Hæstiréttur íslands

Mál nr. 383/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Jónas Þór Jónasson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 11. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til þess sem rakið er í hinum kærða úrskurði er nægjanlega leitt í ljós að varnaraðili hafi raskað friði brotaþola eftir að hún og börn þeirra fóru í Kvennaathvarfið 10. mars 2016. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður með virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns, 196.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2016

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans frá 11. maí 2016, sem birt var sama dag, þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað A, kt. [...], nú í Kvennaathvarfinu í Reykjavík, og lögheimili hennar að [...], [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, þ. á m. með tölvu-og símasamskiptum.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 10. maí 2016 kl. 19:00, hafi A, kt. [...], lagt fram beiðni um nálgunarbann gagnvart X, kt. [...], þar sem hún hafi verið stödd í Kvennaathvarfinu í Reykjavík. Í beiðninni hafi A farið fram á að X yrði bannað að nálgast Kvennaathvarfið í Reykjavík, jafnframt að honum yrði bannað að veita henni eftirför, heimsækja hana eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti, þ. á m. með tölvu- og símasamskiptum.

                A og X hafi verið í sambúð og haldið heimili að [...], [...], og eigi þau tvö börn saman. Þann 10. mars sl. hafi starfsmaður Kvennaathvarfsins hringt í lögreglu (mál nr. 008-2016-[...]) og tilkynnt að A hafi komið þann dag í athvarfið eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi maka á heimili sínu í [...], jafnframt að ofbeldið hafi staðið yfir í langan tíma og verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt. Þá hafi hann einnig beitt 6 ára son þeirra líkamlegu ofbeldi. Í málaskrá lögreglu sé bókað að lögregla hafi rætt við A sem hafi þá ekki viljað gefa skýrslu af ótta við sambýlismann sinn. Þá hafi hún óttast um öryggi barna sinna sem væru hjá föður sínum. Sé einnig bókað að lögregla hafi rætt við X sem hafi neitað því að hafa beitt A ofbeldi, en kannist við að hafa vísað henni á dyr.

                Þann 13. mars sl. sé bókað í málaskrá lögreglu að starfsmaður Kvennaathvarfsins hafi hringt í lögreglu og greint frá því að X hafi sent A myndband og upplýsingar þess efnis að hann ætli sér í sjóinn í [...]. Lögregla hafi í kjölfarið kannað með hann og börnin á heimilinu, 4 og 6 ára, en ekkert hafi amað að þeim (mál nr. 008-2016-[...]).

                Þann 16. mars sl. sé bókað í málaskrá að áhættumatsteymi lögreglustjórans á [...] hafi komið saman til að fara yfir málefni A með hliðsjón af ósk hennar um neyðarhnapp, og ákveðið hafi verið að verða við ósk hennar. Með atbeina lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi A fengið neyðarhnapp frá Securitas. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á [...] hafi helstu áhættuþættir samkvæmt framangreindu mati verið að henni bærust hótanir og fötlun A, þ.e. heyrnaleysi, hún gæti því ekki kallað eftir aðstoð símleiðis, og langur og alvarlegur ofbeldisferill sem þó hafi ekki verið kærður til lögreglu.

                A hafi gefið skýrslu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 21. mars sl. Hafi hún kært X fyrir ítrekuð ofbeldis- og kynferðisbrot allt aftur til ársins 2007 eða 2008 (mál nr. 008-2016-[...]). Hafi hún m.a. nefnt eftirfarandi tilvik:

  • Nauðgun árið 2007 eða 2008. Samkvæmt framburði hennar hafi þau búið í [...] í [...] umrætt sinn. Hafi X á þeim tíma mikið farið á „barinn“ og vakið hana á næturnar og krafið hana um kynlíf. Hún hafi oft neitað. Eitt kvöldið hafi hann komið heim blindfullur og viljað kynlíf en hún neitað. Hafi hann þá kýlt hana í andlitið og í framhaldinu þvingað hana til kynmaka, troðið getnaðarlim sínum í endaþarm hennar þrátt fyrir að hann hafi vitað að slík mök væru henni á móti skapi og svo nauðgað henni í leggöng. Kveðst hún hafa verið hrædd allan tímann og hágrátið. Næsta dag hafi hann borið fyrir sig minnisleysi en verið í sjokki því hún var bólgin þar sem hann hafi kýlt hana. Hafi hún ekki sagt neinum frá þessu fyrr en árið 2012, en þá hafi hún sagt móður hans frá því að hann hafi nauðgað henni umrætt sinn. Þá kvaðst hún nýlega hafa sagt móður sinni frá þessu.
  • Nauðgun árið 2008 eða 2009. A hafi lýst því í skýrslutökunni að X hafi viljað stunda „threesom“ kynlíf og viljað fá tiltekinn mann til að koma og fullnægja henni kynferðislega. Hún hafi ávallt sagt nei. Einn daginn hafi hann hótað henni því að hann myndi taka íbúðina af henni og henda henni út, hún hefði þá engan stað til að búa á. Hafi hún þá látið undan og sagt að þau skyldu þá gera þetta. Hafi X komið með mann á heimilið og þau þrjú lagst upp í rúm. Þar hafi maðurinn farið með fingur í kynfæri hennar og reynt að fróa henni. Hafi hún ítrekað þóst þurfa að pissa því henni leið svo illa. Hún hafi á endanum gert sér upp fullnægingu til að losna undan þessu. Hafi hún grenjað sig í svefn á eftir. Kvað hún X hafa greitt manninum, sem hana minnti að hét [...], 12.000 krónur fyrir. Kveðst hún nýlega hafa sagt móður sinni frá þessu.
  • Ofbeldi og eignaspjöll. A hafi lýst því að á árunum áður en börnin hafi fæðst hafi sambandið verið mjög stormasamt. X hafi í eitt skipti reynt að taka trúlofunarhringinn af henni og þegar hún hafi reynt að koma í veg fyrir það hafi hann farið að slást við hana. Hafi liðið yfir hana og hún fallið á borð og fengið risastóran marblett á höndina. Er hún hafi rankað við sér hafi hún séð hvar X var búinn að safna fötum hennar saman og byrjaður að kveikja í þeim. Kveðst hún hafa farið úr íbúðinni og í 10-11 verslun þar skammt frá, rætt við starfsmann þar og beðið hann um að hringja á lögreglu. Er lögreglan hafi komið hafi hún greint lögreglumönnunum frá því sem hafi gerst og hafi svo beðið þá um að aka sér heim til foreldra sinna sem þeir gerðu. Hafi foreldrar hennar báðir séð áverkann og verið í sjokki. Bókun sé til um málið í málaskrá lögreglu (mál nr. 007-2008-[...]).

Líkamsárás þann 14. maí 2011. A hafi lýst því að X hafi reiðst henni tilgreint sinn og kastað blómapotti í höfuð hennar. Hafi potturinn, sem við þetta hafi brotnað, lent á kinnbeini hennar. Hafi X í kjölfarið brotið spegil er hann hafi svipt upp hurð í svefnherbergi þeirra þar sem hún hafði farið í kjölfar árásarinnar og þar hafi hann aftur kýlt hana í andlitið og skipað henni að tína upp spegilbrotin. Daginn eftir hafi hún leitað á slysadeild því hún hafi ekki getað opnað munninn. Í gögnum málsins liggi fyrir læknisvottorð sem samrýmist frásögn A, en samkvæmt því hafi hún verið með 4 cm mar vinstra megin rétt neðan við gagnaugað aftan til á kinnbeini og mar ofan við vinstra eyra. Sé tekið fram að áverkar samræmist frásögn hennar.

Ofbeldi gagnvart börnum. A hafi lýst því í skýrslutökunni að X hafi beitt börn þeirra ofbeldi. Hafi það m.a. gerst í desember 2014 og aftur 9. mars sl. Framburður sonar þeirra í Barnahúsi, 10. maí, sem og ljósmyndir og læknisvottorð, styðji að X hafi sparkað í barnið þann 9. mars sl.

Eignaspjöll á heimili þeirra í [...]. A hafi lýst því líka að X hafi ítrekað unnið spellvirki á heimili þeirra, hent til húsgögnum, gert gat á þvottahúshurð, skemmt ísskápinn. Hafi hún tekið myndir af sumu. Þá hafi hann brotist í síma hennar og eytt þaðan út gögnum.

