skaðleysisyfirlýsingu gagnvart stefnanda vegna þeirra innstæðna SPRON sem ráðstafað hafi verið til stefnanda. Því hafi stefnandi enga tryggingu frá ríkinu haft vegna innstæðnanna þegar ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, um vaxtakjör og vaxtagreiðslur hafi verið tekin 5. júní 2009.

                Af dskj. 9, sem sé bréf Nýja Kaupþings, forvera stefnanda, til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 29. maí 2009, megi sjá að stefnandi hafi ekki á þeim tíma talið að skaðleysi hans væri tryggt, enda segi meðal annars í bréfinu: „Af hálfu bankans er talið mikilvægt að einhvers konar skaðleysisyfirlýsing komi frá ríkissjóði vegna yfirtökunnar.“ Það sé því ljóst að stefnandi hafi talið þörf á að ríkið gæfi út skaðleysisyfirlýsingu vegna yfirtökunnar og að slíkt skaðleysi væri ekki tryggt þegar stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi tekið ákvörðun sína 5. júní 2009.

                Í samningi fjármálaráðherra við skilanefnd Kaupþings banka hf., 17. júlí 2009, hafi því verið lýst yfir að stjórnvöld myndu halda Kaupþingi banka hf. og stefnanda skaðlausum vegna kröfu stefnanda á hendur stefnda, Dróma hf. Í endanlegri samningsgerð sömu aðila hafi verið gert ráð fyrir því að stjórnvöld lýstu yfir sömu skuldbindingu. Á grundvelli þessa hafi fjármálaráðuneytið sent stefnanda bréf, 20. ágúst 2009, þar sem fram komi að ríkissjóður beri fjárhagslega ábyrgð gagnvart stefnanda ef greiðslufall verði af umræddu skuldabréfi sem tryggt væri með veði í eignum SPRON hf. og/eða meðstefnda, Dróma hf. Jafnframt komi fram að skuldbinding ríkissjóðs að þessu leyti sé byggð á ákvæðum 1. gr. laga nr. 125/2008, þar sem hún sé þáttur í framkvæmd þeirrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar að tryggja innstæður á Íslandi sem og þeim aðgerðum sem gripið hafi verið til gagnvart SPRON hf. og eigi sér stoð í áðurgreindum lögum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Virðist sem stefnandi hafi litið á þetta með sömu augum, þar sem stefnandi hafi gert ráð fyrir 100% eiginfjárbindingu í bókum sínum þar til eftir að stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi tekið ákvörðun sína 5. júní 2009, þrátt fyrir að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á innstæðum hafi þá þegar legið fyrir.  

                Þá haldi stefnandi því fram að hafi ekki legið ákvörðuninni til grundvallar að íslenska ríkið myndi ábyrgjast skaðleysi stefnanda vegna yfirtöku innlánsskuldbindinganna, hefði verið ótækt, og andstætt lögum nr. 161/2002, með stjórnvaldsákvörðun að færa slíka skuldbindingu yfir á stefnanda sem fjármálafyrirtæki. Hafi skuldbindingin numið um 94.000.000.000 króna, langt umfram heimildir fjármálafyrirtækis til lánveitinga til einstakra aðila, sbr. 30. gr. laga nr. 161/2002, en á þessum tíma hafi eigið fé stefnanda verið um 75.000.000.000 króna. Í þessu sambandi sé rétt að árétta að samkvæmt þágildandi 3. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002, nú 4. mgr., geti stefndi, Fjármálaeftirlitið, veitt fjármálafyrirtækjum frest til að koma áhættuskuldbindingum sínum í lögmætt horf, hafi áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna farið fram úr 25% af eigin fé fjármálafyrirtækis, sbr. 1. mgr. þágildandi 30. gr. laga nr. 161/2002. Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi hafi verið við yfirtöku stefnanda á innlánum SPRON og þeirra víðtæku heimilda sem stefnda, Fjármálaeftirlitinu, hafi verið falið með 5. gr. Neyðarlaganna, sbr. nú bráðabirgðaákvæði VI laga nr. 161/2002, verði að telja að stefnda, Fjármálaeftirlitinu, hafi verið heimilt að veita stefnanda svigrúm til að koma áhættuskuldbindingum sínum í lögmætt horf.

