Hæstiréttur íslands

Mál nr. 786/2014


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


                                     

Miðvikudaginn 13. maí 2015.

Nr. 786/2014.

K

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.

Í dómi héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var K svipt forsjá þriggja barna sinna á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var sú niðurstaða meðal annars reist á forsjárhæfnismati og undirmatsgerð sálfræðinga um að K væri óhæf til að fara með forsjá þeirra og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Þá hefðu önnur og vægari úrræði sömu laga ekki skilað viðunandi árangri. Í dómi Hæstaréttar kom fram að niðurstaða yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga, sem K hafði aflað eftir að dómur héraðsdóms hafði verið kveðinn upp, hefði samrýmst fyrrgreint forsjárhæfnismat og undirmatsgerð sálfræðinga. Með þessari athugasemd var hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2014. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Þá krefst hún þess sérstaklega að fjárhæð gjafsóknarkostnaðar í héraði verði hækkuð.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp aflaði áfrýjandi yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga. Niðurstöður hennar samrýmdust forsjárhæfnimati 4. mars 2014 og undirmatsgerð sálfræðings 8. september sama ár um að áfrýjandi væri ófær um að fara með forsjá þriggja barna sinna og að önnur og vægari úrræði samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 hafi verið fullreynd áður en krafa var gerð um sviptingu forsjár þeirra.

Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans um annað en gjafsóknarkostnað, en um hann fer samkvæmt því sem í dómsorði segir.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en gjafsóknarkostnað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hennar, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, 439.250 krónur, og Þuríðar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 800.000 krónur. Þá greiðist úr ríkissjóði allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. nóvember 2014.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 7. október sl., er höfðað með þingfestingu stefnu 14. maí 2014.

Stefnandi er Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ.

Stefnda er K, kt. [...],[...],[...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, K, verði með dómi svipt forsjá yfir börnunum A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...].

Jafnframt er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður hver sem úrslit málsins verða.

Stefnda krefst þess „að kröfu stefnanda verði hafnað og að stefndu verði ákvörðuð áframhaldandi forsjá barna sinna, A, kt. [...], B og C, kt. [...].“

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnanda að meðtöldum virðisaukaskatti.

II.

Stefnda í máli þessu er móðir barnanna A, B og C og fer með forsjá þeirra. Faðir A og B er D, fæddur [...], en skráður faðir B er E, fæddur [...]. Faðir C er F, fæddur [...].

Í stefnu segir að stefnda hafi lítið sem ekkert verið á vinnumarkaði. Hún hafi verið á endurhæfingarlífeyri og farið í starfsendurhæfingu, en njóti í dag fjárhagsaðstoðar. Stefnda hafi neytt fíkniefna á því tímabili er stefnandi hafi haft afskipti af henni, en hætt þar sem hún hafi óttast að missa börn sín. Í gögnum málsins komi fram að þeir fagaðilar sem hafi verið í samskiptum við stefndu af hálfu barnaverndar hafi orðið varir við alvarleg depurðareinkenni hjá stefndu ásamt almennu sinnuleysi, bæði gagnvart eigin umhirðu, börnunum og umhverfinu. Í gögnunum komi fram að stefnda hafi sjálf greint frá því að vera þunglynd og kvíðin. Í skýrslu tilsjónaraðila komi fram að erfitt sé að fá stefndu til samvinnu, að ræða við hana og fá hana til að svara spurningum.

Þá segir í stefnu að F hafi verið á vinnumarkaði og í námi en njóti í dag fjárhagsaðstoðar. Hann eigi einn dreng af fyrra sambandi sem komi til hans í umgengni aðra hverja helgi. F hafi setið í fangelsi í fjögur ár, m.a. fyrir nauðgun og sifjaspell. Hann eigi sér langa neyslusögu eða allt frá 15 ára aldri og hafi m.a. ítrekað sprautað sig. Þá eigi F langan afbrotaferil að baki. Í gögnum frá barnavernd [...] komi fram að hann hafi sætt lögreglurannsókn þar sem hann hafi verið undir grun um að hafa beitt A kynferðislegri misnotkun, en þeirri rannsókn hafi verið hætt.

A sé [...] ára. Um töluvert skeið hafi kennarar í skóla (og leikskóla) telpunnar haft áhyggjur af vanlíðan hennar. Í tilkynningu frá skóla, dags. 22. nóvember 2013, komi fram að A hafi sýnt töluverða vanlíðan í skólanum, hún hafi grátið mikið og virst vansæl. Þá komi einnig fram að hún komi sjaldnast með nesti og sé ekki með nauðsynleg námsgögn meðferðis.

B sé [...] ára. Áhyggjur hafi vaknað á leikskóla barnsins vegna vanlíðunar hans, sem og um að umhirðu og aðbúnaði drengsins væri ábótavant. Drengurinn hafi átt í erfiðleikum í samskiptum við önnur börn, sýnt mikla reiði og oft lent í útistöðum við börn og starfsfólk leikskóla þegar honum hafi verið sett mörk. B eigi í erfiðleikum með mál og hafi veruleg frávik í málþroska. Stefnda hafi ekki fylgt því eftir að mæta með drenginn til talmeinafræðings.

C sé [...] mánaða. Snemma hafi vaknað áhyggjur um velferð stúlkunnar. Foreldrar hafi ekki mætt með hana í ungbarnaeftirlit á réttum tíma og þyngd stúlkunnar hafi staðið í stað þegar hún var fimm til sex mánaða. Fram komi í greinargerð barnaverndar [...] að móðirin hafi lítið farið út með stúlkuna og gefið upp þá ástæðu að hún nennti ekki að klæða hana og setja í bílstólinn.

Mál fjölskyldunnar hafi fyrst komið til kasta barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar á árunum 2007 til 2010. Í janúar 2013 hafi málefni fjölskyldunnar verið tekin til meðferðar hjá barnavernd [...], en þá hafi verið óttast um velferð barnanna vegna vanrækslu á umsjón og eftirliti, sem og vegna líkamlegrar vanrækslu og vanrækslu varðandi nám. Eftir að málið fluttist aftur til stefnanda í ágúst 2013 hafi barnavernd Reykjanesbæjar borist tilkynningar um andlegt og líkamlegt ofbeldi, sem og kynferðislegt ofbeldi. Einnig um vanrækslu á umsjón og eftirliti, um líkamlega og tilfinningalega vanrækslu og vanrækslu varðandi nám.

