Hæstiréttur íslands

Mál nr. 295/1999


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Nauðungarvistun
  • Gjafsókn


           

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999.

Nr. 295/1999.

X

(Brynjar Níelsson hrl.

Hanna Lára Helgadóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.

Gunnar Gunnarsson hdl.)

 

Skaðabótamál. Nauðungarvistun. Gjafsókn.

X var lögð inn á geðdeild L 3. febrúar 1997 vegna langvarandi áfengisdrykkju og dvaldist þar sjálfviljug til að byrja með. Að beiðni sonar X samþykkti dómsmálaráðuneytið 27. sama mánaðar áframhaldandi vistun X á deildinni og var lögð fram krafa í héraðsdómi 13. mars sama ár, þess efnis að X skyldi svipt sjálfræði. Héraðsdómur kvað upp úrskurð um að X væri svipt sjálfræði 30. apríl sama ár, en úrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi með  dómi Hæstaréttar 14. maí sama ár og X þá látin laus úr vistun. X krafði Í um bætur, þar sem nauðungarvistun hennar hefði verið ólögmæt frá upphafi. Með vísan til vottorðs geðlæknis, sem lá fyrir dómsmálaráðuneytinu, og álita fjögurra geðlækna og sálfræðings um að vistun hefði verið óhjákvæmileg, var ekki á það fallist að X hefði verið vistuð gegn vilja sínum án lögmætrar ástæðu sbr. II. kafla þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984. Talið var að ekki hefði verið sýnt fram á annað en nauðungarvistun hefði hafist 27. febrúar 1997 og hefði beiðni um sjálfræðissviptingu því verið lögð fram innan 15 daga frá því að nauðungarvistun hófst, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 68/1984. Þá var ekki á það fallist, að vistun X á meðan á meðferð héraðsdómsmálsins stóð hefði verið ólögmæt þótt nokkur dráttur hefði orðið á málsmeðferð. Var dómur héraðsdóms um að sýkna Í af bótakröfu X því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 29. júlí 1999. Hún krefst þess aðallega, að stefnda verði gert að greiða sér 2.243.512 krónur með dráttarvöxtum frá 25. febrúar 1997 til greiðsludags og til vara 1.996.683 krónur með dráttarvöxtum frá 11. mars 1997 til greiðsludags. Til þrautavara krefst úr hend hún lægri fjárhæðar að mati réttarins. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Áfrýjandi var lögð inn á geðdeild Landspítalans 3. febrúar 1997 vegna langvarandi áfengisdrykkju, en þangað kom hún frá slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna axlarbrots. Dvaldist áfrýjandi sjálfviljug á geðdeildinni til að byrja með. Hinn 26. febrúar fór sonur hennar þess á leit við dómsmálaráðuneytið, að hún yrði vistuð þar gegn vilja sínum, en þá var hún farin að sýna þess merki að vilja fara. Dómsmálaráðuneytið samþykkti áframhaldandi vistun áfrýjanda 27. febrúar 1997. Hinn 13. mars 1997 lagði sonur áfrýjanda fram í Héraðsdómi Reykjavíkur kröfu um sjálfræðissviptingu áfrýjanda, og var hún svipt sjálfræði með úrskurði héraðsdóms 30. apríl 1997. Áfrýjandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem hafnaði kröfu um sjálfræðissviptingu með dómi 14. maí 1997, og var áfrýjandi látin laus úr vistun þann dag. Áfrýjandi telur, að efnislegar forsendur hafi ekki verið fyrir hendi til að vista hana gegn vilja hennar á geðdeild Landspítalans og að nauðungarvistunin hafi verið ólögmæt frá upphafi. Í máli þessu krefur hún stefnda bóta vegna þessa.

II.