                Skaðleysisyfirlýsing fjármálaráðuneytisins frá 20. ágúst 2009 hafi aðeins verið ein af mörgum forsendum þess að stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi endurskoðað ákvörðun sína um vaxtakjörin. Ýmsar aðrar forsendur hafi legið til grundvallar ákvörðunar stefnda, Fjármálaeftirlitsins. Verði hér raktir þeir fjórir grunnþættir sem stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi í meginatriðum talið leiða til þess að ekki væru lengur forsendur fyrir því að kveða á um sérstakt álag ofan á grunnvexti samnings milli aðila. Í fyrsta lagi hafi legið fyrir að mjög hafi dregið úr áhættu stefnanda frá því að ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 5. júní 2009, hafi verið tekin. Ástæða þessa hafi í fyrsta lagi verið rakin til skaðleysisyfirlýsingar fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2009, en hún hafi haft í för með sér að eiginfjárbinding vegna skuldaskjalsins hafi orðið engin. Þá hafi stefnandi tekið tillit til skaðleysisyfirlýsingarinnar í skýrsluskilum til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, um stórar áhættuskuldbindingar, sem staðfesti að stefnandi hafi litið svo á að skaðleysisyfirlýsingin væri fullnægjandi trygging fyrir skuldaskjalinu, enda samrýmdist það 11. gr. reglna nr. 215/2007. Þegar ákvörðunin frá 5. júní 2009 hafi verið tekin hafi staðan verið önnur þar sem stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi þá gengið út frá því, líkt og stefnandi, sbr. Bréf hans frá 29. maí 2009, að yfirtaka stefnanda á innlánum og útgáfa lánssamningsins fæli í sér 100% áhættuvog í áhættugrunni samkvæmt reglum nr. 215/2007, þ.e. 100% eiginfjárbindingu að því er fram komi í rökstuðningi stefnda fyrir ákvörðun sinni 9. júní 2009, frá. 9. nóvember 2009.

                Í öðru lagi hafi sú óvissa, sem fylgt hafi innlánasafninu og áhættan af hugsanlegu útstreymi minnkað. Þegar stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi ákvarðað um vaxtakjör og vaxtagreiðslur 5. júní 2009, hafi stefnandi talið sig þurfa að ráðast í fjármögnun sem að lágmarki myndi miðast við stýrivexti Seðlabankans. Sem röksemdir fyrir því hafi stefnandi vísað til þess að við yfirtöku innlána verði til mikil lausafjáráhætta þar sem innlán séu óbundin og laus til útborgunar hvenær sem sé á meðan þær eignir sem standi til tryggingar innlánsgreiðslum séu til langs tíma, oft tuga ára. Hefði aðeins verið tekið tillit til þessarar áhættu að óverulegu leyti í forsendum bankans varðandi 15% lágmarkseiginfjárkröfur að því er fram komi í bréfi stefnanda til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 29. maí 2009. Hins vegar hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, talið þær forsendur sem stefnandi hafi gefið sér í vaxtakjörum, þ.e. stýrivexti Seðlabankans, of háa meðal annars með tilliti til þess að innlánsvextir hjá Seðlabankanum hafi verið 9,5% sem stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi talið að horfa mætti til sem trygga mögulega fjármögnun innlána stefnanda ef þau hefðu borist til stefnanda með hefðbundnum hætti. Það hafi því verið mat stefnda, Fjármálaeftirlitsins, að ekki væri eðlilegt að miða við stýrivexti Seðlabankans í samningi aðila, enda endurspegli þeir útlánavexti hjá Seðlabankanum og sé þá litið til þess að vextir sem meðstefnda, Dróma hf., sé ætlað að greiða eigi að standa undir kostnaði stefnanda við yfirtöku innlánanna, þ.e. fyrst og fremst kostnaði stefnanda af því að greiða vexti til innlánseigenda. Forsendur hefðu hins vegar breyst þegar stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi endurákvarðað um vaxtakjörin 4. febrúar 2011, m.a. vegna samnings um sérstaka lausafjárfyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda að fjárhæð 75.000.000.000 króna vegna þeirra innlána sem stefnandi hafi tekið yfir, og gerður hafi verið á grundvelli yfirlýsingar fjármálaráðuneytisins frá 3. september 2009. Hafi því verið ljóst þegar síðari vaxtaákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, hafi verið tekin að stefnandi þyrfti ekki að ráðast í aðra fjármögnun, en þegar stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi tekið ákvörðun sína 4. febrúar 2011 hafi legið fyrir að stefnandi hefði nýtt sér þá sérstöku lausafjárfyrirgreiðslu. Að auki hafi meðstefndi, Drómi hf., verið búinn að greiða um 18.000.000.000 króna inn á ráðstöfunarreikning skuldaskjalsins miðað við 5. júlí 2010, þar af um 5.000.000.000 króna inn á höfuðstól skuldaskjalsins.