Starfsmönnum stefnanda hafi gengið erfiðlega að fá stefndu til samstarfs. Erfiðlega hafi gengið að ná í stefndu símleiðis og hún hafi afboðað viðtöl hjá starfsmönnum. Í vitjunum hafi stefnda ekki verið til samstarfs, heldur hafi hún lokað sig inni í herbergi og breytt teppi yfir höfuð sér. Þrátt fyrir að starfsmenn stefndu hafi veitt foreldrum barnanna ráðgjöf, leiðbeiningar og fjárhagsaðstoð, líti stefnda svo á að þau fái enga aðstoð af hálfu stefnanda.

Af þeim fjölmörgu tilkynningum og bréfum sem stefnandi hefur lagt fram í málinu sé ljóst að börnin hafi búið við óstöðugleika sem hafi valdið þeim vanlíðan, enda bendi gögn málsins til þess að stefnda hafi hvorki getu né þá innsýn sem þurfi til að veita börnunum það uppeldi sem þau þarfnist. Þannig hafi borist tilkynningar vegna ótta um velferð A þar sem foreldrar hafi ekki mætt með stúlkuna í reglulegt ungbarnaeftirlit á tilskildum tíma. Þá hafi komið fram tilkynningar frá leikskóla vegna stöðu og þroska B. Fjölmargar tilkynningar hafi borist um líkamlega vanrækslu barnanna og vegna gruns um að móður skorti hæfni til að sinna þörfum barnanna. Einnig megi nefna tilkynningu um að stúlkan A hafi greint frá því að eiga leyndarmál, sem enginn megi vita um, og að stjúpfaðir meiði móður, en vegna tilkynningarinnar hafi verið óttast um líðan og heilsu stúlkunnar.

Þá liggi fyrir í málinu að mikil átök hafi átt sér stað milli foreldra að börnunum viðstöddum, en í greinargerð, dags. 24. mars 2014, komi fram að börnin hafi m.a. greint frá því að þau hafi ekki fengið að borða og að þau hafi verið læst inni í herbergi á meðan á slagsmálum stefndu og F stóð. Þessi háttsemi hafi vitaskuld bitnað harkalega á börnunum sem hafi þurft að horfa upp á ofbeldi á heimilinu, bæði líkamlegt og andlegt. Vart þurfi að fara um það mörgum orðum að slíkt sé til þess fallið að valda börnunum mikilli vanlíðan og því sé nauðsynlegt að grípa inn í með þeim hætti sem nú sé krafist dóms um.

Í stefnu segir að frá því að barnaverndaryfirvöld hófu afskipti af fjölskyldunni hafi ýmis stuðningsúrræði verið reynd. Helstu áherslur barnaverndar [...]  hafi verið þær að veita foreldrum uppeldisráðgjöf, ráðgjöf varðandi fjármál, tilsjón og óboðað eftirlit á heimili. Auk þess hafi verið lögð áhersla á að móðir færi í sálfræðiviðtöl, en faðir hafi sótt sálfræðiviðtöl á vegum fangelsismálastofnunar. Fyrir liggi að stefnandi hafi ítrekað reynt ýmis stuðningsúrræði til að tryggja hagsmuni barnanna. Líkt og fram komi í gögnum málsins hafi stefndu þannig verið veitt fjölbreytt aðstoð af hálfu barnaverndaryfirvalda, svo sem í formi fjárhagsaðstoðar og stuðnings á heimili, án þess að þau úrræði hafi skilað tilætluðum árangri. Einnig hafi stefnda fengið ráðgjöf varðandi uppeldi, sem og persónulega ráðgjöf og þá hafi hún sótt sálfræðiviðtöl. Víða í gögnum málsins komi fram að þau stuðningsúrræði sem reynd hafi verið hafi ekki skilað tilætluðum árangri og að óttast megi um líðan barnanna í umsjón stefndu. Af hálfu stefnanda hafi á öllum stigum málsins verið gætt að rétti stefndu til andmæla. Stefnda hafi þannig haft tækifæri til að kynna sér öll gögn málsins og tjá sig um þau.

Af gögnum málsins megi ráða að andlegt ástand stefndu sé ekki stöðugt og að þeir hlutlausu aðilar sem komið hafi að málinu hafi lýst áhyggjum af líðan barnanna. Þannig lýsi G hjúkrunarfræðingur í bréfi, dags. 11. janúar 2013, áhyggjum af velferð A. Í bréfinu komi fram að stefnda þjáist af þunglyndi, kvíða og fælni og sé að eigin sögn í meðferð hjá geðlækni. Þá sé tekið fram að faðirinn sé nýbúinn af afplána dóm, en hann sé óvirkur fíkill og eigi líka að vera í viðtölum hjá geðlækni vegna ofvirkni og athyglisbrests. Að mati G þyki sýnt að þessi fjölskylda þurfi talsverðan stuðning.

Í skýrslu H sálfræðings, dags. 21. apríl 2013, vegna B, komi fram að lýst hafi verið erfiðri hegðun heima fyrir og í leikskóla, en einkenni athyglisbrests og ofvirkni komi fram á báðum stöðum. Þá sé tilfinningalegur vandi einnig til staðar.

Í skýrslu I sálfræðings og J sálfræðings, dags. 8. febrúar 2011, komi fram að stefnda eigi erfitt með að opna sig fyrir ókunnugum og finnist ógnvekjandi að þurfa að hitta ókunnuga manneskju. Ætla megi að ekki hafi tekist að koma á meðferðarsambandi við sálfræðing vegna þess.

Í umsögn frá K, skólastjóra [...] a, dags. 28. október 2013, komi m.a. fram að A sé oft döpur og sýni sjaldan gleðiviðbrögð og að hún setji oft í brýnnar. Umhirða og aðbúnaður sé ekki góður og hún komi ekki alltaf með nesti. Þá komi fram að stefnda hafi áhyggjur af A þar sem pabbi hennar sé í mikilli dópneyslu.