Ólögmæt nauðung þann 10. mars sl. A hafi lýst því að þá hafi X hent hlutum niður af borðum og af skenk, sagt að það væri henni að kenna að hann gerði svona lagað, hent fötum hennar fram í forstofu og skipað henni að drulla sér út. Hafi hann sagst ætla að sækja börnin og hótað henni því að ef hún væri ekki farin þegar hann kæmi aftur þá myndi hann henda henni út. Hafi hún í ofboði safnað saman fötum og hlutum og komið sér út meðan hann fór og sótti börnin. Hafi hún verið mjög hrædd og leitað til stjúpföður X, B, og móður hans, C. C hafi ráðlagt henni að leita til Kvennaathvarfsins sem hún gerði.

                Þann 6. maí sl. hafi lögregla farið í Kvennaathvarfið og tekið skýrslu af A þar. Hafi hún lýst því að frá því að hún hafi síðast gefið skýrslu hafi X ítrekað raskað friði hennar og brotið gegn börnum hennar að henni ásjáandi og móður. Hafi hún óskað eftir því að fara fram á nálgunarbann gagnvart X, en hafi ekki fyllt út beiðni þar um fyrr en þann 10. maí, en þá hafi lögregla farið með þar til gert eyðublað fyrir hana. Tilvikin séu sem hér greinir:

A hafi lýst því að þann 27. mars sl. hafi hún verið í Húsdýragarðinum ásamt börnum sínum og móður þegar X hafi skyndilega komið þar að, gripið börnin eins og hvolpa, hlaupið í burtu með þau og í bifreið bróður hans. Móðir hennar hafi reynt að ná börnunum af honum, en hún hafi ýtt á neyðarhnappinn (mál nr. 007-2016-[...]). Hafi hún lýst því að forsjá barnanna væri sameiginleg en enginn samningur væri kominn á um umgengni.

·         Þá hafi hún lýst því að X hafi sent henni mikið af ljótum smáskilaboðum (SMS). Ekki sé þó um hótanir að ræða. Hafi hann hætt að senda henni þessi skilaboð þann 19. apríl sl.

·         Þann 10. apríl sl. hafi X birst fyrir utan heimili móður hennar að [...], en hann hafi komið akandi í bifreið sinni ásamt móður sinni. Hafi hann skrúfað niður rúðuna og sagt á táknmáli „ég drep þig“ og bent á móður A.

·         Þá hafi A lýst því að X viti að hún sé í Kvennaathvarfinu því hann hafi birst þar þann 11. apríl sl. Hafi hún fengið áfall, en hann hafi útskýrt veru sína þarna fyrir starfsmanni Kvennaathvarfsins á þá leið að hann væri að koma með poka til A.

·         Þann 18. apríl sl. hafi hún átt pantaðan tíma hjá barnalækni vegna dóttur sinnar. Er hún hafi mætt í Domus Medica, Egilsgötu 3, Reykjavík, hafi X verið á biðstofunni. Hafi hann tjáð henni að hann hafi afbókað tíma hjá lækninum og þau ættu að fara niður. Hún hafi athugað með tímann og í ljós hafi komið að barnið átti enn pantaðan tíma. Eftir tímann hafi hún ýtt á neyðarhnappinn en langur tími hafi liðið þar til lögregla hafi komið og hafi hún því sest niður með honum og þau ræðst við. Hafi henni fundist eins og hann hafi ætlað að taka barnið af henni. Loks hafi lögreglan komið.

                Í skýrslutökunum báðum hafi A lýst því að hún óttist mjög X. Í skýrslutökunni í gær hafi hún lýst því að hún sé mjög óörugg að fara út úr húsi, þ.e. Kvennaathvarfinu, eftir það sem á undan sé gengið. Þá komi fram í gögnum málsins að X hafi átt við andleg veikindi að stríða. Í gögnum málsins komi einnig fram að neyðarhnappurinn hafi ekki virkað sem skyldi.

                Samkvæmt vottorði Kvennaathvarfsins, dags. 6. maí 2016, hafi A komið í dvöl þangað þann 10. mars sl. Komi fram að þrátt fyrir að hún fyndi fyrir miklum létti yfir því að vera komin í athvarfið þá þyrði hún ekki út með börnin því sökum heyrnarskerðingar sinnar geti hún ekki hringt á hjálp. Þá komi fram að A hafi leitað aðstoðar á geðdeild Landspítalans sökum áfallsins sem hún hafi fengið er X hafi tekið af henni börnin í Húsdýragarðinum. Hafi hún átt erfitt með svefn og haft miklar áhyggjur. Þá hafi hún orðið mjög hrædd þegar X hafi birst á lóð Kvennaathvarfsins, enda nálægðin við manninn sem hún hafi verið að flýja orðin mikil.

