Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-215
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Sönnunarmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. október 2018 sem barst Hæstarétti 7. nóvember sama ár leitar Eldin Skoko eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. september 2018 í máli nr. 151/2018: Ákæruvaldið gegn Eldin Skoko, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á beiðnina.
Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfestur dómur Héraðsdóms Vesturlands 12. janúar 2018, þar sem leyfisbeiðandi var sakfelldur fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft önnur kynferðismök við brotaþola gegn vilja hennar. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þá var honum gert að greiða brotaþola 1.500.000 krónur í miskabætur. Telur leyfisbeiðandi að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Þannig hafi verulega skort á umfjöllun Landsréttar um varnir leyfisbeiðanda og dómurinn uppfylli því ekki skilyrði 183. gr. sömu laga, en leyfisbeiðandi ætlar að það hafi verulega almenna þýðingu að rétt sé staðið að samningu dóma. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að helsta vörn sín í málinu hafi enga efnismeðferð fengið, hvorki í héraðsdómi né Landsrétti. Hann telji að um sé að ræða atriði sem mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.