                Í þriðja lagi hafi gögn og upplýsingar leitt í ljós að kostnaður stefnanda af hinum yfirteknu innlánum hafi verið orðinn lægri en tekjur bankans af skuldaskjalinu. Hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, byggt þá niðurstöðu sína á upplýsingum sem stefnandi hafi sent stefnda, Fjármálaeftirlitinu, með bréfi, 6. ágúst 2010. Samkvæmt þeim upplýsingum hafi vaxtamunur af yfirteknu innlánunum verið um 2.000.000.000 króna á ári. Nánar tiltekið hafi vegnir vextir af yfirteknu innlánunum hjá stefnanda verið 6,24% á tímabilinu janúar 2010 til júní 2010. Hins vegar hafi vextir skuldaskjalsins að meðaltali verið 10,33% á sama tímabili. Hafi vaxtamunur því að meðaltali verið 4,09%. Hafði því orðið veruleg breyting að þessu leyti frá því að stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi tekið ákvörðun um vaxtakjör í júní 2009. Í þessu samhengi sé rétt að árétta að í ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, komi fram að ef fram komi nákvæmari upplýsingar um vaxtakostnaði stefnanda vegna yfirtekinna lána sé það eitt þeirra atriða sem stefndi, Fjármálaeftirlitið, myndi líta til ef til endurskoðunar á vöxtum kæmi síðar. 

                Í fjórða lagi hafi áhætta minnkað að því er varði mótaðila- og lausafjáráhættu. Ekki hafi verið taldar horfur á því að stór hluti innlánseigenda myndu flytja innstæður sínar, eins og jafnvel hafi litið út fyrir þegar ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, hafi verið tekin 5. júní 2009. Þvert á móti telji stefndi, Fjármálaeftirlitið, að frá því um mitt ár 2010 hafi verið líkur á því að það safn innlána og viðskiptatengsla sem stefnandi hafi fengið frá SPRON hf. væri orðið tiltölulega stöðugt eða vaxandi og að það myndi tryggja bankanum hagstæða og stöðuga fjármögnun á næstu árum. Af þeim sökum hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, talið að forsendur hefðu breyst varðandi hið sérstaka vaxtaálag ofan á REIBOR vextina, en í bréfi stefnanda til stefnda 29. maí 2009 komi fram að stefnandi telji það til röksemda fyrir auknu vaxtaálagi að hætta sé á töluverðum útborgunum af innlánum. Ljóst sé af gögnum málsins að stefnandi hafi gert sér grein fyrir þessu, enda lýst því í bréfi til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 1. júní 2010 að bankinn væri reiðubúinn til að horfa með jákvæðum augum á afslátt á vaxtaálagi.

                Af því sem að framan sé rakið sé ljóst að stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi byggt ákvörðun sína á ólíkum þáttum sem hafi verið taldir hafa áhrif á vaxtakjör samningsins og byggt ákvörðunin á ítarlegum athugunum stefnda, Fjármálaeftirlitsins, á markaðsaðstæðum, kostnaði og áhættu stefnanda af skuldaskjalinu. Hafi það verið niðurstaða stefnda, Fjármálaeftirlitsins, eftir ítarlega heildstæða skoðun á framangreindum þáttum, að grunnvextir skuldaskjalsins (REIBOR) ættu, miðað við aðstæður, að standa undir kostnaði og áhættu vegna samningsins. Hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, talið að viðmiðun við REIBOR vexti hefði sýnt sig að vera vel viðeigandi sem viðmiðun um vaxtagjöld af skuldaskjalinu.Væri þá tekið tillit til þeirrar áhættu stefnanda sem fælist í óvæntum sveiflum í fjárstreymi á samningstímanum, en slík áhætta gæti haft í för með sér aukinn fjármagnskostnað fyrir bankann. Hafni stefndi, Fjármálaeftirlitið, því alfarið að ákvörðunin frá 4. febrúar 2011 hafi verið byggð á röngum grundvelli.

