Hæstiréttur íslands

Mál nr. 323/2001


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Meðdómsmaður


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002.

Nr. 323/2001.

Sæþór Fannberg Jónsson

(Þórður Cl. Þórðarson hrl.)

gegn

Gunnari Erni Rúnarssyni

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

og gagnsök

 

Ómerking. Heimvísun. Meðdómendur.

G tók að sér gluggaísetningu og glerjun í hús S. Var G ásamt þremur starfsmönnum sínum við vinnu þessa frá miðjum desember 1999 fram í janúar 2000. Samið var um tímakaup. S taldi reikning G fyrir verkið of háan og tímafjölda ekki í samræmi við umfang verksins. Fékk hann verkið mælt upp af mælingastofu húsasmíðameistara í desember 2000, sem taldi eðlilegt gjald fyrir verkið mun lægra en reikningur G hafði hljóðað upp á. G hafði ekki getað verið viðstaddur er uppmælingin fór fram en hélt því fram að verkið hefði orðið mun umfangsmeira en ráð var fyrir gert. Eftir að héraðsdómur gekk fór S fram á að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta eðlilegt endurgjald fyrir vinnuna. Var þessi matsgerð lögð fyrir Hæstarétt. Samkvæmt henni sá matsmaður enga aðra leið færa en þá, að líta á uppmælingu þá sem fram fór í desember 2000 sem sanngjarnt og hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu, sem unnin hafði verið af starfsmönnum G. Eins og gögnum málsins var háttað var talið brýnt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þau og spyrja þá sérfróðu menn, sem nauðsyn bar til að kveðja fyrir dóm, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um meðferð einkamála. Þar sem það hafði ekki verið gert var óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. ágúst 2001. Hann krefst þess aðallega, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess, að héraðsdómi verði breytt á þann veg, að hann verði aðeins dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 122.409 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 6. september 2001. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að frátöldu málskostnaðarákvæði hans og að hafnað verði kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu og heimvísun. Hann krefst þess, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér hærri málskostnað í héraði en dæmdur var svo og málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi tók að sér gluggaísetningu og glerjun í hús aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi var ásamt þremur starfsmönnum sínum við vinnu þessa frá 14. desember 1999 til 7. janúar 2000. Samið var um tímakaup. Reikningur var gefinn út 30. janúar 2000 að fjárhæð 598.124 krónur, en aðaláfrýjandi hafði greitt 200.000 krónur inn á verkið 6. janúar 2000. Gagnáfrýjandi höfðaði mál til heimtu eftirstöðvanna, 398.124 króna. Aðaláfrýjandi taldi reikninginn of háan og tímafjölda ekki í samræmi við umfang verksins. Fékk hann verkið mælt upp af mælingastofu húsasmíðameistara í desember 2000, sem taldi eðlilegt gjald fyrir verkið 258.963,40 krónur. Gagnáfrýjandi gat ekki verið viðstaddur, er uppmælingin fór fram. Hann heldur því fram, að verkið hafi orðið mun umfangsmeira en ráð var fyrir gert. Gluggar hefðu verið af ýmsum stærðum og með ýmsum línum og verið mjög illa unnir og hefði verið nauðsynlegt að vinna ýmis aukaverk, meðal annars að hefla úr grind hússins. Einnig hefði það valdið töfum, að veggir hölluðust talsvert. Þá hafi aðstaða á vinnustað einnig verið mjög slæm.  Húsasmíðameistari, sem vann við innréttingar eftir að gluggar höfðu verið settir í, kom fyrir dóm og bar að hann hefði gengið frá í kringum glugga og sett sólbekki í gluggana. Hann hefði ekki þurft að gera neinar lagfæringar á timburgrindinni neðan við sólbekkina til að koma þeim í. Þá komu einnig fyrir héraðsdóm aðilar málsins, starfsmaður gagnáfrýjanda, húsasmíðameistari sá, sem vann að uppmælingu verksins, og smiður, sem vann hjá aðaláfrýjanda.

Eftir að héraðsdómur gekk fór aðaláfrýjandi fram á, að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta eðlilegt endurgjald fyrir ísetningu á timburgluggum ásamt glerjun, og ísetningu tveggja svalahurða úr tré. Hefur matsgerð þessi frá 10. september 2001 verið lögð fyrir Hæstarétt. Samkvæmt henni sá matsmaður enga aðra leið færa en þá að líta á uppmælingu þá, sem fram fór í desember 2000 sem sanngjarnt og hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu, sem unnin var af starfsmönnum gagnáfrýjanda. Þá hefur verið lagt fyrir Hæstarétt endurrit vitnamáls 1. október 2001 þar sem matsmaður kom fyrir dóm.

Eins og gögnum máls þessa er háttað var brýnt, að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þau og spyrja þá sérfróðu menn, sem nauðsyn bar til að kveðja fyrir dóm, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem það var ekki gert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2001.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 27. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 5. september 2000.

Stefnandi er Gunnar Örn Rúnarsson, kt. 230365-4669, Hlíðarhjalla 43, Kópavogi.

Stefndi er Sæþór Fannberg Jónsson, kt. 071155-4479, Fjallalind 102, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 398.124 krónur með dráttarvöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 2000 til greiðsludags.  Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir verði lagðir við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta skipti 30. janúar 2001 í samræmi við 12. gr. fyrrnefndra laga.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.  Málskostnaður beri dráttarvexti samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga að liðnum fimmtán dögum frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Dómkröfur stefnda eru þær að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að hann verði aðeins dæmdur til að greiða mismun þess sem hann hefur þegar greitt og niðurstöðu mælingar Meistarafélags húsasmiða á því verki sem stefnandi vann og til vara þá fjárhæð að viðbættum 20% í samræmi við það sem stefndi hefur ávallt lýst sig reiðubúinn að greiða.  Þá er krafist sýknu af kröfum stefnanda um dráttarvexti.  Stefndi krefst þess jafnframt að hann verði sýknaður af málskostnaðarkröfu stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda hæfilegan málskostnað eftir mati dómsins. 

