Hæstiréttur íslands

Mál nr. 421/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                     

Þriðjudaginn 7. júlí 2015.

Nr. 421/2015.

Ósk ehf.

(Einar Þórarinn Magnússon fyrirsvarsmaður)

gegn

Björg Seafood ehf.

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem Ó ehf. var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem félagið höfðaði á hendur B ehf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 22. júní 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2015 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krafðist ekki málskostnaðar í þessum þætti málsins í héraði og kemst sú krafa því ekki að fyrir Hæstarétti. Þá hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur því heldur ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að þriggja vikna frestur sóknaraðila, Óskar ehf., til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar hefst við uppsögu þessa dóms.

Sóknaraðili, Ósk ehf., greiði varnaraðila, Björg Seafood ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2015.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar mánudaginn 8. júní sl., er höfðað af Ósk ehf., Óðinsvöllum 6, Reykjanesbæ, á hendur Björg Seafood hf., Hafnarstræti 92, Akureyri.

                Í málinu gerir stefnandi aðallega þær kröfur að staðfest verði riftun á kaupsamningi á milli stefnanda og stefnda, um hlutafé í Serín ehf., dagsettum 23. ágúst 2013, sem lýst var yfir í bréfi til stefnda 2. janúar 2015. Jafnframt að stefndi greiði stefnanda samtals 74.793.617 krónur, auk dráttarvaxta frá 23. ágúst 2015. Til vara eru sömu kröfur hafðar uppi, en upphafsdagur dráttarvaxta miðist við 2. febrúar 2015. Til þrautavara er þess krafist að kaupsamningurinn verði ógiltur með dómi, að kaupsamningurinn verði talinn óskuldbindandi fyrir stefnanda og að stefndi greiði stefnanda 74.793.617 krónur auk dráttarvaxta frá 23. ágúst 2013. Til þrautaþrautavara eru hafðar uppi sömu kröfur, en dráttarvextir miðist við 2. febrúar 2015. Til þrautaþrautaþrautavara er þess krafist að að kaupsamningurinn verði ógiltur með dómi, að kaupsamningurinn verði talinn óskuldbindandi fyrir stefnanda og að stefndi greiði stefnanda 66.293.617 krónur auk dráttarvaxta frá 2. febrúar 2015. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.

                Málið var þingfest 14. apríl sl. Í þinghaldi 8. júní sl. lagði stefndi fram kröfu um að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu, með vísan til 133. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Stefnandi mótmælir kröfunni.

                Til stuðnings kröfu um málskostnaðartryggingu vísar stefndi til endurrits úr gerðarbók sýslumannsins á Suðurnesjum frá 20. maí sl. Í kjölfar þingfestingar málsins og framlagningar greinargerðar hafi að kröfu stefnda farið fram árangurslaust fjárnám hjá stefnanda. Hafi stefnda þá fyrst verið ljóst að telja mætti stefnanda ógreiðslufæran, sbr. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

                Stefnandi byggir á því að krafa stefnda sé of seint fram komin, en hana hefði átt að hafa uppi við þingfestingu málsins, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Þá telur stefnandi að ef orðið yrði við kröfu stefnda myndi það fela í sér slíka takmörkun á þeim grundvallarréttindum stefnanda að geta leitað úrlausnar dómstóla um kröfu sína að færi í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 340/2015, máli sínu til stuðnings.

Niðurstaða

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga um meðferð einkamála segir að ef tilefni komi fyrst fram til kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu megi ekki telja orð 1. mgr. 133. gr. útiloka að hún verði tekin til greina. Stefndi reisir kröfu sína á aðfarargerð, sem fór fram eftir að málið var þingfest. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að krafan sé of seint fram komin.

Í málinu liggur fyrir endurrit úr gerðarbók sýslumannsins á Suðurnesjum þar sem kemur fram að 20. maí sl. hafi verið tekin fyrir beiðni stefnda um fjárnám hjá stefnanda fyrir kröfu að fjárhæð 77.567.225 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Kemur fram að af hálfu stefnanda hafi kröfunni verið mótmælt og hafi stefnandi ekki orðið við áskorun um að greiða hana. Að beiðni gerðarbeiðanda hafi fjárnámi verið lokið án árangurs. Með vísan til framangreinds hefur stefnanda ekki tekist að hnekkja fram komnum líkum á því að hann sé ófær um að greiða málskostnað, verði sá kostnaður felldur á hann í málinu, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2015. Þá verður ekki talið að krafa stefnanda sé þess eðlis að fari í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, þótt honum verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, verður fallist á kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu, sem þykir hæfilega ákveðin 750.000 krónur. Ber sóknaraðila að setja hana á þann hátt og innan þess frests sem í úrskurðarorði greinir.

                Ekki er krafist málskostnaðar í málinu.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Stefnanda, Ósk ehf., er skylt að setja tryggingu í formi peninga eða bankaábyrgðar innan þriggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar, að fjárhæð 750.000 krónur til stefnda, Bjargar Seafood ehf., fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þessu.