                Stefndi, Fjármálaeftirlitið, telji það í raun ekki vera á valdi dómstóla að endurskoða sérfræðilegt mat stofnunarinnar á forsendum fyrir niðurfellingu álags vegna umþrætts samnings. Sem fyrr segi hafi löggjafinn veitt stefnda, Fjármálaeftirlitinu, víðtækar heimildir til að bregðast við aðstæðum á fjármálamörkuðum og tryggja virkni fjármálakerfisins og traust almennings á því. Verði að játa stefnda, Fjármálaeftirlitinu, nokkuð svigrúm til mats á því hvaða athafna það grípi til og með hvaða hætti til að ná því markmiði að tryggja virkni fjármálakerfisins, svo fremi sem matið hafi farið fram á málefnalegum og lögmætum grunni, líkt og stefndi, Fjármálaeftirlitið, telji sig hafa sýnt fram á.

                Loks hafni stefndi, Fjármálaeftirlitið, því að vaxtaálag hafi verið afnumið afturvirkt sem leiði til ógildingar ákvörðunarinnar. Telji stefndi, Fjármálaeftirlitið, að stefnandi hafi mátt vænta breytinga á vaxtakjörum og vaxtagreiðslum frá lokum ársins 2009, enda hafi stefnda, Fjármálaeftirlitinu, borist beiðni frá meðstefnda, Dróma hf., 2. desember 2009, um endurskoðun ákvörðunar stefnda frá 5. júní 2009 um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli stefnanda og meðstefnda, Dróma hf. Í kjölfarið hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, gefið aðilum ítrekað frest til að koma sér saman um vaxtakjör og vaxtagreiðslur, en án árangurs. Fallist dómurinn ekki á það telji stefndi, Fjármálaeftirlitið, að stefnandi hafi mátt vænta breytinga á vaxtakjörum og vaxtagreiðslum í síðasta lagi 7. apríl 2010, en þá hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, sent aðilum bréf þar sem fram hafi komið að ljóst væri að stefndi myndi endurákvarða í málinu í ljósi þess að aðstæður hefðu breyst. Hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, veitt aðilum af þeim sökum tækifæri til að ná samningum um vaxtakjör og vaxtagreiðslur, að endingu til 21. júní 2010. Þar sem aðilar hafi ekki náð saman hafi frá því tímamarki endanlega verið sýnt að stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi þurft að skera á hnútinn í málinu og taka ákvörðun um vaxtakjör, sbr. heimild í 4. tl. ákvörðunar stefnda frá 17. apríl 2009. Hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, því talið rétt að miða upphafstíma hinnar nýju vaxtaákvörðunar við fyrsta dag næsta mánaðar þar á eftir, þ.e. 1. júlí 2010. Þar að auki hafi stefnda, Fjármálaeftirlitinu, þá þótt sýnt að sú rýrnun á lausu fé sem stefnandi hafi orðið fyrir við yfirtöku innlánanna væri að fullu bætt. Þá hafi mátt gera ráð fyrir því að stefnandi bæri ekki aukinn fjármagnskostnað frá því tímamarki enda hafi Drómi hf. þá greitt um 18.000.000.000 króna inn á ráðstöfunarreikning skuldaskjalsins m.v. 5. júlí 2010, þar af um 5.000.000.000 króna inn á höfuðstól skuldaskjalsins. Að auki hafi verið tekið tillit til þeirra upplýsinga sem lágu fyrir um úttektir yfirtekinna innstæðuskuldbindinga SPRON hf. í kjölfar flutnings þeirra til stefnanda.

                Um málskostnaðarkröfu er vísað til 129. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda Dróma hf.