II.

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að hann hafi að beiðni stefnda tekið að sér smíðavinnu við nýbyggingu stefnda að Fjallalind 102, Kópavogi, við smíðar, glerjun, frágang og fleira.  Samið hafi verið um tímavinnu, enda hafi verkið verið margslungið og aðstæður á vinnustað allsendis ófullnægjandi.  Reikningur hafi verið gefinn út þann 30. janúar 2000 að fjárhæð 598.124 krónur.  Við útgáfu reiknings hafi stefndi mótmælt og talið reikning of háan og krafist uppmælingar á verkinu, en greitt inná verkið 200.000 krónur.  Stefnandi hafi gert ítarlega greinargerð um málið í þeirri von að málið leystist, en stefndi hafi ekki fengist til að greiða reikninginn.  Stefnanda sé því nauðsynlegt að stefna kröfunni og fá dóm fyrir henni.

Stefnandi sundurliðar reikning sinn þannig:

Vinna án virðisaukaskatts460.750 krónur

3% verkfæragjald  13.823 krónur

Tveir akstrar x 750    1.500 krónur

Efni í BYKO    1.468 krónur

Efni í skerpingu, sagarblað    2.880 krónur

 ____________

Heildarupphæð án virðisaukaskatts  480.421 króna

24,5% virðisaukaskattur  117.703 krónur

Samtals  598.124 krónur

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, svo og almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga.  Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga.  Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Stefndi lýsir málavöxtum þannig að stefnandi hafi tekið að sér gluggaísetningu í hús stefnda að Fjallalind 102, Kópavogi, og síðan glerjun.  Hér hafi verið um að ræða hefðbundið verk og aðstæður hafi ekki verið óvenjulegar að neinu leyti.  Ekki hafi verið samið um fast verð, en stefndi hafi gert ráð fyrir að greiða fyrir verkið almennt verð fyrir slíka þjónustu, en hin almenna viðmiðun sé uppmælingartaxti trésmiða.  Þess utan hafi verkið ekki verið umfangsmikið og ekki hafi verið talin ástæða af hálfu stefnda til þess að ætla að marktækur munur væri á mælingu og tímavinnu og sérstaklega hafi verið um það samið að ekki væri krafið um verkfæragjald, enda hafi stefndi lagt til vélsög og stefnandi aðeins handverkfæri.  Fljótlega hafi komið í ljós að verkinu miðaði afar hægt og verktími hafi orðið óeðlilega langur.  Gerðar hafi verið athugasemdir við gang verksins og hafi stefndi annast hluta af verkinu sjálfur, svo sem að setja í 90% þéttilista og 50% krossviðarræma.  Þann 6. janúar 2000 hafi stefndi greitt inná verkið 200.000 krónur.

Þegar stefnda hafi borist framangreindur reikningur hafi hann leitað sér upplýsinga um hvað teldist sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir verkið og hafi það verið mat fagmanna að fjárhæð reikningsins væri alltof há og tímafjöldi ekki í samræmi við umfang verksins.  Stefndi hafi gert stefnanda grein fyrir því að hann gæti ekki með nokkrum hætti fallist á að greiða reikninginn og hafi óskað eftir því að verkið yrði mælt upp af mælingastofu húsasmíðameistara, fyrst munnlega og síðan með bréfi dagsettu 15. febrúar 2000.  Stefndi hafi ítrekað lýst sig reiðubúinn að greiða fyrir verkið samkvæmt uppmælingartaxta trésmiða og jafnframt hafi hann lýst sig reiðubúinn að greiða 20% álag á uppmælingu vegna þeirrar stöðu sem væri á byggingamarkaðinum, en stefnandi hafi hafnað því að láta mæla upp verkið.  Við þetta boð sé stefndi reiðubúinn að standa og fyrir liggi að hann hafi þegar greitt fyrir verkið að langmestu leyti og verið reiðubúinn að greiða eftirstöðvar, ef einhverjar yrðu, þegar mæling lægi fyrir.  Flest bendi til að stefndi hafi þegar greitt að fullu eðlilegt verð fyrir verkið og sé sýknukrafa á því byggð.  Málshöfðun þessi sé því tilhæfulaus með öllu og alfarið á ábyrgð stefnanda.  Sé því öllum kröfum stefnanda mótmælt.

Hvað varðar reikningsgerð stefnanda séu tímar stórlega oftaldir.  Þegar stefndi gerði athugasemdir við tímaskrift stefnanda hafi stefnandi haldið því fram að unnið hefði verið í matar- og kaffitímum, en það sé alrangt þar sem vitni væru að því að teknir hafi verið fullir matar- og kaffitímar.  Þann 7. janúar 2000 haldi stefnandi því fram að unnir hafi verið níu tímar af tveimur mönnum og unnið hafi verið til kl. 18, en fyrir liggi að þeir hafi verið farnir af staðnum fyrir kl. 16 um daginn.  Þannig liggi ljóst fyrir að bæði séu unnir tímar verulega oftaldir og jafnframt hafi afköst verið langt fyrir neðan það sem gera megi ráð fyrir þegar átt séu viðskipti við fagmenn.