Í skýrslu tilsjónaraðila, L dags. 14. mars 2014, komi fram í niðurstöðukafla að stefnda og F hafi ekki verið til samvinnu við tilsjónaraðila og að tilsjónaraðili hafi upplifað streitu á milli þeirra þar sem þau hafi ekki verið sammála um uppeldisaðferðir. Enn fremur komi fram að stefnda hafi ekki farið á SOS-námskeið og ekki sýnt áhuga á að vilja bæta ástand heimilisins. Loks komi fram að mikið rótleysi sé á heimilinu, börnin séu mikið í pössun og stefnda og F séu að slíta sambandinu. Stefnda sé marklaus og ekki í andlegu jafnvægi. Tilsjónaraðili lýsi K sem mjög þungri í skapi og að erfitt sé að eiga samræður við hana. Tilsjónaraðili meti það svo að F beri ekki skynbragð á þarfir barnanna. Þar sem móðir hafi verið mjög ósátt við að hafa tilsjón á heimili hafi verið ákveðið að koma til móts við hana og draga úr tilsjóninni, en gerð hafi verið sú krafa að í staðinn yrði hún til samstarfs þar sem mikilvægt hafi þótt að tilsjónaraðili væri á heimilinu til þess að leiðbeina foreldrum og fylgjast með aðbúnaði barnanna. Þrátt fyrir að barnavernd hafi viljað koma til móts við K hafi hún ekki sýnt samstarfsvilja og ekki tekið leiðbeiningum.

Það sé mat stefnanda að stefnda hafi hvorki vilja né getu til þess að nýta sér þann stuðning til fullnustu sem henni hafi staðið til boða af hálfu stefnanda. Þar að auki sé það mat stefnanda að stefnda hafi ekki náð að nýta sér stuðning og leiðbeiningar barnaverndar, m.a. vegna skorts á samstarfi. Í gögnum málsins komi fram að börnin séu illa hirt, illa öguð, að öryggis þeirra sé ekki gætt og að þau séu skilin eftir án eftirlits. Vart þurfi að fara um það mörgum orðum að framangreind lýsing á andlegu ástandi stefndu og aðstæðum barnanna bitni harkalega á börnunum. Með vísan til þessa telji stefnandi að stefnda sé ekki fær um að veita börnunum viðeigandi uppeldisaðstæður í skilningi 1. gr. barnaverndarlaga.

Í málinu liggi fyrir foreldrahæfnismat M sálfræðings, dags. 4. mars 2014. Þar komi fram að matsaðili telji ljóst að forsjárhæfni stefndu og F sé verulega skert og að þau virðist hvorki hafa áhuga né getu til þess að bæta sig. Matsmaður telji þau bæði, hvort um sig og saman, vanhæf um að fara með forsjá barna. Þá telji matsmaður að aðstæður sem börnin búi við séu bæði ófullnægjandi og skaðlegar.

Að öðru leyti en að framan greini kveðst stefnandi vísa til ítarlegrar málavaxtalýsingar í framlögðum gögnum málsins. Sérstaklega sé vísað til greinargerðar starfsmanna barnaverndar Reykjanesbæjar og úrskurðar 24. mars 2014, þar sem ítarlega sé farið yfir öll afskipti barnaverndar af málefnum barnanna, sem og samskipti stefndu og barnaverndar vegna málsins.

Í greinargerð stefndu segir að ljóst sé að upphaf máls þessa megi rekja til tilkynningar, sem barnaverndaryfirvöldum hafi borist 28. ágúst sl. og hafi varðað ætlað andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi F, barnsföður stefndu og nú fyrrverandi sambýlismanns hennar, gagnvart stjúpdóttur sinni, A. Eftir þá tilkynningu hafi stefnandi leynt og ljóst hafið aðgerðir sem hafi miðað að því að svipta stefndu forsjá barna sinna. Aðeins sjö mánuðum síðar hafi með úrskurði stefnanda verið kveðið á um vistun barna stefndu utan heimilis. F hafi sætt lögreglurannsókn og verið tekinn í skýrslutöku vegna málsins þar sem hann hafi staðfastlega neitað hvers kyns ofbeldi á hendur barninu. Tekin hafi verið skýrsla af A í Barnahúsi undir stjórn dómara, en þar hafi ekkert komið fram sem stutt hafi fullyrðingar tilkynnanda. Hafi málið verið fellt niður hjá lögreglu.

Stefnda heldur því fram að hvorki hún né F, fyrrverandi sambýlismaður hennar, hafi verið upplýst um rétt þeirra til að fá aðstoð lögmanns við meðferð málsins. Stefndu og fyrrverandi sambýlismanni hennar hafi fyrst verið gerð grein fyrir því 12. mars sl. að til stæði á fundi 24. mars að leggja til að börnin yrðu vistuð utan heimilis og þá fyrst hafi þau verið upplýst um rétt þeirra til að fá aðstoð lögmanns. Stefnandi hafi þá þegar verið búinn að taka ákvörðun um lyktir málsins. Stefnda og F hafi leitað til lögmanns föstudaginn 14. mars. Þrátt fyrir beiðni þar um hafi lögmanninum ekki verið veittur frekari frestur til að kynna sér gögn málsins sem hafi verið mikil að vöxtum, og hafi úrskurður verið kveðin upp 24. mars 2014. Bendir stefnda á að þessi málsmeðferð sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Lýsi þessi afstaða best þeirri ómálefnalegu hörku sem stefnda hafi frá upphafi þurft að sæta af hendi stefnanda.

Stefnda bendir á að barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hafi ákveðið að umgengni stefndu við börn sín skuli vera undir eftirliti og aðeins í þrjár klukkustundir tvisvar í mánuði. Bendi allt til þess að stefnandi vinni markvisst að því að slíta endanlega tengsl á milli stefndu og barna hennar áður en niðurstaða liggi fyrir í málinu. Þrátt fyrir þetta fullyrði stefnandi að gætt hafi verið meðalhófs við vinnslu málsins.

