Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-370
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Börn
- Fyrning sakar
- Sönnunarmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 5. desember 2019 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. nóvember sama ár í málinu nr. 562/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar með því að hafa ítrekað haft við hana önnur kynferðismök en samræði. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í fjögur ár og honum gert að greiða brotaþola miskabætur.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann meðal annars á því að Landsréttur hafi í dómi sínum beitt aðferðum við sönnunarmat sem ekki eigi sér stoð í réttarframkvæmd eða viðurkenndum reglum sakamálaréttarfars. Vísar leyfisbeiðandi til dóma Hæstaréttar um að framburður brotaþola nægi ekki til refsiáfalls gegn neitun sakaðs manns, eigi framburðurinn sér ekki stoð í skýrslum annarra vitna eða hlutrænum sönnunargögnum. Þá telur leyfisbeiðandi að í dóminum sé fyrst dregin saman röng heildarmynd af framburði í málinu og á grundvelli hennar ályktað að framburður leyfisbeiðanda sé ótrúverðugur. Einnig telur leyfisbeiðandi að úrslausn Landsréttar um fyrningu sakar sé röng og að hin meintu brot hafi verið fyrnd þegar ákæran var birt 3. desember 2017. Að lokum vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mjög mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og nafngreindra vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.