                Stefndi, Drómi hf., staðhæfir að vextir samkvæmt ákvörðunum stefnda, Fjármálaeftirlitsins, hafi verið ákvarðaðir of háir 5. júní 2009. Að mati stefnda, Dróma hf., hafi því verið efni til að lækka vaxtaálagið enn frekar en gert hafi verið með ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 2. febrúar 2011. Stefnandi hafi á engan hátt hnekkt þeim röksemdum sem stefndi, Drómi hf., hafi byggt á kröfu sína um endurskoðun ákvörðunar stefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 5. júlí 2009. Liggi þar bæði til grundvallar mat á fyrirliggjandi forsendum þegar ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, hafi verið tekin 5. júní 2009, eftir atvikum í ljósi upplýsinga sem síðar hafi komið til, sem og breyttar forsendur frá því að hin upphaflega ákvörðun hafi verið tekin. Að mati stefnda, Dróma hf., hafi stefnda, Fjármálaeftirlitinu, verið bæði rétt og skylt að endurskoða ákvörðun sína.

                Staðhæfingar stefnanda um að ríkisábyrgð á innstæðuskuldbindingunni hafi legið fyrir 5. júní 2009 standast ekki. Sérstaklega sé vakin athygli á því að stefnandi hafi sjálfur haldið því fram í röksemdum sínum fyrir hinu háa vaxtaálagi að vafi léki á því hvort ríkisábyrgðin væri til staðar, en það komi fram í bréfi stefnanda til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 10. nóvember 2010.

                Meginrök stefnda, Dróma hf., séu þau, að ef yfir höfuð eigi að greiða vexti til stefnanda, þá eigi vaxtakjörin að endurspegla raunverulegan kostnað stefnanda af yfirtöku á innstæðuskuldbindingum en ekki að stefnandi eigi að hafa ávinning af yfirtökunni. Að mati stefnda, Dróma hf., hafi stefnandi ekki sýnt fram á að yfirtaka á innstæðuskuldbindingum SPRON hf. hafi haft í för með sér frekari kostnað fyrir stefnanda Arion banka hf. en sem nemi vöxtum af hinum yfirteknu innlánum. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um þann kostnað. Stefndi, Drómi hf., hafni sjónarmiðum Arion banka hf. um að bankinn hafi með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 4. febrúar 2011 verið sviptur þegar áunnum vöxtum. Í ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 5. júní 2009 hafi skýrt verið tekið fram að stefndi, fjármálaeftirlitið, gæti endurskoðað ákvörðunina. Hafi það verið í samræmi við upprunalega ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009 um að vextirnir skyldu endurspegla kostnað og áhættu stefnanda af yfirtöku innstæðuskuldbindingarinnar. Ákvörðun um vaxtakjör hafi ávallt hlotið að koma til endurskoðunar með hliðsjón af upplýsingum um kostnaðinn eftir því sem þær upplýsingar hafi orðið til. Stefnda, Fjármálaeftirlitnu, hafi því ekki einungis verið heimilt, heldur skylt að endurskoða vextina aftur í tímann. Hér sé einnig til þess að líta að stefndi, Drómi hf., hafi sett fram kröfu um endurskoðun vaxtaálagsins þegar í desember 2009, eða rúmum 6 mánuðum fyrir það tímamark vaxtalækkunarinnar. Arion banki hf. hafi því verið upplýstur um að endurskoðunar væri að vænta löngu fyrir það tímamark.           

                Stefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi því haft fulla heimild til endurskoðunar vaxtaálagsins og verði ákvörðunin frá 4. febrúar 2010 ekki ógilt á þeim forsendum sem stefnandi hafi byggt á. Stefndi, Drómi hf., hafi hins vegar talið að stefnda, Fjármálaeftirlitinu, hafi borið að ganga lengra við endurskoðunina.

                Stefndi vísar til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. sérstaklega og 72. gr., laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum, laga nr. 125/2008, neyðarlaga, laga um opinber eftirlit með fjármálafyrirtækjum nr. 87/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar og meginreglna stjórnsýsluréttar. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

V

Niðurstaða

                Samkvæmt 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi getur sá, sem ekki vill una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, höfðað mál til ógildingar hennar, enda sé það gert innan þriggja mánaða frá því að ákvörðunin var kynnt honum. Í málinu krefst stefnandi þess að nánar tiltekinn þáttur í ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 4. febrúar 2011 verði felldur úr gildi. Dómstólum er með 18. gr. laga nr. 87/1998, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, fengið vald til að ógilda ákvarðanir stefnda, Fjármálaeftirlitsins. Með þessu úrlausnarvaldi er á engan hátt lagt í hendur dómstóla að taka efnislega ákvörðun í máli í stað þess að stjórnvald taki hana.

