Hæstiréttur íslands
Mál nr. 99/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2008. |
|
Nr. 99/2008. |
Pétur Ingi Jakobsson(Gunnar Jóhannsson hdl.) gegn tollstjóranum í Reykjavík (Guðfinna H. Þórsdóttir, fulltrúi) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
T krafðist gjaldþrotaskipta á búi P. Við fyrirtöku málsins mætti P og óskaði eftir og fékk frest, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Er málið var tekið fyrir á ný mótmælti P kröfu T á nánar tilgreindum forsendum. Þóttu þau mótmæli of seint fram komin, sbr. 4. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 og var krafa T því tekin til greina, enda töldust skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. sömu laga fyrir hendi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2008, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Pétur Ingi Jakobsson, greiði varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2008.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 16. janúar 2008.
Skiptabeiðandi er Tollstjórinn í Reykjavík, [kt.], Tryggvagötu 19, Reykjavík.
Skuldari er Pétur Ingi Jakobsson, [kt.], Baugholti 13, Reykjanesbæ.
Skiptabeiðandi krefst þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta en skuldari mótmælir því að krafa skiptabeiðanda nái fram að ganga og krefst þess að með málið verði farið sem ágreiningsmál samkvæmt 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
I.
Með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjaness 13. nóvember 2007 hefur Tollstjórinn í Reykjavík krafist þess að bú Péturs Inga Jakobssonar verði tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptabeiðandi kvaðst eiga kröfu á hendur skuldara vegna vangreiddra opinberra gjalda. Í kröfunni er höfuðstóll skuldarinnar ásamt vöxtum og kostnaði tilgreindur 5.218.200 krónur. Gert var árangurslaust fjárnám hjá skuldara 26. október 2007. Um lagarök fyrir kröfu sinni vísar skiptabeiðandi til ákvæða 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Við þingfestingu málsins 6. desember 2007 sótti skuldari sjálfur þing. Þar sem hann er ólöglærður var honum leiðbeint eins og bókað er í endurriti af þinghaldinu. Að ósk skuldara var málinu síðan frestað til 10. janúar 2008. Við fyrirtöku málsins þann dag sótti skuldari sjálfur þing ásamt lögmanni sínum. Krafðist skuldari þess þá að farið yrði með málið sem ágreiningsmál samkvæmt 168. gr. laga nr. 21/1991 og vísaði til gagna í máli nr. Y-7/2007 sem rekið er hér fyrir dóminum um gildi áðurgreindrar fjárnámsgerðar frá 26. október 2007. Af hálfu skiptabeiðanda var því mótmælt að krafa skuldara um að málið yrði rekið sem ágreiningsmál næði fram að ganga þar sem mótmæli komu ekki fram við þingfestingu málsins 6. desember 2007. Málinu var síðan frestað til 16. janúar sl. til að gefa aðilum málsins færi á að rökstyðja kröfur sínar fyrir dóminum og var svo gert og málið síðan lagt í úrskurð að þessu leyti.
II.
Í 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að ef skuldari sæki þing og lánardrottinn, sem krefst gjaldþrotaskipta á búi hans, megi héraðsdómari verða við sameiginlegri ósk þeirra um að fresta meðferð kröfunnar, þótt mótmæli hafi ekki komið fram gegn henni. Slíka fresti megi ekki veita til lengri tíma en samtals eins mánaðar. Í 4. mgr. 70. gr. segir að ef skuldari sæki þing og mótmæli kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta, skuli farið með hana eftir ákvæðum 168. gr. sömu laga.
Eins og rakið er hér að framan, sótti skuldari sjálfur þing við þingfestingu málsins og var honum leiðbeint enda ólöglærður. Engin mótmæli komu þá fram við kröfu skiptabeiðanda en að ósk skuldara var málinu frestað til 10. janúar sl. Það var síðan ekki fyrr en í því þinghaldi sem þess var óskað að þingfest yrði ágreiningsmál samkvæmt 168. gr. laga nr. 21/1991. Verður að skilja bókun skuldara og lögmanns hans sem mótmæli við kröfu skiptabeiðanda. Framangreind ákvæði 70. gr. laga nr. 21/1991 verður að skilja þannig, að koma verði fram með mótmæli við kröfu skiptabeiðanda strax við þingfestingu máls og því verða mótmæli skuldara talin vera of seint fram komin við þinghaldið 10. janúar sl. Verður enda hvorki séð af lagatextanum eða í lögskýringargögnum að gert séð ráð fyrir öðru. Þá verður ekki fallist á það með skuldara að líta beri svo á að hann hafi með frestsbeiðni sinni við þingfestingu málsins í raun verið að mótmæla réttmæti gjaldþrotaskiptakröfunnar. Með vísan til framanritaðs ber því að taka kröfu skiptabeiðanda til greina enda er fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu skiptabeiðanda. Er bú Péturs Inga Jakobssonar því tekið til gjaldþrotaskipta.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Bú Péturs Inga Jakobssonar, [kt.], Baugholti 13, Reykjanesbæ, er tekið til gjaldþrotaskipta.