Samkvæmt framlögðum forsjárvottorðum fer stefnda ein með forsjá barna sinna A og C, en stefnda og E  fóru sameiginlega með forsjá B. Með yfirlýsingu, dags. 17. mars 2014, samþykkti E að afsala sér forsjá barnsins til stefnanda.

Þá hefur verið lagt fram í málinu bréf barnaverndar Reykjavíkur, dags. 18. mars 2014, um staðfestingu á samkomulagi á milli barnaverndar Reykjavíkurborgar og stefnanda um að málefni barna stefndu verði áfram til vinnslu hjá stefnanda þrátt fyrir að lögheimili þeirra hafi verið flutt í [...] í [...], sbr. 3. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Stefnda kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni N geðlæknir, M sálfræðingur, P sálfræðingur, R ráðgjafi, S tilsjónaraðili, T og U.

III.

Stefnandi kveðst byggja á því að það þjóni best hagsmunum barnanna A, B og C að svipta stefndu forsjá yfir þeim. Það teljist til frumréttinda barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Að mati stefnanda hafi það sýnt sig, svo ekki verði um villst, að stefnda geti ekki búið börnum sínum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi rétt á. Það sé mat stefnanda að þrátt fyrir víðtækan stuðning hafi stefndu ekki tekist að koma aðstæðum á heimili sínu í viðunandi horf og hafi stefnda reynst treg til að þiggja ýmis stuðningsúrræði sem henni hafi staðið til boða.

Eins og áður hafi verið rakið hafi afskipti barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar af málefnum barnanna staðið yfir á árunum 2007 til 2010 og hafi málið komið að nýju til kasta nefndarinnar í byrjun september 2013 eftir að hafa verið flutt frá barnavernd [...]. Af málavaxtalýsingunni hér að framan og gögnum málsins megi ráða að fjölmargar meðferðaráætlanir hafi verið gerðar í gegnum tíðina án þess að þær hafi skilað tilætluðum árangri. Af meðferðaráætlunum og greinargerð sem tekin hafi verið saman af starfsmönnum stefnanda sé einnig fullljóst að leitast hafi verið við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið hverju sinni og að reynt hafi verið að aðstoða hana og börn hennar þannig að stefnda gæti haldið börnunum hjá sér. Að mati stefnanda sé alveg ljóst að við meðferð málsins hafi verið kappkostað að gæta meðalhófs og að öll úrræði hafi verið tæmd áður en sú viðurhlutamikla ákvörðun hafi verið tekin að höfða þetta mál. Einnig hafi stefnandi leitast við að upplýsa málið eins og frekast sé unnt og í því skyni m.a. aflað upplýsinga frá sérfræðingum sem komið hafi að málinu.

Stefnandi kveðst telja að önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu ekki tiltæk, enda sé brýn nauðsyn á því að skapa börnunum öryggi og uppeldi sem þau fái ekki hjá stefndu. Það sé því mat stefnanda að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu fullreynd og dugi ekki til að tryggja börnunum þroskavænleg uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefndu.

Á því sé byggt af hálfu stefnanda að rannsóknar-, andmæla- og  meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki hafi verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist. Nú sé hins vegar svo komið að vægari úrræði en forsjársvipting dugi ekki til og því sé nauðsynlegt að stefnda verði svipt forsjá barnanna. Krafa stefnanda um forsjársviptingu sé reist á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu við börnin sín sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri barnanna og þroska. Enn fremur sé á því byggt að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna og þroska þeirra sé hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjána líkt og gögn málsins beri með sér.

Í fyrsta lagi liggi fyrir í gögnum málsins að stefndu hafi ekki tekist að vinna bug á þeim ófullnægjandi og skaðlegu aðstæðum sem börnin hafi búið við um árabil og vísar stefnandi þar um til forsjárhæfnismats M sálfræðings.

Í öðru lagi bendir stefnandi á að stefnda hafi um langa hríð glímt við þunglyndi sem hafi bitnað harkalega á þroska barnanna. Líkt og rakið hafi verið hér að framan og í úrskurði stefnanda 24. mars 2014 hafi stefnda ítrekað skilið börnin sín eftir án eftirlits og þá skorti hana vilja til að vinna að betri aðbúnaði og aðstæðum barna sinna.

Í þriðja lagi, sem vitaskuld tengist þeim atriðum sem nefnd hafi verið hér að framan, sé það mat stefnanda að stefnda sé ekki fær um að rækja móðurhlutverkið og ala önn fyrir börnum sínum. Víða í gögnum málsins megi sjá nöturlegar lýsingar á þeim heimilisaðstæðum sem börnin hafi búið við hjá móður sinni, sbr. t.d. dskj. 3, 27 og 30. Enn fremur sé vísað til áðurnefnds foreldrahæfnismats M þar sem m.a. komi fram að stefnda eigi erfitt með að stjórna daglegu lífi sínu og barna sinna. Þannig sé ljóst að stefnda eigi erfitt með að skilja þarfir barna og geti ekki sett sig í þeirra spor og vegna þessa sé stefnda á mörkum þess að geta talist hæfur uppalandi. Þær aðstæður sem börnin búi við séu bæði ófullnægjandi og skaðlegar.

Það sé því mat stefnanda að stefndu hafi ekki tekist að vinna bug á sínum vandamálum og sé þar af leiðandi vanhæf til að fara með forsjá barnanna. Það sé mat stefnanda að hjá stefndu búi börnin við óviðunandi uppeldisaðstæður. Öll börnin séu á viðkvæmum aldri og í brýnni þörf fyrir stöðugleika þannig að persónueiginleikar þeirra og þroski fái að njóta sín.

Með hliðsjón af öllu framansögðu telji stefnandi að hagsmunum barnanna til framtíðar sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir barns og foreldra vegist á séu hagsmunir barnsins þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland er aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994, sem og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

IV.