Í þágildandi lögræðislögum nr. 68/1984 voru ákvæði í III. kafla um skilyrði nauðungarvistunar á sjúkrahúsi. Í II. kafla laganna voru hins vegar ákvæði um skilyrði þess að svipta megi mann lögræði, sjálfræði og/eða fjárræði. Skilyrði þessara tveggja aðgerða voru ekki hin sömu, þar sem strangari skilyrði voru sett fyrir sjálfræðissviptingu en nauðungarvistun á sjúkrahúsi. Í máli því, sem hér um ræðir, var að öllu leyti fylgt ákvæðum 13. gr. laganna um nauðungarvistun áfrýjanda. Vottorð geðlæknis, sem annast hafði áfrýjanda, um nauðsyn vistunar lá fyrir dómsmálaráðuneytinu, áður en samþykki fyrir vistuninni var veitt. Fyrir liggja álit fjögurra geðlækna og sálfræðings um að vistun hefði verið óhjákvæmileg. Verður ekki talið, að áfrýjandi hafi verið vistuð gegn vilja sínum án lögmætrar ástæðu, heldur hafi efnislegar forsendur legið þar að baki. Með vísan til forsendna héraðsdóms þykir ekki vera sýnt fram á annað en að nauðungarvistunin hafi hafist 27. febrúar 1997. Beiðni um sjálfræðissviptingu var því lögð fyrir héraðsdómara innan 15 daga frá því að nauðungarvistun hófst, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 68/1984. Skýra verður 2. mgr. 19. gr. á þann veg, að sjálfræðissviptingarmáli beri að hraða svo sem kostur er, sbr. 7. gr. laganna. Nokkur dráttur varð á málinu í héraði, en telja verður að fram hafi komið nægilegar skýringar á drættinum, sem að nokkru stafaði af veikindum vitnis og  skipun nýs verjanda fyrir áfrýjanda. Verður ekki talið, að vistun áfrýjanda meðan á meðferð málsins stóð hafi verið ólögmæt.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.

D ó m s o r ð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 150.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 1999.

Mál þetta sem dómtekið var 23. apríl sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 23. júní 1998 af [X] gegn dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins.

 

Dómkröfur.

Stefnandi gerir þá kröfu að stefnda verði gert að greiða henni 2.243.512 krónur með dráttarvöxtum frá 25. febrúar 1997 til greiðsludags og til vara 1.996.683 krónur með dráttarvöxtum frá 11. mars 1997 til greiðsludags. Til þrautavara er krafist lægri fjárhæðar að mati réttarins.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda og að hann verði tildæmdur stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á tildæmdum bótum og í því tilfelli verði málskostnaður látinn falla niður.

 

Málavextir.

Málvextir eru þeir að stefnandi var lögð inn á Landspítalann þann 3. febrúar 1997, en þangað kom hún frá slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ástæða þess var langvarandi áfengisdrykkja auk þess sem hún var axlarbrotin.

Er stefnandi hafði náð sér, að eigin mati, eftir þá meðferð sem hún fékk, kveðst hún hafa viljað fara af spítalanum. Af hálfu lækna er hana önnuðust var reynt að telja ana á að vera lengur á spítalanum en stefnandi kveðst hafa neitað frekari læknismeðferð. Hafi henni þá verið haldið gegn vilja sínum á spítalanum og hinn 25. febrúar 1997 fór fram læknisskoðun af hálfu Ingvars Kristjánssonar geðlæknis sem mæltist til þess í vottorði stíluðu á dómsmálaráðneytið að stefnandi yrði vistuð gegn vilja sínum áfram á spítalanum.

Þann 26. febrúar lagði sonur stefnanda, [...], fram beiðni til dóms­mála­ráðuneytisins um nauðungarvistun stefnanda.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 1997, samþykkti dómsmálaráðuneytið áframhaldandi vistun stefnanda á sjúkrahúsinu með vísan til 3. mgr., sbr. 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga.