                Í ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 5. júní 2009 vegna ágreinings um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli Nýja Kaupþings banka hf. og Dróma hf. var kveðið á um 1.75% vaxtaálag á skuld stefnda, Dróma hf., samkvæmt skuldabréfi sem endurgjald fyrir yfirteknar innstæðuskuldbindingar. Í niðurlagi þessarar ákvörðunar er tekið fram að stefnda, Fjármálaeftirlitinu, sé heimilt að taka ákvörðun þessa til endurskoðunar að beiðni aðila og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar yfirtekinna innlána, kostnaði og áhættu sem Nýja Kaupþing hf. tæki á sig, sem og öðrum atvikum. Stefndi, Drómi hf., beindi 2. desember 2009 áskorun til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, um endurskoðun ákvörðunarinnar 5. júní 2009 að því er varðaði vaxtakjör og vaxtagreiðslur. Af því tilefni óskaði stefndi, Fjármálaeftirlitið, eftir sjónarmiðum og athugasemdum aðila málsins, en stefndi taldi þörf á fyllri upplýsingum og sjónarmiðum til að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort tilefni væru til að endurskoða umrædda ákvörðun. Í rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun sinni 4. febrúar 2011 að miða 1.75% vaxtaálagið við tímabil frá yfirtökudegi til og með 30. júní 2010, en að fella það niður eftir þann tíma til þess dags er skuldin yrði að fullu greidd, er vísað til forsendna að baki ákvörðuninni. Þar segir meðal annars að í málinu liggi fyrir að mjög hafi dregið úr áhættu stefnanda frá því ákvörðunin frá 5. júní 2009 hafi verið tekin. Ástæðu þess megi í fyrsta lagi rekja til skaðleysisyfirlýsingar fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2009, en ekki fáist annað séð en að stefnandi hafi talið þá skaðleysisyfirlýsingu fullnægjandi. Í öðru lagi hafi sú óvissa sem fylgt hafi innlánssafninu minnkað og áhætta af hugsanlegu útstreymi innlána minnkað meðal annars vegna samnings um sérstaka lausafjárfyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda að fjárhæð 75.000.000.000 sem undirritaður hafi verið 3. september 2009. Í þriðja lagi bendi gögn og upplýsingar til að kostnaður stefnanda af hinum yfirteknu innlánum sé orðinn lægri en tekjur bankans af skuldaskjalinu. Í fjórða lagi hafi stefndi, Fjármálaeftirlitið, talið að viðmiðun við REIBOR vexti hafi sýnt sig að vera viðeigandi sem viðmið, en með hliðsjón af því hafi ekki þótt ástæða til að taka til endurskoðunar grunnvexti skuldaskjalsins. Hins vegar hafi forsendur breyst varðandi hið sérstaka vaxtaálag ofan á REIBOR vextina þar sem áhætta hefði minnkað að því er varðaði mótaðila og lausafjáráhættu. Ekki væru lengur horfur á að stór hluti innlánseigenda myndi flytja innstæður sínar, eins og óljóst hafi verið með í upphafi. Loks ættu grunnvextirnir, miðað við aðstæður, að standa undir kostnaði og áhættu vegna samningsins.

                Stefnandi hefur einkum vísað til þess að sú forsenda stefnda, Fjármálaeftirlitsins, að skaðleysisyfirlýsing fjármálaráðuneytisins frá 20. ágúst 2009 hafi breytt aðstæðum í sambandi við skuldaskjalið, sé röng. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar 6. október 2008 um að innstæður væru að fullu tryggðar hafi falið í sér skaðleysisyfirlýsingu gagnvart bankanum. Hafi yfirlýsingin frá 20. ágúst 2009 engu breytti í því efni og ekki gefið tilefni til að endurskoða ákvörðunin um hið sérstaka vaxtaálag. Hafi ákvörðun því verið byggð á röngum forsendum og beri því að ógilda.