                Af öllu framangreindu telji lögregla ljóst að A stafi ógn af X og að hún hafi nú nýverið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hans hálfu. Þá hafi hún þurft að yfirgefa heimili sitt vegna háttsemi hans og dvalið í Kvennaathvarfinu þar sem hún þori vart út úr húsi af ótta við hann, en gögn málsins sýni að hann hafi birst á hinum óvæntustu stöðum og raskað friði hennar. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið gegn A kynferðislega, ráðist á hana með sérstaklega hættulegri aðferð, beitt hana ólögmætri nauðung er hann hafi hótað henni ofbeldi ef hún yfirgæfi ekki heimili sitt og hún hafi orðið fyrir stórfelldum ærumeiðingum þegar hann hrifsaði börnin af henni á almannafæri. Þá liggi fyrir rökstuddur grunur um barnaverndarlagabrot gagnvart börnunum auk þess sem hann hafi að hennar sögn raskað friði hennar ítrekað. Lögregla telji að hætta sé á að hann haldi þeirri háttsemi áfram njóti hann fulls athafnafrelsis. talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

                Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að staðfest verði ákvörðun hans frá 11. maí sl. þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað A, kt. [...], nú í Kvennaathvarfinu í Reykjavík, og lögheimili hennar að [...], [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, þ. á m. með tölvu- og símasamskiptum.

          Heimild er til að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á því að viðkomandi brjóti þannig gegn brotaþola, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þessu úrræði verður þó aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2011, og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að brotaþoli dvelji í Kvennaathvarfinu í Reykjavík og hún hafi komið þangað 10. mars sl. vegna andlegs, líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu varnaraðila. Þann 21. mars sl. lagði brotaþoli fram kæru á hendur varnaraðila fyri ítrekuð ofbeldis- og kynferðisbrot allt til ársins 2007. Þá kemur fram að lögregla hafi tekið skýrslu af brotaþola í Kvennaathvarfi þann 6. maí sl. og þá hafi hún lýst því að varnaraðili hafi ítrekað frá því að hún gaf skýrslu síðast raskað friði hennar og brotið gegn henni að börnum hennar og móður ásjáandi. Í greinargerð eru rakin tilvik þar sem varnaraðili hafi raskað friði brotaþola. Brotaþoli óttast varnaraðila mjög og er óörugg að fara út úr húsi. Í þessu sambandi skiptir máli fötlun brotaþola sem gerð er grein fyrir í greinargerð lögreglustjóra.

Það er mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fyrir liggi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn brotaþola kynferðislega, ráðist á hana með sérstaklega hættulegri aðferð, beitt hana ólögmætri nauðung og hótað henni ofbeldi, brotið gegn börnum hennar og ítrekað raskað friði hennar. Því er fallist á að hætta sé á að varnaraðili haldi áfram þeirri háttsemi sinni njóti hann fulls athafnafrelsis.

Með vísan til gagna málsins og þess sem rakið hefur verið verður að telja að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola og skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 sé fullnægt. Verjandi vísar til þess að lögreglustjóri hafi ekki borið beitingu nálgunarbanns undir héraðsdóm til staðfestingar innan þriggja sólahringa. Athugun dómara hefur leitt í ljós að krafa um staðfestingu héraðsdóms á ákvörðun lögreglustjóra hafi borist héraðsdómi með boðsendingu föstudaginn 13. maí sl. og þannig innan tilskilins frest skv. 12. gr. l. nr. 85/2011.

              Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið þykir við svo búið ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með því að banna varnaraðila að nálgast hana. Telja verður að þess hafi verið gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til þar sem nálgunarbanni er markaður tími í sex mánuði. Því ber að fallast kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans frá 11. maí 2016  um nálgunarbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola greiðist úr ríkissjóði eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. maí 2016, sem birt var sama dag, þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað A, kt. [...], nú í Kvennaathvarfinu í Reykjavík, og lögheimili hennar að [...], [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, þ. á m. með tölvu- og símasamskiptum.

Þóknun verjanda varnaraðila, Jónasar Þórs Jónassonar hrl., og Sigrúnar Jóhannsdóttur hdl., réttargæslumanna brotaþola, 170.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.