Sonur stefnanda gerði síðan í bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 13. mars 1997, kröfu um að stefnandi yrði svipt sjálfræði. Þann 25. apríl 1997 var stefnanda skipaður verjandi. Sama dag ritaði verjandi stefnanda bréf til Landspítalans þar sem nauðungarvistuninni var mótmælt og krafist að henni yrði hætt strax þar sem hún væri ólögmæt. Afrit þess bréfs var sent til dómsmálaráðuneytisins og forstjóra ríkispítala. Fóru fram bréfaskipti milli verjanda og Láru Höllu Maack, geðlæknis, vegna þessa en ekki var orðið við kröfu stefnanda um að nauðungarvistuninni yrði aflétt.

Þann 30. apríl var kveðinn upp úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem stefnandi var svipt sjálfræði. Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar Íslands sem síðan hafnaði kröfunni um sjálfræðissviptingu með dómi 14. maí 1997.

Með bréfi, dags. 16. apríl 1998 kveðst stefnandi hafa gert skaðabótakröfu á hendur ríkisspítölum vegna nauðungarvistunarinnar en þeirri kröfu ekki hafa verið svarað. Með bréfi til Landspítalans þann sama dag hafi verið óskað eftir ljósritum úr sjúkraskrám stefnanda en engin viðbrögð hafi orðið við því bréfi.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök.

Stefnandi byggir kröfur sína á því að hún hafi verið vistuð gegn vilja sínum með ólögmætum hætti.

Stefnandi telur að nauðungarvistunin hafi verið að ósekju þar sem engar efnislegar forsendur hafi verið fyrir því að vista hana á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Vottorð Ingvars Kristjánssonar geðlæknis frá 25. febrúar 1997 hafi hvorki gefið starfsmönnum Landsspítalans né dóms­mála­­ráðu­neytisins tilefni til slíkra íþyngjandi aðgerða. Stefnandi hafi ekki verið ófær um að ráða persónulegum högum sínum, a.m.k komi ekkert fram í gögnum þess efnis þegar nauðungarvistunin var staðfest af dómsmálaráðuneytinu. Því hafi skilyrði 2. mgr. l3. gr. gr. þágildandi lögræðislaga ekki verið uppfyllt.

Stefnandi telur sýnt að nauðungarvistun hennar hafi hafist eigi síðar en 25. febrúar 1997. Samkvæmt 2. mgr. l9.gr. lögræðislaga nr. 68/1984 sé óheimilt að vista aðila á sjúkrahúsi gegn vilja hans lengur en 15 sólarhringum frá því að hún hófst nema að áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að viðkomandi verði sviptur sjálfræði. Krafa um sjálfræðissviptingu stefnanda hafi hins vegar ekki verið gerð fyrr en 17 sólarhringum eftir að nauðungarvistun hófst. Þar af leiðandi sé frelsissviptingin frá 11. mars 1997þar til málinu lauk ,14. maí 1997, ólögmæt.

Skilja megi á bréfum Láru Höllu Maack, geðlæknis, sem liggi frammi í málinu, að vistunin hafi ekki hafist fyrr en 27. febrúar 1997 þegar samþykki dómsmálaráðuneytisins fékkst fyrir nauðungarvistuninni. Því sé vistunin fyllilega lögmæt. Stefnandi telur að gögn málsins sanni það með ótvíræðum hætti að vistunin hafi hafist löngu fyrir þann tíma, í seinasta lagi 25. febrúar 1997. Þar beri að nefna aðallega skráningu í sjúkraskrá stefnanda frá þeim degi. Einnig megi benda á vottorð Ingvars Kristjánssonar, geðlæknis, frá 14. mars 1997 og beiðni [sonar stefnanda] til ráðuneytisins. Þessi gögn sanni berlega að nauðungarvistun stefnanda hafi hafist fyrir 27. febrúar 1997.

Aðalkrafa stefnanda í máli þessu sundurliðast þannig:

1.   Bætur vegna fjárhagslegs tjóns 243.512 krónur

2.   Miskabætur 2.000.000 krónur

Samtals er krafan 2.243.512 krónur, sem er fjárhæð aðalkröfu stefnanda málsins.