Ítrekuð sé sú krafa stefnda að til þess að fá niðurstöðu í málið verði verkið mælt upp af mælingastofu húsasmíðameistara, en það sé hin almenna viðmiðun varðandi þóknun fyrir verkið.  Aldrei hafi annað vakað fyrir stefnda en greiða sanngjarna og eðlilega þóknun fyrir verkið, en kröfugerð stefnanda sé bersýnilega ósanngjörn.  Náist ekki samkomulag um þetta sé nauðsyn á að fara fram á dómkvaðningu matsmanns til að meta hæfilega þóknun fyrir verk stefnanda og sé áskilinn réttur til dómkvaðningar matsmanns og framlagningar matsins sem sönnunargagns í málinu.  Varðandi málskostnaðarkröfu stefnanda sé málssóknin bersýnilega tilefnislaus þar sem stefndi hafi þegar greitt fyrir verkið að mestu leyti og hafi verið reiðubúinn að greiða það sem á kynni að vanta þegar uppmæling lægi fyrir, en stefnandi hafi ekki fallist á að láta mæla verkið sem telja verði sérkennilegt.  Beri því að fella málskostnað alfarið á stefnanda.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttarins og samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga.  Varðandi dómkvaðningu matsmanns vísar stefndi til IX. kafla laga nr. 91/1991.  Vísað er til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, XXI. kafla varðandi málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laganna.

IV.

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og stefndi aðilaskýrslur.  Vitnaskýrslur gáfu Þorgeir Óskar Magnússon, Ástþór Runólfsson, Kristinn Árni Egilsson og Ómar Steinar Rafnsson.

Stefnandi kvað tildrög þess að hann tók að sér verkið hafa verið að stefndi hafi verið í vandræðum með að fá fagmenn til að gera hús það sem hann var með í byggingu vatns- og vindhelt og hafi stefndi leitað til sín með þetta.  Hafi þeir byrjað á því að hittast á byggingarstað og rætt það hvernig staðið skyldi að verkinu.  Stefndi hafi komið inná hvað verkið myndi kosta hann og kvaðst stefnandi hafa sagt honum að hann myndi að öllum líkindum senda tvo menn og að tímagjaldið fyrir svein með langa starfsreynslu yrði 2.100 krónur og fyrir svein með tiltölulega skamma starfsreynslu 1.850 krónur.  Þá hafi hann skýrt stefnda frá verkfæragjaldinu, þ.e. hann væri alltaf með ákveðið verkfæragjald ofan á útselda tíma.  Í ljós hafi komið að stefndi var með vélsög á staðnum og hafi hann sagt stefnda að hann skyldi taka tillit til þess.  Þegar verkið hófst hafi komið í ljós að verkið útheimti meiri áhöld en hann hafði séð fyrir sér, t.d. stóran fræsara og stóran rafmagnsblásara.  Hann hafi því farið bil beggja og tekið 3% verkfæragjald í stað 5% gjalds.  Stefnandi kvað það aldrei hafa verið rætt í upphafi að verkið yrði mælt upp eða greitt yrði fyrir það á grundvelli þess, enda hefði það aldrei komið til af hans hálfu því að á þessum tíma hafi honum aldrei komið til hugar að vinna verk sem þetta í uppmælingu á þessum árstíma, m.v. hvernig aðstæður voru.  Þegar aðstæður voru upphaflega skoðaðar hafi verið farið vel yfir hvað átti að gera.  Aðkoman, þegar þeir hófu verkið, hafi verið sú að búið hafi verið að gustloka húsinu.  Það hafi verið opið og engin salernisaðstaða hafi verið fyrir hendi.  Þeir hafi rætt þetta og hafi stefndi gengist inná að útvega salerni, læsa húsinu o.s.frv.  Eftir að þeir hófu verkið og fóru að mæla út og hæðarkíkja gluggagöt hafi komið í ljós að þau voru út og suður.  Gluggar í húsinu hafi verið af ýmsum stærðum og með ýmsum línum og allt þetta hafi þurft að stúdera áður.  Komið hafi í ljós að ýmisleg aukaverk hafi verið nauðsynleg, t.d. að hefla úr grind hússins.  Þá hafi það einnig valdið miklum töfum að veggir hölluðu talsvert og einnig að gluggar voru mjög illa unnir.

Stefnandi var spurður hvort hann hefði athugasemdir við uppmælingu Meistarafélags húsasmiða.  Hann kvaðst fyrst og fremst hafa þær athugasemdir að það sem samið er um skuli standa.  Inn í mælinguna hafi vantað sitt lítið af hverju, sem hann ætlaði ekki að telja upp.  Auk þess hafi hann ekki verið viðstaddur er uppmælingin fór fram.  Þar að auki tíðkaðist að taka 20-30% meistaraálag ofan á útselda mælingu.  Hann hefði fyrir mörgum árum hætt að vinna eftir uppmælingu vegna þess að um endalausa óánægju hafi verið að ræða hjá verkkaupa og verksala.  Í nánast öllum tilfellum bætist talsverð tímavinna við mælingar og þess væru mörg dæmi að það hafi valdið mikilli óánægju.