Stefnda bendir á að frá því að formleg vinnsla málsins hófst hafi það tekið barnaverndaryfirvöld í Reykjanesbæ mjög skamman tíma að úrskurða um vistun barna stefndu utan heimilis og ákveða að móðir skyldi svipt forsjá þeirra. Svo skamman tíma að gera verði alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslulega meðferð málsins. Engar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu barnaverndaryfirvalda til að ná markmiðum sínum með öðrum og vægari úrræðum en tillögu um flýtimeðferð við sviptingu forsjár, t.d. um tímabundna vistun barnanna utan heimilis í samræmi við nánar tilgreind lagaákvæði VI. kafla barnaverndarlaga. Fari þetta í berhögg við skýrt ákvæði 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Sú harka í garð stefndu sem einkennt hafi vinnslu málsins af hálfu stefnanda og það að stefnandi telji sig umkominn til að virða hvorki ákvæði barnaverndarlaga né lögfestar meginreglur stjórnsýslulaga veki furðu í máli þessu. Því sé mótmælt þeirri fullyrðingu í stefnu að rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins. Það séu mikil öfugmæli. Stefnandi haldi því fram í stefnu að öll úrræði hafi verið tæmd áður en sú viðurhlutamikla ákvörðun hafi verið tekin að höfða þetta mál. Það sé rangt. Heldur stefnda því fram að stefnanda hafi verið í lófa lagið að beita tilteknum ákvæðum VI. kafla barnaverndarlaga um tímabundin úrræði, t.d. um tímabundið fóstur barnanna á meðan á vinnslu málsins stæði og stefndu væri veitt aðstoð.

Stefnda kveðst ekki vera fullkomin frekar en aðrir og hún hafi gert sín mistök á lífsleiðinni. Hún eigi sína slæmu daga og lífið sé ekki alltaf auðvelt. Eins og fyrr greini sé hún öryrki og hafi glímt við andlega erfiðleika, þunglyndi og kvíða. Hún sé heldur ekki fullkominn uppalandi. Þeirri lýsing sem dregin sé upp af stefndu sem persónu og móður í stefnu af hálfu stefnanda sé þó mótmælt harðlega. Því sé t.d. mótmælt að stefnda vanræki börn sín og sé áhugalaus um velferð þeirra og líðan eða geti ekki búið börnum sínum þroskavænleg uppeldisskilyrði, hvað þá að stefnda sé vond við börn sín og að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna og þroska hafi verið hætta búin vegna vanhæfni stefndu. Stefnandi fari offari í neikvæðum fullyrðingum og ályktunum sínum í garð stefndu. Stefnda kveðst mótmæla sérstaklega fullyrðingum um að hún láti A bera ábyrgð á yngri systur sinni. Atvik þar sem A hafi tekið C úr rúminu hafi verið einstakt og hafi slíkt ekki átt sér stað aftur.

Hið sama megi segja um fullyrðingar í forsjárhæfnismati sem unnið hafi verið af sálfræðingi á vegum stefnanda. Í forsjárhæfnismatinu hafi sálfræðingurinn séð ástæðu til að nefna að stefnda hafi verið ómáluð og lítt til höfð og klæðst íþróttafötum. Séu þetta auðmýkjandi ummæli og lítt til þess fallin að skapa traust um að hlutlægni hafi verið viðhöfð við vinnslu forsjármatsins. Þá veki það furðu sálfræðingsins að stefnda hafi verið í vörn eða lítt vingjarnleg. Að sögn stefndu séu miklar rangfærslur í mati sálfræðingsins.

Það sé rétt að stefnda hafi verið ósátt við að fá tilsjón inn á heimili sitt, en það sé algengt í barnaverndarmálum. Það sé líklega ekki óalgengt að aðilar barnaverndarmáls séu í vörn eða ósáttir við að þurfa að undirgangast forsjárhæfnismat. Ekkert af þessu þurfi að koma á óvart. Það sé hins vegar algjörlega útilokað að stefnda hafi gert sér grein fyrir alvarleika málsins á meðan á vinnslu þess stóð hjá stefnanda eða að hún hafi verið upplýst um það af hálfu stefnanda að til stæði að svipta hana forsjá barna sinna áður en önnur og vægari úrræði yrðu reynd til þrautar. Hafi stefnda ekki fengið hagsmunagæslu í málinu fyrr en stefnandi hafði þegar ákveðið málalok eins og áður greini.

Stefnda kveðst vera ákveðin í að taka sig á þar sem þess sé þörf og bæta sig sem einstaklingur og uppalandi. Í meðferð málsins hjá stefnanda hafi hún ekki fengið tækifæri til þess heldur hafi verið beitt flýtimeðferð til að svipta hana börnum sínum.

Við munnlegan málflutning var mati M sálfræðings á forsjárhæfni stefndu, sem og matsgerð P sálfræðings, mótmælt. Bent var á að samkvæmt framburði N geðlæknis, sem stefnda hefði gengið til, hefðu orðið miklar og jákvæðar breytingar á persónulegum högum stefndu. Ekki væri því ástæða til að svipta hana forsjá barnanna. Stefnda væri nú reiðubúin til að fallast á að börnin yrðu vistuð utan heimilis á meðan hún væri að vinna í sjálfri sér. Jafnframt væri hún nú fús til samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Þá kvaðst stefnda gera alvarlegar athugasemdir við það að börnin hefðu ekki öll verið vistuð á sama stað og að systkinahópnum hefði verið tvístrað. Með hliðsjón af betri aðstæðum og heilsu stefndu væru ekki lagaskilyrði til að svipta hana forsjá barnanna.

Varðandi lagarök vísar stefnda til 24. gr. laga nr. 80/2002 varðandi það atriði að úrræði sem þar séu nefnd séu ekki fullreynd. Jafnframt sé vísað til meginreglna og tilgangs laga nr. 80/2002 og þess að aðbúnaður barna stefndu sé í samræmi við 1. gr. laga nr. 80/2002. Þá sé vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, mannréttindakafla stjórnarskrár Íslands, einkum 71. gr., mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1992, og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, einkum 8. gr. um skyldu stjórnvalda til að sameina fjölskyldur. Þá sé einnig vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, eftir því sem við eigi, sem og 60. gr. laga nr. 80/2002 um lögbundna gjafsókn.

V.