Stefnandi kveður kröfu samkvæmt lið 1 miðaða við meðaltekjur stefnanda á dag þann tíma sem hún hafi unnið á árinu 1997 eftir að hún losnaði af spítalanum.

Krafan samkvæmt lið 2 miðist við þann langa tíma sem hin ólögmæta vistun stóð og hversu mikill álitshnekkir fylgdi henni. Er í þessu sambandi fyrst og fremst vísað til 26. gr. skaðabóta­laga.

Munur á varakröfu og aðalkröfu sé að í varakröfu sé miðað við að hin ólögmæta vistun hafi verið frá 11. mars. Sé fjártjónið því minna sem því nemi en miskabótakrafa sé lækkuð niður í 1.800.000 krónur. Samtals sé því varakrafan 1.996.683 krónur.

Um aðild: Stefnandi telur íslenska ríkið bótaskylt vegna ólögmætra aðgerða starfsmanna sinna. Fyrir hönd stefnda sé stefnt dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra sem beri ábyrgð á þeim starfsmönnum sem með ólögmætum hætti hafi svipt stefnanda frelsi sínu.

Um lagarök að öðru leyti er vísað til stjórnarskrár Íslands, lögræðislaga nr. 68/1984 er í gildi voru á þessum tíma. Einnig er vísað til mannréttindasáttmála Evrópu og XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 91/1991.

Þá er vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26.gr.

Um málskostnað er vísað til 129. gr. laga um meðferð einkamála. Um vexti til vaxtalaga nr. 25/1987, 7. gr. og III. kafla laganna.

 

Málsástæður stefnda og lagarök.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að efnislegar forsendur hafi verið fyrir vistun stefnanda á sjúkrahúsinu. Svo að til frelsis­skerðingar komi í allt að tvo sólarhringa samkvæmt 2. mgr. 13. lögræðislaganna nr. 68/1984 og til vistunar manns gegn vilja hans til meðferðar á sjúkrahúsi með samþykki ráðuneytisins samkvæmt 3. mgr. sömu greinar, verði maður að vera haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Í vottorði Ingvars Kristjánssonar, geðlæknis, komi fram upplýsingar um alvarlega ofnautn áfengis hjá stefnanda. Þá sé bent á yfirlýsingar Láru Höllu Maack, geðlæknis, t.d. sérfræðingsnótu hennar á dskj. nr. 23 og vottorð geðlæknanna Tómasar Zoega og Jóhannesar Bergsveinssonar. Þá sé einnig vísað til skjala um skráningu hjúkrunar og fyrirmæla lækna. Því liggi fyrir vottorð a.m.k. fjögurra geðlækna á geðheilbrigði stefnanda sem komast að þeirri niðurstöðu að stefnandi sé lítt eða ekki fær um ráða persónulegum högum sínum. Þá sé bent á úrskurð héraðsdóms frá 30. apríl 1997. Því er haldið fram að efnislegar forsendur hafi legið fyrir vistun stefnanda á sjúkrahúsinu.

Varðandi þá málsástæðu stefnanda að nauðungarvistun hafi hafist eigi síðar en 25. febrúar 1997 þá sé þeirri skoðun algjörlega hafnað. Það sé fullyrt að nauðungarvistun stefnanda hafi hafist á þeim tíma sem um hana sé sérstaklega skráð á fyrirmælablaði læknis eða kl. 9:47 hinn 27. febrúar 1997. Sama morgun hafi verið haldinn fjölskyldufundur með stefnanda og sé niðurstaða hans þar, að kyrrsetja stefnanda í 48 klukkustundir, skráð í skráningu hjúkrunar, sbr. dskj. nr. 21. Í skráningu hjúkrunar hinn 26. febrúar sé sérstaklega skráð eftir stefnanda að hún sé sjálfviljug á deildinni og jafnframt sagt frá því að dómsmála­ráðuneyti hafi í símtali verið skýrt frá því þann dag að hún væri þar fús. Nauðungarvistunin hafi verið heimiluð af dómsmálaráðuneytinu með bréfi dagsettu 27. febrúar 1997 og skráð sé að nauðungarvistunin hafi hafist. Krafa um lögræðis­sviptingu hafi verið lögð fram 13. mars 1997. Ljóst sé því að krafan hafi verið lögð fram áður en 15 sólarhringar voru liðnir frá því að vistun stefnanda hófst, sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaganna. Því er haldið fram að vistun stefnanda á sjúkrahúsi fram til 14. maí 1997, er Hæstiréttur kvað upp dóm sinn hafi verið lögmæt. Stefnandi hafi farið af sjúkradeildinni um leið og dómurinn hafi komið.