Stefnandi kvað það vera rétt að hann hafi lofað að vanir menn ynnu verkið.  Smiðirnir sem unnu verkið hafi áður unnið við gluggaísetningar.  Sagði stefnandi aðspurður að ísetning glugga í timburhús væri hvorki margslungið verk né þyrfti að vera það.  Það gæti hins vegar orðið það eins og hann hefði áður lýst ef upp kæmu vandamál.  Stefnandi kvaðst kannast við að stefndi hafi unnið við verkið.  Honum hafi verið sett fyrir verkefni sem hann hafi unnið á kvöldin.  Smiðirnir sem unnu verkið hefðu farið yfir greinargerð málsins og þeim bæri alls ekki saman við það prósentuhlutfall sem stefndi gæfi upp.  Stefnandi var spurður hvaða aðgerðir hafi verið gerðar í sambandi við skakka glugga og veggi sem hölluðu.  Hann kvað pósta í gluggum ekki hafa borið saman.  Nefndi stefnandi sem dæmi að á gluggum sem sneru í vestur í stigagangi hafi verið mikill munur á bili milli pósta.  Stefnandi var spurður hvort hann hafi verið á staðnum og hent reiður á hvenær starfsmenn hans voru á staðnum og hvenær ekki.  Stefnandi sagði að eins og tímaskriftir hans sýndu hafi hann ekki verið öllum tímum á staðnum.  Hins vegar væru hlutaðeigandi smiðir búnir að vera hjá sér í mörg ár og hann vísaði því á bug að mennirnir hafi mætt seint og illa.  Hefðbundinn vinnutími hjá þeim hafi verið til kl. 18, en þó til kl. 16 á föstudögum.  Hann hafi spurt starfsmenn sína hvað hafi valdið því að þeir hafi hætt fyrr í einhverjum tilfellum og væri skýringin sú að það væri vegna aðstöðunnar.  Þarna hafi ekki verið aðstaða til að gera eitt né neitt og þá hafi starfsmennirnir unnið af sér matar- og kaffihlé og hætt fyrr.  Góð aðstaða á vinnustað og sem minnstar uppákomur skiluðu bestum afköstum.  Dag eftir dag hafi smiðirnir þurft að glíma við nýjar og nýjar uppákomur og það væri ekki til þess fallið að auka afköst eða hraða verki.  Stefnandi sagði að hann hafi ekki farið ofan í mælinguna í smáatriðum, en það væri sitt lítið af hverju sem á vantaði, svo sem fræsing á raufum í glugga og fleira.  Stefnandi kvaðst hafa ákveðið að víkja úr verkinu vegna þess að þetta hafi þegar verið búið að koma illa við hann, þ.e. verkið hafi tekið lengri tíma en bæði hann og, að hann hélt, stefndi hafi gert sér grein fyrir í upphafi, vegna þeirra ástæðna sem hann hefði talið upp.  Þá hafi sér ekki fundist koma til álita að fallast á 20% álag ofan á mælinguna.

Stefndi staðfesti greinargerð sína á dskj. nr. 8 og að það væri rétt sem þar kæmi fram.  Stefndi sagði að það væri rétt hjá stefnanda hvernig það bar til að hann tók að sér verkið.  Stefnandi hafi tjáð sér að hann væri með vana og hörkuduglega menn á sínum vegum.  Þeir væru nýbúnir að ljúka sams konar verki.  Hann hafi því mátt ætla að verkið tæki skamman tíma.  Það hafi legið ljóst fyrir hvað gera átti og sömuleiðis með alla aðstöðu.  Verkið hafi því ekki verið flókið.  Stefndi sagði að ekki hafi verið rætt hver heildarfjárhæð verksins gæti orðið og hann hafi ekki getað ætlað annað en það tæki eðlilegan tíma þar sem vanir menn væru á ferð og tímagjaldið svo hátt að hann hafi mátt ætla að um úrvalsfagmenn væri að ræða.  Verkið hafi síðan hvorki gengið né rekið, m.ö.o. gengið hægt og illa.  Í miðju verki hafi hann undrast mjög hve hægt því miðaði og talað um það við stefnanda, sem hafi tekið það óstinnt upp.  Án þess að hann hafi séð hvaða tíma stefnandi var búinn að skrifa hafi sér fundist að kostnaðurinn hlyti að verða óeðlilegur.  Stefnandi hafi talað um að taka mennina strax úr verkinu, en stefndi kvaðst ekki hafa talið ástæðu til þess, enda hafi hann ekki getað vitað hvaða tíma hann myndi skrifa á verkið.  Það hafi svo verið í lok verksins sem hvorki hafi gengið né rekið að koma einum glugga í.  Síðasta daginn sem starfsmenn stefnanda voru, hafi komið að því annar maður sem var að vinna þarna á sama tíma og hafi hann á einum degi eða átta tímum sett í glugga sem var erfiðari og miklu stærri.  Þar hafi verið um verulegt múrbrot að ræða, ekki síður en á glugganum sem starfsmenn stefnanda unnu við.  Því fyndist sér að um verulegan mun á afköstum hafi verið að ræða því ekki hafi verið neinn munur á eðli verkanna.  Gluggarnir hafi verið settir í á sama hátt.  Stefndi kvaðst hafa orðið þess var, þegar hann mætti í húsið kl. 16.30 til 17, að þá hafi smiðirnir verið farnir.  Tímaskýrslur hafi sýnt eftirá að þeir voru til kl. 18.  Hvað varðar 7. janúar 2000 sagði stefnandi að þann dag hafi hann komið kl. 17 og ætlað að bjóða upp á veitingar.  Hann hafi spurt stefnanda hvort þeir yrðu ekki til kl. 18 og hafi stefnandi sagt að svo yrði.  Kvaðst stefndi hafa sagt stefnanda hvað til stæði.  Þeir hafi þá verið farnir fyrir nokkru og maður sem var að vinna hjá sér hafi sagt sér að þeir hefðu farið um kl. 15.30.  Stefndi kvað stefnanda hafa komið til sín með drög að reikningi að verklokum.  Sagði stefndi að hann hafi sagt við hann að sér fyndist þetta vera gríðarlegur tímafjöldi og óheyrilega dýrt.  Þá hafi hann spurt stefnanda hvort þeir ættu ekki að láta mæla verkið til þess að kanna hvað gæti verið eðlilegt í þessum efnum.  Stefnandi hafi ekki tekið það í mál.  Stefndi kvaðst hafa hringt á mælingastofu trésmiða og þeir hafi ekki viljað mæla fyrir sig nema beiðni kæmi frá stefnanda.  Alllöngu síðar hafi mæling verið framkvæmd.