Í stefnu kemur fram að málefni stefndu og tveggja eldri barna hennar, sem fædd eru 2006 og 2008, hafi fyrst komið til kasta stefnanda á árunum 2007 til 2011, en þá bjó stefnda í [...]. Könnun fór fram vegna tilkynninganna, en engar meðferðaráætlanir voru gerðar. Þegar stefnda var ófrísk að þriðja barni sínu, sem fætt er [...], flutti hún í [...]. Hófust afskipti barnaverndar [...]  af málefnum stefndu og barna hennar þriggja í janúar 2013 og stóðu fram í ágúst sama ár, en þá flutti stefnda að nýju til [...]. Var málið flutt frá barnavernd [...]  til stefnanda með bréfi, dags. 22. ágúst 2013. Fram kemur í gögnum málsins að á þessum tíma, þ.e. frá árinu 2006 og þar til börnin voru vistuð utan heimilis stefndu í mars 2014, hafi fjölmargar tilkynningar borist stefnanda og barnavernd [...] um vanrækslu stefndu varðandi umönnun og eftirlit með börnunum. Fjölluðu tilkynningarnar m.a. um ófullnægjandi aðbúnað barnanna, svo sem varðandi ástundun í skóla, hreinlæti barnanna sjálfra og á heimilinu, næringu þeirra, öryggi og stöðugleika í aðstæðum. Fram kemur í gögnunum að stefnda hóf sambúð með föður yngsta barnsins, F, í lok október 2012, sem þá hafði nýlokið afplánun dóms, en fram hefur komið í málinu að sambúð þeirra sé nú lokið. Einnig kemur fram í málinu að stefnda flutti á höfuðborgarsvæðið í byrjun mars á þessu ári og býr nú ein í leiguíbúð í [...]. Þá hefur komið fram í málinu að hún hóf vinnu á veitingastaðnum [...] í [...] í byrjun september sl.

Í byrjun þessa árs gerði M sálfræðingur að beiðni stefnanda mat á forsjárhæfni stefndu og F, sem þá bjuggu enn saman. Er skýrsla M dagsett 4. mars 2014. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur m.a. fram að stefnda sé flöt og fálát gagnvart börnunum, hún sæki í að losna við þau af heimilinu og reyni að fá frið frá þeim og að öll samskipti við börnin séu neikvæð og skilyrt. Stefnda hafi hugsað illa um börnin, en þau hafa verið illa hirt og nærð og allt eftirlit og umönnun mjög slakt. Þá segir að stefnda hafi skilið A og B eftir ein með C frá því að hún var nokkurra mánaða gömul. Þrátt fyrir að öll börnin séu erfið hafi stefnda ekki farið á uppeldisnámskeið og hafi hún ekki nýtt leiðbeiningar sem hún hafi fengið um að kenna börnunum að fylgja eftir fyrirmælum og um samband hegðunar og afleiðinga. Einnig kemur fram í matinu að heimili stefndu og F hafi iðulega verið draslaralegt svo óviðunandi sé, sóðalegt og lyktað illa. Yngri börnin hafi ekki átt viðunandi fatnað og föt þeirra hafi verið óhrein og illa lyktandi. Börnin séu öll grannvaxin og hafi þau lýst því að ekki hafi verið til peningur fyrir mat eða nesti á heimilinu. Heilsuvernd barnanna, þ. á m. tannvernd, hafi verið illa sinnt og stefnda hafi hvorki sinnt því að koma B í talþjálfun, sem honum hafi staðið til boða í [...], né örvað hann heima eins og henni hafi veri leiðbeint um, en B sé með málþroskaröskun. Þá segir að stefnda virðist hafa lítinn áhuga á að styðja börnin til sjálfstæðis eða efla þroska þeirra á umhyggjusaman og verndandi hátt og leggi sig ekki fram um að styðja börnin við verkefni þeirra. Þá segir að stefnda kenni börnum sínum hvorki hegðun, mannasiði né samskipti. Börnin hagi sér afar illa án þess að hún grípi inn í. Almennt virðist stefnda ekki sýna einlægni í samskiptum, umhyggju fyrir öðrum né áhuga á að leggja sig fram í þágu annarra. Stefnda taki ekki ábyrgð á eigin velferð eða fjölskyldu sinnar og muni ekki ala börn sín upp við metnað eða dugnað. Þannig telji matsaðili ljóst að forsjárhæfni bæði stefndu og F sé verulega skert og þau virðist hvorki hafa áhuga né getu til þess að bæta sig. Matsmaður telji þau bæði, hvort um sig og saman, vanhæf um að fara með forsjá barna. Þrátt fyrir stuðning barnaverndar hafi ekki orðið merkjanleg breyting til batnaðar á heimilislífi þeirra. Matsmaður telji aðstæður sem börnin búi við bæði ófullnægjandi og skaðlegar.

Þá segir í skýrslunni að sálfræðileg próf sýni að greind stefndu sé í lágu meðallagi og yrt greind hennar sé mun slakari en óyrt. Persónuleikapróf bendi til slakrar sjálfsmyndar og að stefnda tengi ekki eigin frammistöðu við árangur en líti frekar svo á að það sé öðrum að kenna eða þakka hvernig fór. Ólíklegt sé að stefnda nýti sér meðferð. Í geðgreiningarviðtali uppfylli stefnda skilmerki fyrir endurteknu þunglyndi (ekki yfirstandandi) og andfélagslegri persónuleikaröskun. Félagsmótunarpróf sýni mjög slaka félagsmótun sem vísi til persónuleikatruflunar og mikilla erfiðleika í félagslegum samskiptum.

Að beiðni stefndu var kvaddur til matsmaður í málinu til að meta forsjárhæfni stefndu. Var matsgerð hins dómkvadda matsmanns, P sálfræðings, sem dagsett er 8. september 2014, lögð fram í málinu 17. sama mánaðar.

Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar er því lýst að stefnda hafi átt erfiða skólagöngu og ekki haldið áfram námi eftir grunnskóla. Hún hafi eignast elsta barnið sitt sextán ára gömul, miðbarnið átján ára og yngsta barnið hafi hún eignast með þriðja sambýlismanni sínum þegar hún var 22 ára gömul. Hann hafi verið í fangelsi þegar þau kynntust og lokið afplánun skömmu eftir að barnið fæddist. Hún hafi aldrei búið með föður tveggja eldri barnanna og drengurinn hafi verið rangfeðraður fyrstu árin. Atvinnusaga stefndu sé stutt og takmarkist fram undir daginn í dag við tímann kringum fæðingu elsta barnsins. Hún hafi prófað að vinna á mörgum stöðum en hætt fljótlega að mæta. Þá hafi hún flutt nokkrum sinnum milli staða í [...], síðan til [...] þar sem hún bjó í eitt ár og þá aftur í Reykjanesbæ í rúmlega hálft ár. Þá hafi hún flutt til Reykjavíkur í febrúar/mars síðastliðnum og flutt á milli íbúða innan hverfis skömmu síðar.

Í matsgerðinni segir að börn stefndu séu öll á þeim aldri að almennar þarfir þeirra snúist um að eiga ástrík tengsl við foreldra sína og njóta verndar þeirra og öryggis, þar með talið að búa við stöðugleika í aðstæðum, auk þess sem þau þurfi líkamlega umönnun og atlæti, örvun og hvatningu, stuðning, fyrirmynd og siðun. Hjá drengnum hafi auk þess verið greindar sérstakar þarfir eins og áður hafi komið fram.

Í viðtali matsmanns við stefndu hafi hún gefið stuttorðar upplýsingar um sig og hagi sína og hafi þversagnir verið áberandi. Hún hafi fegrað mynd sína og fundið ýmsar utanaðkomandi ástæður fyrir vanlíðan sinni. Skoðanir hennar og ályktanir séu sjálfmiðaðar og beri búferlaflutningar skýrt vitni um að að hún hugsi ekki um hagsmuni barnanna. Þá hafi stefnda skýrt rangt frá málum í ýmsum augljósum atriðum. Stefnda eigi í erfiðleikum með yfirsýn og dragi ályktanir af takmörkuðum upplýsingum. Þá taki hún duttlungafullar ákvarðanir sem sýni slaka dómgreind.

Um persónulega hagi stefndu segir í skýrslunni að hún leigi ágætis íbúð á almennum markaði og að engar athugasemdir séu gerðar við heimili hennar. Hún hafi örorkustyrk og meðlög auk launa fyrir starfið sem hún hafi byrjað í fyrir skömmu. Að sögn stefndu hafi hún slitið sambandi við síðasta sambýlismann sinn en sterkar vísbendingar séu um að sambandi þeirra sé ekki lokið. Hún hafi hitt geðlækni sinn með reglubundnum hætti undanfarna mánuði og noti lyf við athyglisbresti, þunglyndi og kvíða. Þessir þættir séu jákvæðir, en séu nokkuð nýtilkomnir og að mestu frá því eftir að börnin fóru frá henni og því sé ekki hægt að segja til um hversu varanlegir þeir séu.

Þá segir að niðurstöður greindarprófs sýni að heildargreind stefndu sé í meðallagi, en veikleiki sé á málsviði, varðandi staðreyndaþekkingu og félagslega dómgreind. Niðurstöður séu nokkuð hærri en við prófun árið 2011, sem skýrist að öllum líkindum af betra dagsformi. Þá segir að niðurstöður persónuleikaprófs gefi skýrar vísbendingar um langvarandi og erfið geðræn vandamál og persónuleikaraskanir og að ólíklegt sé að stefnda nýti sér meðferð. Ætla megi að persónuleikaraskanir hefðu fengist staðfestar ef ekki kæmi til tilhneiging stefndu til að gefa jákvæða mynd af sér. Einnig segir að niðurstöður prófana matsmanns, saga stefndu og prófanir annarra gefi til kynna að stefnda uppfylli skilmerki fyrir blandaðar eða óskilgreindar persónuleikaraskanir og endurtekið þunglyndi sem sé ekki yfirstandandi.

Í matsgerðinni segir að matsmaður telji allt benda til þess að persónuleikaraskanir stefndu séu undirliggjandi vandi og hafi verið frá unglingsárum. Raskanir þessar hafi leitt til margvíslegra erfiðleika hennar og haft í för með sér slitrótta atvinnusögu, ótímabærar barneignir, sambönd við karlmenn sem hún hafi farið hratt út í og alvarlega vangetu við barnauppeldi. Einkenni persónuleikaraskana hennar birtist m.a. í skorti á innsæi í þarfir barnanna, skorti á skilningi á uppeldisverkefnum og afneitun á þeirri vanrækslu sem felist í því að sinna þeim ekki. Enn fremur birtist þau í skorti hennar á samvinnu við þá sem hafi viljað leiðbeina og aðstoða.

Hvað framtíðaráform varði hafi stefnda greint frá menntunaráformum sem matsmanni þyki ómarkviss og ólíkleg til að ganga upp með hliðsjón af vinnutíma stefndu og óskum hennar um að fá börnin til sín aftur. Matsmaður telji að áform hennar lýsi fyrst og fremst óskhyggju stefndu og óraunsæi ásamt tilhneigingu til að láta sínar langanir ganga framar þörfum barnanna.

Hvað varði tengsl stefndu við börn sín segir að margvísleg og umfangsmikil gögn málsins sýni margháttaða vanrækslu stefndu gagnvart börnunum, sem M sálfræðingur nefni t.d. í sinni skýrslu og komi einnig fram í öðrum gögnum málsins, og að stefnda sýni merki um að hafa aðeins myndað grunn tilfinningatengsl við börnin. Það sé hafið yfir vafa að verulega hafi skort á að stefnda hafi sem uppalandi brugðist við merkjum frá börnum sínum á þann hátt sem börn þurfi á að halda til að geta myndað öryggistengsl með viðunandi hætti. Greinileg merki séu um það í lýsingu fósturforeldra að A vilji bera ábyrgð á móður sinni, en umsnúningur af þessu tagi á ábyrgðarhlutverkum gefi til kynna tengsl af því tagi sem séu neikvæð og óheppileg fyrir þroska barna. Lýsing fósturforeldra á því hvernig C geri ekki mannamun, heldur snúi sér jafnt að hverjum sem er, þyki gefa til kynna að viðkomandi barn hafi ekki myndað fullnægjandi öryggistengsl gagnvart einum aðila, heldur leiti jafnt til hvers sem er. Þá segir að tilhneiging stefndu til að annast ekki um börnin sjálf heldur láta þau í hendur annarra styðji það að tengsl hennar við börnin séu grunn og ófullnægjandi. Í matsgerðinni segir að tilfinningatengsl í frumbernsku við meginuppalendur sína, svokölluð geðtengsl, séu mikilvæg fyrir velferð barnsins í framtíðinni og leggi grundvöll að persónulegum þroska þess og geðheilsu.