Á það er bent að héraðsdómari hafi úrskurðað um sjálfræðissviptingarkröfuna hinn 30. apríl 1997. Þar sé hvergi vikið að því að verjandi stefnanda hafi haldið því fram að tímamörk vegna nauðungarvistunarinnar hafi verið brotin. Ætla megi að slík mótbára hefði þó verið eðlileg, m.a. í ljósi bréfaskiptanna við geðdeild Landspítalans hinn 25. og 28. apríl 1997. Þá megi einnig benda á að ætla megi að héraðsdómara hafi af sjálfsdáðum borið að kanna formhlið málsins að því er tímamörk varðar, svo mikilvæg sem þau séu samkvæmt lögræðislögunum.

Til vara er gerð krafa um veruIega lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilfelli verði málskostnaður látinn falla niður.

Fjárhagslegu tjóni stefnanda er mótmælt svo og útreikningi þess. Ekkert liggi fyrir í málinu um vinnugetu og vinnuástundun stefnanda. Þvert á móti liggi fyrir að stefnandi hafi verið flutt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur hinn 3. febrúar. 1997 til rannsóknar og aðhlynningar í „kjölfar 5-7 daga stífrar drykkju..“ Miskabótakröfu stefnanda er mótmælt sem án lagastoðar. Hún sé jafnframt óraunhæf tölulega. Vöktum og upphafstíma vaxta er mótmælt. Bent er á að kröfubréf hafi ekki komið frá stefnanda fyrr en 16. apríl 1998.

Varðandi málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. eml.

 

Niðurstaða.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 68/1984 má hefta frelsi manns ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Slík frelsisskerðing má eigi standa lengur en tvo sólarhringa nema til komi samþykki dómsmálaráðuneytis.

Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar má, með samþykki dómsmálaráðuneytisins, vista mann gegn vilja sínum til meðferðar í sjúkrahúsi ef fyrir eru ástæður þær sem greinir í 2. mgr. og vistun þykir óhjákvæmileg að mati læknis.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. sömu laga lýkur vistun manns þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf og eigi síðar en 15 sólarhringum frá því hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði.

Fyrir liggur að stefnandi var lögð inn á Landspítalann 3. febrúar 1997 en kom þangað frá slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í áliti sérfræðings dags. 2. febrúar 1997 segir m.a. : „Klárt áfengisfráhvarf og þarf sjúkl. á meðferð að halda.“

Stefnandi dvaldi sjálfviljug á sjúkrahúsinu fyrst í stað en eins og áður er rakið telur stefnandi að frá 25. febrúar 1997 hafi henni verið haldið þar nauðugri.

Stefnandi byggir á því m.a., eins og áður greinir, að engar efnislegar forsendur hafi verið fyrir því að vista hana á sjúkrahúsi gegn vilja sínum.