Aðspurður kvaðst stefndi ekki hafa þekkt til starfa stefnanda áður en hann tók að sér verkið fyrir hann að öðru leyti en því að nágranni sinn hafi sagt sér að stefnandi væri mjög góður verkmaður og snöggur að vinna verk.  Hann hafi því mátt ætla að svo væri.  Stefndi kvað það vera rétt að þegar hann tók ákvörðun um að fá stefnanda til verksins hafi þeir samið um að verkið skyldi unnið í tímavinnu og að tímagjaldið væri fastákveðið, þó ekki verkfæragjaldið.  Það hafi verið ákveðið að verkfæragjald yrði ekki tekið.  Stefndi kvaðst hafa verið með mann að nafni Þorgeir Margeirsson í vinnu á sama tíma.  Hann hafi verið á staðnum mestallan þann tíma sem starfsmenn stefnanda voru að störfum.  Stefndi var spurður hvers vegna hann hafi ekki látið stefnanda fara frá verkinu þegar það var u.þ.b. hálfnað og stefnandi bauðst til að fara frá því, úr því að hann var óánægður með það.  Stefndi sagði að eins og fram kæmi í greinargerð hans hafi hann sagt við stefnanda að það hlyti að vera að mennirnir væru að búa sér í haginn og verkið myndi taka kipp og klárast alveg á næstunni því þessi verktími hafi verið orðinn verulega lengri en smiðir voru búnir að áætla hjá sér, þ.e. að þetta væri vikuvinna fyrir tvo menn.  Þegar verkið hafi verið komið á aðra viku og ekki hálfnað að setja gluggana í hafi honum ekki litist á þetta.  Hins vegar hafi ekki verið gott að ljúka ekki verkinu.

Vitnið Þorgeir Óskar Margeirsson kvaðst hafa unnið sem smiður hjá stefnda í desember 1999 og janúar 2000.  Í fyrstu hafi hann unnið við að setja lista utaná húsið og að kítta.  Þá hafi hann unnið við að setja rakavarnarlag innan á húsið.  Vitnið kvaðst hafa notað vinnupallana og hann hafi ekki séð neitt athugavert við þá.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð neitt í húsinu sem bent hafi til að það væri skakkt.  Hann myndi hvorki til að það hafi verið neitt athugavert við húsið né aðstæður.  Þær hafi verið með góðu móti.  Vitnið sagði að hann hafi verið beðinn að setja hornglugga í bílskúr á neðri hæð.  Kvaðst hann hafa sett gluggann í á einum degi.  Hann hafi aldrei áður sett glugga í.  Vitnið sagði að vinna smiðanna sem unnu við að setja glugga í húsið hafi gengið brösuglega á köflum.  Kvað hann sér hafa fundist þetta ganga mjög hægt.  Margir dagar hafi farið í að setja einn glugga í.  Nefndi vitnið sem dæmi að smiðirnir hafi verið nokkra daga að setja einn glugga í sem var töluvert minni en glugginn sem vitnið setti einn í á svipuðum stað.  Vitnið var spurður hvort vandasamara hafi verið að setja glugga í tréveggi en steinveggi eða hvort einhver munur væri þar á.  Vitnið kvað svo alls ekki vera.  Meira að segja væri talsvert auðveldara að setja glugga í tré þar sem þeir væru yfirleitt mældir áður en þeir væru smíðaðir til þess að koma þeim í.  Sagði vitnið að þessir gluggar hafi, að sér fyndist, verið mjög réttir og þeir hafi passað mjög vel í að öllu leyti.  Vitnið kvað sig minna að hann hafi komið að vinnu við gluggana á þann hátt að hann hafi frauðað þá.  Vitnið kvað vinnutíma sinn hafa verið þarna frá kl. 8 til kl. 18.  Hann var spurður hvernig hafi verið með starfsmenn stefnanda sem unnu þarna á sama tíma og hann, þ.e. hvenær þeir hafi byrjað að vinna á morgnana og hve lengi þeir hafi unnið frameftir.  Vitnið sagði að hann hafi haft það fyrir reglu að vera byrjaður að vinna kl. 8, en starfsmenn stefnanda hafi mætt kl. 8.  Vitnið kvaðst alltaf hafa unnið til kl. rúmlega 18, en hann myndi ekki til þess að þeir hafi verið eftir kl. 17.  Vitnið var spurður hvort þeir hafi unnið af sér alla matar- og kaffitíma og hvort það væri skýringin á því að þeir fóru svo snemma.  Vitnið sagði að hann hafi alltaf tekið morgunkaffi og miðdegiskaffi og fullan hádegismat.  Kvaðst hann ekki muna betur en þeir hafi setið með sér í kaffitímum og í hádegismat.

Vitnið var spurður hvernig veðrið hafi verið á þessum tíma.  Hann kvað þetta hafa verið í lok desember og janúarbyrjun.  Það hafi verið hvít jörð og lygnt og að hann minnti engin úrkoma.  Hann hafi unnið í þunnum galla útivið, enda hafi ekki verið kalt í veðri.  Aðspurður um aðstæður á staðnum sagði vitnið að sig minnti að það hafi ekki verið salernisaðstaða á staðnum er hann byrjaði, en sig minnti að hún hafi verið að koma um það leyti sem hann hætti.  Húsnæðið hafi verið fokhelt, lýsing hafi verið mjög góð og ekkert hafi verið að hitanum.  Aðspurður hvort hann hafi alltaf verið á staðnum þegar hann tók sinn matartíma sagði vitnið að hann hafi farið í nærliggjandi verslun, keypt sér í matinn og etið hann á vinnustað.  Vitnið var spurður hvort starfsmenn stefnanda hafi farið stundum frá í mat eða hvort þeir hafi alltaf verið á staðnum.  Vitnið sagði að sig minnti að yngri smiðurinn hafi farið í verslunina og keypt sér eitthvað.  Vitnið var spurður hvort hann hafi einhvern tíma heyrt smiðina ræða það að aðstæður væru erfiðar.  Hann kvaðst ekki minnast þess.  Kvaðst hann aldrei hafa kvartað við stefnda undan slæmri aðstöðu.               