Að lokum segir í matsgerðinni að á grundvelli þeirra upplýsinga, sem rakin séu í matsgerðinni, telji matsmaður einsýnt að stefnda hafi ekki sinnt daglegri umönnun og uppeldi barna sinna með þeim hætti sem þroski þeirra og velferð þarfnist. Á því rúma ári sem reynt hafi verið að koma á margvíslegum stuðningsúrræðum hafi enginn árangur náðst. Því telji matsmaður að forsjárhæfni stefndu sé verulega ábótavant og að vægari úrræði hafi verið fullreynd. Þótt líðan stefndu virðist nú betri en oft áður sé ekki að sjá að breytingar hafi orðið á skilningi hennar á þörfum barnanna og ekki sé hægt að draga þá ályktun að hún sé orðin hæfari til þess að vera til samstarfs um viðunandi uppeldisskilyrði fyrir börnin vegna persónuleikaröskunar sinnar. Allt eins líklegt sé að líðan hennar sé nú betri af því að hún beri ekki ábyrgð á uppeldi þeirra og að fara myndi í sama farið að nýju ef börnin færu til hennar. Fullvíst megi því teljast að verulegar líkur séu á að andlegri heilsu barnanna og þroska þeirra yrði hætta búin ef þau færu aftur til móður sinnar vegna vanhæfni hennar til að sinna almennum þörfum þeirra, sem og sértækum þörfum drengsins.

Þær M sálfræðingur og Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur komu báðar fyrir dóminn og staðfestu áðurgreindar matsskýrslur sínar. Vitnið M bar um það að það væri sama hvar borið væri niður, forsjárhæfni stefndu væri stórlega ábótavant. Stefnda hefði vanrækt börnin og hefði ekki innsæi í þarfir þeirra. Hún hefði ekki forgangsraðað í þeirra þágu og ekki verið til samvinnu við barnaverndaryfirvöld í því skyni að bæta sig sem uppalanda. Hún sagði að stuðningsúrræði hefðu ekki skilað árangri. Vitnið P bar um að forsjárhæfni stefndu væri verulega skert vegna undirliggjandi alvarlegra persónuleikaraskana og þunglyndis með köflum. Hún sagði að börnin hefðu sætt alvarlegri vanrækslu í umsjón stefndu. Úrræði barnaverndaryfirvalda hefðu ekki skilað neinum árangri og stefnda hefði ekki verið til neinnar samvinnu. Önnur og vægari úrræði væru því fullreynd. Hún kvaðst hafa fengið upplýsingar um líðan barnanna í haust til að gera samanburð á líðan þeirra nú og þegar þau voru hjá móður. Samkvæmt þeim upplýsingum líði börnunum mun betur nú og sýni meira öryggi og þá væri skólasókn og allt utanumhald þeirra í mun betra horfi. Hún sagði að ekki væri raunhæft að ætla að stefnda gæti snúið við blaðinu og orðið hæf sem foreldri á tiltölulega skömmum tíma. Kvaðst hún telja að stefndu liði betur nú af því að hún væri ekki með börnin hjá sér og bæri ekki ábyrgð á þeim.

Fyrir dóminn kom einnig sem vitni N geðlæknir. Hann sagði að stefnda hefði farið að mæta nokkuð reglulega til hans síðastliðið vor, þ.e. þegar til hefði staðið að taka börnin af henni. Þá hefði hún verið mjög þunglynd, en væri nú að svara þunglyndismeðferð hægt og bítandi. Kvaðst hann telja að létt hefði á stefndu við að skilja við barnsföður sinn og kannski við það að bera ekki ábyrgð á börnunum. Hann sagði að stefnda væri nokkuð óraunsæ í áformum sínum varðandi vinnu, umönnun barnanna og eigin getu. Kvaðst hann telja að auk þunglyndis væri stefnda með undirliggjandi persónuleikaraskanir. Kvaðst hann sjá merkjanlegan mun á stefndu, en tók fram að hún væri enn brothætt eins og fólk væri eftir langvarandi þunglyndi. Ef hún fengi börnin aftur yrði hún að fá mikinn stuðning og vera tilbúin til að taka á móti stuðningi. Sagðist hann ekki geta sagt til um hversu líkleg stefnda væri til samvinnu nú, en kvaðst telja hana samvinnuþýðari nú en áður. Sagðist hann telja að stefnda þyrfti sjálf á sterku langtímameðferðarsambandi að halda í nokkur ár. Eins og er ætti stefnda langt í land með að geta búið börnunum gott heimili og góðar aðstæður.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og með sérstakri skírskotun til forsjárhæfnismats M sálfræðings og matsskýrslu P sálfræðings og framburðar þeirra fyrir dóminum þykir sýnt að stefnda sé óhæf til að fara með forsjá barna sinna og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Brýna nauðsyn þykir bera til þess að skapa börnunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þau þurfa á að halda og eiga rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Af gögnum málsins er ljóst að önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga hafa verið reynd allt frá byrjun árs 2013 án þess að þau hafi skilað viðunandi árangri. Þá er fallist á með stefnanda að rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna stjórnsýsluréttarins hafi verið gætt við meðferð málsins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið og með hagsmuni barnanna A, B og C að leiðarljósi verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liða 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá barnanna. Verður krafa stefnanda því tekin til greina.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsókn í máli þessu er lögbundin, sbr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun talsmanns hennar, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 263.550 krónur, og talsmanns hennar á fyrri stigum, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 439.250 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal sálfræðingi og Helga Viborg sálfræðingi.

Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Stefnda, K, er svipt forsjá yfir börnunum A kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...].

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun talsmanns hennar, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., 263.550 krónur, og talsmanns hennar á fyrri stigum, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 439.250 krónur.