                Gögn málsins bera með sér að stefnandi hefur sjálfur verið þeirrar skoðunar að skaðleysisyfirlýsing gagnvart bankanum hafi ekki legið fyrir í lok maí 2009. Í bréfi Kaupþing banka hf. til stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 29. maí 2009, þar sem athugasemdum vegna ágreinings um vexti er komið á framfæri, er vísað til þess að af hálfu bankans sé talið mikilvægt að einhvers konar skaðleysisyfirlýsing komi frá ríkissjóði vegna yfirtökunnar. Komi til þess megi gera ráð fyrir að ríkið krefjist einhverrar þóknunar fyrir að veita slíkt skaðleysi, en í útreikningi á kostnaði vegna innstæðutryggingasjóðs, eiginfjárbindingar og vænts taps sé ekki gert ráð fyrir slíku gjaldi. Þessi yfirlýsing stefnanda verður ekki skilin á annan veg en að á þeirri stundu hafi skaðleysi stefnanda vegna yfirtökunnar gagnvart stefnanda ekki verið tryggt. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, hefur staðhæft að stefndi hafi litið svo á að skaðleysi þetta hefði ekki verið tryggt fyrr en með yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2009 en við það hafi fyrri ákvarðanir stefnda um vaxtakjör og vaxtagreiðslur verið miðaðar. 

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 er svohljóðandi: ,,Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða að fullu tryggðar. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda tekur til.“

Í bréfi fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2009 til Nýja Kaupþing hf. er vísað til nefndrar yfirlýsingar. Í framhaldi af því er sagt: ,,Þar sem Nýja Kaupþing hf. hefur yfirtekið umræddar innstæðuskuldbindingar skv. framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og tryggt þar með aðgengi innstæðueigenda að fjármunum sínum hefur ríkissjóður ábyrgst gagnvart Nýja Kaupþingi hf. þær innlánsskuldbindingar sem standa að baki fyrrgreindum samningi og bankinn tekst á hendur. Ríkissjóður ber því fjárhagslega ábyrgð gagnvart bankanum ef greiðslufall verður af umræddu skuldabréfi sem tryggt er með veði í eignum SPRON hf. og/eða Dróma ehf.(sic) samkvæmt framansögðu.“ Í bréfi þessu er fjármálaráðuneytið að ítreka fyrri yfirlýsingu um að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum séu að fullu tryggðar. Yfirlýsingin gengur síðan lengra en fyrri yfirlýsing þar sem ríkissjóður lýsir að auki yfir ábyrgð á skuldabréfi því er stefndi, Drómi hf., gaf út gagnvart Nýja Kaupþingi hf. og stefnandi er nú kröfuhafi að, ef til greiðslufalls skuldara komi. Þegar þetta er virt verður fallist á með stefnda, Fjármálaeftirlitinu, að skaðleysi stefnanda gagnvart yfirtöku Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. hafi verið betur tryggt í kjölfar yfirlýsingarinnar 20. ágúst 2009 og þar með ekki röng forsenda við ákvörðun um vaxtakjör og vaxtagreiðslur 5. júní 2009 annars vegar og 4. febrúar 2011 hins vegar. 

                Að mati dómsins er rökstuðningur stefnda, Fjármálaeftirlitsins, fyrir breyttu vaxtaálagi ítarlega rökstuddur. Er hann ekki haldinn röngum forsendum eða ólögmætum sjónarmiðum og að fullu í samræmi við boðaðar forsendur að baki endurskoðaðri ákvörðun. Þá voru heimildir stefnda, Fjármálaeftirlitsins, til töku ákvörðunarinnar 4. febrúar 2011 ótvíræðar, en ákvörðunin var tekin á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI í lögum nr. 161/2002. Stefnandi gat átt von á þessari breytingu í ljósi endurskoðunarákvæðis í ákvörðuninni frá 5. júní 2009. Verður því ekki fallist á sjónarmið stefnanda um að vaxtaálagið hafi verið afnumið afturvirkt. 

Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á með stefnanda að fella eigi úr gildi ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 4. febrúar 2011 að því er varðar niðurfellingu hins sérstaka vaxtaálags frá 30. júní 2010 þar til skuldin hefur verið að fullu greidd. Verða stefndu því sýknuð af kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Andri Árnason hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda, Fjármálaeftirlitsins, Áslaug Árnadóttir héraðsdómslögmaður og stefnda, Dróma hf., Hlynur Jónsson hæstaréttarlögmaður.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndu, Fjármálaeftirlitið og Drómi hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Arion banka hf. 

                Málskostnaður fellur niður.