Ástþór Runólfsson kom fyrir dóminn.  Honum var sýnd mælingin á dskj. nr. 17.  Aðspurður kvaðst hann hafa staðið að þessari mælingu.  Vitnið var spurður hvort hann teldi að mælingin gæfi raunsanna mynd af því hvað væri eðlileg greiðsla fyrir það verk sem þarna var unnið.  Vitnið sagði að svo væri miðað við þær upplýsingar sem þeir hafi haft á staðnum.  Vitnið var spurður hvort það væru einhverjir sérstakir liðir sem gætu hugsanlega haft áhrif til að skekkja mælinguna.  Hann kvaðst í fljótu bragði ekki geta komið auga á það m.v. þá upptalningu sem fram kæmi í mælingunni.  Þó væri e.t.v. eitthvað sem vantaði uppá.  Vitnið var spurður hvort hann myndi hvort aðstæður hafi verið með einhverjum þeim hætti, þegar mælingin fór fram, að það virtist benda til þess að miklar skekkjur hafi verið í húsinu sem hafi kallað á að sérstakar tilfæringar hafi þurft við að koma gluggunum í.  Vitnið sagði að hann hafi ekki getað séð það.  Ef svo hefði verið hefði átt að koma álagningarprósenta ofaná ísetninguna í fyrsta liðnum.  Varðandi liði 16 og 17 sagði vitnið að þeir væru miðaðir við að smiðirnir hefðu séð um að setja vinnupalla upp og rífa þá niður.  Vitnið var spurður hvort ekki væri eðlilegt, þegar mæling sem þessi væri framkvæmd, að smiðurinn sem framkvæmdi verkið væri á staðnum.  Vitnið sagði að vitaskuld væri það æskilegt, en eins og fram kæmi væri þetta áætlun án tímaskýrslu.  Oft væri leitað til þeirra að framkvæma mælingar ef ágreiningur væri uppi.  Þar sem honum hafi skilist af bréfi sem hann hafi séð frá lögmönnum að samkomulag væri um að framkvæma mælingu hafi þeir gengið í það verk.  Vitnið var spurður hvort honum væri kunnugt um að smiðir væru almennt hættir að nota uppmælingu.  Vitnið sagði að svo væri alls ekki.  Öll stærstu fyrirtækin á Reykjavíkursvæðinu notuðu mælingar.  Vitnið var loks spurður hvort menn hefðu almennt traust á því, þegar þeir væru að kaupa vinnu við verk sem þetta, að mælingarnar endurspegluðu rétta niðurstöðu, sem væri sanngjörn fyrir báða aðila.  Vitnið sagði að uppmæling væri vart notuð svo mikið ef svo væri ekki.

Vitnið Kristinn Árni Egilsson var fyrst spurður um aðstæður á vinnustað þegar hann kom að verkinu.  Vitnið sagði að t.d. hafi engin salernisaðstaða verið.  Þá hafi aðstæður til að vinna verkið verið fremur slæmar.  Þetta hafi verið að vetri til og snjór og bleyta kringum húsið.  Vitninu var gerð grein fyrir að deilt væri um reikninginn og þann vinnutímafjölda sem lægi að baki honum.  Dregið væri í efa að smiðirnir sem unnu verkið hafi verið á staðnum allan þennan tíma og hann hafi verið óeðlilega langur.  Vitnið kvað sér finnast þetta ósanngjarnt og þetta væri ekki rétt.  Honum var bent á að fram kæmi á dskj. nr. 3 að síðasta daginn sem þeir unnu, 7. janúar 2000, hafi vitnið skrifað 9 klukkustundir.  Stefndi héldi því fram að þeir hafi verið farnir uppúr kl. 15 eða 15.30.  Aðspurður hvort það væri rétt sagði vitnið að hann myndi ekki nákvæmlega tímann, en þeir hafi unnið kaffitíma og stytt matartíma og síðan væri frágangur við að taka saman verkfæri og fara með þau af staðnum.  Allt fylgdi þetta verkinu.  Aðspurður hvort gluggaísetningin, glerjunin og frágangurinn hafi verið með eðlilegu móti sagði vitnið að það hafi verið langt því frá að vera eins og þeir áttu að venjast.  Gluggagöt hafi ekki “flúttað”, þeir hafi þurft að hefla og nota bæði vélhefla og sporjárn til að gluggagöt væru í réttri línu.  Sagði vitnið að hann hefði áður unnið við gluggaísetningar og þetta hafi verið verri aðkoma en hann hafi átt að venjast.  Gluggagötin hafi verið mishæðótt og til að fá þau í línu hafi þeir þurft að vinna með vélhefli.  Vitnið var spurður hvort gluggarnir hafi verið í réttri stærð.  Hann kvað svo ekki hafa verið á neðri hæðinni.  Aðspurður hvað það hafi helst verið sem tafði verkið sagði vitnið að það hafi m.a. verið að vinnupallarnir voru ekki í réttri hæð.  Salernisaðstaðan hafi verið þannig að þeir hafi þurft að fara út í bæ til að gera stykkin sín.  Allt tæki þetta tíma.  Aðspurður hvort einhverjir aðrir menn hafi verið að vinna þarna á sama tíma og þeir sagði vitnið að seinni partinn hafi komið þarna pípulagningarmenn.  Þá hafi verið þar við störf maður að nafni Þorgeir Margeirsson.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi verið allan tímann sem þeir voru, en hann hafi verið einhverja daga.