Í tengslum við beiðni sonar stefnanda til dómsmálaráðuneytisins um nauðungarvistun gaf Ingvar Kristjánsson geðlæknir út vottorð dagsett 25. febrúar 1997. Í vottorðinu segir um stefnanda í niðurstöðu: „Sjúklingur er haldinn langvinnri áfengissýki, en virðist auk þess hafa einkenni við geðskoðun er benda til heilaskaða, nauðsynlegt er að meta ástand hennar rækilega og í því augnamiði telur undirritaður eðlilegt að mæla með því að hún verði vistuð á deildinni gegn vilja sínum og er hér með farið fram á það við ráðuneytið að það heimili slíka vistun með lögformlegum hætti.“

Þegar litið er til vottorðs Ingvars Kristjánssonar, bréfs læknanna Tómasar Zoega og Jóhannesar Bergsveinssonar til framkvæmdastjóra lækningasviðs Ríkisspítala dags. 8. júní 1998 svo og til framburðar Láru Höllu Maack hér fyrir dómi, verður að telja upplýst að stefnandi hafi verið haldin ofnautn áfengis. Af vottorði Ingvars Kristjánssonar læknis verður ráðið að hann hafi talið óhjákvæmilegt að vista stefnanda áfram á þeirri deild sem hún dvaldi á. Telja verður því að ákvæði 2. mgr. og 3. mgr. laga nr. 68/1984 hafi verið uppfyllt og er ekki fallist á að nauðungarvistun stefnanda hafi verið ólögmæt að þessu leyti.

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að nauðungarvistun hennar hafi hafist ekki seinna en 25. febrúar 1997. Því hafi krafa um sjálfræðissviptingu komið of seint fram og stefnandi því verið vistuð á sjúkrahúsinu með ólögmætum hætti.

Í fyrirmælaskýrslu læknis á dskj. nr. 22 er skráð 25. febrúar 1997: „Setja sj. á 48 klst ef vill fara...“ Hinn 27. febrúar 1997 er skráð í sömu skýrslu: „Sj. er settur á 48 klst. regluna kl. 9.47.“

Í skýrslu um skráningu hjúkrunar er m.a. skráð 26. febrúar 1997: „[X] segir læknanema hafa tilkynnt sér í morgun að hún yrði hér í 15 daga til rannsóknar. [X] fullyrðir að hún sé hér sjálfviljug, enda aldrei lagt þunga á útskrift.“ Hinn 27. febrúar er m.a. skráð í sömu skýrslu: „Sj. tilkölluð í fjölsk. viðtal f.h. í speglaherbergi. Niðurst. e. fund, var að sj. yrði kyrrsett á 48 klst. og í framh. að því nauðungarvistuð.“

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til vottorðs Ingvars Kristjánssonar læknis, dags. 14. mars 1997. Vottorð hans verður ekki skilið svo að hann fullyrði þar að nauðungarvistun stefnanda hafi hafist 25. febrúar 1997 heldur þannig að þann dag hafi hann skoðað stefnanda vegna nauðungarvistunar og er það í samræmi við vottorð hans frá 25. febrúar 1997.

Lára Halla Maack læknir bar fyrir dómi að ákvörðun hefði verið tekin 27. febrúar 1997 að setja stefnanda á 48 klst. regluna. Ástæða þess hefði verið sú að læknakandidat, sem hafi verið mjög natinn við stefnanda og hafi talað við hana mörgum sinnum á dag og talað um fyrir henni þegar hún vildi fara, hætti á deildinni 28. febrúar 1997. Hefði starfsfólk þá talið mikla hættu á að stefnandi krefðist þess að fara af deildinni og því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

Ljóst þykir samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja að hinn 25. febrúar 1997 hafi undirbúningur hafist að því að nauðungarvista stefnanda. Hins vegar þykir ekki, samkvæmt þeim gögnum er fyrir liggja, og áður er getið, sýnt fram á annað en að nauðungarvistunin hafi hafist 27. febrúar 1997 þegar ákvörðun var tekin um hana, sbr. það sem áður er rakið.

Beiðni um sjálfræðissviptingu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. mars 1997. Krafa um sjálfræðissviptingu var því lögð fram áður en 15 sólarhringar voru liðnir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 68/1984. Er því ekki fallist á að stefnandi hafi verið vistuð á sjúkrahúsi gegn vilja sínum með ólögmætum hætti.

Ber samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns stefnanda, Brynjars Níelssonar hrl., 120.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, [X].

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns stefnanda, Brynjars Níelssonar hrl., 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.