Vitnið sagði að það hafi verið öll aðstaðan sem hafi gert þeim erfitt fyrir.  Þeir hafi unnið verkið um hávetur.  Til að mynda hafi þeir þurft að reyna að þurrka föls og það hafi gengið misjafnlega í þeirri veðráttu sem var.  Allt tefði þetta.

Ómar Steinar Rafnsson húsasmíðameistari kom fyrir dóminn.  Hann kvaðst hafa komið að verki fyrir stefnda við að innrétta húsið, þ.e. klæða það með gifsplötum, frágangi í kringum glugga og klæða það að innan.  Vitnið var spurður hvort hann hafi komið þannig að verki við gluggana að hann hafi getað gert sér grein fyrir því hvernig þeim var fyrir komið, svo sem hvort það hafi verið einhverjar skekkjur.  Vitnið sagði að þetta væri timburhús og frágangurinn á því hafi verið þannig að gluggarnir hafi verið settir í og úretan notað til að þétta með þeim.  Kvaðst vitnið hafa gengið frá plasti að gluggum og áfellum í gluggaraufar.  Hann hafi ekki leitað eftir því sérstaklega hvernig þetta var gert, en hann hafi ekki getað séð að það væri búið að færa grind eða höggva úr henni til þess að koma gluggum fyrir.  Hann hafi einungis séð þessa venjulegu rauf sem skilur að glugga og grind og ekkert athugavert séð í því sambandi.  Vitnið kvaðst hafa sett sólbekki í gluggana.  Hann var spurður hvort það hefði valdið vanda við að koma sólbekkjunum í, hefði mikil skekkja verið og mikið hefði þurft að hefla úr undir gluggum.  Vitnið sagði að hann hafi þurft að fella svipað í undir alla sólbekki.  Hann hafi ekki þurft að gera neinar lagfæringar á timburgrindinni neðan við sólbekkina til að koma þeim í.  Vitnið kvaðst hafa sett einn glugga í á neðri hæð hússins, en það hafi verið horngluggi, sem hafi verið ósamsettur þegar hann kom að verkinu og hann hafi þurft að setja hann saman og taka hann í sundur og stytta hann til samræmis við glugga sem var kominn hinu megin við.  Hann hafi sett gluggann saman eftir að hafa tekið hann í sundur og skrúfað hann saman á horni.  Hann hafi orðið að brjóta steypu ofan við hann til að koma honum í svo hann héldi sinni línu við gluggann við hliðina.  Þennan glugga hafi hann sett í, fest hann, gengið frá honum og gustlokað.  Kvaðst vitnið hafa verið fjóra klukkutíma að þessu.  Aðstæður við ísetninguna hafi verið góðar.  Þetta hafi verið gluggi á jarðhæð og hann hafi ekki þurft á neinum vinnupöllum að halda.  Vitnið var spurður um aðstæður á staðnum.  Hann kvaðst hafa verið að vinna inni í húsinu og þar hafi aðstæður verið með besta móti og ekki öðruvísi en gengur og gerist í þess konar vinnu.  Vitnið var spurður hvort almennt mætti gera ráð fyrir því að uppmæling á verkum væri nærri því sem byggingameistarar teldu eðlilegt endurgjald fyrir verk við venjulegar aðstæður.  Hann kvaðst lítið hafa unnið eftir mælingu síðustu árin.  Vitaskuld væri uppmæling almennt viðurkennd sem viðmiðun þegar rætt væri um verk og verð fyrir verk.  Vitnið kvaðst hafa unnið við hús stefnanda í febrúar/mars 2000.  Vitnið var spurður fyrir hvaða tímagjald hann tæki verk að sér.  Vitnið sagði að hann semdi um það sérstaklega við viðskiptamann sinn í hvert og eitt skipti, en verðið væri ekki alltaf hið sama.  Á þessum tíma minnti sig að útselt tímagjald hafi verið 1.500 til 1.600 krónur að frátöldum virðisaukaskatti.  Í þessu tilfelli hafi verið samið um fast tímagjald og ekkert meistaraálag þar ofan á.

V.

Stefnandi í þessu máli byggir kröfu sína á reikningi sem studdur er tímaskýrslum sem lagðar hafa verið fyrir dóminn.  Hefur stefnandi viðurkennt að vinnustundir hafi orðið fleiri en venjulegt sé við verk af þessu tagi.  Kvað stefnandi það m.a. stafa af erfiðum aðstæðum á byggingarstað bæði að því er varðaði veðurlag og aðbúnað og eins því að gluggar pössuðu ekki í gluggagöt.  Stefndi hefur mótmælt þessu og kveður verkið hafa verið hefðbundið að öllu leyti og aðstæður ekki erfiðari en gengur og gerist á byggingarstað.  Hefur stefndi lagt fram mælingu frá Meistarafélagi húsasmiða þar sem greiðsla fyrir verkið er metin lægri en stefnandi hefur reiknað sér.

Það er mat dómsins að áðurnefnd mæling sé ekki sambærilegt sönnunargagn og matsgerð dómkvaddra matsmanna.  Fram er komið að stefnandi var ekki viðstaddur er mælingin fór fram og hefur þar af leiðandi ekki getað komið að sjónarmiðum sínum.  Stefnandi hefur alla tíð hafnað því boði stefnda að greiðsla fyrir verkið yrði ákveðin á grundvelli mælingar.  Gegn andmælum stefnanda verður því ekki byggt á því hér fyrir dómi að umrædd mæling gefi raunsanna mynd af því verki sem stefnandi vann fyrir stefnda, enda kemur ekki fram í henni afstaða til þess hvort aðstæður hafi verið með einhverjum hætti óvenjulegar þannig að leitt gæti til lengri verktíma.  Enn fremur er í mælingu þessari miðað við svokallaðar taxtamínútur og er greiðsla sögð eiga að vera 355 krónur fyrir hverjar 60 slíkar mínútur.  Ekkert er komið fram í málinu sem skýrir samhengi þessa tímagjalds og þess gjalds sem samdist um milli aðila.  Verður því ekki fallist á að stefnandi þurfi að sæta því að greiðsla til hans sé metin eftir þessum mælikvarða, en ekki samkvæmt því tímagjaldi sem um samdist.  Telja verður að stefndi hefði orðið að semja um það fyrirfram ef hann vildi að verkið yrði mælt upp og á þeirri mælingu byggt við ákvörðun endurgjalds.  Þar sem stefnandi hafi verið því mótfallinn að þessi aðferð yrði notuð geti hann ekki talist bundinn af þeirri mælingu sem stefndi lét framkvæma á verkinu.  Hefði stefndi þurft að dómkveðja matsmenn til að meta verkið eftir viðurkenndum aðferðum réttarfarslaga, úr því hann sætti sig ekki við fram kominn reikning. 

Stefndi gerði samning við stefnanda um að vinna fyrir sig ákveðið verk í tímavinnu og er enginn ágreiningur um tímavinnugjald.  Stefnda ber því að greiða það verð sem sett er upp nema það teljist bersýnilega ósanngjarnt, sbr. meginreglu 5. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922.  Sönnunarbyrðin fyrir ósanngirni reiknings stefnanda hvílir á stefnda.  Í vitnisburði Þorgeirs Óskars Margeirssonar, sem starfaði á byggingarstað á sama tímabili og starfsmenn stefnanda, kemur fram að starfsmenn stefnanda hafi unnið eftir kl. 17 á daginn og hann minnti að þeir hefðu setið með sér í matar- og kaffitímum.  Í framburði Kristins Árna Egilssonar, starfsmanns stefnanda, kemur fram að hann telur að hann og aðrir sem unnu við verkið af hálfu stefnanda hafi skilað því í samræmi við vinnutímaskýrslur.  Sagði vitnið að ef starfsmenn hafi farið fyrir kl. 18 af byggingarstað þá hafi menn unnið matar- og kaffitíma til að geta hætt fyrr.  Hér stendur orð gegn orði og verður því að teljast ósannað að starfsmenn stefnda hafi ekki skilað þeim vinnustundum í þágu stefnda sem tilgreindar eru á vinnuskýrslum.  Stefnda hefur því ekki tekist sönnun þess að umræddur reikningur hafi verið bersýnilega ósanngjarn að því er varðar vinnustundafjölda.

Aðilar hafa deilt um hvort stefnanda hafi verið heimilt að krefja stefnda um svokallað verkfæragjald.  Stefnandi hefur haldið því fram að hann hafi ætíð krafið um verkfæragjald auk tímagjalds er hann vann sambærileg verk.  Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn sem renna stoðum undir þessa fullyrðingu og stefnandi hefur heldur ekki reynt að sýna fram á að venja sé til þess í viðskiptum af þessu tagi að innheimta verkfæragjald.  Verður því að telja ósannað að samist hafi um að stefndi greiddi umrætt gjald og ber því að sýkna stefnda af þessum þætti í kröfugerðinni.

Stefndi hefur ekki mótmælt kröfu stefnanda um greiðslu fyrir akstur utan að stefndi hefur hafnað því að greiða virðisaukaskatt vegna þessa verkliðar.  Í starfsemi eins og þeirri sem stefnandi stundar verður að telja að akstur falli undir sölu á vöru og þjónustu í skilningi 11. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Verður stefndi því dæmdur til að greiða virðisaukaskatt af umræddri greiðslu.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda.  Stefnandi hefur ekki mótmælt upphafsdegi dráttarvaxta sérstaklega og verður hann því ákveðinn í samræmi við kröfugerð.  Samkvæmt þessari niðurstöðu er fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Stefndi verður samkvæmt framansögðu dæmdur til að greiða stefnanda 380.915 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Stefna í máli þessu var árituð um aðfararhæfi þann 4. október 2000 vegna útivistar stefnda.  Málið var endurupptekið 15. nóvember s.á. að beiðni lögmanns stefnda og með samþykki lögmanns stefnanda eftir að stefndi hafði lagt fram málskostnaðartryggingu að upphæð 62.271 krónur.  Með úrskurði upp kveðnum 8. desember 2000 var fallist á kröfu stefnda um að réttaráhrif áritunar á stefnu féllu niður.  Með vísan til þess að mál þetta var þannig endurupptekið verður að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar vegna málsins í heild án tillits til þeirrar niðurstöðu sem fæst, sbr. 3. mgr. 141. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.  Málskostnaðarreikningur lögmanns stefnanda hljóðar upp á 406.835 krónur.  Ekki verður fallist á að mál þetta sé þannig vaxið að réttlæti svo háan málskostnaðarreikning.  Það er mat dómsins að málskostnaður sé hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Júlíus B. Georgsson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefndi, Sæþór Fannberg Jónsson, greiði stefnanda, Gunnari Erni Rúnarssyni  380.915 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 2000 til greiðsludags og er heimilt að höfuðstólsfæra áfallna dráttarvexti á tólf mánaða fresti, í fyrsta skipti 30. janúar 2001.

Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.  Málskostnaður beri dráttarvexti samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga að liðnum fimmtán dögum frá dómsuppsögu til greiðsludags.